Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um „Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd„.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi.

Brunnastðahverfi

Í Brunnastðahverfi – Suðurkot t.v. og Efri-Brunnastaðatir t.h.

Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.“

-Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
„1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
Landakot1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“

Landakot

Landakot 2020.

„Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu.
Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS.

Landakot

Gata.

„Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“

Landakot

Gata.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. “ Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1928 kvæntist Guðni Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt.

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti:

Landakot

Landakot – túngarður.

„Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd“.

Í „Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd“ eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
„Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru „kreppuárin“ farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.“

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Suðurkot

Í Morgunblaðinu árið 1991 er minningargrein um Þórdísi Símonardóttur í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Minningar afkomenda hennar lýsa vel stöðu kvenna sem og gefandi mannlífinu á Ströndinni um og í kringum aldarmótin 1900:

Þórdís Símonardóttir

Þórdís Símonardóttir (1894-1991).

„Þórdís Símonardóttir fæddist árið 1894 að Götu í Holtum, dóttir hjónanna Gróu Guðmundsdóttur og Símonar Símonarsonar. Systkini Þórdísar voru átta, sex bræður og tvær systur. Ung að aldri fluttist hún með foreldrum sínum suður á Miðnes og síðan á Vatnsleysuströnd þar sem hún bjó alla tíð síðan. Giftist hún afa mínum, Kristjáni Hannessyni, átján ára gömul og bjó hún með honum lengst af í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Eignuðust þau átta börn.
Það var gott að geta farið til ömmu, yfir í Suðurkotið, í frímínútum þegar ég var í Brunnastaðaskólanum. Hún átti alltaf eitthvað í svanginn, góð ráð, plástra og í raun hvað eina sem á þurfti að halda. Á seinni árum barnaskólans fór ég að fara oftar til ömmu og gista hjá henni nótt og nótt. Það var svo sannarlega ekki bara af skyldurækni, vegna þess að hún var orðin gömul og ein í húsinu, heldur miklu frekar vegna þess að ég hafði ómælt gaman af. Það fór ekki illa um mig þegar hún bar mér heitt súkkulaði í „beddann“ á sunnudögum eða þegar hún klóraði mér og sagði mér jafnframt sögur úr Biblíunni eða frá fyrri árum.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli (Brunnastaðaskóli). Suðurkotsskóli var byggður 1872.
Árið 1938 breytir Suðurkotsskóli um nafn og heitir eftir það Brunnastaðaskóli.

Það hefur verið góður skóli fyrir mig sem krakka að heyra hve margt hafði breyst á hennar löngu ævi, og oft hefur verið þröngt í búi hjá henni blessaðri, sem upplifði tvær heimsstyrjaldir og þær geysilegu breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðlífi á ævi hennar.
Hún var ekki rík af veraldlegum auði, en þeim mun ríkari af andlegum, sem við afkomendur hennar fengum svo sannarlega að kynnast. Ég mun líka seint gleyma því þegar hún kenndi mér að verka grásleppur, í Norðurkotinu, þegar ég strákguttinn tók upp á því að vilja framleiða signar grásleppur eftir að hafa sníkt þær af grásleppukörlunum í hverfinu. Það var líka ómæld elja sem einkenndi hana. Við munum örugglega mörg eftir henni þar sem hún studdi sig við hækjuna og bakaði flatkökur á gömlu eldavélinni sinni.
Þórdís SímonardóttirEn svo fór þó að hún gat ekki lengur verið í Suðurkoti og flutti hún sig því um set í Vogana til okkar. Alltaf fylgdi góða skapið henni og var hún oft skondin og snögg í tilsvörum. Henni fannst það óþarfa uppátæki þegar ég tók upp á því að fara til náms í Þýskalandi og spurði hún mig oft, með stríðnissvip, hvort ég hefði nokkuð rekist á hann Hitler. Alltaf þekkti hún mig og gat gert að gamni sínu þegar ég heimsótti hana.
Brunnastaðaskóli var þinghús hreppsins á þeim tíma, og allar samkomur og skemmtanir fóru þar fram. Segja má að menningarstraumar hreppsins hafi legið í gegnum Suðurkotshlaðið og kom þá oft í ömmu hlut að sjá um veitingar fyrir þá embættismenn sem þinguðu i skólanum. Oft var því mikið að gera og margt um manninn í Suðurkoti. Það voru margar flatkökurnar sem hún bakaði á gömlu olíueldavélinni sinni, því að flatkökurnar hennar Dísu voru bestar af öllum.
SuðurkotEins var það, þegar krakkarnir meiddu sig í skólanum, þá var alltaf farið til hennar Dísu á Hól og hún látin gera að sárunum. Eftir að afi dó flutti ég niður til ömmu. Ég man þegar hún vakti mig í fyrsta skipti eldsnemma á páskadagsmorgun til að sýna mér, hvernig sólin kæmi dansandi upp frá Keili. Hún sagði að sólin dansaði alltaf þennan morgun til að fagna upprisu frelsarans.
Upp frá því vöknuðum við amma alltaf saman þennan morgun og horfðum á þessa stórkostlegu sjón.

Suðurkot

Suðurkotshúsið núverandi var byggt 1930.

Það var alltaf fastur siður hjá okkur að draga mannakorn sem svo eru kölluð áður en við fórum að sofa á kvöldin. Þá drógum við til skiptis upp úr kassanum og hún las svo þær ritningargreinar, sem við hittum á. Oft fengust þar beinlínis svör við því sem við vorum að hugsa um þá stundina. Alltaf talaði hún amma lengi við Guð persónulega upphátt á hvetju kvöldi áður en hún lagðist til svefns og eins áður en hún klæddist á morgnana. Lengi rak hún sunnudagaskóla með ömmu í Austurkoti og systrunum Maríu og Margréti.
Það var stór barnahópur sem þangað kom. Mikið var sungið og lesið þessar sunnudagsstundir og öllum þótti gaman. Alltaf gátum við systkinin komið til hennar ömmu með áhyggjur okkar og vandamál, því að hún hlustaði alltaf og gaf góð ráð. Svo voru líka þær stundir þar sem var hlegið og gert að gamni sínu, því að amma var mjög létt í skapi og gat hlegið mikið.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ. Grund er efst á uppdrættinum.

Þórdís og Kristján byrjuðu búskap á Grund. Það var lítill bær á Tanganum þ.e. Béringstanga. Þar fæddust fimm elstu börnin en 1922 var flutt inn í Suðurkot og byggður þar bær. Þar fæddust tvö börn til viðbótar. 1930 var byggt húsið sem enn stendur og þar fæddist yngsta barnið.
Á Grund var það sem kallað var tómthús, þ.e. eingöngu búið með kindur. Sjálfsagt hafa þær ekki verið margar. Það var sjávarfangið sem þetta fólk lifði á, sem bjó í þessum litlu bæjum. Því alls staðar var róið. Það var ekki svo aumt kot að ekki væri til bátur.
Ég er stundum að hugsa um hvernig þetta fólk komst fyrir. Það var bókstaflega ekkert gólfpláss eins og í gamla bænum í Suðurkoti, en samt var eins og alltaf væri nóg pláss. Það var leikið sér þarna, inni gengið í kringum jólatré um jólin, sungið og spilað. Dísa og Stjáni, eins og ég kallaði þau alltaf, voru ákaflega létt í lund og þar sem foreldrar mínir bjuggu á hinum helmingi jarðarinnar var þarna mikill samgangur og við frændsystkinin lékum okkur saman. Það er margs að minnast frá mínum æskudögum í Brunnastaðahverfinu. Þá voru 11 bæir og sums staðar fjölmenn heimili, fólk rétti hvort öðru hjálparhönd ef með þurfti, þess er gott að minnast.
SuðurkotÞað er stór hópur afkomenda þeirra Þórdísar og Kristjáns, alls 130 manns. Það er mikið starf sem þessi kona hefur innt af hendi á sinni löngu ævi, lengst af við engin þægindi í þröngum húsakynnum mörg fyrstu búskaparárin. Því það voru ekki eingöngu innistörf, það var verið í heyskap og farið í fjós. Það var alltaf góður andi á heimilinu, þau voru bæði létt í lund, ég man hvað hann Stjáni gat hlegið innilega.
Í Suðurkoti var Þórdís búin að vera húsmóðir í rösk 60 ár. Kristján andaðist 10. nóvember 1961, eftir það var hún ein í sinni íbúð. En síðustu 8 árin var hún til heimilis hjá Hrefnu dóttur sinni í Vogum.“

Heimild:
Morgunblaðið, 77. tbl. 06.04.1991, Þórdís Símonardóttir, Minning, bls. 45.

Suðurkotsskóli

Suðurkot og nágrenni – loftmynd 2024.

Stóra-Knarrarnes

Á Vatnsleysuströnd er bærinn „Stóra-Knarrarnes„, merkilegur sem og líkt sem og margir aðrir á Ströndinni.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – loftmynd.

„Um 1913 fóru að búa í Stóra-Knarrarnesi hjónin Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum og kona hans, Þuríður Guðmundsdóttir frá Bræðraparti í Vogum. Þau eignuðust 14 börn, sem öll voru dugmikil og erfðu hina góðu eiginleika foreldranna.
Árið 1926 byggði Ólafur Stóra-Knarrarnes, sem nú stendur. Þótti mörgum það bjartsýni af honum að leggja út í svo fjárfrekar framkvæmdir og þurfa á sama tíma að sjá fyrir stórri fjölskyldu.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; tóftir gamla bæjarins.

Eftir að Gamla Stóra-Knarrarnes fór í eyði var framangreint íbúðarhús byggt. Eftir að nýtt hús, Austurbærinn, var byggður, var það jafnan nefnt Vesturbærinn.
Lengi var Stóra-Knarrarnes tvíbýli, þ.e. Vesturbær og Austurbær, en Austurbær er nú Stóra-Knarrarnes 2. Árið 1920 átti hreppurinn Stóra-Knarrarnes 2 og leigði Benjamín Halldórssyni og hans konu, Þuríði Hallgrímsdóttur. Árið 1929 keypti Benjamín jörðina af hreppnum og byggði þá nýtt hús, það sem nú stendur.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes 2025.

Ekki hefur verið búið í Vesturbænum um langt skeið, en hann er nú að ganga í gegnum lífdaga. Löngum var við innganginn skjöldur með nöfnum og lífsdögum fyrstu ábúendanna, þeirra Þuríðar Guðmundsdóttur og Ólafs Péturssonar, en þegar húsið var klætt að utan hvarf skjöldurinn, illu heilli.

Þuríður Guðmundsdóttir

Þuríður Guðmundsdóttir (1891-1974).

Í Íslendingaþáttum Tímans árið 1974 fjallar Stefán Árnason m.a um Þuríði Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi. Í sama blaði er minningargrein um Ólaf Pétursson. Fróðlegt er að lesa minningar Stefáns um Þuríði því þær lýsa vel aðstæðum kvenna á Vatnsleysuströndinni beggja vegna aldarmótanna 1900, sem verður að þykja athyglisvert í ljósi þess að jafnan hefur þeim verið lýst frá sjónarhóli karla þar sem áherslan er nánast eingöngu lögð á reynslu þeirra af sjósókn og búskap á hrjóstugri Strönd.

„Foreldrar Þuríðar voru Guðmundur Bjarnason og Elín Ingibjörg Þorláksdóttir, talin vinnuhjú í Minni-Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. Var Guðmundur afburða sjómaður og formaður á skipi Egils bónda í Minni-Vogum. Árið 1890 stofna þau Elín og Guðmundur sitt eigið heimili en vinna áfram hjá Agli bónda. Árið 1891 fæddist fyrsta barn þeirra hjóna, það, sem hér verður sagt frá, Þuríður fædd 17. aprl 1891, dáin 25. febrúar 1974.

Bræðrapartur

Bræðrapartur í Vogum.

Árið 1896 flytja foreldrar Þuríðar að Bræðraparti, smábýli, er syðst stóð í Vogunum og búa þar alla sína tíð til 1928. Það ár deyr Guðmundur. Fjögur voru börn Elínar og Guðmundar: Þuríður, Guðbjörg og Bjarni, eitt barn misstu þau nýfætt. Öll voru börnin mikið manndóms fólk, vel uppalin og gædd óvenju mikilli háttvísi, að það var á orði haft og reglusemi og dugnaður fylgdist að.
Nú geri ég frávik á efninu. Við, sem förum í bíl suður veginn til Keflavíkur og lítum niður í Vogana í góðu veðri sjáum fallega byggð og viðsýni til allra átta. Gjörum okkur ljóst, að fyrir 80 árum var hér enginn vegur aðeins troðningur eftir hesta og menn.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – Vesturbær t.v. og Austurbær t.h.

Allir aðdrættir til heimilanna fóru sjóleiðina og það á opnum skipum. Ef eitthvað smátt vantaði var það sótt og borið á bakinu úr næsta kaupstað. En fólkið á Ströndinni, eins og það var kallað var gott og duglegt, lifði glatt við sitt og lét ekki erfiðleikana smækka sig. Árið 1908 varð breyting til hins betra. Þá komu vélbátar, 10 smálesta dekkbátar. Það gjörbreytti öllum flutningum. Þessir bátar voru með net á vetrarvertíð, en á vorin og sumrin mikið í vöruflutningum. Mest voru það Tumakotsbræður, sem voru í þessum flutningum og til gamans ætla ég að segja frá samtali gamals góðvinar míns, sem hefur unnið í einum af stærstu bönkum hér í Reykjavík. ,,Mig undraði oft, hvað Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum hafði mikil viðskipti við okkur og aldrei brást loforð hans. Þar fór bisnessmaður, sem Ólafur var”.

Knarranes

Knarrarnes – túnakort 1919. Hér má sjá bæði túnakort Stóru-Knarrarness og þess Minna…

Árið 1913 giftist Þuríður Ólafi Péturssyni frá Tumakoti og þar búa þau í eitt ár. Þröngt var fyrir tvö heimili og ungu hjónin dugmikil. Þau ráðast í að kaupa Stóra-Knarrarnes, sem var nokkuð stór jörð, mun betri og stórt tún. Ólafur vildi hafa sauðfé, þótti gaman að því og svo var hægt að hafa kýr líka. Í Knarrarnesi beið hjónanna mikið starf. Unga konan kunni góð skil á því, sem beið hennar.
Þuríður kom með heimanmund með sér í búið, sem öllu gulli er betra, gott uppeldi foreldra sinna, hógværð og prúða framkomu, sem af bar öðrum, enda mátti segja, að Þuríður væri hvort tveggja húsmóðirin og húsbóndinn og fór það vel. Ólafur vann utan heimilis síns oft og kom heim sem gestur. Hann treysti konu sinni vel, var viss um, að allt færi vel heima.
Þuríður GuðmundsdóttirÁrin fljúga áfram. Árið 1922 átti ég langt tal við Knarrarnes-hjónin um daginn og veginn. Umtalsefnið snerist um, að húsrými hjá þeim væri orðið þröngt. Bæjarhús voru gömul þegar þau fluttu í Knarrarnes og nú hrörleg orðin og þröng. Fjölskyldan hafði stækkað ört, óumflýjanlegt að byggja að nýju. Kom þá sér vel, að ólafur var útvegunarmaður góður, en erfitt með efniskaup. Farið var að huga að byggingu, þótt hægt gengi fyrst. En árið 1928 er gamli Knarrarnesbærinn horfinn og allt fólkið er komið í nýtt hús, sem þá þótti stórt og fallegt. Þuríður GuðmundsdóttirÁrið 1933 fæðist 14. barn hjónanna. Á því sést, að ekki var vanþörf á að byggja yfir fólkið. Mér fannst alveg undravert að koma til hjónanna á Knarrarnesi og gleðin yfir öllu fjölskyldulífi aðdáunarverð. Ég hef oft hugsað um þetta. Ég vona, að enginn misskilji mig þótt ég segi: Húsmóðirin átti mestan þátt í þessu með sinni mildi og sínu góða geði, að heimilið var helgur og friðsæll staður. Ég þykist tala hér af kunnugleika. Þó bar af einn dagur í lífi þessarar fjölskyldu, sem ég gleymi aldrei. Árið 1947 var ég og konan mín, sem var systir ólafs, gestir í Knarrarnesi í tilefni fermingar yngsta barns hjónanna. Börnin voru 13 viðstödd, sum gift, öll fullvaxin, fermingarbarnið eins stórt og hin. Þetta var allt svo fallegt og myndarlegt, börnin og tengdabörnin. Þetta var dagur, sem aldrei gleymist. Hver skilar meiri auði til sinnar þjóðar en svona hjón.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; gamli bærinn.

Elzta barn hjónanna var alið upp hjá afa og ömmu í Bræðraparti á meðan þau bjuggu, en eftir lát afa síns ólst það upp hjá móðursystur, Guðbjörgu. Það var kærleikur mikill með systrunum um kvöldið þessarar ánægjulegu hátíðar, og gestir voru að kveðja húsfrúna hægu, með sitt góða viðmót, sem henni var svo eðlilegt, þakklát við allt og alla. En bezt hefur hún þakkað guði sínum og herra fyrir allar gjafirnar og lífið, sem hún hefur fengið að njóta við hið mikla starf sitt. Þrjátíu og fjögur ár eru síðan hún byrjaði búskap. Var verið að ferma síðasta barnið þeirra, sem var það fjórtánda. Mikill dagur er liðinn. Þuríður hefur hugsað margt þetta kvöld, þegar kyrrð var komin og tímamót í ævi þessarar konu. Hvað bíður? Ólafur er farinn að þreytast. Hann vinnur mikið við heimilið. Börnin öll farin að vinna fyrir löngu, sum búin að stofna sín heimili, önnur vinna utan heimilisins, en eru hjá foreldrunum.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; brunnur.

Búskap er haldið áfram í Knarrarnesi, útihúsin byggð að nýju, fjós, heyhlaða og fjárhús, engin gömul hús eftir, sem voru þegar hjónin keyptu jörðina. En þrátt fyrir þessa velmegun, sem orðin var, var annað, sem breyttist. Glaði hljómurinn hljóðnaður. Börnin voru flest farin til sinna heimila. Svona er líf mannanna barna.
Nú var lúi og lasleiki farinn að gera vart við sig. Árið 1963 að hausti fóru hjónin til Hrefnu dóttur sinnar, sem eftirlét þeim húspláss. Þuríður þurfti á sjúkrahússvist að halda. Svo þau voru þar um veturinn. Um vorið 1964 fóru þau heim í Knarrarnes. Þá var Ólafur orðinn veill á heilsu, sem ágerðist fljótt. Svo varð hann að fara á sjúkrahús. Þetta leiddi hann til bana. Hann dó 11. október 1964.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes 1959.

Nú er svo komið að í Knarrarnesi er Þuríður og sonur hennar orðin ein eins og verða vill. Var hún þar áfram þar til 1971 að hún fór til Reykjavikur á sjúkrahús i nokkrar vikur. Þegar Þuríður var orðin hress heimsótti ég hana og töluðum við um liðinn tíma. Var grunur hennar sá, að vera hennar í Knarrarnesi mundi ekki verða löng úr þessu. „Þú ert nú búin að vinna mikið ævistarf, Þuríður, ertu ekki ánægð með það?” Hún svaraði stillt að vanda: ,,Jú, víst er ég það. Guð hefur gefið mér mikið, góðan og duglegan maka, 14 elskuleg og góð börn og tengdabörn, 42 barnabörn og 14 barnabarnabörn, ég gæti ekki hugsað mér neitt betra, Þetta er allt svo elskulegt við mig og hjálpsamt. Ég get ekki lýst því með orðum. En það mótdræga var ekki meira en gengur og gerist í mannlegu lifi. Ef ég á að nefna eitthvað sérstakt er það sjóslysið mikla 12. marz 1928 í mannskaðaveðri, þegar Bjarni bóðir minn fórst með skipi sínu og allri skipshöfn sinni. Þá áttu margir um sárt að binda, og svo þegar við misstum drenginn okkar, hann ólaf, nýfermdan. Það var sárt. En guð gaf mér svo mikið.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes 1962.

Það fór nú svo, að Þuríður fór ekki aftur heim af heilsufarsástæðum, var í húsi Hrefnu dóttur sinnar og leið vel, umvafin af góðleik fjölskyldu sinnar, fór í smáferðir sér til skemmtunar og hafði gaman af. Í miðjum ágúst gat Þuríður ekki verið ein án hjálpar, fór hún þá til dóttur sinnar, Hrefnu og manns hennar, Ólafs Björnssonar útgerðarmanns, Heiðarbrún 9 Keflavik, og var þar það sem eftir var lífdaga. Þuríður fékk þar svo góða hjúkrun og alla meðhöndiun, að ekki er hægt að lýsa því eða þakka eins og vert væri. Þrekið var búið en andleg skynjun ekki. Til marks um andlegt skyn er það, að síðasta dag, sem hún lifði, talaði hún við tengdason sinn, spurði um aflabrögð og hvort öllum liði vel. Það var hennar mesta gleði að öllum liði vel. Næsta morgun var komin breyting, endir var fyrirsjáanlegur. Nokkur börn hennar og tengdabörn voru við banabeð hennar. Ein dóttirin hélt i hönd móður sinnar. Þuríður lagði hönd á brjóst sér til merkis um sársauka. Lífsþráðurinn var slitinn. Góð kona er farin úr þessum heimi.“ – Stefán Árnason.

Lýsing Stefáns er fróðleg, ekki síst vegna lífssögu dæmigerðrar eiginkonu, móður og bústýru á Ströndinni á hennar tíma sem og óhjákvæmilegum lífslokum hverrar manneskju.

Ólafur Péturson

Ólafur Pétursson (1884-1964).

Ólafur Pétursson var fæddur í Tumakoti í Vogum, sonur hjónanna Péturs Andréssonar og Guðrúnar Eyjólfsdóttur. Ólst hann þar upp í hópi átta barna þeirra hjóna, bræðurnir voru fimm, systurnar þrjár. Ungt fólk getur varla trúað því, að hjón, sem bjuggu á lítilli jörð, hafi alið upp stóran hóp barna án styrks. Á þessum árum voru hin mestu harðindaár 1875 til 1902. Öll voru Tumakotsbörnin myndarlegt folk og afburða dugleg. Fjórir af bræðrunum ólu allan sinn aldur i Vatnsleysustrandarhreppi, Benedikt í Suðurkoti, Andrés í Nýjabæ, Eyjólfur í Tumakoti og Ólafur á Knarrarnesi.
Fimmti bróðirinn, Ingvar, flutist ungur til Hafnarfjarðar og giftist þar og stofnaði heimili. Hann fórst með kútter „Geir” árið 1912, er týndist í hafi með allri áhöfn. Systurnar, Petrina fluttist til Ameríku (Kanada) árið 1900 en Elísabet og Guðlaug fluttust til Reykjavikur og stofnuðu sín heimili þar.
Árið 1913 giftist Ólafur Pétursson Þuríði Guðmundsdóttur frá Bræðraparti í Vogum, mikilli myndar- og dugnaðarkonu. Eitt ár búa þau í Tumakoti, næsta ár festa þau kaup á jörðinni Stóra-Knarrarnesi og búa þar í fulla hálfa öld. Knarrarnes var mun betri bújörð.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; loftmynd.

Jörðin var nytjuð sem hægt var. Sjór stundaður á vetrarvertíð og alltaf þegar hægt var. Heimilisfólkinu fjölgaði ört. Ólafur var framsækinn og duglegur, sá að meira þurfti til en það, sem heima var hægt að hafa. Ólafur bjó ekki einn. Þuríður, þessi mikla dugnaðarkona, tók við allri stjórn á heimilinu. Ólafur leitaði til vinnu utan heimilis. Honum varð vel til með vinnu, þekkti marga vinnuveitendur, auk þess hörkuduglegur, en fast var sótt vinnan og stundum langt. Helztu staðir voru Vogar, Keflavík, Sandgerði, Grindavík og fleiri staðir.
Allt fór vel í Knarrarnesi, húsmóðirin sá fyrir því með hjálp barnanna, sem voru nú óðum að vaxa og komu ótrúlega fljótt til að létta undir með foreldrum sínum. Börn Knarrarneshjónanna urðu fjórtán, en þau urðu fyrir þeirri sorg að missa einn son sinn stuttu eftir fermingu. Það mun hafa orðið hjónunum þungt. En Ólafur og Þuríður báru ekki sorg sína á veg út. Þrettán börn lifa föður sinn, öll uppkomin, myndarlegt og duglegt fólk. Flest eru þau búin að stofna sín eigin heimili og vegnar vel, enda tengdabörnin sérstaklega góð og myndarleg.“

Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 287-289.
-Íslendingaþættir Tímans, 13. tbl. 25.05.1974, Þuríður Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi, Stefán Árnason, bls. 8-9.

Stóra-Knarrarnes

Stóra- og Minni-Knarrarnes – túnakort lagt yfir loftmynd.

Halakot

Í Víkurfréttum 1998 segir af „Aldargömlum báti endurbyggðum„. Um er að ræða svonefndan „Halakotsbát„, sem allt og fáar sagnir eru til um – en er þó samt sem áður enn til:

Halakot

Halakotsbáturinn.

Ragnar Ágústsson í Halakoti á Vatnsleysuströnd hefur látið endurbyggja nær aldargamlan bát og hefur komið honum fyrir á túninu við heimili sitt. Báturinn, tveggja manna far, var smíðaður árið 1902 af Guðmundi Jónssyni bátasmið og er báturinn með sunnulenska laginu. Guðmundur var mikill hagleikssmiður og segir Ragnar að báturinn sé mjög vandaður. Báturinn var gerður út frá Halakoti. Honum var róið á haustin en einnig á gráslepputímanum. Gert var að fisknum á klöppunum í fjörunni og hann saltaður í húsi í fjörukambinum. Stærri bátar voru síðan á sjálfri vertíðinni.

Kálfatjarnarbátur

Kálfatjarnarbáturinn t.v. og Halakotsbáturinn t.h. í sjávarhúsinu ofan Halakotsvarar.

Ragnar sagði að þessi bátur hafi verið mikið notaður í ferðir frá Halakoti á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar, þar sem að í þá daga hafi ekki verið kominn vegur frá Hafnarfirði til Keflavíkur og samgöngur á sjó því verið fljótlegri en að fara á hestum yfir hraunið.

Í sjóhúsinu eru bæði Halakotsbáturinn og Kálfatjarnarbáturinn, sem er í eigu Minjafélags Vatnsleysustrandarhrepps.

Heimild:
-Víkurfréttir, 26. tbl. 02.07.1998, Aladargamall bátur endurbyggður, bls. 4.

Halakot

Halakotsbáturinn t.v. og Kálfatjarnarbáturinn t.h.

Kálfatjörn

Adolf Björnsson skrifaði um „Eirík Björnsson“ í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd í Íslendingaþætti Tímans árið 1973. Minningin lýsir að nokkru aðstæðum og mannlífi á Ströndinni á fyrri hluta síðustu aldar:

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

„Heiðurshjónin Halla Matthíasdóttur og Björn Jónsson og fluttust frá Norðurkoti á Vatnsleysuströnd árið 1922 til Hafnarfjarðar og ólu þar aldur sinn til æviloka. Þau lifðu bæði til hárrar elli.
Í Hafnarfirði reistu þau lágreist íbúðarhús í vesturbænum. Takmarkaður fjárhagur leyfði ekki að byggja nema við þröngan kost, svo ekki var hátt til lofts né vitt til veggja, og börnin voru þrjú og því strax þröngt i hinum snotru húsakynnum Norðurkotshjónanna frá Vatnsleysuströnd.
Þau Halla og Björn voru bæði roskin að aldri, er þau fluttust til Hafnarfjarðar, vinnulúin og starfsslitin eftir áratuga stranga og óblíða baráttu við fátækt og oft á tíðum bjargarskort, en ávallt voru þau lifsglöð og trúuð á betri tíma og bjartari framtíð komandi kynslóða.

Eiríkur Björnsson

Eiríkur Björnsson (1899-1973).

Á Vatnsleysuströnd var um aldamótin og reyndar löngum fyrr og síðar, háð harðsnúin barátta til lífsbjargar við úfnar öldur Faxaflóa og búið við algert hafnleysi þar um slóðir.
Undrar því engan, að erfitt var að sækja sjó og draga fisk úr sjó með handfærum á opnum árabátum á skammdegisnóttum og frosthörðum vetrum, sem oft var hlutskipti þeirra þar syðra.
Ekki bætti úr aflabrögðum á Vatnsleysuströnd, þegar erlend veiðiskip í upphafi aldar, vélknúin og hraðskreið, gerðust aðsópsmikil á miðunum og ógnuöu hinum opnu áratoguðu smáfleyjum með stórtækum botnvörpum og gegnu svo nærri heimamiðum, að segja hefði mátt, líkt og sagt var um ágang erlendra togara við sandana á Suðurlandsströndinni, að jafnvel garðlönd voru í veði.
Á Vatnsleysuströnd var nokkuð fengizt við fjárrækt, en erfitt reyndist um hrjóstruga hraunfláka Reykjanesskaga að finna grasreiti, til ræktunar vetrarfóðurs fyrir nokkrar kindur, er fylgdu flestum bæjum, eða bera niður á moldarlögum til kartöfluræktunar og annarra jarðavaxta.

Norðurkot

Norðurkot, lengst t.h. – Túnakort 1919.

Við þessar aðstæður ólst Eiríkur Björnsson upp í byrjun þessarar aldar í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd frá fæðingardegi 17. október 1899, unz hann 1922, þá 23 ára að aldri, fluttist til Hafnarfjarðar með foreldrum sínum, sem fyrr segir, og tveimur systkinum, Margréti og Jóni.
Margt ágætra manna og kvenna hafa flutt frá Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar og einnig tekið sér bólfestu víða annars staðar um landið. Allt þetta ágæta fólk hefir reynzt hinni nýju heimabyggð dugandi fólk og markað gæfuspor, þar sem það hefir stigið fæti.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Þó skal ekki vanmetið, að á Vatnsleysuströnd býr enn kjarnafólk, margt við aldur, sem aldrei hefir látið yfirbugast í erfiðleikum lífsbaráttunnar.

Eiríkur Björnsson var ekki skólagenginn umfram barnafræðslu, er hann naut af skornum skammti á æskuárum. Hann leitaði sér frekari fræðslu við lestur góðra bóka, og gaf sér til þess tíma, er hann átti aflögu, frá daglegum störfum. Hann var vandfýsinn og smekkvís á val bóka. Hann fylgdist áhugasamur með bættum kjörum og framförum þeirra stétta, er hann var vaxinn upp úr og urðu hans ævistörf, en það var sjómaðurinn á hafi úti og verkamaðurinn í landi.

Sigríður Eiríksdóttir

Sigríður Eiríksdóttir (1889-1970).

Eiríkur var vel metinn í starfi og gilti þar einu um samverkamenn og yfirboðara. Hann var harðduglegur til allra starfa, ósérhlífinn, glaðlyndur, samviskusamur, húsbóndahollur og umtalsgóður í hvers manns garð, er á vegi hans urðu, en lét aðra afskiptalausa.“

Kristín I. Tómasdóttir skrifaði um „Sigríði Eiríksdóttur„, ljósmóður, í Ljósmæðrablaðið árið 1970. Sigríður fæddist í Norðurkoti árið 1998. Þrátt fyrir fátækt tókst henni að berjast til mennta, ólíkt mörgum öðrum sem fæddust í hennar aðstöðu á Ströndinni fyrrum. Hún ólst upp í Hafnarfirði:
„Sigríður E. Sæland er fædd að Norðurkoti á Vatnsleysuströnd. Foreldrar hennar voru hjónin Eiríkur Jónsson sjómaður og bóndi að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og síðar að Sjónarhóli í Hafnarfirði og kona hans Sólveig Benjamínsdóttir frá Sjónahóli (Innri-Ásláksstöðum). Hún var elzt af stórum barnahóp og fluttist með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar 1907.

Vatnsleysuströnd

Innri-Ásláksstaðir 1977. Sjónarhóll lengst t.v. Ytri-Ásláksstaðir fjær sem og Móakot lengst til t.h.

Frú Sigríður útskrifaðist frá Ljósmæðraskóla Íslands 1912 og hóf strax ljósmóðurstörf í Garða- og Bessastaðahreppi. Hún fór til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar og nam þar við Righospitalet árin 1914—1915, og aftur fór hún til frekara náms 1937 og þá til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Sigríður var mjög lánsöm og eftirsótt ljósmóðir og vann alla tíð við ljósmóðurstörf, frá því að hún útskrifaðist og svo lengi sem heilsan entist. Hún giftist Stígi Sæland lögregluþjóni í Hafnarfirði 14. nóv. 1916. Þau eignuðust 3 börn og ólu upp eina stúlku frá 7 ára aldri og lét Sigríður eftir sig stóran hóp af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

Sigríður lét um ævina flest líknar- og mannúðarmál til sína taka. Hún vann mikið að bindindismálum og gekk árið 1910 í Stúkuna Danielsher no 4. og var einnig meðlimur í Stórstúku íslands. Hún var ein af frumkvöðlum Slysavarnardeildarinnar Hraunprýði í Hafnarfirði og formaður þar fyrstu árin og meðlimur Slysavarnafélags Íslands og heiðursfélagi síðustu árin. Hún var einnig ein af stofnendum Ljósmæðrafélags Íslands.“

Í Alþýðublaðinu 1977 er opna með yfirskriftinni „Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði“. Umfjölluninni fylgja nokkrar ljósmyndir:
„Vatnsleysuströnd á Reykjanesi er nú sem óðast að leggjast í eyði. Fæst húsanna eru nýtt sem mannabústaðir og á enn færri stöðum er rekinn búskapur. Hér hefur orðið á mikil breyting á síðustu árum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

En hvers vegna? Ástæðurnar eru sjálfsagt margar. Okkur Alþýðublaðsmönnum var tjáð af fólki á Vatnsleysuströnd að hún hefði alla tíð verið heldur rýr þar i sveit og hefðu því verið margir útvegsbændur á Ströndinni.
En lendingar hafa spillzt með árunum og sífellt lengist á miðin. Þannig er varla nokkur grundvöllur fyrir báta af þeirri stærð, sem geta notað gömlu lendingarnar á Ströndinni, en stærri bátarnir leggja flestir upp í Vogunum.
Enn eru þó nokkrir trillukarlar eftir og fara þeir flestir á grásleppu enda ekki langt á þau mið.
Vatnsleysuströndin var í alfaraleið, Keflavíkurvegurinn gamli svo að segja þræddi byggðina á Ströndinni. En eftir að nýi vegurinn kom, hvarf byggðin sjónum vegfarenda, fáir eiga þar nú leið um nema eiga þar brýnt erindi. Er menn aka Reykjanesbrautina, berja þeir ef til vill augum skilti, sem á stendur „Vatnsleysuströnd”. Ef fleiri en einn maður er í bílnum, er nokkuð víst að annar þeirra segi:

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

„Ætl’ að sé ekkert vatn ’arna?” og síðan er ekki hugsað meira um það.
Margir ibúar á Ströndinni hugsa með söknuði til gamla [Keflavíkur]vegarins, þeim finnst þeir vera komnir úr sambandi við umheiminn.
Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, þá er það staðreynd, að á Ströndinni eru mörg hús mannlaus og ónotuð, nema að vera kynni að einstaka veðurhrædd rolla noti skjólið sem af þeim er í erfiðum veðrum. Hús, sem mörg hver eru sterkleg og góð, en eru nú farin að láta á sjá vegna vanhirðu.
Meðfylgjandi myndir frá Ströndinni eru flestar af slíkum húsum og umhverfi þeirra. Sýna þær e.t.v. betur en orð hvernig smám saman hefur sigið á ógæfuhliðina, uppgjöf og hirðuleysi hafa lagst á eitt um að gera húsin að óaðlaðandi mannabústöðum.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1987 – Vesturkot.

Í Tímanum árið 1987 er einnig opna með ljósmyndum frá Vatnsleysuströnd með yfirskriftinni „Sjósókn og búskapur – hlið við hlið„:
„Á Vatnsleysuströndinni er ekki talið gott undir bú. Samt voru umsvif þar mikil áður fyrr og bændur meira en bjargálna og sumir ríkir.
Útvegur var mikill og á vertíðum dreif að fjölmenni víða að til að stunda róðra. Útvegsbændur voru fyrirferðarmiklir og héldu sumir úti mörgum skipum og tóku hluti af öðrum sem stunduðu útræði frá jörðum stundaður á Vatnsleysuströnd, heyjað á smáblettum, en veruleg.

Vatnsleysuströnd

Frá Vatnsleysuströnd 1987.

En það voru nálæg og gjöful fiskimið sem skiptu sköpum og héldu uppi lífskjörum sem þóttu góð á sínum tíma. Eftir að útræði á árabátum lagðist af fór vegur Vatnsleysustrandar minnkandi, enda ströndin hafnlaus.
Hafnargarður var byggður í Vogum en stórbátaútgerðin færðist að mestu sunnar á nesið. En athafnasemi hefur glæðst á ný og er nú til dæmis rekið eitt stærsta svínabú á landinu á Vatnsleysu og stórfelld fiskirækt er hafin og lítil hætta er á að byggð leggist af á hinum fornu útvegsjörðum, þótt búskapur sé rekinn með öðru sniði en áður og aflafengur fenginn með öðrum hætti.“

Jón G. Benediktsson

Jón G. Benediktsson (1904-1984).

Í Morgunblaðinu 1983 skrifaði Jón G. Benediktsson um „Voga í Vatnsleysustrandarhreppi„. Jón G. var frá Suðurkoti í Vogum:
„Strandlengjan nær frá Lónakotslandi í Hraunum sem nú tilheyrir Hafnarfirði og út að svo nefndri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa, en þar tekur við Njarðvíkurland. Þessi strandlengja mun vera um 25 til 30 km að lengd.
Vatnsleysuströnd sem hreppurinn dregur nafn sitt af nær frá Keilisnesi að Djúpavogi, en Djúpivogur er landamerki á milli Brunnastaðahverfis og Voga. Vogar ná þaðan og að fyrrnefndri Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Fyrir innan Keilisnes eru bæirnir Flekkuvík, Vatnsleysur og Hvassahraun. Vogarnir og bæirnir fyrir innan Keilisnes eru því ekki á Vatnsleysuströnd, en algengt er að sagt sé og skrifað Vogar á Vatnsleysuströnd, sem að sjálfsögðu er alrangt. Hins vegar er rétt að segja Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi. Á mínum ungdómsárum var oft sagt í sambandi við sjósókn og smalamennsku, Vatnsleysingar, Strandaringar eða Vogamenn til aðgreiningar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – herforingjaráðskort.

Eftir að Vogarnir urðu þéttbýliskjarni innan hreppsins hefur þessi skilgreining afbakast það mikið að full þörf er á leiðréttingu. Er þessi misskilningur sérstaklega bagalegur í skrifum um Vogana, til dæmis er sagt í Almanaki þjóðvinafélags Íslands 1982 að íbúar á Vatnsleysuströnd hafi verið 566 í desember 1980.
Það virðist vera útbreiddur misskilningur að í Vatnsleysustrandarhreppi sé lítið um vatn, en það er nú öðru nær. Nafnið er tilkomið vegna þess, að þar leysir mikið vatn neðanjarðar. Því til sönnunar má nefna að mjög víða í fjörum má finna tært vatn sem kemur uppúr klapparsprungum á útfalli, svokölluð fjöruvötn. Áður fyrr voru þessi fjöruvötn hagnýtt við skolun á taui og ull. Þá má benda á að allsstaðar þar sem borað hefur verið eftir vatni virðist gnægð af því.

Vogar

Vogar.

Hrepparígur, allir kannast við það orð. Hann hefur stundum skotið upp kollinum hér í hrepp sem annarsstaðar flestum til leiðinda, en til voru menn sem gerðu grín að slíku hér þegar ég var krakki og sögðu þá Vogaglymjandinn eða Strandarvargurinn.
Einhvern tíma varð þessi vísa til, en hún er svona:

Strandaringar stæra sig og stundum gapa,
allt um síðir upp þeir snapa
og róa undir Vogastapa.

Þess má geta að löngum voru undir Vogastapa ein fengsælustu fiskimið landsins. Þessi mið voru títt nefnd Gullkistan.“

Heimildir:
-Íslendingaþættir Tímans. 59. tbl. 08.11.1973, Eiríkur Björnsson í Norðurkoti, Adolf Björnsson, bls. 3.
-Ljósmæðrablaðið, 4. tbl. 01.10.1970, Sigríður Eiríksdóttir frá Norðurkoti, Kristín I. Tómasdóttir, bls. 79-180.
-Alþýðublaðið, 228. tbl. 29.10.1977, Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði, bls. 6-7.
-Tíminn 16.04.1987, Sjósókn og búskapur – hlið við hlið, bls. 16-17.
-Morgunblaðið. 199. tbl. 02.09.1983, Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi, Jón G. Benediktsson skrifar, bls. 70.

Vogar

Vogar.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahús“ eða Ásláksstaðir (Ytri-Ásláksstaðir) er á Vatnsleysuströnd, stendur nú yfirgefið millum Innri-Ásláksstaða (Sjónarhóls) og Móakots, sem einnig hafa verið yfirgefinn. Hvergi er nú búið á fyrrum bæjum í Ásláksstaðalandi, s.s. á fyrrnefndum bæjum eða í Atlagerði, Gerði, Fagurhól, Nýjabæ (Hallanda), Garðhúsum eða í öðrum ónefndum kotbýlum á jörðinni.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahús – skilti.

Á norðurvegg Ytri-Ásláksstaða er skilti. Þá því má lesa eftirfarandi:
Ásláksstaðahús er elsta hús sveitarfélagsins Voga. Það var byggt á árunum 1883-1884 úr kjörviði úr Jamestown strandinu í Höfnum.
Húsið er friðað og í eigu Sögu- og minjafélags Vatnsleysustrandar.
Endurbætur og undirbúningur flutnings hefjast haustið 2025. Vinsamlega sýnuð verkefninu virðingu.“

Sögu- og minjafélagið fékk húsið gefins og er nú fyrirhugað að flytja það á minjasvæðið að Kálfatjörn, þangað sem gamla húsið í Norðurkoti var flutt á sínum tíma og endurgert.

Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir 2025.

Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir 2025.

Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi.

Ásláksstaðir

Ytri-Ásláksstaðir 2006.

Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðahverfi 2023.

Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi – örnefnakort.

Vatnsleysuströnd

Magús Jónsson, fv. minjavörður Byggðasafns Hafnarfjarðar, ættaður frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd, skrifaði um „Villuna um Vogana“ í Morgunblaðið 1997:

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson (1926-2000).

„Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík. En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við StóruVoga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við … á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi.
Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki… en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna „innbæina“, og verður síðar komið að því.
Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður. Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.

Straumsvík

Álverið í Straumsvík.

En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.
Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.

Kapellan

Kapellan í Kapelluhrauni.

En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við

Straumur

Straumur.

jarðskjálfta, eldsvoða og þess háttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins – en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.
Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og fínnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið „andlitslyftingu“ og er þar átt við húsakynnin í Straumi. Það er aðsetur listamanna og í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með.

Lónakot

Lónakot.

Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:

Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.
„Fyrst“ er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun.

Astapahraun

Hraunskip í Afstapahrauni.

Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvei enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra-Vatnsleysa.
Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík.
Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn.

Kálfatjörn 1978

Kálfatjörn 1978.

Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.
Hér var aðeins ætlunin að spyma við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.

Magnús Jónssonar

Handrit Jóns Helgasonar, föður Magnúsar.

Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir:
„Jæja, á ekki að fara að breiða!?“
Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: ,,Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Eg ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“ – Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.

Heimild:
-Morgunblaðið, 57. tbl. 09.03.1997, Villan um Vogana, Magnús Jónsson, bls. 41.

Vatnsleysuströnd

Bjarg á Vatnsleysuströnd, ysti bærinn á ströndinni skv. kenningu Magnúsar.

Brunnastaðasteinninn

Í Fréttablaðinu föstudaginn 23. febrúar 2018 mátti lesa eftirfarandi frásögn: „239 ára grjót frá Vatnsleysu metið á hálfa milljón“.

Brunnastaðir

Virgill Scheving Einarsson.

„Danskur grjóthnullungur fannst við jarðvegsframkvæmdir á landi Efri-Brunnastaða á Vatnsleysuströnd fyrir nokkrum árum. Steinninn er frá 1779 og fornmunasali í Skotlandi metur hann á hálfa milljón íslenskra króna.
Þegar Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Efri-Brunnastöðum – Skjaldarkoti í Vogunum, erfði landareignina flutti hann heim frá Skotlandi, þar sem hann hafði búið í fimmtán ár, og réðist í heilmiklar framkvæmdir á eigninni.

„Það var skurðgröftur í gangi hérna fyrir þremur árum og ég fór eitthvað að skoða í jarðvegshauginn sem kom upp úr skurðinum og rek augun í sérkennilegan stein sem liggur þar,“ segir Virgill.

Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir.

„Ég sá að það voru stafir á honum þannig að ég þurrkaði af honum og sé að öðru megin á honum stendur ártalið 1779 og hinum megin eru skrautskrifaðir upphafsstafir tveggja einstaklinga.“

Virgill telur víst að steininn hafi verið steyptur til minningar um brúðkaup, veglegur minnisvarði um tímamótaatburð í lífi löngu horfinna ábúenda. „Ofan á honum hefur verið klemma sem hefur brotnað af. Steininn hefur verið skraut.“

Með hjálp fornmunasala og sérfræðinga í Skotlandi komst Virgill að því að steininn kemur frá Danmörku. „Það voru tvíbýli hérna og einhverjir ábúendur hafa gift sig og látið steypa þetta í Danmörku.“

„Steinninn vegur um eitt kíló og Virgill segir hann ekki mikinn um sig, álíka stóran og „Neskaffi-krukku eða eitthvað þannig.“
Hann fór með steininn til Glasgow og sýndi hann fornsala þar í borg.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn – 1779.

„Karlinn hafði hann í viku, lét skoða hann og röntgenmynda til þess að komast að því hvað væri í honum. Niðurstaðan er að í honum er hart danskt granít, sennilega frá Jótlandi. Hann er vel steyptur. Það var ekki komið svona gott sement, eða steinlím eins og þeir kalla það hingað til lands á þessum tíma. Það kom allt frá Danmörku í þá daga. Hann bauð mér 500 þúsund kall í hann og sjálfsagt smyr hann einhverju á hann og selur hann áfram.“

Virgill byrjaði á að kanna áhugann á steininum hér heima en hann reyndist enginn. „Ég talaði við sveitarfélagið hérna og þeir sýndu mér afturendann. Þeir hafa nú ekki komið vel fram við mig hérna í Vogunum. Þeir hirtu líka nafnið af okkur og kalla þetta Voga. Ég á heima á Vatnsleysuströnd en ekki Vogum. Ég sýndi Minjastofnun hann líka og þar var enginn áhugi heldur.“

Brunnastaðir

Efri-Brunnastaðir um 1980.

Virgill ætlar sér því að fara með steininn aftur til Glasgow og selja hann þar. Steinninn hafi í sjálfu sér ekkert gildi fyrir honum enda ekki frá forfeðrum hans kominn.

„Mitt fólk kom hingað úr Árnessýslu 1943 þannig að hann tengist því ekki þannig að ég er bara að spá í að fara með hann úr landi. Þeir segja að það sé ólöglegt en ég ætla bara að láta karlinn fá hann. Hann lætur mig þá fá hálfa milljón fyrir hann. Ég er ekki í neinu hallæri með peninga eða svoleiðis en finnst alveg eins gott að láta steininn bara fara þessa leið.“

Sjá meira um steininn HÉR.

Heimild:
-Fréttablaðið, föstudagur 23. febrúar 2018.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.