Færslur

Skreið

Það var við hæfi að fara í sérstaka “Hjallaferð” á föstudaginn langa. Föstur í kaþólskum sið voru helstu forsendurnar fyrir skreiðavinnslu og fiskútflutningi Íslendinga í gegnum aldirnar. Um langan tíma var hertur fiskur svo til eina útflutningsvaran. Á þeim tíma var fiskur þurrkaður á grjóti, hlöðnum grjótgörðum og byrgjum, auk þess sem sérstök verkhús voru á sumum stöðum. Verin gengdu þýðingarmiklu hlutverki við veiðar og verkun skreiðar. Í sumum þeirra, einkum á Snæfellsnesi, voru sérstakir hjallar (rekaviður milli hlaðinna stólpa). Á Reykjanesi eru nú einungis eftir fiskhjallar (trönur) á fáum stöðum, s.s. við Hafnarfjörð, Grindavík og Garð.

Skreið

Skreið í trönum.

Haldið var í hjallana við Hafnarfjörð, gengið þar um og sagan rifjuð upp í tilefni dagsins. Í hjöllunum hanga nú þorskur, ufsi, ýsa, lýsa og langa, en áður fyrr var þar nær einvörðungu þorskur og hausar. Hausarnir nú virtust af öllum hugsanlegum fiskskepnum. Sumir hafa líklega hangið þarna lengi, aðrir voru nýkomnir.
Skreið er framleiðsluheiti yfir þurrkaðan, afhausaðan fisk. Þurrkunin er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks. Íslendingar hafa þurrkað fisk í aldaraðir en í nútímanum má segja að hér á landi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar þ.e. harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Helstu markaðir fyrir skreið eru Ítalía og Nigería, auk nokkurra ríkja á vesturströnd Afríku.
Skreið hefur lengst af verið útiþurrkuð þar sem tveir fiskar eru spyrtir saman og hengdir upp í þar til gerðum fiskhjöllum og sól og vindur látin um þurrkunina. Nú getur þurrkun fisksins verið hvort heldur sem er, inniþurrkun – og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar.
Þessi hausaverkun getur verið mismunandi og helst hún gjarnan í hendur með því í hverskonar verkun bolur fiskins fer; haus m/klumbu, haus án klumbu og haus með hrygg.
Á miðöldum steig skreið mjög í verði á erlendum markaði. Þá reið mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Annmarkar Þurrkbyrgi á Selatöngumvoru á því, sérstaklega vegna rakans í sjávarloftinu. Eyjamenn tóku t.d. þá upp á að herða fisk á syllum í móbergshömrum, t.d. fiskhellum svokölluðum. En meira rými þurfti til. Eyjabúar fundu þá upp gerð fiskigarða. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir) eignaðist afmarkað svæði, sem girt var hlöðnum grjótgarði til varnar sauðfé t.d., sem þá gekk í hundraðatali um alla Heimaey. Inni í gerðinu voru síðan hlaðnir reitir úr hraungrýti með bili á milli, svo að ekki þurfti að ganga á reitunum sjálfum (þurrkreitunum) meðan fiskurinn var breiddur til herzlu. En fleira var innan gerðisins en herzlureitirnir. Þarna var byggð kró úr hraungrýti, – hringmynduð kró, sem mjókkaði upp í toppinn svo að loka mátti henni með dálítilli steinhellu. Að baki krónni var reitur, kallaður kassareitur.
Annars staðar á landinu voru hlaðnir langir grjótgarðar og hlaðin grjótbyrgi, s.s. nálægt Grindavík og á Snæfellsnesi.
Oftast var fiskurinn hertur flattur, tekinn úr honum hryggurinn.
Þegar fiskurinn var fluttur í gerðið, ýmist borinn á baki eða reiddur á hesti. var hann settur í kös á kasarreitinn. Þar var hann látinn liggja, þar til byrjaði að slá í hann. Þá var hann breiddur á herzlureitina. Lágnaður fyrir herzlu þótti fiskurinn bragðbetri og mýkri. Eiga Norðmenn að hafa fundið upp þessa verkunarferð á miðöldum.
Hálfharður var fiskurinn síðan settur inn í króna. Þar blés hann og fullharðnaði án þess að regn kæmist að honum. Loftstraumur lék um króna, þar sem hún var hlaðin upp úr hraungrýti með einföldum veggjum. Fyrir krónni var rimlahurð. Dyrnar voru lágar, svo að ganga varð hálfboginn um þær eða skríða nánast. Yfir dyragættinni var hvalbein, t.d. rifbein úr hval. Í krónni geymdist skreiðin vel. Þaðan var hún flutt á verzlunarskipið, þegar hún var seld til útflutnings, og þangað sóttu menn skreið til heimilisnota. Á Reyjanesi voru notuð steinhlaðin byrgi í sama tilgangi.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni við GrindavíkLíkan af vestmannaeyskum fiskigörðum gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Það er gjört eftir frásögn Jóns Jónssonar frá Brautarholti, síðast sjúkrahússráðsmaður þar í bæ. Hann var fæddur 1869 og mundi gerð síðasta fiskigarðsins, sem var rifinn um 1880, eða um svipað leyti og verstöðin á Selatöngum lagðist af.
Harðfiskur hefur fylgt landsmönnum allt frá upphafi byggðar og lengi framan af skipaði hann stóran sess í fæðunni, einkum til sveita þar sem ekki var mikið framboð af fersku sjávarmeti. Í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sagnfræðing er fróðlegur kafli um skreið og harðfisk. Þar segir að víða sé minnst á skreið í Íslendingasögum og má þar nefna skreiðarhlaðann á Fróðá í Eyrbyggju. Í Íslandslýsingu Odds biskups Einarssonar frá lokum 16. aldar segir að næst á eftir mjólkurvörum og kjöti sé venjulegur fiskur stór hluti af fæðu Íslendinga. “Er hann þá fyrst hertur…
Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.
Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kringum Grindavík eru víða gamlir þurrkgarðar og byrgi, s.s. við Húsatóftir, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni, við Ísólfsskála og á Selatöngum. Í Herdísarvík má einnig enn sjá garða og leifar byrgja, en vegagerð hefur þegar skemmt hluta þeirra.
Um miðja átjándu öld voru fáeinir tugir báta gerðir út frá Reykjavík, mest tveggja manna för, og voru veiðarfærin nær eingöngu handfæri. Fiskurinn var að mestu leyti verkaður í skreið. Eftir 1800 stækkuðu fleyturnar og fjögurra og sex manna för urðu uppistaða bátaflotans.
Í holtunum í kringum miðbæ Reykjavíkur og út frá honum meðfram sjónum mynduðust þyrpingar torfbæja þar sem tómthúsmennirnir bjuggu. Þeir höfðu lífsframfæri sitt af því að róa til fiskjar og af daglaunavinnu sem til féll. Upphaflega voru þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna og höfðu ekki skepnur kallaðir tómthúsmenn, húsin þeirra voru talin tóm. Víða á Suðurnesjum var þetta fólk nefnt þurrabúðafólk. Fékk það að reisa hús (skjól) á jörðum formanna eða annarra góðviljaðra, sem síðan þróuðust í smábýli eða bæi. Dæmi um slík hús eru t.d. í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík – reyndar endurnýjuð síðan þá var.
Um 1820 var saltfiskur orðinn aðalútflutningsvaran frá Reykjavík og hafði það örvandi áhrif á þéttbýlismyndunina þar sem saltfiskverkun var frek á vinnuafl gagnstætt skreiðarverkun. (Sjá meira undir Skreið I).

Sjá einnig MYNDIR.
Sólstafir yfir Grindavík

Fornagata

Skreið var sameiginlegt nafn á hertum fiski, hverrar tegundar sem var. Telja fróðir menn það dregið af skriði fiskjarins, sem nú – og fyrr – er kallað ganga, og að vísu er það rétt, að í rauninni skríður fiskurinn áfram fremur en gengur, eftir venjulegri notkun þessara orða, og enn í dag er notað orðið smáskrið um litlar fiskgöngur.

Þurrkgarðar í Slokahrauni við Grindavík

Það hefur verið svo frá fornöld, eins og Íslendingasögurnar sýna, að allt fram að síðustu aldamótum (skrifað 1928), að sérhver bóndi hefur kappkostað að afla sér nægrar skreiðar til heimilsneyslu. Raunar vissu menn þá ekkert um efnafræði- og vísindalegan hátt um gildi ósoðins matar eða um nein bætiefni. Ekki mun mönnum heldur hafa verið ljóst, hversu góð áhrif harðfisksátið hafði á tennurnar og þar af leiðandi á meltinguna og allt heilsufarið, en hitt fundu þeir af sjálfum sér, að skreiðin var ómissandi fæða. Hún var drjúgur matur, næringarmikill, saðsamur, þurfi litla matreiðslu og geymdist vel, enda var engin matvara eins eftirsótt og í öðru eins uppáhaldi og skreiðin. Það sýna – auk þess kostnaðar ferðir og öll fyrirhöfnin, sem lagt var í til að afla hennar  – ýmsar þjóðsagnir og þjóðtrú. Það var t.d. trú sumra manna, að ef ávallt væri til á heimilinu hertur ufsi, þá yrði aldrei fisklaust.

Harðfisakur

Verðandi harðfiskur; skreið…

Útilegumönnum uppi í afdölum og tröllunum í fjöllunum og krökkum þeirra var ekki unnt að veita meiri góðgerð en að gefa þeim að smakka harðan fisk, sem svo var oftast launar allríflega.
Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar hafi fyrr á tímum notað harðfisk í brauðs stað, en það er ekki að öllu leyti rétt. Þeir höfðu nægilegan manndóm til að afla sér ýmissa fæðitegunda úr jurtaríkinu hérlenda og létu sér enga lægingu þykja að neyta þeirra.

Fornagata

Forn lestargata millum Selatanga og Selvogs.

Fulltíða karlmanni var skammtað í máltíð fjórði hluti af meðalþorski, en kvenfólki og unglingum minni fiskstykki og svo sem hnefafylli af sölvum eða bútur af hvannarót. Viðbitið var súrt smér, því nýtt smér var talið ódrýgra. Þeir, sem illt áttu með að tyggja harðan fisk, þó að hann væri lúbarinn, fengu hann bleyttan í sýru. Oft var roð, sporðar, uggar og þorskhausabein vandlega hreinsuð, látin saman við skyrsafnið á sumrin og skömmtuð svo á veturna með súrskyrinu, sem þar að auki var drýgt með skornu káli.

Skreið

Skreiðalest.

Allmiklir erfiðleikar voru á því að afla sér skreiðar fyrir þá, sem bjuggu fjarri fiskverunum. Til þess þurfti fyrst og fremst að takast á hendur löng og erfið ferðalög, hafa ráð á traustum hestum, vel útbúnum, og eiga nægan kaupeyri, ef skreiðinm var ekki afli útróðramanna frá heimilinu. Þessar ferðir voru kallaðar skreiðarferðir, og tímabilið, sem þær stóðu yfir, ásamt aðalkaupstaðarferðinni, hét lestirnar.
Þegar komið var að Jónsmessu – eða fyrr, ef vel áraði og nægilega var sprottið til þess, að góðir hagar væru á áfangastöðum – og hross komin í góð hold, var farið að búast til skreiðarferða. Var þá fyrst að aðgæta reiðinga og laga þá eftir þörfum. Venjulega voru það melreiðingar, sem notaðir voru í langferðir. Meljan var fóðruð
 innan með grófu vaðmáli, en að utan með skinni, og dýnur eins að autan. Í klyfberum voru ávallt leðuróla-móttök, og beisli úr taglhári með trétyppi á taumsendum með bú- eða fangamarki eigandans. Ef ekki voru tiltækir hestar þurfti að fá þá leigða. Kostaði hver hestur 20 fiska (1928).
TrönurHinn tiltekna dag var svo lagt af stað. Þá var farið úr hlaði og öruggt, að vel færi á hestunum, tók ferðamaðurinn ofan höfðufat sitt og las ferðabænina, faðirvor og signingu.
Vegir voru þá ekki annað en slitróttir götutroðnigar í ótal krókum. Eftir þeim var oftast farið. Þótti góðs viti, ef smáfugl trítlaði götuna á undan lestarmanni, og því betra því lengra. Má vera, að nafnið auðnutittlingur stafi af því.
Að austan var farið eftir Hafnarskeiði, yfir Selvogsheiði til Vosgósa, eða þangað beint af Hafnarskeiði um Sandamót, fyrir neðan heiðina. Fyrir vestan Vogsósa er Víðisandur, en fyrir vestan sandinn eru sléttar klappir (Hellisvörðustígur), merkilegar fyrir það, að í þær hafa myndast götur hverjar við aðra, líkt og á vallendisgrundum og eru svo djúpar, að sumsstaðar nemur fullvöxnum manni í kálfa. Þarna hefur eitilhörð klöppin slitnað svona undan margra alda hrossaganginum íslenska.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Vegurinn liggur framhjá Herdísarvík til Krýsuvíkur. Á þeirri leið er Sýslusteinn, sérstakur stór klettur. Þar eru sýsluskil Árness- og Gullbringusýslu. Skammt þaðan eru tvær vörður, er heita Krýs og Herdís. Eru það þær einu beinakerlingar á suðurleiðum. Voru skjallhvítar beinpípur hér og hvar á milli steinanna, og oftast í einhverri þeirra vísa, kveðin undir nafni kerlingarinnar um einhvern er ætla mátti, að færi um síðar. Ekki voru vísur þessar skrautritaðar, en þó allvel skiljanlegar. Flestar voru þær yfirgripsmeiri, nafnorð hipsurlausari og lýsingar allar miklu stórfelldari heldur en ætla má, að nútíðar snoðklipptar “frökenar” þyldu að heyra – jafnvel þótt sætkenndar væru. En gömlu mennirnir þoldu að heyra vísur þessar, þótti gaman að fá þær, og jafnvel meira sem þær voru mergjaðri.
Í Krýsuvík var síðasti áfangastaðurinn, áður en lagt væri á Suðurnes. Þar er fagurt og frjósamt, en oft vætusamt.
Frá Krýsuvík var svo haldið út yfir Krýsuvíkurhálsa. Var það vondur vegur, apalhraun og brattir móbergshálsar á milli.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Ein af hraunkvíslum þessum heitir Ögmundarhraun, og er það kennt við einhvern Ögmund, sem á að hafa rutt vegnefnuna gegnum hraunið. Leiði hans er sýnt austast í hrauninu. Um veginn í Ögmundarhrauni, eins og hann var þá og fyrr, er til þessi vísa:

“Eru í hrauni Ögmundar
ótalmargir þröskuldar,
gjótur bæði og grjótgarðar,
glamra þar við skeifurnar.”

Önnur hraunkvísl þar heitir Leggjabrjótur, og er það rétnefni. Þar sunnan við veginn niðri við sjóinn er hin forna fisksæla verstöð Selatangar, sem nú er fyrir löngu aflögð. Vestan til í hálsinum er allmerkilegur klettur. Er það sérstakur hraunstandur rétt við veginn.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Utan í honum eru þrjár hraunblöðrur, opnar að ofan til, oftast fullar af regnvatni og þannig settar, að hæð hinnar efstu svarar til þess, að vaxinn maður geti drukkið úr hanni standandi, en hestur úr þeirri í miðið og hundur úr hinni neðstu. Er víst um það, að þarna hefur margur fengið þráðan svaladrykk, enda heitir kletturinn Drykkarsteinn.

Skammt frá Drykkjarsteini skiptust vegirnir suður á Suðrunes, Vogana og Vatnsleysuströndina. Í þau héruð var helst sótt til skreiðarkaupanna, því þar bjuggu stórbændur og útgerðarmenn miklir, er áttu mikið af skeið, er þeir létu til sveitamanna í vöruskiptum. Meðal hinna helstu manna voru þeir Einar Jónsson í Garðhúsum Í Grindavík og Sæmundur á Járngerðarstöðum, bróðir hans. Þá Guðmundarnir í Auðnum og í Landakoti og Lárus læknir Pálsson í Sjónarhóli.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Þegar komið var suður í þessi héruð, skiptu menn sér niður til skreiðarkaupanna. Flestir sveitabændur, sem búnir voru að kynna sig, áttu einhverja sérstaka skiptavini. Verslun milli manna var aðeins vöruskipti, en viðskiptavinirnir lögðu eigi kapp á að græða hver af öðrum, heldur einungis að fullnægja þörf hvers annars, svo sem þeim var auðið, og láta ekki hallast á sig um útlánin. Sveitabóndinn kom með smjör, tólg, skinn og hangið kjöt, en sjávarbóndinn lét skreið “upp á hestana”, hvort sem það nam vöru hins í það sinn eða ekki. Næsta haust sendi svo sveitabóndinn skiptavin sínum sláturfé eftir ástæðum.
Fiskverðið var lagt til grundvallar þannig að smjör kom fyrir 20 fiska fjórðungurinn, tólg fyrir 10 fiska fjórðungurinn, hangikjöt fyrir 10 fiska fjórðungurinn, sauðskinn fyrir 5 fiska skinnið, kálfskinn fyrir 5 fiska skinnið og sauður fyrir 40 fiska lagsauður.
Best þótti, að það væri freðfiskur, en mjög var sóst eftir að fá rikling, sem naumast þekktist annars staðar en í Höfnum, en einnig hinn hjallþurrkaða ágæta haustfisk, sem helst fékkst í Garðinum og á Vatnsleysuströnd.
Eftirsóknin eftir þorskhausum byrjaði fyrst eftir að annað harðræði fór að verða ófáanlegt, þegar allur fiskur var saltaður.

Skreiðalest

Skreiðalest.

Þegar nóg skreið var fengin upp á lestina, annað hvort með kaupum eða hlutaafla, eð hvorutveggja, byrjaði hin þreytandi og erfiða vinna, er þessum ferðalögum fylgdi. Á meðan menn dvöldu á Suðurnesjum urðu þeir að flýta sér sem mest mátti verða, vegna gras- og vatnsleysis fyrir hrossin.
Lagt var á klyfjar þannig, að af harðfiski fóru um 60-70 í baggann, en af haustfiski fóru um 600 á hestinn, voru þær klyfjarnar vafðar netariði og kistubundnar, en af meðalþorskhausum fóru 120 í klyfið eða 240 á hestinn. Einstöku útróðrarmaður reif hausa sína áður en hann fór úr verinu, þannig að öll bein voru tekin úr hausunum, en allur fiskurinn hélt sér í heilu lagi, það hét að sekkrífa. Þurfti til þess sérstaka kunnáttu og var erfitt verk, en af þannig rifnum hausum fóru um 800 í sekk, sem var hæfilegur baggi.

Þegar allt var tilbúið, var lagt af stað heimleiðis. Nú var áríðandi að láta fara vel á, meðan klyfjar og reiðingar voru að jafna sig. Að því bjó síðan öll heimferðin.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhúsið 1844.

Á Kolviðarhóli hafði verið byggt svokallað sæluhús haustið 1843, af samskotum úr nærliggjandi héruðum, fyrir milligöngu Jóns bónda á Elliðavatni og fleiri. Hús þetta var kofi byggður úr torfi og grjóti og þakinn torfi. [Kannski ekki allskostar rétt]. Loft var í honum og á því nokkur flet til þess að liggja í. Niðri var húsið óskipt ætlað hestum. Naumast var hús þetta annað en nafnið. Á loftinu var allt skemmt, sem hægt var að skemma.
Ferðalög þessi voru ærið þreytandi, en svo fór einn góðviðrisdaginn, að ferðamenn sáu heim til sín. Kyrrt var yfir öllu, og frá heimilinu var sem legði undurþægilegan yl og eitthvað, sem byði ferðamanninn svo ástúðlega velkominn til hvíldar eftir ferðalagið. Það gat naumast hjá því farið þá, að hugur mannsins fylltist þakklæti fyrir handleiðsluna á ferðinni og lofgjörð fyrir að fá að vera kominn heim heill heilsu, og með bjargræði handa sér og sínum.
Sjá einnig MYNDIR.

 Heimild:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.

Trönur við Grindavík

Portfolio Items