Björn Þorsteinsson skrifaði um „Básendaorustuna 1532“ í Faxa árið 1980. Skrifin voru fyrri hluti og aðdragandi af skrifum hans um Grindavíkurstríðið sama ár.
„Þann 11. marz 1532 hélt allstórt kaupskip úr höfn í Hamborg. Þetta var rammbyggt skip og skipshöfnin, um 30 manns, alvopnuð byssum, sverðum, lásbogum og öxum. Undir þiljum voru fimm fallbyssur fólgnar, þungir hólkar með víðum hlaupum. Öll útgerð skipsins gaf til kynna, að þær stundir kæmu, þegar hauskúpumerkið væri dregið að hún og beinagrindin með rýtinginn og rommglasið á lofti hlykkjaðist á þöndu stórsegli yfir morðóðum sjóræningjum á stórum rosabullum með reifuð höfuð. En skipið hélt ekki venjulega leið sjóræningjasagna og víkinga, sigldi ekki í suður og vestur til þess að ræna gulli og gimsteinum nýfundinna landa, heldur hjó það bárur Norðursjávar og stefndi á leiðarstjörnu. En e.t.v. var gulls einnig að leita í þeirri átt, jafnvel öruggura gull, en þess, sem reyfarar greina frá. Hafið er vorúfið að þessu sinni, átt óstöðug og vindar snarpir. Áhöfn Hamborgarfarsins liggur auðsæilega allmikið á.
Vikum saman ann hún sér ekki hvíldar, en siglir og beitir ósleitilega, og skipið þokast norður og vestur yfir Atlantshaf. Vörður stendur stöðugt í körfunni á stórsiglunni og gefur nákvæma skýrslu um skipaferðir. En ekkert ber til tíðinda. Englendingar virðast liggja enn í heimahöfnum, þeir eru ekki lagðir í „sjóferðina löngu“ að þessu sinni, nema nokkrar skútur, sem eru komnar á miðin undan Færeyjum. E.t.v. ætla þær ekki lengra. Hansafarið siglir djúpt undan eyjunum, og skipstjórinn, Ludtkin Smith, kaupmaður í Hamborg fer sjálfur upp í stórsiglukörfuna og tekur mið, þegar þær hverfa í sæ.
Ludtkin Smith er maður um fertugt. Hann hafði nokkrum sinnum verið kaupmaður á Íslandsförum, en þetta er í fyrsta sinn, að hann er skipstjóri og foringi leiðangurs norður til eyjarinnar. Áður en hann lét úr höfn í Hamborg, hét hann ráðherra í borginni að vinna íslenzka höfn úr höndum Englendinga og drepa hvern þann, sem reyndi að hindra það áform sitt. Menn véfengdu ekki, að hann hefði fullan hug á því að standa við heitið, en hingað til höfðu Englendingar verið aðsópsmiklir á Íslandsmiðum og Þjóðverjum þungir í skauti.
Fyrir tæplega hálfri öld hafði frændi Ludtkins Smiths siglt þessa sömu leið og lent í Hafnarfirði á Íslandi kvöldið fyrir allrapostulamessu eða 1. maí. Við Straum, sunnan fjarðarins, lá skipið Vighe frá Lundúnum. Um nóttina vígbjóst skipshöfnin, létti akkerum og sigldi til Hafnarfjarðar. Í morgunsárið greiddu Englendingar aðför að Hansamönnum óviðbúnum, skutu nokkra til ólífis, en tóku skipið herskildi. Þeir ráku skipstjórann, Ludtkin Steen, og nokkra Þjóðverja með honum í skipsbátinn, en héldu 11 af áhöfninni um borð og sigldu með feng sinn til Írlands. Þar lentu þeir í Galway og seldu skipið, farm þess og fangana 11 nafngreindum Írum. Kröfum og kærum fyrir þetta Sjórán og mansal hafði ekki verið sinnt til þessa. Enn þá var veröldin lítið breytt og þrælamarkaðir á brezku eyjunum. Vopnabúnaður Hamborgarfarsins var því ekki ástæðulaus.
Árið 1511 höfðu Englendingar tekið Hamborgarfar við Ísland og farið með það og áhöfn þess til Húllar, en þaðan slapp skipstjórinn með miklum ævintýrum; hitt skipið tóku þeir í hafi.
Árið 1514 tóku þrjú ensk herskip Hamborgarfar í hafi á leið til Íslands, særðu skipstjórann og vörpuðu honum lifandi fyrir norð, og drápu nokkra af áhöfninni. Með skipið fóru þeir til Newcastle og héldu því í tvo mánuði. Að þeim tíma liðnum réðust Englendingar um borð í skipið, tóku stýrimann og hjuggu hann í stykki og vörpuðu þeim útbyrðis, einnig hálshjuggu þeir tvo háseta, en særðu 5 hættulega í ryskingum, sem urðu við ofbeldisverkin. Þannig voru 15 af áhöfn skipsins drepnir, þegar því var skilað að lokum með nokkrum hluta farmsins.
Árið 1528 réðust 7 ensk skip á Hamborgarfar í höfninni að Rifi við Snæfellsnes, og tóku úr því öll vopn, byssur, púður og matvæli og meginhlutann af farmi þess. — Ári síðar réðst Englendingurinn Jón Willers frá Lynn á Hamborgarfar norður í Eyjafirði og sökkti því í hafið með 36 manna áhöfn.
Að lokum birtast hvítar jökulbungur yzt við sjóndeildarhring í norðri, og blásvört háfjöll teygja sig upp fyrir hafsbrún hvert af öðru. Ísland rís úr hafi í grárri vormorgunskímu, kaldranalegt en heillandi. Sjómenn töldu, að fjöll þess byggju yfir geigvænum töframætti, þau væru svo segulmögnuð, að þau soguðu skip upp að hafnlausum söndum og brytu þau í spón með því að draga að sér nagla úr byrðingum þeirra. Árlega fórust hér skip með ströndum fram, en samt sem áður hættu menn aldrei að sigla til Íslands, ef þá hafði einu sinni borið þangað. Í heimabyggðum þeirra lék það ekki á tveimur tungum, að Íslandsfarar yrðu fyrir gerningum; þar bjuggu seiðkonur í fjöllum.
Hamborgarfarið hélt djúpt undan Vestmannaeyjum og stefndi fyrir Reykjanes. Nokkrar enskar duggur voru á leið inn til eyjanna, annars voru engin skip sjáanleg. Skipshöfnin hafði unnið kappsiglinguna til Íslands að þessu sinni og gat valið sér verzlunarhöfn samkvæmt því ákvæði íslenzkra laga, að sá á höfn, sem fyrstur lendir þar að vorinu. Á laugardagskvöldið fyrir páska hélt skipið að lokum inn á lónið að Básendum við Stafnes.
Höfnin að Básendum er langt og mjótt lón eða gjögur, sem skerst vestan í Romshvalanes innanvert. Siglingaleið inn á lónið er alllöng og tæp milli skerja, en fyrir innan er útfiri og þröng lega. Hér var því einu skipi gott að verjast.
Fyrir sunnan Básenda skerast svipaðir básar inn í nesið eins og Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás og Blasíubás og Þórshöfn. Frá sumum þessum stöðum var dálítið útræði, og Básendar urðu verzlunarstaður Erglendinga á 15. öld, en Hamborgarar náðu höfninni sum árin seint á öldinni. Verzlunarbúðir voru norðan hafnarinnar, og þar lagði Ludtkin Smith skipi sínu við fjögur akkeri og lét binda landfestar eftir því sem menn kunnu bezt.
Daginn eftir voru heilagir páskar og guðsþjónustur í kirkjunni að Hvalsnesi og Kirkjuvogi, en menn Ludtkins Smiths unnu að því að skipa upp vörum og búa um skipið á legunni, en gerðu sér síðan glaðan dag. Þegar leið á daginn, sáu þeir, að skip kom af hafi og stefndi til Básenda. Þeir tygjuðust þegar til varnar, ef óvinir væru á ferð, en komumenn felldu segl og vörpuðu akkerum fyrir utan höfnina. Skömmu síðar var báti róið frá skipinu að Hamborgarfarinu, en á honum var enskur kaupmaður að nafni Thomas Haerlack, auk stýrimanns. Þeir Ludtkin tóku þeim félögum vel og glöddu þá með mat og góðum bjór. Þeir fréttu, að hér var komið skipið Anna frá Harwich í Englandi, um 120 lestir að stærð og með um 80 nanna áhöfn.
Englendingar höfðu lagt úr höfn þann 15. marz og hreppt mjög hagstætt veður Þeir báðu leyfis, að mega leggjast á höfnina, en þeirri málaleitan tók Ludtkin Smith þunglega. Hann bað þá félaga að skila aftur til manna sinna, að þeim væri ráðlegast að leita sér annarrar hafnar, því að skip þeirra væri svo stórt, að nægur fiskur yrði ekki fáanlegur í bæði skipin að Básendum.
Hann benti þeim á, að allar hafnir við Ísland stæðu opnar hverjum sem vildi, og væru frjálsir verzlunarstaðir þeim, sem þangað kæmu fyrstir að vorinu. Samkvæmt þeirri hefð sagðist Ludtkin eiga einkarétt til Básendahafnar að þessu sinni, en þar að auki hefði hann heitið Hinriki nokkrum Berndes, kauppláss hjá sér í íslenzkri höfn, ef hann yrði á undan honum til landsins. Ludtkin Smith fór um það mörgum fögrum orðum, að hefðu Englendingar orðið fyrri til hafnar við Ísland að þessu sinni, þá hefði hann hvorki vænzt þess né krafizt af þeim, að þeir vikju úr höfninni fyrir sér, og nú ætlaðist hann til þess sama af Englendingum. Þeir Thomas Haerlack tóku vel boðskap Þjóðverja og kváðust ekki ætla að bíða boðanna, en sigla tafarlaust til Grindavíkur, þegar hann gengi í norður og byr gæfi. Síðan kvöddust þeir með virktum, og héldu. Englendingar út í skip sitt.
Það var allt kyrrt og friðsamt við Básenda næstu nótt; enska skipið sýndi einungis ekki á sér neitt fararsnið. Á annan í páskum kom enn skip af hafi og stefndi til Básendahafnar. Þar biðu menn Ludtkins óþreyjufullir eftir því að sjá, hvers konar skip hér væri á ferð. Undir kvöld kom það að höfninni og varpaði þegar akkerum við hliðina á Önnu frá Harwich. Hér var komið frægt Íslandsfar, Thomas frá Húll í Englandi. Því hafði lengi verið haldið til Íslands og háð þar marga hildi. Frægasta afrek þess var að sökkva Hamborgarfari með allri áhöfn norður í Eyjafirði 1529. Að þessu sinni hafði skipstjórinn, Jón Willers, bundizt samtökum við Thomas Hamond, skipstjóra á önnu frá Harwich, og höfðu þeir lagt samtímis úr höfn í Lynn í Englandi, en dregið í sundur með þeim á leiðinni.
Skipið Thomas frá Húll var 60 lestir að stærð og með 52 manna áhöfn. Aðalfarmur beggja ensku skipanna var salt, og voru 24 lestir í Thomasi frá Húll. Hins vegar var þýzka skipið hlaðið drykkjarföngum, mjöli, malti, smjöri og hunangi. Hansafarið var kaupskip, hingað komið til þess að stunda verzlun, kaupa skreið í skiptum fyrir varning sinn. Ensku skipin voru hins vegar aðallega komin hingað norður til þess að stunda fiskveiðar og útgerð, en til þeirra hluta voru þeim nauðsynlegar bækistöðvar á landi. Af þeim sökum voru áhafnir enskra skipa miklu fjölmennari en þýzkra, því að Englendinga beið hér umfangsmeira starf en Þjóðverja.
Englendingar voru flestir með smávöruslatta í skipum sínum til þess að geta drýgt eigin afla með verzlun við Íslendinga. Það var því ekki nema að nokkru leyti rétt hjá Ludtkin Smith, að næg skreið fengist ekki á Básendum í skipið Önnu frá Harwich, því að Englendingar ætluðu að draga fiskinn að mestu leyti sjálfir, og Básendar liggja vel við góðum miðum. Englendingar höfðu lagt svo snemma í „löngu sjóferðina“ að þessu sinni til þess að njóta síðari hluta vorvertíðarinnar við Suðurland. En þeir þurftu höfn til útgerðarinnar engu síður en til verzlunar, og nú lágu þeir fyrir framan höfnina, en fyrir innan lá eitt Hansaskip og bannaði þeim hafnarvist.
Thomas Hamond, skipstjóri á Önnu frá Harwich, steig þegar í skipsbátinn, er Thomas frá Húll hafði varpað akkerum, og fór að hitta landa sína og félaga. Honum var vel tekið, og bundust Englendingar samtökum um að ráðast á Hamborgarfarið og ræna það. Þeir töldu sig hafa mikla yfirburði yfir Þjóðverja í skipum og mannafla, og ákváðu að drepa hvern þann, sem veitti þeim mótþróa, en hengja Ludtkin Smith á bugspjótinu. Einnig segir í þýzkri skýrslu um þetta mál, að Englendingar hafi boðið Íslendingum að koma til veizlu að Básendum, því að þar yrði Þjóðverjakjöt á borðum næsta dag.
Inni á höfninni lágu Ludtkin Smith og félagar hans ekki aðgerðarlausir. Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði legið að Básendum um veturinn og keypt skreið af mönnum. Hann var uppi við búðimar og tók á móti varningnum, sem skipað var á land. Nú fékk Ludtkin hann til þess að safna 80 manna liði Þjóðverja og Íslendinga og vera við öllu búinn án þess þó að láta mikið á liðsafnaðinum bera. Ludtkin vildi gjarnan að Englendingar gengju í gildru og honum gæfist kostur á að launa Jóni Willers fyrir margs konar hrellingar og ofbeldisverkin norður á Eyjafirði.
Snemma á þriðjudagsmorgun 2. apríl lét Thomas Hamond á skipinu Anna frá Harwich vinda upp segl og létta akkerum, en í stað þess að sigla suður með landi til Grindavíkur, eins og menn hans höfðu talað um, þá hélt hann inn á höfnina á Básendum. Þegar styrjaldir hefjast, er venjulega vant að fá úr því skorið, hver hleypti af fyrsta skotinu, og svo er hér. Ludtkin Smith ber það síðar, að Thomas Hamond hafi siglt inn á Básendahöfn þennan morgun í fögru veðri og fyrir hagstæðum byr og tekið formálalaust að skjóta á stjórnborðshliðina á skipi sínu með bogum, fallstykkjum og kastspjótum og eyðilagt stafn og skut á skipinu og allt að þeim hluta þess, sem nefnist búlki. Hins vegar segjast Englendingar hafa neyðzt til þess að leita hafnar að Básendum sökum óveðurs, en þar hafi Ludtkin Smith ráðizt á þá óvara með skothríð. Að öðru leyti ber enskum og þýzkum skýrslum sæmilega saman um atburðarásina.
Þótt Ludtkin hafi e.t.v. ekki hleypt af fyrsta skotinu, þá er það víst, að Anna frá Harwich hafi ekki siglt langt inn á Básendahöfn, þegar hann lét senda henni innihald fallstykkja sinna og skipshöfn hans hóf skothríð með öllum þeim vopnum, sem henni voru til tæk. Í þessari hrotu féll Thomas Hamond skipstjóri fyrir skoti, en kúlnahríð Þjóðverja var svo nærgöngul við lyftinguna aftan til á skipinu, að stýrimaðurinn hrökklaðist frá stjórnvölnum. Þá ætluðu skipverjar að kasta út akkeri til þess að forða árekstri, er skipið rak stjórnlaust, en Þjóðverjum tókst að höggva akkeriskaðalinn sundur fyrir þeim, svo að skipið rak suðaustur yfir lónið og strandaði. Í þessum svifum kom Thomas frá Húll fyrir fullum seglum og réðst með skothríð framan að Hansafarinu. Þeim tókst að slíta eina akkerisfesti, sem skip Ludtkins var fest með, en komu krókstjökum á bugspjótið og greiddu þar atlögu. Í þessu áhlaupi féllu tveir Þjóðverjar, varð annar fyrir skoti, en hinn rekinn í gegn, og margir særðust. Ludtkin tók það fangaráð að höggva bugspjótið af skipi sínu og losa sig þannig úr tengslum við enska skipið, en jafnframt hófu menn hans ofsalega skothríð að því.
Sökum vigamóðs gætti Jón Willers ekki að því, hvað var að gerast, en skip hans rak suður yfir lónið. Maður nokkur hljóp þá til og ætlaði að varpa út akkeri, en var skotinn til bana, og sá næsti, sem reyndi féll óvígur. Skipið kenndi brátt grunns sunnan hafnarinnar, og skipaði Jón Willers mönnum sínum að róa út með akkeri í skipsbátnum og ná skipinu út á næsta flóði. Ludtkin beindi strax skothríð að skipsbátnum, svo að Englendingar gáfust upp við þá fyrirætlun, þegar einn af mönnum þeirra var fallinn og báturinn laskaður. Þar með voru bæði ensku skipin strönduð, annað innst á höfninni, en hitt sunnan hennar vestarlega á lóninu. Norðan til á höfninni lá Hamborgarfarið og beindi skothríð að skipi Jóns Willers, en á landi beið lið Hans Ludtkins albúið að taka á móti Englendingum, ef þeir reyndu að yfirgefa skipin.
Allan þriðjudaginn sátu Englendingar í herkví á skipum sínum og biðu flæðar á miðvikudagsnóttina, en þá ætlaði Jón Willers að gera nýja tilraun til þess að ná skipi sínu út, en tilraunin misheppnaðist. Vindur var norðlægur og skipið hrakti einungis lengra upp á grynningarnar. Hins vegar tókst áhöfninni á Önnu frá Harwich að ná skipinu út á flóðinu og leggja því við akkeri, og létu Þjóðverjar það afskiptalaust. Anna komst ekki úr höfninni nema með því að sigla rétt hjá Hamborgarfarinu, og Þjóðverjar vissu, að Englendingum þótti sú leið ekki greiðfær, eins og sakir stóðu. Öðru hverju kallaði Ludtkin til Englendinga að gefast upp skilyrðislaust, aðstaða þeirra væri vonlaus.
Allar heimildir gefa til kynna, að Englendingar hafi verið nokkru liðfleiri en Þjóðverjar í þessari orustu, en hamingjan var þeim ekki hliðholl, og á miðvikudagsmorgun tilkynntu þeir Jón Willers og Robert Legge, er tekið hafði við stjórn á Önnu frá Harwich eftir fall Thomasar Hamonds skipstjóra, að þeir væru fúsir að koma til friðarsamninga.
Þegar þeir voru komnir um borð í Hansafarið, kúgaði Ludtkin Smith þá til þess að bjóða skipshöfnum sínum að láta öll vopn af hendi við Þjóðverja. Þessu var hlýtt, og voru vopnin flutt um borð í skip Ludtkins. Að því búnu skipaði hann mönnum sínum að fara um borð í skipið Thomas frá Húll og tæma það af öllu fémætu. Skipið stóð nú að mestu á burru um fjöru, svo að Þjóðverjum var greið leið að skipinu, en Englendingar snerust enn til varnar, þótt þeir hefðu fátt vopna. Ludtkin lét þá höggva gat á byrðinginn og menn sína ganga þá leið inn í skipið og ræna. Nú var ekki um annað að gera fyrir áhöfnina en flýja á land upp. Þar umkringdu Þjóðverjar þá og tóku tvo þeirra, sem þeir töldu sakbitnasta fyrir margs konar ofbeldisverk, m.a. fyrir að hafa átt drjúgan þátt í að sökkva Hamborgarfarinu norður á Eyjafirði árið 1529. Þessa menn lét Ludtkin hálshöggva, en misþyrmdi öðrum tveimur og skilja þá eftir klæðlausa, nær dauða en lífi. Meðan á þessu gekk, fékk skipið Anna frá Harwich að liggja í friði á höfninni við Básenda.
En nú kom röðin að því, meðan orustan stóð, að Ludtkin sendi sendiboða til Hafnarfjarðar og bað þýzka kaupmenn í firðinum að koma til Básenda og gera um deilur sínar og Roberts Legge og félaga hans. Þeir bregða við og koma til Básenda, en þar var Robert Legge neyddur til að skrifa undir skýrslu, sem Þjóðverjar sömdu um atburðina, en einnig urðu þeir að afhenda allan varning sinn úr skipinu og greiða 40 lestir skreiðar í skaðabætur.
Skreiðina afhenda þeir þann 16. maí, og fengu þeir þá að halda skipi sínu og töldust lausir allra mála fyrir þátttöku í orustunni að Básendum. Eftir það sigldu þeir burtu, en Erlendur lögmaður Þorvarðarson lét tylftardóm ganga um ,,skip það og góss, sem rak á land við Básenda í bardaga milli Ludtkins Smiths og Jóns Willers“ og dæmist það réttilega fallið undir konung.
Þar með voru þessir atburðir úr sögunni í bráð, en ýmsir aðrir áttu eftir að gerast. Seint í apríl kom skipið Thomas frá Lundúnum að Rifi á Snæfellsnesi, en þar lá fyrir Hamborgarfar á sama hátt og við Básenda. Englendingar gerðu út bát á fund skipstjórans á Hansaskipinu og báðu leyfis að mega koma inn á höfnina, en fengu synjun. Þá héldu Engiendingar til Grundarfjarðar og lágu þar í þrjár vikur og veiddu og verzluðu. Að þeim tíma liðnum kom þar skip frá Brimum ásamt Hamborgarfarinu, sem lá við Rif. Í þrjá eða fjóra daga lágu Hansaskipin á Grundarfirði og höfðust ekki að, en þann 20. maí lögðu þau að landi. Fjörutíu eða fimmtíu manns gengu af skipunum og héldu þangað, sem Englendingar voru með búðir sínar. Þjóðverjar réðust með alvæpni inn í búðirnar, brutu upp kistur kaupmanna og höfðu allt fémætt á braut með sér. Síðan fóru þeir um borð í enska skipið og tóku þaðan öll vopn og skotfæri.
Hér er um beint rán að ræða, en nú voru nýir og miklu alvarlegri atburðir á döfinni. Til er staðfest afrit, en ódagsett, af bréfi þýzkra skipstjóra og kaupmanna í Hafnarfirði til ráðsins í Hamborg. Þar segir, að Englendingar í Grindavík hafi tekið fisk, sem Hansamenn höfðu keypt og greitt. Þjóðverjar segjast vilja, að ráðinu sé kunnugt, að þeir ætli að ná fiskinum með valdi og leggja líf og góss í sölurnar. Þeir æskja liðsstyrks og bjóða ráðinu hluta í herfanginu.“
Heimild:
-Faxi, 7. tbl. 01.12.1980, Básendaorustan 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 242-243 og 191.