Færslur

Geirfugl

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði “Landfræðissögu Íslands – Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar“. Bókin var gefin út af Hinu íslenzka bókmenntafjelagi 1904. Í henni má t.d. lesa eftirfarandi um rannsóknir á fuglum hér á landi, auk þess Þorvaldur fjallar um geirfuglinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen: 1855-1921.

“Um dýraríki Íslands vita menn miklu minna en um grasaríkið, enda er það eðlilegt, rannsóknir dýralífsins á æðra og lægra stigi eru miklu örðugri aðgöngu, það er miklu meiri fyrirhöfn að ná í dýrin en plönturnar og nákvæm þekking fæst ekki nema með samvinnu margra vísindamanna, sem hafa sérstaka þekkingu á hinum einstöku dýraflokkum. Rannsóknir dýralífsins eptir kröfum vísindanna nú á dögum útheimta góð söfn náttúrugripa og bóka og hentug verkfæri og eru því yfirleitt miklu kostnaðarsamari en rannsóknir í grasafræði; Íslendingar hefðu því haft lítil tök á að rannsaka dýralíf landsins, þó áhugi hefði verið á því, en hann hefir nú optast líka vantað. Tiltölulega var dýraríki Íslands betur kunnugt um lok 18. aldar en um lok 19. aldar, því fyrst og fremst voru kröfurnar þá miklu minni og svo gjörðu þeir menn, sem þá voru sendir til að kanna Ísland allharðar tilraunir til þess að fá yfirlit yfir dýralíf landsins í heild sinni; hið litla, sem unnið hefir verið að dýrafræðisrannsóknum á 19. öld, er flest í molum, rannsóknir ýmsra dýraflokka án samanhengis, og við suma flokka og það allmarga, hefir ekkert verið fengizt; opt hafa þessar rannsóknir verið framkvæmdar á hlaupum eða í sambandi við dýrarannsóknir annarra landa.
Þorvaldur ThoroddsenEggert Ólafsson lagði grundvöllinn undir dýrafræði Íslands (III., bls. 54—56), hann braut þar ísinn, eins og svo víða í öðrum greinum; 1786 samdi N. Mohr yfirlit yfir allt dýraríki Íslands og ýmsir aðrir skráðu sitthvað fleira um dýrafræði landsins; þessa höfum vér alls getið að nokkru áður, en munum hér fara fáum orðum um það, sem ritað hefir verið á 19. öld. (1800—1880). Frá þessari öld er ekki til nein bók um allt dýraríki Íslands, því tegundatal eptir Th. Gliemann (1824) er varla teljandi. Benedikt Gröndal samdi í Gefn dýrafræðisyfirlit og telur þar nokkrar íslenzkar tegundir og kyn úr flestum flokkum; í dýrafræði sinni telur hann einnig mörg íslenzk dýr og skapar ný nöfn á flokkum og ættum; voru þessi rit mjög þörf, því ekkert hafði áður verið ritað á íslenzku um almenna dýrafræði Íslands. F. A. L. Thienemann rannsakaði mest og bezt íslenzk spendýr, einkum seli, en af riti hans um dýrafræði íslands kom aldrei út nema fyrsta hefti.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.

Um engan íslenzkan dýraflokk hefir verið ritað eins mikið eins og um fugla; margt af því er reyndar ómerkilegt, en sum ritin eru ágæt, svo enginn dýraflokkur á Íslandi er nú eins vel kunnur og þessi, þó vantar enn fullkomna fuglafræði, sem að öllu leyti samsvarar kröfum tímans. Á seinni hluta 18. aldar fékkst þegar allmikil fræðsla um íslenzka fugla og má margt um þá lesa í ritum Eggerts Ólafssonar, N. Mohr’s, M. Th. Brúnnich’s, Sveins Pálssonar o. fl.; höfum vér áður drepið á fuglarit þessara manna. Eggert Ólafsson lýsti 69 fuglategundum, N. Mohr telur 66, Sveinn Pálsson athugaði lifnaðarhátt fugla og tók eptir mörgu, en það kom ekki á prent. Í dýrafræði Danmerkur eptir 0. F. Muller eru einnig nefndir nokkrir íslenzkir fuglar og önnur dýr og þar eru líka allmörg íslenzk dýranöfn; rit þetta er aðeins dýratal með örstuttum lýsingum.

Sveinn Pálsson

Sveinn Pálsson.

Fr. Faber afkastaði miklu meira í þessu efni og hann má heita höfundur og faðir íslenzkrar fuglafræði á 19. öld. Árið 1822 gaf hann út ágrip af íslenzkri fuglafræði, og telur þar 86 fuglategundir. Í ágripi þessu nefnir höf. fyrst hin latnesku nöfn og svo hin íslenzku og eru flestöll alveg rétt.
Faber ritaði síðar miklu meir um íslenzka fugla. Í hinu þýzka tímariti »Isis«, sem L. Oken (1779—1851) gaf út, lét hann á árunum 1824—27 prenta margar ritgjörðir um íslenzka fugla; þær eru viðaukar og skýringar við fuglafræðiságripið, og að vöxtum helmingi lengra mál en sú bók.
Ritgjörðir þessar eru ómissandi fyrir þá, er stunda fuglafræði Íslands, en þeim virðist hafa verið lítill gaumur gefinn. Þar er nákvæm lýsing fuglanna á ýmsum aldri, sagt frá hinni ytri og innri byggingu og fjölda margar athuganir um lifnaðarhátt þeirra. Aptan við þessar greinir er frásögn um ferð þeirra Raben’s greifa, Mörch’s og Faber’s út í Geirfuglasker; þeir gátu engan bát og enga menn fengið til þess að flytja sig þangað, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og urðu að leigja fiskijakt í Keflavík fyrir 32 specíur; þeir komust með lífshættu upp í Geirfuglasker og sýndi Raben greifi mikinn dugnað og dirfsku og var nærri drukknaður; ferðin varð þó árangurslaus, hún var gjörð til þess að ná í geirfugl, en þeir sáu engan.

Japetus Steenstrup

Japetus Steenstrup: 1813-1897.

Aðrir Danir rituðu á þessu tímabili mjög lítið um íslenzka fugla. Charles Teilmann gat um nokkra í fuglariti sínu og J. H. Reinhardt ritaði nokkrar smágreinir; hann getur þess meðal annars, að svartur íbis (ibis falcinellus) hafi komið til suðurstrandar Íslands vorið 1824, þeir voru 10—12 í hóp og voru 5 skotnir, allt fullorðnir fuglar, og komust þeir á dýrasafnið í Kaupmannahöfn. Reinhardt ritaði einnig um íslenzkar álptir, mest um beinabyggingu þeirra og um eyðingu geirfuglsins; hann getur þess, að 1823 hafi tveir geirfuglar náðzt á Eyrarbakka, og voru þeir sendir á dýrasafnið í Kaupmannahöfn, 1828 kom slæmur hamur frá Reykjavík og ennfremur hamir og egg 1830; var þá sagt, að geirfuglinn væri flúinn úr skerinu upp að landi vegna eldgossins, sem þar varð í nánd á því ári; 1831 voru líka boðnir til sölu í Kaupmannahöfn 20 geirfuglshamir og alls náðust þá á Íslandi eptir reikningi Reinhardt’s 27 geirfuglar á tíu árum.

Geirfugl

Geirfuglasker – lýsing af búsetusvæði geirfugls, Geirfuglaskeri, er úr handriti Lbs 44 fol. sem prentað er í 1. bindi Rauðskinnu.

Árið 1833 komu Englendingarnir G. C. Atkinsson og William Proctor til Íslands og veiddu fugla í nágrenni Reykjavíkur. 1837 kom W. Proctor aptur til landsins. O. O. Fowler og Shepherd ferðuðust víða bæði um Suður- og Vesturland 1862 og athuguðu fugla. Þessir menn rituðu ekkert sjálfstætt, en aðrir fuglafræðingar einkum A. Newton fengu hjá þeim ýmsa fræðslu um fuglafræði Íslands. Mönnum var sérstaklega mikil forvitni á að fá að vita eitthvað um geirfuglinn, einkum eptir að hann fór að verða mjög sjaldgæfur og hvarf að lokum. Hina ítarlegustu ritgjörð um geirfuglinn samdi Japetus Steenstrup 1855, síðan ritaði Edvard Charlton um fuglinn 1859 og A. Newton 1861 ágæta ritgjörð.

Geirfugl

Geirfugl – beinagrind.

Í sorphaugum steinaldarþjóða við strendur Danmerkur fann Jap. Steenstrup mikið af geirfuglsbeinum og réði af því, að geirfuglinn mundi í fyrndinni hafa haft miklu víðari útbreiðslu en á seinni öldum; menn höfðu líka fundið allmikið af geirfuglsbeinum vestan hafs á eyjum við Newfoundland og Labrador. Steenstrup safnaði nú saman öllum fregnum um geirfuglinn, er hann gat náð í, til þess að fá vissu um útbreiðslu hans á fyrri öldum. Flestir náttúrufræðingar ætluðu, að geirfuglinn væri mjög norrænn fugl og að varpstaður hans hinn síðasti á Geirfuglaskerjum við Reykjanes væri við hin syðstu takmörk þess svæðis, er var hið upprunalega heimkynni hans, en Steenstrup sýndi með rökum, að þessi skoðun var skökk og að heimkynni geirfuglsins einmitt lágu sunnar.

Geirfugl

Geirfugl – skilti til minningar um útdauðan geirfuglinn á Fogo-eyju á Nýfundnalandi.

Með því að kynna sér gömul rit fann Steenstrup, að geirfuglinn hafði á 16. og 17. öld verið algengur á eyjum og skerjum við austurströnd Norður-Ameríku, en eyddist af gegndarlausu drápi og ofsókn sjómanna, sem þar komu; þeir ráku hina varnarlausu, ófleygu og heimsku fugla þúsundum saman til slátrunar og notuðu þá bæði til fæðu og eldsneytis, og er opt getið um þetta fugladráp í fornum ferðasögum. Á Grænlandi var geirfuglinn aldrei almennur, á 18. öld sázt hann stundum á útskerjum sunnan til á Vesturströndinni. Á Íslandi var geirfuglinn algengari, en þó orðinn sjaldgæfur á dögum Eggerts Ólafssonar og varp þá aðeins á tveim stöðum við Suðurland, á Geirfuglaskerjum við Reykjanes og Geirfuglaskeri við Vestmanneyjar.

Geirfugl

Geirfugl – stytta á Fogo-eyju.

Steenstrup segir, að menn fyrst í útlöndum hafi fengið vitneskju um geirfuglinn á Íslandi af bók Anderson’s borgmeistara í Hamborg 1747, en það er eigi alveg rétt; Pétur Resen hafði um miðja 17. öld lýst geirfuglinum í Íslandslýsingu sinni (II., bls. 187), en rit hans hafa þó líklega fáir þekkt. Um lok 18. aldar var geirfugl horfinn frá skerjum við Vestmanneyjar, en lengur hélst hann við á Fuglaskerjum við Reykjanes, þó geirfuglarnir þar jafnan væri fremur fáir, að minsta kosti á seinni öldum; loks hröktust geirfuglarnir úr skerjunum af eldgosum og ofsóknum manna og tveir hinir síðustu geirfuglar, karlfugl og kvennfugl, létu líf sitt 1844; þeir höfu orpið í Eldey, nær landi en venja þeirra var, og voru teknir þar; síðan hefir fuglategund þessi hvergi sézt.

Geirfugl

Geirfugl – stytta við strönd Ameríku.

Á Færeyjum voru geirfuglar fremur algengir á 17. öld, en fækkaði smátt og smátt og voru alveg horfnir um lok 18. aldar. A St. Kilda við Skotland urpu geirfuglar á 17. öld, en á fyrri hluta 18. aldar voru þeir orðnir sjaldgæfir og seinast á þeirri öld og framan af hinni 19. náðust örfáir flækingar við útsker nærri ströndum Skotlands og Englands. Á þeim tímum, sem sögur fara af, hafa geirfuglar aðeins orpið á útskerjum við hið norðvestlæga Atlantshaf, kringum Newfoundland, við suðurströnd Íslands, á St. Kilda og Færeyjum; aðalheimkynnið mun þó hafa verið við Newfoundland og nálægar strendur.
Áður hefir útbreiðsla fuglsins verið miklu meiri og hann hefir þá verið algengur í Danmörku, við Bretland og líklega sunnan til í Skandínavíu; smátt og smátt hefir geirfuglinn eyðzt af ofsóknum manna, af því hann gat enga björg sér veitt, og svo var viðkoman lítil, því fuglarnir áttu aldrei nema eitt egg á ári.

John Wolley

John Wolley: 1823–1859.

Enskur fuglafræðingur John Wolley jun. (1823—1859) hafði mikinn áhuga á að rannsaka sögu geirfuglsins og hafði í öðrum löndum grafizt eptir fregnum og fræðslu, sem þar að laut; í aprílmánuði 1858 ferðaðist hann til Íslands í sömu erindagjörðum og annar enskur náttúrufræðingur, vinur hans Alfred Newton, slóst í förina með honum. Þeir voru nokkrar vikur í Reykjavík og fóru svo suður á Reykjanes og dvöldu í Kirkjuvogi í Höfnum frá því 21. maí til 14. júlí, ætluðu þeir út í Eldey og Geirfugladrang, en aldrei gaf sakir brima. Þeir félagar söfnuðu öllum fregnum um geirfuglinn, sem þeir gátu uppspurt og Wolley fann töluvert af geirfuglsbeinum í sævarsandi og sorphaugum hjá Kirkjuvogi og Bæjarskerjum. Þeir voru hvatamenn til þess, að Eirikur Magnússon (í Cambridge) fór sama sumar á báti út að Geirfuglaskeri því, sem liggur út af Berufirði; þar var eigi hægt að lenda fyrir brimi, en þeir réru kringum skerið svo nærri, að þeir gátu sannfærzt um, að þar voru engir geirfuglar, enda mundu menn ekki i nálægum héruðum, að fuglinn hefði sézt þar, þó hann ef til vill hafi orpið þar til forna.

Geirfugl

Geirfugl – eyjar og sker undan Reykjanesi.

John Wolley ætlaði að rita bók um geirfuglinn og sögu hans, en entist eigi aldur til þess, því hann andaðist 20. nóvember 18591). Alfred Newton setti síðar saman í ritgjörð ágrip af athugunum þeim og fregnum um geirfuglinn, sem þeir Wolley höfðu safnað á Íslandi og er ritgjörð þessi einkar fróðleg og segir sögu geirfuglsins við Fuglasker betur en nokkurt annað rit, margt eptir munnlegum frásögnum bænda og sjómanna í Höfnum og á Suðurnesjum.
Síðar samdi A. Newton ritgjörð um íslenzka fugla; þar er fyrst yfirlit yfir allt það, sem þá hafði verið skráð um fuglafræði Íslands, þá almennar hugleiðingar um fuglalíf á Íslandi og svo taldar allar þær fuglategundir, sem þá þekktust á Íslandi, og telur Newton 88 tegundir; yfirlitið er fróðlegt og vel frá því gengið.”

Í Wikipedia segir m.a. um geirfuglinn:

Geirfugl

Geirfugl í norsku safni.

“Geirfugl (fræðiheiti Pinguinus impennis) er útdauð fuglategund af álkuætt. Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vó um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins.

Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 3. júní 1844. Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna.

Geirfuglaveiðar og útrýming

Geirfugl

Geirfugl – útbreiðslusvæði.

Geirfuglaveiðar voru stundaðar fyrr á öldum og farið út í eyjar þar sem geirfuglar lifðu. Í Íslandslýsingu sem talin er vera eftir Odd Einarsson biskup er þessi lýsing á slíkum veiðum: „Þegar fiskimenn fara þangað til fuglatekju, verða þeir fyrir árásum fugla þessara, sem ráðast á komumenn í þéttri fylkingu og með feiknakrafti og troða þá niður, nema mennirnir sjái við árásinni með því að drepa nokkra hina fremstu í fylkingunni. Þá snúa hinir frá og leggja á flótta,og er þá fyrirhafnarlítið að taka þá á undanhaldinu.”

Geirfugl

Geirfugl – Ole Worm (1588-1654) teiknaði myndina. Eina teikningin, sem til er af lifandi geirfugli.

Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann fékkst á uppboði í London 1971 að undangenginni landssöfnun.

Carl Franz Siemsen kaupmaður í Reykjavík var umboðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 er honum falið að ná í geirfugl og bauð hann bændum í Höfnum 300 krónur fyrir dauðan eða lifandi geirfugl. Það varð til þess að 4. júní 1844 fóru fjórir á stað til Eldeyjar og sjá þar tvo geirfugla sem sátu á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1949 er grein um “Geirfuglinn“:
“Hinn 14. nóvember 1931 voru seld tvö geirfuglsegg á uppboði í London. Annað var selt fyrir 525, en hitt fyrir 524 sterlingspund. Með núverandi gengi samsvarar það hjer um bil 13.650 íslenskum krónum fyrir hvort egg. En hæsta verð, sem fengist hefir fyrir geirfuglsegg, er 682 stpd. 10 sh. og samsvarar það hjer um bil 17.750 ísl. krónum nú. Þetta geipiverð stafar af því, að ekki eru til nema 72 geirfuglsegg í veröldinni, og sum af þeim þó brotin.
GeirfuglGeirfuglinn var álkutegund, en ófleygur. Til þess bendir hið latneska nafn hans „Alca impennis“. En venjulega er hann nefndur pingvin (pengwyn, penguin). Er talið að það nafn sje af keltneskum uppruna. Pen þýðir höfuð og gwyn þýðir hvítt. En fuglinn var með stórar hvítar blesur upp frá nefinu. Íslendingar nefndu hann aftur á móti geirfugl. Halda sumir að það stafi af því að nefið á honum líktist spótsoddi, en mundi það ekki eins geta stafað af hinum hvítu geirum upp frá nefinu, og fuglinn þannig kenndur við það einkenni sitt á íslensku, alveg eins og á keltnesku?
Þegar menn kynntust mörgæsunum á suðurhveli jarðar, þóttu þær svo líkar geirfugli að þær hlutu nafnið pingvin. En enginn skyldleiki er með mörgæsum og geirfuglum. Mörgæsir hafa aldrei komist norður fyrir miðjarðarbaug og geirfuglar aldrei suður fyrir hann. Ekki var þó geirfuglinn íshafsfugl, heldur var hann dreifður um allar strendur norðanvert við Atlantshaf. Hafa leifar hans fundist víða á Norðurlöndum, svo sem Skáni, Jótlandi, Finnmörk og sunnanverðu Íslandi. Einnig á sunnanverðu Grænlandi, á Newfoundland og með austurströnd Ameríku alt suður að Floridaskaga.

Geirfugl

Geirfuglar við Reykjanes.

Geirfuglinn var fjelagslyndur og helt sig í stórhópum. Sjerstaklega var mikið um hann á Newfoundland. Um árið 1500 fóru skip ýmissa þjóða til fiskveiða við Newfoundland og var talið að skipverjar þyrfti ekki að hafa með sjer meiri matarforða en rjett til siglingarinnar vestur yfir hafið; síðan gæti þeir lifað á geirfugli og geirfuglseggjum. Á Funkey, sem er við norðvesturströnd Newfoundlands má enn í dag sjá rjettir, sem menn hlóðu til þess að reka geirfuglahópa inn í. Þar var svo fuglunum slátrað, en umhverfis rjettirnar fannst mikið af geirfuglabeinum og þótti það benda til þess að þessir veiðimenn hefði ekki hirt af þeim annað en fiðrið og látið skrokkana þar eftir.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Á Geirfuglaskerjum, vestur af Reykjanesi, var ákaflega mikið af geirfugli. Í bók, sem kom út 1746, segir danskur maður, Johan Andersen, frá því að 1723 hafi verið svo mikið af geirfugli á Geirfuglaskerjum, að það hafi hlotið að vera forboði þess, að Friðrik konungur fjórði var feigur!
Árið 1831 sukku Geirfuglasker í sjó og varð fuglinn þá heimilislaus. Eitthvað af honum fluttist til Eldeyjar, en vegna þess að hann var ófleygur komst hann ekki upp á eyna, en varð að hafast við á lægstu stöllum, þar sem brim gekk yfir.
Smám saman var geirfuglinum útrýmt. Seinasti geirfuglinn í Eystrasalti var drepinn i Kielfirðinum 1790. Hann var þá fyrir löngu aldauða vestan hafs. Er talið að um 1700 hafi enginn geirfugl verið til á Newfoundland. Í Orkneyjum var seinasti fuglinn drepinn 1835, og seinustu fuglarnir við Ísland drepnir í Eldey 1844. Um það er þessi saga:
SiemsenCarl Franz Siemsen kaupmaður í Hamborg byrjaði að versla í Reykjavík laust fyrir 1840. Hann bygði verslunarhúsið austur við læk, þar sem Ziemsensverslun var seinna. Carl Fr. Siemsen var hjer aðeins á sumrin. (Það er fyrsta húsið i Reykjavík sem bygt er með leyfi byggingarn.). Hann var mjög vel mentaður maður og var um boðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 hafði honum verið falið að ná i geirfugla. Hann sneri sjer til bændanna í Höfnum og bauð þeim 100 krónur fyrir hvern geirfugl, dauðan eða lifandi, sem þeir gæti fært sjer. Þetta var freistandi tilboð og Hafnamenn stóðust það ekki.

Geirfugl

Geirfugl – horft til Eldeyjar.

Hinn 4. júní 1344 lögðu þeir fjórir á stað til Eldeyjar á báti, Vilhjálmur Hákonarson, bóndi á Stafnesi, Ketill Ketilsson bóndi í Kotvogi, Sigurður Ísleifsson og Jón Brandsson. Þegar til Eldeyjar kom sáu þeir hvar tveir geirfuglar sátu á ofurlítilli klettasnös. Þeir reru þangað og tókst að handsama fuglana. Greip Jón Brandsson annan, en Sigurður hinn og sneru þá úr hálsliðunum. Lítt mun þá hafa grunað að með þessu tiltæki væri þeir að útrýma einni fuglategund úr heiminum. En svo var þó. Þetta eru seinustu lifandi geirfuglarnir, sem nokkur maður hefir sjeð. Þess vegna eru nú geirfuglaegg í slíku verði sem að framan er sagt. Og ekki eru geirfuglahamir ódýrari, en talið er að til muni vera 80 af þeim í heiminum.”

Í Lesbók Morgunblaðsins 1936 var einnig grein um “Geirfuglinn“:

Geirfugl

Geirfugl í Glasgow til minningar um að síðasti geirfuglinn þar var veiddur á St. Kilda um 1840.

“Árið 1534 komu franskir sjófarendur að lítilli ey skammt undan New Foundlandi. Þar var óhemju grúi af stórum sundfuglum, sem ekki gátu flogið. Þetta voru geirfuglar. Og á hálfri klukkustund drápu Frakkar þarna svo marga fugla sem þeir gátu framast flutt með sjer á tveimur bátum.
En 300 árum seinna hefir fuglakyni þessu verið algerlega útrýmt á jörðunni. Eru nú tæp hundrað ár síðan að seinustu fuglamir tveir náðust hjer hjá Eldey. Það var 1844.
Um 200 ára skeið drápu sjómenn og innflytjendur á New Foundland fuglinn miskunnarlaust. Voru fuglarnir rotaðir með stöfum, og kjötið af þeim, sem ekki var etið nýtt, var saltað niður. Eggjunum var líka rænt, og kvað svo rammt að því, að soðin geirfuglsegg vom höfð til beitu.
Um 1622 var enn svo mikið eftir af geirfugli, að sjerstakar veiðiferðir voru farnar út í eyjarnar, þar sem hann hélt til. En nú var það ekki einungis gert til þess að ná í kjöt og egg, heldur í fjaðrirnar. Fuglarnir vom látnir ofan í sjóðandi vatn og lá þá fiðrið laust á þeim, en til þess að hita vatnið, var kynt undir með fuglakroppunum, því að þeir voru svo feitir, að þeir loguðu eins og lýsi.

Geirfugl

Geirfuglsegg.

Geirfuglinn verpti aðeins einu eggi og var viðkoman því lítil, enda gekk fuglinn fljótt til þurðar með þessu framferði og í byrjun 19. aldar var hann aldauða hjá New Foundlandi.
Geirfuglinn hafði áður verið miklu víðar, á Íslandi, Færeyjum, Orkneyjum og nokkrum öðrum stöðum. Um 1753 og lengur verpti hann enn á eynni St. Kilda, en seinasti fuglinn var drepinn þar 1821. Lengst lifði hann í Geirfuglaskerjum, en er þau sukku í sjó í eldsumbrotunum fyrir Reykjanesi 1837, var seinasta athvarf hans farið, og eins og áður er sagt, veiddust seinustu geirfuglarnir, sem sögur fara af, hjá Eldey, hinn 3. júní 1844. Munnmæli ganga þó um það, að geirfugl hafi sjest hjá New Foundlandi 1852, og dauður geirfugl hafi fundist þar 1853, en engar sannanir eru fyrir því.
GeirfuglÍ fornöld hefir geirfuglinn verið miklu víðar. Bein úr honum hafa fundist í sorphaugum í Danmörk, í leirmyndunum hjá Ítalíuströnd, og mynd af honum er í helli, sem steinaldarmenn hafa byggt á Spáni. Bein úr honum hafa einnig fundist í sorphaugum á austurströnd Ameríku, alla leið suður að Floridaskaga.
Geirfuglinum var útrýmt vegna þess hvað hann var stór (á stærð við gæs) og vegna þess að hann gat ekki flogið. Að vísu hafði hann vængi, en þeir voru ekki til flugs, heldur til að synda með í kafi. Og þá var fuglinn svo hraðsyndur, að enginn róðrarbátur hafði við honum.
Talið er, að í öllum heiminum sje aðeins til 80 geirfuglahamir og 75 egg. Auk þess eru til nokkrar beinagrindur af honum. Eggin og hamirnir eru dýrgripir, en sjaldan á boðstólum. Nýlega var þó geirfuglshamur boðinn fyrir 16.000 króna, og fyrir tveimur árum voru seld á uppboði í London 6 geirfuglsegg og tveir hamir. Eggin seldust á 2400—7200 krónur, eftir því hvað vel þau voru útlítandi. En báðir hamirnir voru seldir fvrir 20.000 króna.”

Heimild:
– Landfræðissaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar, eptir Þorvald Thoroddsen. Gefin ut af Hinu ísienzka bókmenntafjelagi. Kaupmannahöfn 1904, bls. bls. 201-216.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Geirfugl
-Lesbók Morgunblaðsins, 13. tölublað 03.04.1949, Geirfuglinn, bls. 186-187.
-Lesbók Morgunblaðsins 14.06.1936, Geirfuglinn, bls. 180.
-https://www.facebook.com/geirfuglinn/?locale=is_IS
-https://sketchfab.com/3d-models/geirfugl-great-auk-3520470cc4884d018d827d838eed4337

Geirfugl

Geirfugl – skilti um geirfuglinn á Reykjanestá. Sjá meira HÉR.

Spákonuvatn

Í Andvara 1884 er hluti Ferðabókar Þorvaldar Thoroddsonar þar sem segir frá “Ferðum á Suðurlandi sumarið 1883”. En fyrst svolítið um höfundinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Lýsing Íslands.

Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.
Þorvaldur ThoroddsenÞorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898.
Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.

Þorvaldur ThorodddsenRitstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922.

Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja.
Þorvaldur ThoroddsenÁ árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.
Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Dalyorðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.”

Í “Ferðum á Suðurlandi 1883” segir m.a. um Trölladyngjusvæðið:
Andvari“Úr Grindavík fórum við austur á við fram hjá Hrauni, upp háls hjá Festarfjalli og að Ísólfsskála. Móberg er hjer í fjöllunum, en þó víða dálítil dólerít-lög ofan á. Festarfjall gengur þverhnýpt fram í sjö; austan við það er Ísólfsskáli. mjög afskekktur bær, og taka við hraun rjett fyrir austin túnið. Þau hraun hafa runnið úr gígum vestan við Núpshlíðarháls. Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls.
Á leiðinni er á einum stað á hálsi nokkru fyrir austan Ísólfsskála svo kallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergsteinn með djúpum holum í; sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita. Við riðum yfir sljettuna vestan við Núpshlíðarháls; er hún öll þakin hrauni: hraun þetta hefir komið úr mörgum gígum, sem eru ofarlega og neðarlega við hálsinn; fellur það niður að sjó milli Núpshlíðarháls og Mælifells vestra, og eru þar í því tveir breiðir hraunfossar, áður en það kemur niður á ströndina; breiðist það síðan út vestur að Ísólfsskála og austur undir Selatanga; en þar hefir Ögmundarhraun runnið yfir það.

 

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Fram með vesturhlíðum Núpshlíðarháls er víðast mjög grösugt og fallegt land milli hrauns og fjalls. Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum, en ágætt gras er í kring og dálítil vatnsdeiglu í klettunum fyrir ofan. Rjett fyrir norðan þetta sel hafa nokkrir hraunlækir streymt út úr hlíðinni niður í aðalhraunið, en eigi eru þar verulegir gígir; hraunið hefir beinlínis gubbast út um sprungu í fjallinu. Alla leið norður á Selvelli eru stórir gígir í röð í hrauninu fyrir neðan hálsinn.

Selsvellir

Selsvellir – seljatóftir.

Selvellir eru stórar grassljettur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju; er þar ágætt haglendi og vatn nóg: lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunin. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrjett, og reka þangað fje og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra, en víða þar, sem mikil byggð er; væri þar nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit í hálsinum.
Við settumst að hjá læknum á Selvöllum, bjuggum þar sem bezt um tjald vort og dvöldum þar nokkra daga, til þess að skoða hraunin og fjöllin í kring.

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur nefnir Oddafellið “Fjallið eina”.

Fyrir vestan Selvelli eru tvö fjöll eða hálsar; heitir annar Driffell, en nokkru neðar er »Fjallið eina«.

Mitt á milli Driffells og Trölladyngju, sem er á norðurendanum á Núpshlíðarhálsi, er »Hverinn eini«, mitt út í stóru hrauni norður af gömlum gíg, og suður af “Fjallinu eina”. Í hrauninu er kringlótt skál, 14 fet að þvermáli; í henni er hverinn; það er sjóðandi leirhver.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í botninum liggja hraunbjörg; milli þeirra koma upp gufumekkir, og í kring um þau er bláleitur leirgrautur; sýður og orgar í jörðinni, þegar gufurnar þjóta upp um leðjuna. Hraunsteinarnir eru dálítið sundurjetnir af hinum súru hveragufum og hjer og hvar sjást dálitlir brennisteinsblettir. Hjer um bil 3—4 faðma fyrir norðan »Hverinn eina« er gömul hverahrúðursbreiða; þar er nú enginn hiti; en áður hafa heitar vatnsgufur komið upp um 4 eða 5 op; hverahrúðrið er smágjört, í flögum, og dálítið af sundursoðnum leir og brennisteini innan um hrúðrið; breiðan er 130 fet frá norðri til suðurs, og 150 fet frá austri til vesturs. Úr »Hvernum eina« leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo mjer ætlaði að verða óglatt, er jeg stóð á barmi hans. í góðu veðri sjest gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu.

Keilir

Keilir.

Frá Selvöllum fórum við upp á Keilir (1239′); fórum fram hjá Driffelli yfir mikil og úfin hraun, og var þar víða illt að fara. Tilsýndar gætu menn ímyndað sjer eptir löguninni á Keilir, að hann væri gamalt eldfjall, en svo er eigi; hann hefir aldrei gosið; hann er móbergsstrýta með dólerít-klöppum efst uppi.

Keilir

Keilir.

Keilir er strýtumyndaður og mjög brattur ; norður úr honum gengur þó öxl eða rani, svo þar er bezt að komast upp. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans, og eru kallaðir Keilisbörn. Við göngum upp öxlina. Hún er miklu dökkleitari en bergið í kring, af því að hún er mestmegnis úr kolsvörtum hraunmolum þegar ofar dregur verður miklu brattara; þar er lausaskriða ofan á, en sumstaðar sljettar móbergsklappir; þó má nokkurn veginn festa fót á þeim, því smáir hraunmolar standa út úr móberginu eins og oddar og gera það hrufótt. Gekk nokkuð örðugt að sneiða sig upp skriðurnar og móbergsklappirnar, en þegar kom upp á dólerít-klappirnar var það allt ljettara.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin við Trölladyngju. Keilir fjær.

Efst er Keilir lítill um sig, og er þar lítill flatur kringlóttur melur, og varða á melnum, sem líklega hefir verið byggð þegar strandmælingarnar voru gjörðar. Móbergið í Keilir er mjög einkennilegt og óvanalega ljett; kemur það af því, að í því eru víða vikurmolar í stað basaltkenndra hraunmola, sem optast eru í móbergi.

Trölladyngja

Trölladyngja, Selsvellir nær.

Keilir stendur einstakur upp úr afarmikilli hraunbungu, sem hefst uppi við Fagradalsfjall, en hallast jafnt og þjett niður að sjó; úr Njarðvík og af Suðurnesjum sjest þessi hraunbunga glöggt, því þaðan tekur rönd hennar sig upp yfir lægri hraunin, sem utar eru á nesinu.

Af Keilir gjörði jeg ýmsar mælingar. Þaðan er bezta útsjón yfir Reykjanesskagann, Innnes og Faxaflóa; sjest þaðan allt frá Eldey og austur í Kálfstinda. þaðan sjest vel, að Strandahraunin gömlu koma úr krikunum uppi við Fagradalsfjöll, en eigi varð jeg þar var við gígi.

Víkingaskip

Í Afstapahrauni.

Sumir kalla hraunin vestur af Keilir Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun. Nýleg hraun hafa á einum stað fallið frá Fagradalsfjöllum vestan við gömlu hraunin, er Keilir stendur á; ná þau að vestan hjer um bil saman við Eldvarpahraun, en hafa fallið niður fyrir Vogastapavatn að austan. Dálítill hver sjest í hrauninu fyrir ofan Vogastapavatn; gufustrókur stóð þar beint upp í loptið. Ágætlega sást yfir hraunin hjá Selvöllum, Trölladyngjuhraunin og hraunin frá Undirhlíðum og Mávahlíðum. Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nær töluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, en þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, en hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.

Driffell

Driffell. Trölladyngja fjær.

Almenningshraun eru afargömul og líklega komin undan Máfahlíðum, Undirhlíðum og ef til vill nokkuð úr Trölladyngju. Milli Keilis og Trölladyngju eru tvö fell, sem áður var getið um, Driffell sunnar og vestar, en “Fjallið eina« norðar.

Keilir

Keilir – Oddafell  (“Fjallið eina”) nær.

“Fjallið eina” er mjög langur, en lágur háls, rjett við Dyngju, og graslendi á milli og dálítil gömul hraun. Úr ýmsum gígum við Selvelli hefir hraun runnið norður á við milli »Fjallsins eina« og Driffells, og milli Driffells og Keilis eru þau bæði nýleg og úfin; koma þau svo saman við Afstapahraun og önnur eldri Dyngjuhraun; verður þar allt í graut, svo eigi er hægt að greina sundur, því allt er umturnað og öfugt, þar sem öll þessi hraun koma saman. Við norðurendann á Driffelli hefir hraunröndin sprungið frá, er það rann, og standa þar sljéttar hraunhellur 2—3 mannhæðir á hæð, reistar á rönd, þráðbeint upp í loptið. Sum hraunin úr gígunum við Selvelli hafa runnið suður á við niður að Selatöngum, eins og fyrr er getið.

Selsvellir

Moshóll á Selsvöllum. Driffell og Keilir fjær.

Daginn eptir að við gengum upp á Keilir var veðrið svo illt á Selvöllum, að eigi var hundi út sigandi, óg næstu nótt á eptir var svo mikið hvassviðri og húðarigning, að tjaldið ætlaði um koll, og oss kom ekki dúr á auga.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur – Trölladyngja fjær.

Þar við bættist, að vætan varð svo mikil alstaðar, að hvergi var hægt að fá þurran blett til að liggja á, því jörðin saug í sig vatnið eins og svampur, og urðum við allir gagndrepa, þrátt fyrir regnföt og annan umbúnað. Þegar veður er svo, er eigi hægt að rannsaka eða mæla, og sáum við oss því ekki annað fært, en að ílýja til byggða. Húðarigning var, þegar við fórum af stað, og svartaþoka í hálsinum; klöngruðumst við þó upp hálsinn, þó illt væri að koma hestunum, og komumst eptir nokkra hrakninga á stíg niður að Vigdísarvöllum; fórum við síðan yfir Sveifluháls Hettuveg að Krýsuvík. Vegur þessi er mjög brattur og liggur hátt. Þar eru enn þá efst í hálsinum ýmsar hveraleifar, sundursoðinn jarðvegur og brennisteinsblandinn á stöku stað. Dvöldum við síðan nokkra daga í Krýsuvík hjá Árna sýslumanni í góðu yfirlæti.

Hettustígur

Hettuvegur.

Áður en jeg fór af Selvöllum hafði jeg skoðað nokkuð af Trölladyngju, og nú fór jeg nokkrar ferðir þangað frá Krýsuvík, þegar veðrið var orðið bærilegt, og mældi þar og skoðaði eins nákvæmlega og jeg gat; fjallið er þess vort, því það er eitt með meiri eldfjöllum á Íslandi.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Núpshlíðarháls, sem opt hefir verið nefndur, er hjer um bil 2 mílur á lengd, og gengur frá suðvestri til norðausturs nærri niður að sjó upp af Selatöngum, og nær norður undir Undirhlíðar, hjer um bil jafnlangt og Sveifluháls. Háls þessi er allur úr móbergi, allhár, víðast 12—1300 fet og sumstaðar hærri; ofan á honum eru víðast 2 jafnhliða hryggir, með mörgum kömbum og nybbum, tindum og skörðum. Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot, og eru langar gígaraðir beggja megin. Nyrzti endinn á Núphlíðarhálsi klýfst í sundur í tvær álmur og er Trölladyngja á vestari álmunni.

Trölladyngja

Mávahlíðar fyrir miðju – Trölladyngja og Grænadyngja fjær. Mávahlíðahnúkur t.v.

Framhald af eystri álmunni eru Máfahlíðar, og eru þær nokkurs konar hjalli niður af Undirhlíðum, sem ganga norður og austur frá endanum á Sveifluhálsi; þó eru á Máfahlíðum dálitlir hvassir móbergstindar. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveifluháls er fullur af hraunum, og hafa þau öll komið upp að vestanverðu úr gígum, sem annaðhvort eru utan í hálsinum eða rjett fyrir neðan hann; úr Sveifluhálsi hafa hvergi hraun runnið, og par eru engir gígir nema nokkrir mjög gamlir allra syðst í honum.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Undan Mávahlíðum hafa mikil hraun runnið, og eru flest nýleg og mjög ill yfirferðar eða því nær ófær gangandi mönnum. Rjett fyrir neðan efsta toppinn á Mávahlíðum er stór gígur, allur sundurtættur af eldsumbrotum, og hlaðinn upp úr stórum hraunstykkjum; hallinn á þessum gíg er um 30°, en hæðin að eins 73 fet; hraunin frá Máfahlíðum hafa runnið vestur á við í mörgum breiðum kvíslum niður í Dyngjuhraunin og saman við efsta hlutann af Afstapahrauni ; í hraunum þessum eru víða stórar sprungur og djúpar; var ís í botninum á sumum. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveiflubáls er mjög mjór rjett fyrir ofan Vigdísarvelli, því að þar slaga álmur úr Núphlíðarhálsi og smáfell út í dalinn; fyrir neðan þessi fell eru ýmsir gamlir smá-gígir og stdrar raðir af nýrri gígum, sem Ögmundarhraun hefir runnið úr, og skal þess síðar getið.

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Trölladyngja er stór hnúður á endanum á Núphlíðarhálsi, eins og fyrr var sagt; er lægð mcð mörgum dalverpum í hálsinn fyrir sunnan Dyngjuna og má ríða þar yfir frá Djúpavatni, sem er austan við hálsinn, og yfir á vellina fyrir austan Fjallið eina.

Sogin

Sogin.

Í lægðinni eru 4—500 feta djúp gil, sem eru kölluð Sog; skiptast þau í tvö aðaldrög að ofan og mörg smærri efst, en sameinast niður að sljettunni gagnvart Fjallinu eina; í giljum þessum er lílið vatn, en þau hafa samt grafið sig svo djúpt niður í móbergið; hefir þar áður verið fjarskalegur jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sumstaðar eru aðrir litir, hvítir, gulir og bláir.

Trölladyngja

Gígur vestan Trölladyngju.

Enginn er þar jarðhiti nú svo nefna megi; jeg sá að eins á einum stað neðst í grófinni 3 litla reyki koma út úr berginu. Sunnan við Sogin uppi á fjallinu rjett fyrir ofan þau er leirhver utan í barði; þar bullar rauðleit leðja upp úr mörgum smáholum; hiti er þar 78° C. Í “Fjallinu eina” beint á móti Sogum hefir og verið jarðhiti, því þar sjest upplitað og sundur soðið móberg, og gufar upp úr hrauninu fyrir neðan. Uppi á fjallinu suður af leirhverunum, er jeg síðast nefndi, er vatn í dálítilli hvylft og er kallað Grænavatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Hin eiginlega Dyngja er fyrir norðan Sogin; eru á henni tveir hnúkar úr móbergi, hinn eystri breiður um sig og kollóttur, en hinn vestari hvass og miklu brattari; djúp rauf er á milli hnúkanna norður úr. Norður af eystri hnúknum gengur langur rani, og úr honum hafa mestu gosin orðið; utan í röndinni á rananum vestanverðum er röð af fjarskalegum gígum. Hefir raninn klofnað að endilöngu og gígirnir myndazt í sprungunni; sjest sprungan sumstaðar í móberginu og hallast hraunhrúgur gíganna upp að eystri vegg hennar. Tveir syðstu gígirnir eru langstærstir: hinn syðsti 236 fet á hæð yfir hraunið fyrir vestan, og hallast 34°, en úr því taka við margsamtvinnaðir gígir norður úr, milli 20 og 30 að tölu.

Sogagígur

Sogagígur.

Vestur af gígaröðinni er snarbratt, og hefir hraunið fallið niður í samanhangandi fossi, fyrst úr sprungunni og síðan úr gígunum, er þeir voru myndaðir. Hraunið hefir verið svo seigt og runnið svo hægt úr sumum af minni gígunum, að þeir eru eins og gleraðir pottar með sívölum sljettum röndum; sumstaðar eru eins og stampar af steyptu járni. Fyrir neðan gígaröðina að vestan er lóng sprunga og hefir líka runnið úr henni seigfljótandi hraunleðja, svo barmar hennar eru allir gleraðir af þunnum og þjettum hraunskánum. Uppi í raufinni milli eystri og vestari hnúksins eru og gígir.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Úr öllum þessum gígum hefir komið afarmikið hraunflóð, og eru það upptök Afstapahraunsins, sem hraunin frá Máfahlíðum hafa síðan runnið saman við. Hraunið allt vestan við Dyngjuranann hefir sokkið við gosið líkloga 100—200 fet. Beint norður af vestari Dyngjuhnúknum er stór mjög gamall rauður gígur, rúm 70 fet á hæð (halli 25°). Sunnan við þennan gíg, milli hans og vestari hnúksins, er töluverður hiti í hrauninu; koma vatnsgufur þar upp um ótal göt; er hitinn þar víðast 40—60° C, en í einu opi voru 78°. Fyrir vestan vestari hnúkinn eru sljettir vellir yfir að Fjallinu eina, og eru þeir áframhald af Selvöllum; þeim megin eru nokkrir smágígir gamlir utan í bnúknum, sem hraun hefir runnið úr, og sumstaðar hefir það spýtzt úr sprungunum án þess gígir mynduðust. Móbergið í endanum á vesturhnúknum hefir á einum stað sprungið í sundur, og stendur sú sprunga lóðrjett á eldsprungunni í eystri rananum, en ekkert hraun hefir þar upp komið.

Sogin

Sogin. Keilir fjær.

Elztu gosin, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rjett við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum stórum gígum, að varla verður tölu á komið. Hafa eldsprungurnar myndazt hver við hliðina á annari, og verið svo þjett, að gígirnir virðast standa í hrúgum; en þó má sjá hina vanalegu stefnu frá norðaustri til suðvesturs, þegar vel er að gáð.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Fyrir norðan vesturendann á Sogunum niður undir jafnsljettu er ein gígahrúgan; þar eru að minnsta kosti 30 gígir, en allir svo gamlir, grónir mosa og fallnir saman, að illt er að greina hina smærri. Einn hinn stærsti er neðst við Sogalækinn; hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans stór grasi vaxinn völlur. Fyrir sunnan lækinn, ofan frá Grænavatni niður á jafnsljettu og suður með fjalli, suður að hrygg, sem gengur út úr Núphlíðarhálsi vestur undinn Hverinn eina, er mesta mergð af gígum (að minnsta kosti 80—100 að tölu).

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Þeir eru í mörgum röðum utan í hlíðinni og sumir geysistórir. Nyrzt og hæst upp í hlíðinni, við neðri rönd Grænavatns, er einn af stærstu gígunum; hann er að eins hjer um bil 40 fet hærra upp að ofan en yfirborð vatnsins, en hjer um hil 300 fet er hann á hæð að neðanverðu niður að jafnsljettu; hryggur skiptir gíg þessum í tvennt; hann er 140 fet á dýpt og 1700 fet að ummáli. Fyrir neðan hann, rjett niður á jafnsljettu, er kringlóttur “sandgígur, flatvaxinn (halli 2—3°), og lágur, en mjög stór ummáls (2400 fet).

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í kringum þessa stóru gígi og suður af þeim er mesti sægur af smærri gígum; þó þeir sjeu eigi mjög stórir í samanburði við þessa, þá eru þeir þó allmerkilegir að mörgu leyti, sumir snarbrattir að innan, aðrir eins og skálar og bollar. Syðsti gígurinn rjett við Selvelli er langstærstur; stendur önnur hlið hans utan í hlíðinni, en hin niðri á völlum; hann er aflangur og opinn í báða enda og yfir 3000 fet að ummáli; innan í honum hafa margir smærri gígir myndazt. Norður af þessum stóra gíg sitja margir smáir utan í hlíðinni, eins og vasar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Þess er nokkrum sinnum getið í annálum, að Trölladyngjur hafi gosið ; en optast er gosið að eins nefnt, án þess frekari frásögn sje um það, og verður þá eigi sjeð, hvort átt er við þessar Trölladyngjur eða eldfjall með sama nafni í Ódáðahrauni: en hvergi er beinlínis sagt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið; verður eigi skorið úr þessu fyrr en þetta eldfjall er skoðað, en það hefir enginn enn þá gjört, enda er enginn hægðarleikur að komast þangað. Getið er um fimm gos í Trölladyngjum, fyrst 1151. fá segir svo: “Var eldur í Trölladyngjum, húsrið og manndauði”.

Trölladyngja

Moshóll við Selsvelli. Trölladyngja fjær.

Ár 1188 »eldsuppkoma í Trölladyngjum« (Ísl. ann. bls. 76).

Ár 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að eldur hafi verið í Trölladyngjum, og að hraun hafi hlaupið þaðan og niður í Selvog. Að hraun hafi runnið úr Trölladyngju niður í Selvog, er ómögulegt, því tveir háir fjallgarðar eru á milli; hefir þetta verið sagt af ókunnugleika þeirra, er skrifsettu þetta; hraun þetta kom úr eldgígum í Brennisteinsfjöllum, sem fyrr er getið. Í Flateyjarannál er getið um eldgos úr Trölladyngjum 1360, »ok eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi«.

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur fjær. Honum hefur oftlega verið kenndur við “Trölladyngju” í fornum sögnum.

Mikil líkindi eru til, að hjer sje átt við Trölladyngju á Reykjanesi. Veturinn 1389—90 var víða eldur uppi á Íslandi; þá brann Hekla. Síðujökull og Trölladyngja; segir Espólín (Árbækur I, bls. 110) að Trölladyngja hafi hrunnið allt suður í sjó og að Selvogi. Hjer or sama villan og við gosið 1340, nefnilega, að brunnið hafi að Selvogi. Vera má að þá hafi brunnið gígirnir, sem ná frá Trölladyngju og allt suður undir sjó vestan við Núphlíðarháls, og hraunið myndazt, er fallið hefir þar niður austan við Ísólfsskála.

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Eitthvað er blandað málum með þessi Trölladyngjugos flest, og hefir það komið af ókunnugleika annálaritaranna; fjöllin hjer syðra eru öll svo eldbrunnin, og hjer eru svo margir gígir, að menn hafa eigi getað greint sundur hina einstöku gosstaði, og hafa öræfin og hraunin þó líklega verið byggðamönnum í kring lítt kunn, og svo er enn.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Á hraununum við Trölladyngju er auðsjeð, að sjálf Dyngjan hefir eigi gosið opt síðan land byggðist; hið eina hraun, sem nokkuð kveður að, og auðsjeð er að paðan hefir komið síðan á landnámstíð, er Afstapahraun; aptur hafa þaðan komið mörg og mikil gos áður. Í fjöllunum í kring, hæði í Mávahlíð og Núphlíðarhálsi, hefir og eflaust gosið síðan land byggðist.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 47-57.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58559

Trölladyngja

Trölladyngja. Vættur fjallanna nær.

Andvari

 Jarðskjálftar vekja jafnan ugg og ótta með fólki, þá sjaldan sem þeir verða á sérhverri mannsævi. Þeir eru þó algengari en í fyrstu virðist. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði “Um jarðskjálfta” í Andvara árið 1882:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Það er naumlega hægt að ímynda sér nokkuð óttalegra en mikinn jarðskjálfta, jörðin titrar og skelfur og gengur upp og niður eins og bylgjur á sæ, fjöllin klofna, jarðvegurinn rifnar í sundur, ár falla úr farvegi sínum og þorna upp, brunnar og uppsprettur hverfa, hús og hallir falla til grunna og drepa hverja skepnu, sem undir verður, hafið sogast frá ströndinni en kemur aptur hvítfyssandi og gleypir borgir og bæi, kastar skipum á þurrt land og fiytur hús út á reginhaf; jarðvegurinn umturnast allur og breytist, neðanjarðar heyrast dunur og dýnkir og hver skepna stendur höggdofa og hyggur kominn heimsenda. Fyrir slíkum undrum eru menn hvergi óhultir, hvorki ofanjarðar né neðan, námur falla saman og kviksetja málmnemana og sterkustu byggingar manna hrynja eins og spilahús við lítinn gust. Það er því eigi undarlegt þó ótti og skelfing grípi hvern mann, þegar jarðvegurinn, sem vér frá blautu barnsbeini höfum álitið fastan og óhreyfanlegan, leikur á reiðiskjálfi og tjón og dauði hvervetna er í vændum.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland – jarðskjálftakort 2010.

Þó jarðskjálftar hafi hér á Íslandi sjaldan gert stóran skaða, þá hafa þeir þó annarsstaðar orðið mörgum manni að bana. Hreyfing sú, sem kemur á jarðarskorpuna við jarðskjálfta, er ýmisleg. Við lítla jarðskjálfta titrar jörðin opt aðeins lítið eitt, svo að glös hreyfast á hillum og hús skjálfa nokkuð, en þegar meira gengur á, gengur jörðin i bylgjum upp og niður; þessi bylgjuhreyfing getur orðið svo mikil, að sjá má hvernig landspildurnar hefjast og falla eins og öldur á sæ. Slíkir landskjálftar ná opt yfir stór svæði, en eru þó ekki mjög hættulegir, þegar bylgjuhreyfingin gengur í eina stefnu, en stundum mætast tvær eða fleiri bylgjuraðir í jarðarskorpunni.

Sprungur

Sprungumyndun eftir jarðskjálfta.

Stundum koma jarðskjálftar fram sem högg eða kippir beint upp (succurroriskir jarðskjálftar), og hvað sem fyrir þeim verður, þeytist upp og brotnar; þegar svo ber undir hefjast hús af grundvelli sínum og klettar hoppa upp og niður.
Útbreiðsla jarðskjálftanna getur verið ýmisleg, stundum er styrkleikur þeirra mestur á einhverjum vissum stað og jarðskjálftabylgjurnar breiðast út til allra hliða alveg eins og bylgjur á vatni, þegar steini er í það kastað; þeir landshlutir, sem eru í miðdepli skjálftans, verða þá fyrir mestum skemmdum og ágangi; opt verður það þá, þegar margir kippir koma hver eptir annan, að miðdepill jarðskjálftans breytist og hreyfist þá aptur á bak eða fram í beina stefnu.

Ölfus

Arnarbæli 1896 – eftir jarðskjálfta á Suðurlandi.

Hreyfing og hraði jarðskjálftabylgnanna eru að miklu leyti komin undir bygging jarðlaganna og eptir því, hverjar bergtegundir verða á vegi þeirra. Styrkleiki og útbreiðsla jarðskjálftanna er því mjög ýmisleg á ýmsum stöðum eptir því, hvort jarðvegurinn er fastur eða laus í sér, þéttur eða sprunginn, samsettur af einni bergtegund eða fleirum. Þar sem jarðvegurinn er samsettur af föstum klettum af sömu bergtegund, fara jarðskjálftabylgjurnar um landið með jöfnum hraða og breiðast jafnt út til allra hliða, án þess að gjöra mjög mikinn skaða, en þar sem sandur er í jarðveginum og sundurbrotnar og sundurklofnar bergtegundir, verða bylgjurnar ójafnar og óreglulegar; allt verður í mesta glundroða og hús og borgir hrapa og brotna í mola; þó eru jarðskjálftabylgjurnar einkum hættulegar, þar sem sandlög hvíla á föstum grunni.

Grindavík

Þórkötlustaðaréttin í Grindavík eftir jarðskjálfta 31. júlí 2022.

Sandurinn hoppar og kastast saman í hrúgur og því lausara sem samhengið er, því meira umturnast jarðlögin; jarðskjálftinn breiðist þá eigi um mikið svæði, en gjörir mikinn skaða þar sem hann er. Útbreiðsla landskjálftans er því alveg bundin við lögun og samsetningu jarðlaganna sem hann verkar á. Djúpar glufur og gjár í jarðveginum geta alveg hindrað útbreiðslu landskjálftans, og eins er farið þar sem margskonar jarðlög og breytileg skiptast á á litlu svæði.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Jarðskjálftar eru eins og áður var sagt mjög tíðir á jörðunni og geta komið nærri alstaðar; þó eru þeir tíðastir nálægt eldfjöllum. Jarðskjálftakippir eru eigi beinlínis bundnir við neina sérstaka byggingu landanna., þeir hafa jafnt fundizt og gjört, skaða á sléttlendum sem hálendum; þeir eru heldur eigi bundnir við neinn vissan áratíma, né nokkurn sérstakan tíma dags, slíkt getur borið við jafnt á nótt, sem degi og eins á sjó sem landi.
Þegar jarðskjálfti verður á sjávarbotni langt frá landi, finnst við það á skipum snöggur kippur alveg eins og þau snögglega hefði rekizt á sker. 1845 þegar Hekla gaus, fannst kippur svo mikill á skipi sem ætlaði frá Keflavík til Reykjavíkur, að hásetar héldu að þeir hefðu siglt upp á sker.

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt eftir jarðskjálfta 1896.

Hvergi eru sæskjálftar eins tíðir og á miðju Atlantshafi. Ef jarðskjálftinn nær upp að einhverri strönd, þá verða þar mestar breytingar og mestur skaðinn. Sjórinn sogast snögglega langt út frá landi og kemur svo aptur með ótrúlegu afli langt upp á land og brýtur allt, og bramlar, er fyrir verður, stór skip flytjast upp á land og sjórinn flæðir yfir borgir og bæi, drekkir öllu kviku sem þar er, brýtur húsin og fyllir göturnar með leir, malargrjóti og þangi.
Það er eigi sjaldgæft að dýnkir heyrast neðan jarðar við jarðskjálfta. Dýnkirnir eru ýmislegir, stundum eins og drynjandi fallbyssuhvellir, stundum eins og skrölt eða hringl, stundum brak og brestir; slíkt verður opt við eldgos og heyrist langt frá eldfjöllunum, jafnvel þó engin hreyfing finnist.

Katla

Kötlugos 1918.

Við Kötlugosið 1860 heyrðust dýnkir um Borgarfjörð og allt Suðurland. 1845 þegar Hekla gaus, heyrðust dýnkirnir og fannst til jarðskjálfta norður í Grímsey.
Það er eigi sjaldgæft að fljót þorna upp við jarðskjálfta og breyta farvegi sínum, af því ýmsar sprungur koma í jarðveginn sem breyta vatnsrennslinu. Sprungur koma helzt þar sem jarðvegur er laus í sér, fram með fljótsbökkum, í fjallahlíðum o.s.frv. Upp úr sprungunum koma opt um leið og þær myndast rykský, sandur,
vatn eða leir. Stundum hafa menn þókzt sjá loga og reyk koma upp úr jarðsprungum, þó eru flestar sagnir um það naumlega áreiðanlegar; að minnsta kosti þyrfti það nánari rannsókna; rykský geta opt litið út líkt og reykur.
Sprungurnar ganga optast eptir beinum stefnum eins og sprungurnar er komu við Húsavík 1872; þær ganga frá norðri til suðurs.

Dalvík

Dalvík 2. júní 1934. Skjálft­inn mæld­ist af stærð 6,2.

Einstaka sinnum hafa við jarðskjálfta myndast sprungur, er ganga eins og geislar út frá einum miðpúnkt og þá er vanalega djúp hola í miðjunni. Opt kemur það fyrir, að jarðsprungur myndast án þess þær sjáist á yfirborðinu, en þær raska þá legu lækja og áa, sem fyrr var getið, brunnar þorna upp og hverfa eða það lækkar í þeirn og vatnið verður hvítt eða mórautt af leir, sem blandast saman við það. Stundum hverfa hverir og laugar við jarðskjálfta og koma þá stundum upp aptur á öðrum stöðum; 1597 hvarf t.d. Geysir í Hveragerði fyrir neðan Reyki í Ölvesi, en kom svo fram aptur fyrir ofan túnið. Þessu líkt hefir opt orðið við jarðskjálfta á Íslandi, sem síðar mun getið. Stundum breytist og hiti hveranna við landskjálfta, hverar verða að laugum og laugar að hverum.

Dalvík

Frá Dalvík 1934.

Fjöllin verða opt fyrir miklum ágangi af landskjálftum, stórar skriður falla niður eptir hlíðunum hver á eptir aðra og eyða byggð og graslendi fyrir neðan. Með því að safna saman fregnum um ótal jarðskjálfta, þykjast menn hafa fundið að þeir séu tíðari um haust og vetur en á vorin og á sumrum.
Eins og eðlilegt er verður hver skepna hrædd, þegar jarðskjálfti verður, og er það eigi undarlegt, en skrítið er það, að það sýnist svo sem ýms dýr verði óróleg á undan jarðskjálfta. Það getur verið að þetta orsakist af því, að þau taki eptir litlum titringi og smáhreyfingum, er landskjálftinn byrjar með og sem vér eigi verðum varir við.

Dalvík

Dalvík 1934.

Eptir þessar almennu hugleiðingar um jarðskjálftana, skulum vér fara nokkrum orðum um einstaka mikla jarðskjálfta, sem í minnum eru hafðir, til þess að vér getum gjört oss í hugarlund hvernig þeir verka undir ýmsum kringumstæðum, og til þess að sjá hvaða áhrif þeir hafa.
Ef menn athuga sprungur og rifur í húsum og múrum í héraði því, sem hefir orðið fyrir jarðskjálftanum, þá sjá menn miðpúnkt jarðskjálftans á legu þeirra og stefnu, því eptir aflfræðinni verða þær lóðrétt á landskjálftastefnunni. Séu nú línur dregnar eptir þessu frá öllum athugunarstöðum, sameinast þær á einum stað í jörðunni og þar hlýtur miðdepill jarðskjálftans að vera.

Dalvík

Nær helm­ing­ur íbúa á Dal­vík og ná­grenni varð fyr­ir því að íbúðar­hús þeirra skemmd­ust. Tjöld voru reist og einnig út­bú­in tjöld úr tré­grind­um og segldúk­um. Einnig voru út­bún­ar íbúðir t.d. í fisk­húsi og skóla­hús­inu. Gjaf­ir bár­ust víða að, pen­ing­ar, mat­væli og fleira til styrkt­ar bág­stödd­um Dal­vík­ing­um. Strax var haf­ist handa við end­ur­reisn. Ljós­mynd/​Vig­fús Sig­ur­geirs­son

Ef farið er eptir tímaákvörðunum og menn vita nákvæmlega hvenær kippurinn hefir fundizt á ýmsum stöðum í héraðinu, þá má á landabréfi draga línur á milli allra þeirra staða, sem á sama augnabliki hafa orðið fyrir jarðskjálftanum (homoseiste), og milli þeirra staða, sem jarðskjálftinn hefir verkað á með jöfnum krapti (isoseiste). Þeir staðir, sem á sama tíma hafa orðið fyrir jarðskjálftanum, verða þá að vera hér um bil jafnlangt frá miðdeplinum, ef hraði jarðskjálftabylgjunnar í gegnum jarðlögin hefir verið hinn sami í allar áttir. Á landabrélinu koma þá fram margir hringir hvor innan í öðrum og undir miðdepli þeirra hljóta upptök jarðskjálftans að vera. Hve langt þau eru niðri í jörðunni má svo reikna eptir tímanum og hraðanum. Til þess að finna upptök jarðskjálfta eptir sprungum og rifum verður kippurinn að hafa verið mjög sterkur, því slík missmíði koma að eins við harða kippi. Tímaákvarðanir má aptur á móti nota við alla jarðskjálfta, hve litlir sem þeir eru. Eptir styrkleika mikilla jarðskjálfta og skaða þeim, sem þeir gjöra, má og nokkurn veginu sjá hvar miðdepillinn er, því mest eyðist og skemmist þar.

Sandfell

Fyrir eldgosið í Öræfajökli árið 1362 hét byggðin sem Sandfell tilheyrði Litla-Hérað, en var endurnefnd Öræfi eftir að gosinu lauk. Þá tilheyrðu a.m.k. 30 bæir Litla-Héraði, allt frá Morsárdal og yfir að Breiðumörk. Gosið og jökulhlaupin fóru svo illa með byggðina að það sem áður var gjöfult landbúnaðarsvæði breyttist í mikla auðn. En þrátt fyrir þetta áfall byggðist sveitin upp aftur. Myndin er tekin 1902.

Jarðskjálftar eru tíðastir í þeim löndum, þar sem jarðlögin eru breytilegust, og þar sem randir jarðlaganna hafa mest breytt stöðu sinni innbyrðis og gengið á misvíxl. Jarðskjálftarnir koma opt eigi af öðru en því, að jarðlögin af ýmsum orsökum verða misþung, þegar vatn eða annað hefir sumstaðar bætt við, en borið nokkuð burt á öðrum stað; þá geta jarðlögin brostið þar, sem þau láta bezt undan; við það kemur þá kippur, sem hristir landið í kring. Þegar nú þrýstingaraaflið minnkar, geta jarðlagabrotin færzt til á ýmsan hátt og breyti stöðu sinni innbyrðis. Stundum getur þetta orðið hægar, að ein landspildan lyftst en önnur sígur, án þess hristingur komi í kring, þá gerist það smátt og smátt, þannig hefjast lönd og síga, eins og fyrr hefir verið sagt. Af þessu má sjá, að jarðskjálftarnir og hreyfingar þær, sem þeim eru skyldar, hljóta að hafa stórkostlega þýðingu fyrir jarðmyndunina í heild sinni. Þó fer fjarri því, að öllum jarðskjálftum sé svo varið; orsakir þeirra geta verið þrennskonar:

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2021.

1. Við eldgos koma opt jarðskjálftar í kringum eldfjöllin, þeir ná sjaldan yfir mjög stórt svæði, miðdepillinn er þá í eldfjallinu eða undir því. Slíkir jarðskjálftar koma vanalega á undan gosunum og orsakast af því, að logandi hraun er að brjótast upp um rifur í jarðarskorpunni og vatnsgufur, sem hafa niðri í jörðunni verið undir miklum þunga og þrýstingi, koma snögglega upp og hrista landið í kring, um leið og þær leysast úr dróma, eða með öðrum orðum þenjast út.
2. Jarðskjálftar geta komið af því, að vatn hefir skolað jarðveginn burt undan stórum landspildum, sem þá falla niður og hrista landið.

Sprunga

Afleiðingar jarðskálfta.

3. Af misjöfnum þrýstingi og þunga jarðlaganna, sem fyrr var getið. Annaðhvort mynda þau nýjar glufur í jarðskorpunni, eða fylgja gömlum sprungum. Optast mun það þó vera, að fleira en eitt af þessu kemur jarðskjálftum til leiðar, ef t.d. jarðlögin breyta innbyrðis stöðu sinni, myndast sprungur eða gamlar glufur gliðna í sundur; við þetta verður hægra fyrir eldkraptana undir jarðarskorpunni að brjótast upp, vatn og sjór síast niður um glufurnar, verða að gufu þegar þau koma við glóandi eimyrjuna, spenna síðan hraunleðju upp um sprungurnar og hrista landið í kring um eldfjallið.

Sprunga

Sprunga í Þorbjarnarfelli eftir jarðskjálfta.

Snemma hafa menn farið að taka eptir jarðskjálftum og reynt að gjöra sjer í hugarlund hvernig á þeim stæði. Hafa menn um það opt haft mjög misjafnar skoðanir, og undarlegar, einkum framan af, áður en menn fóru að veita náttúruviðburðunum nákvæma eptirtekt, og bera saman öll áhrif þeirra. Það gæti því ef til vill einhverjum þótt gaman, að heyra hvað menn á ýmsum öldum hafa hugsað og ritað um þá, þó það í sjálfu sér eigi hafi aðra þýðingu en þá, að sýna hvernig menn smátt og smátt frá vanþekkingu og getgátum, hafa eins í þessu og öðru loksins eptir langa mæðu, komizt að nokkrum hluta sannleikans.

Sprunga

Sprunga opnast eftir jarðskjálfta.

Á Íslandi hafa sjaldan orðið þeir jarðskjálftar, sem mannskaði mikill hefir orðið að, af því landið er svo strjálbyggt og borgir engar. Jarðskjálftar á Íslandi hafa optast staðið í nánu sambandi við eldgos og komið belzt í þeim héruðum, sem eru nálægt eldfjöllum. Hér munum vér þá telja jarðskjálfta, sem orðið hafa á Íslandi svo sögur fara af. Eldgos eru hér aðeins nefnd, þegar þess er getið í frásögunum að jarðskjálftar hafi verið þeim samfara og þeim er hér eigi lýst neitt, hinum er sleppt, sem engir landskjálftar hafa fylgt, sem í frásögur eru færðir. Hér er víðast hvar farið sem næst orðum annála þeirra og rita, sem þetta er tekið úr.
1013. Landskjálftar miklir og létust 11 menn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

1151. Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði.
1157. Eldsuppkoma í Heklu 19. janúar og landskjálfti sá, er manndauði varð af.
1164- Landskjálfti í Grímsnesi og létust 19 menn4.
1182. Landskjálfti og dóu 11 menn.
1211. Eldur fyrir Eeykjanesi. Þá varð landskjálfti mikill fyrir sunnan land hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu (7. júlí) og létu margir menn líf sitt (18 segja sumir) og féll ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörði hinn stærsta skaða.
Reykjaneseldar1240. Eldur fyrir Reykjanesi. Landskjálftar miklir fyrir sunnan land.
1260. Landskjálfti hinn mikli norður í Flatey.
1294. Eldur í Heklu með miklum landskjálfta, víða féllu hús um Fljótshlíð og Rangárvelli og svo fyrir utan Þjórsá, sprakk jörð og týndust menn. Hjá Haukadal komu upp hverar stórir, en sumir hurfu þeir sem áður voru. Á Húsatóptum hvarf og burt laug sú, er þar hafði áður alla æfi verið. Þar rifnaði og sprakk svo djúpt að eigi sá niður. Brunnar urðu ásyndum sem mjólk 3 daga í Flagbjarnarholti.

Hekla

Heklugos – Larsen 1845.

1300. Mikið Heklugos. Landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að ofan féll bær á Skarði eystra. Þar í kirkjunni var mikill málmpottur festur við brúnaásinn, honum barði svo við ræfur kirkjunnar af skjálftanum að braut pottinn. Kistur 2 stóðu í anddyrinu, þeim barði svo saman af jandskjálftanum að þær brotnuðu í smán mola.
1308. Landskjálfti fyrir sunnan land og féllu niður 18 bæir en 6 menn dóu.
1311. Landskjálfti næstu nótt eptir drottinsdag (það er nóttina milli 29. og 30. desember eða 10.—11. janúar á nokkrum stöðum. 25. janúar, eldgos á Suðurlandi líklega úr Kötlu.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

1339. Kom landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land, að mönnum og fénaði hrastaði til jarðar svo að ónyttist. Hús féllu mest um Skeið og Flóa og Holtamannahrepp og víðast hið neðra milli Þjórsár og Eystri Rangár, en fjöldi bæja féllu allir til jarðar eða tók hús úr stað, létust nokkur börn og gamalmenni. Jörðin rifnaði víða til undirdjúpanna uppsprettandi heitt vatn og kalt. Hröpuðu fjöll og umhverfðist holt í Holtamannahreppi og færði úr stað. Menn duttu af baki á vegum og urðu að liggja á meðan landskjálftinn var. Þá kom upp hver í Henglafjöllum 10 faðma á hvern veg, þar sem áður var slétt jörð.
1341- Eldsuppkoma í Heklu. Dunur um allt land sem hjá væri og svo stórir voru dynkirnir, að landið skalf allt, svo að í fjarlægum héruðum hristust skjáir á húsum sem fyrir vindi hvössum um langan tíma og var þé kyrrt veður.
1370. Þá varð landskjálfti í Ölfusi og féllu 12 bæir.

Hekla

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta var 1104. Síðan hefur fjallið gosið 1158, 1206, 1222, 1294 (1300), 1341, 1389-1390, 1440, 1510, 1554, 1597, 1636, 1693, 1725, 1766, 1845, 1878, 1913, 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000.

1389. Heklugos, þá brunnu og Trölladyngjur og Síðujökull. Margir bæir féllu af landskjálftum.
1391. Landskjálfti mikill fyrir sunnan land um Grímsnes, Flóa og Ölfus svo að 14 bæi skók niður að nokkru leyti, en Miðengi, Búrfell og Laugardælar braut að öllu, nema kirkjan stóð í Laugardælum og dóu undir fátækir menn. Rifnaði víða jörðin og kom upp vatn, tók þessi landskjálfti allt til Holtavörðuheiðar.
1510. Heklugos 25. júlí. Þá fundust svo miklir landskjálftar i Skálholti, að menn hugðu að hús mundu hrapa, en varð þó ekki mein af.
1546. Jarðskjálfti um fardaga og kom hann mest í Ölfusi, því þar hrundu víða bæir og hús, Hjalli og allt Hjallahverfi hrapaði.
1552. Kom kippur kyndilmessukvöld svo allt hrundi það niður, sem laust var innan húsa, borðin, könnur og annað því um líkt.

Eldgos

Eldgos vekja jafnan mikla athygli. Undanfari þeirra eru jafnan jarðskjálftahrinur.

1554. Eldur uppi í Hekluhraunum um vorið milli krossmessu og fardaga. Voru svo miklir jarðskjálftar í hálfan mánuð að engi maður þorði inni í húsum að vera, heldur tjölduðu menn úti en hlupu snöggvast inn í húsin eptir því, sem þeir skyldu neyta þá í millum varð þvílíkra undra; en þar menn voru, þá héldu þeir sér í grasið, þá þessi undur að komu.
1578. Eldur uppi í Heklu um haustið og gjörði landskjálfta svo margir bæir hrundu í Ölfusi, hús hristust hálfa stund og var það eptir Allraheilagramessu.
1581. Varð jarðskjálfti milli krossmessu og fardaga. Þá hröpuðu víða bæir á Rangárvöllum og í Hvalhrepp og mannskaði varð þá víða, því þeir urðu undir húsunum. Á Bergvaði varð undir bænum kona komin að falli og tvævett barn, er hún átti, en hún komin í jörð þá hennar maður kom til. Einn maður varð undir í Lambhaga, bitinn brotnaði og kom á hálsinn á honum og víðar varð einn maður eða tveir undir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Katla

Kötlugos 1918.

1584. Landskjálfti mikill á Íslandi.
1597. Heklugos 8. janúar; fundust nokkrir landskjálftar í Skálholti er gosið byrjaði. Um vorið eptir þetta gos urðu miklir landskjálftar og hrundu margir bæir í Ölfusi. Í þeim landskjálfta hrapaði niður í grunn bærinn á Hjalla í Ölfusi. Þá hvarf og stóri hverinn Geysir í Hveragerði fyrir sunnan Reyki og kom upp aptur annar hver fyrir ofan túnið á Reykjum, sem er í dag og gýs mjög (nú [1881] hættur gosum) þó eigi sem hinn sá stóri hafði áður gosið, því um veginn hafði ei óhætt verið að fara, sem lá mjög nærri honum, svo sem enn má sjá vöxt og merki til, því þar er enn hverastæðið vítt með vellandi vatni og er þar langur vegur á milli, sem sá Geysir er, sem nú hefir síðan verið og áin á milli.
1613. Landskjálfti syðra, hrundu bæir; í þeim landskjálfta féll Fjall á Skeiðum að mestu. Þar á hlaðinu lá reiðingstorfa, sem hvarf í jarðskjálftanum, svo hún sást ei síðan.
1618. Gengu alltíðir jarðskjálftar bæði dag og nótt um haustið og fram að jólum, hröpuðu í einum þeirra 4 bæir norður í Þingeyjarþingi, þar sprakk jörð sundur svo varla varð yfir komizt.
1619. Heklugos, þá voru og landskjálftar eptir mitt sumar.
1624. Sífeldir jarðskjálftar frá Allraheilagramessu til Andrésmessu og varð vart við þá lengur, féllu í þeim 2 bæir suður í Flóa, fleiri lestust.
1625. Kötlugos sem byrjuðu 2. september, þá fundust nokkrir smáir jarðskjálftakippir í nánd.
1630. Jarðskjálftar þrír um veturinn, svo 6 menn urðu undir húsum fyrir austan Þjórsá.
1632. Landskjálfti um haustið.

Ölfus

Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.

1633. Landskjálftar syðra, hrundu bæir í Ölfusi, ei sakaði menn né pening. Svo voru þessar hræringar tíðar að messufall varð á mörgum kirkjum allan þann vetur.
1643. Varð jarðskjálfti jólanóttina.
1657. Gengu landskjálftar miklir, svo tveir bæir féllu syðra, lá fólk í tjöldum á einum bæ í Fljótshlíð.
1658. Landskjálfti var á páskum.
1660. Kötlugos 3. nóvember. Það byrjaði með landskjálfta, sem varaði hérumbil eina stund.
1661. Landskjálftar um sumarið.
1668. Landskjálftar miklir um veturinn.
1671. Hús hrundu í Grímsnesi og Ölfusi af landskjálftum.
1693. Heklugos 13. febrúarmán. Þá fundust harðir landskjálftakippir á landi og sjó. Nokkrir bæir eyddust af öskufalli og jarðskjálftum.
1706. Miklir landskjálftar 1. dag aprílmánaðar, en þó einkum 20. s.m., hrundu þá hið seinna sinn 24 lögbýli mest um Ölfus og utarlega í Flóa og margar hjáleigur; molbrotnuðu viðir í húsum og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar, kofar og veik hús stóðu eptir sumstaðar þar sem hin sterkari féllu, matföng og búshlutir spilltust, kýr og kvikfénaður drápust víða, en ekki sakaði menn, nema eina konu. Þessar hræringar stóðu lengi fram eptir vorinu og voru því minni sem vestar dró, og það var rétt svo að þær fundust undir Jökli.

Katla

Kötlugosið 1918/Rangárbakki við Hellu – Málverk eftir ljósmynd frá 1918 (Magnús Guðnason, 1950)

1721. Kötlugos sem byrjaði 11. maí, kl. 9. e.m. Um morguninn sama dag kl. 9 á undan gosinu kom svo mikill jarðskjálfti á Höfðabrekku og víða í Mýrdalnum, að menn þorðu ekki að vera inni í húsum. Þessi jarðskjálfti fannst austur í Lóni og í öllum sveitum þar í milli. Einnig fannst hann út til Rangárvalla.
1724. Byrjuðu mikil gos við Mývatn og héldust þangað til 1730. 17. mai 1724 byrjuðu gosin með ógurlegum jarðskjálftum. Þá kófst landið töluvert sumstaðar við Mývatn.
1725. Gaus Leirhnúkur 11. janúar og fylgðu jarðskjálftar gosunum. 19. apríl s.a. gaus Bjarnarflag og gengu á undan stórkostlegir landskjálftar og svo eptir við og við allt árið. Harðastir voru kippirnir 8. september. Árin 1727—30 voru jarðskjálftar og mjög tíðir við Mývatn og breyttu víða mjög landslagi; stórar landspildur sukku en aðrar hófust, sumstaðar kom upp vatn og sumstaðar mynduðust mílulangar sprungur.

Öræfajökull

Aðeins tvö gos hafa orðið í Öræfajökli eftir landnám.  Það fyrra er reyndar mesta sprengigos sem orðið hefur hér á landi frá því land byggðist.  Þetta gos sem varð árið 1362 er ennfremur það mannskæðasta sem orðið hefur hér á landi ef frá er talið mannfallið sem varð óbeint vegna Skaftárelda árið 1783.  
Öræfajökull gaus svo aftur árið 1727.

1727. Gaus Öræfajökull 3. ágúst. Þá fundust nokkrir jarðskjálftar í Öræfum 3. og 4. ágúst, um það leyti sem gosið byrjaði.
1732. Þá varð hinn 7. september landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum, að spilltust nær 40 bæir þar um land og í Eystrahrepp, en 11 eða 12 bæir hrundu nær í grunn og meiddust 3 eða 4 menn, lágu menn þá í tjöldum því landskjálftinn hélzt um tvær vikur.
1734. Varð allmikill landskjálfti og fannst um allan Sunnlendingafjórðung, hrundu bæir í Flóa og víðar í Árnessýslu hrundu 30 bæir alls, en 60 eða 70 býli spilltust og létust við það 7 menn eða 8.
1749. Þá varð allmikill jarðskjálfti á Suðurlandi og mestur um Ölfus, húsum lá við hruni og á bænum Hjalla sökk grundvöllur undir bæ og kirkju fullar 2 álnir.
1752. Landskjálftar voru þann vetur í Ölfusi og hrundu 11 bæir.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

1754. Landskjálfti í Krýsuvík og kom þar upp 6 faðma víður hver og 3 faðma djúpur; þá var og eldur uppi í Hekluhraunum.
1755. Urðu miklir jarðskjálftar á Norðurlandi. Kringum Húsavík voru þeir harðastir; þar hrundu 10. september 13 bæir til grunna en 7 skemmdust. Jarðskjálftinn var einna harðastur kringum verzlunarbúðina, hún færðist nokkra þumlunga úr stað; verzlunarvörur skemmdust og tunnur börðust saman og brotnuðu. Eigi varð jarðskjálfti þessi neinum manni að bana. Í kringum Húsavík komu ótal djúpar sprungur og lækir urðu gruggugir sem skolavatn. Jarðskjálftinn var og mjög harður í Skagafirði, en linari í Húnavatussýslu.

Sprengigos

Sprengigos.

1766. Heklugos, gosið byrjaði 5. apríl, urn nóttina á undan gengu jarðskjálftar í héruðunum kringum Heklu. Á meðan á gosunum stóð, gengu ótal jarðskjálftar, einkum suðvestur frá Heklu, bæir féllu í Árnessýslu og á Reykjanesi og Vestmanneyjum voru kippirnir mjög harðir; optast komu 2—4 kippir á kverjum 21 klukkustundum. 9. og 10. september féllu þrír bæir í Ölfusi.
1783. Gos fyrir Reykjanesi, og síðan fyrir ofan Síðumannaafrétt við Skaptárgljúfur í Varmárdal, Úlfarsdal og norðar. Gosin byrjuðu 8. júní, en frá því 1. júní, höfðu miklir jarðskjálftar gengið um alla Skaptafellssýslu. Alltaf fundust jarðskjálftakippir meðan á gosunum stóð, en einkum þó 24. október; í janúar 1784 gengu og sífeldir jarðskjálftar þar í grennd.
1784. Þá gengu 14.—16. ágúst einhverjir hinir mestu jarðskjálftar, sem nokkurn tíma bafa komið á Íslandi.

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

1789. Miklir jarðskjálflar í Árnessýslu 10. júní. Þá hrundu hús um allt Suðausturland, og lágu menn víða í tjöldum, því opt varð vart við þá um sumarið. Urðu þá víða sprungur í jörðu, t.d. á Hellisheiði), og nýir hverar. Þá umbreyttist nokkuð Þingvallahraun, og svo vatnið, svo að sökk grundvöllur vatnsins að norðan, og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en alfaravegur forn varð undir vatni sumstaðar; grynntist það og allt að sunnan; hrundi mjög Almannagjá og klettar fleiri. Þá seig allt land milli Almannagjár og Hrafnagjár eina alin, að því er Sveinn Pálsson segir. Sökum skemmda og breytinga þeirra, sem á urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að að alþingi var flutt frá Þingvöllum til Reykjavíkur.

Sprunga

Hraunsprunga.

1808. Varð töluverður landskjálfti og fannst víða; breyttu sér þá laugar og hverir.
1810. 24. október varð harður landskjálfti austur frá Heklu, og fannst suður um heiðar, ekki varð hann að tjóni.
1815. Í júnímánuði varð lítill landskjálfti fyrir norðan land.
1818. Um veturinn varð nokkrum sinnum vart við landskjálfta eystra, og þrisvar syðra á Innnesjum.
1823. Kötlugos. Þá fundust jarðskjálftar í nánd, en heldur linir.
1826. Seint í júní kom landskjálfti fyrir norðan ekki afllítill; hann gekk vestur eptir og gjörði ekki tjón.
1828. Þá varð landskjálfti mikill í Fljótsblíð á Þorraþrælinn, féllu þar flestir bæir og 8 í Landeyjum; týndist þó enginn nema eitt barn.
1829. 21. febrúar og um nóttina milli hins 21. og 22. fundust jarðskjálftakippir um allt Suðurland, næstu daga á eptir fundust og nokkrir kippir, en miklu vægari. Harðastir voru landskjálftar þessir í kringum Heklu, og þar skemmdust 6 eða 7 bæir.

Sprungur

Hraunsprunga við kaldársel ofan Hafnarfjarðar.

1838. 12. júní kom allmikill landskjálfti fyrir norðan, og gekk mest yfir landtangana milli Skjálfanda og Húnaflóa; hrundu þá og skekktust nokkrir bæir á útkjálkum milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, hrundi þá og grjót úr sjávarhömrum og spilltust fuglabjörg í Grímsey og Drangey.
1839. Kom í Reykjavík jarðskjálftakippur 28. júlí kl. 4 um morguninn, og annar minni litlu síðar.
1845. Heklugos, sem byrjaði 2. september; á undan því, og við byrjun þess, fundust lítilfjörlegar landskjálftahreyfingar; þær náðu hér um bil 6 mílur til suðvesturs frá Heklu, en að eins 2 til 3 mílur til norðausturs. Auk þess fundust jarðskjáiftakippir við og við, á meðan á gosunum stóð.
1860. Kötlugos, frá 8. til 27. maí. Jarðskjálftar fundust þá um morguninn 8. maí kl. 6—8 á Höfðabrekku í Mýrdal, og síðan við og við um daginn, bar eigi á öðrum jarðskjálftum nema 25. maí eina stund af dagmálum; þá voru jarðskjálftar í frekara lagi, og öðru hverju allan þann dag til kvölds.

Sprunga

Sprunga eftir jarðskjálfta.

1863. Jarðskjálftakippir kringum Reykjavík 20—21.apríl.
1864. Fannst í Reykjavík og á Suðurnesjum 16. febrúar snarpur jarðskjálftakippur, sumum sýndist turninn á dómkirkjunni hreyfast fram og aptur. Sjórinn gekk nokkru meir á land, en vandi var til. Inntré brökuðu í húsum, og hlutir féllu niður af hillum. Hreyfingarnar stóðu hér um bil í 2 mínútur.
1868. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Fyrsti kippurinn fannst 1. nóvember kl. 4 um morguninn, og honum fylgdu 3 eða 4 linari kippir. Um kvöldið kl. 11 fannst enn harður kippur og síðan smærri hreyfingar alla nóttina. 2. nóvember kl. 11 um kvöldið komu þó tveir harðir kippir, hvor eptir annan, en þó smáhreyfingar á milli, þá féllu niður nokkrir ofnar í Reykjavík, glerílát brotnuðu o.s.frv.

Sprunga

Hraunsprunga eftir jarðskjálfta.

1872. Jarðskjálfti á Húsavík. Aðfaranóttina þess 18. apríl kl. 11 um kvöldið kom á Húsavík jarðskjálfti svo mikill, að mönnum leizt ekki ugglaust að vera inni í húsum, ef annar kæmi jafnsnarpur, en litlu á eptir komu kippirnir svo títt, að ekki liðu nema 4—8 mínútur milli þeirra.
1874-75. Rúmri viku fyrir jól fór að bera á jarðskjálftum í Mývatnssveit, og fóru þeir smávaxandi. Ekki voru kippirnir langir og harðir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, brakað mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var; 2. janúar bar mest á þessu, þá var jarðskjálfti allan daginn. Jarðskjálftar þessir fundust mest upp til dala og fjalla, t. d. á Möðrudal á fjöllum, en minna í útsveitum. 3. janúar byrjuðu Dyngjufjöll að gjósa, og síðan kom upp eldur í Sveinagjá á Mývatnsöræfum.
1878. Eldur uppi í hraununum norður af Heklu. Gos þetta hófst 27. febrúar með allmiklum jarðskjálftum, sem gengu yfir allan suðvesturhluta landsins; þeir stóðu frá kl. 4 e. m., þangað til kl. 5 næsta morgun, og voru næst eldstöðvunum með litlu millibili, og víða svo ákafir að gömul og óvönduð hús skekktust meira eða minna, en ekkert tjón varð á fólki eða peningi; margir flúðu hús sín, og létu út fénað meðan á þessu stóð; mestir urðu jarðskjálftarnir á Landi, Rangárvöllum, í Hreppum, Fljótshlíð og Vestmanneyjum, en ekki á öllum stöðum á sama tíma.

JarðskjálftarÞó litlar sögur fari af flestum jarðskjálftum á Íslandi, og þó frásagnir þær, sem til eru, séu mjög ófullkomnar, þá má þó sjá, að jarðskjálftar eru eigi allstaðar jafntíðir á landinu. Langflestir og sterkastir jarðskjálftar hafa orðið í Árness- og Rangárvallasýslum á Suðurlandi, og á Norðurlandi í Þingeyjarsýslu, einkum nálægt Húsavík. Af þessu sést, að jarðskjálftarnir eru mjög bundnir við eldfjöllin, því í þessum hlutum landsins eru eldfjöllin mest. Jarðskjálftarnir á Suðurlandi, hafa flestir hreyfzt frá norðaustri til suðvesturs og fara því eptir línum þeim, sem eldfjallagýgir og eldfjallasprungur mynda í þessum landshluta.

Jarðskálftar

Jarðgufumyndun eftir jarðskálfta.

Í Þingeyjarsýslu ganga eldfjallaglufur og gýgjaraðir frá suðri til norðurs, og sömu stefnu fylgja jarðskjálftarnir þar. Þegar Hekla hefir gosið, hafa vanalega töiuverðir jarðskjálftar fylgt gosunum, en sjaldan er þess getið við Kötlugos, að landskjálftar hafi orðið að nokkrum mun. Hvergi hafa jarðskjálftar verið jafntíðir, og eins skaðlegir, eins og í Ölfusi; þar næst gengur Grímsnes, Flói, Skeið, Holtamannahreppur, Rangárvellir og Fljótshlíð. Öll þessi héruð liggja á hinu mikla suðurundirlendi Íslands, og þegar að er gáð, er eðlilegt að jarðskjálftar séu hér tíðir. Hekla er á miðju undirlendinu, og þegar hún gýs, eða einhver umbrot verða í undirdjúpunum, þá er náttúrlegt, að héruðin hristist, sem í kring eru.

Hrafnagjá

Hrafnagjá ofan Voga.

Þar sem hálendi og undirlendi mætast, eru flestar sprungur í jörðu og meiri missmíði en annarstaðar, af því að þar mætast þau jarðlög, sem hæst eru hafin, og hin, sem neðst liggja. Á samskeytunum er því eðlilegt, eins og fyrr hefir verið frá sagt, að jarðlögin hefjist og byltist þar upp og niður, er þau leita að jafnvægi, og við það komi hræringar á landið í kring; einkum er það eðlilegt ef jarðskjálftar verka náiægt. Af þessu kemur það, að jarðskjálftar eru svo tíðir í Ölfusi og Grímsnesi, sem liggja vestast á undirlendinu, þar sem takmörk þess eru við fjallahryggina og heiðarnar, er ganga út á Reykjanes, og í Fljótshlíð, sem liggur austast á láglendinu við hin samskeytin. Þess er eigi getið í bókum við nærri aila íslenzka jarðskjálfta, hvenær á árinu þeir hafi orðið, og er því ekki hægt að geta sér til með neinni vissu, hvort þeir eru tíðari á einum árstíma en öðrum. Ef farið er eptir þeim fáu landskjálftum, sem menn vita um, þá sýnast þeir flestir hafa orðið á vetrum, nokkru færri vor og haust, og fæstir á sumrum.”

Heimild:
-Andvari 01.01.1882, Um jarðskjálfta, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 53-107.

Þingvellir

Þingvellir – misgengi.

Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen ritaði m.a. ýmislegt fróðlegt um Reykjanesið í Ferðabók sinni (1913-1915). Hann fæddist 6. júní 1855 í Flatey á Breiðafirði. Hann var frumburður foreldra sinna, Jóns Thoroddsens skálds og sýslumanns og Kristínar Þorvaldsdóttur. Þekktustu verk Jóns eru skáldsögurnar Piltur og stúlka (1850) og Maður og kona (1876).

Þorvaldur Thoroddesn

Þorvaldur Thoroddsen.

Þorvaldur gekk í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 1875, tvítugur að aldri, og hélt samsumars til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Í fyrstu hugðist hann leggja stund á dýrafræði en á öðru námsári sneri hann sér að jarðfræði og landafræði.
Þegar starf losnaði á Íslandi hætti hann námi að ráði kennara sinna til þess að tryggja sér lifibrauð. Hann stundaði kennslu framan af, fyrst á Möðruvöllum og síðan í Reykjavík til ársins 1895 er hann fluttist til Kaupmannahafnar. Þar gaf hann sig mest að ritstörfum og er Landfræðissaga Íslands hið fyrsta í röð stórverka hans.
Þorvaldur var vísindamaður í náttúrufræði. Hann orti ekki ættjarðarljóð og hann gekk ekki fram fyrir skjöldu í stjórnmálabaráttu Íslendinga, en hann setti sér það mark að kanna og kynna ættjörðina sem frelsishetjur og skáld börðust fyrir og sungu lof.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabókin.

Hann vildi ekki að útlendingar einir ferðuðust til þess að rannsaka náttúru Íslands og lýsa henni. Það særði þjóðarmetnað hans. Þess vegna varði hann nærfellt 20 æviárum sínum til þess að ferðast um Ísland og rannsaka það, og næstu 20 árum varði hann til þess að rita um það, náttúru þess og sögu.
Einna kunnastur er Þorvaldur fyrir þessar ferðir sínar um Ísland og rannsóknir á landinu. Afrakstur þeirra eru m.a. grundvallarritin tvö, Ferðabók (ný útgáfa 1958) og Lýsing Íslands (1908-1911).
Síðla árs 1895 fluttist Þorvaldur Thoroddsen með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar og átti þar heima til dauðadags, 28. september 1921. Hann varð því aðeins 66 ára gamall. Banamein hans var heilablæðing.

Þorvaldur Thoroddsen

Rit Þorvaldar.

Þorvaldur Thoroddesn

Í “Landfræðisögu Íslands  er fjallað um “Hugmyndir manna um Ísland, náttúrskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar; Höfndurinn  er Þorvaldur Thoroddsen. Í ritinu eru m.a. skýrðar “Frásagnir  fyrrum um landnám Íslands”.

Sagnir um Thule

Þorvaldur Thoroddsen

Rit Þorvaldar.

Ekki eru neinar líkur til þess, að mannabyggð hafi verið á Íslandi, fyrr en Írar komu hingað á 8. öld; ekki hafa hér fundizt nein mannvirki eða menjar frá eldri tunum. Um allt meginland Evrópu og Ameríku hafa fundizt leifar eptir steinaldaþjóðir á mjög lágu menningarstigi, og rannsóknir vísindanna benda til þess að villi þjóðir hafi búið í Norðurálfunni þegar á ísöldinni eða jafnvel áður. Ísland hefir eflaust verið orðið frálaust frá öðrum löndum, löngu fyrr en Norðurálfan byggðist af mennskum mönnum, og þjóðflokkar þeir, sem lifað hafa á steinöldinni og löngu seinna, voru eigi svo langt komnir að þeir hefðu skip, sem gæti þolað stórsjói í úthöfum; smábátar illa gerðir komust að eins fram með ströndum og hættu sér ekki út ár úmsjó; jafnvel Fönikíumenn þorðu ekki lengi fram eptir að sigla svo langt á haf út, að þeir misstu sjónar á landinu. Kartverjar, Grikkir og Rómverjar áttu seinna mikil hafskip og fóru langar sjóferðir; en starfsvið þeirra lá miklu sunnar, og var því ekki undarlegt, þó þeir ekki þekktu jafn fjarlægt land eins og Ísland er, en Norðurlandabúar hafa á þeim dögum eigi verið orðnir þeir sjógarpar, sem þeir seinna urðu.
Mikið hefir verið ritað og rætt um það, hvort fornþjóðirnar suðrænu hafi þekkt Ísland eða ekki; en allar rannsóknir fræðimanna virðast benda til þess, að hvorki Grikkir né Rómverjar hafi þekkt Ísland; að minnsta kosti er engin söguleg vissa fyrir því. Sumir hafa haldið, að nafnið Thule, sem svo opt kemur fyrir í fornum bókum, eigi við Ísland, en það er mjög ólíklegt, að svo sé; allur þorri rómverskra rithöfunda hefir alls ekki vitað með vissu, hvað þeir sjálfir meintu með þessu nafni, en hafa nefnt svo ýms lönd, sem voru þeim ókunn langt í norðri.

Þorvaldur Thoroddsen

Ritsafn Þorvaldar.

Ég ætla þó hér að fara nokkrum orðum um þetta efni, af því svo margir hafa fengizt við það, og margir hafa haldið þeirri skoðun fram, jafnvel fram á vora daga, að Thule væri Ísland.
Hinn gríski landfræðingur Strabó getur í landafræði sinni um Thule, en tekir það þó óvíst, hvar það land sé og hvernig því sé háttað. (Strabó fæddist í Amaseia við Pontus um 63 árum f. Kr., fór til Rómaborgar árið 29 f, Kr., og dó þar gamall, líklega á dögum Tiberíusar keisara.) Strabó ber annan mann fyrir öllu því, sem hann segir um Thule; þessi maður var Pyþeas frá Massilíu; hann var uppi á dögum Alexanders hins mikla. Massilía var grísk borg á Frakklandsströndu, þar sem nú heitir Marseille; það var mikil borg og auðug og rak verzlun víða um strendur Miðjarðarhafsins.

Thule

Thule.

Fönikíumenn og Kartverjar stofnuðu snemma á öldum nýlendur hér og hvar fram með Miðjarðarhafinu og áttu verzlun við þarlendar þjóðir; fóru þeir verzlunarferðir með ströndum fram langt norður eptir; þeir sóttu silfur til Spánar, tin til Bretlands og raf norðan úr Eystrasalti. Raf notuðu þeir til skrauts, en tin var í þá daga mjög nauðsynlegur málmur, því það var notað í eirblending, sem menn gerðu úr vopn og verkfæri. Fönikíumenn leyndu landafundum sínum, og því vita hinir elztu fræðimenn Grikkja því nær ekkert um lönd og höf fyrir vestan og norðan Njörvasund; Heródót nefnir að eins Tineyjar, Kassiterides; svo óljós er hin fyrsta hugmynd um Bretland.
Grikkir fóru snemma að keppa við Kartverja og leita norður með ströndum, og hafa líklega komizt allt norður í Eystrasalt; gamlir grískir peningar (frá 5. og 6. öld f. Kr.) hafa fundizt þar sumstaðar í jörðu, og bendir það á mjög fornar samgöngur milli landanna. Massilía byggðist 600 árum fyrir Krists burð, og varð snemma forkólfur grískrar verzlunar og nýlendustofnana þar vestra; þaðan byggðust nýlendur með ströndum Frakklands og Spánar. Í Massilíu blómgvuðust listir og vísindi langt fram eptir öldum, að því er rómverskir rithöfundar segja.

Thule

Thule?

Lítið vita menn um norðurferðir Fönikíumanna og Grikkja, því í þá daga var leturgjörð fátíð, enda eru mörg af hinum eldri ritum fyrir löngu týnd. Pyþeas sá, sem fyrr var getið, fór langferðir norður til Bretlauds, til Thule og með ströndum Evrópu til Raf-landsins, sem líklega hefir verið við Eystrasalt; Pyþeas hefir líklega verið á ferðum einhvern tíma á árunum 330—20; hann ritaði bækur um ferðir sínar og athuganir, en þær eru nú týndar. (Brotum úr ritum Pyþeasar hefir verið safnað saman, og þau gefin út í einni heild af Arwedson í Uppsölum 1824 og Schniekel í Merseburg 1848.) Fornir landfræðingar tóku ýmsa kafla úr ritura Pyþeasar í sínar bækur; það eru því allt sundurlausar smágrein[a]r, sem nú eru til, flestar umsnúnar og afvega færðar, og ekki gott að geta í eyðurnar.
Strabó og aðrir landfræðingar til forna lögðu ekki mikinn trúnað á ferðasögur Pyþeasar, en þó hæla þeir honum fyrir kunnáttu í mælingarfræði og stjörnulist. Pyþeas hefir verið mikill vísindamaður, eptir því sem þá gerðist. Það sést á ritbrotum þeim, sem eptir Pyþeas liggja, að hann hefir í mörgu skarað fram úr samtíðarmönnum sínum; hann ákvað stöðu himinspólsins, mældi sólarhæð með sólspjaldi og ákvað með því breiddarstig Massilíuborgar furðu vel og nákvæmlega. Pyþeas var hinn fyrsti, sem sýndi fram á, að flóð og fjara kæmu af áhrifum tunglsins; hann getur líka um flóðhæðina við Bretlandsstrendur, en gerir hana ofmikla; Grikkjum hefir þótt undarlegt, að sjá hinn mikla mismun á flóði og fjöru í úthafinu, af því þeir voru ekki vanir slíku í Miðjarðarhafinu. Af köflunum úr ritum Pyþeasar, sem eru í landafræði Strabós, sést vel, að Pyþeas hefir haft vitneskju um norðlægari lönd en Grikkir almennt þekktu í þá daga, en ekki er allskostar gott að vita, hvernig hin upprunalega ferðasaga Pyþeasar hefir verið. Strabó hefir að ölum líkindum ekki sjálfur þekkt rit Pyþeasar, en fer eptir frásögn Polybíusar sagnaritara, svo að margt getur verið aflögu fært á svo langri leið, þegar hver segir frá með sínum eigin orðum. Ég set hér hið helzta, er Strabó segir um Thule, því rit hans er heimildarrit fyrir ótal eldri og yngri höfunda. Helztu kaflarnir eru þetta: »Pyþeas segir, að Thule sé sex daga sigling frá Bretlandi til norðurs, nálægt hinu frosna hafi«. (Strabonis Geographiica. Ed. C. Miiller et F. Dúbner. Parisiis 1853. 4to lib. I. c. 4. § 2.)
»Pyþeas kveðst hafa farið gangandi um allt Bretland, og segir hann, að ummál þessarar eyjar sé meira en 40 þúsund skeiðrúm: bætir hann auk þess við um Thule
og þá staði, að þar sé hvorki jörð né haf né lopt út af fyrir sig, en sambland af þessu öllu, líkt hafslunga; segir hann, að jörð, haf og allt sveimi í þessu eins og í lausu lopti, og það sé eins og fjötur, til þess að halda öllu saman; þar sé hvorki hægt að fara yfir gangandi né á skipi og segist hann sjálfur hafa séð, að það væri líkt lunga; en hitt segir hann eptir því, sem hann hefir heyrt.
Þetta segir Pyþeas, og bætir því við, að hann hafi þaðan farið aptur um strönd Európu frá Gades allt til Tanais.
Polybius segir, að einmitt það sé ótrúlegt, hvernig einstakur maður og fátækur skyldi geta farið svo mikla fjarlægð á sjó og landi«. (8. st, lib. II. c. 4, § 1-2.)

Thule

Ímynd Thule.

Þessa undarlegu frásögu hafa menn átt bágt með að skilja, og hafa haft alls konar getgátur um það, hvernig ætti að skilja orðið hafslunga í þessu sambandi; sumir hafa haldið, að Pyþeas hafi séð sjóinn fullan af marglyttum eðu öðrum líkum kvikindum, af því að orðið hefir þess konar merking hjá ýmsum fornum höfundum; sumir ætla, að hann hafi séð sjóinn vera að frjósa (S. Nilsson: Nagra Commentarier till Pytheas’ fragmenter om Thule. (Physiographiska Síillskapets tidskrift. Lund 1837—38 L, hls. 44—53). Til forna höfðu menn langt niður eptir öldum mjög undarlegar hugmyndir um hið nyrzta haf á endimörkum jarðar og kölluðu það mare pigrum, m. concretuui, m. congelatum, m. coagu- latum o. fl., sbr. K. MiiUenhof: Deutsche Altertumskunde. Berlin 1870, L, bls. 410—426.) o. s. frv. Líklegast er hér verið að tala um einhvern hugsaðan óskapnað náttúrunnar, sem menn til forna ætluðu að væri á endimörkum jarðarinnar, þar sem allar höfuðskepnur rugluðust saman. Seinna segir Strabó enn frá Thule hér um bil á þessa leið: «Pyþeas frá Massilíu segir, að það sé yzt í heiminum, sem er í kringum Thule, sem er nyrzt af hinum brezku löndum; þar er sumarhvarfbaugur hinn sami og heimsskautsbaugur; hjá öðrum fæ eg ekki að vita, hvort Thule er ey, eða hvort allt þangað er byggilegt, þar sem sumarhvarfbaugur verður heimskautsbaugur; en eg ætla að norðurtakmörk hinnar byggðu jarðar séu miklu sunnar; þeir sem nú rannsaka, geta ekki til nefnt neitt hinu megin við Ierne (Írlind), sem liggur nærri Bretlandi til norðurs, og segja, að þar séu alvilltir menn, er búa illa sökum kulda; þar held eg því, að eigi að setja takmörkin«. (Strabó, 2, bók, 5. kap. § 8.)
»Miklu óglöggari er frásögnin um Thule — sökum fjarlægðarinnar, því menn segja hún sé nyrzt af öllum löndum, sem nefnd eru; að Pyþeas hafi sagt það ósatt, er hann hefir sagt um Thule og aðra staði þar, er auðséð á því, að hann segir flest ósatt um þá staði, sem kunnugir eru, svo það er bert, eins og á undan er sagt, að hann hefir skrökvað meira um það, sem fjarlægara er; en hvað snertir stjörnufræði og tölvísi, þá mætti álíta, að honum eigi hafi farizt óheppilega, þar sem hann segir, að »þeir, sem nálægt kuldabeltinu búa, hafi sumpart alls enga ræktaða ávexti né alidýr, sumpart líði þeir skort á þessu, en að þeir lifi á hirse-korni og öðru kálmeti, ávöxtum og rótum; þar fæst korn og hunang og úr því gjöra þeir drykk, en kornið þreskja þeir í stórum húsum, þegar þeir hafa fært kornöxin þangað, með því að þeir hafa ekki bjarta sólskinsdaga, því láfagarðar verða þeim ónýtir sökum sólarleysis og rigninga«. (Strabó, 4. bók, 5. kap. § 5.)
Á þessari lýsingu er það auðséð, að ekki er átt við Ísland heldur, eru það einhver norðlæg lönd, en þó sunnar en Ísland, enda tekur Pyþeas það sjálfur fram að Thule sé ein af hinum brezku eyjum, og mundi hann varla hafa sagt það um jafn fjalægt land eins og Ísland er. Hirse-kornið, sem nefnt er, hefir líklega verið hafrar, og hunang notuðu bæði Keltar og Germanir mjög snemma til mjaðargerðar. Pyþeas hefir tekið eptir því, hvernig alidýr og ræktaðir ávextir hverfa, eptir því sem nær dregur kuldabeltinu. Öll lýsingin á einkarvel við. norðurhluta Skotlands og eyjarnar þar norður af; kornyrkja hefir þar allt af verið örðug viðfangs, þar eru sól- skinsdagar fáir, sífelld þoka og rigning og hráslagalegt loptslag.

Thule

Ímynd Thules fyrrum,

Grískir landfræðingar höfðu framan af sára litla þekkingu um norðurlönd; þekkingin jókst fyrst að nokkrum mun eptir að Rómaríki var orðið voldugt og víðlent. Fyrir daga Pyþeasar vissu grískir rithöfundar svo að segja ekkert um vestur- og norðurströnd Evrópu, og þó hafði þá mjög margt verið ritað um landafræði og sögu landanna við Miðjarðarhafið. Herodót og aðrir af hinum elztu rithöfundum vissu eins og fyrr var getið ekkert um löndin fyrir utan og norðan Njörvasund, nema að þaðan kæmi tin og raf, og Aristoteles og samtíða menn hans austur á Grikklandi voru litlu fróðari. Eptir ferðir Pyþeasar er það auðséð á mörgum fornritum, að þekkingin er orðin töluvert meiri; nú þekkja menn Bretland og Írland og vita nokkurn veginn, hvernig legu og lögun þeirra landa er varið; menn vita nú, að jörðin er byggileg miklu lengra til norðurs en menn áður héldu, þekkja ýms sérstök nöfn á þjóðum, löndum og höfum, og vita hvaðan rafið kom. Af þessu sést, að ferð Pyþeasar hefir verið til mikilla framfara og þýðingarmikil í þekkingarsögu mannanna. Hinn mikli stjörnuspekingur og hindfræðingur Claiidius Ptolemœus, sem var uppi á miðri 2. öld eptir Kristsburð, nefnir Thule, og segir, að hún sé fyrir norðan Orkneyjar, og að þar sé lengstur dagur 20 stundir; Ptolemæus ákveður legu landanna með breiddar- og lengdarstigum, hann segir, að nyrzti hluti Thule sé á 63° 15′, miðhlutinn á 63°, syðsti hlutinn á 62° 40′. Pomponíus Mela talar einnig um Thule; hann ritar hér um bil á þessa leið: (Pomponii Melae de situ orbis, libri III. Lipsiæ 1831. lib. 3., cap. 6. Pomponius Mela var uppi um miðja 1. öld e. Kr.; hann var ættaður frá Spáni og ritaði landafræði sína á dögum Claudíusar keisara eða á dögum Caligúlu; menn vita fátt um æfi hans.) »Thule er beint á móti ströndum Belca, og er hún fræg í grískum og latneskum kvæðum; þar eru næturnar stuttar, af því sólin kemur upp til þess að síga fjarri til viðar, en á vetrum eru þær dimmar eins og annarstaðar; á sumrum eru þær bjartar, af því sólin á þeim tíma kemur hærra á lopt, og þó hún eigi sjáist sjálf, þá upplýsir hún þó hið næsta með nálægum ljóma. Um sólstöður eru engar nætur, af því þá verður sólin augljósari og sýnir eigi að eins birtu sína, heldur og líka mestan hluta af sjálfri sér«. Á öðrum stað segir Mela, að Skyþar heiti einu nafni Belcar; sýnir þetta, að hann hugsar sér Thule mjög austarlega, enda var það skoðun manna í þá daga, að norðurhluti Európu tæki fljótt að dragast til austurs og að Svartahaf og Kaspiskahaf vœri flóar, er stæðu í sambandi við norðurhafið; fornir landfræðingar láta því opt Thule og önnur norðurlönd vera mjög austarlega.

Thule

Ímynd Thule.

Þessu næst kemur Plinius til sögunnar. Hann getur víða um Thule í náttúrusögu sinni; hann ber Pyþeas fyrir því, að þar sé dagurinn 6 mánaða langur og nóttin sé jafn löng, og að frá Bretlandi sé sex daga sigling norður til Thule. (C. Plini seeiindi naturalis historia, rec. J. Sillig. Hamburgi et Gothæ 1851. Vol. I., 2. bók, 74. kap., bls. 177.) Á öðrum stað segir Pliniiis, að Thule sé nyrzt af öllu sem um sé talað; þar sé um sólstöður engin nótt, þegar sól er í krabbamerki; en enginn dagur um vetrarsólstöður (S. st.. bls. 320.), hann getur þess og (S. st., vol. I., 4. bók, IG. kap., bls. 320-21.) að ýmsir rithöfundar nefni aðrar norrænar eyjar t. d. Scandia, Dumna, Bergos og Nerigon (Þessi nöfn eru mjög efasöm og mismunandi í handritunum; í sumum góðum handritum er Vergos fyrir Bergos og fyrir Nerigon er sumstaðar Verigon, sumstaðar Berricen.), sem sé stærst af öllum; frá Nerigon segir hann sé siglt til Thule og að eins dags sigling sé frá Thule til hins frosna hafs, sem sumir kalli »mare Croniura«. Á 3. öld ritar Solinus um Thule og fer mest eptir því, sem Plinius segir; Soliiius segir, að Thule sé yzt af hinum brezku eyjum; þar sé nærri engin nótt um sumarsólstöður, en mjög stuttur dagur um vetrarsólhvörf; hann segir og, að frá Orkneyjum sé 5 daga og 5 nátta sigling til Thule; þar sé mikið af ávöxtum, og þeir sem þar búi lifi á vorin innan um fénaðinn á grasi, en seinna á mjólk; til vetranna safni þeir saman trjáávöxtum; hann segir og, að hinum megin við Thule sé frosið haf (»Sed Thj’le larga et diutina pomona copiosa est. Qui illic habitant, principio veris inter pecudes pabulis vivunt, deinde lacte. In hiemem compercunt arborum fructus. Utuntur feminis vulgo, certum matrimonium nulli. Ultra Thylen pigrum et concretum mare«. C. Julii Solini Polyhistor. Biponti 1794, 8vo, cap. 22. Cajus Julius Solinus lifði á 3. öld; hann ritaibi »collectanea rerum memorabilium; sú bók var stytt og dregin saman á 6. öld og síðan kölluð Polyhistor. Rit Solinusar er a mestu leyti samsnap úr öðrum rithöfundum, einkum Pliníusi. Mommsen hefir gefið út Solinus í Berlíu 1864, með athugasemdum.) Solinus var átrúnaðargoð lærðra manna á miðöldunum og flestir rit- höfundar á þeim tímum taka frásögnina um Thule úr riti hans; líklega hafa ekki menn eins almennt þekkt hina eldri rithöfunda.

Thule

Ímynd Thules.

Á dögum Claudíusar keisara (41 — 54 e. Kr.) fengu Rómverjar fótfestu á Bretlandi, en áttu þar í sífelldum ófriði um mörg ár, uns Julius Agricola (d. 94) tókst að friða landið, sefa uppreisnir, og sigra Breta og Skota í mörgum orustum. Um þá daga fengu suðurþjóðirnar miklu meiri og betri vitneskju um Bretland og löndin þar í kring, þó ekki sje mikið af því fært í letur. Tacitiis, hinn frægi sagnaritari, var tengdasonur Agricolu og hefir ritað æfisögu hans. Tacitus segir ýmislegt frá Bretlandi. Meðal annars segir hann, að þá hafi fyrst rómverskur floti siglt í kring um Bretland og hafi menn þá fyrst séð, að land þetta var eyja. Tacitus segir enn fremur, að Rómverjar hafi þá fundið Orkneyjar (Líklega voru þó Orkneyjar áður kunnar; Pomponius Mela lýsir þeim þannig (III., G): »Triginta sunt Orcades angustis inter se ductæ spatiis«. Eusebíus (264 e. Kr.) og Orosíus (415 e. Kr.), segja, aí) Rómverjar haíi unnið Orkneyjar á dögum Claudíusar keisara) og lagt þær undir sig, og að þeir hafi séð Thule í fjarska, en snjór og vetur gekk þá í garð; segir Tacitus, að sjórinn þar sje þungur og mjög örðugt að róa, og að vindarnir þar geti því varla reist neina báru. Þessi Thule, sem Tacitus talar um, getur ekki verið annað en Hjaltland. Hugmyndin um þungt og þétt, letilegt myrkrahaf í norðrinu kemur fram hvað eptir annað hjá fornum rithöfundum; kalla þeir haf þetta ýmsum nöfnum, og segja um það ýmsar bábyljur. Lýsing Tacitusar á sjóferðinni er annars ekkert ólíkleg; það var von þó Rómverjum þætti þungt að róa norður undir Hjaltlandi; það veit hver, sem þar hefir farið, hve þungt vestanfallið er þar í sjónum og hve örðug úthafskvikan opt getur verið jafnvel fyrir gufuskip.
Það er auðsjeð á því, sem vér hér að framan höfum tilfært úr ýmsum höfundum, að þeir vita ekkert um Thule annað en það, sem Pyþeas hefir sagt og hefir hver tekið frásögn hans eptir öðrum, langt niður eptir öldum; Tacitus er hinn eini, sem byggir frásögn sína á öðrum grundvelli. Fjölda margir aðrir fornir rithöfundar nefna Thule bæði í óbundinni ræðu og í kvæðum; Thule er hjá þeim ekkert annað en hin norðlægustu endimörk jarðarinnar, eða eitthvað ókunnugt, fjarlægt töfraland, yzt úti í hafsauga. Hér á ekki við að telja upp alla þessa rithöfunda; ég hefi hér aðeins sett hinar eldri og merkari frásagnir um Thule, til þess menn geti sjeð, hvað það er, sem lærðir menn eru að deila um, þar sem um Thule er að ræða.
Þegar fram líða stundir, verða frásagnirnar um Thule enn þá ruglingslegri. Af hinum seinni fornhöfundum segir Prokopius einna mest frá Thule; hann segir að Thule sé tíu sinnum stærri en Bretland og liggi miklu norðar; hann segir og margt skringilegt frá íbúum þar og siðum þeirra; hann segir, að þar búi 13 þjóðir og séu helztar þeirra Skithifinoi og Gauthoi; lýsing hans sýnist helzt eiga við Noreg eða Skandinavíu alla. (De bello Gothico, lib. 11., kap. 15.) Prokopius var nafnfrægur sagnaritari á 6. öld og hefir ritað um styrjaldirnar við Vandali, Grotha o.fl.; hann var ættaður frá Cesarea” í Palestína.

Thule

Thule?

Hinn fyrsti, sem segir, að Thule sé Ísland, er hinn írski munkur Diculius, sem ritaði landafræðisbók sína um 825, og hafði hann hjá írskum klerkum fengið vitneskju um stórt eyland í norðri, sem eptir lýsingu hans auðsjáanlega er Ísland. Dicuilus kallar eyju þessa Thule, af því hann hefir haft fyrir sjer frásagnir Solinusar og annara fornra höfunda. Frá því Ísland byggðist, er það algengt fram eptir öldum, að það er kallað Thule, þó einstöku menn telji Thule annarstaðar, eins og t. d. Henricus Huntendunensis, sem segir, að Thule sé yzt af Orkneyjum. (Heniicus Huntenduuensis var fæddur í lok 11. aldar og lif?>i fram j’íir miílja 12. öld; hann telur eyjar kring um Bretland og segir- svo: »Habet autem a septentrione, unde oceano iníinito patet, Orcades insulas novem, de quarum ultima Thule dictum est« : »tibi serviat ultima Thule«. Momxmenta historica Britannica 1848, foL, I, bls. 691.) Eptir að Ísland byggðist af Norðmönnum, trúðu Íslendingar sjálfir, að Ísland væri land það, sem fornir höfundar kalla Thule; þess vegna stendur í byrjuninni á Landnámu: »Í aldafarsbók þeirri, er Beda prestr heilagr gerði, er getið eylands þess, er Tíli heitir, ok á bókum er sagt, at liggi VI dægra sigling í norðr frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetr, ok eigi nótt á sumur, þá er dagr er sem lengstr. Til þess ætla vitrir menn þat haft, at ísland sé Tili kallat, at þat er víða á landinu, er sól skín um nætr, þá er dagr er sem lengstr, en þat er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestr andaðist deexxxv árum eptir holdgan dróttins vors, at því er ritat er, ok meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Noregi«. Höfundurinn að þessum kafla Landnámu hefir líklega ekki þekkt neinn annan höfund, er ritar um Thule, heldur en Beda prest, en Beda prestur tekur orðrétta kafla úr Solinusi og Pliniusi. Hinir seinni grísk-rómversku rithöfundar og elztu landfræðingar miðaldanna, eins og t. d. Dionysips Perigetes, Orosius, Isidorus Hispalensis, Priscianus, Gregorius Turonensis o.fl. taka orðrétt kaflana um Thule úr fornritunum og bæta engu nýju við; þó Thule sé mjög víða nefnd, er þó lítið eða ekkert að græða á því, sem um hana hefir verið ritað á miðöldunum.
Adam frá Bremen, sem var uppi á elleftu öld, talar um Thule og lýsir henni líkt og Solinus, en ber þó Beda prest fyrir frásögninni. Adam þessi þekkti töluvert til Íslands, sem síðar mun verða frásagt, og hann bætir því við: »þessi ey Thule er nú kölluð Ísland«; svo gerir nú hver höfundur fram af öðrum, að kalla Ísland Thule, og er óþarfi að nafngreina þá, enda eru þeir mjög margir.
Það er auðséð að lærðir menn hafa fegins hendi gripið Ísland, þegar það var orðið kunnugt, til þess að geta smellt á það Thule-nafninu, sem þeir voru í vandræðum með, og fram eptir öllu eru nú frásagnir hinna fornu höfunda lítið rannsakaðar; fæstum dettur í hug að efast um að Ísland sé Thule. Arngrímur Jónsson lærði verður einna fyrstur til að sanna, að lýsingar hinna fornu höfunda á Thule eigi ekki við Ísland; í riti sínu »Crymogœa« 1610 segir hann að Thule geti ekki verið Ísland, enda hafi þar engin stöðug byggð verið fyrr en 874. Nokkru seinna reis Pontamis, danskur sagnaritari, upp á móti Arngrími, tekur hann í bók sína marga kafla úr fornum höfundum og reynir með því að sanna, að ekkert annað land en Ísland geti verið Thule; leggur hann einkum áherslu á staðinn hjá Pliniusi, þar sem hann nefnir Nerigon; hann heldur því einnig fram að Ísland muni hafa verið byggt áður en Norðmenn settust hér að 874 og ber fyrir sig bréf og páfabullur eldri, sem nefna Ísland, en þær eru eflaust falsaðar. (Sbr. íslenzkt fornbréfasafn I., bls. 14—18.) Þá reis Arngrímur upp aptur öndverður á móti, skoðaði nákvæmlega heimildarit Pontanusar og tætti sundur sannanir hans og færði með miklum lærdómi ljós rök fyrir því, að Thule gæti ekki verið Ísland. (Arngrímur Jónsson : Speciinen Islandiæ bistoricum et magna ex parte chorograpbicum. Amstelodami 1643. 4to, bls. 89—171.) Nokkru seinna kom þó fram annar Íslendingur, sem var á máli Pontanusar og ritaði allangt um þetta efni; það var Þórður Þorláksson, sem seinna varð biskup í Skálholti (f. 1697); telur hann fyrst upp marga höfunda, sem nefna Ísland og segja að það sé Thule og svo þá sem á móti hafa mælt; því næst heldur hann því sjálfur fastlega fram, að Ísland sé Thule eptir breiddarstigum þeim, sem fornir höfundar nefna, eptir fjarlægðinni frá Bretlandi og eptir dagslengdinni.- (Theodorus Thorlacius: Dissertatio cborograpbico-bistorica de Islandia. Editio tertia. “Wittebergæ 1690. 4to, Tbesis I. § 8—18. (1. útg. 1666). Seinna hafa enn ýmsir haldið því fram, að Ísland væri Thule og það jafnvel fram á vora daga t. d. Bessel og Burton, (W.Bessel: Pyþeas von Massilia. Göttingen 185S. R. Burton: Ultima Tbule or a Summer in Iceland. London 1875, Vol. I. sbr. Vivien de St. Maiiin. Histoire de la géograpbie. Paris 1873.) en það má heita fullsannað, að svo er ekki. Karl Milllenhoff heldur, að Thule hafi verið ein af Hjaltlandseyjum og eru ýmsir aðrir á hans máli (K. Mulleuhoff: Deutsche Altertumskunde. Berlin 1870, I. Ziegler: Eeise des Pytheas. Dresden 1861.), aptur á móti ætlar Keyser, Sv. Nilsson og Brenner, að Thule sé Noregur eða Skandínavia; (Keyser: Norges Historie. Kristiania 1866, I., bls. 3B. S. Nilsson: Skandinaviska Nordens Urinvånare. 2. Upl., II. Broncealdereu. Stockholm 1862—64. Oscar Brenner: Nord- und Mittel-Evropa in den Schriften der Alten. Múnchen 1877. bls, 29—34, 91 —101. G. M. Redslob: Thule. Leipzig 1855.).
Malte Brun hélt að Thule væri Jótland (Thy), Rudbeck að Thule væri Svíþjóð o.s.frv. Af seinni mönnum hefir Mullenhoff ritað einna mest og bezt um Pyþeas og um þekkingu fornþjóðanna á norðurhluta Európu; ritgjörðir og bækur vísindamanna um þetta mál skipta hundruðum. Þó nú mörg af ritum þessum hafi mjög aukið þekkingu manna á sögu rannsóknanna og landfræðinnar, þá er það þó enn með öllu óvíst, hvaða land það var, sem Pyþeas kallaði Thule, enda má oss Íslendingum standa á sama, úr því, það er ekki hægt að finna fullnægjandi líkur fyrir því að Thule sé sama og Ísland. Aðalfjöldi fornra höfunda kallar það allt Thule, sem er ókunugt í norðri; seinna héldu Rómverjar að Hjaltland eða einhver af Orkneyjum væri Thule, og á 6. og 7. öld hafa sumir rithöfundar sett þetta nafn á Noreg eða Skandínavíu.
Líklega geta menn aldrei ráðið gátuna um ferðir Pyþeasar til Thule, af því frumritin eru glötuð og ritbrotin, sem til eru hjá öðrum höfundum, eru eflaust umsnúin og aflöguð.

Fornar sagnir um Ísland áður en það fannst.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Fornar sagnir um Ísland áður en það fannst hjá ýmsum miðaldahöfundum er getið um Ísland og það sett í samband við viðburði, er gerzt hafa löngu áður en landið fannst; sést það berlega, að slíkt eru skröksagnir eða ýkjur seinni manna, og sanna þær alls ekki neitt samband við landið á þeim tíma, sem tilfærður er. Arthúr konungur, höfðingi Sílúra á Bretlandi, er nafnfræg hetja í gömlum riddarasögum og rímum; þó hafa margir efazt um, hvort hann hefir nokkurn tíma verið til; hann á að hafa dáið úr sárum árið 542 e.Kr. Í gömlum enskum bókum er opt talað um orrustur hans og sigurvinninga; þar er sagt að hann hafi lagt undir sig Norðurlönd og eyjar margar, og er þar talið Ísland og Grænland. Galfried af Monmouth segir fyrstur nokkuð til muna um Arthúr konung og samkvæmar ritum hans eu frásagnirnar í Bretasögum. Þegar Arthúr konungr hafði barið á Söxum og lagt undir sig England og Skotland, er mælt hann hafi farið herferð til Írlands, og síðan lagt undir sig Orkneyjar og Hjaltland og Suðureyjar, og síðan Danmörk, Noreg, Færeyjar og Gotland, og lagði svo skatt á öll þessi lönd. Síðan lagði Arthúr undir sig Frakkland, og líkaði Rómverjum það stórilla og sögðu honum stríð á hendur; bauð hann út miklu liði og voru með honum margir kappar og konungar úr skattlöndum hans; meðal þeirra er talinn »Malvasíus Tíle-konungr (þat heitir nú Ísland)«. Einn af konungum þeim, sem komu á eptir Arthúr, Malgó að nafni, »lagði undir sig allt Bretland ok Skotland, Írland, Ísland, Orkneyjar, Danmörk ok Gotland, ok voru þessi lönd öll honum skattgild, en karlmenn þýddust hann en eigi konur ok því varð guð honum reiðr«. (Bretasögur í Annaler for nordisk Oldkyndighed 1849. bls. 94, 104, 126.). Það sér hver maður, að frásagnir þessar eru eintómar ýkjur, tilbúnar löngu eptir þann tíma, sem um er rætt, og verður því ekkert á þeira byggt. Þess er og getið í gömlum bókum, að Kentigern biskup í Glasgow, sem var uppi á 6. öld, hafi sent kristniboða til Orkneyja, Noregs og Íslands; en þetta er jafn ótrúlegt eins og fleira, sem sagt er um þenna biskup. Sögurnar um Sunnifu hina helgu, að hún hafi farið frá Íslandi til Noregs til þess að boða þar kristni á 4. öld, hafa einnig víð jafnlítið að styðjast. (K. Maurer : Die Bekehrung des uorwegischen Stammes zum Christentliume. Miinchen 1855. I, bls. 8—9.) Í fjölda mörgum fornkvæðum og rímum er getið um Ísland og Íslendinga, án þess að nokkur fótur sé fyrir því, og eru slíkt ekki annað en skáldaykjur, enda tóku rímnaskáldin fram á vora daga það ekki nærri sér, þó landaskipunin væri eigi sem réttust, í »Rosmers«-kvœði er t. d. sagt frá því, að Íslands konungur byggir skip; Rosmer stígur í haf ok lætur alla konungsmenn sökkva til botns og drukkna nema Alvar konungsson; hann kemst af og í hús risans til Hellelille. Hann er þar í 8 ár; þá er Hellelille með barni hans. (Svend Griindtvig: Danmarks gamle Folkeviser. II, hls. 72-88.) Í öðru kvæði er sagt frá því að Burmand risi fréttir, að Íslands konungr eigi fagra dóttur og biður hennar sér til handa og vill hafa hálft ríkið í heimamund; Gloríant dóttir konungs er lofuð Karli keisara og vill ekki þýðast risann og biður Olgeir danska að hjálpa sér; hann fer á móti Burmand risa og leggur hann að velli. (S. st. I, bls. 391—96. Þar er víðar getið um Ísland, t. d. I. Us. 160, 369, 380, o.s.frv.) í færeysku fornkvæði er Friðfróði látinn sigla til Íslands, og þorir þá Íslands konungur ekki annað en bjóða honum skatt til friðar sér o.s.frv. Margs konar aðrar ýkjur um Ísland má finna hér og hvar í gömlum útlendum riddarasögum, rímum og kvæðum, og yrði hér oflangt að eltast við slíkt; þó Ísland sé sumstaðar í þess konar sögum sett í samband við viðburði, sem gerðust löngu áður en landið fannst, þá er það þó þýðingarlaust; því kvæðin og sögurnar eru löngu seinna til orðnar.
Nokkur ágreiningur um fund Íslands hefir fyrrum orðið meðal fræðimanna út úr nokkrura gömlum páfabréfum. Þegar erkibiskupsstóll var stofnaður í Hamborg 835, þá er Ísland nefnt í páfabréfinu og hafi sumir af því viljað ráða, að Ísland hafi verið albyggt og kristið, áður en Norðmenn námu þar land; en hér liggur í augum uppi, að eitthvað hlýtur að vera ranghermt, því landið er nefnt því nafni, er það síðar fékk (Ísland); það er því víst engum efa bundið, að nöfnunum Ísland og Grænland hefir síðar verið skotið inn í páfabréfið, og öll líkindi til, að Brimabiskupar hafi gert það, eptir að Ísland varð kristið, til þess að geta talið þetta land sem önnur norræn lönd undir biskupsstólinn. Halda sumir Aðalbert erkibiskup (1043—1072), er vígði Ísleif Gissurarson til biskups, hafi skotið nöfnunum inn í bréfið og ef til vill í 4 önnur brjef, sem seinna voru útgefin. Seinna spunnust ýmsar sagnir út af þessu, og í munkaritum og kvæðum er Anskar hinum helga talið það til gildis, að hann hafi kristnað öll Xorðurlönd og þar með líka Ísland og Grænland. (Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 1 —44. i?. Burton: Ultima Thale I, bls. 79-87.) Pontanus studdist við þessi páfabréf í ritdeilu sinni móti Arngrími lærða, en Arngrímur áleit, að bréfin mundu vera fölsuð, og á sama máli hafa flestir hinir merkari fræðimenn verið, t.d. K. Maurer, Finnur biskup Jónsson (Historia ecclesiastica Islandiæ I, bls. 219—20. A”, Maurer: Bekehrung etc. I, bls. 23—24.) og Jón Sigurðsson. Sumir hafa haldið, að nöfnin í frumritinu hafi mislesizt og ritararnir hafi aflagað önnur nöfn og gert úr þeim Ísland og Grænland. (I. R. Forster: Gescliiclite der Entdeckungen und Schifffahrten im Norden. Frankfurt an der Oder 1784, bls. 109—110.)
Hinn alkunni stjórnmálagarpur Gladstone hefir allmikið fengizt við fornfræði og í ritum um Homer hefir hann komizt að þeirri skoplegu niðurstöðu, að Ísland sé eyjan Ogygia, þar sem Oddyssevs dvaldi hjá Kalypso. (Sbr. Ólafur Davíðsson: Ísland og Íslendingar. Tímarit bókmf. 1887, bls. 107.)

Írar finna Ísland

Fornagata

Lestargata.

Eins og kunnugt er, voru hér Írar þegar Norðmenn komu fyrst til landsins. Ari fróði segir í Íslendingabók (íslendingabók, 1. kap. ísl. sögur I, bls. 4.) »þá voru her menn cristnir, þeir es Norþmenn calla Papa, en þeir fóro síþan á braut, af því at þeir vildo eigi vesa her viþ heiþna menn, oc léto eptir bæer irscar oc bjöllor oc bagla; af því mátti scilja, at þeir voru menn írscir«. Landnáma bætir vi5 um bjöllurnar og baglana, (Landnáma, proL, bls. 24. Fornmannasögur I, bls. 233, XI
bls. 410. Theodorici Monacbi historia de antiquitate regum norwagiensium, cap. III. Monumenta bistorica Norvegiæ, udgivne ved G. Storm. Kristiania 18b0, bls. 8—9.) »þat fanst í Papey austr ok í Papýli, (Papýli vita menn eigi með vissu, bvar hefir verið, Dr. Kálund heldur, að héraðið Síða bafi borið það nafn (Hist.-topogr. Beskrivelse af Island II, bls. 276 og 314); aðrir halda, ab Papýli hali verið í Suðursveit (Oddsens Landaskipunarfræði II. 1822, bls 304. Safn til sögu Íslands II, bls. 451 og 475.) er ok þess getit í bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna«. Síðar segir um Kirkjubæ á Síðu (Ldn. IV. 11). »Þar höfðu áðr setit Papar, oc eigi máttu þar heiðnir menn búa«. Írar þeir er hinir fyrstu landnámsmenn kölluðu Papa, hafa eflaust verið klerkar eða munkar frá Írlandi, er höfðu leitað í einveru norður í höfum. Það sést líka á riti Dicuils munks, sem skrifað er 825, að Írar hafa fyrstir fundið Ísland. Dicuilus segir í riti sínu fyrst frá Thule og talar um hvað Solinus hafi sagt um þetta land og bætir því næst við: »Nú eru þrír tigir ára síðan, að klerkar, sem dvalið höfðu á þessari eyju frá því í byrjun febrúarmáuaðar til byrjunar ágústmánaðar, sögðu mér, að um sumarsólstöður og um næstu daga undan og eptir þá hyrfi sólin, er hún gengur til viðar eins og bak við dálítinn hól, svo að engin dimma varð um sjálfa þessa stuttu stund, hvað sem menn vilja gjöra t.d. tína lýsnar úr skyrtunni, þá má gjöra það eins og sól væri á lopti; ef þeir hefðu komið upp á há fjöll þar á eynni, mundi sólin líklega aldrei hafa horfið þeim. Mitt um þessa stuttu stund er miðnætti á jörðunni miðri, það er því ætlun mín, að sólin sjáist aptur á móti um skemmsta tíma í Thule um vetrarsólstöður eða nokkrum dögum undan og eptir, en þá er miðdegi á miðri jörðunni. Þeim hefir skjátlazt, er skrifað hafa, að sjór væri frosinn kringum eyna og að einlægur dagur án nætur væri frá vor- jafndægrum til haustjafndægra og aptur á móti samanhangandi nótt frá haustjafndægrum til vorjafndægra, því klerkar þessir komu þangað sjóleið um þann tíma, þegar mikill kuldi er vanur að vera og dvöldu þar, og voru, þá ávallt dagar og nætur á víxl nema um sólstöðurnar, en þegar þeir sigldu þaðan norður á við eina dagleið, hittu þeir frosinn sjó«. (Dicvilus. Liber de mensura orbis terræ. Berolini 1870, bls. 41—43.) Því næst segir Dicuilus frá eyjaklasa, sem liggur tveggja daga sigling fyrir norðan Bretland og eru það líklega Færeyjar. Eyjar þessar eru allar litlar segir hann, og þröng sund á milli, og hafa þar búið í nærri hundrað ár einsetumenn frá Skotlandi, en þeir hafa orðið að flýja fyrir norskum víkingum, (Hammershaimb segir, að í í jöllunum við Hvalbö séu margir hellar og gjótur; þar duldust Færeyingar á fyrri tímum fyrir árásum víkinga, og hengdu svart vaðmál fyrir hellismunnana ; þar eru líka sagnir um, að frumbyggjar Færeyja hafi dulizt í hellum þessum, þegar Norðmenn námu þar land, og dáið þar út. Antíqvarísk Tidskrift 1846-48, bls, 261.) segir hann að þar sé ótölulegur grúi af sauðfé og alls konar sjófuglum. Af frásögn Dicuils er það auðséð að einsetumenn írskir hafa fundið Ísland líklega einhvern tíma á 8. öld, úr því Dicuilus hefir talað við klerka, sem þar höfðu verið um árið 795. Á Írlandi og Skotlandi hefir ekki verið friðsamt í þá daga þegar víkingahóparnir austan um haf alltaf voru að gera strandhögg, brenndu borgir og þorp, kirkjur og klaustur, drápu fólkið og rændu fénu; guðhræddir einsetumenn urðu að leita lengra og lengra burtu til þess að geta verið í friði.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma – minjar um forna búsetu.

Í latnesku riti um sögu Noregs, sem ritað hefir verið á Orkneyjum á miðri 13. öld, er þess getið, að þar hafi búið Piktar og Papar, er Norðmenn námu þar land; um Papana segir höfundurinn meðal annars: »Papar voru þeir kallaðir af því þeir klæddust hvítum klæðum eins og klerkar. -Þess vegna eru allir klerkar á tevtonska tungu kallaðir Papar. Ennþá heitir ein eyja Papey eptir þeim«. (Breve Crouicon Norvegiæ. Symbolæ ad historiam antiquio- rem rerum Norvegicarum. Ed. P. A. Munch. Christiania, 1850, bls. 6 og 88) Allmörg örnefni á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum benda á Papana. Í Orkneyjum eru tvær Papeyjar, Papey meiri og Papey minni (Papa-Westray og Papa Stronsay) og á tveim stöðum heitir þar Papýli, á Hrossey (Mainland) og á Rögnvaldsey (South Ronaldsay). Við Hjaltland eru líka tvær Papeyjar, Stóra Papey (Papa Stour) og Litla Papey (Papa Little) o.s.frv. (P. A. Munch: Geograíiske Oplysninger om Orknöerne (Annaler for nordisk Oldkjrndighed 1852, bls. 51-58).) Af þessu sézt, að klerkar frá Írlandi mjög snemma hafa sest að á eyjum þessura og má svo rekja feril þeirra um Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland, Færeyjar og alla leið til Íslands. Hinir fyrstu íbúar, sem menn hafa sögur af á Orkneyjum, voru Piktar, og tóku þeir snemma við kristni, sagt er að Cormac hafi boðað þar kristni á 5. öld. Piktar héldu Orkneyjum fram á níundu öld, (Nennius: Historia Britonum, cap. 5. (Monumenta historica Britanuica 1848 I, bls. 56). Nennius segir, að Piktar hafi lagt undir sig Orkneyjar í fyrndinni og búi þar enn. Nennius lifði fram yfir miðja 9. öld.) en þá urðu bæði lærðir og leikir að stökkva úr landi fyrir ofríki hinna norrænu víkinga. Munkaflokkar frá Írlandi settust víða að á eyjum og útskerjum við strendur Skotlands á 8. og 9. öld, og finnast mjög víða merki eptir þá; (Á Orkneyjum eru mörg merki um hina eldri kristni og klerka þessa, sbr, Joseph Anderson: Introduction to The Orkneyinga Saga. Edinburgh 1878, bls. 11-21. f>ar hala meDal annars fundizt sjerstaklega lagaðar bjöllur, eins og þær, sem voru notaðarí hinni elztu kristni; eru þær líklega eptir Papana og ef til vill líkar bjöllum þeim sem fornmenn fundu hjer á landi. Mynd af þess konar bjöllu, er hjá Anderson á s. st., bls. 14. Þessir elztu keltnesku klerkar og einsetumenn hafa snemma verið kallaðir Culdees (guðsmenn) af keltnesku orðunum cule = socius, de = dei; var nafn það brúkað um keltneska munka, hvort þeir voru í klaustrum eða einsetumenn. Worsaae talar um menjar eptir Pikta á Orkneyium og Hjaltlandsevjum; þar eru kastalarústir (pictish towers) o.m.fl. Minder om de danske og Nordmændene í England, Skotland og Írland,bls. 230.) seinna settust þeir að á eyðieyjum og lifðu einsetumannalífi, fjarri róstum og ofríki víkinganna, sem þá fóru að koma í stórhópum að austan, einkum eptir það, að Haraldur hárfagri fór að brjóta undir sig Noreg. Hinir fornu Keltar á Írlandi og Skotlandi voru yfir höfuð að tala mjög gefnir fyrir sjóferðir og allt af á sífelldu flakki; það eru jafnvel nokkrar líkur til þess, að þeir hafi fundið Vesturheim fyrr en allir aðrir Norðurálfumenn, þó það sé með öllu ósannað enn. (Í Vita S. Galli II, 47 (Pertz: Monum. German. historica II, bls. 30) er sagt um þessa flakkaranáttúru Kelta frá Skotlandi og Írlandi: »Nuper quoque de natione Scotorum. quibus consuetudo peregrinandi iam paene in naturam conversa est, quidam advenientesí o.s.frv., sbr. Alexander v. Humbolclt: Kritische Untersuchungen iiber die historische Entwickelung der geographischen Kenntnisse von der neuen Welt. Berlin 1852. III, bls. 197.) sem fornmenn fundu hjer á landi. Mynd af þess konar bjöllu, er hjá Anderson á s. st., bls. 14. Þessir elztu keltnesku klerkar og einsetumenn hafa snemma verið kallaðir Culdees (gubsmenn) af keltnesku orðunum cule = socius, de = dei; var nafn það brúkab um keltneska munka, hvort þeir voru í klaustrum eða einsetu- menn. Worsaae talar um menjar eptir Pikta á Orkneyium og Hjaltlandsevjum; þar eru kastalarústir (pictish towers) o. m. fl. Minder om de danske og Nordmændene í England, Skotland og Írland, bls. 230.)”

Heimild:
-Landfræðisaga Íslands – Hugmyndir manna um Ísland, náttúrskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar – Þorvaldur Thoroddsen, Ísafoldarprentsmiðja 1892-96, bls. 1-20.

Thule

Prins Valinat á Thule.