Tag Archive for: Stardalur

Skálafell

Í Stardal, dalnum ofan bæjarins Stardals í Kjalarneshreppi, eru a.m.k. fornar tóftir á tveimur stöðum; selstaða ofan Stardalsáar og u.þ.b. 14 metra langur skáli ofan dalsins (í Skálafelli). Við síðarnefndu tóftina má einnig sjá tóftir af öðrum minjum. Bendir það til þess að báðir staðirnir hafi verið fornir nytjastaðir. Vestari hluti dalsins er mýrar og keldur, en sá austari er öllu þurrari; svonefndir Akurvellir.
Stardalur-339Ari Gíslason skráði örnefni í Stardal. „Austasta jörð í Kjalarneshreppi. Upplýsingar um jörðina og nágrennið gaf Jónas Magnússon, verkstjóri og bóndi þar. Einnig er sóknarlýsing Bókmenntafélagsins 1840 höfð til hliðsjónar og aukið skýringum eftir henni. Þess skal geta, að á austurjaðri landsins er ekki farið eftir merkjum jarðarinnar, heldur farið þar austur á heiðina smávegis. Er það sökum þess, að Jónas er þar allra manna kunnugastur, og sé ég ekki ástæðu til að skilja það frá að sinni.
Þetta er fallegur dalur, sléttlendur og grasgefinn í botni.  Er þetta því mikið engjaland og dalurinn, sem gefið hefur bænum nafn sitt.  En áður mun bærinn hafa heitið  Múli. Hallur goðlaus bjó í Múla.  Gæti það hafa verið hér og nafnið svo breytzt, er jörðin fór í eyði og var lengi í auðn.  Inni í Stardal virðast vera byggðarleifar, og til er nafn á einu slíku, Akurvellir, innarlega í dalnum, milli Bolagils og Beinagils.  Þarna voru tættur, sem áin er að rifa niður. Neðan við Flágil voru einnig tættur sýnilegar, hvort sem það er eftir bæ eða sel.“
Stardalur-337Í annarri örnefnalýsingu framangreinds Jónasar Magnússonar segir m.a.: „Þessa örnefnaskrá hefur samansetta Egill Jónasson Stardal f. 14. sept. 1926 í Stardal, sonur Jónasar Magnússonar, bónda þar og Kristrúnar Eyvindsdóttur k. h. Höfundur er alinn upp á þessum stað. Hér er notast við þá þekkingu sem hann nam af föður sínum frá barnæsku en Jónas dvaldi frá fjögurra ára aldri í Stardal til elliára, var bóndi þar frá 1914 til 1965 að hann afhenti jörðina syni sínum Magnúsi sem nú býr þar. Magnús Sigurðsson, faðir Jónasar, bjó einnig í Stardal, frá árinu 1894 til dauðadags árið 1910,  en faðir hans Sigurður Guðmundsson frá Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu eignaðist jörðina og bjó þar á undan um nokkurt skeið eða frá 1871- 1888. Fyrir daga Sigurðar árin 1850-1871, sat og átti jörðina annar Húnvetningur, Jónas Jónasson frá Gafli í Svínadal, og voru þeir Sigurður og Jónas áður kunnir að norðan.
Stardalur-338Jörðin hefur þannig verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1871 og þar á undan í eigu vinafólks hennar í nær aldarfjórðung eða frá 1850. Líklegt verður að telja að flest merkustu örnefni hafi varðveist mann fram af manni á þessu tímabili en ógjörningur er að segja um aldur þeirra fyrir þann tíma, nema þeirra fáu sem varðveist hafa í rituðum eldri heimildum. Þessi skrá hefur verið borin undir bræður skrásetjara, Magnús Jónasson, bónda og eiganda jarðrinnar, og Eyvind Jónasson verkstjóra, Glæsibæ 3 Reykjavík. Auk þess hefur verið haft til hliðsjónar handrit um örnefni í eigu Magnúsar Jónassonar, samið eftir lýsingu og drögum að örnefnaskrá Jónasar Magnússonar. Þá hefur verið stuðst við skrá í eigu Örnefnastofnunar sem samin er af Ara Gíslasyni, að því hann segir eftir forsögn Jónasar Magnússonar, en sú skrá er full af missögnum og auk þess er þar grautað saman örnefnum jarðarinnar og annarra jarða eða landareigna utan marka hennar án þess að sjáist glöggt hvað sé hvað.“
Hvað sem framangreindu líður eru mjög fornar tóftir í Stardal ofanverðum, jafnvel þær elstu hér á landi, sem ástæða er til að rannsaka m.t.t. aldurs og notagildis.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stardal – ÖÍ.

Stardalur

Bærinn í Stardal brann í janúar 1918.

Krókssel

Í örnefnalýsingu fyrir Krók í Grafningi eftir Guðmund Jóhannesson, Króki, kemur fram að Krókssel sé austan við Kaldá, „mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal var stundum slegið.“

Krókssel

Ölfusvatn eða Vatn er fyrst nefnt í máldaga kirkjunnar þar, sem talinn er frá 1180. Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 var hálft heimaland Ölfusvatns kirkjueign. Ekki er minnst á Hagavík.
Krókur er nefndur í Gíslamáldögum frá því um 1570. En þangað var kirkjusókn að Ölfusvatni. Þá átti Ölfusvatnskirkja hálft heimalandið. Eftir því mætti ætla að Krókur hafi verið sérstök jörð og lögbýli eins og kemur fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en bæði Krókur og Ölfusvatn (Hagavík, hjáleiga Ölfusvatns) voru þá eign Skálholtsstóls. Ölfusvatn og Krókur áttu selstöður í heimalöndum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Ölfusvatn átti selstöður í Gamlaseli undir Selhól vestan Ölfusvatnsáar og væntanlega síðar Nýjaseli á Seltungum sunnan Mælifells, vestan Þverár. Ekki er ólíklegt að Ölfusvatn hafi um tíma selstöðu þar sem síðar varð Hagavík.
Áhugaverður staður efst við Kaldá - Súlufell fjærStefnan var tekin á Krókssel. Gengið var til suðurs með vestanverði Víðihlíð, austan Ölfusvatnsáar. Lokaður vegur er að sumarbústöðum í hlíðinni. Þegar kom að mótum Þverár og Kaldár var þeirri síðarnefndu fylgt áleiðis upp að Selmýri. Farið var yfir á mótum Stapafellslækjar og Kaldánni fylgt alveg að upptökum austast í Stardal. Þar kemur hún úr lind norðan í rótum nafnlauss fells er lokar af Djáknapoll ofanverðan. Mætti það þess vegna heita „Djákninn“ til heiðurs sögunni. Áin kemur úr safaríkjum lækjum á leiðinni, en upptökin eru í lindinni, sem væntanlega er affall Djáknapolls.
Rétt neðan norðvestanvert Súlufell er nokkurt gil í Kaldá. Gengið var upp með því að austanverðu. Foss er efst í gilinu, en ofan hans beygir áin meira til suðurs, með vesturhlíðum fellsins. Beint ofan gilsins, á austurbakkanum, eru tóftir Krókssels. Tvö rými með dyr til norður, að ánni. Erfitt gæti verið að koma auga á þær, en FERLIRsfélagar eru orðnir öllu vanir. Tóftirnar, sem voru á kafi í sinu, eru alveg upp undir rótum fellsins. Selstígurinn liggur yfir tóftirnar, en hann er raunar hluti af gamalli þjóðleið (gamli suðurferðavegurinn skv. örnefnalýsingu Guðmanns Ólafssonar) frá Villingavatni og Krók til vesturs, um Moldarklif, Upptök Kaldárnorður fyrir Stapafells og áfram til suðurs og upp með fellinu vestanverðu, um Þverárdal og Ölkelduháls í Brúnkollublett og síðan Milli hrauns og hlíða, vestur að Kolviðarhóli. Brúnkollublettur var aðaláningarstaður ferðamann á þessari leið. Gatan yfir Þverána á vaði þars em FERLIRsfélagar áðu á leið sinni að Nýjaseli (sjá Grafningsel…) með viðkomu í Nýjaseli á leiðinni upp með Laka. Hálsinn, sem gatan kemur yfir norðan Súlufells heitir Hempumelur að sögn Egils Guðmundssonar, bónda á Króki. Þar segir sagan að djáknin hafi verið færður úr hempunni áður en honum var drekkt í pollinum efra. Ástæðuna taldi Egill hafa verið einhver kvennamál.
Þótt tóftirnar séu að mestu jarðlægar mótar enn fyrir rýmum. Sel þetta er greinilega mjög fornt, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Selmýri er vestan Kaldár, stór hallandi mýrarfláki. Spölkorn ofar er Stardalur, vel gróinn og beitarvænn. Við skoðun á austurbakka Kaldár austast í Stardal, þar sem áin á upphaf sitt í lindinni fyrrnefndu, virðast vera mjög fornar tóftir, nánast jarðlægar. Þúfnamyndun er þarna, en ekki er með öllu útilokað að þarna undir kunni að leynast enn eldri leifar af seli. Bergstál skálalaga Súlufells rís hátt í suðaustri. Ekki er vitað um nafnið á skálinni, en hún gæti þess vegna hafa heitið Selskál. Við komuna á þennan birtist mótökunefnd óvænt (um miðjan apríl) – tvær gráar kindur, tvíburar. Egill sagði síðar að þær hlytu að hafa verið Villingavetningar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krók eftir Guðmund Jóhannesson.
-Örnefnalýsing Guðmanns Ólafssonar af Króki.
-Jarðabók ÁM 1703.

Krókssel

Krókssel.

 

Stardalur

Þegar FERLIR var á ferð um Stardal rákust augun í fornar tóftir syðst í dalnum, skammt ofan við Stardalsánna áður en hún fellur niður í gildrögin ofan við núverandi bæjarstæði. Svo virtist vera um að ræða forna kúaselsstöðu, jafnvel allt frá landnámstíð; fjós, baðstofu og vinnslurými á millum. Tóftirnar eru vel grónar þótt vel megi sjá móta fyrir veggjum, en erfitt er að koma auga á þær úr fjarlægð, hvoru megin árinnar sem staðið er. Norðar er djúp skál, manngerð, að því er virðist. Mögulega gæti þar verið um kolagröf að ræða, en skálin var hálffull af snjó þegar horft var á  hana í fyrri hluta aprílmánaðar. Þessarra fornleifa virðist hvergi hafa verið getið í skráðum heimildum – hingað til a.m.k. Að vísu er getið í heimildum um „skála Ingólfs í Skálafelli“ og „bæ Halls hins goðlausa (Helgasonar)“, en þær skýra ekki þessar fornleifar.
Stardalur-332Framangreindur Stardalur er sunnan Skálafells og Múla – austan og ofan við bæjarhúsin í „Stardal“. Um Stardalinn sjálfan rennur Stardalsáin ofan úr Botnum og sameinast Leirvogsánni neðan bæjarins. Efst í grónum dalnum eru Akurvellir. Örnefnið bendir til akra þar fyrrum. Ofar, utan í sunnanverðu Skálafelli eru nokkur grunn gildrög, talin frá vestri;Kimagil, Fláagil, Bolagil, Beinagil og Grensgil og er þá komið að Ytribotnum (neðar) og Innribotnum innan við dalinn.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 segir m.a. um Stardal: „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið“. Í sömu bók segir um Skeggjastaði: „Forn jörð bygð úr auðn fyrir 16 árum“. Ekkert er minnst á selstöðu jarðarinnar árið 1703.
Í Jarðabókinni eru þó tilgreindar fimm selstöður frá eftirfarandi bæjum, án þess að hægt hafi, hingað til a.m.k., að ákvarða staðsetningu þeirra af nákvæmni:
1) Gufunessel?
2) Korpúlfsstaðasel?
3) Lágafellssel?
4) Helgafellssel?
5) Blikastaðasel?
Stardalur-333Árið 1220 átti, skv. heimildum, kirkjan í Þerney helming selfara í Stardal. Brautarholtskirkja eignaðist hana þegar kirkjan í Þerney lagðist af.
Í Landnámabók segir frá landnámi hið nyrðra í Mosfellssveitinni, alt frá Leiruvogi og norðr undir Esjuna, bls. 40:..Hallr goðlauss hét maðr; hann var son Helga goðlauss; þeir feðgar vildu eigi blóta ok trúðu á mátt sinn. Hallr fór til Íslands, ok nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvági til  Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur. Þeirra son var Þórðr í Álfsnesi“. Mógilsá rennr í Kollafjörð, sem liggr inn með Esjunni að sunnanverðu; Mógilsá heitir og bær, er stendr sunnan undir Esjunni. Álfsnes heitir og enn bær í þessu landnámi.
Landnámubók segir og á bls. 257: „Þórðr skeggi son Hrapps, Bjarnarsonar bunu, hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur ok Úlfrúnar Játmundardóttur; Þórðr fór til Íslands ok nam land í Lóni fyrir norðan Jökulsá milli ok Lónsheiðar, ok bjó í Bæ tvo vetr eða lengr; þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir neðan heiði í Leiruvági; þá réðst hann vestr þannig, ok bjó á Skeggjastöðum, sem fyrr er ritat; hann seldi þá Lónlönd Úlfljóti, er flutti lög út hingat“. Áðr segir um Þórð, bls. 40: „ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leirurágs, (Leiruvágsar réttara, neðanm.). Hann bjó á Skeggjastöðum.
Stardalur-334Skeggjastaðir standa langt uppi í hálendinu, sem gengr austr af fellinu Mosfelli. Þeir eru hér efsti bær annar enn Stardalr. Það er auðvitað, að lönd hafa verið orðin numin hið neðra, því að annars hefði Þórðr ekki tekið sér land svo langt upp til fjalla, heldr fengið sér bústað nær vogunum, þar sem súlurnar komu á land; það er og eðlilegt, að snemma hafi bygzt nálægt Ingólfi, og einkannlega það, sem var nær sjónum.
Þórðr skeggi hefir ekki komið hingað suðr fyrr enn eftir 900; enn kominn var hann, þegar Ketilbjörn gamli kom út, því að hann var með honum hinn fyrsta vetr. Hið nyrðra takmark á landnámi Þórðar skeggja er Leirvogsá; hún kemr úr Leirvogsvatni, sem er skamt fyrir ofan Stardal. Það er norðvestan til við Mosfellsheiði; er það stærsta vatnið þar; síðan rennr áin niðr hjá bænum Stardal, og svo beint vestr milli Skeggjastaða og Hrafnhóla, og þá fyrir norðan Mosfell, niðr hjá Varmadal og Fitjakoti, og svo norðanhalt ofan í Leirvogana.“
Af framangreindu að ráða, sem og útliti og varðveislugildi tóftanna í Stardal, virðist þar um að ræða eitt hinna elstu selja hér á landi – og þá líklega frá Skeggjastöðum.

Heimildir:
-Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, 1857, bls. 411-413.
-Landnámubók; Hauksbók og Sturlubók.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 4. árg. 1884-1885, bls. 75.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, árg. 1884-1885- bls. 74-75.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, bls. 322-323.
-Jarðabók ÁM og PV 1703, bls. 336-337.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Stardalur

Hér á eftir verður fjallað um fyrrum 12 selstöður í landi Stardals skv. skráðum heimildum sem og sögu bæjarins. FERLIRsfélagar hafa skoðað og skráð allar selstöðurnar, auk þeirrar þrettándu, sem grunur er um að hafi verið selstaða fá Vík, bæ Ingólfs Arnarssonar.

Stardalur

Stardalur – loftmynd 1954.

I.    Helgafell í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ (Jarðabók, III. b., bls. 317).

Stardalur

Stardalur – seltóft lengst t.h..

II.   Lágafell í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 315).

Varmársel

Varmársel.

III. Blikastaðir í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 309).

IV. Korpúlfsstaðir í Mosfellssveit voru ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ (Jarðabók, III. b., bls. 308).

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

V.   Gufunes í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ (Jarðabók, III. b., bls. 301).

VI. „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ (Ö.St.1).

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

VII. Múlasel í Sámsstaðastað
Í “Skrá um friðlýstar fornleifar”, (fyrsta útgáfan 1990) segir: “Hrafnhólar. Sámsstaðarústir, suðvestanundir Stardalsfjalli, fast uppi við brekkuna. Sbr. Árb. 1908: 11-12. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938. Fornleifum þessum er friðlýst á jörðina Stardal, Kjalarneshr., þótt þær séu í landi Hrafnhóla“.
Hallur goðlausi Helgasonar nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla”, sbr. lýsingu í 11. kafla Landnámubókar.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafjelags árið 1908 lýsir Brynjúlfur Jónsson t.a.m. Sámsstöðum: “Suðvestanundir Stardalsfjalli, stuttri bæjarleið fyrir ofan Tröllafoss í Leirvogsá, er eyðibýli, sem heitir Sámsstaðir og segja munn mæli, að þar hafi verið kirkjustaður. Þesa sjást þó eigi merki svo fullyrt verði… Bygðin mun hér hafa lagzt snemma niður, og er þessa bæjar hvergi getið, svo eg hafi séð.”

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Í afrakstri af einni af könnunarferðum FERLIRS má sjá eftirfarandi á vefsíðunni www.ferlir.is um Sámsstaði: “Bæði nafnið og ummerki á vettvangi bentu í fyrstu til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og gott skjól fyrir flestum veðrum. Þegar “bæjarstæðið” var skoðað af nákvæmni og þekkingu mætti strax ætla að þarna hafi verið sel, eða nokkar kynslóðir selja, a.m.k. eru tóftirnar allar verulega “seljalegar”; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð, en mismunandi gerð og sjá má í seljum á þessu svæði (Reykjanesskaganum). Vitað er að margir bæir í Mosfellssveit og Kjalarnesi áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp (Sámsstaðir) gætu því hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna um tíma, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum“.

Mosfellssel

Mosfellssel (Þórðarsel).

VIII.  Þórðarsel undir Illaklifi er einnig skráð á Stardal, en það ku hafa verið eitt fjögurra selja frá Mosfelli, sbr.; „Norðan undir klifinu [Illaklifi] er Þórðarsel sunnan við Selflá. Þar var haft í seli frá Mosfelli. Þar af eru Selfláarnöfnin dregin. Selið var byggt úr grásteini og er urð þar.“ (Ö.St.1). „Þórðarsel er kennt við sr. Þórð á Mosfelli, sem var á undan sr. Magnúsi Grímssyni. M.G. byggði það upp og endurbætti.“ (Ö.St.2:1 og athugasemdir Jónasar Magnússonar við örnefnaskrá).

IX.    „Norðan við Tröllalágar sunnan í Þríhnúkum er Þerneyjarsel, tóttamyndir.“ (Örnefnskrá Ara Gíslasonar yfir Stardal. (Ö.St.1).

Esjubergssel

Esjubergssel.

X.      „Austur og norður af Þríhnúkum er flóaspilda, er heitir Esjubergsflói. Í honum er Esjubergssel, er vel sést fyrir tóftum.“ (Ö.St.1). „Austan í honum [Esjubergsflóa] eru tóttir sem nefnast Esjubergssel og sjást þær enn greinilega. Flói þessi nær norður að Skarðsá er kemur úr Svínaskarði og fellur í Þverá norðan við Haukafjöll.“ (Ö.St.3).

XI.     Móasel – „Selstöðu hafði jörðin hjá Esjubergsseli að eign eða láni“. (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, III. b., bls. 347-348.)

Esjubergssel

Esjubergssel / Móasel – uppdráttur ÓSÁ.

XII.   Lambhagi í Mosfellssveit var ein af mörgum jörðum sem áttu selstöðu í Stardal og í Jarðabókinni segir: „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ (Jarðabók, III.b., bls. 317).

Skáli Ingólfs

Skáli Ingólfs í Skálafelli?

XIII. Skáli Ingólfs – Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.
Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.”

Ef framangreint er rétt mun Ingólfur haft í seli í Stardal, fyrstur norrænna manna.

Skálafell

Skáli Ingólfs?

Í Landnámsbók segir: “Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.”

Stardalur – E[gill] J[ónasson] S[tardal].

Egill Jónason Stardal

Egill Jónason Stardal.

„Jörðin Stardalur er austasta ábýlisjörð í Kjalarnesshreppi og er á mörkum fjögurra hreppa: Kjalarness- Kjósar- Þingvalla- og Mosfellshrepps. Jörðin er mjög landstór en meginhluti landsins er fjalllendi og góðir fjárhagar á sumrum en vetrarríki mikið. Samkvæmt mælingum er bæjarstæðið í 147 m hæð yfir sjó og því á mörkum þess sem byggilegt má teljast. Nafnið Stardalur er ef til vill jafngamalt byggð í landinu, a.m. k. kemur það fyrir í máldaga Þerneyjarkirkju frá um 1220 sem settur er af Magnúsi Gissurasyni biskupi í Skálholti. Þar segir að Þerneyjarkirkja eigi selför í Stardal svo og afrétt. Svo er að skilja að þá sé engin byggð önnur á þessum slóðum.

Stardalur hefur samkvæmt Landnámabókum verið hluti af landnámi Halls goðlauss, sem þær segja að hafi numið með ráði Ingólfs í Reykjavík allt land millum Mógilsár og Leirvogsár og búið í Múla. Ýmsir fræðimenn og aðrir hafa gert því skóna að hið forna landnámsbýli Múli hafi staðið þar sem nú er bærinn Stardalur, en hér verður ekki tekin afstaða til þessara staðhæfinga. Fyrir þeim eru engin rök önnur en þau að örnefnið Múli er ekki til annarastaðar í landnámi Halls. Í landnámi því, sem honum er eignað, hafa verið í byggð á ýmsum tímum 15-20 býli, stór og smá, og hafa nöfn þeirra flestra varðveist og eru reyndar flest í byggð enn. Geta má þess að í túni umhverfis núverandi hús í Stardal eru miklar rústir eftir einhvers konar byggð, sumar mjög fornar, en einungis fornleifarannsóknir gætu skorið úr því hvort þær rústir varðveita leifar landnámsbyggar eða eru minjar eftir selstöðu sem þar var í margar aldir.

Jónas Magússon

Jónas magnússon.

Nafnið Stardalur er að því er heimildarmanni þessa greinarkorns er best kunnugt all einstakt á Íslandi. Þó eru til Stardalir eða Starardalir (höf. hefur heyrt bæði nöfnin af munni innfæddra Kjósaringa) uppi á Eyrarfjalli í Kjósarhreppi. Þessir „dalir“ eru mýrarflesjur með tjörnum milli melholta og þar vex víða stör. Dalur sá sem verður upp af núverandi bæjarstæði Stardals, flatur í botn og allur vafinn grasi, nær alveg umluktur fjöllum: í norðri Skálafell, í vestri Stardalshnjúkur og frá austri til suðurs Múli; hefur af ýmsum, þ. á. m. föður undirritaðs, verið álitinn hinn rétti Stardalur og nafnið dregið af starargróðri þar. Þessi skoðun er þó umdeilanleg því af þeim fáu rituðu heimildum, sem geta Stardals, er helst svo að sjá að þá sé átt við lægð þá eða grunnan dal sem myndast milli fjalla Stardalshnjúks, Skálafells og Múla annarsvegar og heiðasporðs Mosfellsheiðar hinsvegar. Ekki eru nú kunnar eða finnanlegar rústir eftir neina byggð eða mannvirki svo víst sé í efri dalnum og flestar mýrlendisjurtir aðrar en stör einkenna flóru dals þessa, enda eru þar engar tjarnir eða samfellt votlendi sem stör vex í.

Magnús Jónasson

Magnús Jónasson.

Nafnið Stardalur er þekkt í Noregi og gæti, e.t.v. hafa flust þaðan með landnámsmönnum, en hér verður ekki reynt að rökstyðja þetta neitt nánar, aðeins bent á, sem fyrr greinir, að nafnið er býsna fornt.

Um upphaf byggðar og búsetu undir bæjarnafninu Stardalur er m.a. fjallað í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Þar segir m.a.: „Stardalur: Nýlega uppbygð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykirst vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið… Hitt er almennilega kunnugt úngum og gömlum, þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney…“.

Egill Jónasson Stardal f. 14. sept. 1926 í Stardal, var sonur Jónasar Magnússonar, bónda þar og Kristrúnar Eyvindsdóttur k. h. Hér er notast við þá þekkingu sem hann nam af föður sínum frá barnæsku en Jónas dvaldi frá fjögurra ára aldri í Stardal til elliára, var bóndi þar frá 1914 til 1965 að hann afhenti jörðina syni sínum Magnúsi. Magnús Sigurðsson, faðir Jónasar, bjó einnig í Stardal, frá árinu 1894 til dauðadags árið 1910, en faðir hans Sigurður Guðmundsson frá Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu eignaðist jörðina og bjó þar á undan um nokkurt skeið eða frá 1871-1888. Fyrir daga Sigurðar árin 1850-1871, sat og átti jörðina annar Húnvetningur, Jónas Jónasson frá Gafli í Svínadal, og voru þeir Sigurður og Jónas áður kunnir að norðan.

Stardalur

Stardalur – túnakort 1916.

Jörðin hefur þannig verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1871 og þar á undan í eigu vinafólks hennar í nær aldarfjórðung eða frá 1850. Líklegt verður að telja að flest merkustu örnefni hafi varðveist mann fram af manni á þessu tímabili en ógjörningur er að segja um aldur þeirra fyrir þann tíma, nema þeirra fáu sem varðveist hafa í rituðum eldri heimildum. Þessi skrá hefur verið borin undir bræður skrásetjara, Magnús Jónasson, bónda og eiganda jarðrinnar, og Eyvind Jónasson verkstjóra, Glæsibæ 3 Reykjavík. Auk þess hefur verið haft til hliðsjónar handrit um örnefni í eigu Magnúsar Jónassonar, samið eftir lýsingu og drögum að örnefnaskrá Jónasar Magnússonar. Þá hefur verið stuðst við skrá í eigu Örnefnastofnunar sem samin er af Ara Gíslasyni, að því hann segir eftir forsögn Jónasar Magnússonar, en sú skrá er full af missögnum og auk þess er þar grautað saman örnefnum jarðarinnar og annarra jarða eða landareigna utan marka hennar án þess að sjáist glöggt hvað sé hvað.“

Stardalur

Bærinn í Stardal brann í janúar 1918.

Stardalsbærinn brann til kaldra kola að morgni laugardagsins 6. janúar 2018. Þá hafði ekki verið búið þar um nokkurt skeið.

Heimildir:
-Stardalur – E[gill] J[ónasson] S[tardal].
-Árni Magnússon (1923-1924). Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þriðja bindi. Kaupmannahöfn. Hið íslenska fræðafjélag í Kaupmannahöfn.
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Stardal.
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsóknir á seljum í Reykjavík“ fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin ellefu í Stardal og nágrenni:

Stardalur – Selstöður sunnan undir Svínaskarði (Stardal)

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Sunnan undir Svínaskarði á jörðunum Stardal, Sámsstöðum og Hrafnhólum var höfð selstaða frá ellefu bæjum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls sem sjá má í töflu 1. Selstöður gætu hafa verið fleiri því á svæðinu er að finna mikið og gott beitiland. Bærinn Stardalur stendur við mynni samnefnds dals, norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Sámstaðir eru um 1,5 km neðar með Leirvogsá neðan við klettabeltinu Stiftamt. Hrafnhólar eru svo um 2,5 km neðar einnig norðan við Leirvogsá sunnan undir Haukafjöllum á móts við Skeggjastaði uppá hól, en bærinn stóð áður aðeins ofar með ánni undir brekkunum.

Stardalur

Sel í Stardal og nágrenni.

Heimildir eru um 11 selstöður bæja undir Svínaskarði en flestir voru í Mosfellssveit eða 7 talsins og 4 í Kjalarneshrepp. Árið 2010 tilheyra 7 af þessum bæjum Reykjavík, en 4 í Mosfellsbæ eins og sjá má í töflu 5. Af þeim 11 selstöðum sem heimildir eru fyrir eru nú aðeins þrjár sjáanlegar og fylgja þeim enn örnefni bæjanna sem nýttu þau, en þetta eru Þerneyjarsel, Varmársel og Esjubergssel.

Stardalur

Stardalur.

Stardalur var framan af í eigu Brautarholtskirkju og Þerneyjarkirkju. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal. Í máldaga Þerneyjarkirkju til ársins 1269 segir að kirkjan eigi helming í selför í Stardal og afrétt. Samkvæmt Jarðabókinni var Stardalur ekki byggður fyrr en um 1674 en þar segir; „Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíi árum, og kemur hjer sá enginn fram. Sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkurn tíma bygt ból verið.“… „Hitter almennilega kunnugt úngum og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“ Árið 1704 er Stardalur í konungs og tveir ábúendur eru á jörðinni.“

Sámsstaðir
Hrafnhólar voru líka eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls er gerð og þar er jörðin nefnd „…Hafnhoolar, sumir kalla Hafnabjörg, og segja það nafn eldra.” Þá er jörðin sögð forn eyðijörð og veit engin hversu lengi þar til sextán árum áður að byggður var nýr bær fram á fardaga 1703 að jörðin lagðist aftur í eyði. Jörðin var í konungseign þegar Jarðabókin var gerð sumarið 1704 og dýrleiki hennar óviss.

Tóftir Sámsstaða.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð á milli Hrafnhóla og Stardals sem heyrir nú undir Stardal. Við gerð Jarðarbókarinnar 1704 voru Sámsstaðir eign konungs og brúka ábúendur konungsjarða alla grasnaut og talað er um eina selstöðu á jörðinni Esjubergssel.

Blikastaðir standa á láglendu mýrlendi skammt norðan Lágafellshamra, austan við Korpúlfsstaðaá, sunnan við Leiruvoga á móti Víðinesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjuberg stendur á skriðuvæng uppi undir rótum Esju og uppaf bænum er Gljúfurdalur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Í Jarðabókinni kemur einnig fram þar sem fjallað er um Sámstaði að Esjubergssel var talið í landi þeirra ….„sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa,…“. En Sámsstaðir var talin forn eyðijörð sem engin vissi hver hafði verið eigandi að og konungur hafði eignað sér og nýtt „…um langa æfi…“.

Þerneyjarsel - uppdráttur

Þerneyjarsel – uppdráttur.

Gufunes stendur skammt vestan við bæinn Eiði á litlu flatlendu nesi á milli Geldinganess og Gufuneshöfða. Gufuness er getið í Landnámu og virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð. Þar var komin kirkja um 1150 og var þar til 1886 þegar hún var lögð niður. Gufunes varð eign Viðeyjarklausturs eftir 1313 og varð konungseign við siðaskipti. Gufunes var keypt af bæjarsjóð Reykjavíkur árið 1924 ásamt Eiði, Knútskoti og Geldinganesi. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur til forna brúkuð verið í Stardal, þar sem nú stendur býli það, er Stardalur kallast, eftir sögn þeirra manna, er að undirrjettingu foreldra sinna vita til yfir hundrað ár.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Helgafell stendur undir útsuðurhorni Helgafells. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga tíma selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmársel

Varmársel – uppdráttur.

Korpúlfsstaðir standa á sléttum melum skammt í suðvestur frá Blikastöðum, vestan við Korpúlfsstaðaá. Korpúlfstaða er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Þeir voru sjálfstæð jörð árið 1234, þá orðnir eign Viðeyjarklausturs, og urðu konungseign um siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lambhagi er jörð suðvestan undir rótum Hamrahlíðar, austan við Korpúlfsá þar sem hún fellur í bug og fer að stefna norður. Lambhagi hefur orðið eign Viðeyjarklausturs á tímabilinu 1378-1395 og konungseign við siðaskipti. Reykjavíkurbær keypti jörðina árið 1942. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hafði jörðin að fornu í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Lágafell stendur vestan undir Lágafelli. Í Jarðabók segir; „Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur.

Móar standa á flatlendi neðan þjóðvegar, sunnan frá Esjubergi nær sjó. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða hefur hjeðan brúkast hjá Esjubergsseli og vita menn ei hvort að láni Esjubergsmanna eður eign þessarar jarðar.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Varmá stóð skammt í vestur frá Helgafelli, vestan Varmár, skammt í landsuður upp frá Leiruvogum, austan við núverandi Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Í Jarðabókinni er ekki getið um sel eða selstöðu en erþess getið í Örnefnalýsingu fyrir Stardal; „Austan við Tröllalága er Varmársel og sést vel fyrir því.“ Þá er jörðin í eigu konungs.

Skrauthólar standa hátt nálægt Esju, austan Vallár. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstaða er, hefur hjeðan lengi brúkuð verið frí þar sem heitir undir Haukafjöllum, nálægt Hrafnhólum.“ Þá er jörðin í eigu konunds.

Þerney er í vestur frá Álfsnesi ekki stór en grasivaxin. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Þá er jörðin í eigu konungs. Máldagi kirkjunnar í Þerney með sundum í Kjalarnesþingi, sem Magnús biskup Gissurarson setti um 1220 segir svo; „Kirkia a at helmingi selfor j Stardal ok sva afreit. Ok sva þess hlutar fiorv j krossa vik er þerney fylger, halft þriðia kvgilldi bvfiar.“ Í máldaga Þerneyjarkirkju sem Árni biskup Þorláksson setti haustið 1269 segir; „Kirkia a helming j selfor j Starrdal: og svo afret.“

Stardalur

Sel við Stardal og nágrenni.

Af þessum máldögum og síðar má sjá að ekki hefur verið búið í Stardal fyrrum.

Á þessu landsvæði sunnan undir Svínaskarði eru nú þrjár sýnilegar selstöður. Tvær þeirra Varmársel og Þerneyjarsel eru norðan við Leirvogsá austan við Tröllalágar. Esjubergssel er töluvert ofar og nær Svínaskarði á rana út frá Skopru sem gengur útí Esjubergsflóa. Tóftirnar eru allar grasi og mosavaxnar.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum.
Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 15-19.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.