Í „Íslenskar þjóðsögur og ævintýri“ Jóns Árnasonar, sem bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1954 eru fjórar sögur um Gunnuhver á Reykjanesi:
Gunnuhver
Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandu við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagagnn sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skagagnum og var þá allur blár og beinbrotinn.
Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hafði drepið hann og væri nú afturgeingin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Varð allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.
Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík á Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki altént vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðinu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún ætti vera að ósekju.
Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðinu valt það afs tað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint af afturgöngu Gunnu.
Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverabarminum og trítlar hún þannig eintatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfborgin, því hún vill fyrir hvern mun síst fara ofan í vilpu þessa.
Guðrún Önundardóttir
Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum mállaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu.
Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla. Hún var flutt að útskálum og jarðsungin fyrir norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestinum uppi á garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum. Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.
Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða. Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar á milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði. En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes – að fyrirsögn Eiríks – og að hver einum og sleppti henni þar,og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. – Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.
Reykjanes-Gunna
Kona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft. Böndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann.
Gunna skammyrti bónda, en slepti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yri lengi. Því var lofað. Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur. Á heimléiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn mölbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður. Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyrir líkfylgdinni.
Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni. Þá var sent til Eiríks prests á Vogsósum og fékk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann. Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: „Þetta áttu að þvætta“. „Hvur segir það?“, segir Gunna. „Eiríkur á Vogsósum,“ segir maðurinn. Henni brá við og sagði: „Ekki var von á verra.“ Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og genur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn. Nú á dögum er hverinn kallaður Gunnuhver.
Önundar-Gunnar
Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörsstaðar suður með sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á.
Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fékk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl. Svo var sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni var hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korst og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af heni í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.
Svo er sagt að þegar gunna var grafin þá hafi hún sést á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: „Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja“.
Efrisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sgat að Kort hafi verið einn meða borðsgesta, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þess þó getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leiðina heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað.
Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hitt hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau höfðu glímt fjarska lengi og loks fannst kort dauður og mjög illa útleikinn.
Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til að bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fékk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur á annan endann.
Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sér á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa.
Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: „Á helvíti átti ég von, en ekki þessu.“ Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðar og sumur bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.
Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 3. bindi 1955, safnað hefur Jón Árnason III, nýtt safn; Bókaútgáfan Þjóðsaga 1954, bls. 508-510.