Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:
„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.
Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.
Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.
Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?
Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Hvert fóruð þið með sláturfé?
Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.
Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.
Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.
Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.
Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Ég hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.
En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.
Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?
Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.
Hvað bjó hún þarna lengi?
Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.
Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.
Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.
Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Nei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.
Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.
Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.
Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.
Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.
Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?
Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.
Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.
En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.
Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.
Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.
Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Já, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.
Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.
Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.“ -M.F.
Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.