Tag Archive for: Straumsvík

Básendar

Björn Þorsteinsson skrifaði um „Básendaorustuna 1532“ í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.

Björn Þorsteinsson„Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.

Miðaldaskip

Skip Hansamanna á miðöldum.

Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.

Miðaldaskip

Enskt miðaldaskip.

Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.

Rif

Rif á Snæfellsnesi.

Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.

Íslandskort 1590

Íslandskort 1590 -Abraham Ortelius.

Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.

Hvalsnes

Hvalsnes – herforingjaráðskort frá 1908.

Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.

Básendar

Básendar.

Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.

Básendar

Reykjanesskagi – kort.

Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.

Básendar

Básendar – bærinn.

Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.

Básendar

Báendar – tóftir bæjarins.

Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina“ að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.

Básendar

Básendar – drónamynd.

Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.

Básendar

Básendar – minjar.

Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.

Básendar

Frá Básendum.

Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.

Básendar

Básendar – loftmynd.

Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.

Básendar

Festarkengur á Básendum.

Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga.

Básendar

Básendar – bærinn.

Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.

Básendar

Kengur á Básendum.

Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers“ og dæmist það réttilega fallið undir konung.

Básendar

Básendar – merki um friðlýstar minjar.

Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.

Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.“

Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Hraun í nágrenni Straumsvíkur“ í Náttúrufræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
Hraun
Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.

Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Litli-Lambhagi

Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það.

Straumur

Straumur.

Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkilega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrennslan  fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.

Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í  hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.

Straumsvík

Straumsvík 1965.  Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnsbúskap svæðisins.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki með fram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.

Straumsvík

Mannvirki í tjörnunum við Lambhaga.

Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hins vegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.

Straumsvík

Straumsvík 2020.

Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.

Lambhagi

Lambhagi um 1970.

Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.

Straumsvík

Straumsvík.

Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.

Litli-Lambhagi

Eldhús og tóftir við Litla-Lambhaga.

Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarsstaði eystri og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
http://www.hraunavinir.net/fiskeldi-og-sumardvolvidstraumsvik/#more-950

Lambhagi

Lambhagar fyrrum. Stóri-Lambhagi framar

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Jón Arason

Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Loks hemrir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns Arasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.

-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.

Jón Arason

Minnisvarði um Jón Arason og syni hans við Skálholt.

Í apríl árið 1602 var tilkynnt að Kristján konunur IV hefði selt kaupmönnum í Kaupmannahöfn, Málmey og Helsingjaeyri á leigu alla Íslandsverslun í næstu tólf ár. Undanskildar voru Vestmanneyjar einar, sem konungur hefur lengi leigt með öllum sköttum og skyldum. Jafnframt var öllum kaupmönnum, öðrum en leigutökum, bönnuð verslun á Íslandi.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þjóðverjar og Englendingar höfðu um langt skeið stundað mjög verslun á Íslandi, og Hamborgarar, Brimarar og Lýbikumenn, sem hér versluðu í konungsleyfi, áttu víða hús, kirkjur og vörubirgðir í kaupstöðum. Nú varð þeim algerlega bolað frá allri Íslandsverslun, nema hvað örfáir kaupmenn, sem áður höfðu fengið leyfi konungs til verslunar á nokkrum höfnum, fengu að halda þar velli, uns leyfistími þeirr rann út.
Það voru tuttugu hafnir á landinu, sem konungur leigði hinum dönsku kaupmönnum, þ.a. fjórar við Faxaflóa. Með þessari breytingu var talið að verslun á mörgum stöðum myndi leggjast niður, þar sem Þjóðverjar höfðu legið með skip sín á sumrin, svo sem á Hvalfjarðareyri, í Flatey, Straumsvík og Vatnsleysuvík og miklu víðar.
Konungur skrifaði hirðstjóra sínum, Enevold Kruse, og skipaði honum að hafa strangar gætur á, að Hamborgarar reki enga verslun við Faxaflóa, nema í Hafnarfirði, enda þótt þeim séu þar heimilar nokkra hafnir fleiri þetta sumar, samkvæmt gömlum leyfisbréfum. Bændum, sem versla á Suðurnesjum og í Grindavík, var bannað að selja Hamborgurum fisk og aðrar afurðir, nema hvað þeir máttu láta það, sem afgangs varð venjulegri verslunarvöru, ganga upp í skuldir.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Ætla mátti, að Þjóðverjum yrði gert ókleift að versla hér, en verslun við þá hafði staðið allt frá 14. öld og verið landsmönnum að ýmsu leyti hagstæð.
Þýsku kaupmennirnir voru mjög ósáttir við hina nýju skipan verslunarmála á Íslandi. Árið 1602 ráku þeir víða mikla verslun um sumarið undir því yfirskini, að þeir væru að innheimta skuldir, og tvö skip er komu á Suðurnesjahafnir, urðu að sigla tóm heim um haustið. Þar að auki létu Hamborgarar menn hafa hér vetursetu sums staðar og halda versluninni áfram. Þýskur maður, Jóhann Holtgreven, tók sér t.d. höfn í Keflavík og Bátsöndum og bar því við að hann hefði eigi komist til hafnar sinnar við Húnaflóa sökum íss og hafið verslun á Suðurnesjum fyrir þrábeiðni landsmanna.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Árið 1604 bar á mikilli óánægju með hina nýju verslunarhætti. Verslun fór versnandi og varð hún nú mun verri síðan Hamborgarar voru brott hraktir. Hinn aldni lögmaður, Þórður Guðmundsson, áttræður maður, gekk fram fyrir skjöldu og kærði kaupmenn fyrir konungi og höfuðsmanni. Árið áður skrifaði hann bændum á Suðurnesjum og í Grindavík bréf um verslunarmálin og skoraði á þá að mótmæla verslunarháttunum, því auðveldara myndi verða að fá leiðréttingu þegar í upphafi en síðar meir. En það gerðist sem oft er þegar einn eða fáir mótmæla, en margir horfa sitjandi hjá – nákvæmlega ekkert.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðimelur

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði er m.a. getið um Stóra- og Litla-Rauðamel. Þar segir:

Rauðimelur

Rauðimelur – kort 1903.

„Lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing, sem hér fer á eftir. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.
Óttarsstaðir eru í Hraununum svonefndu og tilheyrðu áður Garðahreppi, en land jarðarinnar var lagt undir Hafnarfjörð, þegar álverksmiðjan kom.

Rauðimelur

Stóri-Rauðimelur skv. fyrirliggjandi tillögum. Óttarsstaðaselsstígsins (Rauðamelsstígs) er ekki getið í fyrirliggjandi gögnum.

Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla (132) og austan við Rauðamel stóra (133), en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var.

Rauðimelur

Stóri-Rauðimelur – ný vegslóð 2023.

Þrátt fyrir fullyrðingu þess efnis að Litli-Rauðimelur sé horfin „lifir“ hann enn góðu „lífi“ skammt norðnorðaustan þess Stóra, sem nú er orðinn að námusvæði. Nú, þegar fyrirhugað er að stækka námusvæðið vegna fyrirhugðrar stækkunar Straumsvíkurhafnar, er full ástæða til að fylgjast vel framvæmdum á svæðinu – því reynslan sýnir að verktaka eiga það til að virða takmarkanir leyfa af vettugi þá og þegar það hentar þeim. Sem dæmi þá voru þeir búnir að leggja nýjan veg í hrauninu sunnan og vestan gamla námusvæðins skv. ákvörðun byggingafulltrúa án þess að deiliskipulag fyrir það hafi verið samþykkt í bæjarstjórn. Vegslóðinn liggur í gegnum skráða fornleif, svonefndan „vörslugarð“, auk þess sem Óttarsstaðaselstígs (Rauðamelsstígs) er hvergi getið í gögnum málsins.  Stígurinn sá telst óyggjandi til fornleifa þrátt fyrir að finnast ekki í fornleifaskráningu Byggðasafns Hafnarfjarðar af svæðinu. Í fyrirliggjandi fornleifaskráningum safnsins er fornra stíga og gatna sjaldnast getið. Ætla mætti, í hugum skráningaraðila, að fólk hafi ferðast á millum staða í þyrlum fyrrum?!

Raiðimelur

Stóri-Rauðimelur 2023.

Straumsvík

Fyrirhuguð er stækkun álversins í Straumsvík. Stækkunin felur í sér framleiðsluaukningu um 260.000 tonn á ári frá núgildandi starfsleyfi – í tveimur áföngum.
Í skýrslu Hönnunar um stækkun álversins í Straumsvík frá því júní 2002 segir að Kapella„fyrirhugað er að reisa tvo tæplega 950 m langa kerskála, sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Önnur helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar eru súrálsgeymir, tvær þurrhreinsistöðvar, skautsmiðja, kersmiðja og stækkun steypuskála, spennistöðvar og geymsluhúsnæði. Nokkurt bil (um 130 m) verður á milli núverandi kerskála og fyrirhugaðra kerskála. Ástæða þess er sú að forðast þarf rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar.“
Umrædd kepallutóft er nú sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Í rauninni er fátt „fornt“ við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi „kapella“ hafi takmarkað gildi í því samhengi. Um er að ræða uppgert nútímamannvirki (frá því á sjöunda áratug 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þá var.
Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (á tímabilinu 1151-1188). Við „kapelluna“ er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján KapellaEldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu gamburmosahrauni, “niðurgrafin” í það og jarðlæg að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Kristján fjallaði um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
Síðan hefur mikið gengið á, gamburmosahraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin í staðinn á hraunhól í hennar stað. Leifar af gömlu þjóðleiðinni í gegnum „Brunann“, um 10 metra kafli, sést enn sunnan núverandi hleðslu.
Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið KapellaNýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri. Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að „kapellan“ haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin – reyndar falin í mosa.
KapellaVið uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju“kapellu“ í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að „grafa“ menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla. Ef það hefur verið gert eru bein þeirra nú komin undir álverið svo segja má með nokkru að álverið sjálft sé að nokkru meiri „fornleif“ en kapellan.

Líkneski

Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. (2006) er fjallað um „Menningardag Evrópu“, sunnudaginn 3. september. Áætlað var skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við „kapelluna“ í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru.
Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma. Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 cm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.“ Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.

Hraunkarl

Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim sést m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standur upp úr því.
„Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þar sem menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.“
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum „evrópska menningardegi“ sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.
Saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Brunanum/Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er einungis mikilvæg vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, sem fyrr sagði, reist á gömlum stað. Af myndum og uppdráttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.

Alfaraleið

Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Betra hefði verið að reisa tilgátugerð hennar annars staðar í óhreyfðum hluta hraunsins, s.s. við vestanverða Brunabrúnina. Með þessari endurgerð varð, og verður, hún ekki eins markverð og „ekta“ og hefði hún fengið að halda hrumleika sínum. Í augum „meðvitaðra“ er mannvirkið óekta og miklu mun minna áhugaverðara en ella. Hafi menn viljað endurgera þessa fornleif með tilgátulagi gátu þeir alveg eins byggt hana upp við Alfaraleiðina þar sem hún kemur upp á Brunabrúnina vestari ofan Gerðis – í óröskuðu gamburmosahrauni. Mannvirkið hefði betur verið látið óhreyft þarna en að byggja það upp með núverandi og öðru lagi en það upphaflega var.
Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.
Loks hermir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns HraunkarlArasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.
Hvort þessi tilltekna nútímalega „kapelluuppgerð“ getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega „menningararfleifð“ á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (enn óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er þó í dag, því miður, táknrænt virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.

Kapella

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum „fornminjunum“. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla „sjálfri sér samkvæm“. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.
Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni suðaustan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: „Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan Kapellaeða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum“.
Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir. Í fornleifaskráningu, sem jafnan er vitanð til í lærðum skýrslum um fyrirhugaða stækkun er einungis getið um þrjár eða fjórar fornleifar á svæðinu, allar fremur ómerkilegar. Staðreyndin er hins vegar sú að þær eru miklu mun fleiri – fylla annan tuginn. Þeirra er getið annars staðar á vefsíðunni í umfjöllun FERLIRs um svæðið.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.
Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast Kapellaplagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2.
Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast „skemmdirnar“ hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarflega ómarkvissar.
Nú hefur Álverið fest kaup á landinu ofan þess. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Frá kapellunni

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Af rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175:
„Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151. Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.

Kapella

Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni“.
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu.

Kapellan

Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“ eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“
Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sem fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur Kapellanrunnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.
Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.
KapelluhraunISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni (isor.is) að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Í úrskurði Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunnar Álversins í Straumsvík (2002) kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis, sunnan Reykjanesbrautar í landi Lambhaga, sé forn kapellutóft úr grjóti, sem Kapelluhraun dragi nafn sitt af. Sjálf tóftin standi á hraunhól, en svæðið umhverfis hólinn hafi verið sléttað. Til þess að forðast frekari röskun á næsta nágrenni kapellutóftarinnar þurfi að staðsetja fyrirhugaða kerskála sunnan kapellunnar í nokkurri fjarlægð frá eldri kerskálunum. Gert hafi verið ráð fyrir þessu við hönnun verksins í samráði við Fornleifavernd ríkisins og kaþólska söfnuðinn á Íslandi. Endanleg staðsetning kerskálanna með tilliti til fjarlægðar frá kapellunni, verði ákveðin við nánari hönnun kerskálanna og í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Kapelluhraun

Aðgengi almennings að kapellunni á milli kerskálanna verði tryggt með sérstakri aksturs- og gönguleið, óháð starfsemi á afgirtri lóð álversins.
Fram kemur að í nýlegri skráningu á fornleifum á svæðinu vestan álversins komi fram að mikið sé um fornleifar á jörðunum Þorbjarnarstöðum og Lambhaga. Einnig séu fornleifar mjög nærri núverandi vegi og því gætu breytingar á honum einnig raskað fornleifum. En hluta þeirra minjastaða, sem kortlagðir voru í athuguninni, hafi þegar verið raskað vegna núverandi mannvirkja og vega á svæðinu.
Lega aðkomuvegar að álverinu verði austan við það en þannig liggi vegurinn fjarri áðurnefndum fornleifum vestan álversins. Við hönnun annarra vega verði tekið tillit til fyrirliggjandi fornleifaskráningar.
Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins er vakin athygli á að á því svæði þar sem aðkomuvegur að álverinu sé fyrirhugaður séu skráðar tvær gamlar leiðir og ein landamerkjavarða. Ekki hafi fundist merki um leiðirnar en varðan standi enn. Fyrirhugað sé að framlengja núverandi veg vestan álversins í átt að nýrri Reykjanesbraut og muni það hafa áhrif á fornleifar. Fram kemur að hluta þeirra fornleifa, sem skráðar hafi verið vestan álversins, hafi þegar verið raskað, en engu að síður séu ennþá minjar á þessu svæði, einkum sunnan Reykjanesbrautar, sem
mannvirkjagerð síðustu áratuga hafi ekki raskað. Sem dæmi megi nefna: tóftir á bæjarstæði Stóra Lambhaga og útihúsatóft norðan Reykjanesbrautar og leifar útihúsa, steinboga, gamlar leiðir, tóftir og garða sunnan brautarinnar.

Vörður

Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum – af ótrúlegri skammsýni.
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar er var til um 1960 og virðist standa á sínum upprunalega stað – líkt og von um fyrirgefningu um fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef nauðsyn bæri til, endurbyggja hana á annars röskuðu hrauninu – þ.e. endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, sem fyrr er nefnt, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem Alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni „fornleif“ en nú er.

Vörður

Mannvirkið „gekk úr sér“ á sínum tíma og „týndist“, en var síðan „endurvakið“ með fyrrnefndum uppgrefti. Sem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið „endurgerð“. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur tilhlýðileg virðing sýnd.
Það að „ástæða sé að forðast rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar“ er þó þrátt fyrir allt bæði vitnisburður og viðurkenning á að „fornleifar“ hafi eitthvert vægi þegar slíkar stórframkvæmdir eru undirbúnar. Því ber að fagna.

Heimildir m.a.:
-Kristján Eldjárn – “Heilög Barbara mær og kapella hennar”, Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88.
-Kristján Eldjárn – “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954).
-Kristján Eldjárn – Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Jón Árnason – Þjóðsögur, II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
-www.fjardarposturinn.is – 32 tbl, árg. 2006, bls. 7.
-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.
-Guðmundur Kjartansson – Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið, 1973. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson – jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson – Krísuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – Tímaritið Jökull 1989, 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Krísuvíkureldar II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – Jökull 1991, 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Hraun í nágrenni Straumsvíkur – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 171-177.
-Páll Imsland – Náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 263-273.
-nat.is
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-http://www.solistraumi.org/Mat_skipulagsstofnunar.pdf

Kapellan

Straumsvík

Í Vísi árið 1965 var fjallað um Straumsvík, Hrólfsvík og fyrirhugaða byggingu álvers á svæðinu – „Kyrrláta Straumsvíkin„:
straumsvik 1965„Allt útlit er fyrir það, að stórir atburðir fari að gerast hér suður með sjó, á stað þeim sem heitir „í Straumi“. Þetta er einn fallegasti og hlýlegasti staðurinn á allri strandlengjunni frá Hafnarfirði og suður að Vogum. Og meðan ferskt vatn skortir á Vatnsleysu-ströndinni eins og nafnið ber með sér er mikið af fersku streymandi vatni í Straumi, eins og nafnið ber líka með sér. Þarna á nú að fara að reisa risastór aluminium—verksmiðju, ef samningar takast milli íslenzku ríkisstjórnarinnar  og hins svissneska málmbræðsluhrings, en samningar um það mál standa yfir í Reykjavík og eru á lokastigi; þannig að nú verður að segja af eða á, hvort verða skal úr þessu. Þessi staður hefur verið valinn fyrst og fremst vegna hafnarskilyrðanna, en hvergi á öllu Reykjanessvæðinu eru hafnarskilyrði eins góð og þarna: nema ef vera skyldi í Hafnarfirði sem er góð höfn frá náttúrunnar hendi. Sætir það jafnvel furðu, að ekki skuli fyrir löngu risið upp þarna fiskihöfnÞannig hagar til, að þarna rennur hraun í sjó út. Svo virðist á ytra borði, að hraun þetta sé flatt og aflíðandi og gætu menn dregið þá ályktun af því að þar út af hlytu að vera langar grynningar. En svo er ekki, því að þarna koma mikil skil og hraunbrúnin er snarbrött niður í sjóinn og þar inni á Straumsvíkinni er 10 metra dýpi, nægilegt fyrir stærstu skip. Þarf lítið annað að gera en steypa sléttan hafnarbakka framan á hraunbrúnina og e. t. v. að leggja varnargarð gegn útnyrðingnum, sem er þó sjaldgæf átt hér um slóðir. Áður fyrr skildu menn, að Hraunsvík var afbragðshöfn og virðist sem þýzkir og enskir kaupfarar sem hingað komu á miðöldum hafi ýmist siglt á Hafnarfjörð eða Straumsvík, báðar voru jafngóðar til skipa lægis. Einu sinni á það m.a. að hafa skeð þegar stríð var milli enskra kaupmanna og Hansamanna, að Englendingar fóru í land í Straumsvík, læddust svo að Hafnarfirðí landveg, komu Hansamönnum að óvörum, sigruðu þá og hertóku.

Straumsvik-223

Síðari saga Straums er sú, að Bjarni Bjarnason átti jörðina fyrir 1930 og byggði þá íbúðarhús það og fjárhús sem burstastíl, en síðan fór Bjarni og gerðist skólastjóri á Laugarvatni. Síðan bjó Sigurður Þorgilsson bóndi, faðir sr. Bjarna á Mosfelli lengi á jörðinni eða yfir stríðsár. Eigendur hafa verið bræðurnir Jens og Ingólfur kaupm. í Ljósafossi og síðan Bjarni í Matarbúðinni í Hafnarfirði og bróðir hans Kristinn. Var þá tekið til við að reka þar svínabú og hafa rekið það m. a. Blomsterberg og nú Sölvi Magnússon.
Núna á þessari öld – framfara, fór mönnum í bæjunum brátt að verða ljós náttúrufegurð þessa staðar í hraunkvosum og smákjarri við streymandi lindina undan hrauninu, og fóru menn að sækjast eftir að eignast þar sumarbústaði. Einna fyrst reisti Þórarinn Egilsson í Hafnarfirði sér þar lítinn sumarbústað fyrir sunnan veginn þar sem heitir í Gerði, síðar eignaðist Ólafur Johnson stór kaupmaður Gerðið og bjó þar lengi á sumrum með fjölskyldu sinni. Þann sumarbústað á nú Ragnar Pétursson kaupfélags stjóri í Hafnarfirði. Sumarbústaðurinn í Gerði sést ekki á myndinni er talsvert lengra til hægri. En úti á tanganum þar sem Aluminiumverksmiðjan á að risa þar sem heitir Lambhagi sjást sumarbústaðir. Stærstur þeirra er sumarbústaður Lofts Bjarnasonar hins athafnamikla útgerðarmanns í Hafnarfirði. Má vera að honum þyki gerast þröng fyrir sínum dyrum, að fá í nábýli við sig stærsta mannvirki og verksmiðju á landinu. Að öðru leyti skýrir myndin sig sjálf með þeim áletrun um sem þar eru. Þarna sést aðeins í gamla Keflavíkurveg inn og sá nýi liggur sléttur og glansandi í sveig um landið. Nálægt miðri mynd sést á hið um deilda tollskýli við nýja veginn og í fjarlægð má greina hvíta byggðina í Hafnarfirði en Esjuna í baksýn, Esjan er nefnilega ekki aðeins fjall Reykvíkinga, hún setur svip sinn á út sýnið frá Strönd og Vogum.“

Heimild:
-Vísir, 2. desember 1965, bls. 3 og 6.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Straumur

Eftirfarandi skrif, „Staldrað við í Straumsvík“, birtust í Fálkanum árið 1966:
Straum-771„Ísland á óhemju 
mikla náttúru á öllum sviðum og á sumum sviðum svo skrítna, að hún hefur komizt í alfræðibækur og sandala-Þjóðverjar koma árlega til að sjóða sér kartöflur í Geysi. Við eigum samt enga fossa, sem renna upp í móti, en því meira af þeim sem falla niður og það er ennþá betra. Og það er ekki nema klukkutíma gangur að sumum þeirra. Kaldá hefur lengi verið mönnum ráðgáta. Hún kemur upp í Kaldárbotnum fyrir ofan Hafnarfjörð, rennur smáspöl uppi á yfirborði jarðar, en stingur sér undir hraunið, svo snögglega að líkast er að hendi sé veifað og síðan veit enginn neitt með neinni vissu. Auðvitað fer ekki hjá því að afbrigðilegt háttalag Kaldár, hafi vakið margfalda athygli kynslóða síðan sögur hófust. Þannig á Kaldá t. d. að vera ábyrg fyrir Reykjaröstinni og aðrir setja hana í eitthvert óljóst samband við Kleifarvatn og enn aðrir eru á þeirri skoðun að hún velli fram undan hrauninu í Straumsvík skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð. Svo mikið er þó allavega vist, að í Straumsvík kemur ferskt vatn undan hrauninu og myndar þar straumiður margar og stendur uppi í mörgum bollum. Einnig hefur þar gróið upp meira en annars staðar, nema þá að hraunið hafi aldrei runnið þar yfir, sem er alveg eins sennilegt.
Straumsvík er ein af örfáum vinjum í bleksvart hrjóstrið þar syðra. Frá því Straumi sleppir og þangað til komið er í Kúagerði sést ekki stingandi strá við hvíta og ópersónulega steinbrautina, aðeins helluhraun og apalhraun, sem riðlast hvort á öðru og apalhraunið þó heldur ofan á. Þar er til að mynda Hvassahraun, sem talið er að hafi runnið eftir landnám, enda er þess nokkrum sinnum getið í annálum að Reykjanesskagi hafi brunnið.

straum-772

Þetta hraun hefur strax orðið illur farartálmi, enda er taliS að yfir það hafi verið gerður vegur og þá væntanlega númer tvö í röðinni hérlendis af manna höndum. Hinn er Berserkjagata á Snæfellsnesi. sem berserkir Víga-Styrs unnu að án þess að fá launaumslagið sitt að verki loknu. Heldur voru þeir kæfðir í baðstofu, enda var þá engin verðbólga til að kæfa menn í að verkslokum. Fróðir menn telja (þetta er orðalag, sem menn nota þegar þeir hafa ekki heimildir fyrir skrifum sínum, eða veigra sér við að nefna þær), að vermenn hafi unnið að vegagerðinni yfir Hvassahraun og hefðu þeir trauðla komizt í verið suður með sjó að öðrum kosti, a. m. k. ekki á landi. Það eitt að missa ekki af vertíðinni í Kirkjuvogi eða Grindavík, hefur orðið þessum mönnum sumum hverjum, á við feitt launaumslag, en aðrir hafa með vegagerðinni trúlega brúað mjótt bilið milli sjálfra sín og sjódauðans síðar á vertíðinni. Hvernig sem á því stendur, er ekki vitað til að Íslendingar hafi gert vegi þaðan í frá og allar götur fram á síðustu öld, heldur látið sauðkindina troða götur að sumrinu og slátrað henni svo að haustinu.

straum-773

Vegabætur allar eru sárlega vanþakkaðar allt fram á okkar dag. Þar sem Straumur er ekki ein af landnámsjörðunum, er með öllu ómögulegt að beita Ara fróða fyrir sig og segja til um upphaf byggðar þar. Trúlega hefur einhver staðfesta orðið þar allsnemma, því að þarna er þó hægt að ná sér í vatn, sem verður því sjaldgæfara, sem utar dregur á skagann, sem er hriplekur af umbrotum undirdjúpanna. Að því slepptu er trúlegt að þar hafi verið áningarstaður lestamanna fram eftir öldum, en allt um það er farið að búa þar á þessari öld og býlið Straumur við Hafnarfjörð stendur enn, utan- og neðanvert við sumarhúsaþyrpingu og má engu muna að borga þurfi vegatoll áður en snúið er niður að bænum af Keflavíkurveginum hinum mikla.

straum-774

Þarna stendur stórt og traustlegt steinhús, þó komið allvel til ára sinna. Gæsir margar heilsa aðkomumanni með blaðri sínu og ef illa stendur í bólið þeirra, teygja þær hálsana framan að honum og blása. Þetta eru stórar akfeitar aligæsir, tilvaldar á jóiaborð einhvers staðar þar í heiminum, sem ekki er etið hangikjöt. Annar fénaður er ekki sýnilegur, nema ef vera skyldu a. m. k. þrír kettir. Fleiri voru ekki heima við í þetta sinn. Hvít læða lætur eins og hún vilji bæta fyrir ókurteisi gæsanna með því að nudda sér upp við okkur í sífellu og elta okkur um alla landareignina. Hún var sýnilega rétt ógotin og hafði ekki á móti því að henni væri strokið.

straum-775

Úr tanga skammt innan við víkina gengur brot alllangt út í sjóinn og rétt þar sunnan við og í víkurkjaftinum vaggar fleki. Við sjáum ekki hvort hann er mannaður, en hahn er þarna sennilega í sambandi við mælingar á dýpi, þarna á að rísa alúmínverksmiðja áður en öldin er öll. Það er bullandi útfall og norðankul beint ofan í fallið, auk þess renna margir strengir í sjó fram undan hrauninu og það er hvítfyssandi ólga úti á víkinni. Af ummerkjum á landi má ráða að grasnytjar séu þarna hæpnar. Sjór hlýtur að ganga langleiðina heim á hlað um stórstraum. Þarna hefur heldur ekki verið slegið í fyrrasumar að því er bezt verður séð, því hólar eru vafðir löngum sinuflókum. Rétt sunnan við bæinn þræðir stórvandaður grjótgarður sig eftir mishæðunum og alla leið í sjó fram. Þar hefur hann brotnað niður allur af sjógangi og ekki verið reistur við. Það sem stendur af honum er fallegt mannvirki þótt ekki glampi þar á gler og stál, en fyrir þessu hvort tveggja verður hann að víkja um síðir. Af reka ber mest á plastbrúsum alls konar. Meðan blaðrið í gæsunum blandast skvaldrinu í fjörunni og garginu í mávunum, skulum við hverfa aftur í tímann til haustsins 1550, þegar þeir feðgar Jón biskup Arason á Hólum, Björn og Ari synir hans, sitja í myrkrastofu austur í Biskupstungum á stað þeim er Skálaholt nefndist, en Skálholt nú. En í stofu sitja þeir að árbít siðaskiptahetjurnar Marteinn biskup Einarsson, Kristján skrifari. Daði í Snóksdal og séra Jón Bjarnason.

straum-782

Skyldu nú ráðast örlög þeirra feðga og þótti mikið við liggja að vel tækist til um að geyma þá. Dálítið var samt hjartað neðarlega í stríðsmönnum Lúthers þennan morgun, því enginn þeirra treystist til að gæta feðganna fyrir Norðlendingum, sem voru svo tregir til að skipta um sið, að jafnvel enn þann dag í dag er ekki örgranni um að Þeir setji meira traust á hrossið en almættið. Kom því þar umræðum að allir sigldu í strand, nema séra Jón Bjarnason. Hann kvaðst ef til vill vera heimskastur þeirra allra, en þó kynni hann ráð er duga myndi. Þeir báðu hann láta heyra.
Séra Jón mælti þá þessi fleygu orð: „Öxin og jörðin geyma þá bezt!“ Þetta fannst þeim þjóðráð Kristjáni og Marteini, en sagan segir að Daði hafi verið tregur til sastraum-777mþykkta. Þó lét hann undan að lokum og því fór sem fór. Þegar öxin hafði unnið sitt á þeim feðgum, voru^ þeir fengnir jörðinni til vörzlu. Þeir voru dysjaðir eins og afsláttarklárar „út undir vegg, kistulaust og með engum sóma. Heldur voru Norðlendingar lítið hrifnir af aðförum þessum öllum. Þeir gerðu reið mikla til Skálholts að heimta líkin og voru óárennilegir. Flokkurinn var allur hálfgrímuklæddur, því hver maður var með svarta lambhúshettu svo rétt grillti í augu og nef. Aldeilis seig Marteini biskupi larður við þessa sýn og gaf umsvifalaust leyfi til að líkin yrðu tekin og flutt norður um heiðar. Norðlendingar veittu líkunum umbúnað í Laugardal. í kistu Ara lögmanns settu þeir eina klukku, tvær í kistu séra Björns og þrjár í kistu herra Jóns Arasonar. Hringdu klukkur í sífellu á norðurleið, en Líkaböng á Hólum sprakk af harmi.
Því er þessi saga rakin hér að eftirmál urðu meiri og stærri í sniðum síðar og víkur nú sögunni suður á nes. Norðlenzkir vermenn höfðu spurnir af Kristjáni skrifara og sveinum hans, þar sem þeir sátu fagnað að Kirkjubóli í Garði.

straum-783

Að fengnu leyfi bóndans, Jóns Kennekssonar, tóku þeir hús á Kristjáni og drápu hann þar og sveinana. Þetta var mikið hervirki og er ekki annars getið en það hafi mælzt vel fyrir af allri alþýðu, þó að kóngurinn hafi sjálfsagt ekki verið kátur, þegar hann frétti það til Kaupmannahafnar. Trúlega hefur líka sett hroll að Marteini og fylgjurum hans við tiltektir vermanna. En u m sumarið er sagt að „orlogsskip“ danskt kæmi af hafi og á því 600 hermenn með alvæpni. Skipinu stýrði „orlogskafteinn“. Þeir hinir  dönsku menn létu hendur standa fram úr ermum og tóku Jón karlinn Kenneksson og hjáleigumann hans Sennilega hefur átt að flytja þá annað hvort austur í Skálholt, eða að Bessastöðum, en svo mikið er víst að í Straumsvík þraut gæzlumennina þolinmæði og þar hjuggu þeir fangana. Síðan voru höfuð þeirra sett á steglur, en búkarnir á hjól. Sá þess merki í tuttugu eða þrjátíu ár, að því er annálar herma.
Þannig hófust erlendar framkvæmdir í Sstraum-779traumsvík árið 1551 eða 1552, en ekki 1966 eins og sumir telja. Til gamans skal hér að lokum tilfært úr kafla þeim úr Biskupsannálum Jóns Egilssonar, þar sem greint er frá drápi Kristjáns skrifara og sveina hans: ,.. .. Þeir báðu bóndann leyfis að rjúfa bæinn; hann sagði þeir mætti brjóta ef þeir bætti aftur og fyrir það var hann af tekinn, að hann bannaði þeim ekki. Síðan veittu þeir þeim að göngu og drápu þá; sumir segja að þeir hafi verið VII en sumir IX — Christján komst út lifandi, utan höggvinn nokkur, því hann var í treyju, sem járnin bitu ekki á. Þá kom að maður átján vetra, stór sveinn Þórunnar á Grund, og hafði lenzu í hendi. „Ég skal skjótt finna á honum lagið“, og lagði fyrir neðan treyjuna og upp í smáþarmana á honum, svo hinn rak þá upp hrjóð og lýsti hann sinn banamann. Hann sá síðan hvar grár hestur stóð, er Ari heitinn (sonur Jóns biskups) hafði átt, hann tók hann strax og reið norður í Eyjafjörð á iii dögum, að sagt er. Engra þeirra nöfn man ég er þar voru að. – Þaðan fóru þeir til Mársbúða og drápu þar annan er þar lá, en annar slarjD, því hann skaut einn af þeim til dauða meður einni baun, er hann lét fyrir straum-780byssuna og svo komst hann í Skálholt.
— Þeir fóru þá um öll Nes og drápu hvern og einn eptirlegumann og tóku allt það þeir áttu og líka það þeir Dönsku höfðu með sér og einn Danskur átti bú inn á Bústöðum; þar tóku þeir allt það þar var, en vildu drepa börnin, en þó varð ekki af því. Þá Danska á Kirkjubóli dysjuðu þeir fyrir norðan garð; tveir af þeim hétu Sefrínar: Sefrín Kock og Sefrín Ama; en strax þegar húmaði gengu báðir aptur; þeir tóku það ráð, sem þá höfðu slegið, að þeir hjuggu af þeim öllum höfuðin og stungu nefi þeirra (með leyfi að segja) til Saurbæjar, en sú svívirðing gramdist kóngsvaldinu mest, að vori, þá Danskir komu út.“

Heimild:
-Fálkinn, 39. árg., Staldrað við í Straumi, 20. tbl., 1966, bls. 10-11.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.