Færslur

Stakkavíkursel

Gengið var um Hellisvörðustíg vestan við Víðisand sunnan Hlíðarvatns.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Stígurinn, sem er mjög gamall, er víða greyptur djúpt í klappirnar þar sem hann liggur ofan við ströndina. Hann skiptist í tvennt á einum stað og liggur eldri hluti hans uppi á klöppunum skammt ofan við ströndina. Þar er hann einn greyptur djúpt í klöppina svo til alla leið að hraunkantinum í vestri. Hraunið rann um 1350 og fór þá yfir stíginn. Nýrri stígur, sá sem farinn var á síðari öldum, liggur ofar í gegnum hraunið og upp fyrir það á milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Þá var gengið að Stakkavíkurborginni, fallega hlaðinni, vestan við Álfakirkju. Frá henni var haldið á Selsstíginn, upp á brún Stakkavíkurfjalls. Gangan upp tók um 15 mínútur. Frá brúninni sést Stakkavíkurselsstígurinn liggja til norðurs inn á hraunið, en efst á holti í fjarska sést í vörðu. Skammt vestan við hana, upp í holtinu, eru tóttir Stakkavíkursels. Þangað var haldið. Stígurinn var genginn upp í Brekkur (Dýjabrekkur og Grænubrekkur). Þar var beygt til austurs eftir 15 mínútna göngu. Sást þá í fallegan gamlan stekk utan í brekkunum neðan við selið. Í því eru tvær tóttir norðan í og suðaustan við hraunhól. Hóllinn er holur innan og inni í honum er ágætasta vistarvera. Hlaðinn stekkur er gegnt opinu, sem vísar í austur. Vestan selsins er hlaðin kví og nýlegra skotbyrgi refaskyttu. Ofan við selið er stekkur. Enn ofar er hraunhóll, holur að innan. Í honum og við hann eru hleðslur.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Á leiðinni niður brekkurnar sást gr torfhlaðinn stekkur, nokkuð stór (sjá mynd). Neðar fundust tóttir enn eldra sels, í skjóli fyrir austanáttinni, svo til fast við Stakkavíkurstíginn þar sem hann liggur áfram í átt að Vesturásum og Hvalhnúk. Tóttir þessar eru greinilega mjög gamlar. Verður það eftirleiðis nefnt Stakkavíkurselið eldra.
Frá selinu var gengið til suðvesturs yfir Selvogshraunið. Það er ekki auðgengið vegna þess hve grámosinn er þar þykkur og hraunið bugðótt.

Nátthagi

Í Nátthaga.

Þegar komið var út úr því var gengið að neðra opi Náttahaga og það varðað. Síðan var gengið að efra opi hans og það einnig varðað. Haldið var niður um jarðfallið og upp eftir hellinum, sem er mjög víður, en talsvert hrun er fremst í efri hluta hans. Neðri hlutinn er svipaður. Eftir um 100 metra leið skiptist hellirinn. Önnur hraunrás kom ofan frá þvert á fyrri hraunrásina og lá áfram þvert niður með henni hinum megin. Þeirri rás var fylgt drjúgan spotta. Í fyrstu lækkaði hellirinn aðeins, en það kom ekki að sök því botn hans var þar heill. Síðan víttkaði og hækkaði hellirinn aftur svo um munaði og sást þá hvar hann lá að því er virtist út í hið óendanlega. Var þá ákveðið að snúa við.
Í leiðinni niður að Nátthagaskarði var “Annar í aðventu” skoðaður sem og Halli (Stakkavíkurhellir) ofan við skarðið.
Veðrið var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavíkurselsstígur

Haldið var upp í Stakkavíkursel á Stakkavíkurfjalli; um Selskarðsstíginn ofan Hlíðarvatns og síðan Selstíginn í selið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði heimildir um Stakkavík í febrúar 1982. Eggert Kristmundsson, Brunnastöðum, er heimildarmaður. Hann er fæddur 1919 í Stakkavík og alinn þar upp; var í Stakkavík til 1942. Móðir hans, Lára, 94 ára, ættuð úr Selvogi, kom ung að Stakkavík og bjó þar í 28 ár.

Selskarðsstígur

Selskarðsstígur.

“Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu.
Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðarbrekkur.”

Gísli Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Stakkavík. Hann minnist á Selsskarðsstíginn, en ekki á Stakkavíkurselið.
“Þá kom lægð í hraunið upp af Botnaviki, er hét Flöt. Þá komu Höfðar, og þar voru fjárhúsin, lágu upp frá Austurnesi. Um Flötina lá Selstígurinn, og var þetta brött leið. Stakkavíkurfjall eða Útfjallið var fjallið nefnt vestan úr Mosaskarði að Nátthagaskarði, og var fjallið afar bratt. Þar voru Brekkurnar eða Stakkavíkurfjallsbrekkur, Skriðurnar eða Stakkavíkurfjallsskriður.
Í Mosaskarði var Hamragerði, og lá þar um landamerkjalínan milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Þar litlu austar var svo Mjóigeiri og enn austar Breiðigeiri. Geirar þessir eru gróðurtorfur, sem liggja upp skriðurnar; þá kom ónafnkenndur partur og síðan Hrísbrekkur upp af Flataskógi og Nátthaganum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Þá kom Nátthagaskarð; hefur þar runnið niður mikill hraunfoss. Vestan til við hraunfossinn liggur svo Nátthagaskarðsstígur upp á fjallið.
Austar er svo Selskarð, og þar um liggur Selskarðsstígur og síðan norður fjallið. Litlu austar eru svo Kleifar og Kleifarvallaskarð. Enn austar er Urðarskarð eða Urðarvallaskarð.
Efstu brúnir fjallsins eru nefndar Stakkavíkurfjallsbrúnir. Í Brúnunum austan til við Kleifarvallaskarð eru hellisskútar þrír, nefndir Músarhellir, Pínir og Sveltir. Hellar þessir voru hættulegir fé. Það fennti þarna, og vegna harðfennis varð því ekki bjargað. Þar af koma nöfnin.”

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Í Jarðabókinni 1703 segir um Stakkavík: “Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”:

Stakkavíkursel

Selstígurinn – Hlíðarvatn fjær.

Selskarðsstígur er greinilegur frá litlu bílastæði skammt ofan við fjárhúsin í Höfðum. Lítil varða er við Selskarðið. Ofar er girðing um beitarhólf. Yfir hana er tréstigi. Skammt austar er myndarleg varða og önnur norðar, fast við Selstíginn. Hann liggur að hlið á girðingunni skammt norðaustar og síðan upp með henni til norðurs. Við horn á girðingunni heldur Selstígurinn áfram upp fjallið áleiðis að selinu, en Stakkavíkurgatan heldur áfram upp með henni áleiðis að Vesturásum. Framundan gnæfir selsvarðan yfir grónu selinu í suðurbrúnum fjallsins, þar sem það er hæst. Við selið eru hleðslur eftir refaveiðimenn á a.m.k. tveimur stöðum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Stakkavík – Svör við spurningum. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði í febrúar 1982.
-Stakkavík – Gísli Sigurðsson skráði.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Rebbi

Gengið frá námusvæði norðaustan Herdísarvíkur, við gömlu sauðfjárveikigirðinguna neðan Herdísarvíkrfjalls, upp eftir hrauninu, upp Mosaskarð með viðkomu í nýlega fundnum helli niður í gasuppstreymsirás þar sem lítil fuglsbeinagrind sagði ævisögu hans síðustu dagana fyrir alllöngu síðan, upp skarðið og um hellasvæðið ofan Stakkavíkurfjalls, áfram yfir djúpt mosahraun ofan Nátthagaskarðs, sem runnið hefur úr Draugahlíðagígnum, og yfir í Stakkavíkursel. Stakkavíkurselsstígur og Selstígur voru gengnir til baka niður af fjallsbrúnunum með viðkomu í Svelti og Píni.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Fyrir ofan bæinn er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 1-2 km.
Þegar FERLIR hafði verið að leita að opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Ekki er vitað um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í miklum halla, en einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli fyrsta sinni.

Það þætti ekki gott til frásagnar í dag, en FERLIRsfélaginn, sem að þessu sinni fetaði sig niður í hraunrásaropið og las jarðveginn að þarna kynni að leynast rás í lítilli hvylft. Tók hann flata steinhellu og byrjaði að grafa. Í ljós komu nægilega rúm göng er gætu leyft óljósa inngöngu. Skreið félaginn á maganum niður á við stutta stund, en síðan opnuðust göngin framundan. Eftir að hafa skriðið upp úr þrengslunum komu í ljós fagurlituð bogadregin göng er enduðu eftir skamman veg. Þótti honum athyglisvert að inni í þessum lokuðu göngum leyndist beinagrind af fugli.
Þegar út var komið rann upp fyrir félaganum sú staðreynd að hann hefði aldrei átt að fara niður og inn í göngin án aðstoðar; hvað  hefði t.d. gerst ef hann hefði lokast þarna inni??!!

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra ofan í hann, en best er að taka með stiga eða klifurlínu. Fyrst þegar farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar grafið var í holu syðst í henni og gjallhaug mokað frá með hraunhellu kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var inn og í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Þarna hafði enginn maður áður stigið fæti. Hins vegar hafði lítill fugl komist þangað inn, en ekki komist út aftur. Beinagrindin sagði sína sögu.

Ofan við skarið er Brúnahellir og síðan tekur hver hellirnn við af öðrum austan við skarðið.

Rebbi

Beinagrind af rebba innan við op Rebba.

Má þar nefna Rebba, Stakkavíkurhelli – Annar í aðventu og Nátthaga.
Kíkt var inn í Rebba, en til þess að skoða þann helli að einhverju ráði þarf góðan tíma. Nátthagi er langur og rúmgóður með fallegum hraunmyndunum, en einnig þarf að gefa honum góðan tíma ef skoða á hann allan.
Mikið mosahraun er ofan og austan við Nátthaga. Það er mjög erfitt yfirferðar, en með smá útsjónarsemi og tiltekin stefnumið er gefa til kynna stystu leið yfir það getur gangan tekið u.þ.b. 40 mínútur.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Þá er komið inn á Stakkavíkurselstíg. Honum var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan vikið út af honum neðan við Stakkavíkursel. Það var skoðað og síðan haldið áfram og beygt austan hraunrandar áleiðis niður að Stakkavíkurfjalli. Þar neðst í hrauninu eru hellarnir Sveltir og Pínir. Um er að ræða jarðföll í hrauninu, sem nefnd voru svo þar sem kindur vildu rata þangað niður, en urðu til þar því þær komust ekki upp aftur.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Gengið var vestur ofan við brún fjallsins. Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir að “Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu”. Gengið var yfir á Selstíginn og honum fylgt niður á þjóðveginn.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.