Tag Archive for: Stakkavík

Eggert Kristmundsson

Matthías Eggertsson tók eftirfarandi viðtal við Ekkert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum er birtist í Frey árið 1994:

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum.

„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðurnesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak
stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin.

Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunaut Bsb. Kjalanesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þú fœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 börn og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.

Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?

Stakkavík

Stakkavík – loftmynd.

Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði. Þannig var þetta upp á hvern dag á veturna þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsynningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuærnar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
Efri-Brunnastaðir

Hvert fóruð þið með sláturfé?

Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á veturna þá gat maður farið þetta á sex tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þarna sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að labba þarna, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þarna um.

Stakkavík

Stakkavík – Stakkavíkurborg.

Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar. Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturnáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb.
Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason, yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílarnir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður. Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni. En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Stakkavík

Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu. Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt upp í þriggja tíma lestaferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindaskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.

Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, Myndin er tekin árið 1968. gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.

Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Hlín JohnsonÉg hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það. Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja um 80 hesta.

En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þarna í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjörn. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.

Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík og Stakkavík – kort.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á næturnar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.

Hvað bjó hún þarna lengi?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvík, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.

Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Árnessýslu þarna, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur börnin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.

Hvernig var byggð hérna þegar þið flytjið hingað árið 1943?
Það var búið á hverri jörð eða grasbýli hér á Vatnsleysuströndinni, en í Vogunum var lítið þéttbýli farið að myndast. Það var róið frá hverjum bæ á trillum alveg inn að Vatnsleysu. Þær voru aldrei teknar á land alla vertíðina en þetta voru allt upp í fimm tonna trillur. Bændur keyptu grimmt trillur úr Grindavík, þegar flotinn var stækkaður þar. Þessi útgerð gekk vel, það varð aldrei skipsskaði hér eftir að við fluttum hingað. Menn söltuðu allan fiskinn sjálfir og þurrkuðu og seldu hann síðan kaupmönnum.

Tókuð þið svo upp þráðinn með fjárbúskapinn hér á Brunnastöðum?
Efri-BrunnastaðirNei, ekki nema að litlu leyti. Við keyptum hér 50 kindur af manni en um haustið voru 17 af þeim skornar vegna mæðiveiki. Maður fór bara að stunda sjó, ég fór hérna á trillu strax, héðan frá Halakoti á Ströndinni og síðan fór ég á Gulltopp, 20 tonna bát sem Þórður Jónasson bóndi og útvegsmaður gerði út ásamt sonum sínum, Sæmundi sem var skipstjóri og Jónasi. Þórður rak bú að Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur var landskunnur aflakóngur og var alltaf með hæstu bátum. Með Sæmundi reri ég tvær vertíðar úr Vogum og í eina vertíð á Haferninum sem þótti geysilega stórt og fullkomið skip, 250 tonn. Það var gert út frá Hafnarfirði og var í eigu Jóns Gunnarssonar.
Eg var svo 23 vertíðir með Guðmundi Ágústssyni á vélbátnum Ágústi, sem var um 55 tonn og síðar á öðrum báti með sama nafni, yfir 90 tonna. Guðmundur er albesti maður sem ég hef verið með. Svo var ég í vinnu í Hafnarfirði og fór heim um helgar og sló, allt með orfi og ljá, því að við vorum alltaf með búskap með. Seinna keypti ég traktor með Símoni á Neðri-Brunnastöðum og hann plægði hér upp öll túnin, því að þau voru ekki véltæk og hann sló töluvert fyrir mig eftir það.

Hvaða vinnu stundaðir þú í Hafnarfirði?
Ég var þar í byggingarvinnu á sumrin og svo beitti ég þar tvær vertíðir á báti, á þeim árum fiskaðist mikið hérna, bátarnir komu leikandi með þetta 600 tonn yfir vertíðina, sem stóð svona í þrjá mánuði.

Hvar var fiskur af bátunum hérna á Vatnsleysuströndinni lagður upp?
Allur inni í Vogum en þar ráku Halakotsbræður fiskverkun sem heitir Valdimar hf. Þeir reka það fyrirtæki enn af miklum myndarskap. Hafnaraðstaðan hafði batnað með árunum og var sæmileg þegar ég var á Ágústi. En það kom fyrir að við þurftum að flýja í vonskuveðrum til Njarðvíkur. Þar var góð aðstaða í landshöfninni.
Á Gulltoppi notuðum við tímann á stíminu í land til að byrja að fleygja fiskinum úr lestinni upp á dekk. Síðan var landað með háfnum sem hékk í bómu í mastrinu. Bryggjan var svo lítil að það komst ekki nema einn bátur að í einu. Jón Gunnarsson fiskverkandi í Hafnarfirði keypti fiskinn af okkur og honum var ekið þangað á bílum. Fiskurinn var keyrður inn eftir á næturnar af Jónasi Þórðarsyni og svo var farið á róður strax kl. 5 um morguninn. Hann svaf oft ekki nema þetta tvo tíma. Fiskurinn af Ágústi var hins vegar verkaður hér.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Þú hefur þá verið öllu meira á sjónum heldur en í búskapnum, eftir að þú kemst á fullorðinsár?
Já, ég var um 30 ár á sjó, var á haustvertíð frá því í ágúst og fram til jóla og svo vetrarvertíð frá því í endaðan janúar og fram á vor.

Hvað voruð þið með flest fé eftir að þið komuð hingað?
Það komst upp í 530 síðast áður en því fór að fækka á síðasta áratug. Við heyjuðum úti um allt, úti í Vogum og hér inn um alla Strönd. Féð gekk svo hérna uppi í afrétti, það er óhemju land hérna. Eftir að aðrir voru hættir með fé þá leitaði okkar fé enn lengra.

Hvað er lengi verið að smala þetta á haustin?

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Við smöluðum venjulega þrjár smalamennskur hérna uppi í Hálsum og niður í Grindavík. Við ókum upp á Höskuldarvelli og upp í Dyngju og smöluðum þaðan niður í Grindavík, það var níu tíma leit. Þeir voru á hestum milli Hálsa en ekki eftir Hálsunum, við héðan vorum alltaf gangandi.

Það hefur verið talað um að þetta land sé illa gróið, hvernig var féð á sig komið úr þessum afrétti?
Illa gróið, þetta er orðið gjörbreytt frá því sem var þegar ég man fyrst eftir mér, það sér ekki á högum, grasið er í legum. Það er ekki til ofbeit á öllu þessu flæmi. Það er auðvitað margt af þessu sem verður aldrei haglendi, hvort sem það er friðað eða ekki. Það er búið að friða hérna innan girðingar sem girðir af Reykjanesið hérna að sunnanverðu alla leið yfir í Grindavík. Það grær náttúrlega upp þar sem gras er og svo verður það bara sina og hún fer svo illa með jörðina, annað hvort verður að brenna hana eða beita hana í hófi.

En er fok úr þessu landi?
Það eru auðvitað til hér á svæðinu moldarflög sem getur fokið úr í þurrkum, en það er enginn uppblástur til hérna. Það er verið að tala um þetta á Krýsuvíkurheiðinni, en þetta eru einhver gömul rofabörð sem Ómar Ragnarsson, fréttamaður, er að leita að.

Efri-Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir (h.m.) – flugmynd.

Nú hefur verið lagt kapp á það af hálfu hins opinbera að friða Reykjanesskagann og það hefur verið gert í því augnamiði að bœta þar gróðurinn.
Þeir bæta hann ekkert, nema þeir aki mold á klappirnar og sái svo í. Og ef þeir ætla að fara að rækta skóg hérna þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar. í geilunum milli klappanna sprettur alltaf, því að þar er djúpur jarðvegur. Það er bara svo mikið af þessu klappir og apalhraun, allt hraunið sem liggur hérna frá Stapanum og suður í Grindavík, það grær aldrei hvort sem það er girt eða ógirt og það er aldrei nein skepna á þessu.

Er ekki víða djúpt á vatn hérna?
Það er nóg vatn í afréttinum, uppi á Höskuldarvöllum og þar í kring, þar eru lækir. Og í Snorrastaðartjörnum, beint upp af Stapaholtinu, þar er nóg vatn. Aftur þar sem gjár eru í hrauninu, þá er djúpt niður á vatn. Ef þú hendir steini þar þá heyrir þú þytinn lengi áður en hann lendir í vatni, en það er líka vatn neðst í þeim öllum. Rétt fyrir ofan Íslandslax, vestan við Grindavík, er t.d. gjá með beljandi vatni í. Það sést líka hér niður við sjó á stórstraumsfjöru að það rennur þar óhemju vatn til sjávar á köflum. Þetta er kallað fjöruvatn og er ósalt.

Þið ákveðið svo að stórfœkka fénu.
Eggert KristmundssonJá, við erum að fullorðnast og svo er ekki góð aðstaða að vera með fé hérna. Þetta eru erfiðar smalamennskur, en það er vænt fé hérna núorðið, en áður var féð rýrt, því að það var of margt í högum, það skipti þá þúsundum. Og svo voru hrossin líka. Það voru yfir 100 hross hér í hreppnum sem gekk inni í Hálsum og Völlum. Nú eru hér örfá hross. Nú er engin kind á Vatnsleysu og engin í Hvassahrauni. Það er aðallega hérna það sem eftir er á Ströndinni. Hins vegar er dálítið af fé í Grindavík, þó að það sé mikið minna en það var. En þetta eru rosknir menn sem eiga það og eftir 5-7 ár verður ekki nokkur kind hér á Skaganum. Þá verða þeir gömlu hættir og það byrjar enginn ungur maður með kindur hérna. Við megum vera með 70 fjár og erum með það í hólfi hérna og svo eru tveir aðrir fjáreigendur hérna með þetta 15 til 20 kindur hvor.

Þið eruð þá sátt við að búskapur sé að leggjast af hér um slóðir?
Það er náttúrulega sjálfgert þegar menn eru hættir að geta smalað og það eru engir nýir menn sem taka við. Svo er annað hitt að það er litið óvinsamlega á það að vera með landbúnað hérna. Hins vegar höfum við stundað dálítið kartöflurækt, en hún gengur misjafnlega, eftir árferði. Svo vorum við á tímabili með svínarækt. Það gekk nokkuð vel en við vorum ekki með nógu góða aðstöðu fyrir svínin.
Ef þeir œtla að fara að rœkta skóg þá verða þeir að nota loftpressu til að bora ofan í klappirnar.

Hvaða búskapur er annars stundaður í Vatnsleysustrandarhreppi?
Það er náttúrulega Nesbúið, sem er eitt stærsta hænsnabú á landinu. Það eru dugnaðarmenn sem reka það. Svo er Þorvaldur í Síld og fisk aðalmaðurinn, með langstærsta svínabú hér á landi, hann hefur oft verið stærsti skattgreiðandi á Íslandi og er líklega bara stoltur af því. Svo er hér eitt loðdýrabú sem Jakob Árnason á og rekur. Fyrir nokkrum árum var farið í gang með fiskeldi hérna, Vogalax, en það varð gjaldþrota.“ -M.F.

Heimild:
-Freyr, 01.08.1994, Matthías Eggertsson – Viðtal við Eggert Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, bls. 512-517.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavík

Eggert Kristmundsson er fæddur 17. febrúar 1919.
Þann 28. febrúar s.l. (2009) var farið í fylgd hans í Herdísarvík og í Stakkavík með viðkomu í Breiðabás. Eggert var þá nýorðinn 85 ára, en ótrúlega hress eftir aldri. Í ferðinni lýsti Eggert staðháttum og sagði sögur af fólki og atburðum. Tækifærið var notað og Stakkavíkursvæðið rissað upp eftir lýsingu Eggerts. Þar lýsti hann m.a. Gálgaklettum, Álfakirkjunni, smalabyrgjum, hlöðnum kálgarðsveggjum, íbúðarhúsinu, staðsetningu gamla bæjarins, sem nú er á hólma út í Hlíðarvatni, sýn á huldufólk og fleiru, sem fyrir augu bar. Eftirfarandi frásögn er skráð eftir honum í ferðinni:

Eggert

Eggert Kristmundsson.

Eggert fæddist í Stakkavík og er því manna fróðastur núlifandi manna um svæðið. Hann fluttist þaðan árið 1943 að Efri-Brunnastöðum í Vatnsleysustrandahreppi.
Á leiðinni gat Eggert þess í innskoti að hann hafði heyrt að sá sem hlóð Staðarborgina ofan við Kálfatjörn hafi fengið einn tóbaksbita fyrir verkið. Bitinn kostaði þá 2 krónur.
Eggert lærði að lesa hjá Önnu, dóttur Ólafs Þorvaldssonar í gamla bænum í Herdísarvík. Hann sagði Ólaf hafa verið mjög skemmtilegan mann, sem sagði mjög vel frá og las afburða vel upp úr bókum. Eggert var í skóla í Selvogi í einn vetur en svo kom kennari annað slagið heim í Stakkavík. Hann var fermdur í Strandakirkju.
Eggert var um 10 ára þegar hann villtist í Breiðabáshelli, en þangað var förinni m.a. heitið. FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað opsins, en sjávarkamburinn hefur nú hulið með öllu.
Eggerts minntist ummæla útgerðarmanns í Selvogi varðandi föður þeirra: “Þótt ég þyrfti að bera Kristmund út í bátinn þá verður hann minn háseti”. Kristmundur þótti mjög fiskinn. Hann var líka var mikill söngmaður. Það var Guðni í Þorkelsgerði einnig.
Eggert minntist þess að Gísli Scheving, móðurbróðir Eggerts, hafi komið um Stakkavíkurveg með grammafón á bakinu frá Hafnarfirði árið 1925 ásamt 30 sauðum. Grammófónninn þótti mikið undur.

Eggert

Eggert.

Á leiðinni austur sagði Eggert frá för hans og Gísla bróður hans ásamt 12 ára strák úr Hafnarfirði og föður þeirra með fé frá Krýsuvík áleiðis til Hafnarfjarðar. Þetta var sennilega árið 1935. Þeir hefðu farið frá Stóra-Nýjabæ í góðu veðri, en þegar þeir fóru um Ketilsstíg á Hálsinum versnaði veðrið til muna. Þeir komu þó fénu yfir, en urðu að berjast með það, 35 sauði og 15 lömb í veðrin og villtust. Þeir römbuðu á för sín aftur yfir Ketilstíginn og röktu hann til baka. Þá náði snjórinn í kvið á hestunum. Þeir hörfðu verið 17 tíma í förinni, kaldir og hraktir. Þeir gistu í Stóra-Nýjabæ á leiðinni til baka, voru þar um nóttina.

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Morguninn eftir þurftu þeir að fara í blautu fötin aftur því þau höfðu ekki náð að þorna um nóttina. Daginn eftir fóru þeir svo með féð til Hafnarfjarðar.
Guðmundur í Stóra-Nýjabæ, sem þótti skemmtilegur í tilsvörum, var eitt sinn spurður um Guðmund nafna hans Guðmundsson á Hrauni, síðar Skála. Hann svaraði: “Hann hefur það gott, hann sofnaði í 40 ár og leitaði gæfunnar, en nú er hann búinn að finna hana, blessaður”. Guðmundur var þá að dunda við að brugga landa.
Guðmundur fór í útgerð og komst hún fyrir í einni tunnu (net og annað). Fór þá Guðmundur í Nýjabæ heim og náði í 1200 krónur, sem hann lánaði til útgerðarinnar.
Fylgdist með þegar verið var á byggja húsið í Herdísarvík. Það var hvítt á litinn.
Einar Ben. var glæsilegur maður þegar hann kom að Herdísarvík, en hann var eins og vofa undir það síðasta. Margir kunningar hans komu í heimsókn og helltu hann fullan. Reyndar hafði Hlín leyfi til að brugga á þeim tíma.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Krakkarnir voru spenntir fyrir að sjá þjóðskáldið fyrsta sinni og fóru því með nýrekna grásleppu sem tilefni heim í Herdísarvík. Hlín tók á móti þeim og sagði við Einar: Þetta eru börnin hans Kristmundar í Stakkavík. “O, ætli ég þekki ekki hann Kristmund, hann var skrifari hjá mér í Ameríku”, svaraði Einar þá. Einu sinni mætti Einar þeim með hvítan vasaklút og sagði: “Þetta er það eina sem ég á”. Í annað sinn, þegar Hlín hafði látið elta Einar að Fálkageiraskarði þar sem hann var á leið í “sorann í Reykjavík” og færa til baka, varð Einari að orði: “Hér er ég fangi milli tveggja svartra fjallla og sé aðeins upp í himininn”.

Um drápið á Surtlu sagði Eggert: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

“Hlín var einstaklega dugleg og krafðist þess sama af öðrum. Hún var hetja, fögur kona, há og þétt á velli og lagði sig fram við að styðja Einar. Það sem Hlín gerði fyrir Einar hefur verið óþakklátt og henni hefur ekki verið nægilegur sómi sýndur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann”.
Bruggið var í tunnu (tunnum) fyrir utan húsið.
Stundum skiptust þau Hlín og Kristmundur á olíu eftir því hvort átti.
Fólk kom í Herdísarvík, bara til að forvitnast, stundum á rútum. Einu sinni var Hlín sofandi en Eggert í heyskap þegar fjöldi manns kom og óð yfir slægjunna og skoðaði inn í öll hús. Þegar Hlín vaknaði spurði hún fólkið hver hefði boðið því þangað.

Herrdísarvík

Herdísarvík – Hlín og Einar ásamt vinnufólki.

Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.
Hlín fékk fé sitt frá Sigurði á Hlíðarenda en það var ættað úr Borgarfirðinum.

Stakkavík

Íbúðarhúsið í Stakkavík.

Sementið í Stakkavíkurbæinn var flutt með Hermóði frá Eyrabakka út í Selvog og þaðan á hestum heim. Náð var í sand í poka út á Víðisand og möl norður fyrir Hlíðarvatn. Víðisandur (Viðarsandur) var stundum nefndur Púkasandur og þá eftir sögum af galdraprestinum. Allt borið á bakinu upp á bæjarhólinn og voru 17 menn við verkið.
Eggert og fleiri náðu í borðviðinn í Stakkavíkurbæinn til Hafnarfjarðar. “Þetta var djöfullegur flutningur”. Borðin stóðu langt upp af makka hestanna og þetta var alltaf að slitna niður. Borðin styttust um 1. fet við að dragast eftir klöppunum.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Ganga frá Stakkavík að Hrauni í Grindavík tók 7 tíma, 6 tímar yfir fjallið til Hafnarfjarðar, en 10 tíma ef Krýsuvíkurleiðin var farin. Níu tímar voru til Grindavíkur. Þessa leið þurfti Hlín að fara í fyrstu ef hana vantaði mjólk. Stakkavíkurvegur var alltaf notaður nema þegar snjór var kominn á fjallið, þá var farið um Krýsuvík og Ketilsstíg. Notað var orðatiltækið „að fara Skörðin“ þegar farinn var Stakkavíkurvegur og Grindarskörð. Þegar fjölskyldan flutti frá Stakkavík á Höfuðdaginn árið 1943 var t.d. farið Skörðin á fjórum hestum með restina af búslóðinni. Hitt hafði verið flutt á undan.

Á vetrum fór þeir bræður upp Nátthagaskarð með stefnu á Eldborg, fóru sunnan við hana og síðan niður Fagradalsmúla. Þetta var stysta leið til Hafnarfjarðar með rjúpur. Veiddu yfirleitt um 400 rjúpur að hausti og seldu þær til Hafnarfjarðar á 45 aura stykkið.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þegar farið var upp Selstíg var fyrst komið að Grænubrekkum og Selbrekkum, Seltúninu, (austar). Ofan við þær er gamla Stakkavíkurselið, “en það var farið í eyði löngu áður en ég man eftir”. Dýjabrekkur liggja fjærst brúninni, ca. miðja vegu að Ásunum. Þær eru augljósar því í þeim er lítill dalur fullur af dýi.
Hættulegt gat verið að fara yfir ósinn (Vogsósinn). Í útfalli, þegar sjór gekk inn í vatnið, var mikill straumur út úr því.
Var einu sinni að fara yfir ósinn á hesti á vaði (Ingjaldsvaði). Þar er malarbotn, en sandbleyta ef farið er út af vaðinu. Hesturinn lenti í sandbleytunni og lagðist á hliðina. Þessu átti Eggert ekki von á. Hesturinn synti á hliðinni og Eggert hélt sér á honum og þannig bárust þeir niður ósinn. Það verður honum til lífs að ná taki í þaraþöngli og gat hann þannig kraflað sig í land. Hesturinn kom að landi annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Silungurinn úr Herdísarvíkurtjörninni var allt að fimm pund að þyngd og sá besti sem Eggert hefur smakkað.
Man ekki eftir að hafa séð drauga, en eina sýn sá hann 10 ára, sem hann gleymir aldrei. Í hvammi norðvestan við húsið, skammt austan við hrútakofann (sjá uppdrátt) sá hann einu sinni tvo stráka. Gísli var þá með honum. Ekki vissi hann til að aðrir strákar ættu að vera þarna. Þeir voru klæddir í stuttar hnébuxur, með grænar húfur með tíglamynstri og háa reimaða skó. Spjald var aftan á peysunum. Hann kallaði í Gísla og horfði augnablik af þeim, en þegar hann leit til þeirra aftur voru þeir horfnir. Hann hafi alltaf verið sannfærður um að þar hafi huldufólksstrákar verið á ferð. Sá þá aldrei aftur. Betur klæddir en allt sem hann hafði áður séð.

Stakkavík

Í Stakkavík.

Eggert sló eitt sinn álagahól við Suðurkot í Vogum. Hafði verið bannað að slá hólinn. Hafði líka slegið of ofarlega þegar honum var varnað að halda áfram. Í framhaldi af því blindaðist önnur kvígan á Efri-Brunnastöðum og drapst síðan. Vildu menn meina að það hafi orðið vegna þessa atburðar.
Var einu sinni í níu klukkutíma aftur á vörubílspalli á tveggja manna Fordbíl frá Hveragerði að Kolviðarhól. Hann hélt á sér hita með því að moka snjó frá bílnum ásamt bílstjóranum. Þrír aðrir sem voru með á bílnum fóru af og voru þremur tímum á undan að Kolviðarhóli.
Kristmundur keypti bát til að nota á Hlíðarvatni og var hann fluttur með vörubifreið frá Reykjavík og til Vogsósa. Eggert var þá unglingur og var hafður aftur á palli ásamt saltfiski og öðru. Báturinn var með fjórum árum, langur og mjór. Þeir settu í hann “GOJA” vél 1.5. hestöfl. Hann gekk lengi mjög vel. Engar grynningar voru í vatninu, nema þar sem tjarnirnar eru. Yfirleitt um þriggja faðma dýpi í vatninu.

Herdísarvík

Herdísarvík – vegavinna 1948.

Vörðurnar, beggja vegna vegarins skammt vestan Herdísarvíkur, eru þar sem vegavinnumenn með jarðýturnar mættust með vegina að austan og vestan. Í Herdísarvíkurtjörn var besti silungur, sem hann hefur borðað. Hann kom upphaflega úr Hlíðarvatni. Man eftir gamla bænum í Herdísavík. Drakk þar kaffi hjá Ólafi Þorvaldssyni. Skemmtilegasti maður sem hann hafi hitt. Fór mikið á rjúpur og í annan veiðiskap. Ólafur fór nauðugur frá Herdísavík. Garðanir austan bæjar Herdísarvíkur, voru hlaðnir af vermönnum. Þórarinn Árnason, sonur Árna í Krýsuvík, lét vermenn hlaða þá í landlegum. Þeir græddu einnig upp hraunið með slori. Þannig er Gerðið meira og minna grætt upp – með slóginu.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

“Gerðið er illa farið af sjávargangi. Gísli móðurbróðir minn nýtti sér næst austustu sjóbúðina um tíma. 70 hestar heys fengust af Gerðinu. Þórarinn lét líklegast hlaða fjárhúsin; Langsum og Þversum, semþar eru. Húsin tóku um 400 fjár. Þá var fé haldið í Breiðabáshelli (300-400 fjár). Alltaf var ákveðin hræðsla um að sjórinn flæddi inn í hellinn. Skiparéttin var í krikanum þar sem fjárréttin varð síðar (sjá uppdrátt).
Fálkageiraskarð er skammt austan Lyngskjaldar. Einar Júlíusson, vinnumaður, náði nafna sínum, Einari Ben. í skarðinu er hann var á leið í sorann fyrir sunnan. Einar hélt þá fram að hann væri “fangi á milli svartra fjalla”.
Benti á Hulduþúfuhól sunnan vegar austan Herdísarvíkur, hægra megin við gömlu götuna. Saga er tengd honum. Gísli hafði einhverju sinni heyrt söng innan úr hólnum. Eftir það var hann nefndur Hulduhóll.

Stakkavík

Bátahró í Stakkavík.

Þegar ekið er niður í Stakkavík eru fiskgarðar á hægri hönd sem og tveir hlaðnir kálgarðsveggir. Klettur, klofinn er hægra megin við veginn, neðan eystri kálgarðsins. Þar er sem heitir Gálgaklettar. Eggert sagði sögn segja að þar hafi menn verið hengdir fyrrum. Sjá má tóftir gamla bæjarins í austasta hólnum út í vatninu neðan við núverandi bæjarstæði. Eftir að hækkaði í vatninu þurfti að færa bæinn upp á hólinn, sem rústir hans eru nú. Vestan við hann er jarðhús, sem Guðni í Þorkelsgerði byggði, og við hlið þess gamalt fjárhús, sem var notað til að baða fé. Hrútakofi er ofan og utan garðs. Í Austurnesi eru tvö beitarhús. þau tóku 170 og 200 fjár. Eystra húsið var stærra. Rétt er á Réttarnesi og þar, ofan við Botnavík, eru smalabyrgi.

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Eggert sagði að fyrrum hafi verið farið með hesta upp Selskarð. Þegar komið var niður með þá þurfti að setja rófubönd undir stertina og tók þá jafnan í.
Mjög varasamt var að fara norður fyrir vatnið þar sem þar voru miklar skriður. Hægt var að fara með fé og á hestum með því að vera upp í fjallinu, upp undir klettabeltinu.
Kleifarvallaskarð er austan Selstígs, austar er Urðarskarð og þá Hlíðarskarð.
Hlíðareyja fylgdi Stakkavík, austarlega á Hlíðarvatni. Hún var dagslátta.

Eggert keypti fyrst byssu 13 ára í Veiðivöruversluninni í Reykjavík, haglabyssu. Kostaði þá 75 kr. Dró 80 faðma. Mesti kostagripur. Hann hafði farið ásamt bróður sínum í Veiðivöruverslun Reykjavíkur, en fékk ekki afgreiðslu. Gistu þeir hjá Þórði Eyjólfssyni, fyrrum bónda á Vogsósum, sem þá var fullorðinn. Gekk hann við fallegan staf með glerhandfangi.

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Eftir fýluferðina í búðina og mikil vonbrigði fór Þórður með þeim og keypti byssuna. Á heimleiðinni stillti Þórður göngustanum upp á veggi og garða og sýndi drengjunum hvernig ætti að fara að og þeir öpuðu eftir með byssunni. Vegfarendur urðu undrandi og gerðu athugasemdir. Þá sagði Þórður: „Þeir fara sér ekki að voða ef þeir kunna með hana að fara“. Skeptið, sem var mjög fallegt, tapaðist af byssunni þegar Jón Eldon, reyndi að kraka önd að landi sem hann hafði skotið við Herdísarvíkina. Seinna var svo smíðað nýtt skepti.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Sveinn Halldórsson í Bjargi í Selvogi var þúsundþjalasmiður. Hann gerði við m.a. útvarpstæki. Gísli fór með útvarpstæki til viðgerðar hjá Sveini. Þegar hann gékk til baka til Stakkavíkur og var að fara um Víðisand heyrði hann að honum var veitt eftirför. Hann byrjaði að hlaupa og það sem var á eftir honum fylgdi á eftir og skrjáfaði í því eins og skeljum. Hann var alveg skelfingu lostinn og hljóp eins hratt og hann gat. Hann komst undan en allir lamparnir voru brotnir í tækinu eftir hlaupin.

Nes

Nes í Selvogi.

Mikill draugagangur var jafnan í Nesi í Selvogi. Bóndi, sem bjó á undan Guðmundi í Nesi, Þorbjörn Guðmundsson, tók alltaf steina úr gamla kirkjugarðinum þegar hann vantaði byggingarefni. Þetta hefndist honum fyrir, eins og dæmin sanna og sagnir geta um.
Guðmundur í Nesi var best gefni bóndi sem hann þekkti. Hann reisti girðingu sem náði frá Selvogsvita, upp á Geitarfell og niður á Þrívörður. Skildi eftir 2. fet af landinu utan girðingar og setti 200 sauði á beit utan girðingarinnar við lítinn fögnuð annarra bænda.

Stakkavík

Gálgar í Stakkavík.

Magnús í Krýsuvík hélt fé í fjárhúsinu á Krýsuvíkurheiði. Hann hélt einnig fé í Litlahrauni (sjá uppdrátt). Þegar Magnús hafði drepið fé sitt og flust til Hafnarfjarðar gekk hann á hverjum degi upp á Jófríðastaðahól, settist á hann og horfði síðan daglangt í áttina til Krýsuvíkur. Sonur Magnúsar í Krýsuvík gaf honum nokkur lömb (kindur) þegar hann sá söknuðinn hjá föðurnum. Magnús flutti þá aftur til Krýsuvíkur með lömbin, en fjölskyldan varð eftir í Hafnarfirði.
Landamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur er milli dysja Herdísar og Krýsu. Hann hafi alldrei heyrt annað nefnt. Sýslumörkin eru hins vegar við Sýslustein með stefnu í Seljabót.
Beitarhúsin í Stakkavík voru í Höfðanum. Þaðan var féð rekið til beitar á vetrum niður í fjöru í landi Vogsósa (Löngusker) og setið yfir þeim í tvo tíma. Ferðin fram og aftur í Löngusker tók fjórar klst, ferðin alls um sex klst. Skipt var á fjörubeitinni og venjulegri beit við Vogsósabóndann.
Smalar sváfu stundum í hellinum undir Hellunni við Kleifarvatn.

Stakkavikurborg

Stakkavíkurborg.

Stakkavíkurfjárborgin er við Borgarhóla. Hún gat hýst 70 kindur. Eggert vissi ekki hver byggði borgina, en hún er nokkuð gömul og óvenju heilleg. Álfakirkja sú, sem jafnan er nefnd svo í ritum og er sögð vera austan við borgina, er í rauninni mun austar, svolítið austan fjárhússtóftanna neðan Selstígs.
Í ferðinni var Eggert greinilega á heimaslóðum. Hann þekkti sérhvern stað með nafni, tiltók örnefni og sagði sögur af liðnum atburðum. Honum er þökkuð samfylgdin þennan fagra dag febrúarmánaðar.

Brunnastaðir

Stakkavíkurbræður.

Eggert lést 12. janúar 2010 á Dvalarheimilinu Garðvangi, Garði.
Foreldrar Eggerts voru Kristmundur Þorláksson, f. 17. nóv. 1882, og Lára Elín Scheving Gísladóttir, f. 6. sept. 1889. Systkini Eggerts eru sjö: Gísli Scheving, f. 15. jan. 1918, Valgeir Scheving, f. 18. apr. 1921, látinn, Elín Kristín, f. 13. apr. 1923, Anna Sigríður, f. 12. maí 1924, Þorkell, f. 12. sept. 1925, látinn, Hallgrímur, f. 1. júlí 1928, og Lárus Ellert, f. 3. jan. 1931, látinn.

Hér má sjá og heyra viðtal, sem Jóhann Davíðsson tók við Eggert árið 2004.

-Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson og Sesselja Guðmundsdóttir skráðu.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavík
Þorkell Kristmundsson lést á Landsspítalanum 24. apríl 2003 eftir slys, sem hann varð fyrir þann 30. mars.
Þorkell fæddist í Stakkavík í Selvogi 12. september 1925. Foreldrar hans voru Kristmundur Þorláksson, bóndi í Stakkavík, og Lára Elín Sceving Gísladóttir, frá Ertu í Selvogi. Systkini Þorkels eru Gísli, f. 1918, Eggert, f: 1919, Elín Kristin, f: 1923, Anna Sigríður, f: 1924, og Lárus Ellert, f: 1931. Valgeir , f: 1921, lést 2001.

Þorkell

Þorkell Kristmundsson

Fimmtudaginn 6. mars 2003, eða rúmlega þremur vikum áður en slysið varð, fór FERLIR að Herdísarvík og Stakkavík í fylgd Þorkels – í frábæru veðri. Þorkell var í Stakkavík fram til 1943, eða þangað til hann fluttist að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hér á eftir verður getið um hluta af því sem bar á góma í þessari síðustu ferð Þorkels í heimahagana.

Ekið var um Krýsuvíkurveg. Þegar komið var upp úr Vatnsskarði með útsýni inn í Fagradal sagði Þorkell að áður fyrr hefðu þeir bræður farið upp Mosaskarð á Stakkavíkurfjalli ef þeir ætluðu til Hafnarfjarðar með rjúpur eða endur, sem skotnar höfðu verið, áfram upp á fjöllin, framhjá Eldborg og komið niður Fagradalsmúlann, einkum að vetrarlagi. Sú ganga hafi jafnan tekið fimm klst. í stað átta, sem hefði tekið þá að fara Selvogsgötuna. Þegar hún var farinn var venjulega komið niður í Kerlingaskarðið, þar sem Selvogsgatan liggur um í dag, en ekki Grindarskörðin, sem eru þar skammt austar. Hann var aldrei með drykk með sér, treysti t.d. á að drykkjarsteininn við Selvogsgötuna væri með vatni.

Þorkell

Þorkell í Breiðabás með Jóhanni Davíðssyni.

Þegar farið var á milli Stakkavíkur og Grindavíkur var oft gist í Krýsuvíkurkirkju hjá Magnúsi Ólafssyni. Það gat þó orðið köld vistarvera þegar hætt var að kynda ofninn á kvöldin því reynt var að fara sparlega með rekaspýturnar sem notaðar voru til upphitunar. Magnús var lítt hrifinn af því er ofninn varð kynntur rauðglóandi. Það var þó oft gott að geta gist þarna á löngum ferðum.
Nokkrar góðar sögur fylgdu í kjölfarið. M.a. þegar fara þurfti með 300 sauði til slátrunar til Einars ríka í Grindavík eftir að fé þeirra var tekið í Ölfusréttir þar sem upp kom riðuveiki. Hann hefði sofið með Ísólfi á Skála í hellinum við Lat. Ísólfur var þá með fjárhús úr járni skammt frá vegamótunum að Selatöngum. Þangað var gott að koma með féð sem þá var orðið uppgefið eftir að hafa verið rekið alla leiðina að austan.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Þorkell sagði frá smala, sem týndist í þoku í Krýsuvík, en kom fram daginn eftir. Hann var allur blóðugur í hvítri úlpu og sagðist hafa orðið að slátra 18 sauðum vegna riðu. Smalinn var vitlaus og gólaði og var það til vitnis um að óveður væri í nánd. Til Krýsuvíkur frá Hafnarfirði var venjulega farið upp með Undirhlíðum og austur fyrir Kleifarvatn. Vatnið náði þá upp undir fjósið, sem nú er. Ný tún mynduðust þegar lækkaði í vatninu. Þegar Magnús í Krýsuvík var ungur hélt Árni sýslumaður Gíslason honum við sauðahúsið á Krýsuvíkurheiði (Jónsbúð) og þaðan mátti hann ekki víkja. (Gæti verið skýringin á hlaðna húsinu sunnan undir heiðinni). Magnús nýtti síðar Arngrímshelli í Klofningum sem fjárskjól.

Fjárskjólshraun

Fjárskjóslhraun – skjól.

Ekið var framhjá hlöðnu skjóli utan í Fjárskjólshrauni. Þorkell sagði það t.a.m. hafa verið notað yfir fé. Hann taldi þó að skjólið hafi oftast verið notað af ferðamönnum. Ekki hafi verið þak yfir því.
Þorkell var í skóla í Torfabæ í Selvogi þar sem kennt var í litlu herbergi í kjallaranum. Það kenndi Þórður frá Hveragerði, einfættur.

Herdísarvík

Frá Herdísarvík.

Grænaflöt er upp undir Herdísarvíkurfjalli. Þar sagði Þorkell að hann hefði verið viðstaddur þegar tveir hestar voru skotnir á Grænuflöt. Annar var uppáhaldsreiðhestur Einars Benediktssonar, „Brúnn“, og hinn var hestur Hlínar sem hún keypti fyrir son sinn austur í sveitum. Sá var leirljós og mjög viljugur. Hestarnir voru orðnir gamlir. Hann aðstoðaði síðan Hlín við að dysja hestana í miðri flötinni og var gerður kross, c.a. einn metri, úr steinum, yfir dysinni. Hann á að vera um miðja flöt, sem fyrr sagði.

Herdísarvík

Herdísarvík – vegagerð 1948.

Þegar ekið var eftir Herdísarvíkurvegi var komið að tveimur hlöðnum vörðum beggja vegna vegarins skömmu áður en komið var að Herdísarvík. Þær voru hlaðnar þarna þegar vegirnir mættust, annars vegar að vestan og hins vegar að austan. Menn voru heilt sumar að gera veg við Krýsuvík. Þeir voru að hlaða upp kanta með lélegum verkfærum. Í ágúst komu tvær jarðýtur og voru menn þá sendir heim. Ýtunar fóru á tveimur dögum frá Krýsuvík og að Herdísarvík og ruddu þar með veginn.

Stakkavík

FERLIR í Stakkavík.

Þá var komið að Herdísarvík. Þorkell sagðist minnast vondra veðra. Hlín hafi t.d. flúið með Einar Ben. vafinn í teppi þegar gerði ofsaveður af suðvestri. Bærinn varð þá umflotinn og þurftu þau að hafast við um hríð í hellisskúta ofar í hrauninu. Sonur Hlínar átti bát með vél. Utan við víkina lágu stundum tugir skútna. Hann minntist þess að hann hafi, ásamt dóttur Hlínar og Kela, farið á páskadag út í skútur, færeyskar, í góðu veðri. Skútusjómennirnir komu oft til Herdísarvíkur og náðu í ís í bergið. Þeir voru að spara hafnargjöld.

Mosaskarð

Mosaskarð.

Þeir fóru þá gangandi upp í Mosaskarð og náðu í snjó sem þeir báru síðan á bakinu niður í Herdísarvík. Eitt sinn hafi hann horft á bát vera með yfirfull net alveg upp undir tanganum við Herdísarvík. Svo mikill var fiskurinn að þeir voru nærri reknir upp á fjöru. Hann sagðist telja að Hlín hefði ekki efnast mikið á sölu til skútumanna úr íshúsi sínu. Sagðist minnast þess enn hve kjötið hafi verið gott úr reykhúsi Hlínar og því reykurinn hafi verið orðinn svo kaldur þegar hann hafði farið eftir stokknum inn í reykhúsið. Hann vissi til þess að Kristján Eldjárn hafi skoðað fiskigarðana við Herdísarvík, sem eru þarna nokkrir kílómetrar að lengd í það heila tekið.

Stakkavík

Frá Stakkavík.

Haldið var um Stakkavíkursvæðið. Litið var á Stakkavíkurborg, en Þorkell sagði að götóttur hraunklettur sem þar er skammt austan við hefði ranglega verið nefnd Álfakirkja. Hann fylgdi okkur að hinni eiginlegu Álfakirkju síðar. Réttarnes er þarna neðar og á henni Réttin. Sagði hann frá er hann þurfti að eltast þar við ólman sauð í ull. Var hann í vandræðum með að að handsama sauðinn, en gat loks króað hann af í réttinni á Nesinu, en hrúturinn hafi verið orðinn svo vitlaus að hann stökk yfir vegginn og út í vatnið. Þorkell sagðist hafa séð á eftir hrútnum langt út á vatn þar sem hann hafi synt í nokkra hringi og sokkið síðan.

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Inn í vík einni þarna skammt frá hafi snjóhengja fallið yfir 16 kindur eitt vorið og kæft þær allar. Bóndi missti eitt sinn 300 fjár þegar vatnið lagði og féð fór yfir að nóttu til og flæddi í skerjum. Svona hafi nú lífið verið í þá daga.

Neðan við Selsstíg heitir Höfði. Þar eru tvær stórar útihúsatóttir frá Stakkavík neðan við veginn. Í austanverðum Höfðanum er hin rétta Álfakirkja, kletthóll með glugga að því er virðist. Þorkell sagði að Gísli, bróðir hans, hafi eitt sinn smíðað og reist kross upp á hólnum. Um nóttina dreymdi hann að álfkona kæmi til hans og skipaði honum að fjarlægja krossinn, ella myndi hann hafa verra af. Daginn eftir lá krossinn við hlið kirkjunnar í fjórum pörtum.

Stakkavík

Fjárhús í Stakkavík.

Ekið var niður að Stakkavíkurbænum. Á leiðinni eru tvö hlaðin gerði við veginn. Sjá má móta vel fyrir gamalli ruddri götu í gegnum hraunið. Gerðin sagði Þorkell að hefðu verið kálgarðar. Þegar komið er að Stakkavík er þar fyrir hlaðin rétt, hvammur niður við vatnið, hrútakofi, kartöflukofi, lambús og bæjarhúsinn þar sem steyptir gaflarnir eru fallnir út.

Stakkavík

Stakkavík – rústir íbúðarhússins og gamla bæjarins.

Þorkell sagði að eldri bærinn hafi verið þar sem norðvesturhornið á húsinu er nú. Enn eldri bær var þar sem nú er stór hólmi í suðri út í vatninu, en hann lagðist af þegar hækkaði í vatninu. Þorkell sagði að Eggert bróðir hans hefði eitt sinn verið við hvamminn, en í honum var báturinn jafnan geymdur, þegar hann hafi séð huldudrengi vera að leika sér þar. Þeir hefðu verið í litskrúðugum peysum og með skrautlegar húfur. Þetta hafi enst um stund, en þeir síðan horfið sjónum hans. Þorkell sagðist lítt hafa trúað að álfa- og draugasögur. Hann hefði þó einu sinni séð draug, en það var ofan við bæinn Hlíð. Þar hefði hann séð mann, sem nokkru áður hafði drekkt sér í Hlíðarvatni. Söng hefði hann hins vegar aðeins einu sinni heyrt úr klettum. Það var í Hafnarfjarðarhrauni þegar hann var þar á ferð. Talaði hann um hve mikið hefði verið eyðilagt af fallegum stöðum í hrauninu, klettum og hraunbollum.


Þá var haldið í Breiðabás. Ætlunin var að reyna að staðsetja opið á Breiðabáshelli. Eftir að Þorkell hafði litast þar um stutta stund, tekið mið og kannað kennileiti, s.s. gömlu fjárgötuna ofan úr hrauninu, gekk hann að tilteknum stað á kampinum, gegnt götunni, staðnæmdist, benti niður fyrir sig og sagði: „Hér er opið – gæti skeikað tveimur til þremur metrum“. Áður hafði verið leitað að opinu á þessu svæði, en á röngum stað og munaði þar allnokkru. Þorkell sagði að áður fyrr hafi varða verið ofan við opið, sem kampurinn hefur nú algerlega hulið. Opið hafði snúið út að sjó. Þurfti að loka hellinum þegar óveður gekk yfir til að koma í veg fyrir að fé flæddi inni í honum. En þarna væri opið undir.

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

Sögn er til að smali hafi verið heilan dag í villu í hellinum. Þorkell sagðist muna að hæðin á opinu hafi verið í axlarhæð. Inni hafi verið salur og í honum þröngt op inn úr. Þegar komið var inn fyrir þrenginguna tók við víð rás. Sjálfur hafi hann aldrei farið þar inn, enda lítt hrifinn af hellum. Í sumum hellum höfðust villikettir við í, illir viðureignar. Einn félagi hans varð t.d. eitt sinn fyrir alvarlegri árás villikattar. Honum hafi verið komið til bjargar þegar kötturinn var rifinn af honum. Bar hann merki eftir viðureignina alla ævi.

Í spjalli við Þorkel kom fram að foreldrar hans hefðu verið það gott vinafólk fólksins í Guðnabæ í Selvogi að við fæðingu hafi hann verið skírður í höfuðið á Þorkeli Árnasyni, sem síðar bjó á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, langafa eins þeirra, sem var með í þessari fróðlegu síðdegisferð í Herdísarvík og Stakkavík.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur.

Líf Þorkels snérist um fé, bæði á meðan hann var í Stakkavík og á Brunnastöðum.
“Ég vildi aldrei vera annað en fjármaður”, sagði hann skömmu áður en hann kvaddi samferðamenn sína með virtum á hlaðinu á Brunnastöðum.

Minningin um Þorkel Kristmundsson mun lifa.

Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson skráðu.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Fornugata

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015“ og í örnefnalýsingum fyrir Stakkavík og Vogsósa, má lesa eftirfarandi um hraunmarkaðar götur vestan Víðisands suðvestan Hlíðarvatns í Selvogi.

Fornugötur

Fornugötur.

Göturnar eru markaðar í helluhraunshelluna allt að apalhrauni Herdísarvíkurhrauns þar sem þær hverfa undir nýrra hraun. Ljóst er að mikil umferð hefur verið um þessa leið, enda helsta skreiðarflutningsleiðin frá sunnanverðum Reykjanesskaganum að Skálholtsstól til forna. Gatan eða göturnar á hraunhellunni vestan Víðisands hafa ýmist verið nefndar „Alfaraleið“, „Hellugata“ eða „Fornugötur“.

„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,“ segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog.

Förnugötur

Alfaraleið/Fornugötur.

Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn. Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot.

Fornugötur

Fornugötur – varða.

Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.

Fornugötur

Fornagata.

Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum.

Fornugötur

Fornugata.

Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur á Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.“

„Vogsósavað var rétt við túngarðinn og eiginlega aðalvaðið,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki ljóst hvar nákvæmlega Vogsósavað var en þó er líklegt að það hafi verið vestur eða suðvestur af bæ, þar sem breidd er á ósnum hátt í 250 m suður af Vaðhól“.

Fornugata

Fornugata.

„Eysteinsvað var niður undir Ósnum ytri, þ.e. Ósvaðið syðra. Það var einnig kallað Póstvaðið,“ segir í örnefnalýsingu. Eysteinsvað var heldur ofar en kampurinn eða um 1,2 km SSV af bæ. Á þessum stað er dálítil beygja á Ósnum. Að sögn Þórarins Snorrasonar var Ósinn víða fær en þessi staður var valinn vegna þess að það gat verið sandbleyta bæði ofan og neðan við við Ósinn. Vaðið var einnig kallað Póstvað, enda lá póstvegurinn þar yfir og sjást hans greinileg merki austar.“

Vogsósar

Vogsósar og nálægar götur.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Vogsósa segir: „Ósinn nefnist lækurinn, sem rennur úr Hlíðarvatni til sjávar niður undan Vesturtúni. Hlíðarvatnsós er hann einnig nefndur og Ósinn innri, þar sem hann fellur úr vatninu. Vogsósaós er hann einnig nefndur. Mörg vöð eru á Ósnum, enda þótt hann sé eiginlega alls staðar fær. Nyrzt er Ósvaðið nyrðra eða Gamlavað niður undan Vaðhól. Þá var Vogsósavað rétt við túngarðinn og var eiginlega aðalvaðið. Niður undir Ósnum ytri var Ósvaðið syðra, sem einnig var kallað Eysteinsvað, líka Póstvaðið.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-Ö-Stakkavík, Gísli Sigurðsson.
-Ö-Vogsósar, Gísli Sigurðsson.

Fornugötur

Fornugötur (Alfaraleið/Hellugata).

Stakkavík

Stakkavík er jörð í Selvogi, norðan Hlíðarvatns. Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015„, er m.a. fjallað um Stakkavík:
„Jarðardýrleiki x að sögn, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 464.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lýngrif brúkast til eldiviðar bjarglegt. Rifhrís og til eldiviðar brúkast og peningi til bjargar í heyskorti….Eggver í Hlíðarvatnshólnum má ekki telja…Rekavon í besta lagi af þessari sveit þá inná voginn líður, og fylgir hún kirkjunni og proprietariis. Sölvafjara bjargvæn heimamönnum og so fjörugrös. Heimræði má hjer valla telja, því bærinn liggur lángt frá sjó, þó hefur það fyrir fám árum reynt verið, og til gagns komið sumar og vetur. Túnin brýtur Hlíðarvatn. Engi litlu betur, en um Hlíð segir. Torfrista og stúnga so sem lökust er hún í þessari sveit, nema miður se fyrir grjótum.“ JÁM II, 465-466.

Stakkavík

Stakkavík – bæjarstæði.

„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er gamalt veiðihús í niðurníðslu rétt vestan við síðasta bæjarstæðið í Stakkavík.
Bærinn stóð á túnræmu sem afmarkast af túngarði í norðri og nokkuð bröttum hraunkambi í suðri. Þar fyrir neðan er Hlíðarvatn. Túnið er óslétt og töluvert af hrauni stendur upp úr. Trúlega hefur þetta ekki þótt gott tún.

Stakkavík

Stakkavík – leifar íbúðarhússins.

Stakkavíkurbærinn stóð fremst á hraunkambinum norðan megin við Hlíðarvatn. Um 50 m norðar er túngarður sem liggur austur-vestur. Húsin voru þrjú, íbúðarhús, heyhlaða og skemma sambyggt því. Alls er bæjarstæðið um 16×16 m stórt. Húsið sem var framar á hraunkambinum hefur verið steypt, 8×7 m á stærð og veggirnir um 25 cm þykkir. Veggirnir hafa fallið út á við nema vesturveggurinn sem hefur hrunið inn í grunninn. Í grunninum má sjá leifar af eldavél og ef til vill sést þar einnig í steyptan skorstein. Grunnurinn á húsinu er mosa og grasi gróinn. Vestan megin við húsið hefur verið steyptur pallur/stétt um 2×2 m og um 0,5 m há. Virðist hún hafa verið í sömu hæð og gólfflötur hússins og ef til vill var inngangurinn í húsið þar. Ætla má að húsið hafi verið hvítmálað þar sem leifar af málningunni sjást á steypunni. Við húsið er lítil hella og á henni platti sem á stendur. ,,Stakkavík í eyði 1943. Síðasti ábúandi Kristmundur Þorláksson“.

Stakkavík

Stakkavík – íbúðarhúsið og nágrenni.

Norðan við húsið er eitthvað sem virðist vera upphlaðin tóft, ferningslaga, um 5×5 m á stærð. Trúlega eru þetta leifar af skemmunni. Hún er nánast algróin og svo virðist sem fyllt hafi verið upp í hana. Á stöku stað sést í hleðslurnar að utanverðu. Heyhlaðan er 9×7 m á stærð. Veggirnir eru um 1 m á hæð og 1 m á breidd. Allir eru þeir vel hlaðnir nema suðurveggurinn sem ekki sést og ef til vill hefur verið op þar. Veggirnir eru mosa og grasi grónir og þá sérstaklega að utanverðu. Tóftin er algróin að innaN og engar leifar af milliveggjum eru sjáanlegir. Leifar af norðurvegg íbúðarhússins eru inn í tóftinni. Mikil gróska er í bæjarstæðinu en ekki teljandi bæjarhóll, enda ekki víst að nokkur mannvirki hafi staðið þarna fyrr en eftir miðja 19. öld.
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Afbýli hefur hjer að fornu verið, það var kallað fjórðúngur jarðarinnar og naut afbýlismaðurinn kosta jarðarinnar pro qvoto.“ Ekki er nú vitað hvar afbýli þetta hefur verið og ekki er getið um hjáleigu frá Stakkavík í seinni tíma heimildum.“ JÁM II, 466.

Eggert Kristmundsson

Eggert Kristmundsson.

Í Frey 1994 er viðtal Matthíasar Eggertssonar við Eggert Kristmundsson undir fyrirsögninni „Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð„. Hér á eftir er hluti viðtalsins. þ.e. þeim hluta er lítur að dvöld Eggerts í Stakkavík.
„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðumesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin. Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunauti Bsb. Kjalamesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.

Hvar ert þúfœddur og uppalinn?
Kristmundur ÞorlákssonÉg er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 böm og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.
Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?
Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði.

Stakkavík

Stakkavvík – beitarhús í Höfða.

Þannig var þetta upp á hvem dag á vetuma þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsýningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuæmar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ eftir lýsingu Eggerts Kristmundssonar á vettvangi.

Hvert fóruð þið með sláturfé?
Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á vetuma þá gat maður farið þetta á sex
tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þama sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að
labba þama, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þama um.
Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturmáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb. Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.
Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílamir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður.
Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni.
En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.

Heyskapurinn í Stakkavík?

Stakkavík

Stakkavík – heimatúnið.

Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu.
Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt
upp í þriggja tíma lestarferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindarskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.
Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.
-Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?

Herdísarvík

Herdísarvík – austurtúnið.

Ég hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það.
Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja unt 80 hesta.
En á veturna var hún í gegningunum sjálf?

Hlín Johnson

Hlín Johnson í Herdísarvík.

Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þama í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjöm. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.
Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?

Herdísarvík

Herdísarvík – Herdísarvíkurtjörn.

Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á nætumar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.
-Hvað bjó hún þarna lengi?
Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvik, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.
-Hvað réð því að þið flytjið?

Stakkavík

Stakkavík – veiðihúsið. Það var brennt á öðrum áratug 21. aldar.

Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Ámessýslu þama, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur bömin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.“ M.E. (Matthías Eggertsson)

Við Stakkavík er grunnur seinni tíma sumarbústaðar, sem nú er horfinn. Í Vísi 1962 er viðtal við Lizzie Olsen, sænska konu, undir fyrirsögninni „Fór til Kleifarvatns“:
„Fyrir skemmstu var haldin hér í bænum myndlistarsýning fimm Svía, sem sjálfir létu ekki sjá sig hér og hafa aldrei hingað komið, en í gær áttum vér viðtal dagsins við sænska listakonu, sem lagt hefir leið sína um Ísland í nokkrar vikur, en fer héðan án þess að halda nokkra sýningu. Hún hefir raunar ekki málað hér neina mynd. En samt þykir oss trúlegt, að Íslands eigi eftir að gæta í ófáum myndum, sem koma frá hendi listakonunnar næstu misseri og jafnvel lengur.

„Hvar er Stakkavík?“
Lizzie Olson Hvað byrjuðuð þér svo að skoða hér eða hvað vilduð þér helzt sjá?
– Ég held helzt að eitt af því fyrsta, þegar ég hafði lent hér, var að spyrja hvern mann á fætur öðrum: „Hvar er Stakkavík?“ og lengi gat enginn svarað þeirri spurningu. Ég gat nokkurn veginn sagt til um, á hvaða svæði Stakkavík væri, en það kom lengi vel fyrir ekki. En þannig stóð á þessu, að kollega minn, sem hafði verið hér, hafði dvalizt um skeið á þessum stað, og fór miklum orðum um þennan part af Íslandi. Svo komst ég í samband við Kjartan Sveinsson, skjalavörð, sem einmitt hafi lánað sænska kolleganum sumarbústað sinn í Stakkavík um tíma. Og mér var strax boðið þangað.

Fyrst til að skoða staðinn

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Við ókum suður að Kleifarvatni og Krýsuvík. Það var út af fyrir sig opinberun að koma þangað og ekki lengra. Aldrei á ævi minni hafði ég séð annað eins landslag, og þó hafði ég verið á eldfjallaeyjum við Grikkland. Þetta var stórkostlegt. Mér fannst ég vera kominn til tunglsins, þegar við stigum út úr bílnum sunnan við Kieifarvatn. Ef málarar geta ekki fengið innblástur þar, þá er ég illa svikin.
En svo, ef einhvern langar til að vita, hvar Stakkavík er, þá er hún við Hlíðarvatn, skammt frá Herdísarvík. Dvaldist ég þarna ein í vikutíma.“

Í Tímanum 1962 eru skrif Jónasar Guðmundssonar; „Sprittloginn í Stakkavík„:

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson.

„Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn, næsti bær fyrir austan Herdísarvík. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úrstjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið. Og í dularfullum rökkrum við snarkið í eldinum, sögðu menn sögur og vöktu nær til morguns.
Oft var lundi á borðum, er synti í þykkri brúnni sósu, en lundinn hefur þá náttúru, að annaðhvort er hann herramannsmatur, eða óæti. Hvergi hefur lundi verið eins góður og í Stakkavík. Soðinn fyrst vestur á Ásvallagötu, og síðan soðinn enn meir í Stakkavík og þá orðinn hæfur til matar.

Kjartan Sveinsson

Kjartan Sveinsson.

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík. Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi. Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik. Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.

Í „Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943“ fjallar Ólafur Þorvaldsson m.a. um Stakkavík undir fyrirsögninni „Grindaskarðavegur„:
„Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á
klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun
hafa tekið 12—14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.

Stakkavíkurgata

Vörður við ofanverða Stakkavíkurgötu.

Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður meðfram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkur“sels“stígur á brún Stakkavíkurfjalls.

Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir ,,Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.“

Í Morgunblaðinu 22. janúar 1986 er minningargrein um Láru Gísladóttur. Hún lést 16.11.1985:
Lára Gísladóttir„Þegar ég kom fyrst að Brunnastöðum var Kristmundur horfinn af vettvangi en Lára hafði stigið fyrstu fetin yfír á tíunda áratugævinnar. Þó hún væri öldruð vakti enn í vitund hennar glaður minningalogi
liðinnar ævi og hú var fús til að bregða upp leifturmyndum sem henni voru hugstæðar.
Lára fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Æskuheimili hennar var lítið en notalegt og henni þótti gott að vaxa þar upp frá
bemsku til ungmeyjarára. Þá fluttust foreldrar hennar að Stakkavík sem var erfíð jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Árið 1918 giftist Lára Kristmundi Þorlákssyni. Hann var ættaður úr Hafnarfírði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafíð biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.

Eggert kristmundsson

Eggert með systkinum sínum á Brunnastöðum.

Hún Lára var heldur enginn veifískati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu böm og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fýrir einangrun og margháttaða erfíðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og flölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.

Stakkavík

Íbúðarhúsið í Stakkavík 1968. Það brann og í framhaldinu var byggt veiðihús í tóftum fjárhúsa skammt vestar, sem síðar var brennt.

En Selvogurinn og Vatnsleysuströndin eu tveir ólíkir heimar. Að vísu fellur sami sjór að ströndinni en ris öldunnar er með ólíku yfirbragði og tónn frá hörpu hafsins ekki sá sami.
Þó húsfreyjan á Brunnastöðum tapaði engu af sinni heimilishyggju og gengi með sömu atorku að hverju starfi á ströndinni og í voginum mun henni hafa fundist eggjagrjótið þar sárara við fót en suður í Stakkavík. Þannig verða viðhorf þeirra sem alast upp og lifa með náttúru landsins og neyta af nægtum hennar síns brauðs í sveita síns andlits.
StakkavíkAf tíu börnum þeirra Láru Gísladóttur og Kristmundar Þorlákssonar eru átta á lífi, af þeim eru fimm búsett á Brunnastöðum og reka þar myndarlegt sauðfjárbú. Þau eru: Gísli Seheving, Eggert, Elín Kristín, Þorkell og Lárus Ellert. Anna Sigríður er húsfreyja á Sætúni á Vatnsleysuströnd, Valgeir Scheving er búsettur í Reykjavík og Hallgrímur í Keflavík. Tvö dóu í æsku, Valgerður og Lárus.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur.

Nú er Lára Gísladóttir gengin á vit hins óþekkta og rekur ekki lengur lífsþræði sína á vettvangi okkar skynjanlegu veraldar. Þótt kynni okkar væru ekki löng minnist ég með söknuði þeirra kvöldstunda þegar þessi lífsreynda heiðurskona opnaði fyrir mér heim sinnar liðnu ævi og gerði mér grein fyrir baráttusögu einyrkjanna í einni afskekktustu byggð á suðurströnd íslands, Stakkavík í Selvogi. Spor genginna kynslóða eru athygli verð. Þar voru flest fótmál stigin og hugsun fjöldans bundin þeim ásetningi að vera sjálfbjarga og varða leiðina í átt til betri og bjartari framtíðar. Ein í þeim hópi var Lára Gísladóttir. Guð blessi minningu hennar.“ – Þ. Matt.

Í Tímanum 1971 er grein eftir Ólaf Þorvaldsson; „Tekið heima„. Greinir hann m.a. frá fólkinu og lífinu í Stakkavík.
„Áður fyrr var oft haft á orði, að þessi eða hinn væri búinn „að taka heima“, þegar sá hinn sami hafði fest sér jörð eða kot til ábúðar. Þessi ósköp hafa nokkrum sinnum hent mig á lífsleiðinni, að taka

Stakkavík

Stakkavík – hlaða.

heima, festa mér jörð eða ábýli til búskapar, oft að lítt athuguðu máli, jafnvel af tilviljun einni.
Ekki verða hér rekin tildrög allra minna heimtaka. Ég tek hér eitt út úr, en það var, þegar ég tók heima í Herdísarvík í Selvogshreppi vorið, eða réttara sagt sumarið 1927.
Það mun hafa verið í síðara hluta júlímánaðar 1927, er við hjónin stóðum við slátt á túni okkar á Hvaleyri, nokkuð fyrir venjulegan fótaferðartíma, að kona mín vekur athygli mína á, að maður á brúnu hrossi kemur niður veginn, sem liggur af aðalveginum, og stefnir að túnhliði okkar. Þetta var óvenjuleg sjón, einkum á þessum tíma sólarhringsins. Hér hlaut langferðamaður að vera á ferð, og fer ég strax að huga nánar að þessum árrisula ferðalangi. Eftir smástund segi ég við konu mína, að ekki kunni ég mann að kenna, sé þetta ekki Kristmundur bóndi í Stakkavík í Selvogi. Við Kristmundur vorum vinir og mjög samrýndir á æsku- og uppvaxtarárum okkar í Hafnarfirði, og svo var ekki nema mánuður frá því, að við sáum Kristmund seinast á þessu sama hrossi. Þetta reyndist rétt vera. Sá var maðurinn.

Hvaleyri

Hvaleyri – kort.

Hið fyrsta, sem ég spurði Kristmund um eftir kveðjur okkar, var, hvort nokkuð væri að hjá honum. Hann kvað svo ekki vera, en segist ætla að biðja mig fyrir hann Brún sinn, þar eð hann þurfi að bregða sér til Reykjavíkur, og var það auðsótt mál.
Þegar við höfðum komið hestinum á snapir, gengum við í bæinn. Kona mín bar Kristmundi góðgerðir — hann hlaut að vera hjallhanginn eftir að hafa verið á ferð alla nóttina. Á meðan við drukkum morgunkaffið, minntist ég á það, að hann hlyti að hafa mjög brýnt erindi að reka, úr því að hann væri á ferð um hásláttinn, og það í þurrkatíð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Það er nú samt í sambandi við sláttinn, að ég fer þessa ferð“, anzar Kristmundur. Svo segir hann mér, að nú sé Herdísarvíkin komin í eyði, og hafi ég ef til vill heyrt um það. Þórarinn, bóndinn í Herdísarvík, hafi flutt til Reykjavíkur með sitt fólk, sem væri ekki margt, aðeins þau hjónin og gömul kona, sem búin hafi verið að vera þar mjög lengi. Þetta hafi gerzt eftir að rúningu fjárins og ullarþvotti lauk.

Og Kristmundur heldur áfram og segir: „Nú þarf ég að reyna að komast til Reykjavíkur og leita uppi Einar Benediktsson, skáld og fyrrverandi sýslumann, til að vita, hvort hann vill lofa mér að slá meira eða minna í Herdísarvíkurtúninu, þar eð útlit er fyrir, að Herdísarvíkin byggist ekki þetta árið. Hlíðartúnið, sem ég hef undir, ætlar að verða mjög lélegt, og ekkert tún heima, svo sem þú veizt. Þórarinn bar vel á túnið að venju og lét róta úr öllum hlössum snemma í vor.“

Stakkavík

Stakkavík – herforingjaráðskort 1903.

Um kvöldið kom Kristmundur aftur, svo sem hann ætlaði sér, en ekki með Herdísarvíkurtúnið í vasanum, og óvíst, hvort úr þessu rættist fyrir honum. Við ræddum þetta nokkra stund, unz Kristmundur segir: „Heyrðu annars, af hverju tekur þú ekki Herdísarvíkina. Þessi kot hérna eru ekki við ykkar hæfi“.
Eftir samtal okkar hjóna þetta kvöld var ég ákveðinn að hafa tal af Einari Benediktssyni, að þeim fresti liðnum, sem bann setti sér til þess að gefa Kristmundi eitthvert svar.
Þegar við Kristmundur skildum næsta morgun, og hann hélt heim til sín, sagði ég honum, að ef ég fengi Herdísárvikina til ábúðar, gætum við slegið heimatúnið í félagi og skipt heyinu jafnt. Og
Kristmundi mun hafa þótt þetta betra en ekki.“
Ólafur og kona hans flutti árið síðar að Herdísarvík.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015.
-https://timarit.is/page/5584174?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/stakkav%C3%ADk%20kristmundur
-Freyr, 15.-16. tbl. 01.08.1994, Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð – Viðtal við Eggert Kristmundsson, bls. 512-517.
-Vísir, 18. ágúst 1962, Fór til Kleifarvatns, bls. 2 og 4.
-Tíminn, 17. ágúst 1962, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8. Jónas Guðmunsson skrifar.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943, Grindaskarðavegur, Ólafur Þorvaldsson, bls. 99-102.
-Morgunblaðið 22. janúar 1986, minningargrein um Láru Gísladóttur, bls. 44.
-https://timarit.is/page/3560264?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/kristmundur%20%C3%BEorl%C3%A1ksson%20stakkav%C3%ADk
-Tíminn, sunnudagsblað, 16. tbl. 01.05.1971, Ólafur Þorvaldsson – „Tekið heima“.
-Morgunblaðið 21. jan. 2010, Eggert Kristmundsson, minningargrein, bls. 28.

Stakkavík

Stakkavík – rétt á Réttartanga.

Herdísarvík

Gengið var um Herdísarvík.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Eftir að hafa skoðað tóftir gamla bæjarins suðvestan við nýjasta og núverandi hús þar var kíkt á útihúsin vestan þess. Á milli þeirra er hlaðin brú eða stígur í Herdísarvíkurtjörnina og austanvert við hana er hlaðið skeifulaga gerði. Þetta svæði var, að sögn Þórarins Snorrasonar á Vogsósum, sem kunnugur er í Selvogi, fyrrum á þurru, en eftir að sjórinn opnaði leið inn í tjörnina hafa landshættir breyst. Eiðið er lokaði Herdísarvíkurtjörninni var miklu mun utar, en eftir að sjórinn braut sér leið inn í hana breyttust aðstæður verulega. Silungurinn, sem Hlín Johnsen hafi áður veitt í net í Hestavíkinni, hvarf m.a með öllu.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Í brúnni og við hana má sjá brotna myllusteina, steinsökkur, letursteina (ankeri og kross) og fleiri mannanna verk. Einar Benediktsson og Hlín Johnsen eru sennilega eftirminnilegustu ábúendurnir í Herdísarvík og reyndar þeir síðustu, en Þórarinn og Ólafur, sem áður voru, eru ekki síður eftirminnilegir. Sá fyrrnefndi var fjármargur og þurfti drjúgt lið aðstoðarmanna. Einn þeirra var Sigurður Þorláksson, sem á efri árum ritaði ógleymanlegar endurminningar frá árum sínum í Herdísarvík og Stakkavík. Ólafur Þorvaldsson ritaði hjartnæmar lýsingar af ferðum sínum um svæðið og kunni skil á staðháttum og örnefndum manna best. Í bókum hans Harðsporum og Eins og fífan fíkur má sjá slíkar lýsingar frá Herdísarvík og nágrenni.

Herdísarvík

Herdísarvíkur – brú og gerði.

Sagt er að Hlín hafi flúið með Einar í nálægan skúta eitt sinn þegar óveður gekk yfir og færði gamla bæinn, sem þau þá bjuggu í, í kaf. Enn má sjá leifar gamla bæjarins sem og reykofns Hlínar og bruggaðstöðu í Herdísarvík. Eggert Kristmundsson frá Stakkavík, nú Brunnastöðum (sjá ferð og viðtal við hann undir Fróðleikur), minnist með mikilli ánægju á hið reykta ærkjöt Hlínar, en það var hvergi betra “vegna þess hve reykurinn kom kaldur inn í reykhúsið”.
Garðarnir í kringum Herdísarvík heita hver sínum nöfnum. Þar er og hver staður með sína merkingu.

Herdísarvík

Hlínargarður.

Gengið var austur með austur með Langagarði, yfir að sjóbúðunum og í Gerðið. Nefndur Sigurður segir skemmtilega frá því í endurminningum sínum þá er beðist var endurreisnar sjóbúðanna, að Hlín hafi sett þau skilyrði fyrir búðaruppgerðinni að einungis einn tengiliður yrði með henni og vermönnum. Hún vildi ekki ágang þann sem af margmenninu gat hlotist. Þó segir hann að samskipti Hlínar og vermanna hafi alla tíð verið hin ágætustu og arðbærustu fyrir báða aðila.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var um Gerðið og m.a. skoðaður Hlínargarður og fjárhústóftirnar af Langsum og Þversum, en svo nefndust fjárhúsin stóru í Gerðinu. Hafa ber í huga að Gerðið er ræktað upp með slori, sem sett var á hraunið er þannig greri smám saman upp. Norðan þess og norðaustan eru ómældir kílómetrar af þurrkgörðum og litum þurrkbyrgjum. Því miður hefur þjóðvegurinn verið lagður í gegnum garðana, en ætlunin er að nýi vegurinn, svonefndur Suðurstrandarvegur, muni liggja ofan þeirra. Að sögn Þorkels Kristmunssonar (sjá viðtal við hann undir Fróðleikur) frá Stakkavík munu fjárhúsin hafa verið hlaðin upp úr fjárborgunum er minnst er á í örnefnaslýsingum.

Herdísarvík

Í Breiðabás.

Þá var gengið yfir í Breiðabás. Á leiðinni þangað var komið við í fjárhelli, sem þar er í hrauninu. Leifar Herdísarvíkurgerðis, þ.e. kotbýlis frá Herdísarvík er þarna austan við Gerðið. Breiðabás var og fjárhellir, þar sem Herdísarvíkurféð var vistað. Op hellisins var þá mót sjónum, en nú hefur sjávarkamburinn fyllt upp í opið og hulið það. Sagnir eru um menn, sem fóru inn í hellinn, villtust, en komust út aftur eftir illan leik. Einar Benediktsson segir hellinn ná frá Breiðabás upp í mitt Mosaskarð, sem er um og yfir kílómeter á lengd. FERLIR hefur lagt nokkuð á sig til að finna op Breiðabáshellis, en ekki orðið ágengt fram að þessu. Ætlunin er m.a. að reyna að virkja stórtækar vinnuvélar Suðurstandarvegarins væntanlega til að “grafast fyrir um opið”, en flytja þarf sjávarkambinn svolítið til á kafla beint upp af “klofningskletti”.

Herdísarvík

Fiskigarðar.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.:
“Allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir [Herdísarvíkursel] í Seljabót” voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.
Sagt er frá því að Olafr Gronlendinga byscop kom i Herdisar vik 1262. Árið 1544 á Skálholtsstaður uppgefinn teinæring í Herdísarvík. Kirkjan í Krýsuvík var lögð niður en umboðsmenn Skálholtskirkju skyldu byggja Herdísarvík sbr. bréf frá 1563 þar sem Gísli bp gefur Þórði Jónsyni umboð til að byggja stósljarðir í Grindavík Krýsuvík og Herdísarvík “bæde halftt skip Reka og anna utann hann skilie þar til iiij leigukugillde og landgilldi sem honum þyker moguligtt. Árið1563 ritar Gísli Jónsson biskup um líferni fólks í verstöðvum, þ.á.m. í Herdísarvík. Árið 1677 býr Jón í [Nesi] í Herdísarvík. Í plani til jarðabókarinnar frá 1702 tekur ÁM dæmi af Herdísarvík sem stað við sjávarsíðuna þar sem sé óvenjumikil frjósemi sauðfjár, þar allar ær eður flestar eiga tvö lömb”.

Herdísarvík
„Herdísarvíkurbær stóð vestarlega í Herdísarvíkurtúni undir Skyggni, sem var klöpp, aflöng, og sneri suðaustur-norðvestur. Neðst bæjarhúsanna var stofan og bæjardyrnar undir einu og sama þaki. Bak við stofuna var búrið, en fram af bæjardyrunum var eldhúsið. Þar framan við á vinstri hönd voru göngin og þrjú þrep upp að ganga í baðstofuna, sem var fimm stafgólf, en hlutuð í þrennt. Miðhlutinn, sem var eitt stafgólf, frambaðstofan, er var á hægri hönd, er inn var komið, og aðalbaðstofan á vinstri hönd. Baðstofurnar voru hver fyrir sig tveggja stafgólfa, langar og rúngóðar. Bak við eða norðan við eldhúsið var fjósið fyrir tvær kýr.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúð.

„Stígurinn lá norður milli bæjarhúsanna og smiðjunnar að útihúsunum, sem stóðu spölkorn norðan bæjarins. Þar voru þessi hús: Fjós og hesthúskofi, Lambhúsið stóra, Lambhúsið litla, sem líka var notað sem hlaða, og síðan kom hrútakofi, sem seinna var stækkaður, og þar var sjóbúð, sem kölluð var Krísuvíkursjóbúð.“

„Þar norður af [Krísuvíkursjóbúð] er svo Herdísarvíkurhúsið, en þar bjó síðast Einar skáld Benediktsson, og var húsið allt eins kallað Einarshús, eða þá kennt við seinni konu hans og nefnt Hlínarhús…“
„Rétt innan við [túngarðsendann vestari] var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur…“

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

„Rétt innan við [túngarðsendann vestari] var lítill tangi, er lá fram í Tjörnina, hét Sauðatangi. Þar austan við var lítið vik, og þar í tveir hólmar, Vatnshólminn og hinn, sem Þvottahóll var nefndur eða Brúarhóll, en milli hólma og lands var Rásin og yfir hana brúin.“
„Varghólsbrunnur er nefndur í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns, og þá hefur þar verið Varghóll og var í Tjörninni.“
„Þá kom vik fram af bænum, og var þar heimavörin, þá kom Öskuhóll, og var þangað borin askan.“
„Þá kom Hjallhóllinn, öðru nafni Smiðjuhóllinn, og Tungan þar fyrir innan með lágu garðlagi.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Hér fyrir austan [Austurtúngarðshliðið] taka við Gerðin, sem voru tvö, Vestragerði og Eystragerði. Einnig var talað um Vestragerðistún og Eystragerðistún. Herdísarvíkurgerðin var líka nafn á þessu svæði. Gerðin voru umgirt miklum grjótgarði, sem kallaður var Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.“

Herdísarvík

Þversum – fjárhús.

„Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð.“

„Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi.“
„Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin.“
„Búðirnar gömlu voru rétt við [Gerðis]stíginn, en þar eru nú rústir einar.“
„Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri.“

Herdísarvík

Langsum – fjárhús.

„Túngarðar lágu um túnið, vesturtúngarður að vestan, norður túngarður ofan bæjarins og austurtúngarður að austan. Skarðið var á vesturtúngarði. Bæjarhlið ofan Bæjarins. Fjárhúshlið rétt ofan við útihúsin, og svo var hlið ofan Einarshúss, sem ég kalla Jöfurshlið. Þar um gekk skjáldjöfurinn, er hann tók sér hressingargöngur um nágrennið.“
„Norðurgarðurinn var kallaður Langigarður. Hlaðinn að mestu af manni, er Arnór hét, austan frá Ási í Ytri-Hrepp. Á garðinum var svo Langagarðshlið. Garður þessi var stundum kallaður Vitlausigarður eða Langavitleysa.“
„Krókur myndaðist, þar sem saman komu eystri túngarður og Langigarður, þar stóð Fjárréttin nýja og er enn notuð.“

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

„Niður með eystri túngarði var sjóbúð, kölluð Ólabúð, og við hana Ólabúðarbyrgi.“
„Sjávarstígurinn lá með austurtjarnarenda niður á Kamp, en af honum lá annar stígur, Gerðisstígurinn, austur um Gerðin.“
„Búðirnar gömlu voru rétt við [Gerðis]stíginn, en þar eru nú rústir einar.“
„Lítið eitt austar er lágur klapparhryggur, sem heitir hryggur, og þar á tvær gamlar sjóbúðir, Hryggjarbúðir, og stóð önnur framar en hin, kallaðar Hryggjarbúðin fremri, sú er stóð nær sjónum, og Hryggjarbúðin efri.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóðbúðir.

„Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn… Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.“
„Austan við Hrygginn var lægð, slétt, kölluð Dalurinn… Á Dalnum var vestar Skiparéttin, þar sem skipin voru höfð milli vertíða, og Fjárréttin gamla. Má enn sjá góðar hleðslur þessara mannvirkja.“

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

„Herdísarvíkursjóbúðir stóðu saman sunnan í hrygg, lábörðum, norðan Dalsins. Þær voru nefndar ýmsum nöfnum eftir formönnum, sem þær byggðu ár hvert. Aðeins ein nú með þaki, en hinar vel stæðilegar. Bjarnabúð, Guðmundarbúð, kenns við Guðmund Jónsson í Nýjabæ í krísuvík. Halldórsbúð, kennd við Halldór í Klöpp í Selvogi og var einnig nefns Dórabúð. Guðmundarbúð var einnig kölluð Gamlabúð og þá Stórbúð. Þá var Símonarbúð og Hjálmholtsbú og Krísuvíkurbúð önnur en sú,sem stóð heima við útihúsin.“

Herdísarvík

Herdísrvík – Yngri bærinn.

„Gerðisgarður skipti Gerðunum í tvennt, og þar á var Gerðisgarðshlið.“
„Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður…“
„Í Eystragerðinu voru tvö stór fjárhús. Það vestra hét Þversum og lá þvert suður-norður og hitt lengra í burtu, Langsum, lá austur-vestur.“
„Austan í Bótinni er klöpp, og við hana var Herdísarvíkurvör, og er rauf milli klapparinnar og malarinnar. Herdísarvíkurlending er Vörin einnig kölluð.“

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Austan í Bótinni er klöpp, og við hana var Herdísarvíkurvör, og er rauf milli klapparinnar og malarinnar. Herdísarvíkurlending er Vörin einnig kölluð. Þar ofar var Herdíasrvíkurnaust, sem nú er horfið.“
„Uppi á Kampinum stóðu í eina tíð mörg fiskabyrgi, og hjá þeim var Sundtréð.“
„Þar austur af byrjunum tekur svo við Gerðiskampurinn, en eftir honum endilöngum hefur garður mikill verið halaðinn; fyrir því verki stoð frú Hlín Johnson, og því nefni ég garðinn eftir henni, Hlínargarð, og nær hann austur um Langagarðsenda.“

Herdísarvík

Herdísarvíkurgata til austurs.

„Ofanvert við Breiðabáskamp er fjárhellir í gjótu í hrauninu, kallast aðeins Hellir.“
„Á brunanum, sem liggur þarna upp frá sjónum upp undir fjallið, hafa miklir fiskgarðar verið hlaðnir. Munu þeir vera nokkrir kílómetrar á lengd.“
„Upp frá Bæjarhlaðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.“
„Upp frá Bæjarhlaðinu var Kúavegur fram hjá Kúavörðu og lá allt upp undir fjallið.“
„En úr Skarðinu lá Brunnastígur…“
„Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtargarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgargarðar.“
„Sunnan við Brunna voru á hrauninu tvær fjárborgir, sem nefndust Borgin efri og Borgin neðri. Matjurtargarðar voru í báðum Borgunum, kallaðir Borgargarðar.“

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

„Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“
„Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“
„Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.“
„Austur með Selvegi er Selhóll…“

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

„Austur af Klifhæð er lítill hellis-skúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn:“
„Spölkorn fyrir austan túnið var áður fyrr hjáleiga, Herdísarvíkurgerði, og sjást nú fáar minjar þess, að þar hafi bær verið, en tún er þar nokkurt enn; þó hefur sjór brotið eitthvað af því.“

Þjóðsagan um Herdísi, er bjó í Herdísarvík, og Krýsu, er bjó í Krýsuvík er flestum kunn. Í henni segir að „Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn.

Gengið var til austurs að Mölvíkurtjörn. Um er að ræða fallega ferskvatnstjörn. Tóftir, Mölvíkurbúð, eru austan hennar, líklega útræði því lending er sæmileg þar undan ströndinni, eða þær tengist rekavinnslu, sem þarna er allnokkur. Hlaðið byrgi er á hraunbakka ofan tjarnarinnar. Varða er á hól austan tóftarinnar er vísar veginn áleiðis að Stakkavík. Sunnar og austar liggur gömul gata í gegnum úfið apalhraunið. Eftir stuttan spöl er komið niður á slétt apalhraun. Þar liggur “Helluvörðustígurinn” tvískiptur til austurs. Eldri stígurinn virðist liggja nær sjónu og sá yngri ofar. Stígurinn er djúpklappaður í bergið eftir hófa, klaufir og fæturliðinna alda.. Áhrifaríkt er að fylgja stígnum yfir að Helluvörðunum. Þegar komið er að Víðisandi liggur gata til norðausturs, að Stakkavíkurbænum. Um hann segir m.a. í örnefnaskrám:

Stakkavík

Stakkavík 1928.

“[Sandur berst vestan af Víðasandi, austur yfir ósinn] Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.”
Árið 1840: “Hlíðar, Stakkavíkur og Herdísarvíkur hagar mæta stórum áföllum af grjótkasti og skriðum úr fjallinu, því þeir allir bæri eiga þar land, en hafa þó flatlendishaga ásamt.”
„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn.“
“[Sandur berst vestan af Víðasandi, austur yfir ósinn] Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.”
„Stakkavíkurtúngarður er lágur grjótgarður ofan við túnið.“

Stakkavík

Stakkavíkurrétt.

„Dalurinn er hvammur vestan til við húsið. Vörin liggur undan Dalnum. Bryggjan liggur þar fram í vatnið.“
„Tættur standa á hrauninu ofan Dalsins, og eru þar lambhús, hesthús og Heimaréttin.“
„Á vinstri hönd við [Stakkavíkur]götuna eru klettar tveir, kallaðir Gálgaklettar.“
„Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakkvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“
„Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvíkurkampi. Austast í henni voru klappir, og var þar kallað Varir eða Mölvíkurvarir.“
„Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum er útræði var úr Mölvíkurvörum; þar er og Mölvíkurfiskabyrgi.“
„Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.“ „Veit ekki um tilurð nafnsins, en mér og öðrum hefur fundizt draugalegt í gjánni.“

Stakkavík

Stakkavík – álfakirkjan.

„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.“
„Innar, það er norðar [en Flathólmi], er svo tangi, sem kallast Vaðið, en milli Vaðs og Flatatanga er vik inn og heitir Vaðvik; þar hefur stígur eða gata legið upp.“
„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun. Svo segja Selvosingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.““

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

„Á þessu vatnsviki (?), sem nú er Gamlatúnið eru þrír hólmar, Hólmarnir. Fyrst er Hólminn syðsti, sem einnig kallast Bæjarhólmi, því þar stóð Stakkavíkurbærinn gamli í eina tíð.“
“Austan við tangann, sem húsið stendur á, var lítið vik og þar í Gamlavörin. Ofanvert við hana var smábyrgir, kallað Naustið. Þar hafði bátur verið geymdur.“
„Stöðulnef var gegnt tanganum, og þar mátti sjá stíg er lá niður í vatnið, Gamlastíg.“
„Úti í vatninu mátti sjá móta fyrir garðlagi, sem kallast Vatnsgarður, ef til vill verið túngarður Gamlatúns eða varnargarður fyrir ágangi vatnsins.“
„Austur af Stöðulnefi var svo Réttarnes og þar á Gamlaréttin, og sést þar móta fyrir veggjum.“
„Þegar kom upp á Háahraun, var þar fyrst fyrir neðan þjóðveginn Fjárborgin og litlu austar Álfakirkja, hóll mikill og sérkennilegur…“

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

„Álfakirkja. hefi ekki heyrt neinar sagnir um hana frá gamalli tíð. En þá er við bræður vorum ungir strákar, þá var það, að Gísli bróðir minn tók sig til og smíðaði kross úr tré og reisti hann á Álfakirkjunni. Nóttina á eftir dreymdi Gísla, að hann væri staddur úti. Sá hann þá stóran hóp af fólki. Bar þar mest á einum manni, sem hafði höfuð og herðar yfir hitt fólkið. Kemur hann til Gísla og segjir við hann, [að] ef hann eigi framar við kirkjuna, þá verið hann drepinn. Krossinn var því fjarlægður. Síðan hefur Gísli ekki orðið var við neitt, hvorki í vöku né svefni, í sambandi við Álfakirkjuna.“
„Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi.“

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

„Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið.“
„Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagastígur upp á fjallið.“
„Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.“
„Austar en [Nátthagastígur] er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðar norður fjallið.“

Skoðaðar voru minjarnar í Stakkavík og á Réttarnesi. Stakkavík fór í eyði 1943. Síðasti ábúnandinn þar var Kristmundur Þorláksson. Loks var gengið að Selsstíg þar sem hann liggur áleiðis upp á Stakkavíkurselsstíg ofan brúnar skammt ofan fjárhústóftanna (sjá aðra FERLIRslýsingu af Stakkavíkurseli). Neðan hans, í Höfðanum, er fyrrnefnd Álfakirkja.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild:
Örnefnalýsing fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir

Þjóðsagan er fengin af
http://www.snerpa.is/net/thjod/krysa.htm

Ómar

Unnið að uppdrætti Herdísarvíkur eftir að heim var komið.

Eggert Kristmundsson

Eggert Kristmundsson er fæddur í Stakkavík 17. febrúar 1919.
Þann 28. febrúar 2004
s.l. var farið í fylgd hans í Herdísarvík og í Stakkavík með viðkomu í Breiðabás. Eggert var þá nýorðinn Gálgaklettar við Stakkavík85 ára, en ótrúlega hress eftir aldri. Í ferðinni lýsti Eggert staðháttum og sagði sögur af fólki og atburðum. Tækifærið var notað og Stakkavíkursvæðið rissað upp eftir lýsingu Eggerts. Þar lýsti hann m.a. Gálgaklettum, Álfakirkjunni, smalabyrgjum, hlöðnum kálgarðsveggjum, íbúarhúsinu, staðsetningu gamla bæjarins, sem nú er á hólma út í Hlíðarvatni, sýn á huldufólk og fleiru, sem fyrir augu bar. Eftirfarandi frásögn var skráð eftir honum í ferðinni:

Eggert fæddist í Stakkavík og er því manna fróðastur núlifandi manna um svæðið. Hann fluttist þaðan árið 1943 að Efri-Brunnastöðum í Vatnsleysustrandahreppi.
Á leiðinni gat Eggert þess í innskoti að hann hafði heyrt að sá sem hlóð Staðarborgina ofan við Kálfatjörn hafi fengið einn tóbaksbita fyrir verkið. Bitinn kostaði þá 2 krónur.
Eggert lærði að lesa hjá Önnu, dóttur Ólafs Þorvaldssonar í gamla bænum í Herdísarvík. Hann sagði Ólaf hafa verið mjög skemmtilegan mann, sem sagði mjög vel frá og las afburða vel upp úr bókum. Eggert var í skóla í Selvogi í einn vetur en svo kom kennari annað slagið heim í Stakkavík. Hann var fermdur í Strandakirkju.

 Eggert Kristmundsson heima á Brunnastöðum

Eggert var um 10 ára þegar hann villtist í Breiðabáshelli, en þangað var förinni m.a. heitið. FERLIR hefur um nokkurt skeið leitað opsins, en sjávarkamburinn hefur nú hulið með öllu.
Eggerts minntist ummæla útgerðarmanns í Selvogi varðandi föður þeirra: “Þótt ég þyrfti að bera Kristmund út í bátinn þá verður hann minn háseti”. Kristmundur þótti mjög fiskinn. Hann var líka var mikill söngmaður. Það var Guðni í Þorkelsgerði einnig.
Eggert minntist þess að Gísli Scheving, móðurbróðir Eggerts, hafi komið um Stakkavíkurveg með grammafón á bakinu frá Hafnarfirði árið 1925 ásamt 30 sauðum. Grammófónninn þótti mikið undur.
Á leiðinni austur sagði Eggert frá för hans og Gísla bróður hans ásamt 12 ára strák úr Hafnarfirði og föður þeirra með fé frá Krýsuvík áleiðis til Hafnarfjarðar. Þetta var sennilega árið 1935. Þeir hefðu farið frá Stóra-Nýjabæ í góðu veðri, en þegar þeir fóru um Ketilsstíg á Hálsinum versnaði veðrið til muna. Þeir komu þó fénu yfir, en urðu að berjast með það, 35 sauði og 15 lömb í veðrin og villtust. Þeir römbuðu á för sín aftur yfir Ketilstíginn og röktu hann til baka. Þá náði snjórinn í kvið á hestunum. Þeir hörfðu verið 17 tíma í förinni, kaldir og hraktir. Þeir gistu í Stóra-Nýjabæ á leiðinni til baka, voru þar um nóttina. Morguninn eftir þurftu þeir að fara í blautu fötin aftur því þau höfðu ekki náð að þorna um nóttina. Daginn eftir fóru þeir svo með féð til Hafnarfjarðar.
Guðmundur í Stóra-Nýjabæ, sem þótti skemmtilegur í tilsvörum, var eitt sinn spurður um Guðmund nafna hans Guðmundsson á Hrauni, síðar Skála. Hann svaraði: “Hann hefur það gott, hann sofnaði í 40 ár og leitaði gæfunnar, en nú er hann búinn að finna hana, blessaður”. Guðmundur var þá að dunda við að brugga landa.

Íbúðarhúsið í Stakkavík

Guðmundur fór í útgerð og komst hún fyrir í einni tunnu (net og annað). Fór þá Guðmundur í Nýjabæ heim og náði í 1200 krónur, sem hann lánaði til útgerðarinnar.
Fylgdist með þegar verið var á byggja húsið í Herdísarvík. Það var hvítt á litinn.
Einar Ben. var glæsilegur maður þegar hann kom að Herdísarvík, en hann var eins og vofa undir það síðasta. Margir kunningar hans komu í heimsókn og helltu hann fullan. Reyndar hafði Hlín leyfi til að brugga á þeim tíma.
Krakkarnir voru spenntir fyrir að sjá þjóðskáldið fyrsta sinni og fóru því með nýrekna grásleppu sem tilefni heim í Herdísarvík. Hlín tók á móti þeim og sagði við Einar: Þetta eru börnin hans Kristmundar í Stakkavík. “O, ætli ég þekki ekki hann Kristmund, hann var skrifari hjá mér í Ameríku”, svaraði Einar þá. Einu sinni mætti Einar þeim með hvítan vasaklút og sagði: “Þetta er það eina sem ég á”. Í annað sinn, þegar Hlín hafði látið elta Einar að Fálkageiraskarði þar sem hann var á leið í “sorann í Reykjavík” og færa til baka, varð Einari að orði: “Hér er ég fangi milli tveggja svartra fjallla og sé aðeins upp í himininn”.

Herdísarvíkurbærinn

Um drápið á Surtlu sagði Eggert: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.
“Hlín var einstaklega dugleg og krafðist þess sama af öðrum. Hún var hetja, fögur kona, há og þétt á velli og lagði sig fram við að styðja Einar. Það sem Hlín gerði fyrir Einar hefur verið óþakklátt og henni hefur ekki verið nægilegur sómi sýndur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann”.
Bruggið var í tunnu (tunnum) fyrir utan húsið.
Stundum skiptust þau Hlín og Kristmundur á olíu eftir því hvort átti.
Fólk kom í Herdísarvík, bara til að forvitnast, stundum á rútum. Einu sinni var Hlín sofandi en Eggert í heyskap þegar fjöldi manns kom og óð yfir slægjunna og skoðaði inn í öll hús. Þegar Hlín vaknaði spurði hún fólkið hver hefði boðið því þangað.
Stakkavík - uppdrátturHlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.
Hlín fékk fé sitt frá Sigurði á Hlíðarenda en það var ættað úr Borgarfirðinum.
Sementið í Stakkavíkurbæinn var flutt með Hermóði frá Eyrabakka út í Selvog og þaðan á hestum heim. Náð var í sand í poka út á Víðisand og möl norður fyrir Hlíðarvatn. Víðisandur (Viðarsandur) var stundum nefndur Púkasandur og þá eftir sögum af galdraprestinum [Eiríki Magnússyni á Vogsósum]. Allt borið á bakinu upp á bæjarhólinn og voru 17 menn við verkið.
Eggert og fleiri náðu í borðviðinn í Stakkavíkurbæinn til Hafnarfjarðar. “Þetta var djöfullegur flutningur”. Borðin stóðu langt upp af makka hestanna og þetta var alltaf að slitna niður. Borðin styttust um 1. fet við að dragast eftir klöppunum.
Í StakkavíkurseliGanga frá Stakkavík að Hrauni í Grindavík tók 7 tíma, 6 tímar yfir fjallið til Hafnarfjarðar, en 10 tíma ef Krýsuvíkurleiðin var farin. Níu tímar voru til Grindavíkur. Þessa leið þurfti Hlín að fara í fyrstu ef hana vantaði mjólk. Stakkavíkurvegur var alltaf notaður nema þegar snjór var kominn á fjallið, þá var farið um Krýsuvík og Ketilsstíg. Notað var orðatiltækið „að fara Skörðin“ þegar farinn var Stakkavíkurvegur og Grindarskörð. Þegar fjölskyldan flutti frá Stakkavík á Höfuðdaginn árið 1943 var t.d. farið Skörðin á fjórum hestum með restina af búslóðinni. Hitt hafði verið flutt á undan.
Á vetrum fór þeir bræður upp Nátthagaskarð með stefnu á Eldborg, fóru sunnan við hana og síðan niður Fagradalsmúla. Þetta var stysta leið til Hafnarfjarðar með rjúpur. Veiddu yfirleitt um 400 rjúpur að hausti og seldu þær til Hafnarfjarðar á 45 aura stykkið.

Uppdráttur af brúnum Stakkavíkurfjalls

Þegar farið var upp Selstíg var fyrst komið að Grænubrekkum og Selbrekkum, Seltúninu, (austar). Ofan við þær er gamla Stakkavíkurselið, “en það var farið í eyði löngu áður en ég man eftir”. Dýjabrekkur liggja fjærst brúninni, ca. miðja vegu að Ásunum. Þær eru augljósar því í þeim er lítill dalur fullur af dýi.
Hættulegt gat verið að fara yfir ósinn (Vogsósinn). Í útfalli, þegar sjór gekk inn í vatnið, var mikill straumur út úr því.
Var einu sinni að fara yfir ósinn á hesti á vaði (Ingjaldsvaði). Þar er malarbotn, en sandbleyta ef farið er út af vaðinu. Hesturinn lenti í sandbleytunni og lagðist á hliðina. Þessu átti Eggert ekki von á. Hesturinn synti á hliðinni og Eggert hélt sér á honum og þannig bárust þeir niður ósinn. Það verður honum til lífs að ná taki í þaraþöngli og gat hann þannig kraflað sig í land. Hesturinn kom að landi annars staðar.
Silungurinn úr Herdísarvíkurtjörninni var allt að fimm pund að þyngd og sá besti sem Eggert hefur smakkað.
Man ekki eftir að hafa séð drauga, en eina sýn sá hann 10 ára, sem hann gleymir aldrei. Í hvammi norðvestan við húsið, skammt austan við hrútakofann (sjá uppdrátt) sá hann einu sinni tvo stráka. Gísli var þá með honum.
Ekki vissi Stekkur við Stakkavíkhann til að aðrir strákar ættu að vera þarna. Þeir voru klæddir í stuttar hnébuxur, með grænar húfur með tíglamynstri og háa reimaða skó. Spjald var aftan á peysunum. Hann kallaði í Gísla og horfði augnablik af þeim, en þegar hann leit til þeirra aftur voru þeir horfnir. Hann hafi alltaf verið sannfærður um að þar hafi huldufólksstrákar verið á ferð. Sá þá aldrei aftur. Betur klæddir en allt sem hann hafði áður séð.
Eggert sló eitt sinn álagahól við Suðurkot í Vogum. Hafði verið bannað að slá hólinn. Hafði líka slegið of ofarlega þegar honum var varnað að halda áfram. Í framhaldi af því blindaðist önnur kvígan á Efri-Brunnastöðum og drapst síðan. Vildu menn meina að það hafi orðið vegna þessa atburðar.
Var einu sinni í níu klukkutíma aftur á vörubílspalli á tveggja manna Fordbíl frá Hveragerði að Kolviðarhól. Hann hélt á sér hita með því að moka snjó frá bílnum ásamt bílstjóranum. Þrír aðrir sem voru með á bílnum fóru af og voru þremur tímum á undan að Kolviðarhóli.
Bátaskjól neðan við bæinnKristmundur keypti bát til að nota á Hlíðarvatni og var hann fluttur með vörubifreið frá Reykjavík og til Vogsósa. Eggert var þá unglingur og var hafður aftur á palli ásamt saltfiski og öðru. Báturinn var með fjórum árum, langur og mjór. Þeir settu í hann “GOJA” vél 1.5. hestöfl. Hann gekk lengi mjög vel. Engar grynningar voru í vatninu, nema þar sem tjarnirnar eru. Yfirleitt um þriggja faðma dýpi í vatninu.
Vörðurnar, beggja vegna vegarins skammt vestan Herdísarvíkur, eru þar sem vegavinnumenn með jarðýturnar mættust með vegina að austan og vestan. Í Herdísarvíkurtjörn var besti silungur, sem hann hefur borðað. Hann kom upphaflega úr Hlíðarvatni. Man eftir gamla bænum í Herdísavík. Drakk þar kaffi hjá Ólafi Þorvaldssyni. Skemmtilegasti maður sem hann hafi hitt. Fór mikið á rjúpur og í annan veiðiskap. Ólafur fór nauðugur frá Herdísavík. Garðanir austan bæjar Herdísarvíkur, voru hlaðnir af vermönnum. Þórarinn Árnason, sonur Árna í Krýsuvík, lét vermenn hlaða þá í landlegum. Þeir græddu einnig upp hraunið með slori. Þannig er Gerðið meira og minna grætt upp – með slóginu.

Hlaðan í Stakkavík

“Gerðið er illa farið af sjávargangi. Gísli móðurbróðir minn nýtti sér næst austustu sjóbúðina um tíma. 70 hestar heys fengust af Gerðinu. Þórarinn lét líklegast hlaða fjárhúsin; Langsum og Þversum, semþar eru. Húsin tóku um 400 fjár. Þá var fé haldið í Breiðabáshelli (300-400 fjár). Alltaf var ákveðin hræðsla um að sjórinn flæddi inn í hellinn. Skiparéttin var í krikanum þar sem fjárréttin varð síðar (sjá uppdrátt).
Fálkageiraskarð er skammt austan Lyngskjaldar. Einar Júlíusson, vinnumaður, náði nafna sínum, Einari Ben. í skarðinu er hann var á leið í sorann fyrir sunnan. Einar hélt þá fram að hann væri “fangi á milli tveggja svartra fjalla”.
Benti á Hulduþúfuhól sunnan vegar austan Herdísarvíkur, hægra megin við gömlu götuna. Saga er tengd honum. Gísli hafði einhverju sinni heyrt söng innan úr hólnum. Eftir það var hann nefndur Hulduhóll.

Þegar ekið er niður í Stakkavík eru fiskgarðar á hægri hönd sem og tveir hlaðnir kálgarðsveggir. Klettur, klofinn er hægra megin við veginn, neðan eystri kálgarðsins. Þar er sem heitir Gálgaklettar. Eggert sagði sögn segja að þar hafi menn verið hengdir fyrrum. Sjá má tóftir gamla bæjarins í austasta hólnum út í vatninu neðan við núverandi bæjarstæði. Eftir að hækkaði í vatninu þurfti að færa bæinn upp á hólinn, sem rústir hans eru nú.

Álfakirkjan - sú rétta

Vestan við hann er jarðhús, sem Guðni í Þorkelsgerði byggði, og við hlið þess gamalt fjárhús, sem var notað til að baða fé. Hrútakofi er ofan og utan garðs. Í Austurnesi eru tvö beitarhús. þau tóku 170 og 200 fjár. Eystra húsið var stærra. Rétt er á Réttarnesi og þar, ofan við Botnavík, eru smalabyrgi.
Eggert sagði að fyrrum hafi verið farið með hesta upp Selskarð. Þegar komið var niður með þá þurfti að setja rófubönd undir stertina og tók þá jafnan í.
Mjög varasamt var að fara norður fyrir vatnið þar sem þar voru miklar skriður. Hægt var að fara með fé og á hestum með því að vera upp í fjallinu, upp undir klettabeltinu.
Kleifarvallaskarð er austan Selstígs, austar er Urðarskarð og þá Hlíðarskarð.
Hlíðareyja fylgdi Stakkavík, austarlega á Hlíðarvatni. Hún var dagslátta.
Eggert keypti fyrst byssu 13 ára í Veiðivöruversluninni í Reykjavík, haglabyssu. Kostaði þá 75 kr. Dró 80 faðma. Mesti kostagripur. Hann hafði farið ásamt bróður sínum í Veiðivöruverslun Reykjavíkur, en fékk ekki afgreiðslu. Gistu þeir hjá Þórði Eyjólfssyni, fyrrum bónda á Vogsósum, sem þá var fullorðinn. Gekk hann við fallegan staf með glerhandfangi. Eftir fýluferðina í búðina og mikil vonbrigði fór Þórður með þeim og keypti byssuna.

Fjárhús í Stakkavík

Á heimleiðinni stillti Þórður göngustafnum upp á veggi og garða og sýndi drengjunum hvernig ætti að fara að og þeir öpuðu eftir með byssunni. Vegfarendur urðu undrandi og gerðu athugasemdir. Þá sagði Þórður: „Þeir fara sér ekki að voða ef þeir kunna með hana að fara“. Skeptið, sem var mjög fallegt, tapaðist af byssunni þegar Jón Eldon, reyndi að kraka önd að landi sem hann hafði skotið við Herdísarvíkina. Seinna var svo smíðað nýtt skepti.
Sveinn Halldórsson í Bjargi í Selvogi var þúsundþjalasmiður. Hann gerði við m.a. útvarpstæki. Gísli fór með útvarpstæki til viðgerðar hjá Sveini. Þegar hann gekk til baka til Stakkavíkur og var að fara um Víðisand heyrði hann að honum var veitt eftirför. Hann byrjaði að hlaupa og það sem var á eftir honum fylgdi á eftir og skrjáfaði í því eins og skeljum. Hann var alveg skelfingu lostinn og hljóp eins hratt og hann gat. Hann komst undan en allir lamparnir voru brotnir í tækinu eftir öll hlaupin.
StakkavíkurborgMikill draugagangur var jafnan í Nesi í Selvogi. Bóndi, sem bjó á undan Guðmundi í Nesi, Þorbjörn Guðmundsson, tók alltaf steina úr gamla kirkjugarðinum þegar hann vantaði byggingarefni. Þetta hefndist honum fyrir, eins og dæmin sanna og sagnir geta um.
Guðmundur í Nesi var best gefni bóndi sem hann þekkti. Hann reisti girðingu sem náði frá Selvogsvita, upp á Geitarfell og niður á Þrívörður. Skildi eftir 2. fet af landinu utan girðingar og setti 200 sauði á beit utan girðingarinnar við lítinn fögnuð annarra bænda.
Magnús í Krýsuvík hélt fé í fjárhúsinu á Krýsuvíkurheiði. Hann hélt einnig fé í Litlahrauni. Þegar Magnús hafði drepið fé sitt og flust til Hafnarfjarðar gekk hann á hverjum degi upp á Jófríðastaðahól, settist á hann og horfði síðan daglangt í áttina til Krýsuvíkur. Sonur Magnúsar í Krýsuvík gaf honum nokkur lömb (kindur) þegar hann sá söknuðinn hjá föðurnum. Magnús flutti þá aftur til Krýsuvíkur með lömbin, en fjölskyldan varð eftir í Hafnarfirði.
Fjárhús frá StakkavíkLandamerki Krýsuvíkur og Herdísarvíkur er milli dysja Herdísar og Krýsu. Hann hafi alldrei heyrt annað nefnt. Sýslumörkin eru hins vegar við Sýslustein með stefnu í Seljabót.
Beitarhúsin í Stakkavík voru í Höfðanum. Þaðan var féð rekið til beitar á vetrum niður í fjöru í landi Vogsósa (Löngusker) og setið yfir þeim í tvo tíma. Ferðin fram og aftur í Löngusker tók fjórar klst, ferðin alls um sex klst. Skipt var á fjörubeitinni og venjulegri beit við Vogsósabóndann.
Smalar sváfu stundum í hellinum undir Hellunni við Kleifarvatn.
Stakkavíkurfjárborgin er við Borgarhóla. Hún gat hýst 70 kindur. Eggert vissi ekki hver byggði borgina, en hún er nokkuð gömul og óvenju heilleg. Álfakirkja sú, sem jafnan er nefnd svo í ritum og er sögð vera austan við borgina, er í rauninni mun austar, svolítið austan fjárhússtóftanna neðan Selstígs.
Í ferðinni var Eggert greinilega á heimaslóðum. Hann þekkti sérhvern stað með nafni, tiltók örnefni og sagði sögur af liðnum atburðum. Honum er þökkuð samfylgdin þennan fagra dag febrúarmánaðar.
Eggert lést þann 12. jan. 2010.
(Frásögn og lýsing Eggerts á aðstæðum og mannlífi í Stakkavík og Herdísarvík samrýmist vel öðrum lýsingum, sem fram koma hér á vefsíðunni).

Hér má sjá og heyra viðtal Jóhanns Davíðssonar við Eggert.

Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson og Sesselja Guðmundsdóttir skráðu.

Stakkavík

Hlíðarvatn – Stakkavík – örnefni.

Þorkell Kristmundsson

Þorkell Kristmundsson lést á Landsspítalanum 24. apríl 2003 eftir slys, sem hann varð fyrir þann 30. mars.
Þorkell fæddist í Stakkavík í Selvogi 12. september 1925. Foreldrar hans voru Kristmundur Þorláksson, bóndi í Stakkavík, og Lára Elín Sceving Gísladóttir, frá Ertu í Selvogi. Systkini Þorkels eru Gísli, f. 1918, Eggert, f: 1919, Elín Kristin, f: 1923, Anna Sigríður, f: 1924, og Lárus Ellert, f: 1931. Valgeir , f: 1921, lést 2001.

Þorkell

Þorkell Kristmundsson

Fimmtudaginn 6. mars 2003, eða rúmlega þremur vikum áður en slysið varð, fór FERLIR að Herdísarvík og Stakkavík í fylgd Þorkels – í frábæru veðri. Þorkell var í Stakkavík fram til 1943, eða þangað til hann fluttist að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hér á eftir verður getið um hluta af því sem bar á góma í þessari síðustu ferð Þorkels í heimahagana.

Ekið var um Krýsuvíkurveg. Þegar komið var upp úr Vatnsskarði með útsýni inn í Fagradal sagði Þorkell að áður fyrr hefðu þeir bræður farið upp Mosaskarð á Stakkavíkurfjalli ef þeir ætluðu til Hafnarfjarðar með rjúpur eða endur, sem skotnar höfðu verið, áfram upp á fjöllin, framhjá Eldborg og komið niður Fagradalsmúlann, einkum að vetrarlagi. Sú ganga hafi jafnan tekið fimm klst. í stað átta, sem hefði tekið þá að fara Selvogsgötuna. Þegar hún var farinn var venjulega komið niður í Kerlingaskarðið, þar sem Selvogsgatan liggur um í dag, en ekki Grindarskörðin, sem eru þar skammt austar. Hann var aldrei með drykk með sér, treysti t.d. á að drykkjarsteininn við Selvogsgötuna væri með vatni.

Krýsuvíkurkirkja á þessum tíma

Krýsuvíkurkirkja.

Þegar farið var á milli Stakkavíkur og Grindavíkur var oft gist í Krýsuvíkurkirkju hjá Magnúsi Ólafssyni. Það gat þó orðið köld vistarvera þegar hætt var að kynda ofninn á kvöldin því reynt var að fara sparlega með rekaspýturnar sem notaðar voru til upphitunar. Magnús var lítt hrifinn af því er ofninn varð kynntur rauðglóandi. Það var þó oft gott að geta gist þarna á löngu ferðum.
Nokkrar góðar sögur fylgdu í kjölfarið. M.a. þegar fara þurfti með 300 sauði til slátruna til Einars ríka í Grindavík eftir að fé þeirra var tekið í Ölfusréttir þar sem upp kom riðuveiki. Hann hefði sofið með Ísólfi á Skála í hellinum við Lat. Ísólfur var þá með fjárhús úr járni skammt frá vegamótunum að Selatöngum. Þangað var gott að koma með féð sem þá var orðið uppgefið eftir að hafa verið rekið alla leiðina að austan.
Þorkell sagði frá smala, sem týndist í þoku í Krýsuvík, en kom fram daginn eftir. Hann var allur blóðugur í hvítri úlpu og sagðist hafa orðið að slátra 18 sauðum vegna riðu. Smalinn var vitlaus og gólaði og var það til vitnis um að óveður væri í nánd. Til Krýsuvíkur frá Hafnarfirði var venjulega farið upp með Undirhlíðum og austur fyrir Kleifarvatn. Vatnið náði þá upp undir fjósið, sem nú er. Ný tún mynduðust þegar lækkaði í vatninu. Þegar Magnús í Krýsuvík var ungur hélt Árni sýslumaður Gíslason honum við sauðahúsið á Krýsuvíkurheiði (Jónsbúð) og þaðan mátti hann ekki víkja. (Gæti verið skýringin á hlaðna húsinu sunnan undir heiðinni). Magnús nýtti síðar Arngrímshelli í Klofningum sem fjárskjól.

Stakkavík

Stakkavík – álfakirkjan.

Ekið var framhjá hlöðnu skjóli utan í Fjárskjólshrauni. Þorkell sagði það t.a.m. hafa verið notað yfir fé. Hann taldi þó að skjólið hafi oftast verið notað af ferðamönnum. Ekki hafi verið þak yfir því.

Þorkell var í skóla í Torfabæ í Selvogi þar sem kennt var í litlu herbergi í kjallaranum. Það hafi kennt Þórður frá Hveragerði, einfættur.

Þegar ekið var eftir Herdísarvíkurvegi var komið að tveimur hlöðnum vörðum beggja vegna vegarins skömmu áður en komið var að Herdísarvík. Þær voru hlaðnar þarna þegar vegirnir mættust, annars vegar að vestan og hins vegar að austan. Menn voru heilt sumar að gera veg við Krýsuvík. Þeir voru að hlaða upp kanta með lélegum verkfærum. Í ágúst komu tvær jarðýtur og voru menn þá sendir heim. Ýtunar fóru á tveimur dögum frá Krýsuvík og að Herdísarvík og ruddu þar með veginn.

Grænaflöt er upp undir Herdísarvíkurfjalli. Þar sagði Þorkell að hann hefði verið viðstaddur þegar tveir hestar voru skotnir á Grænuflöt. Annar var reiðhestur Einars, „Brúnn“, og hinn hestur Hlínar sem hún keypti fyrir son sinn austur í sveitum. Sá var leirljós og mjög viljugur. Hestarnir voru orðnir gamlir. Hann aðstoðaði síðan Hlín við að dysja hestana í miðju túninu og var gerður kross, c.a. einn metri, úr steinum, yfir dysinni. Hann á að vera um miðja flöt.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Þá var komið að Herdísarvík. Þorkell sagðist minnast vondra veðra. Hlín hafi t.d. flúið með Einar Ben. vafinn í teppi þegar gerði ofsaveður af suðvestri. Bærinn varð þá umflotinn og þurftu

þau að hafast við um hríð í hellisskúta ofar í hrauninu. Sonur Hlínar átti bát með vél. Utan við víkina lágu stundum tugir skútna. Hann minntist þess að hann hafi, ásamt dóttur Hlínar og Kela, farið á páskadag út í skútur, færeyskar, í góðu veðri. Skútusjómennirnir komu oft til Herdísarvíkur og náðu í ís í bergið. Þeir voru að spara hafnargjöld. Þeir fóru þá gangandi upp í Mosaskarð og náðu í snjó sem þeir báru síðan á bakinu niður í Herdísarvík. Eitt sinn hafi hann horft á bát vera með yfirfull net alveg upp undir tanganum við Herdísarvík. Svo mikill var fiskurinn að þeir voru nærri reknir upp á fjöru. Hann sagðist telja að Hlín hefði ekki efnast mikið á sölu til skútumanna úr íshúsi sínu. Sagðist minnast þess enn hve kjötið hafi verið gott úr reykhúsi Hlínar og því reykurinn hafi verið orðinn svo kaldur þegar hann hafði farið eftir stokknum inn í reykhúsið. Hann vissi til þess að Kristján Eldjárn hafi skoðað fiskigarðana við Herdísarvík, sem eru þarna nokkrir kílómetrar að lengd í það heila tekið.

Haldið var inn í Gerðið austan Herdísarvíkur. Þar er vel gróið, bæði í kringum sjóbúðirnar og fjárhúsin skammt austar. Þorkell sagði að þarna hefði áður verið brunahraun líkt of ofar. Sjómennirnir hefðu hins vegar borið slor á hraunið og því hafi það gróið svona vel upp. Garðana hlóðu sjómennirnir í landlegum. Hann nefndi sjóbúðirnar og sagði að þar vestar hafi verið bátarétt. Hún er nú kominn undir kampinn. Neðan hennar var lendingin. Hann sagði fjárborgirnar tvær hafa verið austast á túnin þar sem fjárhúsin Þversum og Langsum eru nú. Fyrrum hafi þau verið hlaðnar fjárborgir, en síðar verið reft yfir.
Þorkell lýsti staðháttum Hann sagði m.a. að klettabelti (dökkur blettur) beint upp af og austan við Mosaskarð nefndist Hamragerði. Þar austan við eru Mjóigeiri og Breiðigeiri. Þá tekur Nátthagaskarðið við, en neðan þess og vestan við er Flatiskógur. Austan við skarðið er Lyngskjöldur.

Álfakirkja

Haldið var um Stakkavíkursvæðið. Litið var á Stakkavíkurborg, en Þorkell sagði að götóttur hraunklettur sem þar er skammt austan við hefði ranglega verið nefnd Álfakirkja. Hann fylgdi okkur að hinni eiginlegu Álfakirkju síðar. Réttarnes er þarna neðar og á henni Réttin. Sagði hann frá er hann þurfti að eltast þar við ólman sauð í ull. Var hann í vandræðum með að að handsama sauðinn, en gat loks króað hann af í réttinni á Nesinu, en hrúturinn hafi verið orðinn svo vitlaus að hann stökk yfir vegginn og út í vatnið. Þorkell sagðist hafa séð á eftir hrútnum langt út á vatn þar sem hann hafi synt í nokkra hringi og sokkið síðan. Inn í vík einni þarna skammt frá hafi snjóhengja fallið yfir 16 kindur eitt vorið og kæft þær allar. Bóndi missti eitt sinn 300 fjár þegar vatnið lagði og féð fór yfir að nóttu til og flæddi í skerjum. Svona hafi nú lífið verið í þá daga.

Neðan við Selsstíg heitir Höfði. Þar eru tvær stórar útihúsatóttir frá Stakkavík neðan við veginn. Í austanverðum Höfðanum er hin rétta Álfakirkja, kletthóll með glugga að því er virðist. Þorkell sagði að Gísli, bróðir hans, hafi eitt sinn smíðað og reist kross upp á hólnum. Um nóttina dreymdi hann að álfkona kæmi til hans og skipaði honum að fjarlægja krossinn, ella myndi hann hafa verra af. Daginn eftir lá krossinn við hlið kirkjunnar í fjórum pörtum.

Ekið var niður að Stakkavíkurbænum. Á leiðinni eru tvö hlaðin gerði við veginn. Sjá má móta vel fyrir gamalli ruddri götu í gegnum hraunið. Gerðin sagði Þorkell að hefðu verið kálgarðar. Þegar komið er að Stakkavík er þar fyrir hlaðin rétt, hvammur niður við vatnið, hrútakofi, kartöflukofi, lambús og bæjarhúsinn þar sem steyptir gaflarnir eru fallnir út. Þorkell sagði að eldri bærinn hafi verið þar sem norðvesturhornið á húsinu er nú. Enn eldri bær var þar sem nú er stór hólmi í suðri út í vatninu, en hann lagðist af þegar hækkaði í vatninu. Þorkell sagði að Eggert bróðir hans hefði eitt sinn verið við hvamminn, en í honum var báturinn jafnan geymdur, þegar hann hafi séð huldudrengi vera að leika sér þar. Þeir hefðu verið í litskrúðugum peysum og með skrautlegar húfur. Þetta hafi enst um stund, en þeir síðan horfið sjónum hans. Þorkell sagðist lítt hafa trúað að álfa- og draugasögur. Hann hefði þó einu sinni séð draug, en það var ofan við bæinn Hlíð. Þar hefði hann séð mann, sem nokkru áður hafði drekkt sér í Hlíðarvatni. Söng hefði hann hins vegar aðeins einu sinni heyrt úr klettum. Það var í Hafnarfjarðarhrauni þegar hann var þar á ferð. Talaði hann um hve mikið hefði verið eyðilagt af fallegum stöðum í hrauninu, klettum og hraunbollum.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Þá var haldið í Breiðabás. Ætlunin var að reyna að staðsetja opið á Breiðabáshelli. Eftir að Þorkell hafði litast þar um stutta stund, tekið mið og kannað kennileiti, s.s. gömlu fjárgötuna ofan úr hrauninu, gekk hann að tilteknum stað á kampinum, gegnt götunni, staðnæmdist, benti niður fyrir sig og sagði: „Hér er opið – gæti skeikað tveimur til þremur metrum“. Áður hafði verið leitað að opinu á þessu svæði, en á röngum stað og munaði þar allnokkru. Þorkell sagði að áður fyrr hafi varða verið ofan við opið, sem kampurinn hefur nú algerlega hulið. Opið hafði snúið út að sjó. Þurfti að loka hellinum þegar óveður gekk yfir til að koma í veg fyrir að fé flæddi inni í honum. En þarna væri opið undir.
Sögn er til að smali hafi verið heilan dag í villu í hellinum. Þorkell sagðist muna að hæðin á opinu hafi verið í axlarhæð. Inni hafi verið salur og í honum þröngt op inn úr. Þegar komið var inn fyrir þrenginguna tók við víð rás. Sjálfur hafi hann aldrei farið þar inn, enda lítt hrifinn af hellum. Í sumum hellum höfðust villikettir við í, illir viðureignar. Einn félagi hans varð t.d. eitt sinn fyrir alvarlegri árás villikattar. Honum hafi verið komið til bjargar þegar kötturinn var rifinn af honum. Bar hann merki eftir viðureignina alla ævi.

Í spjalli við Þorkel kom fram að foreldrar hans hefðu verið það gott vinafólk fólksins í Guðnabæ í Selvogi að við fæðingu hafi hann verið skírður í höfuðið á Þorkeli Árnason, sem síðar bjó á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, langafa eins þeirra, sem var með í þessari fróðlegu síðdegisferð í Herdísarvík og Stakkavík.

Líf Þorkels snérist um fé, bæði á meðan hann var í Stakkavík og á Brunnastöðum.
“Ég vildi aldrei vera annað en fjármaður”, sagði hann skömmu áður en hann kvaddi samferðamenn sína með virtum á hlaðinu á Brunnastöðum. Nokkrum mánuðum varð hann undir heyrúllu og lést skömmu síðar.

Minningin um Þorkel Kristmundsson mun lifa.

Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson skráðu.

Stakkavík

Stakkavíkurborg.

Stakkavík

Eftirfarandi eru glefsur úr handrituðum minningum Sigurðar Þorlákssonar, trésmiðs í Hafnarfirði.
Kristmundur Þorláksson
Sigurður var bróðir Kristmundar í Stakkavík, síðar á Brunnastöðum. Í minningum sínum segir hann m.a. frá uppvextinum, sveitardvöl meðal ókunnugra á Vestfjörðum, vinnumennsku í Herdísarvík á fyrri hluta 20. aldar, verbúðarlífinu þar, upphaf búskapar Kristmundar í Stakkavík, lífsbaráttunni og mannlífinu í Hafnarfirði o.fl. Hér verður getið um dvöl hans í Herdísarvík hjá Þórarni bónda Árnasyni.

Í minningunum kemur fram að faðir Sigurðar var Þorlákur Guðmundsson, fæddur á Eyvindarstöðum á Álftanesi, 16. mars 1842. Móðir Sigurðar var Anna Sigríður Davíðsdóttir frá Bakka í Vatnsdal, fædd 9. júlí 1856. Systkini Sigurðar voru Júlíus (1881), Kristmundur (1883), Anna (1886), Sigríður Rósa (1889), Sigurður Gunnlaugur (1891) og Una Jarþrúður (1896). Ekki er getið um fæðingarár Sigurðar.

Stakkavík

….“Kristmundur bróðir minn var mikill áhugamaður fyrir sauðfé. Hann var búinn að eignast fáeinar kindur, en honum þótti ekki gott að hafa þær í bænum. Kaldársel var þá komið í eyði, en fjárhúskofi stóð þar uppi. Hann fékk afnot af Kaldárseli og fór með kindur sínar þangað og hafði þær þar ein 2 til 3 ár. Þetta hlýtur að hafa verið erfitt, að gegna fénu þar, og eiga heima í Hafnarfirði og stunda þar vinnu, og ganga fram og til baka…”
“…Kristmundur var þá vinnumaður í Hvassahrauni, hann fór með mér að Herdísarvík, við fórum þangað gangandi. Þrúða systir mín var þar þá. Við fórum snemma á sunnudagsmorgni, og þegar við komum að Herdíasarvík, fréttum við að verið væri að ferma hana í Strandarkirkju, svo við héldum áfram þangað, og vorum við ferminguna. Það merkilega skeði, að hún þekkti mig, sú eina af mínu fólki, þó var hún aðeins 5 ára þegar ég fór vestur. Ég dvaldi rúman mánuð fyrir sunnan og nú kom að því að fara vestur aftur….”.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

“….Ég var hjá foreldrum mínum um veturinn, en það var frekar lítið að gera. Þrúða systir mín var þá vinnukona í Herdísarvík, svo ég tók mig til og fór í heimsókn til hennar. Þetta var á jólaföstunni. Ég fór klukkan 8 um morguninn á stað og ætlaði að fara Grindarskörð yfir fjallið. Ég vissi nokkurn veginn afstöðuna, en hafði aldrei farið þessa leið áður. Ég fór í góðu veðri að heiman, en þegar upp að fjallinu kom, skall á þreifandi bilur, en lygn. Síðan held ég upp á fjallið. Eftir góða stund kem ég að gjótu, sem mér virtist vera gamall eldgígur. Eftir 1 ½ tíma kem ég á sama stað og endurtekur sig þrisvar. Þá sé ég að ég er orðinn villtur, tek mig því til og gref holu í snjóinn með löngum broddstaf, sem ég var með og leggst og ligg þarna eina 4 tíma. Mér leið ekkert illa, nema mér var kalt á fótum, en gat náð skónum af mér og gat haft fæturna í sokkaleggjunum og þá leið mér betur. Ég var vel búinn svo að mér var ekki kalt.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Það var kominn talsverður skafl yfir mig, en ég hafði nóg loft, hafði stöngina til að rétta upp úr skaflinum.
Nú fór ég að brjótast upp úr fönninni, en ekkert vissi ég hvar ég var staddur, eða hvert halda skyldi. Ég taldi að stutt væri til Herdísarvíkur. Þegar upp úr fönninni kom frusu fötin mín, því það voru svo þykk vaðmálsföt, og var mér því erfitt um gang, held samt áfram, en veit ekkert hvert halda skal.
Klukkan 8 um morguninn eftir er ég kominn niður í Lækjarbotna rétt fyrir ofan Hafnarfjörð, þar þekkti ég mig. Svo það er nú skammt heim. Ég var orðinn bæði þreyttur og svangur, búinn að vera sólarhring í túrnum og oftast á labbi. Ekki hafði ég hugmynd um hvar ég hafði farið ofan af fjallinu, að líkindum fyrir austan Grindarskörð, því fjallið er allstaðar svo bratt annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Tveimur árum síðar, þegar ég var að smala, rakst ég á staðinn þar sem ég gróf mig í fönnina, fann stafinn, hann hafði brotnað þegar ég var að grafa mig í fönnina. Það var í Brennisteinsfjöllunum, einn eða tvö tíma frá Herdísarvík.
Svona fór um sjóferð þá, en ekki dugði að hætta við ferðina. Eftir jólin bauðst mér samfylgd með manni sem var að fara til Krýsuvíkur og slóst ég í ferð með honum, og fór svo einn þaðan til Herdísarvíkur. Þetta er auðvitað helmingi lengri leið. Nú gekk allt vel, og ég komst til Herdísarvíkur, og var þar nokkra daga.
Síðan varð mér samferða til baka Indriði Guðmundsson, sem var þá vinnumaður þar.
Í Herdísarvík bjó þá Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar, sýslumanns frá Kirkjubæjarklaustri, síðar bóndi í Krýsuvík. Kona Þórarins var Ólaf Sveinsdóttir. Hann spurði mig hvort ég vildi ekki koma til sín vinnumaður í vor. Ég sló til og fór þangað um vorið. Þrúða fór þaðan sama vorið, og fór þá til foreldra okkar. Þarna var margt fé, um 6 til 7 hundruð ær. Það gekk úti allan veturinn. Það var erfitt að smala því á vorin, því bæði var mikil yfirferð, og féð villt. Við vorum tveir við smalamennskuna á vorin. Þetta vor vorum við Indriði saman. Það gekk vel hjá okkur því við vorum samhentir við það. Það var smalað daglega og rekið í rétt, og rúið, og mörkuð lömb, sem ekki var búið að marka í haganum.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Mér þótti skrýtið fyrirkomulag hjá Þórarni, að þegar maður var búinn að hafa mikið fyrir að koma því heim, að hleypa því út úr réttinni, klukkan 10 á kvöldin, það sagði hann að hefði alltaf verið vani hjá sér. „Þetta þykir mér ljótur vani“, sagði ég. „Maður er búinn að hafa það mikið fyrir að koma því heim“. Ég sagði, að mér fynndist sjálfsagt, að hleypa ekki út úr réttinni fyrr en búið væri að rýja það sem væri orðið það fyldið, að hægt væri að taka af því ullina.
Meiningin hjá auminga karlinum var auðvitað að hlífa okkur við of löngum vinnutíma. En þetta var mjög vitlaust fyrirkomulag. „Það er þá best að bæta úr því, úr því að þið óskið eftir því“. Þetta var mjög gott heimili og húsbændurnir ágætis manneskjur.

Herdísarvík

Vinnufólk í Herdísarvík.

Á heimilinu voru húsbændurnir, við smalarnir tveir, það er að segja tvo mánuði, hinn tímann einn, og gömul kona, sem Hólmfríður hét. Hún var búin að vera 30 ár vinnukona hjá föður Þórarins, svo þegar hann hætti að búa fór hún til Þórarins, og gaf honum Prófentu sína, það var svo kallað þegar gamalt fólk afhenti, ef það átti eitthvað til, og áttu þá húsbændurnir að sjá fyrir þeim til dauðadags, án þess að borga því kaup. Þetta var dygðugt hjú, og ágætis kerling. Hún hefur verið komin yfir sjötugt þegar ég var þarna. Hún var hjá þeim til dauðadags.
Þórarinn sagði mér, að þegar hún var hjá foreldrum hans, á sínum yngri árum, hefðu maður beðið hennar sér til konu. Áður en hún lofaðist honum, fer hún til sýslumanns, og segir honum frá þessu og spyr hann hvernig honum lítist á þetta. Hann ráðlagði henni að eiga ekkert við þetta. „Auðvitað af því að hann vildi ekki missa hana“, sagði Þórarinn og hún var kyrr og giftist aldrei.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Það var mikið borðað af kjöti í Herdísarvík, vanalega þrisvar á dag. Til miðdags var alltaf kjötsúpa, elduð úr tómri mjólk. Á morgnana var kalt kjöt og hveitibrauð og silungur á vorin og sumrin, aldrei annar fiskur. Á kvöldin brauð, slátur og kjöt. Kjötsúpan var alla daga ársins, jóladaginn eins og aðra daga. Ég varð aldrei leiður á kjötsúpunni, enda var kjötið mjög vel verkað, húsmóðirin sjálf saltaði alltaf kjötið, og tókst það mjög vel.
Það var venja að slátra til heimilisins 75 til 100 lömbum á haustin, svo það mátti heita sæmilegar byrðir handa fjórum manneskjum. Fimmti maðurinn var tvo mánuði. Um vorið sagði ég einhvern tímann við Þórarinn að mér finndist lélegt að umgangast svona margt fé og eiga enga kind sjálfur.

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Já, það er nú satt“, segir hann og fer og nær í kind, og segir: “Þessa máttu eiga”. Ég var ekkert sérlega hrifin af henni, og segi: „Ég hefði nú helst viljað velja mér hana sjálfur“.
„Jæja, þá skalt þú gera það“. Ég sá að hann móðgaðist við mig aumingja karlinn, hann hafði nefnilega mjög lítið vit á kindum að mér fannst, og hefur náttúrlega valið mér það besta sem honum fannst.
Eftir að búið var að smala og rýja um vorið, fór Indriði og var ég þá einn eftir með gamla fólkinu. Þetta var nú dálítið einmanalegt, því maður sá ekki mann utan heimilisfólið, svo mánuðum skipti. Trjáreki var þarna töluverður og var það notað til eldsneytis, að mestu leiti, og varð að reiða það heim af fjörunum, og saga það og höggva í eldinn. Svo byrjaði búskapurinn, það voru tvö tún, heimatúnið, og svo nefnt Gerði, þar sem fjárhúsin voru, þau gáfu af sér um 200 hesta af heyi, engar útengjar voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Á bænum voru 2 kýr og 2 hestar, 6 til 7 hundruð ær, vanalega sett á 100 lömb á haustinn. Féð gekk úti allan veturinn, og var aldrei gefin heytugga. Mest voru tekin á gjöf 10 lömb, og þá lítin tíma.
Um haustið kom Kristmundur bróðir í heimsókn til mín. Hann var þá búinn að vera nokkur ár vinnumaður norður í Húnavatnssýslu, og átti þar margt fé og tvo hesta. Hann hafði fargað fénu og bar sig nú aumlega, að eiga enga kind. Hann sagðist eiga mikið af peningum. Hann sagðist vilja fara til Manitopa, og vildi fá mig með sér. “Ég á nóga peninga fyrir okkur báða”, sagði hann, en ég var ekkert hrifinn af því. Hann langaði til að vera nálægt mér.

Stakkavík

Stakkavík – gerði.

Næsti bær við Herdísarvík er Stakkavík. Þar bjó ekkja með tveimur börnum sínum uppkomnum, Láru og Gísla. Hún hét Valgerður Scheving. Hún hafði lítið bú, eitthvað um 30 ær, 1 hest og 1 kú. Sonur hennar var mjög duglegur maður, en lítið hneigður fyrir búskap, því hugurinn hneigðist að sjónum.
Nú vildi Valgerður ná sér í vinnumann svo Kristmundur réði sig fyrir næsta ár. Um veturinn réri hann í Grindavík. Hann kom til mín áður en hann fór í verið. Hann sagði: „Mikið leiðist mér að eiga enga kind, geturðu ekki útvegað mér eina rollu hjá Þórarni“? Það gerði ég, og býst við að honum hafi liðið betur á eftir. Svo bað hann mig um að geyma sparisjóðsbókina sína, meðan hann væri í verinu, „en ef ég kem ekki aftur, máttu ega hana“, sagði hann.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Um lokin kom hann, og fór þá að Stakkavík. Um haustið brá hann sér austur í Landssveit og keypti sér 50 veturgamlar ær, og 10 fyrir mig. Það þótti nú nokkuð mikið að vinnumaður skyldi hafa 50 ær og hest, eða hérumbil helmingi fleira en húsbændurnir.
Næsta ár giftist hann Láru, dóttur Valgerðar. Þá var komin í eyði næsti bær, Hlíð. Tók hann hana á leigu og nitjaði báðar jarðirnar, þar var nefnilega töluvert stórt tún, og nokkrar útengjar, en í Stakkavík var mjög lítið tún. Honum búnaðist þarna mjög vel, og fjáreignin komst upp í 6 hundruð síðar. Það var töluverð silungsveiði í vatninu, en það var mjög erfitt að búa þarna.

Stakkavík

Stakkavíkurrétt.

Um þetta leyti komu menn að máli við Þórarinn, sem höfðu hug á að gera út skip til sjóróðra í Herdísarvík. Áður hafði verið gert út þaðan fyrir mörgum árum. Hann var nú ekkert hrifinn af því, hann sagði mér að það hefði eiginlega engin heimilisfriður verið, þegar útgerðin var þar.
En hann gekkst inn á það, að leyfa þeim uppsátur fyrir hálfan hlut af skipi, ef þeir gengust inn á það, ef þeir ættu erindi við sig, þá kæmi ekki nema einn maður af skipi, og helst sami maðurinn. Nú var hafist handa að byggja verbúðirnar, þær voru byggðar milli túns og Gerðis, veggir úr torfi og grjóti, með torf þaki, gluggi á suðurstafni, fyrir ofan dyrnar, lengd 12 álnir og breidd 6 álnir. Rúm voru 4 öðru megin meðfram veggjum, og hinum megin 3. Þetta var pláss fyrir 13 menn og sváfu tveir í rúmmi, nema formaðurinn einn.

Stakkavík

FERLIRsfélagar í Stakkavík.

Þarna voru 6 búðir, sambyggðar með þykkum grjótvegg á milli, í öllum búðunum voru moldargólf, þar skammt frá var og salthús, það var timburhús.
Það var byrjað að róa þarna veturinn 1914. Það voru 6 tólfróin skip með 13 manna áhöfn, svo það fjölgaði heldur betur mannskapnum í Herdísarvík um veturinn. Átroðningur var ekki mikill af þessum mönnum, enda fyrirfram ákveðið að svo yrði ekki.
Næsta vor fór ég í kaupavinnu að Brúsastöðum í Þingvallasveit….”.
“Næsta vetur reri ég í Herdísarvík hjá Gísla í Stakkavík. Við vorum 13 á skipinu. Það var skipt á 16 staði hver maður lagði sér til 2 net, en útgerðin stjóra og stjórafæri og ból og bólfæri, og tók einn hlut fyrir það, svo var bátshlutur og formannshlutur.

Stakkavík

Stakkavík 2009.

Mat þurfti maður að hafa til vertíðarinnar. Brauðin, sem voru rúgbrauð, hengdum við upp í salthúsinu og geymdust þau furðu vel, smjör og kæfu geymdum við í skrínum sem hafðar voru fyrir ofan mann í kojunum. Prímus var til að hita á kaffi og svo suðum við stundum fisk.

Í Herdísarvík var fremur góð lending, nema í suðaustanátt. Ef brim var, seiluðum við fiskinn útá, fiskurinn var dreginn upp á svonefndar seilarólar og dreginn svo að landi, síðan þræddur á byrgðarólar í hæfilega bagga og borinn á bakinu, á þann stað sem gert var að aflanum.

Stakkavík

Stakkavík – minningarskjöldur.

Það var töluvert langt hjá okkur, um tíu mínútna gangur, svo var aflanum skipt, í svonefnd köst, voru tveir menn um kastið og gerðu þeir svo að í félagi. Skipin voru sett upp með gangspili sem var efst á kambinum, það var trésílvalningur með járnbolta innan í sem lék í járnlegu, spækur voru fjórar sem gengu inn í sívalninginn, í brjósthæð, síðan var gengið í kring, bandið, sem fest var í bátinn, vafðist um sívalninginn þar til báturinn var kominn nógu hátt upp. Tveir menn studdu bátinn meðan hann var settur upp, og einn maður lagði fyrir, sem svo var kallað, hvalbein og tréhlunna. Það var mikið léttara að setja, ef kjölurinn skarst ekki niður í mölina. Það var eingöngu róið með net, mig minnir að við fengjum 300 fiska í hlut yfir vertíðina….”..

-Úr handritaðri bók Sigurðar, „Gamlar minningar“ – Sigurður Þorláksson, trésmiður frá Hafnarfirði – útgefið 1980.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavíkurselsstígur

Haldið var upp í Stakkavíkursel á Stakkavíkurfjalli; um Selskarðsstíginn ofan Hlíðarvatns og síðan Selstíginn í selið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði heimildir um Stakkavík í febrúar 1982. Eggert Kristmundsson, Brunnastöðum, er heimildarmaður. Hann er fæddur 1919 í Stakkavík og alinn þar upp; var í Stakkavík til 1942. Móðir hans, Lára, 94 ára, ættuð úr Selvogi, kom ung að Stakkavík og bjó þar í 28 ár.

Selskarðsstígur

Selskarðsstígur.

„Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.
Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðarbrekkur.“

Gísli Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Stakkavík. Hann minnist á Selsskarðsstíginn, en ekki á Stakkavíkurselið.
„Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi. Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið. Stakkavíkurfjall eða Útfjallið var fjallið nefnt vestan úr Mosaskarði að Nátthagaskarði, og var fjallið afar bratt. Þar voru Brekkurnar eða Stakkavíkurfjallsbrekkur, Skriðurnar eða Stakkavíkurfjallsskriður.
Í Mosaskarði var Hamragerði, og lá þar um landamerkjalínan milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Þar litlu austar var svo Mjóigeiri og enn austar Breiðigeiri. Geirar þessir eru gróðurtorfur, sem liggja upp skriðurnar; þá kom ónafnkenndur partur og síðan Hrísbrekkur upp af Flataskógi og Nátthaganum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Þá kom Nátthagaskarð; hefur þar runnið niður mikill hraunfoss. Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagaskarðsstígur upp á fjallið.
Austar er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðan norður fjallið. Litlu austar eru svo Kleifar og Kleifarvallaskarð. Enn austar er Urðarskarð eða Urðarvallaskarð.
Efstu brúnir fjallsins eru nefndar Stakkavíkurfjallsbrúnir. Í Brúnunum austan til við Kleifarvallaskarð eru hellisskútar þrír, nefndir Músarhellir, Pínir og Sveltir. Hellar þessir voru hættulegir fé. Það fennti þarna, og vegna harðfennis varð því ekki bjargað. Þar af koma nöfnin.“

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Í Jarðabókinni 1703 segir um Stakkavík: „Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð“:

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Selskarðsstígur er greinilegur frá litlu bílastæði skammt ofan við fjárhúsin í Höfðum. Lítil varða er við Selskarðið. Ofar er girðing um beitarhólf. Yfir hana er tréstigi. Skammt austar er myndarleg varða og önnur norðar, fast við Selstíginn. Hann liggur að hlið á girðingunni skammt norðaustar og síðan upp með henni til norðurs. Við horn á girðingunni heldur Selstígurinn áfram upp fjallið áleiðis að selinu, en Stakkavíkurgatan heldur áfram upp með henni áleiðis að Vesturásum. Framundan gnæfir selsvarðan yfir grónu selinu í suðurbrúnum fjallsins, þar sem það er hæst. Við selið eru hleðslur eftir refaveiðimenn á a.m.k. tveimur stöðum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Stakkavík – Svör við spurningum. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði í febrúar 1982.
-Stakkavík – Gísli Sigurðsson skráði.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.