Tag Archive for: Vatnsleysutrönd

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnesskjól

Í Hraunsnesi.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Flekkuvík

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.

Guðmundur Björgvin JónssonÍ bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.

Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt með fram allri strandlengjunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Áður hefur verið fjallað um bæina á Ströndinni allt frá Vogastapa að og með Kálfatjarnarhverfi. Hér verður fjallað um „Innheiðarbæina“ austan Kálfatjarnarhverfis.

Flekkuvík (Vesturbær)

Flekkuvík

Flekkuvík.

Innheiðarbæirnir byrja á Flekkuvík að sunnan.

Fyrir aldamótin, og reyndar eftir það, var tvíbýli í Flekkuvík. Vesturbærinn brann til grunna árið 1935. Hjónin Úlfar Bergsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir keyptu síðar Minni-Vatnsleysu af Auðunni Sæmundssyni, sem flutti til reykjavíkur árið 1938.

Flekkuvík (Austurbær – rústir)

Í Austurbæ bjuggu um 1880 hjónin Stefán Stefánsson, f. 1874, og kona hans Katrín Guðmundsdóttir. Þau ólu upp systurson Katrínar, Guðmund Jóhannesson, síðar bónda í Flekkuvík.
FlekkuvíkGuðmundur var eftirsóttur til allrar vinnu vegna dugnaðar og hagsýni og var hann oft í ábyrgðarstörfum fyrir sveit sína. Hann vann mikið út frá heimili sínu þó erfitt væri að sækja vinnu að heiman. Flekkuvík var fjærst allra byggða í hreppnum hvað samgöngur snerti, hvort sem var gamli gönguvegurinn eða fyrsti akvegurinn. Átti Guðmundur því mörg spor að heiman og heim, en húsfreyjan var bundin heimilinu með 12 börn, en gaf þó ekki bónda sínum eftir í dugnaði og nægjusemi. Þau nytjuðu túnið og höfðu mjólk handa heimilinu og ekkert fram yfir það, þó aðrir bændur væru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur.

Minni-VatnsleysaGuðmundur bóndi byggði upp bæ sinn árið 1926. Hann lést árið 1959, þá afleggst Austurbær.

Flekkuvíkurland og fjaran þar er fyrir það merkilegt, að þangað sækja fuglaskoðendur mikið.

Rifshali (rústir)

Í Rifshala bjuggu fyrir og eftir aldamót Halldór Auðunsson, f. 1855, og kona hans, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1857. Rifshali mun hafa greitt landskuld til Eystribæjar Flekkuvíkur og fór í eyði um 1922-23.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa var með stærstu býlum hreppsins hvað varðaði húsakost og heimilisfólk. Sjósókn og sjávarútvegur var þar með því mesta í hreppnum, enda oft vitnað í fjölda vermanna þar á vetrarvertíð, auk heimilisfólks. Um aldamót bjuggu þar Sæmundur Jónsson og kona hans Guðrún Lísbet Ólafsdóttir.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Sæmundur gerði út mörg skip þegar best lét, m.a. átti hann hlut í m/b Hermanni, en hann fórst 26. mars 1916. Var Sæmundur þá orðinn hálfáttræður og var farinn að láta undan síga vegna aldurs og lést hann árið 1925.

Auðunn Sæmundsson tók við búi foreldra sinna, gerist skipstjóri og stundaði sjómennskuna meðan kraftar leyfðu. Kona hans var Vilhelmína Þorsteinsdóttir og eignuðust þau 12 börn. Þaðan var seld mjólk til Reykjavíkur og voru börnin dugleg að koma mjólkurbrúsunum í veg fyrir mjólkurbílinn, þó löng væri leiðin, um óveg og í myrkri að vetri til, og svo þurfi að koma skepnufóðri og öðrum nauðþurftum heim að kvöldi.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysubrunnur.

Dugnaði þeirra var líka viðbrugðið seinna á æviskeiði þeirra. Enn í dag er minnst á Auðunssystkinin frá Minni-vatnsleysu sökum atgervis.

Margir af þessum bræðrum urðu landskunnir togaraskipstjórar og einnig mágar þeirra.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1938 og þá keypti Úlfar Bergsson hús og jörð. Reif hann síðan gamla húsið og byggði, að mestu úr efnivið þess gamla, nýtt íbúðarhús árið 1941 og lét forskala það, eins og það er kallað og þá var í tísku.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn við Minni-Vatnsleysu.

Um 1944 varð eigandi að Minni-Vatnsleysu Arngrímur Vídalín Guðmundsson, en seldi Halldóri Ágústssyni frá Halakoti árið 1948. Hann og kona hans, Eyþóra Þórðardóttir frá Stóru-Vatnsleysu, seldu Þorvaldi Guðmundssyni 1953, eiganda að stærsta svínabúi landsins. Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur vestan við Ráðsmannsbústaðinn, skammt ofan við sjávarkambinn.

Miðengi

MiðengiMiðengi var grasbýli í landi Minni-Vatnsleysu, niður við sjó við landamörk Minni- og Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu Sigurður Lárus Jónsson, f. 1877, og kona hans Ingibjörg Jónasdóttir, f. 1886.

Sigurður þótti afburða sjómaður og mannkostamaður. Hann fórst við Garðskaga 26. mars 1916 þegar Hermann m/b sökk. Eftir þetta slys flutti Ingibjörg til Hafnarfjarðar og lét flytja húsið þangað og er það nú Krosseyrarvegur 2, en hefur tekið breytingum.

Stóra-Vatnsleysa (Vesturbær)

Stóra-VatnsleysaÞar bjuggu Sigurður Jónsson, silfursmiður, f. 1814, og kona hans Oddný. Samtími og á eftir Sigurði bjuggu í Vesturbænum Sigurjón Jónsson, f. 1873, og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Síðustu ábúendurnir í Vesturbænum voru Pétur Jóakimsson, f. 1878, og kona hans, Agnes Felixdóttir. Þau fluttu til Hafnarfjarðar en bærinn lagðist undir Austurbæ og var ekki rifinn fyrr en um 1940.

Stóra-Vatnsleysa (Austurbær)

Stóra-VatnsleysaÍ Austurbænum bjuggu Stefán Pálsson frá Hvassahrauni, f. 1838, og kona hans, Guðrún Gísladóttir, f. 1823.

Stefán rak mikla útgerð, var vel efnaður og hafði fjölda vinnuhjúa. Hann byggði upp Austurbæ um 1884-85 úr „James Town“ strandinu í Höfnum. Var húsið hæð og ris með 10 herbergjum.

Bjarni Stefánsson, sem tók við búinu, var mikill búhöldur. Kona hans var Elín, dóttir Sæmundar bónda á Minni-Vatnsleysu. Bjarni hélt áfram útgerð og var ekki eftirbátur föður síns með umfangsmikinn búskap sem að sjálfsögðu þurfti mikinn mannafla, enda húsakostur stór og góður.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Bjarni seldi 2/3 hluta Stóru-Vatnsleysu, sem þá var fyrir löngu orðið einbýli. Var kaupandinn Þórður Jónasson, bóndi, og kona hans, Þórunn Einarsdóttir. Þau komu frá Keflavík.

Á Stóru-Vatnsleysu fékk Þórður tækifæri við sitt hæfi, fór fljótt að koma upp bústofni, jafnframt sjósókn og var um tíma með stærsta einkarekstur í hreppnum. Á þeim 27 árum er hann bjó á Stóru-Vatnsleysu eignaðist hann 7 vélskip frá 2 tonnum til 35 tonna. Árið 1952 byggði hann núverandi íbúðarhús og í framhaldi af því 51 kúa fjós.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Þórði höfðu aukist grasnytjar, eftir að hann sjálfur lét gera akfæran veg í gegnum hraunið um 10 km langan, frá Kúagerði og til fjalla að Höskuldarvöllum. Þegar Þórður var búinn að koma þessu í kring og nýlokið við fjósbygginguna, veiktist hann og lést árið 1959, 64 ára gamall. Sá því aldrei stærsta draum sinn rætast.

Bjarni Stefánsson var samtímis Þórði með sinn 1/3 af jarðarbúskap, þar til hann féll frá 1954.

HrafnagjáEftir lát Þórðar Jónassonar tók við búinu sonur hans, Sæmundur, og hefur hann rekið það síðan árið 1961.

Með nokkrum rétti má segja að á Stóru-Vatnsleysu hafi verið þríbýli um aldamótin, því norður og niður af Vesturbænum var lítið hús sem kallað var Skálinn og við sóknarmannatal árið 1900 var fólkið úr þessum þrem húsum allt skrifað á Stóru-Vatnsleysu án sundurliðunar.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík.

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þessa eru höggnir stafir, ME. 1888, og þar fyrir neðan S.J Stafirnir gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að ME. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.

Stóra-Vatnsleysa (Skálinn)

Stóra-VatnsleysaNorðan og neðan við Stóru-Vatnsleysu var lítið hús úr timbri sem var kallað Skálinn. Þar bjuggu hjónin Guðjón Jónsson, bátasmiður, f. 1857, og Guðrún Torfadóttir, f. 1861. Guðjón byggði Skálann sjálfur, en árið 1901 flutti fjölskyldan til keflavíkur. Guðjón reif húsið og flutti það til keflavíkur og byggði úr því íbúðarhúsið Framnes í keflavík og þar bjó fjölskyldan til dauðadags. Framnes var rifið árið 1986.

Vatnsleysa I

Vatnsleysu byggði Einar Þórðarson frá Stóru-Vatnsleysu árið 1966 í landi Stóru-Vatnsleysu. Einar stundaði sjó, einkabílarekstur og kyndiltækjaviðgerðir hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, auk annarskonar vinnu.

Vatnsleysa II

NýibærHúsið bar byggt í landi Stóru-Vatnsleysu, austan hennar við heimaksturinn og vestan Vatnsleysu. Húsið lét Sigrún Þórðardóttir kennari frá Stóru-Vatnsleysu byggja árið 1986.

Móabær (rústir)

Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var það lítið grasbýli. Þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, f. 1838, og Ragnheiður Halldórsdóttir, f. 1838. Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu búendur þar.

Nýibær (rústir)

NaustakotNýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Jónas Guðmundsson, f. 1848, og Ólöf Helgadóttir, f. 1886. Síðar flutti það fólk til Hafnarfjarðar með það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.

Naustakot (tóftir)

Naustakot var austur af Nýjabæ, niður við sjó, lítið grasbýli í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Páll Jóhannesson, f. 1849, og Guðlaug Jónsdóttir, f. 1830. Bjuggu þau þarna til dauðadags.

Páll var oft kallaður Stóri-Palli og bærinn Pálsbær eða Pallakot. Fyrir neðan bæinn var einnig Pallavör (lending) Páll var mikill sjómaður og öruggur við allt er laut að sjó. Páll mun hafa verið síðastur allra kotbænda á Stóru-Vatnsleysulandinu og var í Naustakoti lítið fram yfir 1930.

Garðhús

GarðhúsGarðhús var austur af Naustakoti niður við sjó, tómthús í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar byggðu og þangað fluttu Sigurjón Jónsson og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Komu þau frá Stóru-Vatnsleysu, Vesturbæ. Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Enginn var eftir þeirra dag í Garðhúsum.

Hvassahraun

Hvassahraun var lengi tvíbýli 1 og 2, auk hjáleigukota. Hvassahraun 1 var löngum talið höfðingjaheimili.
HvassahraunÞar höfðu búið 5 ættliðir fram til ársins 1914 og var síðasta húsfrú Þórunn Einarsdóttir. hennar maður var Guðmundur Stefánsson, f. 1860. Um aldamótin voru 12 í heimili í Hvassahrauni 1.

Árið 1914 komu ung hjó að Hvassahrauni 1, Sigurður Sæmundsson og Kristín Þórðardóttir. Sigurður var stórbóndi í Hvassahrauni, minnst af sjó, en mest af sauðfjárrækt. Þegar best lét var hann talinn fjársterkasti bóndi sunnan Hafnarfjarðar, enda jörðin kostajörð og hraunið gjöfult og snjólétt, og gekk fé þar úti að jafnaði.

Sigurður og Kristín fluttu frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar árið 1942 og bjuggu þar til dauðadags.
HvassahraunAf Sigurði keypti Þóroddur Jónsson, heildsali, Hvassahraun árið 1942 og seldi síðan aftur eftir 13 ár, eða árið 1955, Þorkeli Helgasyni, sem svo seldi Fjáreigandafelagi Reykjavíkur, en tók undan óunnið land og hefur látið það undir sumarbústaði. Árið 1962 var jörðin tekin af ábúðarskrá.

Hvassahraun 2 (horfið)

Í Hvassahraun 2, sem líka var grasbýli, bjuggu Sveinn Steindórsson, f. 1860, og Þórunn Guðmundsdóttir, f. 1864. Fleiri bæir voru þarna, td.d. Hvassahraunskot, en þaðan var Hannes Hannesson. Þarna var og bær er hét Sönghóll.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 343-366.

Vatnsleysubæir

Innheiðabæirnir.

Eldborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir m.a. um Eldborgina undir Trölladyngju og næsta nágrenni.

Eldborg

Jarðhiti við Eldborg.

„Jarðhiti er í suðurenda Vestra-Lambafells í brekku sem snýr til vesturs. Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1—3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur „álfabragur“ á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því. Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjárveggjunum sést hver „koddinn“ við annan. Örnefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.

Jarðhiti

Jarðhiti í Lambafelli.

Með hlíðum Lambafella liggur Mosastígur (Rauðamelsstígur) . Fyrrum var farið meðfram Núpshlíðarhálsi eða yfir hann allt eftir því hvort fólk var á leið til Krýsuvíkur, á Vigdísarvelli, Selatanga eða til Grindavíkur og var leiðin þarna um kölluð Hálsagötur. Dr. Bjarni Sæmundsson lýsir þessum götum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 og segir hann Grindvíkinga nota orðasambandið „aðfara inn í Fjall“ þegar þeir fóru göturnar vestan hálsins.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …“. Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.

Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika. Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.“

Í bókinni „Icelandi pictures“ eftir Frederik W.W. Howell frá árinu 1893 má sjá teiknaða mynd af Eldborginni.

Eldborg

Teikning Frederik W.W. Howells af Eldborginni 1893.

Árni Óla segir í bók sinni „Strönd og Vogar“ eftirfarandi um Eldborgina undir Dyngjum:
„Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.“

Eldborg

Jarðhitinn við Eldborg.

Vatnsgufusvæðið umleikis Eldborgina er mismundandi greinanlegt. Það sést best þegar kólnar í veðri. Norðan hennar eru hleðslur, sem einhverjir hafa hlaðið til gufubaðsnota um tíma.

Heimildir:
-Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 123-126.
-Strönd og Vogar, Eldfjöllin, Árni Óla, bls. 250.
-Icelandi pictures, Frederik W.W. Howell, London 1893, bls. 141

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Auðnasel

Ætlunin var að ganga upp í Breiðagerðissel (Auðnasel) og huga að götum upp frá því og síðan áleiðis niður á Vatnsleysuströnd.
BreiðagerðisstígurTil hliðsjónar var hafður þjóðleiðauppdráttur Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en hann var lengi notaður sem helsta leiðsögn ferðalanga um Landnám Ingólfs. Leiða má af því líkum að þær götur, sem þar eru sýndar, hafi verið fjölfarnari en aðrar minna þekktar. Uppdrátturinn sýnir t.a.m. götu upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að vestanverðum Keili og áfram upp á Vigdísarvelli. Einn megintilgangur ferðarinnar nú var að reyna að rekja þessa götu upp frá Breiðagerðisseli og áfram áleiðis að Keili, en hún hafði áður verið þrædd frá Moshól við Selsvelli og áleiðis niður heiðina frá Keili.
Í selinu, sem er í gróningum undir aflangri hraunhæð, munu hafa verið selstöður frá a.m.k. þremur bæjum; Auðnum, Breiðagerði og Höfða. Fjöldi stekkja gefa jafnan til kynna fjölda stöðva í hverju seli, en þarna eru a.m.k. þrír slíkir.

Breiðagerðissel

Breiðagerðissel – stekkur.

Í Jarðabókinni 1703 (bls. 136) segir m.a. að „Breida Gierde brúkaði selstöðu þar sem kallað er Knarrarnessel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina“. Einnig að Auðnar brúkaði „selstöðu þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft“. Um Knarrarnessel segir: „Selstaða þar sem heitir Knarrarnes sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð“. Höfða er ekki getið í Jarðabókinni 1703. Hér kemur fram að Breiðagerði haft selstöðu í Knarrarnesseli, sem er næsta sel vestan við Auðnasel.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007 segir á bls. 92 um Auðnasel:Vatnsstæði við Breiðagerðisstíg „Margar tóftir eru sjáanlegar, mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði“. Hér er Breiðagerðisselið komið í Auðnasel, en skv. Jarðabókinni átti það að hafa verið í Knarrarnesseli.
Tilvist götunnar á uppdrætti Björns gat sagt nokkuð til um hvar selstaðan frá Breiðagerði var í raun.
Sesselja getur m.a. um kort Björns Gunnlaugssonar; „Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðubrot, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en milli þeirra litlar „þrísteinavörður“.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar á millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram sesltíginn en sá er óvarðaður að mestu. Á síðsutu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóð til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu noraðar af hreppsfólki.“
Fyrrnefndar vörðumyndir má m.a. sjá á tveimur stöðum. Svo virðist sem um misgamlar vörður hafi verið að ræða á hverjum stað. Ein er jafnan nýjust og heillegust. Hvað um það…
Varða við BreiðagerðisstígReynt var í fyrstu að rekja götu upp frá Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hún liggur upp með syðsta stekknum í selinu, uppi á grónum ílöngum klapparhólnum. Ofar er varða. Síðan tekur hver varðan við af annarri með reglulegu millibili. Sumar eru reyndar fallnar. Af þeirri ástæðu sem og þeirri að á köflum í heiðinni hefur orðið veruleg jarðvegseyðing á síðustu ármisserum var auðvelt að villast út af götunni. Þegar komið var upp undir háheiðarbrúnina, að þeim stað sem fyrri ferðin hafði endað, var gatan augljós. Ekki fór á milli mála að þar var um hestagötu að ræða. Miðja vegu þaðan og að Keili eru gatnamót – líklega mót götu er liggur í boga niður að Knarrarnesseli og áður var minnst á.
Nú var gatan auðveldlega rakin niður aflíðandi heiðina. Hún var víðast hvar mjög greinileg, en á stuttum köflum hafði mosi vaxið í hana eftir að hafa náð að hefta uppblástur. Gatan lá nokkuð bein og þræddi með aflíðandi hólum og hæðum. Miðja vegu að selinu var tilbúið vatnsstæði. Hlaðið var í kanta til að afmarka vatnsstöðuna.

Breiðagerðissel

Í Breiðagerðisseli.

Auðvelt var að fylgja götunni að Auðnaseli, en lega hennar virtist styrkja þá trú að þar hefði Breiðagerðissel verið til húsa fyrrum. Hún var og í nákvæmu samræmi við uppdrátt Björns frá árinu 1831. Hafa ber í huga að selstöðurnar í heiðinni voru flestar aflagðar um árið 1870, en fyrir þann tíma hefur selstöðugróskan verið mikil á þessum slóðum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að selstöður einstakra bæja hafi færst til frá einum tíma til annars, eftir því sem ábúendur bæjanna voru og tengsl þeirra innbyrðis. Þannig má telja líklegt að einfaldur kvonhagur hafi getað fært aumlega tímabundna selstöðu úr stað millum selja, en dæmi eru um slíkt á landssvæðinu frá fyrri tíð. Stólpabóndi keypti eða eignaðist með öðrum hætti og annan bæ í sveitinni og sameinaði þá selstöður sínar á einum stað – líklega tímabundið. Þá gat kastast í kekki millum nágranna er gerði það úr verkum að einhverjar selstöður urðu óvirkar um tíma. Svona mætti lengi telja, sem ástæðulaust er að rekja frekar hér.
Fyrrum gatnakerfi í landnámi Ingólfs er smám saman að taka á sig heillegri mynd.
Frábært veður. Sólstafir léku við sjónarrönd. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Varða við Auðnasel

Staðarborg

Við Vatnsleysustrandarveg, ofan Kálfatjarnar er skilti. Á skiltinu er eftirfarandi fróðleikur:

Staðarborg

Staðarborg – upplýsingaskilti.

„Staðarborg er um 1.5 km frá Vatnsleysustrandarvegi, um miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Vatnsleysutrandarvegar í stefnu á Trölladyngju (suðaustur). Borgin sést þó ekki fyrr en komið er nokkuð upp í heiðina vega hæða sem skyggja á hana. Varðan hér litlu austar heitir Pestsvarða. Frá henni má fylgja lágum vörðum sem vísa leiðina að borginni. Fyrst er komið á langan klapparhól er heitir Klifflatarhóll. Þar eru tvær vörður. Þaðan skal fylgja vörðum sem sjást þar til Staðarborg blasir við.

Fjárborgin mikla
Staðarborg er stór og listilega hlaðin fjárborg. Líklegt er að borgin hafi verið hlaðin sem skjól fyrir fé í illviðrum. Áður fyrr voru borgir hlaðnar til að spara húsbyggingar. Þá voru gripahús af skornum skammti heima við bæi og var sauðfé haft úti eins lengi og unnt var. Sauðamenn sem þá voru á flestum bæjum önnuðust sauðféð og fylgdust með því ef þurfa þótti.

Staðarborg

Staðarborg.

Engar heimildir eru til um aldur Staðarborgar. Þó er talið víst að borgin sé nokkur hundruð ára gömul og teljist því til fornminja. Borgin er mjög heilleg og hefur ekki verið hreyft við henni utan þess að ofan dyranna voru tveir stórir steinar sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar til varnar þess að stórgripir kæmust inní borgina. Snemma á 20. öld lenti hins vegar stórgripur þar inni. Til að ná gripnum út var áreftið fyrir ofan dyrnar tekið svo þær uðu heilar uppúr. Staðarborg var friðlýst árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja.

Þjóðsagan

Staðarborg

Staðarborg að innanverðu.

Í þjóðsögu einni er sagt frá því að presturinn á Kálfatjörn hafi fengið hleðslumann til að hlaða borgina. Helðslumaðurinn vandaði vel til verka og notaði grjót úr nágrenninu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp eins og aðrar smærri fjárborgir sem voru víða um land. Má því til stuðnings skoða hleðsluna að innan sem var farin að slúta nokkuð. Er prestur komst að þessu varð hann reiður og harðbannaði þetta þar sem einsýnt var að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfartjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Við þetta á hleðslumanni að hafa gramist svo að hann hljóp frá ókláruðu verkinu og fór frá presti.

Örnefnin í Strandarheiði

Staðarborg

Staðarborg – örnefnin í heiðinni (SG).

Örnefnin hafa að geyma ákveðna sögu og með þeim má oft átta sig á með hvaða hætti landið var nýtt á mismunandi tímum. Örnefnin í heiðinni eru mörg og gönguleiðirnar margar eins og gefur að skilja ef horft er til landnotkunar áður fyrr þegar lifað var af því sem landið gaf. Þá var landið að mestu notað til sauðfjárræktar. Í kjölfar aukinnar vélvæðingar og umbóta í landbúnaði, s..s aukinnar túntæktar, girðingu heimatúna og áburðarnotkunar, um og eftir aldamótin 1900, færðist sauðfjárræktin í aukum mæli frá selstöðum í heiðinni í heimatúnin. Í kjölfarið minnkaði notkun örnefna í heiðinni og er svo komið í dag að mörg þeirra hafa fallið í gleymsku.“

Framangreindur fróðleikur er ágætur – svo langt sem hann nær. Hafa ber í huga að sunnan við Staðarborgina er áberandi hóll. Á henni eru leifar óþekktrar fjárborgar. Austan hennar er annar áberandi hóll með fjárborgarleifum. Vestan Staðarborgar er svo mjög svo áhugaverð Þórustaðaborgin.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Hringurinn

Gengið var í meginminjarnar á Strandarhæð milli Þórustaðaborgar og Hringsins (fjárborg).

Prestsvarða

Prestsvarða.

Haldið var upp frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn með stefnu á Skálholt. Skálholt er flatt og breitt holt ofan við Landakot skamt ofan Strandarvegar. Á holtinu er leifar að þremur vörðum og leifar að litlu grjótbygri með vörðu í. Skammt vestur af Skálholti (ofan við veginn) er fjárhústóft á grónum hól. Skammt ofan við Skálholt er beinhlaðin hleðsla, skjól fyrir refaskyttu. Neðan hennar liggur símastrengurinn til vesturs og austurs. Víða í heiðinni má sjá hlaðið yfir strenginn.

Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í grösugum hól. Þetta er nokkuð heillegt rétt með stórum almenningi efst og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru tvær rústir. Einnig mótar fyrir litlum stekk neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru um nafn hans. Leiðigarður er í borgina úr norðvestri. Erfitt er að mynda alla réttina vegna þess hversu “flatlend” hún er. Gömul gata virðist ligga upp með réttinni að vestanverðu.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Þá var stefnan tekin á grösugan hól nokkru suðvestar. Holtið þar nefnist Borg. Á holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið. Litlu neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Vatnsstæði í klöpp, sem vera á ofan og austan við efri rústina var þurrt að þessu sinni.
Í fjarska vestur af blasir við hár aflangur hóll, Arnarbæli. Í suðri er annar reglulegur grsahóll, Lynghóll. Stefnan var tekin á hann. Norðan við hólinn er nokkuð sléttlent. Á sléttunni er gömul fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg) með leiðigarði til suðurs. Borgin er upp á litlum hrygg og er sýnilegust úr vestri.

Kúadalur

Stekkur (rétt) í Kúadal.

Ofan sléttlendisins austan af Lynghól er stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparhól og er hann um átta metra í þvermál. Innan í honum er sléttur bali. Vegghæðin er mjög lítil og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborgina, en hætt hafi verið við verkið af einhverjum ástæðum.
Stefnan var tekin til norðvesturs með vestanverðu Arnarbæli. Þar, austan girðingar, hvílir Kúadalur, gösug dalkvos. Í henni er heillegur og fallega hlaðinn stekkur, tvíhólfa. Þarna er líklega um að ræða stekk frá Ásláksstöðum. Ofar í holtinu, að norðanverðu, mótar fyrir gömlum stekk eða öðrum mannvirki.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Gengið var norður og austurmeð Arnarbæli, áleiðis að brekkum mót norðvestri þar nokkru austar. Þar uppi á holtinu er enn einn stekkurinn, Fornistekkur. Utan í brekkunni má sjá móta fyrir gömlum hleðslum, sennilega enn eldri stekk – í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Gengið var niður á Gamlaveg. Hann liggur frá Breiðagerði og svo til beint yfir heiðina og mætir Strandarvegi aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfið. Víða er um kílómetra leið frá bæjum að veginum, sem þótti langt enda um klappir ogholt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur hfðu þar hver sitthlið og brúsapall og á einstal astað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja.

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveg.

Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá bænda í Ásláksstaða-, Hlöðunes, og Brunnastaðahverfi.
Á gömlum kortum er Strandarheiði eyðimörk. Það var ekki fyrr en Sesselja Guðmundsdóttir lagði það á sig að ganga heiðina og safna markvisst örnefndum og minjastöðum á henni að heiðin varð “opinberuð” fáfróðum. Áður fyrr, líkt og á svo mörgum stöðum öðrum, veit einstaka maður um merka staði og forn mannvirki á afmörkuðum svæðum, en að honum gegnum hverfur (því miður) öll sú dýrmæta vitneskja. En það er fyrir áeggjan, ósérhlífni og dugnað fárra, sem örnefnunum og vitneskju, sem enn er fyrir hendi, hefur þó verið haldið við. Hlutur þeirra hefur jafnan verið vanmetin, en verður seint ofmetin.
Í bakaleiðinni lék sólin við hafflötinn.
Veður var frábært – stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 29 –39.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Sogin

Gengið var um Lambafellsklofa og Trölladyngju.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Lambafellsklofi er stundum nefndur Lambagjá í Lambafelli. Um er að ræða sprungu, sem myndast hefur eftir misgengi um mitt fellið. Gjáin er nokkuð há og gaman að ganga um hana. Gengið er inn í gjána að norðanverðu og síðan liggur leiðin upp á við í suðurendanum. Ofar má sjá misgengið liggja áfram í gegnum fellið til suðurs. Hraun hafa runnið allt umhverfis. Tófugras vex á gjárbörmunum. Skemmtilegast er að fara um gjána er líða fer á sumarið, en þá er hún jafnan þakin fiðrildum, sem safnast þar saman í skjólinu. Þar sem fyrir liggur lýsing um þetta svæði fer hér á eftir lýsing á því er finna má á vef Hitaveitu Suðurnesja; Fréttaveitunni:
Eftir að áhugi jókst á Trölladyngjusvæðinu, og ekki sízt eftir að tilraunaboranir hófust, hefur nokkuð borið á, að menn færi til og teygi örnefni á svæðinu, svo sem Sog, sem sumir eru búnir að færa allt niður á núverandi borsvæði. Þetta er í sjálfu sér ekki ný bóla. Má t.d. benda á, að eftir að Suðurnesjavegur var skírður Reykjanesbraut og Reykjaneskjördæmi varð jafnframt til, heitir Reykjanesskaginn Reykjanes, Reyknesingar búa allt upp í Hvalfjörð og austur í Ölfus, og orkuver Hitaveitu Suðurnesja er sagt í Svartsengi, enda þott það hafi risið í Illahrauni, sem er í nágrenni Svartsengis.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.
Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skag á Íslanda og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos.

Lambafellsgjá

Lambafellsgjá.

Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.
Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m).

Sog

Trölladyngja og Grænadyngja (t.h.) – Sogin nær.

Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum.

Einihlíðar

Tröll í Einihlíðum norðan Lambafells.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Tröllaödyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir eru eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr járni. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð [Eldborgin, sem á mínum skátaárum var nefnd Jónsbrenna, er nú ekki orðin svipur hjá sjón, því vegurinn, sem fyrr er getið, var einmitt lagður til að ná í hraungjall úr hlíðum hennar. (Ath.semd ritstj.)]. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.

Fengið að láni úr bók Árna Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR”, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.

http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Flekkuvík

Á Flekkuvíkurheiði er falleg hólaþyrping sem ber við himinn sé komið að þeim úr norðri. Þeir heita Miðmundahólar. Vestan undir hólunum er tóft, sem ekki virðist vera til í örnefnalýsingum eða fornleifaskrám. Ofan hólanna eru Miðmundalágar. Norðvestur af Miðmundahólum er Tvívörðuhóll.

Miðmundahólar

Tóftin í Miðmundahólum.

Strandarvegurinn leggur skammt neðan við hann. Vestur undir Tvívörðuhól er Mundastekkur, líklega frá Flekkuvík fyrrum.
Tóftin undir Miðmundahól er óvenjuleg og enginn stekkur sést þar í fljótu bragði. Hún er í landi Flekkuvíkur. Að þessu sinni var ekki leitað grannt að fleiri mannaverkum, en það verður gert fljótlega.
Nafnið á hólunum, Miðmundahólar, benda til eyktarmarks frá Flekkukvík (miðmund = sól kl 13:30). Það verður þó að teljast ólíklegt því hólarnir benda ekki til miðmundar frá þeim bæ. Í orðabókum getur „miðmund“ bæði átt við um tíma (sólargang) og vegalengdir. Spurningin var því hvort þarna gæti verðið miðsvæðis á kirkjuvegi milli Vatnsleysu og Kálfatjarnar – sem getur jú passað. En alfaraleiðin (Almenningsvegurinn) liggur þarna snöggtum neðar en hólarnir, eða fyrir neðan Strandarveginn. Það er því útilokað að hólarnir séu miðsvæðis á kirkjugötu því krókur var að fara upp að þeim.
TóftÁ hvaða miðsvæði voru Miðmundahólar? Gætu þeir hafa verið „miðmund“ frá öðrum Vatnsleysubæjanna þótt í öðru landi hafa verið. Dæmi eru jú um slíkt. Eftir hvaða Munda heitir „Mundastekkur“ undir Tvívörðuhól? Gæti nafnið verið stytting úr „Miðmundastekkur“? Er möguleiki að nöfn hafi víxlast á hólunum? Hver gæti tilgangur tóftarinnar fyrstnefndu hafa verið?
Allt þetta og meira til er meðal þess sem skoðað verður á næstunni. Ef einhver veit eða getur gefið upplýsingar um framangreint er sá hinn sami beðinn um að hafa samband við ferlir@ferlir.is. Einhver áhugi á menningarleifum svæðisins hlýtur að vera til staðar – hjá einhverjum að minnsta kosti!

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 25 og 27.

Miðmundahólar

Suðurnesjavegur

Sýsluvegurinn frá Reykjavík suður að Vogastapa.
Hér er ritað um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. „Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Foss-202 Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
foss-203 Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipa-uppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.

foss-204

Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.
En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í.
Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir Sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hfoss-205inn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og virðist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að hljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?

foss-206

Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.“

Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveginn ofan Vatnsleysustrandar.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Heimildir:
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Keflavíkurveginn.

Flekkuvík

Gengið var um Flekkuvík og nágrenni. Tilgangurinn var að skoða minjar, sem ekki höfðu verið skoðaðar í fyrri ferðum um svæðið. Þannig var t.a.m. ekki litið á Flekkuleiðið að þessu sinni, varirnar eða annað það er einnig gæti talist merkilegt í og við Flekkuvík.
Flekkuvík var Kálfatjarnarkirkjueign árið 1703. Árið 1379 átti kirkjan á Kálfatjörn þegar jarðirnar Bakka og Flekkuvík. Í bréfi frá 28.4.1479 segir m.a.: „Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka.“ Jarðarinnar er getið í fógetareikningum árin 1553-48. Árið 1703 eru hjáleigur í Flekkuvík nefndar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.”
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, Austurbær frá 1959″skv. lýsingu GBJ í Mannlíf og mannvirki (343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli til, sem hétu Holt og Járnshaus. Jörðin er í eyði frá 1959.
Í örnefnalýsingu er minnst á Flekkuvíkurstekk. „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum.”
Stekkjarvíkin (stundum talað um Stekkjarvíkur) eru vestan Flekkuvíkurtúna, sem afmörkuð eru með hlöðnum görðum.
Túnin voru minni þegar örnefnalýsingin var gerð, en voru síðar færð út og stækkuð, m.a. til vesturs. Stekkurinn, tvískiptur, er undir þessum lága hól. Hann er vel gróinn, en sjá má móta fyrir hleðslum í tóftunum. Annar stekkur, hlaðinn, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.
Á þessum slóðum eru m.a. heimild um skotbyrgi: “Um 200 m utar en Skottjörn og Skarfanes eru dálítið vik inn í kampinn. Það heitir Stekkjarvík. Norðan við hana er lítið, grasigróið klapparnef, Stekkjarnef. Sunnan undir því er grafin hola, hlaðin innan, Skothús. Lítið tóftarbrot er upp af Stekkjarnefi og gæti það verið af stekk.” segir í örnefnaskrá. Hér er önnur tilvísun í stekk þann er nefndur hefur verið Flekkuvíkurstekkur. Vel mótar enn fyrir gróinni tóftinni, skothúsinu, á Stekkjarnefi. Þegargengið er um Flekkuvíkurlandið má víða sjá hlaðin skotbyrgi, ýmist fyrir fuglaskotveiðimenn eða refaskyttur. Minjar þessar eru bæði gamlar og nýlegar, s.s. sú er er skammt ofan garðs, suðaustan við núverandi íbúðarhús.
Þarna er og Mógrafarhóll, örnefni; “Skammt utan við Stekkjarvíkina, rétt við kampinn er Mógrafarhóll. Þaðan út í Keilisnes (nesklett) er á að giska 500 m.” segir í örnefnaskrá. Enn vottar fyrir mógröfunum vestean við hólinn.

Víða ofan við þetta svæði má sjá hleðslur, einkum af fiskbyrgjum, en einnig af öðrum minjum; “u.þ.b. 300 metrum innan við Nesklett er hlaðin ílöng tóft ofan við kampinn. Þar var trjám flett með stórviðarsög.” segir í örnefnaskrá. Ofar og austar sjást enn myndarlegar hleðslur af fyrrum fiskbyrgjum. Sum hafa verið látin óáreitt, en öðrum hefur verið breytt í skotbyrgi.
Þegar FERLIR var þarna á ferð gullu við allnokkrir skothvellir. Menn við svartan bíl, er lagt hafði verið við fyrrum íbúðarhús í Flekkuvík, voru í óða önn að gera sér, þessa yndisfögru sumarnótt, að leik að skjóta á mófuglana. Þegar að var komið kom í ljós að þetta voru tveir ungir menn. Þeir höfðu verið að leika sér með 22 cal. riffil, göngufólki á svæðinu til skelfingar. Nú var það spurningin:; átti að hringja í 112 og boða óttarslegna lögreglumenn í umferðareftirliti á vettvang? Refsing við slíkum brotum er að jafnaði, eftir mikla fyrirhöfn (útkall, skýrslugerð, leitir að kærðum, frekari skýrslugerð, meðferð lögfræðinga, ákæru eða sektargerð saksóknara, eftirfylgju, leit að greiðendum, samkomulagi um greiðslu o.fl.) tiltölulega væg, sekt og upptaka skotvopna. Þar sem FERLIRsfélagar voru þrír á móti tveimur – og auk þess hundur er gæti mögulega verið grimmur (væri haldið aftur að fleðurlátunum í honum). Einn þeirra, orðfár, greip skotvopnið af öðrum mannanna, rak það óvart í annað að aðalljóskerið á bílnum svo það brotnaði og síðan skeftið utan í húshornið. Það brotnaði auðvitað, öllum öðrum að óvörum við það sama, og járndótið, sem eftir var, hrundi niður. Úps, svona gerast slysin. Mennirnir gætu þó alltaf kært slysið til lögreglu, ef þeir kærðu sig um. Ljóskerið kostar jú sitt og byssan er jú ónýt eftir og verður ekki notuð aftur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir Flekkuvík eru örnefni tengd álfum og huldufólki. Í lýsingu segir t.d.: “Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum.” Hóll þessi er rétt til hliðar við aðra hólasamstæðu, gróin og lætur lítið yfir sér. Í honum má sjá klöpp. Nýlegt vatnsstæði er sunnan hans og gamlar hleðslur vestar.
Þá er huldufólksbústaðar getið í Kirkjuhólum. “Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir. Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar. Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Hólarnir eru vestan við reglulega strýtumyndaða hóla er raða sér austan þeirra til suðurs. Austasti hóllinn er ágætlega „kirkjuhugmyndamótandi“.
“Nokkru vestar en Kirkjuhólar og nær túngarði er stór strýtuhóll, kallaður Síðdegishóll“, en Síðdegishóll mun vera seinni tíma nafn. Arnarvarða er sögð vera röskan kílómetrar í suðvestur frá Hádegishólum. Hún sést ágætlega frá Kirkjuhólum.
Brunnar og vatnsstæði eru nokkur við Flekkuvík. Fjallað er um Austurbæjarbrunn (Brunninn), Flekkuvíkurbrunn og fyrrgreindar Vatnshellur, auk nýlegs vatnstæðis sunnan Álfhóls, sem áður var lýst.
“Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. … Austurbæjarbrunn er víst og óhætt að kalla Brunninn.” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er í túninu sunnan við gömlu heimreiðinna, sem allnokkru austan núverandi vegar að Flekkuvikurbæjunum. Hann er hlaðinn, ekki djúpur, en fallegur á að líta. Hann hefur verið látinn ósnortinn.
Hinn hlaðni brunnurinn við Flekkuvík er norðan húsanna. Brunnstígur liggur frá þeim að brunninum. Girt hefur verið í kringum hann til að forða slysum, en girðingin er fallin. Brunnurinn er hlaðinn niður, ennig hinn fallegasti. Líklegast er hér um að ræða svonefndan Vesturbæjarbrunn, sem getið er um í örnefnalýsingum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er getið um Sigurðarhjáleigu, hjáleigu í byggð. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir og í örnefnaskrá. Hér er innig getið um sex aðrar hjáleigur í Flekkuvíkurlandi, sem verður að teljast vel í lagt miðað við gróin svæði á jörðinni. Að öllum líkindum hafa hér verið um kotbýli útvegsbænda að ræða, er byggt hafa lífsafkomu sína að langmestu leyti á sjávarfangi. Sjórinn hefur, líkt og annar staðar, rifið þarna smám saman af ströndinni og tekið til sín allmargar minjar, sem áður voru þekktar á þessu svæði.
Kotbýlið Refshali er eitt hið forvitnilegasta á svæðinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Refshale hefur í eyði legið fjögur ár … Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirfljóð af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja megia.”
“Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali.” segir í örnefnaskrá GE. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23.
Þá er og forvitnilegt að grennslast fyrir um svonefnda Úlfarshjáleigu, sem getið er um í Flekkuvíkurlandi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. … Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.” Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll. Þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil.” segir í örnefnaskrá. Þarna er líklega átt við hinar miklu hleðslur á og við hólaþyrpinguna vestan við Álfhól.
Þá var gengið upp eftir Stekkjarmóa, áleiðis að Borgarkotsstekk, Mundastekk og Heimristekk, en þeirra allra er getið í örnefnalýsingum. Á leiðinni var gengið yfir hina gömlu Alfaraleið, eða Almenningsleið (Menningsleið) er lá fyrrum um Vatnsleysuströnd millum Innnesja og Útnesja.

Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni en þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn allt að Hvassahraunslandi, einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. … „Þetta nafn, Almenningsvegur, virðist helst (eða eingöngu) hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann kallaður Alfaraleiðin.”
“Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur.” segir í örnefnalýsingu Straums. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.” segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun. Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfararleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Sunnan við Vatnsleysubæina liggur Almenningsvegurinn ofan nýrri vegar og er Eiríksvegur þar við. Almenningsleiðin sést vel þar sem hún líður um móann. Suðvestan við Vatnsleysubæina fer Almenningsleiðin norður fyrir veginn og liðast síðan þar um holtin, sunnan og framhjá Stefánsvörðu og áfram til vesturs. Gatan er sérstaklega áberandi sunnan Stóru-Vatnslesyu og síðan sunnan Flekkuvíkur þar sem hún hefur fengið að vera óáreitt.
MundastekkurBorgarkotsstekkur er norðan Almenningsleiðarinnar. “Tveir hólar skammt fyrir neðan [við] vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur.” segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er reyndar nokkuð norðnorðvestan hólsins, í gróinni lægð, sem sést vel frá hólnum. Þetta er gróinn stekkur, tvískiptur. Í honum sést móta fyrir hleðslum. Lægðin, sem geymir Borgarkotsstekk, er einungis í nokkurra mínútna fjarlægð frá Stefánsvörðu.
Og þá er það Mundastekkur. Hann er ofan (sunnan) Almenningsleiðar, en fast norðan nýrrar reiðleiðar, sem lögð hefur verið sunnan núverandi þjóðvegar. “… og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur, sem líklega var frá Flekkuvík,” segir í Örnefnum og gönguleiðum (SG). Stekkur þessi er einnig nokkuð gróin, suðvestan við hólinn, einnig tvískiptur.
Heimristekkur var svolítið erfiðari viðfangs, einkum vegna óljósra staðsetninga. “Til suður frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthól… Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka.” segir í örnefnaskrá. Í Örnefnum og gönguleiðum (SG) segir: “Nú förum við aftur niður á Strandaveg fyrir neðan Hæðina um 200 m austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól.”
Fyrir leikmann hefði eflaust tekið nokkra daga að leita að og finna stekkinn eftir framangreindum lýsingum, en fyrir þjálfað auga FERLIRsþátttakanda tók það einungis 16,6 mínútur. Heimristekkur er vel gróinn sunnan undir austanverðum hólnum. Hann virðist tvískiptur líkt og aðrir stekkir á svæðinu. Stekksins er getið í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi og gæti því verið frá einhverjum þeirra bæja eða kota, sem þar voru (sjá aðra FERLIRslýsingu um Kálfatjarnarhverfið undir leiðsögn Ólafs Erlendssonar).
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gengið var undir mófuglasöng þar sem viðlagið var lóukvak.

Heimildir m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.

Fjaran