Færslur

Selgjárhellir

Gengið var að hellunum í Urriðavatnshrauni. Á litlu svæði eru a.m.k. sex hellar, þar af þrír nokkuð langir, en hinir hafa verið notaðir sem fjárskjól. Í einum þeirra, Þorsteinsshelli (Sauðahellirinn syðri), eru miklar hleðslur er mynda þverskiptan niðurgang í tvískiptan hellinn.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Annar fjárhellir (Selgjárhellir) er skammt norðaustar, í norðvesturenda Selgjár, sem einnig var nefnd Norðurhellragjá. Hleðslur eru fyrir opi hans. Þá eru fyrirhleðslur í helli skammt norðan hans (Sauðahellirinn nyrðri). Sá hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Einnig eru hleðslur í helli vestan við Þorsteinshelli. Hellar þessir gengu áður undir samheitinu Norðurhellar.
Selgjá hét Norðurhellragjá eða Norðurhellagjá. Í henni eru margar minjar selsbúskaparins fyrr á öldum. Í jarðabókinni 1703 er getið um sel frá átta kóngsjörðum á Álftanesi. Ávallt er getið um selstöðurnar í þátíð svo allnokkur tími virðist hafa verið síðan þær lögðust af. Í Selgjá hafa talist 11 seljasamstæður, sem allar eru byggðar upp við gjárbarmanna, a.m.k. um 20 byrgi og 10 eða 11 litlar kvíar.

Selgjá

Þorsteinshellir við Selgjá.

Sauðahellirinn syðri er hér nefndur Þorsteinshellir, en undir því nafni mun hann hafa gengið um tíma er samnefndur maður Þorsteinsson, þá ábúandi í Kaldárseli, notaði hellana sem fjárskjól um aldamótin 1900. Um hann er fjallað í lýsingu um Kaldársel hér á vefsíðunni. Urriðakotsdalastígur/Gjáarréttarstígur lá þarna skammt frá hellinum um Mið-Tjarnarholt.
Opnað hefur verið inn í langan helli í jarðfalli skammt norðvestan við Þorsteinshelli. Þá er Skátahellir alllangur. Varða er ofan við op hans. Þriðji langhellirinn er skammt norðar. Gróið er í kringum opið. Fara þarf niður undir lágt klapparholt. Þar opnast rás inn undir hraunið. Gömul mosavaxin varða er skammt frá opinu. Því miður gleymdist ljóskerið svo ekki var hægt að fara mjög langt inn eftir rásunum að þessu sinni. Ljósið frá farsímanum dugði þó fyrstu 30 metrana, svona til að skoða hvers konar rásir var um að ræða. Fyrir innan opið á síðastnefndu rásinni er hleðsla, líkt og einhver hafi haft þar bæli um tíma. Augsýnilega hafði þó ekki verið farið þangað niður um allnokkurn tíma.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Urriðavatnshraun er hluti af Búrfellshrauni. Hraunið er komið úr Búrfellsgíg, sem blasir þarna við í enda Búrfellsgjár. Selgjáin hefur verið hluti þessarar hrauntraðar, en vegna misgengis og hreyfingu landsins, er hún nú allnokkru hærri en Búrfellsgjáin. Misgengið gengur þarna áfram við sunnanverðar Smyrlabúðir að vestanverðu og Hjallana að norðanverðu. Hraunið hefur runnið í tveimur kvíslum vestur milli grágrýtishæðanna og allt í sjó úr í Hafnarfirði og Skerjafirði. Á leiðinni heitir hraunið ýmsum nöfnum, s.s. Urriðvatnshraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Garðahraun, Flatahraun, Gálgahraun, Hafnarfjarðarhraun, Gráhelluhraun og e.tv. fleiri nöfnum. Guðmundur Kjartansson (1972) fékk gerða aldursákvörðun á mó undan Búrfellshrauni við Balaklett og samkvæmt því er hraunið um 7200 ára.

Setbergsselshellir

Í Setbergshelli.

Í syðri hraunkvíslinni eru t.d. Hvatshellir, Kershellir og Kethellir (Selhellir). Skammt norðar í nyrðri hraunkvíslinni (sömu og Norðurhellarnir) eru Maríuhellar, öðru nafni Urriðakotshellir og Vífilsstaðahellir.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu heldur hrauntröð, þ.e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma. Hraunrennslið þvarr mjög snöggt í Búrfellsgjá og farvegurinn tæmdist nær því í botn. Hellarnir við enda Selgjár eru við enda hrauntraðarinnar
Frá sjónarmiði hellafræðinnar er Búrfellsgjáin merkilegasta fyrirbærið í Búrfellshrauni, en í hrauninu eru einnig nokkrir hellar, m.a. þeir sem hér eru nefndir.

Frábært veður – stilla og hlýtt – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson – 1990.
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – Guðlaugur R. Guðmundsson -2001.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Selgjá

Eftir að hafa skoðað fjárborg í kjarri vaxinni Heiðmörk og hlaðin tvískipt fjárhús, þ.e. annars vegar fyrir kindur og hins vegar fyrir sauði, var gengið yfir í Norðurhellagjá (Norðurhellragjá), eins og hún jafnan var nefnd. 

Sel í Selgjá

Gjáin dró nafn sitt af fjárhellum norðan hennar, en þeir voru jafnan nefndir Norðurhellar (Norðurhellrar). Síðar voru þeir aðgreindir og var þá hellir, sem er norðan úr Gjánni nefndur Selgjárhellir og hellar þar skammt vestur af nefndur Sauðahellirinn nyrðri og Sauðahellirinn syðri. Fyrrnefndi hellirinn gekk um tíma einnig undir nafninu Þorsteinshellir frá því að Þorsteinn Þorsteinsson í Kaldárseli nýtti hann um aldarmótin 1900. Sá hellir er fallega hlaðinn niður og tvískiptur. Sjá meira HÉR.

Selgjá

Norðurhellrar í Selgjá.

Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var. Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar síður. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana. Selstaða þarna er nefnd í Jarðabók 1703 og virðist skv. henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Í öllum heimildum er talað um selstöðu þarna í þátíð svo hún virðist vera mjög gömul. Stekkir og kvíar, sem voru hlaðnir, sjást greinilega á flestum staðanna. Eins og kunnug var búsmalinn hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr.

Selgjá

Tóft í Selgjá.

Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskonan) og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Sniðugur smali kom sér upp nátthaga til að fé hlypi ekki út og suður á mðan hann hallaði sér um stund á annað eyrað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Vatn er ekki að finna í Selgjá, en hins vegar er gott vatn í Vatnsgjánni í Búrfellsgjá, sem er þarna skammt sunnar, lítt norðan við Gjáarréttina. Í raun er Selgjáin og Búfellsgjáin hluti af sömu hraunrásinni frá Búrfelli, en vegna misgengis og ris landsins hafa þær aðskilist a.m.k. hvað hæðarmismuninn varðar.
Mannvirki í SelgjáEftir gjánni lá Norðurhellagjástígur austur með gjánni. Við austurbrúnina er steinn með merkinu B. Annar samskonar steinn fannst skammt norðar, en snúa þarf honum við til að kanna hvort á honum er einnig merki. Steinar þessi hafa verið reistir upp á endann og “púkkað” með þeim. Telja má líklegt að þarna geti hafa verið um hestasteina að ræða. Áhugavert væri að skoða aðrar selstöður og kanna hvort svipaða steina geti verið þar að finna. Sjá meira HÉR. Stígurinn liggur síðan upp úr gjánni sunnan syðstu seljarústanna í austanverðri gjánni.

Selgjá

Selgjá.

Nokkuð glögg gróðurskil eru þarna í gjánni. Sunnar er mosinn ráðandi, en að norðanverðu er grasi gróið með gjárbörmunum þar sem minjarnar eru. Meginselstöðurnar hafa verið tvær, sitt hvoru megin í gjánni. Á báðum stöðunum eru leifar húsa, fjárskjóla, stekkja og vatnsbóla.

Á einum stað á austanverðri gjánni er skjól og hleðslur í því og fyrir. Hitastreymi virðist upp úr skjólinu því ekki frýs í því á vetrum.
Í raun er Selgjáin stórmerkilegur minjastaður, í einungis örskotsfjarlægð frá alfaraleiðinni um Heiðmörkina. Þegar gengið er um gjá er varla þverfótað fyrir leifum húsa, stekkja, fjárskjóla, brunna og öðrum margra alda gömlum mannvirkjum. Engar merkingar eru við eða í nánd við minjasvæðið.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir Norðurhellagjárstíg suður með austanverðri gjánni og síðan áfram þangað til komið var á móts við syðstu meginrústirnar að vestanverðu. Gengið var yfir að þeim og m.a. litið inn í fjárhellinn, sem þar er. Í honum eru hleðslur. Bæði norðan hans og austan eru talsverðar hleðslur. Þar við eru og leifa tveggja stekkja er benda til þess að þarna hafi verið selstöður tveggja bæja.
Síðan var haldið norður með vestanverðum barminum og endað á upphafsstað. Í hinni meginsselstöðunni við austurbarminn hafa einnig verið tvær selstöður. Þar sjást enn glögg merki húsa, stekkja og fjárskjóla. Á leiðinni var alltaf eitthvað sem bar fyrir augu. Hellarnir norðan og vestan gjárinnar voru ekki skoðaðir að þessu sinni, enda stutt síðan þeir litið var á þá. (Sjá uppdrátt betur HÉR.)
Veður var með ágætum þrátt fyrir svolítinn vind. Skúr gekk yfir smástund á meðan verið var að skoða fjárhellinn suðvestast í gjánni og kom því ekki að sök.
Það er stutt að komast í Selgjána, auk þess sem hún er auðveld yfirferðar. Í henni eru ótrúlega miklar minjar, sem leynast víða í henni, aðallega þó með gjárveggjunum. Sá, sem hefur áhuga á að skoða sig um þar, þarf að fara hægt yfir og hafa augun hjá sér. Það er líka fyllilega þess virði. Hægt væri að rita langa og lærða ritgerð um selstöðurnar í Selgjá og hlutdeild þeirra í búskaparháttum fyrri alda, en það verður ekki gert hér.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst. Tækifærið var notað og gerður meðfylgjandi uppdráttur af norðurhluta Selgjár.
Í göngum Þorsteinshellis

Hólmsborg

Samningar tókust við veðurguðina um gott gönguveður á Heiðmerkursvæðinu um laugardagsfyrirmiðdag.

Dimmir

Við op Dimmis.

Gengið var að Hólmsborginni, sem var endurhlaðinn árið 1918. Hún stendur svo til óröskuð inni í hrauninu. Sagnir eru um tvo hella skammt ofan við. Þeir eiga að heita Þorsteinshellir og Dimma. Gerð var nokkur leit að þeim, en án árangurs í fyrst, enda tekið mið af fyrirliggjandi lýsingu.
Gengið var framá einmanna eini á mosabreiðu og hlaðinni fjárhústótt (beitarhúsi) undir klapparholti. Hlaðin var hlaða innst í tóttinni. Sennilega útihús frá Hólmi.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Gengið var niður með hraunbreiðunni og inn með tjörnunum við Silungapoll. Sunnan við þær liggur gömul hestagata austur um heiðina. Hraunkantinum var fylgt undir holtunum áleiðis að Selfjalli. Þegar farið var að nálgast malarnámur norðan fjallsins fóru skynjunarviðbrögðin að gera vart við sig. Staðnæmst var stutta stund á hraunhól og litið yfir nágrennið. Eftir mat á umhverfinu var stefnan tekin til austurs, beint á munna Þorsteinshellis. Við hann var lítið skilti frá borgarminjavörlsunni, vandlega falið. Op Dimmis fannst fljótlega undir hraunbrekku skammt norðaustar. (Sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 53 mín.

Hólmsborg

Hólmsborg.

Helgadalur

Farið var með Þórarni Björnssyni, guð- og hellafræðingi, um hellasvæðið austan Kaldársels og Helgadals. Skoðaðir voru nokkir hellar og litið á hraunmyndamerkingar. Leitað var að hugsanlegu bæjarstæði fornbæjarins í Helgadal og liggja nú fyrir ákveðnar grunsemdir um hvar hann hafði staðið, en það er nokkuð frá því sem hingað til hefur verið álitið.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þá voru allir Maríuhellarnir skoðaðir og haldið að Þorsteinshelli í Urriðavatnshrauni. Hleðslurnar niður um hellisgöngin tóku sig alveg sérstaklega vel út við þær aðstæður sem þessi snjóugi sunnudagur bauð upp á. Auk þess var slitið á fjárhellirinn nyrst í Norðurhellagjá og ennfremur skoðaður langur hellir norðvestan hans.
Sunnudagurinn skartaði fallegu veðri og hinu ágætasta til hellaskoðunar, því eins og svo oft áður lýsti snjórinn upp innviði hellana.

Þórarinn Björnsson

Þórarinn Björnsson.

Þórarinn er nú í Edinborg. Á aðfangadag sendi hann FERLIR eftirfarandi vefpóst:
Sæll Ómar og til hamingju með aldeilis frábæra heimasíðu Ferlis. Frétti fyrst af henni í gær og á örugglega eftir að fylgjast með ferlum ykkar í framtíðinni og vonandi taka þátt í fleiri ferðum með ykkur þegar ég kem heim til Íslands á ný. Við hjónakornin erum hér í Edinborg (síðan í sept) og verðum trúlega í eitt ár eða svo, konan í námi við Edinborgarháskóla í heimspeki en ég að vinna hjá KFUM meðal heimilislausra í Edinborg. Ég óska Ferlisfélögum alls hins besta í framtíðinni.

Kær kveðja:
-Þórarinn Björnsson, 39/12 Comely Bank, EH4 1AG Edinborg, Skotlandi.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Þorsteinshellir

Lýsing á Þorsteinshelli og Dimmu (Dimmi) var sú að hellarnir ættu að vera norðaustan við Hólmsborgina (Sauðaborgina) í Hrossabeinahæð sunnan Hólmshlíðar og austan Gráhryggjar. Þeir, sem einhvern tíma hafa komið á svæði, vita að þar er eitt hraunhaf svo langt sem augað eygir. Þrjár fyrri ferðir á svæðið hafa reynst árangurslausar. Því var ákveðið að nota að þessu sinni léttvopnaða og fótfráa sérsveit FERLIRs. Sveitin getur farið hratt yfir og ef eitthvað markvert er að finna þá finnur hún það, það er a.m.k. reynslan.

Dimmir

Við opið á Dimmi.

Þegar búið var að leita af sér allan grun á Hrossabeinshæðum, var haldið inn á Gráhrygg. Farið var hratt yfir, en þegar komið var í austanverðan hrygginn skammt norðvestan við Selfjall var ákveðið að umkringja líklegt svæði og grandskoða það. Eftir stutta leit fannst Þorsteinshellir og síðan Dimmir í kjölfarið. Við skoðunina fannst einnig annar hellir, sem bíður betri tíma.
Hlaðið er (sjá mynd) við op Þorsteinshellis. Þrep er niður og síðan tekur við heil hraunrás, u.þ.b. 8-10 metra löng. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem skjól fyrir þann eða þá, sem setið hafa yfir ánum. Krikinn, sem þótti svo líklegur, hefur þá að öllum líkindum verið notaður sem nátthagi. Sennilegt er að aðstaða þessi hafi m.a. verið notuð frá seljunum í Lækjarbotnum (Örfiriseyjaseli og Reykjavikurseli) og frá Hólmi.
Skammt norðan við Þorsteinshellir fannst opið á Dimmi (sjá mynd). Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur, heil hraunrás, en tiltölulega lág.
Frábært veður.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Þorsteinshellir

Norðurhellrar hafa líklega tilheyrt Garðakirkjulandi því við Egilsbúð, sem byggð var út úr konungsjörðinni Hliði, segir: “Selstöðu hefur jörðin haft þar sem heita Norðurhellrar, þó ei ummælalaust af Garðastaðarhaldara, en ei hefur sú misgreining til laga komið.” Jarðirnar Brekka og Breiðabólstaður eru einnig sagðar hafa selstöður við Norðurhellra.

Norðurhellrar

Norðurhellar.

Norðurhellrar eru nyst í Selgjá. Í gjánni, sem nefnd af Norðurhellragjá, eru leifar af selstöðum 11 bæja í Garðahreppi. Norðurgjárhellrir er í beinu framhaldi af hrauntröðinni, sem myndar gjána. Fyrir munna hans eru hleðslur.
Stærsti hellirinn er svonefndur Þorsteinshellir skammt suðvestar. Við munna hans eru miklar hleðslur, hlaðinn gangur er greinist í tvennt. Annar hluti hellisins hefur væntanlega verið fyrir sauði og hinn, sá stærri, fyrir kindur. Sumir vilja tengja nafnið við Þorstein Þorsteinsson, sem bjó um tíma í Kaldárseli á síðari hluta 19. aldar.
Tveir aðrir hellar eru skammt frá, báðir með hleðslum fyrir. Hvort þessi skjól hafi verið notuð í tengslum við seljabúskapinn eða í annan tíma er ekki vitað. Þau eru öll í landi Urriðakots, en kotið mun hafa haft í seli í eða við Norðurhellragjá. Í Selgjánni eru tvö önnur skjól með hleðslum fyrir.

Heimildir m.a.:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. b. s. 195.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.