Íslendingur
Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur. Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík. Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
StekkjarkotBúið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924. Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fólk á sjósókn. Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó. Þurrabúðin hafði hvorki ær né kýr. Þess vegna eru engin gripahús utan bæjarins í Stekkjarkoti, heldur er þar einungis lítil baðstofa með eldhúsi innst, bæjardyrum og göngum í skúrbyggingu og einu útihúsi með lægri burst. Þar hefur verið einn fjósbás, geymsla, útieldhús og eitt rúmstæði.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – skilti.

Baðstofugaflinn er klæddur með reisifjöl, svo og gaflinn á útihúsinu. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.
Þjóðleiðamót voru við Njarðvíkurfitjar; þar tengdust götur er lágu til Grindavíkur og Hafna, þjóðleiðirnar milli Innnesja og Rosmhvalaness hins forna. Stekkjarkot stendur skammt frá þessum fyrrum, grasi grónu, gatnamótum.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot var upphaflega byggt 1856-’60 og búið var þar samfleytt til 1887. Þá lagðist Stekkjarkot í eyði í um 30 ára skeið, en var endurreist 1917. Fjórum árum síðar var þar orðið grasbýli, en svo voru nefnd býli á húsmanns-
lóðum, þar sem voru smávegis grasnytjar. Ekki hafa þær verið umtalsverðar í Stekkjarkoti, en örlítill túnbleðill er við kotið og grasnytjunum hefur fylgt sá sólargeisli að mjólkukýr hefur komið í kotið og útihúsið þá verið notað sem fjós. Vatn var sótt í brunn neðan við norðurgarð kotsins. Áleiðis að honum liggja hlaðnar tröppur. Annað sem fylgdi Stekkjarkoti var bátasskýli og saltbyrgi við Stekkjarkotsvör.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Inn úr bæjardyrunum er komið í breið göng sem hafa nýst sem geymsla, m.a. annars fyrir vatnstunnu og áhöld vegna sjósóknar. Þaðan er gengið til vinstri inn í eldhús með kolaeldavél frá síðustu árum búskapar í kotinu og þaðan inn í baðstofuna þar sem fjögur rúmstæði eru meðfram veggjum. Undir baðstofugólfinu er kjallari þar sem matur var geymdur, en síðast var búið í Stekkjarkoti 1924 eins og fyrr segir.
Eftir endurgerð Stekkjarkots 1994 var byggt útihús sunnan við kotið. Það ber fjósmerki, en tilgangur þess var ekki síst að uppfylla skilyrði um nútímalega salernisaðstöðu. Í því fer ágætlega saman slík aðstaða gamla tímans og hins nýja.
Kotið var ásamt hluta garðsins byggt upp undir stjórn Tryggva Hansen.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.