Færslur

Stekkjarkot

Reykjanesskaginn á sér magnaða sögu.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki.

Íbúarnir hafa hins vegar oft verið meira sem þátttakendur en gerendur í hinum stærri atburðum, s.s. atburðunum í kjölfar átaka Englendinga og Þjóðverja og aftöku Jóns Arasonar. Mikil umferð fólks var um svæðið alls staðar af landinu, það kom á vertíðir og fór síðan. Kot voru mörg hver lítil og oft nýtt til tiltölulega skamms tíma, sbr. Stekkjarkot í Narðvík. Höfuðbýlin voru fá, en lítt ríkmannleg, með örfáum undantekningum.
Í seinni tíð má segja að á Reykjanesskaganum hafi nútíminn verið stærri en sagan, en víða úti á landi hefur sagan verið stærri en nútíminn (SÁJ).

Njarðvík

Kot í Innri-Njarðvík.

Þannig hafa íbúarnir vera meira uppteknir af því að hafa ofan af fyrir sér með niðursoðnu afþreyingarefni en leita þess í sögunni, þjóðarmenningunni. Landsbyggðin hefur hins vegar notið fortíðarinnar og nýtt sér hana til framtíðar. Hvorutveggja eru þau næringarefni nútímans, sem maðurinn þarnast til að geta verið sæmilega sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt.

Víðast hvar í heiminum er verið að leggja aukna áherslu á nýtingu áþreifanlegra minja til að gera íbúnum og gestum þeirra mögulegt að “þreifa á” uppruna sínum.

Njarðvík

Frá Njarðvík.

Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að uppruninn er sú auðlind, sem allt annað er á eftir kemur byggist á.
Þróun er afbrigði þess þekkta. Sá, sem ekki þekkir, kemur hvorki til með að geta þróað eitt né neitt.

Njarðvík

Innri Njarðvík – Áki Grenz.

Kirkjuvogur

Haldið var að Stekkjarkoti í Njarðvíkum.

Stekkjarkot

FERLIRsfélagar í heimsókn í Stekkjarkoti.

Stekkjarkot var byggt 1855. Jón og Rósa bjuggu þar í u.þ.b. hálfa öld. Eignuðst þau þrjár dætur. Kotið var tómthús og grasbýli og dæmigert fyrir slík býli á 19. öld, en jafnframt var róið til fiskjar eins og títt var um útvegsbændur við ströndina. Síðast var búið í kotinu til 1924, en þá fór það í eyði. Jón var frá Vatnsleysuströnd, en er hann hugðist kvænast Rósu var hann gerður arflaus eftir föður sinn. Hann valdi ástina. Mikil umferð ferðamanna var um Stekkjarkot, en þar stöldruðu þeir við áður en þeir héldu yfir Fitjarnar, sandleirurnar, sem áður gátu verið mikill farartálmi á leiðinni um Njarðvíkur. Brunnur er norðan við túngarðinn í Stekkjarkoti og gömul tóft suðaustan við það. Kotið var endurbyggt fyrir nokkrum árum og er nú safn.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Fitjakot var norðvestar, en það fór í eyði vegna ágangs ferðamanna, en hestar þeirra hreinlega átu upp túnin og þar með fólkið út á gaddinn.

Á vefsíðu Reykjanesbæjar segir um Stekkjarkot: “Hvernig skyldu menn hafa búið hér áður fyrr, fyrir daga bárujárnshúsa og áður en íslenska steinsteypuöldin gekk yfir.

Stekkjarkot er endurgerð á hefðbundinni þurrabúð eins og þær voru kallaðar og voru algengiar hér í eina tíð.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Þeir sem bjuggu í þurrabúð máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.”

Stekkjarkot

Stekkjarkot – útihús.

Á Safnavef Reykjanesbæjar segir: “Ákveðið var að endurreisa Stekkjarkot á hátíðarfundi sem haldinn var í tilefni 50 ára afmælis Njarðvíkurkaupsstaðar árið 1992.
Ári seinna var kotið opnað með hátíðlegri athöfn að viðstöddum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Stekkjarkot var þurrabúð og gefur hugmynd um bústaði sem algengir voru á þessum slóðum í eldri tíð. Þurrabúð merkti að íbúarnir máttu ekki halda skepnur, s.s. kýr eða kindur. Slík kot voru ávallt byggð á landareign annarra og borguðu kotbúar fyrir afnotin til dæmis með sjávarfangi eða þeir réru á bátum landeigandans. Þurrabúðafólkið varð þannig að treysta algerlega á það sem hafið gaf og oft var þröngt í búi ef illa fiskaðist.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kotabyggð var fyrsti vísirinn af þéttbýliskjörnum við sjóinn en þótt finna megi heimildir um slíka byggð langt aftur þá er það ekki fyrr en á 19. öld og einkum þeirri 20. sem slík þéttbýli náðu að festa rætur við sjávarsíðuna hér á landi.

Það kot sem nú hefur verið endurreist er nokkuð dæmigert um sambærileg kot. Það á sér slitrótta sögu fyrst er það byggt upp úr miðri 19. öld (1855-1857) búsetan þar lagðist síðan af 30 árum síðar (1887). Kotið var byggt upp aftur árið 1917 en rétt tæpum 7 árum síðar var kotið komið í eyði. Reyndar hafði það náð því að verða grasbýli um 1921 sem hefur gefið kotverjum rétt á að hafa einhverjar skepnur.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Kotið sem við sjáum núna er byggt með stuðningi endurminninga eins af síðustu íbúunum. Eldri hlutinn á rætur aftur til 19. aldar þar er hlóðaeldurinn. Sagt er að þar hafi vinnukona búið og haft með sér barnunga dóttur sem sváfu þar í fleti. Yngri hlutinn er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð, komin kolaeldavél og ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.
Þetta er að sönnu ekki löng saga en gefur innsýn í þennan síðasta hluta merkilegrar sögu kotbyggða við ströndina.

Kotið er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar, það er opið eftir samkomulagi.”

Þá var haldið í Hafnir, Kirkjuvog og Kotvog.
Hafnir sunnan Ósabotna, var mikill útgerðarstaður hér áður fyrr. Kirkjan í Höfnum, Kirkjuvogskirkja, var byggð 1861. Það var Vilhjálmur Kr. Hákonarson, sem lét byggja kirkjuna á sinn kostnað. Sagt er að hún hafi kostað 300 kýrverð. Hún er timburkirkja og var upphaflega bikuð að utan með hvítum gluggum. Handan við kirkjuna hefur verið grafinn upp skáli, sem talinn er geta hafa verið frá landnámstíð.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Löngu síðar var hún svo múrhúðuð að utan og ljósmáluð. Á árunum 1970-72 var kirkjan endurreist frá grunni og færð til upprunalegs horfs undir umsjón þjóðminjasafns Við Reykjanesveginn í Höfnum er akkeri mikið landmeginn vegarins við björgunarstöðina. Akkerið er af skipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í Ósabotna 1870.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði og á vindfána kirkjuturnsins. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur á Stað í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Kotvogur

Kotvogur.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón.

Kotvogur

Kotvogur.

Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið , uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim. Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins.

Hafnir

Sandgræðslugirðing ofan Hafna.

Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu
Gríðarlega stórt tréskip, hlaðið timbri, á land nálægt þar sem heitir Hvalsnes á milli Þórshafnar (verslunarhöfn á 19. öld) og Hestakletts nokkru norðan Ósa og gegnt þorpinu. Skipið, sem hét Jamestown og var frá Maine í Bandaríkjunum, rak að landi mannlaust og var auðséð að það hafði verið lengi á reki. Þetta gerðist að morgni hvítasunnudags þann 26. júní 1881. Skipið, sem var þrímastrað og þriggja þilfara, var sagt tröllaukið að stærð.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við fyrrum Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni.

Heimildir m.a.:
-leo.is
-https://visitreykjanesbaer.is/upplifun/stekkjarkot/
-https://sofn.reykjanesbaer.is/byggdasafn/vidburdir/Stekkjarkot-2

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Íslendingur
Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur. Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík. Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
StekkjarkotBúið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924. Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fólk á sjósókn. Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó. Þurrabúðin hafði hvorki ær né kýr. Þess vegna eru engin gripahús utan bæjarins í Stekkjarkoti, heldur er þar einungis lítil baðstofa með eldhúsi innst, bæjardyrum og göngum í skúrbyggingu og einu útihúsi með lægri burst. Þar hefur verið einn fjósbás, geymsla, útieldhús og eitt rúmstæði.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – skilti.

Baðstofugaflinn er klæddur með reisifjöl, svo og gaflinn á útihúsinu. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.
Þjóðleiðamót voru við Njarðvíkurfitjar; þar tengdust götur er lágu til Grindavíkur og Hafna, þjóðleiðirnar milli Innnesja og Rosmhvalaness hins forna. Stekkjarkot stendur skammt frá þessum fyrrum, grasi grónu, gatnamótum.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot var upphaflega byggt 1856-’60 og búið var þar samfleytt til 1887. Þá lagðist Stekkjarkot í eyði í um 30 ára skeið, en var endurreist 1917. Fjórum árum síðar var þar orðið grasbýli, en svo voru nefnd býli á húsmanns-
lóðum, þar sem voru smávegis grasnytjar. Ekki hafa þær verið umtalsverðar í Stekkjarkoti, en örlítill túnbleðill er við kotið og grasnytjunum hefur fylgt sá sólargeisli að mjólkukýr hefur komið í kotið og útihúsið þá verið notað sem fjós. Vatn var sótt í brunn neðan við norðurgarð kotsins. Áleiðis að honum liggja hlaðnar tröppur. Annað sem fylgdi Stekkjarkoti var bátasskýli og saltbyrgi við Stekkjarkotsvör.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Inn úr bæjardyrunum er komið í breið göng sem hafa nýst sem geymsla, m.a. annars fyrir vatnstunnu og áhöld vegna sjósóknar. Þaðan er gengið til vinstri inn í eldhús með kolaeldavél frá síðustu árum búskapar í kotinu og þaðan inn í baðstofuna þar sem fjögur rúmstæði eru meðfram veggjum. Undir baðstofugólfinu er kjallari þar sem matur var geymdur, en síðast var búið í Stekkjarkoti 1924 eins og fyrr segir.
Eftir endurgerð Stekkjarkots 1994 var byggt útihús sunnan við kotið. Það ber fjósmerki, en tilgangur þess var ekki síst að uppfylla skilyrði um nútímalega salernisaðstöðu. Í því fer ágætlega saman slík aðstaða gamla tímans og hins nýja.
Kotið var ásamt hluta garðsins byggt upp undir stjórn Tryggva Hansen.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.