Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands.
Þórkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.
Sagan segir að Þórkatla hafi verið kona Þorsteins hrúfnis (jötuns) og Járngerður hafi verið kona Þórðar leggjalda. Þeir voru synir Molda-Gnúps. Þegar eiginmaður Járngerðar fórst á Járngerðarstaðasundi mælti Járngerðu svo til um að 20 skip skyldu þar og farast. Hún var dysuð að hennar beiðni við sjávargötuna frá Járngerðarstöðum svo hún gæti fylgst með hverjir réru hverju sinni.
Dys Járngerðar er í vegkantinum, sunnanmegin, í beygjunni á milli Víkur og Hliðs. Tómas Þorvaldsson, sem vísaði á dysina, sagði það venju að sjómenn, sem gengu sjávargötuna framhjá dysinni, stöðvuðu þar og signdu sig eða báðu bænir áður en þér héldu til báts.
Í sama óveðri slapp eiginmaður Þórkötlu inn á Þórkötlustaðasundið. Þórkatla mælti þá svo til um að þar myndu engir bátar farast. Hefur hvorutveggja gengið eftir. Þórkatla mælti fyrir um að hún skyldi dysjuð þar sem hún sæi yfir Þórkötlustaðasundið.
Dys Þórkötlu er er í túninu austan við Hof.
Jón Árnason IV 231
Skv. upplýsingu Tómasar Þorvaldssonar.