Tag Archive for: Þingvellir

Sprunga

Ágúst Guðmundsson skrifaði um „Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra“ í Náttúrfræðinginn 1986:

Sprungur

Sprungur á Þingvallasvæðinu.

Inngangur
„Sprunguþyrpingar, þ. e. belti af opnum gjám og misgengjum, eru algengar í gosbeltum hér á landi, en finnast einnig á eldvirkum svæðum erlendis. Almenn lýsing á öllum sprunguþyrpingum á Íslandi er í grein Kristjáns Sæmundssonar (1978), en ítarleg lýsing á einstöku sprungusvæði er í grein Ágústs Guðmundssonar (1980) um sprungurnar við Voga á Vatnsleysuströnd.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Jón Jónsson (1978) hefur einnig lýst sprungunum á Reykjanesskaga. Sprunguþyrpingar hér á landi eru allt að 20 km breiðar og 100 km langar. Flestar eru þó talsvert minni að flatarmáli, og almennt eru sprunguþyrpingarnar álíka að flatarmáli og rofnar gangaþyrpingar (Walker 1974).
Á síðustu árum hafa umfangsmiklar rannsóknir farið fram á sprunguþyrpingunni við Kröflu (Axel Björnsson o. fl. 1979, Oddur Sigurðsson 1980, Torge 1981, Eysteinn Tryggvason 1980). Kröfluþyrpingin gliðnaði um nokkra metra á tímabilinu 1975-1983. Gliðnunin er talin orsakast af göngum sem troðast lárétt inn undir þyrpinguna á nokkurra kílómetra dýpi (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir 1980, Pollard o. fl. 1983). Stundum ná þó gangarnir til yfirborðs og verða þá sprungugos. Utan Íslands hafa sprunguþyrpingarnar á Hawaii einkum verið kannaðar og virðast að flestu leyti mjög áþekkar hinum íslensku (Duffield 1975, Pollard o. fl. 1983).

Hrútagjá

Hrútagjá.

Sprunguaflfræði er vísindagrein sem hefur þróast ört á síðustu áratugum (Broek 1978). Beiting hennar í jarðfræði er þó nýtilkomin, en hefur þegar varpað ljósi á ýmsa þætti í myndun og þróun jarðsprungna sem áður voru óljósir (Rudnicki 1980). Enn er þó margt óskýrt, en aukin áhersla er nú lögð á nákvæmar mælingar og tilraunir úti í náttúrunni ásamt athugunum á tilraunastofum (Logan 1979). Slíkar nákvæmar athuganir hafa meðal annars leitt til þess að menn gera sér nú betur grein fyrir því en áður, að allar jarðsprungur eru sundurslitnar eða ósamfelldar og því ber að fjalla um þær sem slíkar (Segall og Pollard 1980).
Sprungur
Sprungurnar á Þingvöllum eru hluti af mikilli sprunguþyrpingu sem kallast Hengilsþyrpingin (Kristján Sæmundsson 1978, Eysteinn Tryggvason 1982) og nær frá Langjökli í norðri til Reykjanesskaga í suðri. Þær sprungur sem hér verður rætt um liggja norðan við Þingvallavatn í um 9000 ára gömlu helluhrauni (Guðmundur Kjartansson 1964).

Þingvellir

Almannagjá.

Oft hefur verið talið að Þingvallahraunið sé frá Skjaldbreið. Svo mun þó ekki vera, heldur er það komið úr 15 km langri gossprungu á Tindfjallaheiði, vestan við Kálfstinda, og liggur það ofan á Skjaldbreiðshrauninu (Kristján Sæmundsson 1965). Þótt Þingvallahraunið sé úr gossprungu er það dæmigert helluhraun (dyngjuhraun), beltað og tuga metra þykkt, eins og best sést í veggjum Almannagjár.
Á undanförnum árum hafa margvíslegar jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar athuganir verið gerðar á Þingvallasprungunum, og verður helstu niðurstöðum lýst hér á eftir. Meginefni greinarinnar eru þó mælingar sem höfundur gerði á nokkrum af stærri sprungunum sumarið 1981 og tilgátur um myndun og þróun þeirra.

Fyrri rannsóknir
Sprungur
Þingvallasprungurnar hafa verið kannaðar bæði jarðfræðilega og jarðeðlisfræðilega á síðustu áratugum, og er rétt að geta hér helstu rannsóknanna.

Þegar árið 1938 var gerð ítarleg könnun á Þingvallasprungunum, sem meðal annars fól í sér mælingu á samanlagðri vídd sprungna í tilteknu sniði (Bernauer 1943).

Þingvellir

Þingvellir.

Bernauer og félagar gengu yfir Þingvalladældina milli Almannagjár og Heiðargjár og mældu vídd hverrar sprungu sem þeir rákust á. Niðurstaðan var sú að vesturhluti dældarinnar, 1310 m breiður, hefði gliðnað um 41,2 m, en austurhlutinn, 2150 m breiður, hefði gliðnað um 33,85 m. Engin sprunga reyndist vera í 2,7 km breiðum miðhluta dældarinnar. Heildargliðnun 6160 m mælisniðs yfir Þingvalladældina reyndist því um 75 m, sem jafngildir 1,25%.
Kristján Sæmundsson (1965, 1967) kortlagði helstu sprungur Þingvalla sem hluta af kortlagningu Hengilsvæðisins. Í grein Kristjáns frá 1965 er yfirlit yfir allar fyrri rannsóknir á Þingvöllum, og vísast í það yfirlit um rannsóknir eldri en Bernauers (1943). Þrír rannsóknarhópar hafa á síðustu árum reynt að mæla hraða gliðnunar á Þingvöllum. Þýskur hópur mældi 1967 og 1971, en fann enga marktæka gliðnun eða samþjöppun á því tímabili (Gerke 1974). Bandarísk-íslenskur hópur mældi 1967, 1970 og 1973, og reyndist gliðnunarhraðinn 3 mm á ári tímabilið 1967-1973 (Decker o.fl. 1976). Hópurinn reyndi einnig að mæla hreyfingu samsíða Almannagjá, þ. e. hliðarhreyfingu, en engin fannst.
Sprungur
Niðurstöðurnar sýna að láréttar hreyfingar á Þingvallasvæðinu eru óreglulegar; svæðið næst Almannagjá þjappast saman en svæðið næst Hrafnagjá gliðnar, þannig að lokaniðurstaðan er gliðnun um 2 cm á ofangreindu tímabili. Enskur hópur mældi 1968-1972, 1977 og 1979. Niðurstöðurnar benda til gliðnunar í stefnu þvert á sprungustefnuna, að meðaltali um 3 mm á ári á tímabilinu 1970-1979 (Brander o. fl. 1976, R.G. Mason, munnlegar upplýsingar, 1981).
Eysteinn Tryggvason (1974) hefur mælt lóðrétta færslu eða sig á Þingvallasvæðinu. Niðurstöður hans benda til 2,5 mm sigs austurhluta dældarinnar, miðað við svæðið vestan við Almannagjá, tímabilið 1966-1971. Eysteinn (1968) áætlar mesta sigið á svæðinu 70 m og telur (1982) að breidd þess svæðis sem sígur kunni að vera meiri en breidd Þingvalladældarinnar, þannig að raunverulegur sighraði gæti verið talsvert meiri en þeir 2,5 mm hér á undan.

Stefna
Sprungur
Meðalstefna sprungnanna er N30°A, og er þá átt við línulega stefnu milli sprunguenda. Einstakar sprungur eru hlykkjóttar og víkja sums staðar talsvert frá meðalstefnu. Dæmi um slíkt er Gildruholtsgjá sem er stórt misgengi á austurhluta Þingvallasvæðisins. Gildruholtsgjá liggur í áberandi sveig þar sem misgengið um hana er mest, en þrátt fyrir það er línuleg stefna milli endanna áþekk meðalstefnu sprungna á svæðinu. Flestar sprungur á svæðinu víkja þó lítið frá meðalstefnu.

Lengd
Sprungur
Lengd sprungna er ávallt háð túlkun þar sem þær eru yfirleitt ósamfelldar (sundurslitnar) og klofnar. Í þessari grein hefur sú aðferð verið notuð að telja sem eina sprungu togsprungu eða misgengi sem rekja má óslitið á loftmyndum í mælikvarða 1:33300. Þessi kvarði var valinn til að auðvelda samanburð við sprunguþyrpinguna við Voga (Ágúst Guðmundson 1980) og til að útiloka smásprungur og stuðlasprungur sem sjást á loftmyndum í stærri mælikvarða.
Meðallengd þeirrar 101 sprungu sem mæld var er 620 m. Stysta sprungan mældist 57 m en sú lengsta 7,7 km (Almannagjá). Flestar sprungurnar eru hlutfallslega stuttar, en örfáar mjög langar. Til dæmis eru 44 sprungur styttri en 250 m og 72 styttri en 500 m. Hins vegar eru aðeins 12 sprungur lengri en 1000 m.

Vídd
Sprungur
Vídd sprungna var mæld með 25 eða 50 m millibili. Víddin er að vísu breytileg en oft mest nálægt miðri sprungunni og minnkar svo til beggja enda. Mesta vídd mældist á Hrafnagjá, 68 m. Mesta vídd Almannagjár mældist 64 m, en báðar þessar mælingar eru gerðar eftir loftmyndum. Mesta vídd úti í náttúrunni mældist á Hrafnagjá, 60 m. Þar sem sprungurnar eru víðastar hafa þær lögun langra, mjórra sigspildna.

Lóðrétt færsla

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Allar stórar sprungur á Þingvallasvæðinu eru að hluta til siggengi, og margar af smærri sprungunum hafa mælanlega lóðrétta færslu í einstökum mælipunktum. Siggengisveggirnir eru venjulega því sem næst lóðréttir. Sum siggengin eru lokuð, en önnur eru opnar gjár. Sums staðar eru þau því sem næst bein, en annars staðar hlykkjótt. Lóðrétt færsla mældist mest 28 m í einum punkti við Almannagjá, og er þá átt við brúnir misgengisveggjanna. Þar sem austurveggurinn stendur 10 til 20 m hærra en landið rétt austan við hann er heildarsigið um Almannagjá mest um 40 m (Kristján Sæmundsson 1965). Þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1974) liggur yfir Almannagjá er sigið 30-35 m, og er þá áttvið brún misgengisins að vestan og lægstu stöðu lands rétt austan við eystri misgengisbrúnina. Sigið um Gildruholtsgjá er 25 m í mörgum mælipunktum nálægt miðju hennar. Mesta sig um flest misgengin er þó aðeins nokkrir metrar.

Almannagjá og Hrafnagjá
Almannagjá og Hrafnagjá eru meginsprungur Þingvallasvæðisins og eru jafnframt þau misgengi sem mynda Þingvalladældina, þ. e. sigdalinn. Báðar eru sprungurnar siggengi, en útlit þeirra er samt talsvert mismunandi. Hér á eftir fer lýsing á þessum sprungum.

Almannagjá

Almannagjá

Almannagjá.

Til samans mynda Hestagjá, Almannagjá, Stekkjargjá, Hvannagjá og nokkrar smærri sprungur 7,7 km langa sprungu sem hér verður einu nafni nefnd Almannagjá. Gjáin er víðust 64 m. Sprungurnar sem til samans mynda Almannagjá hafa upphaflega verið hliðraðar, með nokkuð breytilega stefnu, en síðan vaxið saman í brotahrinum.

Þingvellir

Þingvellir – Almanngjá.

Hlutarnir sem tengja sprungurnar saman víkja víða nokkuð frá meðalstefnu Almannagjár og eru oft tengdir smásprungum. Fyrst hefur Almannagjá komið fram á yfirborðinu sem belti af hliðruðum sprungum, en þær síðan sameinast við aukna gliðnun á svæðinu.
Í suðri gengur Almannagjá yfir í röð af skástígum sprungum. Sprungurnar sjálfar hafa áþekka stefnu og meðalstefna Almannagjár, en til samans mynda þær belti sem víkur talsvert frá stefnu hennar. Þetta bendir til þess að undir þessu belti af skástígum sprungum sé eldra misgengi sem ákvarði staðsetningu og stefnu sprungubeltisins, en sprungurnar sjálfar opnist í stefnu mestu togspennu. Sums staðar er Almannagjá klofin upp í nokkrar meira og minna samsíða sprungur. Í sumum tilfellum hefur landspildan milli sprungnanna sigið nokkra metra, en í öðrum tillfellum ekki. Flestar þær sprungur sem mynda Almannagjá eru mjóar sigspildur, sem hafa orðið til við það að landræman milli samsíða sprungna hefur sigið. Þótt Almannagjá sé siggengi er hún því einnig gapandi gjá.

Hrafnagjá
Hrafnagjá
Innan Þingvallahrauns er Hrafnagjá ekki nema um 4,4 km að lengd og sker móbergsfjallið Arnarfell. Ef þessi suðurhluti er talinn með, svo og belti af smásprungum norðan víð gjána, er hún yfir 11 km löng. Mesta vídd er 68 m, sem jafnframt er mesta vídd í einum mælipunkti á svæðinu. Víddin er þó mjög breytileg, eða allt niður undir 0 m, en sigið, miðað við brúnir sprunguveggjanna, er nokkuð jafnt langs eftir gjánni; yfirleitt 5-10 m og mest um 20 m.

Hrafnagjá

Hrafnagjá við Þingvelli.

Ef miðað er við lægstu stöðu landsrétt vestan við Hrafnagjá og austurbrún gjárinnar er sigið þó meira, til dæmis um 30 m þar sem mælilína Eysteins Tryggvasonar (1968) liggur yfir gjána.
Hrafnagjá er samsett af mörgum skástígum, ílöngum sigspildum sem eru að hluta til samvaxnar. Í þversniði líkjast þessar sigspildur helst U-laga dal, öfugt við Almannagjá þar sem sigspildurnar hafa rétthyrnt þversnið. Sigspildur Hrafnagjár eru grunnar miðað við sigspildur Almannagjár.
Í suðri liggur Hrafnagjá fyrst í gegnum Arnarfell, en endar síðan í Þingvallavatni. Nálægt suðurendanum klofnar hún upp í margar samsíða sprungur, ekki þó skástígar. Í norðri víkkar sprungan, grynnist og breytist síðan í belti af smásprungum, svo litlum að vart eru greinanlegar á loftmyndum. Eins og við Almannagjá er mesta sigið ekki um Hrafnagjá sjálfa heldur nokkuð vestan við vestari sprungubarminn. Af þessu er ljóst að landið við bæði Hrafnagjá og Almannagjá hefur svignað nokkuð áður en sprungurnar mynduðust.

Dýpi
SprungurAllar togsprungur og siggengi hafa svo til lóðrétta veggi við yfirborð. Af þessu má álykta að allar sprungur á Þingvallasvæðinu séu myndaðar við togspennu nálægt yfirborði. Spennuástand í jarðskorpunni ræður því að á ákveðnu dýpi fá siggengin eðlilegan halla, sem er um 70° frá láréttu á rofnum blágrýtissvæðum hér á landi (Ágúst Guðmundsson 1984a) og svipaður annars staðar (Price 1966). Dýpi togsprungna og lóðrétts hluta siggengja má áætla með reikningum. Ef togsprungur ná ákveðnu dýpi breytast þær í siggengi með mælanlega lóðrétta færslu á yfirborði.

Myndun
Hér verða ræddar tvær tilgátur um myndun sprungna á Þingvöllum. Í fyrri tilgátunni eru gangar taldir valda sprungunum, nema þeim stærstu sem eru beint tengdar plötuhniki. Í síðari tilgátunni er sprungumyndun og sig tengt þrýstingsbreytingum í kvikuþró undir Hengilsþyrpingunni.

Gangainnskot

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson skoðar berggang undir Lyngfelli við Festarfjall.

Þessi tilgáta gerir ráð fyrir að stóru misgengin, svo sem Hrafnagjá og Almannagjá, séu mynduð við plötuhreyfingar, en að smærri misgengi og togsprungur séu af völdum ganga sem ekki ná yfirborði. Plötuhreyfingar, og tengsl þeirra við jarðhnik, hafa verið svo mikið ræddar á síðustu árum að ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um þær hér.

Festarfjall

„Festin“ í Festarfjalli.

Þegar kvika í gangi nálgast yfirborðið, minnkar yfirþrýstingur hennar yfirleitt þar sem eðlismassi basalkviku er venjulega hærri en eðlismassi efsta hluta skorpunnar. Athuganir benda til þess að þegar kvika í sprungu nálgast yfirborðið þá sé sprunguendinn í það minnsta nokkrum tugum metra á undan kvikunni (Macdonald 1972 s. 15). Þótt kvika gangsins stoppi tugum eða hundruðum metra neðan við yfirborðið getur gangurinn samt þróað sprungu til yfirborðsins. Einnig hjálpar til að á virkum svæðum er oft togspenna ríkjandi í efsta hluta skorpunnar (Scháfer 1979), ef til vill vegna kólnunar skorpunnar. Þá þarf sáralítinn yfirþrýsting kviku til að þróa sprungu til yfirborðs, þótt eðlismassi kvikunnar sé of hár til þess að hún nái að lyfta sér til yfirborðs.
Gangakenningin um uppruna sprungnanna skýrir hvers vegna slíkar sprungur finnast innan sigdala eins og Þingvalladældarinnar. Sprungurnar eru myndaðar við togspennu, en vegna þess að siggengin sem afmarka sigdalinn eru virk, einangra þau dalinn frá togspennusviði utan við hann. Togspenna utan við dalinn leiðir einungis til frekari sigs um siggengin, en getur ekki myndað togsprungur innan við þau. Togspennan sem myndar sprungurnar í sigdalnum sjálfum verður því að myndast innan við stóru siggengin, og auðvelt er að skýra slíkt togspennusvið með gangainnskotum.

Gangakenningin skýrir einnig hvers vegna sprungurnar eru svo stuttar sem raun ber vitni. Ef togspenna orkaði á gosbeltið í heild, og hún væri nægilega mikil til þess að mynda tuga metra breiðar sprungur, mætti búast við því að sprungurnar yrðu tuga kílómetra langar, þ. e. næðu langs eftir því gosbelti sem þær tilheyrðu. Svo er ekki, og er það auðskýrt ef gangar valda sprungunum, því þá deyr togspennan út við lárétta enda ganganna, þannig að yfirborðssprungur verða ekki lengri en þeir gangar sem mynda þær.

Háibjalli

Háibjalli.

Ýmsir annmarkar eru þó á gangakenningunni og skal hér getið um þá helstu, án þess að ræða þá ítarlega.
1) Margt bendir til að sömu sprungurnar séu virkar í langan tíma og að Þingvallasprungurnar séu bara yngstu hreyfingar á gömlum sprungum. Ef svo er, þá geta einstakir gangar varla skýrt sprungurnar.
2) Gangakenningin skýrir ekki sigið um sprungurnar, þ.e. myndun sigdalsins. Sigið er þó unnt að skýra með plötuhreyfingum og/eða þrýstingsbreytingu í kvikulagi undir svæðinu.

Þrýstingsbreytingar
SprungurÞessi tilgáta gerir ráð fyrir að undir Hengilsþyrpingunni, sem og öðrum virkum eldstöðvakerfum á Íslandi, sé kvikuþró sem sé álíka löng og þyrpingin sjálf. Þessi kvikuþró er hluti af kvikulaginu undir gosbeltinu á þessu svæði (Gylfi Páll Hersir o. fl. 1984). Rétt er að undirstrika að hér er gerður greinarmunur á kvikuþró, sem staðsett er í kvikulaginu á 8—10 km dýpi, og kvikuhólfi, sem staðsett er í skorpunni á 1—3 km dýpi eða minna, líkt og undir Kröflusvæðinu (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þingvellir

Gjár á Þingvöllum.

Þegar ísa tók að leysa fyrir um 14000 árum flæddi kvika undir landið, og þá einkum undir gosbeltin þar sem skorpan er þynnst. Landið reis því mest í gosbeltunum, og opnuðust þá bæði gamlar og nýjar sprungur. Samtímis urðu dyngjugos og sprungugos, og eitt þeirra var gosið sem myndaði Þingvallahraun fyrir um 9000 árum.
Nokkru eftir að Þingvallahraun rann náði landlyftingin á Þingvallasvæðinu hámarki og mynduðust þá Þingvallasprungurnar. Til samanburðar má geta þess að strönd Íslands mun almennt hafa legið utar en nú á tímabilinu 9000-3000 og landið mun hafa verið fullrisið fyrir um 5000 árum (Þorleifur Einarsson 1968). Af þessu má álykta að Þingvallasvæðið hafi haldið áfram að rísa í nokkurn tíma eftir að Þingvallahraun rann, sem skýrir myndun sprungnanna.
Sprungur
Eftir að landið er fullrisið minnkar aðstreymi nýrrar kviku verulega (hættir jafnvel um tíma), og gosvirkni Hengilsþyrpingarinnar færist nær miðju hennar þar sem skorpan er þynnst.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Kvikan í þrónni tekur því að flæða frá endunum inn að miðju, sem leiðir til þrýstingsminnkunar við endana og landsigs. Sigið verður jafnan um þær sprungur sem þegar voru myndaðar, einkum um Almannagjá, Hrafnagjá, Gildruholtsgjá og Heiðargjá. Síðustu árþúsundin hefur því sig verið ríkjandi á Þingvallasvæðinu, en innan dældarinnar mun gliðnunin aðallega hafa orðið fyrir þann tíma, þ. e. meðan landið var að rísa.
Hér á undan er hugmyndin um þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni það almennt orðuð að erfitt er að benda á einstök atriði sem hún skýrir illa eða ekki. Þó er ljóst að einhver gliðnun hlýtur að hafa orðið á Þingvallasvæðinu síðustu árþúsundin, ella gæti sigdalurinn ekki sigið. En sú gliðnun hefur einungis orðið um stóru siggengin sem mynda sigdalinn, en ekki um sprungurnar inni í dalnum. Eðlilegast er að tengja þessa gliðnun við plötuhreyfingar eða þyngdarskrið (Ágúst Guðmundsson 1984).

Þróun og vöxtur

Sprungur

Hraunsprungur þykja jafnan áhugaverðar til skoðunar.

Af lýsingu á sprungunum er ljóst að þær hafa vaxið saman úr smærri sprungum. Vöxtur sprungna virðist yfirleitt gerast með þessum hætti, og á það jafnt við um örsprungur (Broek 1978) og sprungur sem eru margir kílómetrar að lengd (Segall og Pollard 1980). Líklegt er að Þingvallasprungurnar hafi fyrst opnast um stuðlasprungur í hrauninu, því þar er hraunið veikast.

Sundhnúkahraun

Sprungur í eldra Sundhnúkahrauni.

Hlutfallslega stuttar sprungur eru mun algengari en langar sprungur. Ástæður fyrir þessu eru eftirfarandi:
1) Ef gangar mynda sprungurnar þá ná þeir mishátt upp í skorpuna (yfirborð hvers gangs er á mismiklu dýpi) og því opnast sprunga bara á vissum svæðum. Þetta þýðir að sprunga sem annars væri samfelld og löng er slitin sundur í margar smásprungur.
2) Togstyrkur hraunsins er breytilegur, einkum vegna breytilegrar niðurröðunar og dreifingar á stuðlasprungum. Þegar sprunga vex lárétt verður hún að yfirvinna togstyrk bergsins, og því opnast hún greiðlegast þar sem togstyrkur er lægstur, en síður eða alls ekki þar sem togstyrkur er hár. Margar sprungur ná því ekki að vaxa saman í lengri sprungur.
3) Einnig hefur verið bent á (Nur 1982, Segall og Pollard 1983) að vöxtur einnar langrar sprungu hindri vöxt
margra stuttra. Ein löng sprunga léttir svo mikilli togspennu af svæðinu að vöxtur sprungna í grenndinni stöðvast. Smáar sprungur í grenndinni ná því ekki að vaxa saman í stórar sprungur.

Hliðrun

Almannagjá.

Almannagjá.

Hliðraðar, stundum skástígar og samsíða sprungur eru algengar á Þingvöllum. Sumar af stóru sprungunum, svo sem Almannagjá, greinast í margar smásprungur við endana, og minna þannig á „árfarvegi“. Kvíslóttir „árfarvegir“ af þessu tæi eru algengir á yfirborði örsprungna og er vöxtur sprungunnar ávallt „niðurstreymis“ (Broek 1978). Samkvæmt þessu hefur Almannagjá vaxið frá norðaustri til suðvesturs, sem er í samræmi við það að síðasta meiriháttar sig um gjána var syðst á henni, þar sem hún mætir Þingvallavatni. Þar seig landið um 0,6 m í jarðskjálftum 1789 (Kristján Sæmundsson 1965). Lawn og Wilshaw (1975) benda á þrjár mögulegar skýringar á hliðrun örsprungna og ættu þær að eiga jafnt við um jarðsprungur. Í fyrsta lagi kann sprungan, þegar hún er að þróast, að verða fyrir staðbundinni truflun við endann. Fyrir Þingvallasprungurnar gæti slík staðbundin truflun verið fólgin í breytilegri niðurröðun stuðlasprungna, breytingu á gerð bergsins undir Þingvallahrauninu, eða í brotalínum í berginu undir sem hafa aðra stefnu en sprungan sjálf. Sprungan hefur þá tilhneigingu til að klofna í margar samsíða sprungur eins og best sést við suðurenda Almannagjár og suðurenda Hrafnagjár.

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Í öðru lagi benda þeir á að sprungan kunni að myndast við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega eru hliðraðar. Þetta er að mínu áliti algengasta ástæðan fyrir hliðrun sprungna í sprunguþyrpingum hér á landi.
Í þriðja lagi geta sprungur sem þróast mjög hratt, þ.e. nálgast hljóðhraðann, klofnað vegna snöggra breytinga á spennusviðinu við endana. Þessi skýring mun vart eiga við um Þingvallasprungurnar því þær eru myndaðar á löngum tíma og hafa því þróast mjög hægt.
Sú hugmynd um vöxt sprungnanna sem sett er fram í þessari grein er sú sama og önnur skýring Lawn Wilshaw (1975) hér að ofan. Upphaflegu sprungurnar eru hliðraðar vegna þess að togspennan nær að brjóta bergið samtímis á mörgum stöðum innan þess beltis þar sem há togspenna er ríkjandi og þar sem endanlega sprungan kemur til með að liggja. Þegar gliðnunin vex innan þessa beltis sameinast sprungurnar í eina meginsprungu. Sums staðar á Þingvallasvæðinu er þessi sameining langt á veg komin eða þegar lokið, en annars staðar, svo sem í framhaldi af Sleðaásgjá, er hún skammt á veg komin.

Niðurstöður

Sprungur

Gjár á Þingvöllum.

Helstu niðurstöður greinarinnar eru þessar:
1) Meðalstefna sprungnanna er N30° A.
2) Meðallengd um 100 sprungna er 620 m, minnsta lengd 57 m og mesta lengd 7,7 km (Almannagjá).

Þingvellir

Sprungur (gjár) á Þingvöllum.

3) Mesta vídd er 68 m á Hrafnagjá, en þar á eftir kemur Almannagjá með mestu vídd 64 m.
4) Mesta lóðrétta færslan (sigið) er 28 m á Almannagjá og þá átt við sigið miðað við brúnir sprunguveggjanna. Sé miðað við landið rétt austan við Almannagjá er mesta sigið um 40 m.
5) Allar stóru sprungurnar eru myndaðar við samvöxt smærri sprungna sem upphaflega voru hliðraðar og stundum skástígar.
6) Tvær tilgátur eru settar fram sem skýring á tilurð sprungnanna. Fyrri tilgátan reiknar með að gangar sem ekki ná að brjóta sér leið til yfirborðs, valdi togspennu á yfirborðinu sem leiði til sprungumyndunar. Í þessari tilgátu er þó gert ráð fyrir að stærstu sprungurnar (svo sem Almannagjá og Hrafnagjá) séu tengdar reki á gosbeltunum.
Seinni tilgátan tengir sprungumyndunina og sigið á Þingvallasvæðinu við þrýstingsbreytingar í kvikuþrónni undir Hengilsþyrpingunni.“

Framangreind lýsing á sprungunum á Þingvallasvæðinu gæti jafnframt átt við önnur sprungu- og misgengissvæði á Reykjanesskaganum.

Í Náttúrfræðingnum árið 1983 skrifar Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, um „Hálfrar aldar þögn um merka athugun„.

Sprungur

Hraunsprunga.

„Einhvers staðar í ritum sínum segir Helgi Péturss, að ekki sé nóg að gera uppgötvun, heldur þurfi aðrir líka að uppgötva að uppgötvun hafi verið gerð. Hér skal getið um eitt slíkt tilfelli, þar sem mér og fleirum hefur sést yfir snjalla ályktun um eldvirkni á Reykjanesskaga.

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

Síðustu æviár sín vann Guðmundur G. Bárðarson að jarðfræðirannsóknum þar, en féll frá í miðju verki. Hálfkarað handrit af jarðfræðikorti (í vörslu Náttúrufræðistofnunar) er til frá hans hendi og auk þess nokkrar prentaðar ritgerðir og greinar í blöðum um Reykjanesskagann. Á „18. Skandinaviske Naturforskermöde“ í Kaupmannahöfn 1929 lagði Guðmundur kortið fram og flutti um það erindi, sem seinna var prentað í skýrslu fundarins undir heitinu „Geologisk Kort over Reykjanes-Halvöen“ (Guðmundur G. Bárðarson 1929). Þar er höfundi ljós aldursmunur dyngjuhrauna og sprunguhrauna og fjallar niðurlag greinarinnar um sprunguhraunin undir yfirskriftinni „De yngste Lavadœkker“. Í lýsingu sinni á sprungugosunum aðgreinir Guðmundur fjögur belti (Vulkanbælter) sem hann gerir síðan nánari grein fyrir. Belti þessi svara nákvæmlega til eldstöðvakerfanna, sem við yngri mennirnir höfum verið að vekja máls á næstliðinn áratug. Beltin sem Guðmundur aðgreinir á Reykjanesskaga ná (1) frá Reykjanesi norðaustur fyrir Grindavík. – (2) Yfir Vesturháls og Austurháls. Nefnt er, að hverirnir í Mosfellssveit séu í norðaustur fram

Sprunga

Hraunsprunga á Þingvöllum.

Seinni höfundar, sem lýstu jarðfræði skagans, virðast ekki hafa haft sama skilning á aðskiljanlegum eldvirknibeltum. Svo er t.d. um Kuthan (1943), sem gekk þó fram úr hófi langt í túlkun sinni á jarðfræði Reykjanesskaga. Skipan eldsprungna, gjásvæða og móbergshryggja fangar þó augað strax og litið er á kort hans. Sama gildir um jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar (1960).

Ágúst Guðmundsson

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur.

Sjálfur vakti ég upp hugmyndina um stórar einingar í gosbeltinu þ.á.m. á Reykjanesskaga kringum 1970 (Kristján Sæmundsson 1971) og hélt þá í barnaskap mínum að ég væri að benda á eitthvað nýtt. Veifaði ég á fundi í Jarðfræðafélagi Íslands korti Kuthans og jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar framan í viðstadda félagsmenn til að þeir mættu sjá einingar þessar ljóslifandi á eldri kortum þótt enginn hefði bent sérstaklega á þær fyrr. Hefði ég þá betur verið búinn að lesa grein Guðmundar G. Bárðarsonar, því hann hafði sagt 40 árum fyrr aðalinntakið í því, sem ég var að boða kollegum mínum á þessum fundi.
Það kom fljótlega fram, að fleiri jarðfræðingar lögðu sama skilning í byggingu Reykjanesskagans og raunar landsins alls (Eysteinn Tryggvason 1973, G. P. L. Walker 1975, Sveinn Jakobsson o. fl. 1978).
Almennt er nú farið að kalla einingar þessar eldstöðvakerfi, en það er bein þýðing á „volcanic system“ sem ameríkumenn nota um sömu fyrirbæri. Amerískur jarðfræðingur, J. G. Moore, benti hérlendum á enska heitið og er það fyrst notað af Sveini Jakobssyni (1979) og í sérhefti Jökuls um jarðfræði Íslands (1979).

Eldgos

Eldgos í Eldvörpum fyrrum.

Eldstöðvakerfin eru í mörgum tilfellum saman sett af einni megineldstöð og gossprungum og gjám sem liggja í gegnum hana. Megineldstöð er þýðing á ensku „central volcano“ og mun fyrst koma fyrir hjá Þorleifi Einarssyni í 1. útg. jarðfræðibókar hans (1968). Bæði þessi orð voru innleidd um rofin eldfjöll í tertíera bergstaflanum. Í rofnum bergstafla koma gossprungur og gjár fram sem berggangar. Gangasveimur var það kallað er margir gangar lágu því sem næst í sömu stefnu út frá megineldstöð og mynduðu aflanga heild. Orðið kemur einnig fyrst fyrir hjá Þorleifi í áður tilvitnaðri jarðfræðibók (1968). Það er bein þýðing á ensku „dyke swarm“.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson.

Þegar farið var að draga fram hliðstæður í virku gosbeltunum voru þessi heiti yfirfærð með þeirri breytingu einni, að í stað gangasveims var talað um sprungusveim (fissure swarm) (Kristján Sæmundsson 1971). Hliðstæð fyrirbæri við eldstöðvakerfin í virku gliðnunarbeltunum hér á landi eru eldstöðvakerfin á Hawaii. Þar heitir megineldstöðin „shield volcano“ en sprungusveimurinn „rift zone“. Íslensk þýðing á shield volcano er eiginlega ekki til*, en um „rift zone“ hefur verið haft orðið gjástykki (Kristján Sæmundsson 1979). Bæði ensku og íslensku heitin hafa hér þrengri merkingu en felst í orðunum megineldstöð (central volcano) og sprungusveimur (fissure swarm).
Margir eru þeir sem ekki fella sig við orðið sveimur, og því mjög á reiki hvað einstakir höfundar nefna þessi fyrirbæri á íslensku. Um þetta hafa sést á prenti eftirtalin orð: þyrping (Sveinn Jakobsson 1979b, Ari T. Guðmundsson 1982), belti (Oddur Sigurðsson 1976), belti eða rein (Freyr Þórarinsson o. fl. 1976), kerfi (Guðmundur E. Sigvaldason 1982, Guðrún Larsen, 1982), stykki (Axel Björnsson, í fyrirlestrum). Sjálfum er mér tamast að nota orðið sveimur og sama gera þeir Sigurður Þórarinsson, Sigurður Steinþórsson og Sveinbjörn Björnsson og Páll Einarsson í ritgerðum sínum á 2. útg. af Náttúru Íslands (1981).

Reykjanes

Jarðfræði Reykjanesskaga – sveimar.

Orðin sveimur og þyrping missa að nokkru marks, vegna þess að þau gefa ekki til kynna að regla sé í dreifingu sprungnanna. Það undirstrika hins vegar orðin belti og kerfi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvert af þessum orðum sé skárst.
Framar í þessum greinarstúf var þess getið að sá maður sem fyrstur kom auga á og lýsti eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaga hafi verið Guðmundur G. Bárðarson. Notaði hann um þau orðið belti. Eitt framantaldra orða var haft til að lýsa skyldu fyrirbæri rúmum þremur öldum fyrr: „Frá Eldeyjum og Geirfuglaskeri grynnra og nyrðra skal telja 7 smásker og sést hvert frá öðru á sömu rein rétt í haf frá Reykjanesi“. Þannig komst Jón lærði að orði í riti sínu „Ein stutt undirrjetting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“ (tilvitnað eftir útg. Halldórs Hermannssonar 1924). Kannske er þar komið heitið, sem allir hefðu getað fellt sig við.“

Ágúst Guðmundsson skrifar um „Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa“ í Náttúrfræðinginn árið 1989. Þar segir hann m.a. um skammtíma gosstíðni:

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

„Reykjanesskagi er það svæði hér á landi þar sem fjöldi gosa á nútíma er hvað best þekktur (Jón Jónsson 1978, 1983, 1984, 1985). Samkvæmt gögnum Jóns Jónssonar (1978, 1984) hafa þar orðið um 200 gos á síðustu 10-12 þúsund árum. Þessi gos hafa deilst á fjögur eldstöðvakerfi sem til samans eru 35 km að breidd. Fyrir svo langt tímabil er stuðull togspennumögnunar (k) á bilinu 1,0-3,0.

Eldgos

Eldgos í Merardölum 2023.

Ef gert er ráð fyrir að Reykjanesskaginn taki á sig allt rekið og að allir gangar nái yfirborði (séu gosgangar) ættu að verða 0,8-2,4 gos (háð stærð k) á hverjum 100 árum. Á 12 þúsund árum ættu því að hafa orðið 96-288 gos á Reykjanesskaga, sem er í góðu samræmi við töluna 200 hér á undan. Þótt niðurstöður þessara reikninga falli tiltölulega vel að áætluðum fjölda gosa á Reykjanesskaga, er óvissan í reikningunum mikil. Rekhraðinn og gildin á k eru sennilega nærri lagi, en það er hins vegar ekki eins víst að gera megi ráð fyrir að allir gangar á svo löngu tímabili hafi náð til yfirborðs. Á móti kemur þó að ef hærri talan, 288 gos, er nálægt raunverulegum fjölda ganga á þessu tímabili, hefur allt að þriðjungur þeirra ekki náð yfirborði og ofangreind forsenda því óþörf. Vera kann að allir eða langflestir gangar hafi náð yfirborði á fyrri hluta nútíma þegar hraunaframleiðsla var mest á skaganum (Ágúst Guðmundsson 1986), en að hlutur hreinna innskota hafi farið vaxandi síðustu árþúsundin samtímis því sem hraunaframleiðslan hefur minnkað.

Nútímahraun

Nútímahraun á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hafa sumar gossprungur og margar dyngjur myndast utan hinna eiginlegu eldstöðvakerfa (Ágúst Guðmundsson 1986), þannig að samanlögð vídd eldstöðvakerfa á skaganum er ef til vill ekki fullkominn mælikvarði á breidd þess svæðis sem verður fyrir togstreitu. Frávikin eru þó varla veruleg og þegar breiddin er orðin yfir 30 km þá hefur frekari aukning á breidd lítil áhrif á gostíðni.
Þrátt fyrir þessa varnagla, verður að telja að líkanið gefi allgóða mynd af gostíðni á Reykjanesskaga á nútíma.“

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um Eldgos á Reykjanesskaga á sögulegum tíma í Náttúrufræðinginn 1983. Greinina má lesa HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn 1. tbl. 01.04.1986, Sprungurnar á Þingvöllum og myndun þeirra, Ágúst Guðmundsson, bls. 1-18.
-Náttúrfræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1989, Innskotatíðni kvikuhólfa og gostíðni eldstöðvakerfa, Ágúst Guðmundsson, bls. 49.

Eldgos

Eldgos á Havaii.

Sigurður Greipsson

Í Skinnfaxa 1931 segir Sigurður Greipsson frá „Vetraferð“ hans og félaga hans frá Biskupstungum til Reykjavíkur.
„Það hefði varla talizt frásagnarvert fyrir tveimur áratugum, að ungir, frískir menn færu gangandi austan úr Biskupstungum, um Mosfellsheiði til Reykjavikur, þótt um hávetur væri. Þá var það venja, að flestir karlmenn, sem gátu komizt að heiman um lengri tíma, færu til sjóróðra. Það var kallað að fara í verið.
Sigurður GreipssonÍ þessum verferðum hrepptu menn oft vond veður og þunga færð. Þeir urðu að bera þungar byrðar: nesti og fatnað. Að líkindum hefir þetta oft verið helzt til mikið álag fyrir lítt harðnaða unglinga, en það hefir kennt þeim að treysta að nokkuru á mátt sinn og megin og stælt vilja þeirra og harðfengi. Stundum leiddu þessi ferðalög til hörmuleguslu tíðinda. Það var mjög á annan veg að ferðast um landið þá en nú. Þegar sótt var suður um Mosfellsheiði, var fátt um kennileiti í hriðarveðrum. Nú er síminn ágætur vegvísir og hægt að kallast á millum Kárastaða og Laxness.
Eg fór aldrei þessar ferðir; eg var svo ungur þá, að eg taldist ekki hlutgengur. En það man eg, að mér þótti, sem litlum dreng, mikið um vermanninn, er hann var ferðbúinn. Mig minnir, að gamla fólkið teldi þann bezt búinn i verið, sem klæddist heima – unnum fötum, yzt sem innst. Eg trúði þessu þá, og eg trúi því enn, að íslenzku nærfötin séu bezt í hríðarveðrum á heiðum uppi. Það voru meðal annars minningarnar um vermanninn, sem bentu mér á leiðina, sem eg fór til Reykjavíkur í vetur. Það var og, að margir af félögum mínum höfðu ekki farið þessa leið fyr. Á þessum slóðum er margt að skoða og íhuga, þótt um vetur sé. Landslagið er að sjálfsögðu dauflegra, þegar það er sveipað hvítavoðum vetrar, en vegfarandinn getur þó, sér til lítillar tafar, lyft blæjuhorninu og skyggnzt inn í vorlendurnar.

Geysir

Frá Geysisskólanum.

[Þann] 15. febr. fórum við 23 saman frá Haukadal. Það voru nemendur mínir og kennari, Jón Kristgeirsson. Námsskeiðinu var lokið. Ferðinni var fyrst heitið að Laugarvatni. Það var glaða sólskin, er við lögðum af stað, en eftir stuttan tíma var komið versta veður, norðanrok og skafbylur. Þó héldum við áfram án tafar og náðum greiðlega að Laugarvatnsskóla.
Á Laugarvatni var okkur fagnað á bezta hátt. Kveldvakan leið fljótt við skemmtiföng Laugvetninga, ræðuhöld, söng og dans. Næsta dag urðum við hríðartepptir. Skemmtu menn sér þá við allskonar íþróttir, svo sem fimleika, sund og glímur. Sund er mjög iðkað á Laugarvatni. Þar er líka Þjálfi og Röskva í þeirri mennt, að ógleymdri prinsessunni. Svo eru tignarnöfn þeirra, sem fremst standa í sundinu við skólann.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Í Laugarvatnsskóla dvelja í vetur 120 nemendur. Er þetta því stærsti lýðskóli Íslands. Húsakynni eru þar mikil og hin vönduðustu. Virðast nemendur njóta þar hinnar beztu aðbúðar í hvívetna. Flestir þeir, sem barizt hafa fyrir málum skólans, hafa gert það vegna öruggrar trúar á vaxandi kynslóð. Vonandi skilur æskan, að hér er mikið gert hennar vegna og endurgreiðir það með auknu manngildi.

Laugarvatn

Laugarvatn.

Þá var ákveðið að halda ferðinni áfram að Kárastöðum, um Gjábakkahraun og Þingvöll. Við lögðum af stað kl. 10 árdegis. Bjarni skólastjóri bauð öllum nemendum sínum að fylgja okkur á leið. „Út! út! í hreina fjallaloftið.“ Svo mælti hann. Við þessi orð varð ys og þys um allan skólann, því að nú átti að búa sig til ferðar. Bjarni skólastjóri er íþróttavinur og maður heill að hugsun og háttum. Nú stóð allur hópurinn ferðbúinn á skólahlaðinu.
Leiðin lá vestur Laugarvatnshálsa, sem nú voru þaktir harðfenni. Það markaði því hvergi spor. Ekkert fast skipulag var á fylkingunni og gengu tveir eða fleiri saman, eftir því sem verkast vildi.
Ánægjulegt var að horfa yfir hópinn, 150 manns, allt ungt fólk, konur og karlar. Það bar við, að ekki var ærslum stillt betur í hóf en svo, að mönnum var brugðið til glímu, ef þeir virtust liggja vel við bragði. Þegar kom upp á hálsana, var numið staðar og notið útsýnis, sem er hið tignarlegasta.
Litlu seinna kvöddum við Laugvetninga og árnuðu hvorir öðrum langra lífdaga. Hygg eg, að aldrei hafi farið stærri hópur ungra mann á þessa slóð um þetta leyti árs.
Þá vorum við að eins orðnir 16 í förinni; hinir félagarnir höfðu skilizt við okkur á Laugarvatni og héldu þaðan heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir.

Ferðin gekk greiðlega til Þingvalla. Hittum við þar Guðm. Davíðsson. Er hann, sem kunnugt er, umsjónarmaður Þingvalla. Hjá honum dvöldum við um stund og þágum kaffi.
Guðmundur fylgdi okkur á leið og fræddi hann okkur um marga merkilega hluti, er snertu sögu Þingvalla. Hugurinn hvarflaði ósjálfrátt til liðins sumars:
„Nú er þrotin þyrping tjalda,
þögult og dapurt hraunið kalda.“
Veturinn hafði tjaldað sínu milda tjaldi. Almannagjá var sem tröllslegur kastali, en í gegnum snjóklamhrið og ísströnglana grisjaði í biksvartan hamravegginn. Efst á múrnum risu ótal varðlurnar og virtust risar standa í hverjum þeirra með kylfur eða önnur vopn í höndum. Okkur fannst tvísýnt um leiðina og horfðum við með ótta til þessara varðmanna. Við vorum þó að mestu öruggir, meðan Guðmundur var í förinni; hann virtist kunna skil á þeim flestum og vera kunningi þeirra. Við komumst klaklaust áfram, sjálfsagt fyrir góðar bænir Guðmundar, einnig virtust varðrisarnir líta með aumkvun til þessara þumalinga, sem veltust í snjónum fram hjá kastala þeirra.

Sigurjón Péturson

Sigurjón Pétursson.

Að Kárastöðum náðum við um kveldið. Gerðum við þar mikið ónæði, en það virtist ekki eftir talið, þvi að hjónin gerðu allt til þess að veita okkur sem hezta aðbúð.
Einar á Kárastöðum er einn hinna atorkusömustu bænda í Árnesþingi. Honum þótti gott að tala um íþróttir. Gat hann sagt sem Grettir: „Lagt hefi eg niður að rjá, en gaman þótti mér að því um skeið.“

Næsta dag var frekar dimmt til loftsins. Þó var ákveðið að fara suður yfir heiði til Reykjavíkur; eru það fullir 50 km., þegar farinn er Mosfellsdalur.
Þegar kom út að heiðinni gerði skafrenning. Færðin var fremur stirð, hraut snjóinn á kálfa. Fylgdum við símanum að mestu og stefndum til Mosfellsdals.
Eftir 6 klst. göngu komum við að Laxnesi; er það bær ofarlega í Mosfellsdal. Þaðan er Halldór skáld, sem allir kannast við. Í Laxnesi hvíldum við okkur nokkura stund og þágum góða hressingu.
Þá var næsti áfangi að Álafossi. Þangað eiga allir ungir menn erindi, þó að ekki væri nema til þess eins, að sjá húshóndann þar. Sigurjón hafði frétt af komu okkar. Hafði hann dregið íslenzka fánann á stöng.
Svo fagnar Sigurjón jafnan flokki ungra manna, sem koma í heimsókn til hans. Sigurjón virtist gjörla skilja hvað okkur myndi þarfast eftir svo langa göngu, sem við höfðum að baki. Bjó hann okkur því laug. Eftir að við komum úr lauginni, var okkur vísað til stofu; var þar íslenzkur matur framreiddur.
Hvatti Sigurjón okkur að taka rösklega til fæðunnar; gerðist þess þó sízt þörf. Að máltíð lokinni sýndi Sigurjón okkur ullverksmiðjuna, sem hann starfrækir. Var það okkur bæði til skemmtunar og fróðleiks. „Styðjið íslenzkan iðnað. “ Svo hefir Sigurjón auglýst. Margir lesa þetta sem hvert annað auglýsingaskrum. En vert er að taka það alvarlega. Fjötrar fjárkreppunnar eru nú sem óðast að læsast um þjóðina; þá mun öllum ljóst, að „hollt er heima hvat.“

Varmá

Sundaðstaðan í Varmá.

Frá Álafossi fórum við seint um kveldið til Reykjavíkur; fórum við það í bifreiðum. Á leiðinni sáum við fólksbifreið á hliðinni utan við veginn. Er það ekki sjaldgæft, að sjá slíkt í grennd Reykjavíkur. Eru það oftast merki Bakkusar, sem þar eru reist. Markar þar fyrir stórum sporum megnustu ógæfu einstakra manna, sem leitt getur og til ófarsældar heillar þjóðar.

Hnitbjörg

Hnitbjörg á Skólavörðuholti.

Sigurjón var í för með okkur til Reykjavíkur. Þar kvöddum við hann og þökkuðum honum fyrir mikla risnu, er hann hafði sýnt.
Í Reykjavík dvaldi eg vikutíma með félögum mínum. Skoðuðum við helztu byggingar og söfn bæjarins. Þennan tíma hafði eg daglega leikfimi með nemöndum mínum.
Að síðustu bauð eg nokkrum kunningjum mínum að horfa á fimleika okkar. Bjóst eg við, að þeir mundu hafa af því skemmtun nokkra, og að þeir gerðu ekki hærri kröfur en efni stóðu til.
„Ármenningar “ voru mér hjálplegir með hús til æfinga, og kann eg þeim beztu þakkir fyrir, svo og öðrum þeim, er sýndu okkur hlýleika og góðar móttökur, útilegumönnunum frá Langjökli.“ – Sigurður Greipsson.

Heimild:
-Skinnfaxi, 4. tbl. 01.04.1931, Sigurður Greipsson, Vetraferð, bls. 73-78.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson – 22.08.1897-19.07.1985.

Þingvellir

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kålund

Rit Kålunds.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kristian Kålund segir m.a. eftirfarandi fróðlegt um Þingvelli:

Brúsastaðir

Hlautsteinn við Brúsastaði.

„Um Mosfellsheiði liggur leiðin að hinum gamla þingstað, Þingvöllum. Farið er framhjá fyrst bæ í Þingvallasveit, Kárastöðum (norðar eru Brúsastaðir, og er sagt, að þar sé hringmynduð tóft, nefnt „Hof“), þá þegar er mikið stöðuvatn, Þingvallavatn, komið í augsýn ásamt fjöllunum handan vatnsins. Þá liggur vegurinn allt í einu niður milli hraunkletta, beygir skyndilega til vinstri og breytist í brattan stiga, sem liggur meðfram klettunum milli hraunrana niður í gjárbotninn. Þar er sem sé Almannagjá, sem nú er verið að fara niður í og vegurinn liggur gegnum eða réttara sagt á ská með háum vesturveggnum. Niður af þverhnípinu steypist eins og glitrandi hvítt band fallegur lítill foss, þar er Öxará og kemur að vestan.

Öxurárfoss

Öxarárfoss.

Þegar Ketilbjörn fór í landkönnunarferð sinni frá Skálabrekku (þar sem hann hafði reist skála) kom hann, segir í Landnáma 385, að á þar sem þeir misstu öxi sína, og nefndu ána því Öxará. Sturl. I 57 bætir hér við mjög einkennilegri frásögn – sem er þó sennilega ekki annað en heimildarlaus sögusögn ð að ánni hafi síðan verið „veitt í Almanngjá og fellur nú um Þingvöll“. Það er sem sé ekki auðskilið hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita Öxará, sem vestan Almanngjár rennur um lítt gróna hraunsléttu, niður í þetta gljúfur, hefði farvegur hennar ekki verið upphaflega þar; ekki verður heldur séð, hvernig hún hefði átt að renna í Þingvallavatn án þess að renna í Almannagjá.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár – loftmynd.

Mjög glöggur farvegur liggur til vesturs frá Öxará. Hefst hann við ána rétt fyrir vesta Öxarárbrú vestur af Almanngjá, þá austan við Kárastaði og loks út í Þingvallavatn skammt austan Skálabrekku. Hefur Kålund ekki athugað staðháttu á þessum stað og telur frásögnina sennilega ekki annað en heimildarlusa sögusögn. Þremur árum eftir að I. b. bókar Kålunds kom út, kom Sigurður Vigfússon á staðinn (1880) og skoðaði farveginn rækilega og tók m.a. fram, að vatnasnúnar klappir sjáist í farveginum skammt austan Skálbrekku og sé hann kallaður „Árför“ eða „Árfar“, en fram undan árósnum heiti í vatninu „Urrðarálar“ og „Árfarsgrynning“ þar í kring. Kålund og Guðni Jónsson telja báðir erfitt að sjá, hvers vegna menn hefðu farið að gera sér það ómak að veita ánni niður í Almannagjá. En Jón Jóhannesson bendir á augljósa ástæðu. Hann aðhyllist skýringu Sigurðar Vigfússonar (Árb. Fornl. 1880-81) og segir síðan; „Það virðist því lítil ástæða að rengja þessa sögu, enda var það mikið hagræði fyrir þingsækjendur að hafa gnægð af fersku vatni á völlunum, auk þess sem ekki þarf að ætla fornmönnum, að þeir hafi verið sljóir fyrir þeim fegurðarauka, sem Öxará með fossi sínum er þingstaðnum“.

Þingvellir

Öxará loftmynd. Enn er óljóst hvort áin hafi verið breytt í farvegi fyrrum eða hvort hún hafi einfaldlega breytt sjálf um farveg eftir jarðskjálftan  1789.

Árið 1789 varð mikill jarðskjálfti í þessum landshluta, Þingvallahrauni (þ.e. svæðinu milli Almanngjár og Hrafnagjár), og vatnið breyttist, norðurströndin seig niður fyrir vatnsborð; einnig varð hrun í Almanngjá, og á mörgum öðrum stöðum hrundu klettar. Fram að þeim tíma hafði þjóðleið til og frá Þingvöllum legið meðfram hallanum fyrir neðan austurbarm Almanngjár, og enn sjást merki um reiðgötur þar, en fast niður við vatnið lá leiðin þvert yfir sprungur og hraun – eða raunar þar fyrir neðan. Við landsig það sem varð af jarðskjálftanum, komst gamli vegurinn víða undir vatn og var lagður af.

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Um breytingar á Þingvallahrauni í jarðskjálftanum 1789, sjá Espólín, Árb. IX, b. 61. Við þetta má bera saman Nturhistorie-Selskabets Skriver III. B., útdrátt úr dagbók Sveins Pálssonar; hann segir þar (191), að við jarðskjálftann 1789 hafi allt landssvæðið milli Almanngjár og Hrafnagjár „sigið rúmlega alin eða meira, og var það auðséð á klettunum norðan til í Almanngjá, þar sem mátti mæla, hversu mikið jörðin hafi sigið, og hið sama má sjá að austanverðu á landinu við Hrafnagjá, en greinilegust sönnun var Þingvallavatnið sjálft, sem gekk langa leið yfir strendur sínar að norðan, en þornaði að sunnan. (Ferðabók 100)).
Þessi staður var valinn samkvæmt Íslendingabók (8) til allsherjar þingstaðar við stofnun Alþingis árið 930, eftir að Grímur geitskór (geitskör) hafði ferðast um Ísland í þrjú ár til að leita að Þingstað, og síðan hefur alþingi (hið yngra alþing), eða eins og síðar var kallað, eftir að landið hefði misst sjálfstæði sitt, Öxarárþing“ verið haldið þar, þangað til að það síðasta sem eftir var af gamla alþinginu hvarf í lok síðustu aldar.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

Náttúran hefur gert allt til að staðurinn væri hinn hentugasti til þinghalds (ekki aðeins staðurinn sjálfur er hagkvæmur, heldur enn fremur lega hans), og tilviljun hjálpaði einnig til, að landið lá á lausu. Maður er átti land í Bláskógum, hafði verið gerður sekur fyrir þræls morð eða leysingja er Kolur hét. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn til alþingis neyslu. „Af því er“, heldur Íslendingabók áfram, „þar almenning að viða til alþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossa hafnar.“
Við Kol er kennd, segir á sama stað, gjá sú, er síðan er kölluð Kolsgjá (Colsgeá) þar sem „hræin“ (flt) fundust.
Enginn veit nú neitt um Kolsgjá. Árni Magnússon, sem með mestu gaumgæfni safnaði fróðleik í meira en 40 ár til áðurnefndrar þýðingar Íslendingabókar, sem hann vann að frá því fyrir 1688 og allt til dauða síns 1730, tekur fram með tilliti til Kolsgjár: Kolsgjá er mér sögð að sé sunnanvert við pláss það er Leirur kallast norður frá Þingvelli – og bætir því við, að heimildarmaður hans hafi verið séra Þorkell Árnason (Dómkirkjuprestur í Skálholti 1703-7, sennilega sonur Árna prófasts Þorvarðarsonar, prests á Þingvöllum 1677-1702; sjá „Prestatal“ Sveins Níelssonar IV. 17. sbr. IV. 14), en séra Þorkell hafði það eftir mönnum, sem höfðu heyrt séra Engilbert nefna þess gjá þannig. Séra Engilbert Nikulásarson var prestur á Þingvöllum 1617-69 (Prestatal Sveins Níelssonar IV. 14). (Kolsgjá er sem sagt suðurendi Sleðásgjár, sunnan við Leirur).

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Bærinn Þingvöllur (nú prestsetur) er í nánu sambandi við Alþingi, einnig kirkja og kirkjugarður. Fast fyrir vestan prestsetrið er kirkjugarðurinn rétt við ána, kirkjan aftur á móti er nú norðan við bæinn á túninu, sem liggur nokkuð hátt. Samkvæmt Heimskringlu (II. 214), sbr. Flateyjarbók (III. 247, 344) má ætla, að Ólafur helgi hafi fyrstur látið reisa kirkju á Þingvelli; þó er nefndur í Njálu nokkrum árum áður „bænda kirkjugarður“ (312). Ólafur gaf við til kirkjunnar og klukku mikla (þá sem enn er þar); seinna sendi Haraldur harðráði aðra klukku til kirkjunnar. Hann hefur sennilega einnig sent við til smíðar hennar, a.m.k. er sagt (Kristni s. 30, Hungrv. 71), að í ofviðri á dánarári Gissurar biskups (1118) braut kirkju á Þingvelli, þá er Haraldur konungur Sigurðarson hafði gefið við til.
Finnur Jónsson segir í Kirkjusögu sinni (IV. b. sbr. Espólín, Árb. II 38-39), að Alexíus Pálsson, síðasti ábóti í Viðey, hafi fyrst) í upphafi 16. aldar) verið prestur á Þingvelli, og hann hafi látið flytja kirkjuna frá kirkjugarðinum, þar sem hún var, á þann stað þar sem hún er nú, vegna vatns sem vall upp úr jörðinni, og segir að sýndir séu stórir steinar, nefndir Ábótasteinar, í kirkjuvegg, sem þessi afar sterki maður á einn að hafa flutt.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Í Þingvallakirkju sagði lögsögumaður upp lögin, ef veður var illt (Grg. 117. gr.); þar voru þingheyjendur við guðsþjónustu, svo sem sjá má af sögum.
Um áðurndnda Ábótasteina segir Þingvallaprestur í fornminjaskýrslu sinni (1817), að Alexíus eigi að hafa flutt frá einhverums tað tvo steina, sem hér séu hvor í sínum kirkjukampi, og hinn þriðja, sem liggi fyrir kirkjudyrum.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja á 19. öld.

Steinninn í nyrðri vegg er sagður 2 álna hár og mjög breiður, en hinir 2 1/4 alin hvor, og sá sem er í suðurkampii sé stærstur og úr þyngstu bergi. Á honum og þeim sem liggur gagnvart dyrum á að vera gamalt alinmál. – Samkvæmt lagagrein, sennilega frá því um 1200 (Dipl. Isl. I 309, einnig prentað í Grágás II 250), var þá kvarði merktur á kirkjuvegg á Þingvöllum og í sjálfum lögunum, þar sem ákveðið var fyrir ókomna tíma við mælingu klæðis að nota stiku álnar langa; einnig var ákveðið að slík stika skyldi vera nerkt við hverja graftarkirkju.
Vant var að segjam hvort nokkuð er varðveitt af þessu gamla lengdarmáli sem merkt var á kirkjuvegg á Þingvöllum. Páll Vídalín segir í Fornyrðingum lögbókar í greininni „alin“ (þar sem hann reynir að sýna að gamla íslenska alinin hafi verið 18 1/2 þuml., og þvi hefði stikan verið um það bil ein sog enskur yard; sjá Dipl. Isl, I 306-308), að enginn um hans daga hafi þekkt þennan stein á kirkjuvegg á Þingvöllum, sem gamla alinmálið hafði verið höggvið á, og þar að auki bendir hann á, að kirkjan var flutt af sínum gamla stað. Þó segist hann hafa heyrt að á tímum þeirra sem lifðu í bernsku hans, hafi enn mátt sjá steininn í kirkjuveggnum.

Þingvellir

Alin-málssteinninn framan við Þingvallakirkju – letur.

Jón Ólafsson frá Grunnavík segir í orðabók sinni undir orðunum „alin“ og „kvarði“ að presturinn á Þingvöllum, Markús Snæbjörnsson (sennilega þegar hann bjó hjá honum um þingtímann 1744) að þegar hann nálægt 1740 var að endursmíða kirkjuna, hefði hann fundið í grunninum bjarg, sem á var merkt alin, styttri en venjuleg alin (þá var venjulega notuð á Íslandi Hamborgaraalin, 21 9/11 þuml. löng (sjá Dipl, Isl. I 307), og áleit hann að þar hefði verið gamla íslenska alinmálið, sem átti að vera merkt á kirkjuvegg á Þingvöllum.

Þingvellir

Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.

Þennan stein hafði prestur látið setja í vegginn að utan, svo allir gætu séð hann utan frá. Jón Ólafsson bætir við, að seinna hafi fólk sem kom á þingstaðinn, mælt alinmálið sem í steininn var höggvið, og fundið að að það kom nákvæmlega heim við þá lengd sem Páll Vídalín hafði sagt vera hina elstu íslensku alin. Fornminjaskýrslan frá upphafi þessarar aldar bendir ekki aðeins á einn, heldur tvo steina sem gamla alinmálið á að vera merkt á; af þeim var þó aðeins annar í kirkjuvegnum, en hinn fyrir framan kirkjudyr, stakur. Af honum er til teikning ásamt lýsingu eftir þáverandi kammerjunkt Teilmann, sem heimsótti Ísland 1820, af athugasemdum við teikninguna má sjá að þá hefur verið litið svo á að þvert yfir framhlið steinsins lægi lárétt lægð, um 5 kvartila löng, er skyldi sýna alinmálið (sem hefur þá nánast verið „stika“).
Einnig nú stendur fyrir kirkjudyrum steinn og talið er á hann sé höggvið alinmálið, sem er alveg eins og Teilmann sýndi. Auk áðurnefndrar lægðar er á framhlið steinsins níu mislöng skáset þverstrik, og er nú almennt litið svo á, að þau komi við alinmálinu, en Teilmann virðist ekki hafa ætlað þeim neina merkingu. Eru um 19 þuml. milli ystu (sem se nálægt því sem íslensk alin var). Varla er vafi, að þessi álnasteinn er hinn sami og Teilmann teiknaði, og sá sem Teilmann fann fyrir kirkjudyrum er hinn sami og fornminjaskýrslan lýsir, Ekki er gott að segja, hvar sé að leita hins álnasteinsins, þess í kirkjuveggnum, því að gamla torfkirkjan var rifin 1859 og timburkirkja kom í staðinn. Hitt verður að liggja milli hluta, hvort einhver þeirra álnarsteina sem nefndir eru í fornminjaskýrslunni, er sá sem Markús Snæbjörnsson fann (Sigurður Guðmundsson telur í „skýrsu um Forngripasafn Íslands I 117, að núverandi alinmálasteinn á Þingvöllum sýni hið rétta gamla alinmál, sem hann segir 17 1/1 þuml.“
Sjá meira um alinsteininn á Þingvölllum HÉR.

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 65-106.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Þingvellir

Síra Guðmundur Einarsson skrifar um „Alin-málsteininn á Þingvöllum“ í Dagrenningu árið 1946. Steinn þessi stendur fyrir sjónum manna framan við dyr Þingvallakirkju.

Þingvellir

Alin-málssteinninn. Síra Guðmundur við steininn.

„Steinn nokkur allstór stendur fyrir framan dyrnar á Þingvallakirkju, sem mér var sagt, þegar ég kom sem prestur til Þingvalla, að á væri alinmál Íslendinga til forma, og þar sem ég sá,- að þverskorur nokkrar höfðu verið höggnar á steininn, þá taldi ég víst, að þetta væri fyrsta alinmál Íslendinga og löggilt mál þeirra. Þegar ég lagði framhandlegg á steininn frá neðstu skoru til fimmtu, sem allar voru greinilega höggnar, þá kom í ljós, að það var sama og framhandleggurinn frá olnboga til fingurgóms; það staðfesti mér þann orðróm, sem fylgdi steini þessum, og leit ég því svo á stein þennan, að hann væri ein af dýrmætustu eignum Íslendinga og einn merkasti forngripur þeirra.
Nú sé ég, í nýútkominni bók eftir fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, sem hann nefnir „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, að hann efast um að steinn þessi sé alinmálið forna, og jafnvel að skorurnar, sem hann nefnir „rákir“, hafi verið höggnar af mönnum, heldur séu þannig gerðar af náttúrunni. Hann segir svo: „Yfirleitt er það að segja um álnarmál eða stikumál á steini eða steinum við kirkju á Þingvöllum, að ekki er líklegt, að það hafi nokkru sinni verið til.“
Manni verður fyrst á, að hugsa og spyrja, hvernig mældu landsmenn vaðmál sín í „bændakirkjugarði“ á Þingvöllum, þegar þeir greiddu gjöld sín með þessari vöru, ef ekkert alinmál var til, sem hægt væri að byggja á sem löglegu máli?

Þingvellir

Alin-málasteinninn framan við Þingvallakirkju.

Til þess að athuga og mæla steininn, eða bilið milli skoranna, var ég staddur á Þingvöllum 22. júní 1946 og hjálpaði síra Helgi Konráðsson á Sauðárkróki mér til þess að mæla það, eins nákvæmlega og hægt var. Á austurhlið steinsins, þeirri sem snýr að kirkjudyrum eru greinilega höggnar 5 skorur, með mismunandi millibili og litlu ofar á steininum, er sjötta skoran, sem þó virðist fremur vera boruð í steininn, eða gerð með þremur holum, en að hún sé höggvin, og enn ofar, næstum efst á steininum, er sjöunda skoran gerð á svipaðan hátt og sjötta skoran, og virðast þær báðar gerðar síðar en 5 neðri skorurnar, en allar eru þær gerðar þversum á steininn og engin nær yfir alla breidd hans. Skorunar hafa viðrast gegnum aldirnar og því lítt mögulegt að mæla millibilin milli þeirra, svo að nákvæmt sé, en nærri því sanna er hægt að fara. Millibilin milli skoranna frá þeirri neðstu til þeirrar efstu mældust okkur þannig; 7; 11; 19; 10, 5 og 43 sentimetrar. Bilið milli neðstu skoranna fimm voru 47 sentim. samtals; frá neðstu til 6. skoru 52 sm, og frá neðstu skoru til 7. voru 95 sm. (2 19/16; 4 3/16; 7 6/10; 3 13/16 danskir þumlungar eða samtals 18 þumlungar frá 1.—5. skoru, en frá neðstu til efstu skoru ca. 36 1/3 d. þuml.) í bók Matthíasar Þórðarsonar fornminjavarðar segir svo á bls. 270: „Í safni Sigurðar Guðmundssonar til Þingvallalýsingar er teikning eftir hann af steininum, sem nú er fyrir framan kirkjuna. Eru rákirnar 6 og bilin milli þeirra talið frá neðstu, 2″ 9′“, 4″ 3′“, 7″, 3″ 6″‘ og 2″ 6′“. Samkvæmt Skýrslu um Forngripasafnið I bls. 117 hefir hann álitið, að þeir 17″ og 6′“ (þ. e. 17 1/2 þuml.), sem eru samkvæmt teikningu hans milli neðstu og næst efstu rákar, merktu hina fornu alin, en ekki virðist það vera rétt.“

Þingvellir

Alin-málssteinninn – letur.

Bilið milli 5 neðstu skoranna reyndist okkur 18 þuml. (47 sm), sem Sigurður Guðmundsson telur 17 1/2 þuml.; frá neðstu til 6. skoru reyndist okkur 19 7/8 en Sigurður telur það 20 þuml.; bilið milli 5. og 6. skoru mældist honum 2 1/2 þuml. en okkur aðeins 1 7/8 þuml. (5 sm).

Þinfvallakirkja

Þingvallakirkja – mælisteinninn innar.

Það virðist létt, að 5 neðri skorurnar eigi að sýna hina elstu alin á landi hér, eins og Sigurður Guðmundsson hélt fram, það sést af því, að þessar skorur hafa verið höggnar og eru eldri en hinar tvær. Eftir rannsóknum B. M. Ólsen (sbr. Árbók Fornleifafélagsins 1910 bls. 1—27) var hin „elzta alin“, hin náttúrlega öln, lengd framhandleggsins frá olnboga til langafingúrgóms, 47 sm (18 d. þuml.), eins og okkur mældist þessi alin á steininum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

En snemma varð það siður, þegar vaðmál voru mæld, að þumalbreidd var bætt við hverja alin, til þess að tryggja það að vel væri mælt, því ef teygt var á vaðmáli gat það orðið of stutt ef engu var bætt við alinina. Þessi viðbót mun hafa verið 2 til 2 7/2 sm (0,79—0,96 d. þ.). Minn þumalfingur um naglrót er ‘2,4 sm, svo viðbótin mun hafa verið nálægt því, 2—2 1/2 sm. Þetta virðist svo hafa verið hin svonefnda „forna lögalin“ (sbr. B. M. Ó. bls. 27), sem var notuð manna meðal, þótt ekki væri löggilt. En svo þegar tímar liðu, og þessi mæling á alin var orðin að fastri venju, virðast menn enn hafa viljað fá nýja viðbót, og þessi alin verið svo nefnd „þumalalin“. í Grágás ((Havnia I bls. 500) stendur: „Vararfeldur fyrir II aura, sa er fiogörra þumalalna er langr, en II breiðr,“ sem sýnir að þumalalin er hér skoðað sem fast lögákveðið mál, sem allir þekkja, en það var því aðeins löggilt mál, að einhverstaðar væri það afmarkað og þá sérstaklega á alinmál-steininum forna á Þingvöllum, sem notaður var við mælingu vaðmáls, lérefta og klæða, enda voru vaðmálin aðalgjaldmiðill landsmanna til forna.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Þegar þessi þumalalin hefir verið löggilt á Þingvöllum hefir 6. skorunni verið bætt við á steininn, til þess að sýna þetta nýlögákveðna mál, þumalalinina, sem í raun og veru var alin og tveir þumlungar, 52 sm (19 7/8 d. þuml.).
Um 1200 kemur svo nýtt mál til sögunnar, sem nefnt var stika, en hún var 2 álnir. En hvaða álnir hún var miðuð við er ekki víst, hvort það var „elzta alin“, „forn alin“ eða „þumalalin“, en þar eð talað er um að „stikan“ skuli vera uppbætt 1 þuml., fingurbreidd, fyrir hverja stiku, getur naumast verið um þumalalin að ræða. B. M. Ólsen telur í Árb. Fornl.fél. 1910 bls. 27 að það hafi verið „forn alin“, sem var lögð til grundvallar fyrir stikunni, hún hafi verið 2 „fornar álnir“ ca. 98,28 sm, eða 37,58 d. þuml. En hin „forna alin“ virðist aldrei hafa verið lögfest, en aðeins sá siður við mælingu vaðmála, að bregða fingri fyrir framan hverja alin og mæla svo alin frá hinni hlið fingursins, en þá getur ekki verið átt við þessa svonefndu „fornu alin“, heldur hina lögfestu, elztu alin, sem var 47 sm eða 18 d. þuml., stikan hefir þá átt að vera 94 sm eða 36 d. þuml.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja – alinsteinnin sést framan við kirkjuna.

Á alinmálsteininn á Þingvöllum er 7. skoran mörkuð með holum, eins og 6. skoran, en milli þeirra eru 43 sm, en frá neðstu skorunni til 7. skoru mældist mér 95 ,sm, en þessi stika er þá ca. 1 sm lengri en 2 álnir, sem stafar af því að bilið milli 5. og 6. skoru var ¥2—1 sm of langt, eða ég hef rnælt of djarft, að mæla frá miðri neðstu skoru til miðrar 7. skoru, eða hvortveggja valdið bilinu, of langt bilið milli 5. og 6. skoru og ég mælt full stranglega.
Tel ég því vafalítið að þessi 7. skora hafi átt að sýna stikuna, svo á steini þessum sjáist greinilega öll þau alinmál, sem lögfest vóru á íslandi frá byrjun þinghalds til loka 16. aldar, að Hamborgaralinin kom til sögunnar.

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Hvort stikumálið hafi verið löggilt hér til samræmis við enska málið „yard“, eins og Jón Sigurðsson hélt, þá er það vafasamt, en þegar þess er gætt, að skotska alinmálið var rúmlega 36 d. þuml. eða sama og tvær „elztu álnirnar“ íslenzku, þá væri eðlilegt, að hugsa sér, að stikan ísl, ætti fremur þaðan uppruna sinn, enn frá enska „yardinum“, sem var 2,72 sm styttri en 2 „elztu álnirnar“ íslenzku.
Stikan var bara 2 ísl. álnir, en skotska málið sannar það, að frumalinin á Norðurlöndum var 47 sm eða 18 d. þuml., en stikan ísl. og mál Skota, yard þeirra, var 94—95 sm, Skota 94,4, en ísl. ca. 95 sm. Ég tel því sennilegast, að alinmál það, sem landnámsmenn fluttu með sér til landsins hafi verið, 47 sm. eða 18 d. þuml., en þá hafi sú alin verið bætt upp með einni þumalfingurbreidd þegar vaðmál og léreft var mælt eftir því.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Af þessu leiði ég það, að á steininum, sem er fyrir kirkjudyrum á Þingvöllum, séu merktar allar þær álnir, sem löggiltar voru á Íslandi frá landsbyggð og til loka 16. aldar og vóru þessar: 1.. að frumalin ísl. hafi verið 47 sm = 18 d. þuml., 2. að þumalalin ísl. hafi verið ca. 52 sm = 19 7/8 þuml. og 3. að stikan ísl. hafi verið ca. 95 sm = 36 1/3 d. þuml., en að „forn alin“ hafi aldrei verið lögfest, heldur orðið að föstum vana í viðskiptum.

Þingvellir

Þingvellir.

Hvað lýsingu Ch. Theilmanns snertir á steini þessum og teikningu hans af honum, er ekki auðvelt að átta sig á eftir frásögn fornminjavarðar á bls. 270 í „Þingvöllur, Alþingisstaðurinn forni“, því þar segir svo eftir Ch. Theilmann: „að ekki hafi þá (um 1820) verið litið svo á, að rákirnar á honum hafi táknað neitt mál, heldur lárétt lægð er var yfir framhlið hans um 1 1/4 alin að lengd.“
Theilmann rannsakar ekkert skorurnar og millibilin milli þeirra, en þessi 1 1/4 alin langa lárétta lægð, sem hann talar um, er ekki til á þeirri hlið, sem skorurnar eru á, en hvaða hlið steinsins er nefnd „framhlið“ er ekki sagt frá, svo á þessari lýsingu er ekkert að græða. Allar skorurnar 7, sem enn sjást á steini þessum, á þeirri hlið, sem snýr mót austri, eru láréttar, nokkuð mislangar, en engin nær þvert yfir steininn, eða nálgast neitt það að vera 1 1/4 alin.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja um 1860.

Millibilið milli skoranna er mjög mismunandi, eins og áður segir, og hefir það sennilega valdið því, að steini þessum var minni gaumur gefinn en ella mundi, og að margir hafa efast um að á honum væri markað alinmálið forna, sem menn vissu um, að skiptist í 2 spannir og 24 þumlunga, og sumir máske haldið, að alinin hafi þá eins og nú skipst í 4 hluta, kvartil, en sú skipting þekktist ekki hér fyrr en Hamborgaralinin kom til sögunnar í lok 16. aldar.
Á stein var auðvitað ekki hægt að höggva út hvern þumlung fyrir sig, en spönn hefði mátt afmarka, en það hefir ekki verið gert. Aftur er hugsanlegt, að við neðsta bilið milli skoranna hafi átt að mælast 3 þuml. „meðalmanns í naglrótum“, 2. millibilið 5 þuml. og 3. millibilið 9 þuml., allt vel mælt, því þessi þrjú millibil eru samtals 37 sm, en B. M. Ólsen telur að 17 þuml. „meðalmanns í naglrótum“ muni hafa verið forðum eins og nú rúmir 35 sm, en þá á síðasta millibilið milli 4. og 5.,  ekkert að þýða, aðeins verið afgangurinn.

II.

Þingvellir

Þingvellir 2023.

Alinmálin hafa verið mjög breytileg hjá þjóðunum og mismunandi hjá einni og sömu þjóð, en hjá flestum, eða öllum þjóðum, virðist frummæling hafa miðazt við framhandlegg, frá alboga til fingurgóms, eða spönn, sem alltaf er helmingur framhandleggsins, en þó virðist fetið hafa verið frumeining nokkurra þjóða, eða að spönn og fet hafi verið tekið jafngilt mál, að minnsta kosti er fram liðu stundir, svo fetið varð að lokum aðal mælikvarðinn, og svo tvöfaldaður orðið lögfesti málkvarðinn, alinin.
Elztu þekktu alinmálin eru hjá Assýríumönnum, Ísraelsmönnum og Egyptum. En þó alinmál Assyríumanna séu enn til, þá er ekki alveg víst hvernig alinmál þeirra varð til, hvort spönn eða fet var frummælingin. Það er aftur talið víst að Ísraelsmenn hati skipt sinni alin í 2 spannir og 24 þumlunga eins og vér Íslendingar gerðum til forna.
Alinmál Ísraelsmanna er talið að hafi verið 48,39 sm, en það er, að kalla, sama og alinmál Egypta, sem var 48,42 sm. Spönnin hefir þá verið ca. 24,195 sm. Nú virðast fræðimenn líta svo á, að alinmál þessara þjóða eigi uppruna sinn frá Assyríumönnum, en þeir hafi lagt fetið til grundvallar sínu alinmáli, því það er víst, að alinmál þeirra í sögutíð var 52,5 sm, næstum því sama og þumalalin á álnarsteininum á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir 1867.

Fetið í þessari alin Assýríumanna hefir verið nálega sama og B. M. Ólsen hefir fundið, að er meðalfet Íslendinga og reyndist vera 26,5 sm (Arb. Fornl. 1910 bls. 14), því fet Assýríumanna var 26,25 sm. Til er forn málstokkur Assýríumanna, á knjám styttunnar í Telló. Honum var skipt í 16 jafna parta, og er talið, að þessi málstokkur, sem var nálega 31,5 sm að lengd, hafi verið Ys úr alin, sem er rétt, að því leyti, að 31,5 sm eru 3/5 af 52,5 sm, en þá hefði alinmál þeirra átt að skiptast í 27 parta, eða þumlunga, en hver þuml. ca. 1,95 sm og spönnin ca. 23,4 sm. Hitt er þó sennilegra, að þessi málstokkur sé 2/3 af fornri alin þeirra og hún hafi verið 47,25 sm, sama að kalla, og elzta alin Íslendinga (sbr. B. M. Ólsen Árb. Fornl. 1910 bls. 24 og mælingu mína á alinmálssteininum á Þingvöllum).

Þingvellir

Þingvellir 1882. Steinninn sést fyrir framan kirkjuna.

Vera má þó, að þessi málstokkur Assýríumanna hafi verið fullt alinmál þeirra, en þá hefir því verið skipt í 16 parta, eins og Grikkja, Rómverja, Þjóðverja og jafnvel Englendinga var skipt til forna (sbr. cubitus Rómverja og Englendinga).
Sé aftur hitt rétt til getið, að alinmáli Assýríumanna hafi verið skipt í 24 parta, eða þuml., hafa verið tvö alinmál í Assýríu, hið eldra 47,25 sm og sú alin miðuð við spönn, og síðari alinin 52,5 sm og hún miðuð við fet.
En það sem sérstaklega vekur athygli, þegar rannsökuð eru alinmál þjóðanna er þetta, að það virðist sem Íslendingar og Ísraelsmenn séu þær einu þjóðir, sem skiptu alinmáli sínu á sama hátt, í 24 þuml. Ísraelsmenn skiptu alin sinni þannig: í 2 spannir, 6 þverhendur og 24 þuml. Íslendingar skiptu sinni alin í 2 spannir og 24 þuml., og þverhönd var líka notuð sem mál hjá þeim, því í sögu Guðmundar góða getur um konu, sem þrútnaði um kviðinn, svo að hún var 3 álnir og þverhandar digur (sbr. Árb. Fornl. 1910 bls. 13 neðanmáls), mun þá þverhönd eiga að jafngilda 1/6 hluta úr alin.

Þingvellir

Þingvallakirkja eftir 1930. Mælisteinninn er á myndinni framan við kirkjuna.

Hjá Ísraelsmönnum var til lengdarmál, sem þeir nefndu „gomed“ og giskað er á, að það sé sama og 2 álnir, eða „stika“ á íslenzku; en það er vafasamt að „gomed“ hafi táknað tvær álnir, eða verið sama og forn „stika.“
Að alinmál Ísraelsmanna og Íslendinga, eða Norðmanna, hafi verið svo lík, eins og raun ber vitni um, er ekki neitt merkilegt, ef Ísraelsmenn hafa fluttst til Norðurlanda og tekið sér bólfestu þar, eins og fjöldi sagnfræðinga er nú farinn að álíta að verið hafi, því þá hafa þeir flutt með sér lengdarmál sitt, eins og þeir notuðu það um 700 árum f. Kr. austur í Asíu, og það síðan orðið að föstu alinmáli í Noregi og Íslandi til forna.“
-Guðm. Einarsson.

Heimild:
-Dagrenning, 3. tbl. 01.08.1946, Alinmál-steinninn á Þingvöllum, síra Guðmundur Einarsson, bls. 22-26.

Þingvellir

Þingvellir. Alin-málssteininn sést framan við kirkjuna.

Þingvellir

Í Íslendingabók er m.a. getið um Alþingi. Þar segir að maður, sem átti landið í Bláskógum upphaflega hafði verið gerður útlægur fyrir dráp á þræli. Hann var nefndur Þórir kroppinskeggi.
thingvellir-993Landið varð síðar almenningseign og fólkið setti þar niður Alþingi“: „Alþingi var sett at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna, þar er nú er, en áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.
En maðr hafði sekr orðit of þræls morð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndr Þórir kroppinskeggi, en dóttursonr hans er kallaðr Þorvaldr kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu ok brenndi þar inni Gunnar, bróður sinn. Svá sagði Hallr Órækjusonr. En sá hét Kolr, er myrðr var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Land þat varð síðan allsherjarfé, en þat lögðu landsmenn til alþingis neyzlu. Af því er þar almenning at viða til alþingis í skógum ok á heiðum hagi til hrossahafnar. Þat sagði Úlfheðinn oss.
Svá hafa ok spakir menn sagt, at á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svá at eigi væri meir síðan.
Því nær tók Hrafn lögsögu Hæingssonr landnámamanns, næstr Úlfljóti, ok hafði tuttugu sumur. Hann var ór Rangárhverfi. Þat var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim, áðr Haraldr inn hárfagri yrði dauðr, at tölu spakra manna.
Þórarinn Ragabróðir, sonr Óleifs hjalta, tók lögsögu næstr Hrafni ok hafði önnur tuttugu. Hann var borgfirzkr.“

Thingvellir - budakortÍ Skýrslu Adolf Friðriksson, Garðar Guðmundsson og Howell M.Roberts um „Þinghald til forna – Framvinduskýrsla 2002“ segir m.a. um fyrrum þingminjarannsóknir á Þingvöllum: „Árið 1998 hófst undirbúningur að fornleifarannsóknum á Þingvöllum og fól Þingvallanefnd Fornleifastofnun að taka saman greinargerð um stöðu rannsókna og gera tillögur um nýjar rannsóknir. Á grundvelli þessarar úttektar var gerð áætlun um frekari rannsóknir á þingminjum, og stofnað til verkefnisins “Þinghald til forna á Íslandi” undir stjórn Adolfs Friðrikssonar og Dr. Sigurðar Líndal. Er það samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Þingvallanefndar, Þjóðminjasafns Íslands, Hins íslenska bókmenntafélags og Raunvísindastofnunar HÍ. Rannsóknin nær til allra fornra þingstaða, og er markmið hennar að varpa nýju ljósi á gerð þeirra, aldur og hlutverk í samfélagi fornaldar.

Athuganir og skráning á 18. öld
Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á 13. öld tók þinghald á Þingvöllum breytingum, þannig að þar varð ekki lengur allsherjarsamkoma eins og lýst er í Íslendingasögum heldur fyrst og fremst dómþing og fundur ráðamanna landsins.

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Alþingi gegndi þó áfram veigamiklu hlutverki sem æðsta valdastofnun innlend en eftir að einveldi var komið á 1662 dró mjög úr pólitískri þýðingu þess uns það var lagt niður í lok 18. aldar. Voru elstu minjar þinghalds þá fallnar í gleymsku, huldar jarðvegi og yngri mannvirkjaleifum eða jafnvel horfnar með öllu. 18. öldin virðist þó hafa verið helsta öld framkvæmda á þingstaðnum en þá fóru embættismenn konungs aftur að byggja búðir í Þinginu og reist var sérstakt lögréttuhús.
Rannsóknir á fornum mannvistarleifum á Þingvöllum hófust á 18. öld og hafa þar verið gerðar margvíslegar athuganir síðan. Elsta lýsing af þingstaðnum er „Alþings Catastasis Epter sógn fyrre manna“ sem mun hafa verið gerð árið 170027. Þar er sagt frá lögréttu og um 18 búðum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Búðatóftunum er ekki lýst, en sagt er hvar þær eru og að þær hafi tilheyrt hinum ýmsu mönnum, sem þekktir voru úr fornsögum. Þar segir að hið „gamla Lögberg“ sé á Spönginni. Hafa fræðimenn síðan deilt hart um hvort Lögberg hafi verið þar á Spönginni eða á Hallinum vestan Öxarár. Af frumritinu eru til fjölmargar afskriftir sem sýnir rannsóknarsögu Þingvalla frá 1700-1945 og byggir fyrri hluti þessa yfirlits að mestu á hans verki.
Þessi ritgerð hefur leitt til þess að gerð var lýsing á þingstaðnum árið 1735, eins og hann var þá. Er hún gagnmerk samtímaheimild um hvar búðir lögmannanna, amtmanns, landfógeta, landsskrifara og búðir sýslumanna voru.
Árið 1783 skráði Jón Steingrímsson búðir á Þingvöllum og er þar að finna annars vegar lýsingu á fornmannabúðum en hins vegar þeim búðum sem þá voru og er sú lýsing ýtarlegri en eldri skráin. Þessar 18. aldar lýsingar á staðsetningu þingbúða fornmanna byggðu á munnmælum og ágiskunum út frá frásögnum fornsagnanna.
thingvellir - ornefnakortJón Ólafsson frá Grunnavík ólst upp hjá Páli Vídalín lögmanni og reið með honum til þings hvert sumar á árunum 1719-1726. Eru til lýsingar eftir hann á mannvirkjum frá þeirri öld31. Af þeim 18. aldar mönnum sem fjölluðu um þingstaðinn forna, var hann fyrstur til að benda á að Lögberg hafi líklega verið á Hallinum skammt norðan við Snorrabúð. Taldi hann sig m.a. hafa fundið leifar hinnar fornu lögréttu þar á berginu. Segist hann hafa fundið þar „ferkantaða hraunsteina, setta í hálfhring“, sem „voru allir mátulega stórir til að sitja á“. Þessir steinar eru ekki lengur á sínum stað því Jón og félagar hans tóku þá upp, veltu þeim niður af Hallinum og gerðu úr þeim stillur yfir ána. Er Þingvalla ennfremur getið í nokkrum landlýsingum og ferðabókum frá 18. öld, og eru þeirra merkastar lýsing Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Auk þessara lýsinga eru til þrír uppdrættir af þingstaðum frá 18. öld og einn frá öndverðri 19. öld. Enginn þeirra er nákvæmur í samanburði við uppdrætti frá síðari tímum, en sýna flestir engu að síður Þingvallabæ, kirkjugarðinn vestan, og kirkjuna norðan bæjar, nokkrar tjaldaðar búðir og helstu drætti í landslaginu í kring.

Rannsóknir á 19. öld
Um miðja 19. öld fengu fornar mannvirkjaleifar á Þingvöllum táknrænt gildi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hér slær saman pólitískri sögu og sögu fræða og þjóðlegra rannsókna.
thingvellir - collingwoodSigurður Guðmundsson málari og stofnandi Forngripasafns Íslands hóf rannsóknir á Þingvöllum, og var hann óspart hvattur af Jóni Sigurðssyni til þess. Athyglisvert er að þeir gerðu sér grein fyrir mörgum aðferðafræðilegum vandamálum varðandi minjaskoðun á söguslóðum. Jón varaði Sigurð við því að trúa öllum frásögnum fólks um minjastaði, og gæta sín á því „að þeir ljúgi engu sjálfir, sem segja frá, því þeim hættir við að ginna á þesskonar okkur sögufíflin“. Sigurður aflaði sér upplýsinga hjá staðkunnugum, og benti sjálfur á að mikilvægt væri við rannsókn á Þingvelli að safna upplýsingum um yngri minjar, s.s. fjárhús, fjós, heygarða og réttir til að þeim verði ekki ruglað saman við búðatóftir eða dómhringa. Jón lagði hart að Sigurði að rannsaka Þingvöll vandlega og skrifa um hann lærða ritgerð. Gerði Sigurður rannsókn á Þingvelli um 1861 og Bókmenntafélagið gaf út skýrslu hans árið 1878, að honum látnum. Var það fyrsta sjálfstæða verkið um fornleifar á Þingvelli.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – uppdráttur.

Björn Gunnlaugsson, sem fyrr á öldinni hafði unnið að Íslandsuppdrætti fyrir Bókmenntafélagið, slóst í för með Sigurði og gerðu þeir uppdrátt af staðnum sem var mun nákvæmari en fyrri kort. Ljóst er að Sigurður hafði talsverða þekkingu á sögunum og lögbókunum fornu. Þessar heimildir gefa þá mynd af þingstaðnum að þar hafi verið búðir er menn héldu til í yfir þingtímann, lögrétta og dómhringur. Í sögunum eru vísbendingar um afstöðu búða einstakra manna. Sigurður lagði mikla áherslu á að bera kennsl á hverja búð og ákvaða hver hafi þar haldið til á söguöld. Hann fann í sögunum lauslegar lýsingar á aðstæðum er gáfu einhverja vísbendingu um legu búðanna á svæðinu og bætti sumum við á Þingvallaruppdrátt án þess að þeirra sæjust merki á yfirborði.

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

Niðurstaða Sigurðar var á þá leið að flestar sjáanlegar minjar á staðnum mátti tengja sögu fyrstu alda Íslandsbyggðar. Á örfáum stöðum getur hann yngri minja sem hann segir hafa verið byggingar sem reistar hafa verið á eldri tóftum. Af þessum sökum var ritgerð Sigurðar talsvert gagnrýnd af erlendum fræðimönnum.
Í riti Kristians Kålund um íslenska sögustaði46 er að finna rækilegustu lýsingu á Þingvöllum og þeim Þingvallavandamálum sem þá voru efst á baugi. Hann gefur stutta lýsingu á búðunum sem þar voru sýnilegar, en taldi líklegt að allar minjar sem voru þar frá söguöld, væru horfnar, enda hafi tóftarbrotin fornu horfið er nýjar búðir og aðrar byggingar voru reistar á Þingvöllum í aldanna rás.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Hið íslenska fornleifafélag lét það verða eitt sitt fyrsta verk eftir stofnun félagsins að gera rannsókn á Þingvelli 1880, enda var félagið upphaflega stofnað í kringum fyrirhugaðar Þingvallarannsóknir. Sigurður Vigfússon fór á vegum félagsins og rannsakaði bæði minjar og staðháttu, með hliðsjón af fornsögunum. Hann birti með rannsókn sinni uppdrátt Björns Gunnlaugssonar að viðbættum nýjum upplýsingum. Sigurður mældi upp allnokkur mannvirki og gróf í minjar á sex stöðum beggja vegna Öxarár: í Biskupsbúð sem er skammt vestan við traðirnar að Þingvallabæ og norðvestan kirkjunnar, í hleðslu skammt vestan við suðurenda Spangarinnar, í mannvirkið á Spönginni, í „Njálsbúð“ vestan ár á móts við Þingvallabæ, í „Snorrabúð“, og loks í hleðsluna á Hallinum norðan við Snorrabúð, þar sem sumir fræðimenn töldu að Lögberg hefði verið.
Taldi Sigurður sig sanna að Lögberg hefði verið á Spönginni og snerist þar með gegn skoðunum virtra fræðimanna á borð við Kålund og Guðbrand Vigfússon, sem töldu Lögberg hafa verið vestan ár.

Mannvirki á Spönginni
Thingvellir-993Dagana 1. júní – 4. júní 1880 mældi Sigurður upp og gróf í mannvirki á Spönginni austan ár.49 Þar er hringlaga gerði og ferhyrnd tóft í miðju innan þess. Samkvæmt mælingum hans er hringlaga mannvirkið þar um 18,83 m (60 fet) í þvermál langsum eftir Spönginni (NA-SV), en um 16.63m (53 fet) þversum (NV-SA) að utanmáli. Inn í hringnum er lítil, ferhyrnd tóft, 9,73 m (31 fet) x 6,60m (21 fet) að utanmáli og snýr u.þ.b. NV-SA, með op á suður (SV) hlið. “Veggir tóttarinnar eru gildir og miklu hærri en brún hringsins umhverfis”, segir Sigurður. Hann lét grafa tvo skurði: annan langsum eftir Spönginni og annan þversum yfir miðjan hringinn og tóftina, niður að berginu undir. Hann skildi eftir tvö ógrafin höft í miðri tóftinni. Dýpst náðu skurðirnir 188 sm (3 álnir), við tóftarvegg þar sem hann er hæstur, en grynntust út til brúna á berginu. Sigurður áleit að tóftin hafi verið byggð ofan í hringinn síðar.

thingvellir-994

Þessu til stuðnings bendir hann á að hún stendur ekki í miðju hringsins, heldur suðaustan til í honum, hún er ólík að gerð og jarðvegur er mun þéttari inní henni en innan hringsins. Að öðru leyti er tóftinni ekki lýst, og ljóst að Sigurður hafði takmarkaðan áhuga á henni. Ekki eru gefin innri mál, mál á þykkt veggja eða hleðslugerð þeirra, en greint frá því hvort inní henni hafi verið e.k. skán eða ekki. Sigurður telur líklegt að hún sé búðartóft frá seinni tímum, og síðar, samkvæmt munnmælum, hafi lögrétta verið höfð þar. Öllu ítarlegri lýsingu gefur hann á hringmannvirkinu: “Aðaleinkenni á þessu mannvirki er það, að [flestir steinarnir finnast]…í fyrstu pálstungu, og svo mold fyrir neðan, og sýnist grjótinu dreift út með moldinni til uppfyllingar mest á yfirborðinu; sums staðar sjást engir steinar, og er mold alveg niðr í gegn, en einungis voru steinar á stangli í moldinni.” Lýsing hans á ystu brún hringsins virðist stangast á. Fyrst segir hann enga steinhleðslu hafa verið en “sums staðar hryggur af smágrjóti undir hringröndinni ystu”, en síðar segir hann í þremur örmum skurðanna sjáist “hleðsla yst eða grjót”.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson.

Taldi hann votta fyrir fleiri hringlaga hryggjum, jafnvel 2-3 innan hringsins: “er innar sem tveir eða þrír hringir úr grjóti, hver innan í öðrum, niður við bergið og í miðjunni sem væri lítið afgirt rúm með steinum á berginu(?), en ekkert verður sagt um þetta með frekari vissu”. Ljóst er að hinir meintu hringir hafi ekki verið ýkja greinilegir og Sigurður hefur ekki getað gert upp við sig hvort hann tryði því að þetta væru e.k. bekkir, eða náttúrulegir hryggir.50 Þetta mannvirki virðist m.ö.o. hafa verið e.k. pallur eða upphækkun úr mold og grjóti. Berghellan sem mannvirkið stendur á virðist flöt en lægst í miðju. Í skurðunum í miðju upphækkunnarinnar sást þunnt svart plöntulag “hér um bil eina alin 18-12 þumlunga frá berginu” eins og segir í skýrslunni. Lýsing er á þessu mannvirki í Lögberg, Þjóðólfi (1951) 3. árg, bls. 270: Á lögbergi miðju var það, sem dómendur sátu, þar sér enn merki til dómhringsins, og er það núna grasivaxin hringrúst. Innan í hring þessum sér til húsrústar, og er hún nýrri og glöggari; hún er frá seinni tímum Alþingis á Þingvöllum og var kölluð allsherjarbúð.

“Biskupsbúð”
thingvellir- yfirlit - 904Stór tóft er í Þingvallatúni, niður við árbakka, um 30 m norðan við kirkjuna.
Sigurður Vigfússon rannsakaði staðinn með grefti dagana 29. maí til 1. júní 1880. Honum sýndist tóftin “halda sínu upprunalega lagi” og “eru gaflhlöðin einkum skýr”. Samkvæmt mælingu hans er tóftin 104 fet (32,4 m) á lengd NA-SV, en 24 fet (7,58m) á breidd NV-SA. Eystri langveggurinn var óskýr, en dyr á vestri vegg, nær nyrðri enda54. Sigurður lýsir uppgreftinum svo: “Ég lét grafa umhverfis tóttina að utan þannig, að steinarnir í ytri hleðslunni, eða undirstaðan að utan kom öll í ljós, og svo skurð fyrir utan undirstöðusteinana líka allt í kring um tóttina.”

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Í ljós kom steinaröð með steinum af misjafnri stærð, sem af lýsingunni að dæma virðist víðast hafa verið tvær raðir, en sumstaðar meira eða minna tveföld, enda, ef til vill, meir, sumstaðar einföld. Út úr eystri vegg, við NA-horn er útbygging, um 20 fet (6,26 m) á hvorn veg, með dyr til austurs: “Í búðarkróknum út úr syðra vegg útbyggingarinnar sýndist að hafa verið grjótbálkur áfastur við útbygginguna. Hann er… [um] 16 feta [ 5 m] á annan veg, og eins eða meira á hinn. Hér um bil í miðjum bálkinum fannst mikið af öskumold og ösku og nokkuð af viðarkolum, sem eg geymi, einnig fundust þar tvö eða þrjú stykki af nautsbeinum með fleira smálegu, er eg geymi einnig. Ofan að grjótinu var misjafnlega djúpt, eftir því sem til hagar.”

thingvellir 1930-2

Svo virðist sem grafinn hafi verið skurður utan og innan með veggjunum, en ekki innan úr tóftinni. Sigurður nefnir ekki hvort tóftin virðist hafa verið umbyggð, og hann nefnir ekki gólfskán eða önnur merki. Síðar í skýrslunni er sagt að öll (ystu) gaflhlöð tóttanna hafi verið meira eða minna hálfhringlaga, þ.e. ekki bein heldur lítillega sveigð út á við.
Matthías Þórðarson skoðaði tóftina og verksummerki eftir uppgröftinn (1922?) og lýsti svo: “Nú er þetta allt vallgróið aftur, og óljóst, hvar verið hafi hleðslur þær, er Sigurður Vigfússon nefnir, nema gaflhlöðin eru bæði greinileg enn og allhá. Fyrir nyrðri hliðvegg sér og nokkuð, einkum vestan-til; sömuleiðis má sjá, hvar þær dyr hafa verið, sem Sigurður getur um, 11-12 fet (um 3,50 m) frá austurgafli að innan. … Fyrir útbyggingunni sér nær ekki; má þó sjá, við hvað Sigurður hefur átt, enda segir hann ljóst til þess”.

“Njálsbúð”
thingvellir - songhellir 2Dagana 4. til 7. júní gróf Sigurður Vigfússon upp stóra tóft sem stendur þar sem er dálítið nef á vesturbakka Öxarár gegnt Þingvallabæ, um 80 m vestan við Valhöll. Sigurður lýsir tóftinni svo fyrir uppgröft: “Eftir því sem hún lítur nú út, hefir hún öll fornleg einkenni, þar sem engin nýrri hleðsla sést innan í eða ofan á henni.” Tóftin liggur því sem næst í NNA-SSV. Samkvæmt mælingum Sigurðar er hún 86 feta (26,95m) löng og 25-27 feta (7,83-8,45 m) breið. Uppgraftaraðferðin við þessa tóft var önnur en sú sem notuð var við Biskupsbúð. Þar hafði hann grafið með veggjum hringinn í kring, en hér voru þeir breiðir og ógreinilegir, einkum langveggirnir.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Við hliðvegggina beitti hann sömu aðferð og áður, þ.e. að grafa einskonar ræsi með veggjunum utan og innan, en hann gróf hinsvegar ofan af norðaustri til suðvesturs. Matthías Þórðarson lýsir tóftinni sem ferhyrndri grjótdreif: “Er hér nú engin upphækkun og engir veggir, en grjótið sýnir, hvar veggirnir hafa verið. Þeir virðast hafa verið um 1,5 m að þykkt, og lengdin er nú um 25,50 m, en breiddin 8,5 m að utanmáli.”
“Snorrabúð” svonefnd er norðan við götuna sem liggur í skarðinu um eystri brún Almannagjár.
Sigurður Vigfússon gróf í tóftina 7. og 8. júní 1880. Hann getur þess í skýrslu sinni að tóftin hafi verið óaðgengileg til rannsóknar “því marghlaðið er innan í hana og seinast var þar stekkur, sem öllum er kunnugt og var allt fullt af grjóti á víð og dreif umhverfis búðina”. Tóftin snýr A-V og er 70 fet (21,93 m) á lengd og 30 fet (9,39 m) á breidd að utan máli samkvæmt mælingum Sigurðar.
thingvellir - skotutjornHann virðist hafa grafið frá austur- og vesturenda hennar, bæði innan og utan veggja. Í skýrslunni segir að hann hafi einkum rannsakað “nyrðra gaflhlaðið”, en sennilega hefur átt að standa “eystra”, því norðurhliðin er langhlið, ekki gafl, og af samhenginu að dæma er þar átt við hliðina sem snýr frá Almannagjá. Lítið eða ekkert hefur verið grafið frá hliðveggjum, því Sigurður taldi að upprunaleg hleðsla þar væri horfin. Austan megin fann hann djúpt ræsi fyrir utan (ysta) vegginn og “þar virtust mér koma í ljós þrjár grjóthleðslur hver innan í og upp af annarri; þó þóttist ég nokkurn veginn viss um, að eg komst út fyrir hina ystu, og ef til vill, upprunalegu hleðslu.” Vestan megin, þ.e. sem snýr inn í gjána, fundust einnig “þrjár hleðslur á sama hátt, og er þar einnig grafið ræsi fyrir utan.” Ystu gaflhleðslurnar eru hálfhringmyndaðar. Ekki nefnir Sigurður neina gripi, öskudreif eða önnur ummerki.

spongin-3Er Daniel Bruun skoðaði ummerki á Þingvöllum um aldamótin síðustu sá hann garðlag utan við austurenda tóftarinnar og taldi vera leifar virkis. Hann var áhugamaður um hernaðarmannvirki leitaði að virkisleifum víða.

Þetta garðlag er ekki nefnt í lýsingu Sigurðar, enda mun það ekki vera veggur eða virkisleifar, heldur uppkastið úr rannsókninni 1880. Matthías lýsir þessari sömu tóft svo: “Búð þessi er mjög veggjaþykk og glögg, en hleðslur þó úr lagi gengnar…. Austur-gaflhlað fláir mjög að neðan og verður bogamyndað neðst, og er grjótdreif umhverfis með jarðvegi nokkurum milli steina.” Samkvæmt mælingum Matthíasar er tóftin 10,3 m að lengd og 5,6 m að breidd að utanmáli, en 6,50 m x 2,30 m að innanmáli, með dyrum á suðurvegg.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Talsvert ósamræmi er á mælingum þeirra Sigurðar. Tóft þessi er tvískipt, en það nefndi Sigurður ekki. Við vesturenda hennar er lítil tóft, jafnbreið, en lægri og um 5,40 m að lengd að utanmáli, en um 2,5 m að innamáli. Matthías telur ólíklegt að stekkur hafi verið settur í tóftina, því Öxará ræður merkjum og er tóftin því í landi Brúsastaða og allfjarri bæ.
Hleðsla við “Lögberg”. Þann 7. og .8. júní 1880 gróf Sigurður Vigfússon í hleðslu á gjábakkanum skammt norðan við “Snorrabúð”, þar sem sumir fræðimenn álíta að Lögberg hafi verið. Samkvæmt lýsingu hans var þar e.k. pallur 59-67 fet ( um18,5-21 m) að lengd c. N-S, og um 51 fet (16m) A-V. Sigurður gróf 3ja álna breiðan (1.88m) skurð frá gjábarmi og til austurs í gegnum mannvirkið út á brún.

bagall-21

Á brúninni kom í ljós “mikil og breið grjóthleðsla (þriggja álna breið [ 1.88m] og hálf önnur alin [0,94m] á hæð), sem þó er töluvert úr lagi gengin.” Grafið var frá henni að neðan beggja vegna á 48 feta [15 m] löngu bili. Í miðju mannvirkinu rakst Sigurður á lítinn og stuttan grjótbálk. Sigurður gróf síðan annan skurð langsum eftir miðju mannvirkinu, álíka breiðan, um fjórar álnir (2,5m) en heldur mjórri við norðurenda. Nær suðurenda (að því er virðist) fann Sigurður óreglulegan grjótbálk “margir stórir steinar, en sem allir virtust vera úr lagi gengnir”, voru sumir í moldinni en aðrir niður við bergið.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

Ekkert fannst nema mold norðanmegin, en sunnantil, u.þ.b. miðja vegu milli grjótbálkanna, kom Sigurður niður á mikið öskulag, þar í var skora stór og full af ösku. Öskulagið lá niður við bergið og er því eldra en upphækkunin, sem er úr mold, um 60-90 sm þykk. Þar var gjóta niður í bergið og taldi Sigurður hana hafa verið notaða fyrir eldstæði. Í öskunni voru viðarkol og beinaska. Að áðurnefndum hleðslum frátöldum er mannvirkið úr mold. Í miðju mannvirkinu fann Siguður “glerbrot rúma hálfa alin [rúmlega 31,33 sm] niður í moldinni; það er líkast því, sem það væri úr bumbunni á lítilli könnu með eftirgjörðu hálfgrísku lagi, líkt og tíðkast hefir á seinni tímum. Hálsinn á kerinu hefir verið thingvellir 1944-2gyltur utan og innan.
Utan á brotinu er upphleypt rós, leggir og blöð, gjört eftir náttúrunni, en grunnurinn er gulur. Gyllling og öll yfirhúð á brotinu lítur mjög nýlega út.” Það var niðurstaða Sigurðar að þetta mannvirki væri ekki Lögberg, heldur hugsanlega leifar af búðarvirki Orms Svínfellings sem nefnt er í Sturlungu. Margir aðrir fræðimenn, þ. á m. Matthías Þórðarson álíta að þarna hafi Lögberg verið.

Rannsóknir á 20. öld

Þingvellir

Þingvellir – skilti.

Fræðilegur áhugi á Þingvöllum var mjög almennur um aldamótin og takmarkaðist ekki eingöngu við deilur um staðsetningu Lögbergs. Um þetta leyti naut minjastaðurinn hins vegar engrar sérstakrar friðhelgi. Á ársfundi Fornleifafélagsins 1901 fór Finnur Jónsson hörðum orðum um ástand minjaverndar í landinu. Gagnrýndi hann m.a. vegaframkvæmdir í Almannagjá og þá eyðileggingu sem rannsóknir Sigurðar Vigfússonar höfðu í för með sér og hvatti til þess að friðhelgi fornleifa yrði virt66. Finni varð að ósk sinni er Alþingi samþykkti árið 1907 lög um verndun fornmenja, þar sem þjóðminjaverði var m.a. heimilt að friðlýsa fornleifar.
thingvellir-994Ekki var leitast við að skera úr um Lögbergsdeiluna með fornleifauppgrefti á nýjan leik, en kortagerð og yfirborðsathuganir héldu áfram. Herforingjaráðið lét gera uppdrátt af Þingvelli 1908, og var hann gefinn út 1910. Á honum eru merktar sumar búðartóftir, en ekki t.d. mannvirkið á Spönginni eða áhleðslan þar sem Lögberg var talið vera. Var úr þessu bætt er Samúel Eggertsson og Matthías Þórðarson gerðu nýjan uppdrátt af þingstaðnum 1929. Byggði hann á ítarlegum vettvangsathugunum Matthíasar.

“Þorleifshaugur”

Þingvellir

Friðrik VIII og fylgdarlið á Þingvöllum.

Er vegurinn („Konungsvegur“) var lagður austur um Þingvallahraun 1907 í tilefni af heimsókn Friðriks 8., var tekinn jarðvegur ofan af hraunbungu og hól skammt vestan við veginn þar sem hann liggur um suðurenda Brennugjár. Voru sagnir um að þetta væri haugur Þorleifs jarlsskálds: “Hann var sýnilega gamalt mannvirki, lausagrjót mikið í honum, borið saman af mönnum, og var jafnvel enn í nokkrum hleðslulögum, og miklar moldir.

Lítilsháttar varð vart við ösku og leifar af birkikolum… Enn fremur fundust mjög óverulegar beinaleifar, örfúnar og lítill silfurpeningur…mjög eyddur og gegnsýrður svo að hann molnaði í sundur áður en hann yrði ákveðinn. thingvellir-905…Einnig fundust óverulegar leifar af járnnagla og lítill járnmoli. Grjótdyngjan öll í hólnum aðgreindist í bálk, sem var í miðju, og þústir sem voru, hvor sínu megin, að austan og vestan við hann. Var dyngjan öll um 5 ½ m á lengd frá austri til vesturs og nær 4 m á hinn veginn”. Taldi Matthías líklegt ekki ekki fullvíst að þarna hafi verið haugur og leit út fyrir að hann hafi þegar verið grafinn áður og í honum rótað.
Árið 1927 voru öll gömull mannvirki á Þingvöllum, beggja vegna Öxarár friðlýst af þjóðminjaverði, svo og rústir eyðibýlanna Grímsstaða, Bárukots, Múlakots, Litla-Hrauntúns, Ölkofrastaða og ónefnds býlis undir Hrafnabjörgum. Ári síðar setti Alþingi lög um verndun þjóðgarðsins á Þingvöllum69. Margvíslegar athuganir voru gerðar á næstu árum á Þingvöllum og næsta nágrenni. Voru það einkum náttúruskoðun og örnefnaskráning.

Rannsóknir á síðustu árum

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Engin rannsókn með uppgrefti var gerð á Þingvöllum frá því er Matthías athugaði meint kuml vestan Brennugjár 1920 þar til tilkynnt var um óvæntan fornleifafund í Þingvallatúni 1957. Þá var verið að grafa fyrir jarðstreng og m.a. tekinn skurður skammt norðan við eystri enda Öxarárbrúar (neðri). Þar fannst s.k. tá-bagall á 43 sm dýpi. Gísli Gestsson gerði þar lauslega athugun og sá að hluturinn hafði komið úr jarðlagi með viðarkolaleifum.

Þingvellir

Þingvellir – Öxará undir Öxarárbrú.

Undir því lagi voru mannvistarlög niður á eins metra dýpi í skurðinum. Tá-bagallinn er að mati Kristjáns Eldjárns skreyttur með víkingaaldarstíl, sem nefndur er Úrnesstíll, og er frá ofanverðri 11. öld. Er þessi fundur mjög merkur fyrir margra hluta sakir. Tá-bagall er tignarmerki biskupa og ábóta og gat Kristján þess til að hann hefði verið í eigu trúboðs- eða farandbiskups eða jafnvel eins af fyrstu biskupum Íslands. Er hann skreyttur í anda þeirrar listar sem stóð í blóma á lokaskeiði víkingaaldar, áður en hin rómanska kirkjulist miðalda ruddi sér til rúms. Loks ber að geta að þetta er ekki eingöngu eini tábagallinn sem fundist hefur á Íslandi, heldur og sá eini sem fundist hefur á Norðurlöndum.
thingvellir-stekkjargja-2Er Gísli athugaði betur jarðstrengsskurðinn sá hann ummerki um húsbyggingar um 13 metrum norðar og nær Þingvallabæ. Fann hann þar m.a. gólflag á tæplega 10 m löngum kafla. Er ljóst að skurðurinn hefur farið í gegnum fornar byggingar sem ekki sér til á yfirborði. Þjóðminjasafnið hugðist gera frekari rannsókn í Þingvallatúninu, en aldrei varð af því vegna anna starfsmanna og bíður þessi staður þess enn að gerð verði athugun á minjunum. Varð og enn langt hlé á fornleifaathugunum á Þingvöllum.
Árið 1985 hélt Landvernd ráðstefnu um Þingvelli 198573. Þar hélt Guðmundur Ólafsson deildarstjóri fornleifadeildar Þjóðminjasafns erindi um uppgrefti á Þingvöllum. Árið eftir hóf hann síðan uppmælingu á sýnilegum fornleifum á Þingvöllum. Mælingunum var haldið áfram 1987 og 1988, en engin skýrsla var gerð um árangurinn. Ekki er því unnt að fjalla nánar um þær athuganir hér, en þó skal þess getið að fram hefur komið að uppmælingin leiddi í ljós að á Þingvöllum væru fleiri búðaleifar en áður var talið. Samkvæmt lýsingum Matthíasar Þórðarsonar taldi hann um 37 búðaleifar á Þingvelli. Við athuganir 1986-1988 kom fram að þar væru a.m.k. 50 búðatóftir og tóftabrot.

Þingvellir

Þingvellir Öxarárfoss.

Árið 1993 var gerð tilraun til að nota jarðsjá við fornleifaleit á Þingvöllum að ósk þjóðgarðsvarðar og Þingvallanefndar. Rannsóknin takmarkaðist við spildu NNA við Valhöll og var gerð í því augnmiði að kanna ytri mörk „Njálsbúðar“ og athuga hvort aðrar mannvistarleifar leyndust þar. Af þeim sjö sniðum sem mældu voru, náðu tvö þeirra yfir „Njálsbúð“ og er niðurstaða mælinganna talin sýna að núverandi göngustígur þar nái yfir austurhluta hennar. Þess skal getið hér að á yfirborði er augljóst að stígurinn nær yfir austurlanghlið og norðausturhorn búðarinnar.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Önnur helsta niðurstaða mælinganna var sú að talið er líklegt að þær gefi vísbendingar um tvær búðir á svæðinu sem áður voru ókunnar. Á yfirborði er þar að sjá lága hóla sem standa upp úr mýrinni, en þeir hafa enga skýra tóftalögun. Auk jarðsjárinnar var notaður járnteinn og hann rekinn niður í svörðinn til að kanna hvort þar kynni að leynast grjót, sem gæti verið hleðslugrjót í veggjum. Sú athugun sýndi að grjót var m.a. að finna á þessum tveimur stöðum. Þó túlka beri niðurstöður jarðsjármælinga mjög varlega, þá er ekki ósennilegt að hólarnir í mýrinni séu búðaleifar. Er það gagnleg áminning um að fornleifar, og jafnvel þingstaðaleifar er víðar að finna á Þingvöllum en þar sem sjá má búðatóftir með berum augum. Í því sambandi má benda á að Vellirnir norðan við Öxará voru sléttaðir fyrir alþingishátíðina 1930 en þar geta vel hafa verið búðlaleifar.
thingvellir-gataÁrið 1998 hóf Þingvallanefnd undirbúning að nýjum rannsóknum á Þingvöllum og fól Fornleifastofnun að taka saman heimildir um staðinn og greinargerð um stöðu rannsókna og gera tillögur um nýjar rannsóknir.76 Sama ár gerði Adolf Friðriksson lítilsháttar vettvangsathugun til að skoða álitlega rannsóknarstaði og ástand fornleifa. Meðal þeirra staða sem voru skoðaðir voru mannvirkið á Spönginni, “Biskupsbúð”, “Njálsbúð”, “Snorrabúð” og áhleðslan á “Lögbergi”.
Tóftin á Spönginni er enn talsvert greinileg, en óljóst mótar fyrir meintum hring. Hinsvegar er ljóst að landið liggur hærra í kringum tóftina en bæði sunnan og norðan við. Enn má nokkurnveginn sjá hvar Sigurður gróf skurði sína. Staðurinn hefur orðið fyrir lítilsháttar skemmdum, því troðinn gönguslóði liggur frá suðurenda Spangarinnar til norðurs og þvert í gegnum hringinn og yfir tóftina. Er slóðinn sumsstaðar djúpur og rof í bökkunum.

Snorrabúð

Snorrabúð.

Biskupsbúð virðist ekki hafa orðið fyrir hnjaski síðan Sigurður gróf ár 1880. Njálsbúð liggur á árbakkanum og lá slóði yfir austurhluta hennar, en liggur nú vestan við búðina. Veggirnir eru ógreinilegir og gengnir í sundur víða. Snorrabúð virðist lítið hafa breyst frá því Matthías Þórðarson lýsti henni fyrr á öldinni. Enn má sjá móta fyrir skurðum Sigurðar. Um áhleðsluna á Lögbergi er sömu sögu að segja. Þar sjást rásir í upphækkuninni sem eflaust eru skurðir Sigurðar frá 1880. Ofar hefur verið sett niður flaggstöng en ekki ljóst hvort sú framkvæmd hafi valdið einhverju raski.
Árið 1999 var gerð minniháttar athugun við Þingvallakirkju árið eftir, að ósk vísbendinga um eldri kirkjur á staðnum, og hvenær fyrsta kirkjan var reist á þeim stað sem hún stendur nú (síðan 1859). Eins var markmiðið að kanna ástand jarðvegs, varðveisluskilyrði og útbreiðslu gjóskulaga með tilliti til frekari rannsókna síðar. Grafinn var 10 m langur og 2 m breiður skurður til norðurs, við norðausturhorn kirkjunnar. Í ljós kom að jarðvegur er þar fremur grunnur, og undir er hraunklöpp. Þar fundust grjótundirstöður eldri kirkna og svo heppilega vildi til að vel varðveitt gjóskulög í jarðveginum gáfu skýra niðurstöðu um aldur hennar. Eldri lög, s.s. frá 871, 920 og 934 sáust ekki, enda hefur lítill jarðvegur verið á klöppinni á þeim tíma, en sjá mátti yngri lög ofar: Utan við undirstöðuna hefur verið grafinn skurður og sker hann Kötlulag frá c. 1500, en ekki yngra lag, sem er einnig Kötlulag, frá 1721. Af afstöðu laganna að dæma, hefur kirkjan verið reist á 16. öld.

Nýjar rannsóknir
Thingvellir 1771Þegar litið er yfir rannsóknarsögu Þingvalla í heild blasir við að athuganir á mannvistarleifum þar hafa litlu bætt við þekkingu á staðnum. Mestu fræðilegu púðri hefur verið eytt í að bera saman 13. aldar frásagnir um atburði á söguöld við sýnilegar minjar á staðnum, sem eru líklega flestar frá 18. öld. Einnig hefur lengi verið deilt um hvar Lögberg hafi verið, en lítið er t.d. vitað um aldur eða gerð mannvirkja. Því fer fjarri að fullreynt sé að nota fornleifafræðilegar vísbendingar til að fylla þá mynd sem eldri rannsóknir hafa dregið upp af staðnum. Athyglisvert er að þrátt fyrir allt sem skrifað hefur verið og skrafað um Þingvelli til forna, þá eru engar traustar fornleifafræðilegar heimildir fyrir hendi um forsögu þingstaðarins, þ.e. 10. og 11. öld, áður en ritöld hefst á Íslandi.

thingvellir 1789-2

Er áðurnefndur tá-bagall eina undantekningin frá þeirri reglu. Umfjöllun um forn mannvirki á Þingvöllum hefur að miklu leyti snúist um þjóðsögur, ágiskanir lærðra og leikra og jafnvel hreinan tilbúning. Áhrifa þessa gætir enn. Jón Ólafsson segist hafa velt niður steinum sem hann áleit hafa verið úr lögréttunni fornu og eru þau minjaspjöll á „þessum helgustu fornleifum landsins“, enn hörmuð. Hins vegar er engan veginn víst að Jón hafi haft rétt fyrir sér um eðli og aldur þessara minja, enda um hreina ágiskun að ræða af hans hálfu. Athuganir á svonefndum dómhringum víða um land hafa leitt í ljós að allskyns tóftir og jafnvel náttúrumyndanir hafa verið skýrð sem minjar um forna dóm- og þingstaði án þess að nokkur fótur sé fyrir því. Einnig er það áberandi einkenni á rannsóknum, skráningu og kortagerð á Þingvallaminjum að þær hafa takmarkast við minjasvæðið á Hallinum og á Spönginni auk stöku bletta austan ár, en heildarkönnun á fornleifum í landi Þingvalla hefur ekki enn verið gerð. Rannsóknir síðustu ára, þ.e. fjarkönnun 1993 og 1999 og uppgröfturinn norðan kirkju sýna að frekari fjarkönnun og uppgröftur gætu skilað verulegum árangri. Í næsta kafla verður fjallað um helstu forsendur og markmið nýrra rannsókna.

Rask á þingstaðnum

Thingvellir 1836-2

Á s.l. árþúsundi hefur orðið margvíslegt rask á Þingvöllum, bæði af völdum náttúru og manna. Svo sem kunnugt er hefur mikið landssig átt sér stað síðan frá landnámi og hefur það eflaust breytt ásýnd staðarins. Öxará rann áður vestan Almannagjár en var í fornöld veitt niður á vellina og hefur þar breitt úr sér. Hafi forn mannvirki staðið á völlunum skammt austan Öxarár má ætla að mörg þeirra séu nú horfin í rofi. Einnig er rof í bökkum vestanmegin, þar sem búðarleifar eru enn. Lét þjóðminjavörður dýpka aðalfarveg árinnar á þriðja áratugnum í því skyni að verja minjastaðinn.
Er nútíminn hélt innreið sína varð Þingvöllur að sérstökum áningarstað. Um s.l. aldamót (1897) var lagður vegur í Almannagjá til að auðvelda þar aðgang fólks að þessum merka sögustað. Eins og áður var getið harmaði Finnur Jónsson þessi náttúru- og fornminjaspjöll þegar árið 1901. Engu að síður héldu gáleysislegar vegaframkvæmdir þar áfram og árið 1907 var lagður vegur um þvera vellina og grafnar miklar gryfjur til beggja handa. Á árunum 1920-21 og 1923-24 lét þjóðminjavörður fylla þessar gryfjur á ný, taka af og þekja veginn og troðninga en leggja þess í stað nýjan akveg.
thingvellir 1905-2Síðan 1927 hafa fornleifar á Þingvöllum verið friðlýstar, og nýtur staðurinn aukinnar verndunar sem þjóðgarður. Engu að síður hafa minjaspjöll haldið þar áfram að nokkru leyti, m.a. vegna framkvæmda við undirbúning að Alþingishátíðum. Á Völlunum efri voru fornar reiðgötur sem nú sjást ekki lengur því undirbúningsnefnd Alþingishátíðarinnar 1930 lét slétta vellina og síðar voru þeir teknir til ræktunar. Var svo gert þrátt fyrir andstöðu þjóðminjavarðar84. 1929 voru bæjar- og peningshús tekin ofan, túnið stækkað til suðurs og lagður vegur yfir Fjósagjá, um Miðmundatún og vestur að Valhöll undir Hallinum.
Skömmu fyrir lýðveldishátíðina 17. júní 1944 var kirkjugarðinum á Þingvöllum umturnað, gömul, grasi-gróin leiði voru jöfnuð út eða færð í kaf. Árið 1940 var vígður nýr grafreitur austan við kirkjuna, en ekki er ljóst hvort fornleifar hafi komið þar fram.

thingvellir - ahugi

Ýmsar húsbyggingar fyrr og síðar á 20. öld, ásamt framkvæmdum við lagnir og aðra skurðagerð sem ábúð og mannavist fylgir, hafa eflaust valdið raski á fornminjum, þó ekki sé um það kunnugt. Fornleifafundurinn í Þingvallatúni 1957, þá er grafið var fyrir jarðstreng, ber um það glöggt vitni að fornleifar geta víða leynst þó ekki sjái til þeirra á yfirborði. Á þeim stað (Miðmundatún) og víðar hefur nú einnig verið plantað trjám og hafa rætur þeirra eflaust spillt fornleifum.
Meðal framkvæmda fyrir 1930 var að setja steina í nokkrar búðir með áletruðum búðanöfnum. Var það gert í því skyni að auðvelda ferðamönnum að átta sig á þingstaðnum. Þar eru merktar búðir sem hafa verið taldar búðastæði Snorra goða og Njáls, en einnig voru merktar búðir nokkurra embættismanna frá 18. öld. Má til sanns vegar færa að þær merkingar hafi litla þýðingu fyrir þjóðgarðsgesti, enda eru menn litlu nær að vita t.d. að tiltekin búð hafi verið búð Jens Madtson Spendrup sýslumanns.
thingvellir-ferdamennÁ sjötta og sjöunda áratugnum komu af og til upp hugmyndir um að byggja eftirlíkingar af þingbúðum á staðnum til að laða að fleiri ferðamenn og gefa þeim nánari hugmynd um hvernig var umhorfs við þinghaldið til forna. Var alloft sveigt að Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði í blöðum fyrir aðgerðaleysið, enda búðirnar „engum til gagns“ eins og þær væru nú. Töldu sumir nauðsynlegt að reisa „virðulegt minnismerki“ á Lögbergi. Þar þyrfti að rétta af hallann sem er á Lögbergsflatanum, rækta þar gras og setja blómabeð, og „byggja Lögréttu í fornum stíl“. Þó svo að hún „hafi aldrei verið staðsett upp á Lögbergshæðinni“ þá yrði Lögréttubyggingin þar verðugt minnismerki engu að síður. Aðrir lögðu áherslu á að reisa „fróðlega og gagnlega eftirmynd af búðum til forna“, því það gæfi ekki aðeins útlendingum hugmynd um þinghaldið, heldur væri þetta „nauðsyn“ fyrir Íslendinga sjálfa, einkum æskuna sem annars notar staðinn fyrir fylleríssamkomur. Kristján stóð gegn framkvæmdum af þessu tagi, og taldi sér fátt óskyldara en „að búa til fornleifar“. Á síðustu árum hefur orðið kúvending í þessum málum og nú er ekki hreyft við steini á Þingvelli án tilskilins og undirbúnings og eftirlits. Lagðir hafa verið göngustígar þar sem ekki er kunnugt um fornleifar og umferð beint frá viðkvæmum svæðum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Ein af þeim fræðilegu spurningum sem eru hvað brýnastar er sú hver séu í raun takmörk þingstaðarins. Það veit enginn og ljóst er af skurðgrefti vegna veitulagna, nýlegum athugunum með fjarsjá og uppgrefti að fornleifar leynast víða á Þingvöllum. Auk þess hafa búðakönnuðir á 19. og 20. víða bent á staði þar sem þeir telja líklegt að leynist fleiri þingbúðir, en það hefur ekki verið kannað. Sumar þessara minja tilheyra vitaskuld Þingvallabæ og búskap þar, en aðrar munu vera þingminjar. Sú mynd sem almenningur hefur af staðnum byggir vitaskuld á því sem sést á yfirborði, en eflaust er heildarmyndin flóknari og einfaldlega stærri, ef svo má að orði komast. Brýnt er að gera almenna úttekt á ástandi minja á svæðinu, kanna rof í tóftarbrotum eða skemmdir vegna jarð- eða trjáræktar. Einnig er nauðsynlegt að skrá Þingvallaland í heild, og kortleggja þannig allar sýnilegar minjar, auk þeirra minja sem heimildir eru til um, en ekki eru sýnilegar á yfirborði. Þannig verður m.a. unnt að ákvarða takmörk þingstaðarins og gefa forsendur fyrir skipulagsvinnu og framtíðarráðstöfun jarðnæðis innan þjóðgarðsmarka. Búðir hafa verið beggja vegna árinnar og er mikilvægt, með könnunargrefti og fjarsjármælingar að staðsetja sem flesta minjastaði.

Rannsókn á Þingvöllum 2002

Þingvellir

Snorrabúð á Þingvöllum.

Samkvæmt upphaflegri áætlun var ráðgert að gera forkönnun á átta stöðum á Þingvöllum árið 2002, þ.e. vestan ár, á mannvirkinu á svonefndu Lögbergi, s.k. Snorrabúð, s.k. Njálsbúð og svæðinu sunnan Njálsbúðar, og austan ár, á Miðmundatúni þar sem tábagall fannst 1957, á Biskupshólum, á árbökkum Öxarár norðan Biskupshóla og á Spönginni.
Vegna fjárskorts var athugunum á Snorrabúð, Lögbergi og mannvirkjaleifum á Spönginni frestað, en lögð áhersla á að ljúka forkönnun á öðrum stöðum. Grafinn var könnunarskurður á þessum stað og fannst þá veggur sem væntanlega tilheyrir áður óþekktri búðartóft. Undir grasrótarlaginu (190) var fremur ljósleitur, brúnn og leirkenndur moldarjarðvegur (191) og í honum vottaði fyrir torfi. Þar undir var dökkbrún mold (192) og stóð vatn í á 30 sm dýpi. Syðst í skurðinum voru allnokkrir steinar, eflaust úr vegghleðslu, sem er talsvert hrunin.
Engar vísbendingar fundust um aldur mannvirkisins, og óvíst er um lögun þess og stærð, enda sjást lítil merki á yfirborði. Grafa þyrfti búðina upp til að sjá lögun hennar, en svæðið er blautt og því erfitt að stunda þar fornleifauppgröft. Þessi niðurstaða staðfestir engu að síður, að suðurmörk þingstaðarins austan ár eru einfaldlega óþekkt, því búðir kunna að hafa staðið hér og hvar á þessu svæði. Ummerki um mannvirki eru horfin því þau hafa sokkið í blautan jarðveginn. Finnist fleiri minjar á þessum slóðum mun það breyta heildarmynd þingstaðarins.

Fornleifakönnun austan ár – Miðmundatún

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Árið 1957 var grafið fyrir jarðstreng á Miðmundatúni, skammt frá norðausturhorni brúarsporðsins, þar sem nú er trjálundur. Þar fannst fyrir tilviljun sjaldgæfur dýrgripur, s.k. tábagall frá 11. öld – tignarmerki biskupa. Við skyndiathugun það ár komu í ljós mannvistarlög sem bentu til að þar hafi staðið e.k. mannvirki, en þau voru ekki athuguð frekar. Ekki hefur verið vitað til þess að þingbúðir hafi staðið á þessum slóðum, en vissulega er fundurinn óvenjulegur og mannvistarlögin gefa fullt tilefni til frekari rannsókna.

Niðurstöður
thingvellir - thjodgardurSumarið 2002 hófust rannsóknir á fornleifum á Þingvöllum. Grafnir voru prufuskurðir á Miðmundatúni, Biskupshólum, austurbakka Öxarár skammt norðaustan Biskupshóla, og í svonefnda Njálsbúð og aðra tóft skammt vestan við hana. Helstu niðurstöður rannsóknanna eru þær fjöldi meintra búða er meiri en áður var talið. Áður óþekktar búðir komu í ljós á öllum þessum stöðum. Ljóst er nú að á Biskupshólum og þar í kring hefur ekki aðeins staðið ein búð, heldur mikil búðaþyrping, sem ekki sér lengur móta mikið fyrir á yfirborði nema að mjög litlu leyti. Svo virðist sem þar séu mannvirki allt frá 10.-11. öld. Elstu mannvirkin eru gerð úr voldugum veggjum með torfhleðslum og stóru grjóti. Ekki er hægt að segja frekar til um aldur eða hlutverk þessara mannvirkja, en þessi staður er vænlegur til rannsókna með uppgrefti. Hér hefur hlaðist upp talsverður jarðvegur, en eldri minjar virðast ekki hafa spillst af búðagerð frá síðari tímum, eða raski vegna búskapar né af náttúrulegum ástæðum. Eru vegghleðslurnar reyndar óvenjuheillegar, og vottar fyrir gólflögum. Eins fundust þar gjóskulög og varðveisluskilyrði í jarðvegi eru ágæt.
Önnur helsta niðurstaða sumarsins er sú að minjar á Þingvöllum sem öðrum þingstöðum eru víða að spillast af völdum náttúrunnar, einkum af völdum vatnsaga eða trjágróðurs, t.a.m. í mýrinni sunnan við búðaþyrpinguna vestan ár, við trjálundinn á Miðmundatúni og á bökkum Öxarár. Við athuganir á vorþingstöðum á Vestfjörðum kom í ljós að þeir hafa allir raskast að verulegu leyti, vegna vegagerðar, skriðufalla, trjágróðurs, rofs, vatnsaga og byggingaframkvæmda. Engu að síður eru upplýsingar um mannvirki á þessum stöðum mikilvægar við rannsóknir á eðli þingminja.“

Heimild:
-Þinghald til forna – Framvinduskýrsla 2002 – Adolf Friðriksson (ritstjóri). Höfundar efnis: Adolf Friðriksson, Garðar Guðmundsson og Howell M.Roberts, Reykjavík 2002.
http://www.nabohome.org/uploads/fsi/FS183-02141_Thinghald_til_forna.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þingvellir

Árið 1993 rak Þórarinn Þórarinsson arkitekt augun í áletrun í klöpp á Þingvöllum, þar sem gengið er út á Spöngina sem er á milli Flosagjár og Nikulásargjár. Áletrunin var uppljómuð í kvöldsólinni en reyndist þó skófum vaxin og máð og gekk því illa að lesa úr stöfunum.

Blomkvist

Þingvellir – áletrun.

Mynd sem sýnir sykri stráða áletrunina á Spönginni. Giskað hefur verið á að stafirnir séu verk ferðamanna, hugsanlega frá 19. öld. Hægt er að smella á myndina til að skoða stærra eintak af henni. Myndasmiður: Einar Á.E. Sæmundsen.

Fundurinn vakti töluverða athygli. Í fyrstu voru uppi getgátur um að áletrunin kynni að vera frá fyrsta skeiði þinghalds og gæti jafnvel tengst lögréttu sem sumir telja að hafi verið á Spönginni. Þetta var stutt með því að einhver hefði lagt mikið á sig til að slétta klöppina og höggva svo letrið í.

Þingvellir

Spöngin á Þingvöllum.

Spöngin er skammt ofan og hægra megin við miðja mynd, einhvers konar hraunrimi milli tveggja gjáa.
Sagan segir að rútubílstjóri nokkur hafi tekið sig til, stráð sykri í áletrunina og letrið þá orðið læsilegt. Í ljós kom að tvö nöfn höfðu verið höggvin í klöppina: Gulin og Blomkvist. Listfræðingurinn og rithöfundurinn Björn Th. Björnsson taldi líklegast að þarna hefðu skandinavískir ferðamenn verið að verki, sænskir Finnar, hugsanlega um eða eftir 1870, en á þeim tíma var kenningum um lögréttu á Spönginni fyrst haldið á lofti og má ætla að fleiri hafi lagt leið sína þangað í kjölfarið.

Spöng

Spöngin – áletrun.

Jafnvel var talið að um ástarjátningu gæti verið að ræða, að par hefði ákveðið að meitla heit sín í klöppina.

Áletrunin er máð, bæði hefur hún veðrast en einnig er hún fótum troðin af þúsundum ferðamanna sem hafa lagt leið sína út á Spöngina. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um uppruna áletrunarinnar er í það minnsta líklegra að kenna hana við ástfangna Finna en Íslendinga við þingstörf fyrir mörg hundruð eða þúsund árum.

Heimild:
-DV 14. júní 1993 á Tímarit.is.
-Mynd af áletruninni: Einar Á.E. Sæmundsen.

Þingvellir

Þingvellir. Spöngin er fyrir miðri mynd.

Kristján tíundi

Í Fálkanum 1930 (Alþingishátíðarriti) er grein um „Konung Íslands og drotningu„:

Konungur Íslands

Kristján tíundi; ríkisár 1912-1947 (Danmörku) 1918-1944 (Íslandi). Skírnarnafn: Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm Glücksburg. Fæddur 26. september 1870 – dáinn 20. apríl 1947 (76 ára). Drottningin er Alexandrína af Mecklenburg-Schwerin. Kristján tíundi kom fjórum sinnum til Íslands og í öll skiptin með skipi. Hann heimsótti Ísland árin 1921, 1926, 1930 og 1936.

„Hinn fyrsta dag Alþingishátíðarinnar setur konungur Íslands og Danmerkur þingfund á Lögbergi. Á Lögbergi hafa áður konungar staðið, en þing hefir eigi verið haldið þar síðan löngu áður en fyrsti konungur Íslands kom hingað til lands. Atburður þessi verður því einslæður í sögu þjóðarinnar.

Liðin saga kennir oss, að konungar vorir hafi margir hverjir verið vinveittir oss Íslendingum og mistök þau, sem urðu á stjórnarfarinu voru að jafnaði því að kenna, að þeir menn, sem konungarnir höfðu sjer til aðstoðar um Íslandsmál voru alls ófróðir um hagi hinnar fjarlægu þjóðar. Það er talandi vottur um þetta, að einmitt á ríkisstjórnarárum hins fyrsta konungs, sem sótti Ísland heim, hefst sú framfaraöld íslenskrar þjóðmenningar, sem nú stendur.

Kristján níundi

Kristján níundi.

Kristján konungur níundi kom fyrstur allra konunga vorra út hingað, með þá „frelsisskrá í föðurhendi“, sem varð undirstaða íslensks stjórnfrelsis. Hann varð Íslendingum það, sem Friðrik sjöundi varð Dönum. Og á efstu ríkisstjórnarárum hans er nýtt spor stigið í íslenskri stjórnarfarssögu, er ráðuneyti Íslands er flutt inn í landið.

Hinn göfuga vilja á því, að verða við óskum Íslendinga sýndi hinn næsti konungur vor, Friðrik áttundi, er hann á fyrsta ríkisstjórnarári sínu boðar íslenska Alþingismenn í heimsókn til Danmerkur, til þess að þeir kynnist dönskum stjórnmálamönnum og í vinahóp gæti rætt áhugamál sín og kröfur við þá. Árið eflir, 1907, heimsækir hann svo sjálfur Ísland með fríðu föruneyti og sýndi í þeirri för, eins og fyr og síðar, vilja sinn á því, að verða við óskum Íslendinga. Hann skipar millilandanefndina til þess að gera tillögur um sambandslög. Þó að ekki verði beinn árangur af starfi hennar, þá varð það samt beinn og nauðsynlegur viðkomustaður á leið þjóðarinnar til sjálfstæðis.

Þingvellir

Kristján tíundi ásamt fylgdarliði á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Það fjell í hlut Kristjáns konungs tíunda, að stíga stærstu sporin, sem stigin hafa verið í sjálfstæðismálum Íslendinga. Fyrst með stjórnarskránni frá 1915, sem veitti Íslendingum viðurkendan fána og síðan með sambandslögunum 1918, sem veittu Íslendingum viðurkenning sambandsþjóðarinnar fyrir því, að þeir væri frjáls og fullvalda þjóð. Dýrmætustu skjölin, sem geyma sönnunina fyrir sjálfslæði Íslands, bera nafn Kristjáns konungs tíunda, þess manns sem fyrstur konunga hafði nafn Íslands í heiti sínu.

Friðrik VIII

Friðrik VIII og Lovísa af Hessen-Kassel. 

Fullyrða má, að Kristján konungur tíundi, sje sá konungur Íslands, sem best hefir kynt sjer hagi þjóðarinnar og hefir hann íslenskan konungsritara sjer við hönd. Hann hefir átt tal við fleiri íslenska menn, en nokkur konungur annar. Og hann hefir tvívegis komið til Íslands, í fyrra skiftið er hann kom hingað í opinbera heimsókn 1921 og í síðara skiftið 1926. Og nú kemur hann í þriðja sinn.
Í bæði skiftin hefir Alexandrine drotning fylgt honum hingað og gerir enn. Hún er hin fyrsta drotning, sem til Ísland hefir komið og því hin fyrsta sem íslensk þjóð hefir haft kynni af. Og tvímælalaust hafa þau kynni orðið til þess að auka virðingu og ást Íslendinga á drotningum.

Konungshjónin koma hingað með herskipinu „Niels Juel“ hinn 25. júní.

Niels Jul

Niels Jul.

Eftir að þau hafa verið á Alþingishátíðinni verða þau um tíma upp í Borgarfirði. Meðan þau standa við hjér í Reykjavík búa þau um borð í skipinu, en á Þingvöllum í konungshúsinu.“

Konungar Danmerkur og Íslands voru eftirfarandi frá upphafi 19. aldar skv. fróðleiksíðum Wikipedia:

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930 (Alþingishátín), Konungur Íslands og drotning, bs. 6.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Konungur_%C3%8Dslands
Kristján tíundi.

Þingvellir

Í Fálkanum, Alþingishátíðarútgáfunni, árið 1930 er m.a. fjallað um „Bústaði Alþingis„:

Þingvellir

Konungshúsið á Þingvöllum.

„Það liggur nær að halda að þinghald hafi lagst niður hjer á landi fyrir húsnæðisleysi. Framan af öldum hefir þingið jafnan verið haldið undir beru lofti, og þó er þess aldrei getið, að þinghald hafi farist fyrir vegna óveðurs, þó að hlífðarföt hafi vitanlega verið ófullkomin í þá daga. En þegar kemur fram á 17. öld hafa þingmenn verið orðnir svo kulvísir að þeir fundu þörf til að halda fundi undir þaki, enda hefir móðurinn ekki verið mikill í þeim í þá daga. Var þá bygð tóft á vesturbakka Öxarár, sem en sjest móta fyrir, og tjaldað yfir hana dúki meðan á þingi stóð. Var það sama tilhögunin og menn áður höfðu haft á búðum sínum. En árið 1691 var hús bygt á sama stað til þinghalda.

Þetta alþingishús hefir líklega aldrei verið sjerlega vandað og auk þess hefir því verið haldið illa við. Svo mikið er víst, að þegar kemur fram undir lok átjándu aldar er húsið orðið svo hrörlegt, að ýmsir þingmenn telja heilsu sinni hættu búna af að sitja þar á fundum og auk þess svo að falli komið, að giska má á, af ummælum sumra manna, að búast hafi mátt við, að húsið hryndi þá og þegar yfir þá, sem í því voru. Þing var síðast haldið þarna sumarið 1798.

Menntaskólinn í Reykjavík.

Menntaskólinn (Latínuskólinn) í Reykjavík.

Þegar Alþingi var endurreist var Latínuskólinn í smíðum. Var hún langstærsta og fullkomnasta bygging landsins í þá daga og enda lengur, og ein af tilkomumestu byggingum Reykjavíkur enn í dag. Skólinn var smíðaður í Noregi úr gildum viðum, sem settir voru svo saman þegar hingað kom og stofur allar múrfóðraðar að innan. Þótti skólinn sjálfkjörið samkomuhús þingsins og þar var það haldið frá 1845 til 1881, í salnum á annari hæð í vesturenda skólans, þeim, sem nú eru hátíðasalur hans. Geymir Latínuskólinn þannig minninguna um þau þing sem háð voru um daga Jóns Sigurðssonar, og segja þeir menn, sem til ára eru komnir, að vel hafi mátt heyra til hans neðan af Lækjargötu, er gluggarnir voru opnir, er hann hjelt ræður sínar. Þjóðfundurinn 1851 var líka haldinn í skólanum, hin merkilega samkoma, þar, sem úr skar um það hvort Íslendingar ættu að vægja í sjálfstæðismálinu eða leggja út í hina löngu baráttu fyrir sjálfstæði sínu.

Alþingishúsið

Alþingishúsið 1930. Alþingishúsið var reist á árunum 1880-1881 á Kirkjustíg við sunnanverðan Austurvöll. Húsið var teiknað af Ferdinand Meldahl en byggingastjóri hússins var F. Bald, sá sami og byggði húsið við Pósthússtræti 3. Grjótið í húsið var tekið úr Þingholtunum þar sem Óðinsgata er nú. Húsið hefur hýst löggjafarsamkomu Íslendinga frá árinu 1881 en einnig var Háskóli Íslands hýstur í húsinu á árunum 1911-1940.

Árið 1881 var lokið við að byggja Alþingishúsið. Var það fyrsta stórbyggingin, sem landsmenn rjeðust í að reisa, eftir að þeir fengu sjálfræði i fjármálum. Húsið var bygt úr grásteini og vel til þess vandað; er hjer hergjaskipun þess í aðalatriðum hin sama nú og var í fyrstu. Á fyrstu hæð eru stofur, sem Háskólinn hefir notað síðan hann var stofnaður, en áður var þar Landsbókasafnið. Á annari hæð eru deildarsalirnir báðir og er hæð þeirra tvöföld, svo að þeir ná líka um þriðju hæð. Á annari hæð er ennfremur skrifstofa Alþingis, lestrarsalur þingmanna, herbergi forseta og stofur til nefndastarfa og blaðamannaherbergi og á þriðju hæð íbúð skrifstofustjóra Alþingis.

Húsið bygði danskur steinsmiður og byggingameistari, Bald að nafni.“

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930, Bústaðir Alþingis, bls. 33.

Konungshús

„Konungshúsið“ á Selfossi er endurgerð af Konungshúsinu, en upprunalega húsið var reist um vorið 1907 á Þingvöllum sem ætlað var Friðriki konungi VIII til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Húsið var reist ofan við eða við Vellina, rétt fyrir neðan Öxarárfoss, og var í eigu Landsjóðs. Var það kallað Konungshúsið.
Húsið var leigt út til kaffisölu og gistingar næstu sumur og í því voru haldin réttarböll á haustin. Fyrir alþingishátíðina 1930 var ákveðið að flytja húsið og gera það upp og var það staðsett um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið haft sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni.
Upp frá þessu mun það hafa farið að tíðkast að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Var það oft nefnt forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Árið 1946 er talað um hann sem „sumarhús ráðherra hins íslenska lýðveldis“.
Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og ungur dóttursonur. Þar er nú minnisvarði um þau.

 

Þingvellir

Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skrifaði um „Sköpun Þingvalla“ í Alþingishátíðarrit Fálkans árið 1930:

Pálmi Hannesson

Pálmi Hannesson; 3. janúar 1898 – 22. nóvember 1956.

„Alt er breytingum háð. Vísindin kenna oss, að enginn hlutur sje að öllu hinn sami i dag og hann var í gœr. Og árin sem líða láta eftir sig drjúg ummerki á öllu, sem er, löndum og liföndum. Sumt þroskast, annað hrörnar, en alt hreytist, skapast og glatast. Þannig fer mannanna sonum. Þannig fer og um jörðina: fjöll og dali, stein og stál.

Á hverju vori velta árnar fram kolmórauðar af sandi og leir, sem þœr bera úr fjöllum fram og alt út á sæ. Skriður falla. Vindur gnýr fjöll, og hafið sverfur strendur. Römm öfl orka á jörðina og leitast við að rífa hana niður, og ef þau væru ein í leik, mundu þau um síðir jafna hin hæstu fjöll við sæ, því að þó að fjöllin sjeu mikil og traustleg eru þeim þó takmörk sett, en tímanum engin. En jarðeldar hlaða upp eldfjöll og veita hrauni á hraun ofan. Löndin lyftast og síga, hrukkast beyglast og brotna fyrir hinum duldu öflum í djúpi jarðarinnar. Þannig orka tvenn öfl á jörðina og eiga í sífelldu stríði. Önnur rifa niður. Hin hlaða upp. Önnur „vega upp tindana“. Hin jafna þá við sæ. Landslag og staðhættir, fjöll og dalir, lönd og álfur, alt er þetta til orðið fyrir starf og stríð þessara afla, og alt er þetta að breytast sífeldlega.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jörðin er ekki fullsköpuð og verður það aldrei. Jörðin er að skapast. Í hverju einasta landi jarðarinnar berjast þessi öfl, en hvergi sækjast þau fastar en hjer á landi. Hjer er jörðin að skapast fyrir augum vorum.

— Þingvellir og landið umhverfis þá sýnir glögglega þetta mikilfenglega sköpunarstarf náttúrunnar. Náttúrunnar, sem reisir og rífur, elur og tortímir. Hvernig hefir þetta listaverk náttúrunnar orðið til? Lítið á Þingvallavatn og Þingvallahraun, Súlurnar, Skjaldbreið, Hrafnabjörg, Tindaskaga, Kálfstinda og Henglafjöllin. Hvernig og hvenær hefir alt þetta skapast? —

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Jeg skal nú í örstuttum dráttum segja sögu Þingvalla, eins og fræðimenn ætla að hún sje, eftir þeim meginrúnum, sem náttúran sjálf hefir reist á hinum fornhelga stað, en rjett er þess að geta, að margar þeirra rúna eru enn óráðnar og bíða komandi fræðimanna og komandi kynslóða, þeirra sem meira girnast að vita um sögu lands síns en sú sem nú lifir eða lifað hafa frá því að Snorri goði spurði á Alþingi forðum. „Hvat reidduzt goðin þá, er hjer hrann hraunit, er nú stöndu vér á?“

Og saga mín hefst fyrir tugum þúsunda ára, á hinni miklu jökulöld.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Yfir öllu landinu liggur bláhvít jökulbreiða, svo að hvergi sjer á dökkvan díl, nema í svartar hamrahyrnur út til stranda. Á þessum tíma eru eldgos tíð, einkum inni í landinu. Aska, gjall og hraunslettur berast út á jökulbreiðuna, sökkva til botns og hlaðast saman undir jökulfarginu. Þannig ætla menn, að hin mikla móbergsbreiða um mitt landið hafi skapast. Svo líða þúsundir ára. Eldur og ís skapa landið og móta, en enginn kann frá þeim undrum að greina, sem verða í þeirri viðureign. Seint á þessum tíma taka mikil eldfjöll að stinga kollunum upp úr jökulbreiðunni. Þau hlaðast upp og hækka og spúa eldi og eimyrju yfir hinn hvíta jökul. Þannig skapast Henglafjöllin, Súlur og Ármannsfell, Hrafnabjörg, Kálfstindar og Tindaskagi. — Og enn líða ár og aldir. — Jökulbreiðan tekur að þverra.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Hægt og hægt víkur jökullinn til baka, og geysimikill skriðjökull liggur fram um Þingvalladalinn, milli eldfjallanna, sem gnæfa við himinn á báðar hendur. Og loks er landið örísa, og Þingvalladalurinn breiðir faðminn móti hinum fyrstu frjóum, sem sunnanblærinn ber inn yfir hið frumvaxta, örlöglausa land.

Og þannig líða þúsundir ára. Gróðurinn grær í hinum þöglu, ónumdu dölum, og eldgos eru tíð. Á þessum tíma hlaðast upp hinar miklu grágrýtisdyngjur: Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Þingvellir

Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12.000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina. 
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins.
Um svipað leyti gaus í dyngju sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraun rann frá og myndaði eldborgagígaröð.

Svo tekur loftslagið að kólna að nýju. Jöklarnir vaxa inni í landinu ár frá ári og öld eftir öld. Þungur jökulstraumur sígur fram um Þingvalladalinn og stökkvir burt öllum lifanda. Loks er Ísland jökli hulið að nýju, og skriðjöklar ná á alla vegu út á sjó. Það er hin síðari jökulöld.

Á þeim tíma mótast Þingvalladalurinn að nýju undir hinum þunga, sverfandi ísstraumi. Og eldfjöllin á báðar hendur dalsins eru hulin fönnum og skriðjöklum, sem gnaga þau og móta.

Þannig líða langar aldir. — En eftir þennan fimbulvetur kemur vor, eins og eftir hinn fyrri. Jökullinn verður að hopa fyrir hinum hlýnandi þey.

Og aftur verður Ísland örísa upp að hæstu hálendum. Nú er landið umhverfis Þingvelli tekið að líkjast því sem nú er, en þar er enginn Skjaldbreiður, ekkert hraun, ekkert vatn. Dalurinn er hulinn bláum jökulsöndum, og um hann liðast mógráar jökulsár. Þá er Suðurland alt sævi hulið og Ingólfsfjall er höfði, sem öldur úthafsins næða á, en norðan við það liggur fjörður langt upp í Grafning.

Og aftur tekur gróðurinn að nema landið. Hægt og hægt lokast hann inn yfir auðnirnar, sem jökulinn ljet eftir sig. —

Þá hefjast eldgos langt inn í Þingvalladalnum. Hraunið brýst upp á jafnsljettu og hvert gosið rekur annað, uns ávöl hæð tekur að hefjast fyrir miðjum dalnum. Hún hækkar og gýs, gýs eintómu hrauni. Og hraunflóðin renna lengra og lengra inn til jökla og út um hinn „breiða heiðardal“. Þannig skapast Skjaldbreiður.

Síðan, þegar Skjaldbreiður er hættur að gjósa, opnast geysimikil eldsprunga uppi á bak við Hrafnabjörg og Tindaskaga. Þaðan falla þungir hraunstraumar niður með Hrafnabjörgum beggja vegna og út yfir dalinn, yfir hraunin frá Skjaldbreið. Þaðan eru hraunin komin, sem þekja Þingvöll.

Þingvellir

Úr Eldborgum sunnan Hrafnabjargar rann hraun vítt um Þingvallasvæðið.
Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði um 15 metra en jafnframt minnkaði vatnið mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta.
Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.

Nú líður og bíður. Gráðurinn breiðist yfir landið, og skógurinn lekur að nema hið nýja hraun. Svo byrjar landsigið. Undirstaðan undir Þingvalladalnum bilar, og hún sígur og sigur, uns hlíðar dalsins bresta og botninn allur fellur niður. Þannig skapast Þingvallavatn. Vera má raunar, að vatn hafi áður verið nyrst í dalnum, en við þessar hyllingar hefir það dýpkað og stækkað geysilega. Þá skapast Almannagjá, Hrafnagjá og aðrar gjár á Þingvöllum. Þá skapast og Jórukleif og aðrir brotbarmar beggja vegna við vatnið. Enginn veit með neinni vissu um það, hversu þessar byltingar hafa gerst nje ástæður þeirra. Leiða menn að því ýmsar getur, sem ekki verða greindar hjer. Líklegt má þó telja, að þetta mikla landsig hafi gerst á löngum tíma, og má vera, að því sje ekki lokið enn. Víst er, að árið 1789 seig Þingvallasljettan um eina alin, og getur verið, að svo hafi oftar orðið.

Þegar hjer er komið sögu, eru Þingvellir að mestu orðnir eins og þeir eru nú. Skógurinn breiðist jafnt og þjett yfir hraunið og hlíðarnar, blágrænn að lit.

Eitt hið síðasta eldgos, sem orðið hefir á þessum slóðum, hefir veitt miklum hraunstraumi suðvestur af Hrafnabjargahálsi suður með Miðfelli og alt suðvestur að Dráttarhlíð, sem liggur neðan við Þingvallavatn. Þetta hraun hefir stíflað Þingvallavatn og hækkað það um nokkra metra, og má sjá þess merki viða. Siðan hefir Sogið grafið sjer nýjan farveg með fram hraunröndinni og lækkað vatnsborðið að sama skapi sem farvegurinn dýpkaði. Þessu starfi heldur það áfram enn í dag, og er trúlegt, að það hafi grynnkað vatnið um 1 metra eða meira á síðustu þúsund árum.

Þingvellir

Þjófahraun rann fyrir um 3000 árum úr gígum norðar Hrafnabjarga
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.

Þannig er sköpunarsaga Þingvalla i stuttum dráttum alt til þessa tíma, að landið bygðist. Þegar hinir fyrstu landnámsmenn litu yfir Þingvalladalinn, blasti við augum þeirra fögur sýn og svipmikil. Hraunin öll og hlíðarnar voru skógi vaxnar, og yfir blágrænan skóginn og hið mikla vatn gnæfðu fjöllin við himin. Þeir nefndu hjeraðið Bláskóga og vatnið Ölfusvatn Engan þeirra hefir grunað, að þetta svæði yrði hið örlögríkasta í sögu þjóðarinnar, að þessi friðsami fjalladalur yrði sjónarsvið hinna mestu, hinna bestu og hinna verstu atburða i lífi niðja þeirra.

Síðan á Landnámsöld hafa ýmsar breytingar orðið á Þingvöllum. Skógurinn er að mestu horfinn. Þar sem forfeðurnir reistu búðir sinar er nú mýri, og sumt af þingstaðnum er horfið í vatn. Þúsund ár eru sem augnablik í æfi landsins, en enn leitast landsigið við að sökkva Þingvöllum og Sogið að veita af þeim vatni.

Hvað verða muni, veit enginn. Ef til vill sökkva Þingvellir í vatn. Ef til vill á jökullinn eftir að síga yfir landið að nýju. En eitt er víst. Alt breytist.“ – Pálmi Hannesson.

Meðfylgjandi myndir frá Þingvöllum fylgdu skrifum Pálma.

Pálmi lauk gagnfræðapróf á Akureyri 1915, stúdentsprófi frá MR 1918. M.Sc.-prófi í dýrafræði Hafnarháskóla 1926, en las auk þess grasafræði, jarðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1926–1929. Rektor Menntaskólans í Reykjavík frá 1929 til æviloka. Hann hafði því aflað sér víðtæka þekkingu á viðfangsefninu. (Nauðsynlegt var að bæta hinu síðastnefnda við til fróðleiks svo myndir og skýringartextar pössuðu við umfjöllunina.)

Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 26.06.1930, Sköpun Þingvalla, Pálmi Hannesson, bls. 14.
-https://www.thingvellir.is/fraedsla/nattura/jardsagan/

Þingvellir

Þingvellir – jarðfræðikort ISOR 2022.

Þingvellir

Skammt frá fyrrum Valhöll á Þingvöllum, fast vestan við brúna yfir Öxará, er skilti þar sem gestir eru boðnir „Velkomnir til Þingvalla“ með eftirfarandi boðskap:

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

„Þingvellir við Öxará er merkasti sögustaður Íslands og hvergi kemur saga lands og þjóðar fram með sterkari hætti. Hér var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það hér saman árlega allt til ársins 1798. Margir merkustu atburðir Íslandssögunnar urðu hér, svo sem kristnitakan árið 1000 og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Árið 1930 voru Þingvellir friðlýstir og þjóðgarður stofnaður en árið 2004 var þessi helgistaður allra Íslendinga samþykktur á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Þingvellir

Náttúra Þingvalla er talin einstök.

Náttúra Þingvallasvæðisins er einstök í heiminum. Jarðfræði svæðisins og vistkerfi Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatns Íslands, mynda dýrmæta heild. Lífríki vatnsins er auðugt en vatnasvið Þingvalavatns sem er um 1300 km2 hefur að geyma gríðarlega auðlind fyrir komandi kynslóðir. Þingvellir eru hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem hvergi er eins sýnilegur í veröldinni og einmitt hér. Þá má sjá í fjölmörgum sprungum og gjám svæðisins og gliðnun þess sem sífellt á sér stað.

Alþingi stofnað

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Þú stendur nú á mörkum þinghelginnar þar sem meginstörf hins forna Alþingis fóru fram. Hér sagði lögsögumaður upp lög þjóðveldisins á Lögbergi og goðar landsins sátu ásamt ráðgjöfum sínum í lögréttu. Innan þinghelginnar áttu allir menn að njóta friðar en grasivaxnar rústir búða sem tjaldað var yfir, vitna um þau híbýli sem þingheimur dvaldist í meðan þing stóð.
Fljótlega eftir landnám um 870 fóru landnámsmenn Íslands að velta fyrir sér möguleikum varðandi stjórnskipan og uppbyggingu samfélags á Íslandi. Eftir norrænni fyrirmynd voru héraðsþing stofnuð, það fyrsta í landnámi fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar á Kjalarnesi.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg til forna.

Í Íslendingabók er sagt að maður einn, Úlfljótur að nafni, hafi farið Noregs til að kynna sér lagasetningu og við hann voru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi, Úlfljótslög. Einnig er sagt í Íslendingabók að Grímur geitskör, hafi verið ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að hentugast væri að velja Þingvelli fyrir þing þar sem menn gætu komið saman af landinu öllu.
Heimildir um þinghald landsmanna á þjóðveldistímanum (930-1262/64) bera þjóðskipulagi og réttarvitund germanskra þjóða vitni. Alþingi er einstakt meðal forna germanska þinga sökum þess hve heimildarstaða um þinghaldið er ríkulegt. Þar munar mest um lagasafnið Grágás sem gefur einstaka sýn inn í réttarvitund miðaldamanna. Í grunninn var samfélagsskipanin þó byggð á trúnaðarsambandi milli höfðingja og á sambandi frjálsra bænda.

Hvers vegna Þingvellir?

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Líklega voru ástæður þess að Þingvellir voru valdir sem þingstaður landsmanna nokkrar. Vellirnir lágu vel við öllum helstu leiðum sem þá voru notaðar til ferðalaga milli landshluta. Ferðalag til Alþingis gat þó tekið um og yfir tvær vikur fyrir þá sem lengst þurftu að ferðast. leiðin lá oft yfir þvert hálendi landsins þar sem veður gátu verið válynd. Einnig var hér nægur eldiviður, hagar fyrir búfénað og vatn til drykkjar. Í Sturlungu er að nefnt að fornmenn hafi breytt árfarvegi Öxarár þannig að hún félli á vellina til þess a tryggja þingheimi aðgang að rennandi vatni.

Þingvellir í Íslendingasögum
Þingvellir koma víða við sögu í íslenskum miðaldabókmenntum. Þekktustu kappar Íslandssagnanna, Gunnar Hámundarson á Hlíðaenda og Egill Skallagrímsson, eru dæmi um það.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Í Njáls sögu er Gunnar sagður hafa hitt hina skörulegu Hallgerði hér á völlunum: „Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sa hann konur ganga á móti sér og vour vel búnar. Sú var í fararbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kbenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskykkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Gunnar var í tignarklæðum þeim er haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin“.
Og Egils saga segir frá Agli Skallagrímssyni á gamals aldri þegar hann vill ríða til þings: „Ég skal segja þér.“ kvað hann, „hvað eg hefi hugsað. Eg ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvortveggja er full af ensku silfri. Ætla eg að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast, síðan ætla eg að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli; ætla eg, að þar myndi vera þá hrundingar, eða pústrar“.

Samkomustaður landsmanna

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna.

Um tveggja vikna skeið í síðari hluta júnímánaðar ár hvert lifnuðu Þingvellir við þegar margmenni streymdi til Alþingis. Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu við þingheim. Ýmis varningur var boðin til sölu og veislur voru haldnar. Kaupahéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu vörur og þjónustu, trúðar léku listir og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar.

Þingvellir

Tekist var á í leik og alvöru á Alþingi hinu forna.

Fréttir voru sagðar úr fjarlægum landshlutum og kappleikar háðir. Lausamenn leituðu sér atvinnu og ölmusufólk baðst beininga. Þingvellir voru samkomustaður allra landsmanna, þar var grundvöllur lagður að tungu og bókmenntum sem verið hafa snar þáttur í menningu Íslendinga allar götur síðan.

Þingvellir

Á tíundu öld háðu kappar þjóðveldistímans einvígi í Öxarárhólma, en hólmgöngur voru aflagðar eftir kristnitöku árið 1000.

Eitt er víst að Þingvellir voru með sönnu samkomustaður landsmanna um aldir, frá 930 til 1798, þó að á síðari öldum hafi umsvif þinghaldins dregist saman og störf þess einkum takmarkast við dómsstörf og refsingar. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld tengdust Þingvellir sterkt sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og öðluðust því sess sem sérstakur hátíðarsamkomustaður landsmanna.
Þrátt fyrir marga kosti þess að finna Alþingi stað á Þingvöllum hefur jarðfræði svæðisins haft erfiðleika í för með sér. Landsig Þingvallasigdældarinnar, sem ætla má að hafi verið um 4 metra frá því að Alþingi var stofnað um 930, hefur gert það að verkum að vatn hefyr gengið upp í þinghelgina. Talið er að kirkjan á Þingvöllum hafi verið færð vegna vatnságangs á 16. öld og Lögrétta var einnig færð vegna vatnsflaums árið 1594. Hún var þá við að eingangrast á hólma út í miðri Öxará. Mikið landsig olli frekari vandræðum í jarðskjálfahrinu árið 1789 þegar tún fóru undir vatn og gjár opnuðust. Þá seig land um 2 metra þar sem mest var.

Þingvallakirkja og bær

Þingvellir

Þingvallabærinn, kirkjan og þjóðargrafreiturinn.

Það var Ólafur helgi Noregskonungur sem fyrstur stóð fyrir því að kirkja væri reist á Þingvöllum. Hann sendi við í kirkju og kirkjuklukku til landsins nokkru eftir kristnitöku árið 1000. Núverandi kirkja á Þingvöllum var vígð 1859 en turn hennar var endurbyggður árið 1907. Bak við Þingvallakirkju er þjóðargrafreitur Íslendinga sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.
Þingvallabærinn var reistur fyrir 1000 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 1930, en nú er hann í notkun þjóðgarðsins og forsætisráðherra. Tveimur burstum var bætt við bæinn árið 1974 fyrir þjóðhátíð þar sem Íslendingar minntust ellefuhundruð ára afmælis byggðar á Íslandi.“

Þingvellir

Þingvellir – skiltið við Öxará.