Færslur

FERLIR

Ómar Smári Ármannsson skrifaði um “Hina vanmetnu útivistarperlu Reykjanesskagans” í Fjarðarpóstinn árið 2004:

Grindavíkurfé

Grindavíkurá.

“Það er svo margt smálegt sem hægt er að gleðja sig við á hverjum degi” varð manni nokkrum að orði er kunni að njóta umhverfisins, náttúrunnar og lífsins. Hann gerði sér grein fyrir áhrifum lífssteinsins að vori, yl sumarsins, litadýrðinni að hausti og fegurð sólsetursins að vetri.

Grindarskörð

Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.

Þekkt er og sagan af manninum, sem dó eftir að hafa þrælað allt sitt líf og safnað fyrir öllu öðru en því sem hann þráði; kyrrð og ró. Hann skyldi eftir sig auðlegð, sem var önnur en sú er hann leitaði að; auðlegðinni í tilgangi lífsins. Vitað er að hún verður ekki keypt fyrir peninga. Hún er ókeypis; hún er falin í skilningi og nálgun. Sá svartsýni segir venjulega: „Það er ský fyrir sólinni”. Sá bjartsýni segir hins vegar: „Það er sól á bak við skýin”. Margir leita mikillar gleði á sem skemmstum tíma og kosta til þess miklu fé. Í dag virðist lífið þeirra einungis snúast um fundið fé í formi hlutabréfa og happdrætta. Hér áður fyrr var lífið mun erfiðara, en einnig einfaldara. Það fólst einungis í tvennu; feitu fé og fenginn fisk. En hefur tilgangur lífsins í raun breyst svo mikið frá því sem þá var?

Selatangar

Selatangar – Uppdráttur ÓSÁ.

Á Reykjanesskaganum búa nú rúmlega tvö hundruð þúsund manns. Einungis örfáir gera sér grein fyrir verðmætum svæðisins hvað varðar útivist og sögu – og nálgun lífsgilda. Þar eru hinar merkustu fornminjar, sögulegar minjar eru hvert sem farið er þar sem lesa má búsetu- og atvinnusögu svæðisins allt frá landnámi norrænna manna til okkar daga, að ógleymdum stórbrotum útivistarsvæðum. Um fimmtán hraunanna hafa runnið á sögulegum tíma. Í þeim má og finna fjölmarga hella og hraunskjól með ómetanlegum dýrgripum. Í þeim eru fjölbreytilegar mannvistarleifar. Þjóðsögulegir staðir eru margir og tilvist þeirra sýnilegir sem og staðir þar sem draugasögur eiga uppruna sinn. Þar er fegurðin hvert sem litið er.

Húshólmi

Húshólmi – Uppdráttur ÓSÁ.

Fjöldi mannvistarleifa

Til glöggvunar þeim, sem ekki til þekkja, þá má finna á Reykjanesskaganum leifar um 140 selja og selstöðumannvirkja, þ.e. bygginga, fjárskjóla, vatnsstæða, stekkja, kvía, nátthaga og rétta, 78 letursteina, 132 vörður er tengjast sögum og sögnum, 152 gamlar leiðir á milli byggðarlaga eða einstakra áfangastaða, 72 fjárborgir, 83 gamlar réttir, 82 gamla brunna og vatnsstæði, 23 hlaðnar refagildrur, 272 sæluhús og aðrar merkilegar tóftir, 350 hella og hraunskjól, vita, dali, fjöll, strandir, hamra, hraun læki, dýralíf, gróður, auk fagurrar náttúru og tilkomumikils umhverfis.

Ekkert áhugavert að sjá?

Selsvellir

Selin á Selsvöllum. Uppdráttur ÓSÁ.

Því miður eru margir enn með sama viðhorf gagnvart Reykjanesinu og náttúrufræðingurinn Sveinn Pálsson árið 1794 er hann sagði það „ömurlegt á að líta, þar væri auðn og ekkert áhugavert að sjá”. Þeir, sem hafa gengið um svæðið og kynnt sér verðmæti þess vita hins vegar að raunin er önnur. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem merkilegast getur talist hér á landi. Það er í nánd við fjölmennasta þéttbýli landsins, aðstaða er fyrir hendi til að taka við áhugasömu fólki, tilefnin eru ærin og fjölmargt að skoða og sagan er svo til við hvert fótmál.

Út og skoðið!

Selvogsheiði

Selvogsheiði – minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Minjasvæðin í Selvogi, í Herdísarvík, í Klofningum, í Krýsuvík, við Selöldu, í Húshólma, í Grindavík, í gömlu Höfnum, við Ósabotna, Básenda, Stafnes, Fuglavík, Sandgerði, Garð, Njarðvík, Stapa, í Vatnsleysuheiðinni, Hraunum, Selgjá og í upplandi Almenninga, Undirhlíða, Lönguhlíða, Brennisteinsfjalla, Austurháls og Vesturháls að ógleymdu Fagradalsfjalli, eru ógleymanleg þeim er þangað hafa komið.
Undirritaður vill hvetja alla þá, sem unna útivist, hreyfingu og áhuga á söguskoðun að kynna sér möguleika Reykjanesskagans – fegurð hans jafnt sem fjölbreytni.” – ÓSÁ

Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 8. tölublað (26.02.2004), Ómar Smári Ármannsson, Reykjanesskaginn – vanmetin útivistarperla, bls. 6.

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá. Uppdráttur ÓSÁ.

Hópefli

Kári Jónason skrifaði um útivistar- og virkjanamöguleika á Reykjanesskaga í Fréttablaðið þann 8. september 2006:
Svartsengi“Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.
Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.
Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru. Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði Hellurum miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði. Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.
Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu. Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.
Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krísuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.”

Heimild:
-Útivistar- og virkjanamöguleikar geta farið saman – Reykjanesskagi – Kári Jónasson skrifar – Fréttablaðið 8. september 2006, bls. 24.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik – www.ferlir.is

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.