Fornagata

Skreið var sameiginlegt nafn á hertum fiski, hverrar tegundar sem var. Telja fróðir menn það dregið af skriði fiskjarins, sem nú – og fyrr – er kallað ganga, og að vísu er það rétt, að í rauninni skríður fiskurinn áfram fremur en gengur, eftir venjulegri notkun þessara orða, og enn í dag er notað orðið smáskrið um litlar fiskgöngur.

Þurrkgarðar í Slokahrauni við Grindavík

Það hefur verið svo frá fornöld, eins og Íslendingasögurnar sýna, að allt fram að síðustu aldamótum (skrifað 1928), að sérhver bóndi hefur kappkostað að afla sér nægrar skreiðar til heimilsneyslu. Raunar vissu menn þá ekkert um efnafræði- og vísindalegan hátt um gildi ósoðins matar eða um nein bætiefni. Ekki mun mönnum heldur hafa verið ljóst, hversu góð áhrif harðfisksátið hafði á tennurnar og þar af leiðandi á meltinguna og allt heilsufarið, en hitt fundu þeir af sjálfum sér, að skreiðin var ómissandi fæða. Hún var drjúgur matur, næringarmikill, saðsamur, þurfi litla matreiðslu og geymdist vel, enda var engin matvara eins eftirsótt og í öðru eins uppáhaldi og skreiðin. Það sýna – auk þess kostnaðar ferðir og öll fyrirhöfnin, sem lagt var í til að afla hennar  – ýmsar þjóðsagnir og þjóðtrú. Það var t.d. trú sumra manna, að ef ávallt væri til á heimilinu hertur ufsi, þá yrði aldrei fisklaust.

Harðfisakur

Verðandi harðfiskur; skreið…

Útilegumönnum uppi í afdölum og tröllunum í fjöllunum og krökkum þeirra var ekki unnt að veita meiri góðgerð en að gefa þeim að smakka harðan fisk, sem svo var oftast launar allríflega.
Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar hafi fyrr á tímum notað harðfisk í brauðs stað, en það er ekki að öllu leyti rétt. Þeir höfðu nægilegan manndóm til að afla sér ýmissa fæðitegunda úr jurtaríkinu hérlenda og létu sér enga lægingu þykja að neyta þeirra.

Fornagata

Forn lestargata millum Selatanga og Selvogs.

Fulltíða karlmanni var skammtað í máltíð fjórði hluti af meðalþorski, en kvenfólki og unglingum minni fiskstykki og svo sem hnefafylli af sölvum eða bútur af hvannarót. Viðbitið var súrt smér, því nýtt smér var talið ódrýgra. Þeir, sem illt áttu með að tyggja harðan fisk, þó að hann væri lúbarinn, fengu hann bleyttan í sýru. Oft var roð, sporðar, uggar og þorskhausabein vandlega hreinsuð, látin saman við skyrsafnið á sumrin og skömmtuð svo á veturna með súrskyrinu, sem þar að auki var drýgt með skornu káli.

Skreið

Skreiðalest.

Allmiklir erfiðleikar voru á því að afla sér skreiðar fyrir þá, sem bjuggu fjarri fiskverunum. Til þess þurfti fyrst og fremst að takast á hendur löng og erfið ferðalög, hafa ráð á traustum hestum, vel útbúnum, og eiga nægan kaupeyri, ef skreiðinm var ekki afli útróðramanna frá heimilinu. Þessar ferðir voru kallaðar skreiðarferðir, og tímabilið, sem þær stóðu yfir, ásamt aðalkaupstaðarferðinni, hét lestirnar.
Þegar komið var að Jónsmessu – eða fyrr, ef vel áraði og nægilega var sprottið til þess, að góðir hagar væru á áfangastöðum – og hross komin í góð hold, var farið að búast til skreiðarferða. Var þá fyrst að aðgæta reiðinga og laga þá eftir þörfum. Venjulega voru það melreiðingar, sem notaðir voru í langferðir. Meljan var fóðruð
 innan með grófu vaðmáli, en að utan með skinni, og dýnur eins að autan. Í klyfberum voru ávallt leðuróla-móttök, og beisli úr taglhári með trétyppi á taumsendum með bú- eða fangamarki eigandans. Ef ekki voru tiltækir hestar þurfti að fá þá leigða. Kostaði hver hestur 20 fiska (1928).
TrönurHinn tiltekna dag var svo lagt af stað. Þá var farið úr hlaði og öruggt, að vel færi á hestunum, tók ferðamaðurinn ofan höfðufat sitt og las ferðabænina, faðirvor og signingu.
Vegir voru þá ekki annað en slitróttir götutroðnigar í ótal krókum. Eftir þeim var oftast farið. Þótti góðs viti, ef smáfugl trítlaði götuna á undan lestarmanni, og því betra því lengra. Má vera, að nafnið auðnutittlingur stafi af því.
Að austan var farið eftir Hafnarskeiði, yfir Selvogsheiði til Vosgósa, eða þangað beint af Hafnarskeiði um Sandamót, fyrir neðan heiðina. Fyrir vestan Vogsósa er Víðisandur, en fyrir vestan sandinn eru sléttar klappir (Hellisvörðustígur), merkilegar fyrir það, að í þær hafa myndast götur hverjar við aðra, líkt og á vallendisgrundum og eru svo djúpar, að sumsstaðar nemur fullvöxnum manni í kálfa. Þarna hefur eitilhörð klöppin slitnað svona undan margra alda hrossaganginum íslenska.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Vegurinn liggur framhjá Herdísarvík til Krýsuvíkur. Á þeirri leið er Sýslusteinn, sérstakur stór klettur. Þar eru sýsluskil Árness- og Gullbringusýslu. Skammt þaðan eru tvær vörður, er heita Krýs og Herdís. Eru það þær einu beinakerlingar á suðurleiðum. Voru skjallhvítar beinpípur hér og hvar á milli steinanna, og oftast í einhverri þeirra vísa, kveðin undir nafni kerlingarinnar um einhvern er ætla mátti, að færi um síðar. Ekki voru vísur þessar skrautritaðar, en þó allvel skiljanlegar. Flestar voru þær yfirgripsmeiri, nafnorð hipsurlausari og lýsingar allar miklu stórfelldari heldur en ætla má, að nútíðar snoðklipptar “frökenar” þyldu að heyra – jafnvel þótt sætkenndar væru. En gömlu mennirnir þoldu að heyra vísur þessar, þótti gaman að fá þær, og jafnvel meira sem þær voru mergjaðri.
Í Krýsuvík var síðasti áfangastaðurinn, áður en lagt væri á Suðurnes. Þar er fagurt og frjósamt, en oft vætusamt.
Frá Krýsuvík var svo haldið út yfir Krýsuvíkurhálsa. Var það vondur vegur, apalhraun og brattir móbergshálsar á milli.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Ein af hraunkvíslum þessum heitir Ögmundarhraun, og er það kennt við einhvern Ögmund, sem á að hafa rutt vegnefnuna gegnum hraunið. Leiði hans er sýnt austast í hrauninu. Um veginn í Ögmundarhrauni, eins og hann var þá og fyrr, er til þessi vísa:

“Eru í hrauni Ögmundar
ótalmargir þröskuldar,
gjótur bæði og grjótgarðar,
glamra þar við skeifurnar.”

Önnur hraunkvísl þar heitir Leggjabrjótur, og er það rétnefni. Þar sunnan við veginn niðri við sjóinn er hin forna fisksæla verstöð Selatangar, sem nú er fyrir löngu aflögð. Vestan til í hálsinum er allmerkilegur klettur. Er það sérstakur hraunstandur rétt við veginn.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Utan í honum eru þrjár hraunblöðrur, opnar að ofan til, oftast fullar af regnvatni og þannig settar, að hæð hinnar efstu svarar til þess, að vaxinn maður geti drukkið úr hanni standandi, en hestur úr þeirri í miðið og hundur úr hinni neðstu. Er víst um það, að þarna hefur margur fengið þráðan svaladrykk, enda heitir kletturinn Drykkarsteinn.

Skammt frá Drykkjarsteini skiptust vegirnir suður á Suðrunes, Vogana og Vatnsleysuströndina. Í þau héruð var helst sótt til skreiðarkaupanna, því þar bjuggu stórbændur og útgerðarmenn miklir, er áttu mikið af skeið, er þeir létu til sveitamanna í vöruskiptum. Meðal hinna helstu manna voru þeir Einar Jónsson í Garðhúsum Í Grindavík og Sæmundur á Járngerðarstöðum, bróðir hans. Þá Guðmundarnir í Auðnum og í Landakoti og Lárus læknir Pálsson í Sjónarhóli.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Þegar komið var suður í þessi héruð, skiptu menn sér niður til skreiðarkaupanna. Flestir sveitabændur, sem búnir voru að kynna sig, áttu einhverja sérstaka skiptavini. Verslun milli manna var aðeins vöruskipti, en viðskiptavinirnir lögðu eigi kapp á að græða hver af öðrum, heldur einungis að fullnægja þörf hvers annars, svo sem þeim var auðið, og láta ekki hallast á sig um útlánin. Sveitabóndinn kom með smjör, tólg, skinn og hangið kjöt, en sjávarbóndinn lét skreið “upp á hestana”, hvort sem það nam vöru hins í það sinn eða ekki. Næsta haust sendi svo sveitabóndinn skiptavin sínum sláturfé eftir ástæðum.
Fiskverðið var lagt til grundvallar þannig að smjör kom fyrir 20 fiska fjórðungurinn, tólg fyrir 10 fiska fjórðungurinn, hangikjöt fyrir 10 fiska fjórðungurinn, sauðskinn fyrir 5 fiska skinnið, kálfskinn fyrir 5 fiska skinnið og sauður fyrir 40 fiska lagsauður.
Best þótti, að það væri freðfiskur, en mjög var sóst eftir að fá rikling, sem naumast þekktist annars staðar en í Höfnum, en einnig hinn hjallþurrkaða ágæta haustfisk, sem helst fékkst í Garðinum og á Vatnsleysuströnd.
Eftirsóknin eftir þorskhausum byrjaði fyrst eftir að annað harðræði fór að verða ófáanlegt, þegar allur fiskur var saltaður.

Skreiðalest

Skreiðalest.

Þegar nóg skreið var fengin upp á lestina, annað hvort með kaupum eða hlutaafla, eð hvorutveggja, byrjaði hin þreytandi og erfiða vinna, er þessum ferðalögum fylgdi. Á meðan menn dvöldu á Suðurnesjum urðu þeir að flýta sér sem mest mátti verða, vegna gras- og vatnsleysis fyrir hrossin.
Lagt var á klyfjar þannig, að af harðfiski fóru um 60-70 í baggann, en af haustfiski fóru um 600 á hestinn, voru þær klyfjarnar vafðar netariði og kistubundnar, en af meðalþorskhausum fóru 120 í klyfið eða 240 á hestinn. Einstöku útróðrarmaður reif hausa sína áður en hann fór úr verinu, þannig að öll bein voru tekin úr hausunum, en allur fiskurinn hélt sér í heilu lagi, það hét að sekkrífa. Þurfti til þess sérstaka kunnáttu og var erfitt verk, en af þannig rifnum hausum fóru um 800 í sekk, sem var hæfilegur baggi.

Þegar allt var tilbúið, var lagt af stað heimleiðis. Nú var áríðandi að láta fara vel á, meðan klyfjar og reiðingar voru að jafna sig. Að því bjó síðan öll heimferðin.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhúsið 1844.

Á Kolviðarhóli hafði verið byggt svokallað sæluhús haustið 1843, af samskotum úr nærliggjandi héruðum, fyrir milligöngu Jóns bónda á Elliðavatni og fleiri. Hús þetta var kofi byggður úr torfi og grjóti og þakinn torfi. [Kannski ekki allskostar rétt]. Loft var í honum og á því nokkur flet til þess að liggja í. Niðri var húsið óskipt ætlað hestum. Naumast var hús þetta annað en nafnið. Á loftinu var allt skemmt, sem hægt var að skemma.
Ferðalög þessi voru ærið þreytandi, en svo fór einn góðviðrisdaginn, að ferðamenn sáu heim til sín. Kyrrt var yfir öllu, og frá heimilinu var sem legði undurþægilegan yl og eitthvað, sem byði ferðamanninn svo ástúðlega velkominn til hvíldar eftir ferðalagið. Það gat naumast hjá því farið þá, að hugur mannsins fylltist þakklæti fyrir handleiðsluna á ferðinni og lofgjörð fyrir að fá að vera kominn heim heill heilsu, og með bjargræði handa sér og sínum.
Sjá einnig MYNDIR.

 Heimild:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.

Trönur við Grindavík