Ómar Smári Ármannsson skrifaði um “Hina vanmetnu útivistarperlu Reykjanesskagans” í Fjarðarpóstinn árið 2004:
“Það er svo margt smálegt sem hægt er að gleðja sig við á hverjum degi” varð manni nokkrum að orði er kunni að njóta umhverfisins, náttúrunnar og lífsins. Hann gerði sér grein fyrir áhrifum lífssteinsins að vori, yl sumarsins, litadýrðinni að hausti og fegurð sólsetursins að vetri.
Þekkt er og sagan af manninum, sem dó eftir að hafa þrælað allt sitt líf og safnað fyrir öllu öðru en því sem hann þráði; kyrrð og ró. Hann skyldi eftir sig auðlegð, sem var önnur en sú er hann leitaði að; auðlegðinni í tilgangi lífsins. Vitað er að hún verður ekki keypt fyrir peninga. Hún er ókeypis; hún er falin í skilningi og nálgun. Sá svartsýni segir venjulega: „Það er ský fyrir sólinni”. Sá bjartsýni segir hins vegar: „Það er sól á bak við skýin”. Margir leita mikillar gleði á sem skemmstum tíma og kosta til þess miklu fé. Í dag virðist lífið þeirra einungis snúast um fundið fé í formi hlutabréfa og happdrætta. Hér áður fyrr var lífið mun erfiðara, en einnig einfaldara. Það fólst einungis í tvennu; feitu fé og fenginn fisk. En hefur tilgangur lífsins í raun breyst svo mikið frá því sem þá var?
Á Reykjanesskaganum búa nú rúmlega tvö hundruð þúsund manns. Einungis örfáir gera sér grein fyrir verðmætum svæðisins hvað varðar útivist og sögu – og nálgun lífsgilda. Þar eru hinar merkustu fornminjar, sögulegar minjar eru hvert sem farið er þar sem lesa má búsetu- og atvinnusögu svæðisins allt frá landnámi norrænna manna til okkar daga, að ógleymdum stórbrotum útivistarsvæðum. Um fimmtán hraunanna hafa runnið á sögulegum tíma. Í þeim má og finna fjölmarga hella og hraunskjól með ómetanlegum dýrgripum. Í þeim eru fjölbreytilegar mannvistarleifar. Þjóðsögulegir staðir eru margir og tilvist þeirra sýnilegir sem og staðir þar sem draugasögur eiga uppruna sinn. Þar er fegurðin hvert sem litið er.
Fjöldi mannvistarleifa
Til glöggvunar þeim, sem ekki til þekkja, þá má finna á Reykjanesskaganum leifar um 140 selja og selstöðumannvirkja, þ.e. bygginga, fjárskjóla, vatnsstæða, stekkja, kvía, nátthaga og rétta, 78 letursteina, 132 vörður er tengjast sögum og sögnum, 152 gamlar leiðir á milli byggðarlaga eða einstakra áfangastaða, 72 fjárborgir, 83 gamlar réttir, 82 gamla brunna og vatnsstæði, 23 hlaðnar refagildrur, 272 sæluhús og aðrar merkilegar tóftir, 350 hella og hraunskjól, vita, dali, fjöll, strandir, hamra, hraun læki, dýralíf, gróður, auk fagurrar náttúru og tilkomumikils umhverfis.
Ekkert áhugavert að sjá?
Því miður eru margir enn með sama viðhorf gagnvart Reykjanesinu og náttúrufræðingurinn Sveinn Pálsson árið 1794 er hann sagði það „ömurlegt á að líta, þar væri auðn og ekkert áhugavert að sjá”. Þeir, sem hafa gengið um svæðið og kynnt sér verðmæti þess vita hins vegar að raunin er önnur. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem merkilegast getur talist hér á landi. Það er í nánd við fjölmennasta þéttbýli landsins, aðstaða er fyrir hendi til að taka við áhugasömu fólki, tilefnin eru ærin og fjölmargt að skoða og sagan er svo til við hvert fótmál.
Út og skoðið!
Minjasvæðin í Selvogi, í Herdísarvík, í Klofningum, í Krýsuvík, við Selöldu, í Húshólma, í Grindavík, í gömlu Höfnum, við Ósabotna, Básenda, Stafnes, Fuglavík, Sandgerði, Garð, Njarðvík, Stapa, í Vatnsleysuheiðinni, Hraunum, Selgjá og í upplandi Almenninga, Undirhlíða, Lönguhlíða, Brennisteinsfjalla, Austurháls og Vesturháls að ógleymdu Fagradalsfjalli, eru ógleymanleg þeim er þangað hafa komið.
Undirritaður vill hvetja alla þá, sem unna útivist, hreyfingu og áhuga á söguskoðun að kynna sér möguleika Reykjanesskagans – fegurð hans jafnt sem fjölbreytni.” – ÓSÁ
Heimild:
-Fjarðarpósturinn – 8. tölublað (26.02.2004), Ómar Smári Ármannsson, Reykjanesskaginn – vanmetin útivistarperla, bls. 6.