Færslur

Keilir

Eftirfarandi er frásögn Sesselju Guðmundsdóttur í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 af umhverfi Keilis; einkennisfjalls Reykjanesskagans:
Afstapahraun-901“Umhverfis Keili eru fjöll, gígar, lækir, hverir, hraun, vötn og víðáttumiklir vellir. Þar getum við líka séð fornminjar eins og seljarústir og gamlar götur sem sumar hverjar eru vel markaðar af hestum og mönnum. Við beygjum af Reykjanesbrautinni rétt sunnan Kúagerðis við skilti sem vísar á Keili. Vegurinn (ca 9 km) liggur upp í gegnum úfið Afstapahraunið sem rann á 14. öld og þekur um 22 ferkm. Eftir að hafa ekið nokkra kílómetra sjáum við fjóra Rauðhóla á hægri hönd og norðaustan undir þeim stærsta er gömul selstaða frá Vatnsleysu.
Graenadyngja-901Aðeins ofan við Rauðhóla er svo Snókafell á vinstri hönd. Þegar upp úr hrauninu kemur blasir við eitt og annað fallegt, svo sem Keilir (378 m) með sínar mjúku línur á aðra hönd en hvöss Trölladyngjan (375 m) á hina. Frá okkar sjónarhorni felur sig svo Grænadyngja (402 m) að baki systur sinnar. Í hlíðunum beggja vegna Trölladyngju eru ótal gígar sem sent hafa hraunstrauma langt niður um heiðina. Á milli liggja svo hinir víðáttumiklu Höskuldarvellir sem Sogalækur rennur um allt yfir í Sóleyjakrika sem teygir sig norður í átt að Snókafelli. Vestan við vellina liggur Oddafell sem er langur og mjór melhryggur. Dyngjurnar tvær eru í Núphlíðarhálsi (Vesturhálsi) sem er um 13 km langur og liggur samsíða Sveifluhálsi (Austurhálsi) að vestanverðu. Á milli þessara móbergshálsa er svo Móhálsadalur með Djúpavatni, Vigdísarvelli og mörgu öðru skoðunarverðu.
Hoskuldarvellir-901Við leggjum bílnum við norðvesturhorn vallanna, reimum skóna þétt og höldum nokkurn spöl upp með Oddafellinu að vestanverðu. Fyrr en varir komum við að stíg yfir Afstapahraunið sem heitir Höskuldarvallastígur (7–800 m). Eftir að úfnu hrauninu sleppir tekur við heiðarland allt að Keili. Uppgangan á fjallið er augljós og greið hér að austanverðu en þegar nálgast tindinn er klungur á smákafla. Þegar upp er komið leitum við að „lognblettinum“ sem, svo til undantekningarlaust, má finna á þessum litla kolli þó svo eitthvað blási um og upp hlíðarnar. Þar má þröngt sitja á sléttum mel og nú er lag að Sog-901draga upp nestisboxin og brúsana. Af tindi Keilis sjáum við Reykjanesskagann breiða úr sér suður, austur og vestur úr. Suður af sést til sjávar utan við Ögmundarhraun en nær okkur liggja Selsvellir. Mest áberandi fjöll í klasanum vestur af Núphlíðarhálsi eru Stóri-Hrútur, Kistufell og Fagradalsfjall. Gufustrókarnir úr Svartsengisorkuverinu og Reykjaneshverunum stíga til lofts og utar rís Eldey úr hafi. Nær okkur, í sömu átt, er gamla dyngjan Þráinskjöldur sem fyrir 10.000 árum spjó hrauninu sem Voga- og Vatnsleysustrandar-byggð stendur á. Svo fylgjum við sjóndeildarhringnum áfram réttsælis og lítum flatt Miðnesið, síðan Faxaflóann og fallegan Snæfellsjökulinn og loks allan fjallgarðinn til norðurs og austurs, meira að segja Baulu (934 m) í Borgarfirði ef vel er að gáð. Þarna fyrir fótum okkar liggur svo Straumsvíkin og Reykjavíkin, og, og, …Við skrifum nöfnin okkar í gestabókina áður en við höldum niður af toppnum. Á fjallinu hefur verið gestabók síðan árið 1976 og sem dæmi um gestaganginn voru 116 nöfn skráð í bókina á einni viku nú í byrjun sumars.
Selsvellir-901Frá Keilisrótum þrömmum við svo um Þórustaðastíg fram hjá Melhóli og í átt að Driffelli. Stígurinn liggur frá byggð á Vatnsleysuströnd og allt að Vigdísarvöllum og var töluvert notaður fram eftir nýliðinni öld. Viðnorðurenda fellsins er hár og stórbrotinn hraunkantur sem gaman er að skoða á leið okkar austur og suður með fellinu. Þegar við komum á móts við stóra gíginn við norðurenda Selsvalla, en þeir liggja suður af Höskuldarvöllum eins og fyrr segir, förum við yfir hraunhaft sem mótað er af umferð hesta og manna. Stóri, fallegi, gígurinn heitir Moshóll (nýlegt örnefni) og talið er að gosið úr honum sé það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraunið. Við hættum nú að fylgja Þórustaðastígnum sem liggur þarna þvert yfir á Selsvallafjall en göngum heldur suður að Selsvallaseli. Rústirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið a.m.k. þrjá kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Í bréfi frá séra eir Bachmann Staðarpresti til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um Selsvellir-906500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli.
Við höldum nú til baka að Moshóli en í leiðinni lítum við aðeins á eldgamlar tóftir upp við fjallsræturnar, þær liggja fast norðan við syðri lækinn sem rennur um Selsvellina. Frá Moshóli göngum við svo yfir okkuð greiðfært hraun norður að Hvernum eina sem nú er nánast útdauður. Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga um aldamótin 1900 og þegar Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um svæðið árið 1888 sagði hann hveraskálina um 14 fet í þvermál, „…sjóðandi leirhver. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega úr Reykjavík.“ Frá Hvernum eina stikum við svo yfir hraunið og upp í gígskreytta fjallshlíðina fyrir ofan nýju hitaveituborholuna og fylgjum Sogalæknum upp að Sogaseli sem liggur Hverinneini-901fast norðan við lækinn. Selrústirnar eru inni í mjög fallegum, stórum, gömlum gíg sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Í Sogaseli höfðu bændur í Kálfatjarnarhverfi á Vatnsleysuströnd og jafnvel úr Krýsuvík selstöðu og þar sjást margar kofatóftir og kví undir vestari hamraveggnum.
Frá Sogaselsgígnum fylgjum við svo læknum áfram inn í Sogin sem eru djúp gil sem aðgreina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til. Mikil litadýrð er í Sogunum og jarðhiti hefur verið mikil þar fyrrum og sést eima af enn. Frá Sogum gætum við svo gengið upp á Grænudyngju og litið ofan af henni yfir Móhálsadal, Djúpavatn og Sveifluháls en við kjósum heldur lægri veg og förum milli trolladyngja-901Dyngna um Söðul sem er lágur háls sem þverar skarðið milli fjallanna. Þegar upp úr Sogum er komið eru grasi grónar brekkur beggja vegna og hæg gata allt niður á hraunið norðvestan Dyngjuhálsins. Þarna til vinstri handar stendur svo Eldborg (eldra örnefni er Ketill), fyrrum falleg en nú í rúst eftir margra ára efnistöku. Fyrir spjöllin var gígurinn um 20 m hár og gígskálin djúp og nokkuð gróin. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: ‚‚Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er yngra en Afstapahraun.“ Afstapahraunið er frá sögulegum tíma eins og nefnt var hér á undan. Töluverður jarðhiti er í og við Eldborgina og heitir hitasvæðið rétt suðvestur af henni Jónsbrennur. Nú göngum við á Eldborgarhrauninu um slóð sem liggur austur með gígnum og norður að Vestra-Lambafelli sem umlukið er hraunum úr borginni. Við höldum vestur með fellinu að norðurenda þess og þar göngum við skyndilega inn í ævintýralegt umhverfi, fyrst verða fyrir dökkir klettar og síðan göng beint inn í fjallið. Þetta er hin stórbrotna Lambafellsgjá og dulúð fellsins hvetur okkur til þess að ganga inn í risastórt anddyrið. Það er vel ratljóst inn í fellinu því langt fyrir ofan okkar þröngvar dagsljósið sér niður bólstrabergsveggina sem eru 20–25 m háir. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst eða 1–3 m á breidd en víkkar þegar ofar dregur. Lengd sprungunnar er um 150 m og fyrstu metrana göngum við á jafnsléttu en lambagja-901svo tekur við grjót- og moldarskriða (stundum snjóskafl) sem leiðir okkur upp úr „álfheimum“ og á lítinn grasblett sem gott er að hvílast á. Á meðan við maulum úr nestisboxunum skoðum við umhverfið frá þessum notalega stað á fellinu miðju.Þarna norður af liggja Einihlíðarnar og rétt vestan þeirra Mosastígur sem lá um Mosana og síðan niður að Hraunabæjum sunnan Hafnarfjarðar. Stígurinn var einn angi „gatnakerfis“ um hálsana sem nefnt var Hálsagötur fyrrum en um þær fór fólk úr aðligggjandi byggðum svo sem Krísuvík, Vigdísarvöllum, Selatöngum (ver), Grindavík, Suðurnesjum, Vatnsleysuströnd, Hraunum og Hafnarfirði. Til austurs sjáum við svo Mávahlíðar, gamla gígaröð, en til vesturs liggur úfið Eldborgarhraunið allt að Snókafelli sem við ókum hjá á leiðinni hingað upp eftir. Endur fyrir löngu hefðum við getað séð hreindýrahjarðir á þessum slóðum því á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarð og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um hálsana hér og allt austur í Ölfus. Vesturslóðir þeirra voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860 og 70 sáust á þessu svæði um 35 dýr. Um aldamótin 1900 voru öll hreindýrin hér suðvestanlands útdauð og þá líklega vegna ofveiði.
Við ljúkum þessum skemmtilega hring um Keilis- og Dyngjusvæðið með því að ganga götuna til baka að Eldborginni sem vissulega man sinn fífil fegurri.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Umhverfis Keili, Sesselja Guðmundsdóttir, 11. ágúst 2001, bls. 10.

Keilir

Keilir.