Í Árbók HÍF 1930-1931 má lesa eftirfarandi um hella á Strandarhæð sem og í Krýsuvíkurhrauni (Klofningi) úr “Lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna” eftir séra Jón Vestmann, 1840.
Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteins-fjöllunum, engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór. Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug.
Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. —
Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áður-nefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús.
Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn.
Hlóð af honum með þver- vegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.”
Í „Þjóðsögur og munnmæli” – Sagnir frá Strönd í Selvogi, segir m.a.: “Á Strönd í Selvogi, sem nú er eyðisandur, var áður stórbýli. Átti þá jörð fyrrum Erlendur lögmaður sterki (d. 1312) og frændbálkur hans, þeir Kolbeinsstaðamenn, svo öldum skipti, og bjuggu þar jafnan höfðingjar. Síðastur höfðingja og sagnamestur, er þar bjó, var Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d.1575). Var Strönd annað höfuðból hans, en hitt Kolbeinsstaðir í Hnappadal. Á Kolbeinsstöðum bjó Erlendur fyrri hluta ævi sinnar, og þar var það, að sagt var, að hann hefði átt mök við álfkonu og getið við henni barn. Var og Erlendur kallaður bæði fjöllyndur og forneskjumaður, skapstór og vígamaður var hann mikill. Þegar hann bjó á Strönd á efri árum sínum, var hann svo ríkur, að hann átti sex hundruð ásauðar. Af þeim gengu 2100 með sjó á vetrum og höfðu þar borg við sjóinn, og geymdi þeirra einn maður.
Önnur 200 gengu upp á Völlum hjá Strandarborg, sem nú (1861) er lítil rúst, og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæðum við Strandarhelli upp undir heiði, og geymdi hinn þriðji maður þeirra. Sauðirnir gengu uppi í heiði. Eitt kvöld hafði smalinn við Strandarhelli, sem oftar, byrgt allt fé, sem þar var, inni í hellinum, en um morguninn vantaði eina á, og varð þá lögmaður mjög reiður og sagði, að ána mundi hafa vantað um kvöldið. Smalinn þrætti þess. Lét þá Erlendur afhýða smalann, en aðrir segja, að hann hafi drepið hann. Litlu síðar fréttist, að ærin hefði einn morgun verið inni í byrgðum fjárhelli á Hlíðarenda í Ölfusi.
Þóttust menn því vita, að hellar þeir næði saman, og var því hlaðið í þá gaflhlað. Annar smalamaður eða þá sveinn Erlends lögmanns, er sagt, að eitt sinn hafi rekið spjót sitt ofan í jörðu. Kom þá sandur upp á oddinum. Sagði sveinninn þá, er hann sá það, að sú jörð mundi verða eyðisandur. Lögmaður svaraði: „Það skaltu ljúga!” Sveinninn stóð fast á þessu, en Erlendur reiddist og sagði hann skyldi fá laun fyrir hrakspá sína og vildi vega hann. Hljóp þá sveinninn undan norður um tún, en Erlendur náði honum og drap hann við háan hól fyrir norðan túnið. Sá hóll heitir síðan Víghóll enn í dag. „Skúta” hét tólfæringur, er fylgdi Strönd í Selvogi langa ævi. Hafði Skúta lag á Strandarsundi, hversu mikið brim sem var. Aðrir segja, að þau ummæli hafi fylgt Strandarsundi, að þar kæmi alltaf lag á nóni, enda var Strandarsund kallað bezta sundið í Selvogi þangað til það grynntist, af því að sandfok barst ofan í það. Nú er það ekki tíðkað, en þó haldið allgott.
Það var mörgum árum eftir andlát Erlends lögmanns, nær 1632, að Skúta fórst. Er svo sagt, að næstu nótt áður en það varð, gæti einn af hásetunum á Skútu ekki sofið, fór hann því á fætur og gekk ofan til nausta. Stóðu þar tvö skip, sem gengu í Strandarsundi þann vetur. Var það Skúta og annar tólfæringur, sem Mókollur hét. Þegar hásetinn kom til naustanna, heyrði hann, að skipin töluðu saman. Mókollur byrjaði:
„Nú munum við verða að skilja á morgun.” „Nei,” sagði Skúta, „ég ætla ekki að láta róa mér á morgun!.” „Þú mátt til,” segir Mókollur. „Ég læt hvergi hræra mig,” sagði Skúta.
„Formaður þinn skipar þér þá í andskotans nafni,” segir Mókollur.
„Þá má ég til,” segir Skúta, „og mun þá ver fara.” Síðan þögnuðu þau. Maðurinn gekk heim og var þungt í skapi, og lagðist niður.
Um morguninn eftir var sjóveður gott, og bjuggu menn sig til róðrar. Maðurinn, sem heyrt hafði til skipanna samtal þeirra um nóttina, sagðist vera veikur og ekki geta róið og bað formann að róa ekki. En ekki tjáði að nefna slíkt. Hvorar tveggja skipshafnirnar fóru nú að setja fram, og hljóp Mókollur greiðlega af stokkunum, en Skútu varð hvergi mjakað úr stað, og hættu menn við að setj hana fram. En þegar þeir höfðu hvílt sig um hríð, kallaði formaður þá aftur og bað þá leggja á hendur í Jesú nafni, eins og hann var vanur, en ekki gekk Skúta enn. Reyndu þeir í þriðja sinn og gekk ekki um þumlung.
Þá reiddist formaður og kallaði menn í fjórða sinn og sagði í bræði sinni: „Leggið þið þá hendur á í andskotans nafni!”
Hlýddu þeir því, og hljóp Skúta þá svo hart fram, að menn gátu varla fótað sig. Nú var róið í fiskileitir. Þegar á daginn leið, gerði aftakabrim og fóru menn í land. Tólf-æringarnir frá Strönd sátu í lengra lagi, en fóru svo heim. Þegar þeir komu að sundinu, mælti formaður Mókolls: „Nón mun ekki vera komið og skulum við bíða við.”
Formaðurinn á Skútu sagði, að nón væri liðið, og þrættu þeir um það, þangað til Skútuformaðurinn staðréð að hleypa út að Herdísarvík og fór af stað. Rétt á eftir kom lag. Þá kallaði Mókollsformaður: „Nú er Skútulag.” Skútuformaður heyrði það ekki og hélt áfram út í Herdísarvík og hleypti þar að í Bótinni, en svo var brimið mikið, að Skúta stafnstakkst þar og fór í spón. Drukknuðu menn allir.
Mókollur naut Skútulags á Strandarsundi og komst með heilu og höldnu til lands. Þá sagði maðurinn frá því, er fyrir hann hafði borið um nóttina. (Að mestu eftir handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861)
Það er tekið til þess, hvað lítið sé um hrafna um vetrarvertíðina á Garðinum, þvílíkur sægur sem þar sé af hröfnum endranær, svo sem haust og vor. En sú er saga til þess, að í fyrndinni var dæmafár hrafnagangur suður í Garði, svo þeir rifu allt og slitu, hvort sem það var í görðum, í hjöllum, króm eða byrgjum. Stefndi þá einn af bændunum þar í Garðinum hröfnunum í burtu um vertíðina og austur í Krýsuvík og Herdísarvík, og síðan hefur varla sézt hrafn í Garðinum um vertíðina, því síður að hann hafi gert þar skaða. En því stefndi bóndinn hrafnavaðnum í Krýsuvík og Herdísarvík, að hann átti Krýsuvíkur-bóndanum eitthvað illt upp að inna, gott ef hann hafði ekki stefnt hröfnunum frá sér haust og vor suður í Garð.
Það hafa vermenn sagt mér, að þeir hafi oft mætt hröfnum, þremur og fjórum í hópum, er þeir hafa farið suður á veturinn. (Eftir handriti Jóns Sigurðssonar í Steinum 1662-64)”
Hér að framan er blandað saman, annars vegar sóknarlýsingum og þjóðsögum. Margir taka sannleiksgildi hins fyrrnefnda oftar framm yfir hið síðarnefnda, en þótt ótrúlegt megi ber hvorutveggju ótrúlega oft saman þegar kemur að áþreifanlegum minjastöðum, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Hér að ofan má t.d. sjá opið á Bjargarhellisskjóli, en skv. sögnum ætluðu Selvosgbúar þangað að flýja léti “Tyrkinn” sjá sig aftur eftir 1627.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg. 1930-1931, bls. 76.
-Fréttaveitan, fréttarbréf Hitaveitu Suðurnesja, 150. tbl., 7. árg., 1. nóv. 2000, bls. 4-5.
Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.