Gengið var á Keili frá Oddafelli. Keilir er keilulaga móbergsfjall á Reykjanesskaga.
„Fjallið hefur myndast á ísöld við gos undir jökli án þess að gosið næði upp úr. Hæð Keilis er um 379 metrar yfir sjó. Keilir er keilulaga og sést víða að, þegar ekið er í suðurátt eftir Suðurgötu í Reykjavík er Keilir beint fyrir augum. Hann er auðþekktur vegna lögunar sinnar. Sjómenn hafa löngum haft Keili sem mið og er hann til dæmis notaður þegar siglt er inn Hamarssund á leið inn til Sandgerðis. Af Keili er mikil og falleg útsýn og er auðveld ganga á fjallið að norðaustanverðu.
Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Það er því að mestu úr móbergi. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýni ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Það er leyfar af bergstandi, sem er sívalar eða ílangar gíg- eða gosrásarfyllingar úr basalti eða líparít sem eftir standa er eldfjöll veðrast í burtu. Að öðru leiti er Keilir úr móbergi sem glöggt má sjá.
Ekið er af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar af afrein til hægri og liggur hún síðan undir veginn. Greiðfært er öllum bílum um Afstapahraun að Höskuldarvöllum. Jeppavegur liggur upp eftir litlu en löngu felli sem nefnist Oddafell og er best að leggja bílnum við taglið þar sem sá vegur byrjar. Þaðan er um þriggja kílómetra gangur að að fjallinu, um nokkuð ógreiðfært hraun fyrst í stað en stutt er í betra færi.
Gott er að ganga á fjallið þó bratt sé en vissara er að fara varlega. Auðfarið er upp því myndast hefur greinilegur göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind.
Þó fjallið sé ekki hátt er útsýnið gríðarlega fallegt ekki síst um nánasta umhverfi, mosavaxin brunahraun. Uppi er gestabók í skemmtilega hönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann. Auk þess er á toppnum útsýnisskífa sem Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur kostað uppsetningu á.
Keilir, er eins og áður var lýst, móbergsfjall. Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Ísöld er jarðsögulegt tímabil þar sem þykkar jökulbreiður hylja stór landsvæði. Slík tímabil geta staðið í nokkrar milljónir ára og valdið miklum breytingum á yfirborði meginlanda.
Allnokkrar ísaldir hafa sett svip á sögu jarðarinnar. Sú elsta er kennd við svokallaðan forkambrískan tíma fyrir meira en 570 milljónum ára. Síðasta tímabil mikilla jökulframrása er kallað Pleistósen tímabilið og er almennt talið hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir 10 þúsund árum. Sumir telja að síðustu ísöld sé ekki lokið enn heldur sé nú hlýskeið ísaldar (líkt og tiltölulega hlýr vetrardagur.
Minna kuldakast og tímabil sem einkenndist af framrás jökla hefur verið nefnt litla ísöld, en hún hófst á 16. öld og var viðvarandi næstu þrjár aldir. Litla ísöld náði hámarki árið 1750 en þá voru jöklar í mestu framrás síðan á hinni Kvarteru ísöld.
Ekki er vitað með vissu hvað veldur ísöldum en meðal þess sem getur haft áhrif eru geislun sólar, Milankovic-sveifla sem er reglubundin breyting á afstöðu sólar og jarðar, breytingar á kerfi hafsstrauma og mikil tíðni eldgosa.
Reyndar vilja sumir meina að síðustu ísöld sé ekki lokið ennþá, nú sé bara hlýskeið, en ísaldir skiptast í kuldaskeið sem vara í allt að 100.000 ár og hlýskeið sem standa eitthvað styttra. Fleiri telja þó að síðustu ísöld hafi lokið fyrir um 10.000 árum en þá hafði hún staðið í um 2,8 milljónir ár þar sem kuldaskeið og hlýskeið skiptust á.
Reykjanesskagi er suðvesturhluti Íslands, sem skagar eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandinu. Skaginn er sunnan Faxaflóa, sem er stærsti flói við Ísland. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.“
Rifjaðar eru upp þrjár vísur þar sem Keilis er getið. Fyrst var það vísa Halldórs Laxness í kvæðinu Vegurinn austur:
„Keilir er líkur konungsstól í salnum,
kallarnir spá og taka í nef úr bauki.
Austur í Fljótshlíð glóir á grænum lauki
glampar í Ölvesinu á mó í hrauki.“
Þá kom vísa úr Jörundi eftir Þorstein Erlingsson:
„Sem nærri má geta, hver Nesjungur fann
að neyð voru Jörundar völd;
þar hitnaði stöðugt, uns báleldur brann
og brauzt út eitt skuggalegt kvöld;
á Nesjunum öllum var engin sú kind,
sem anda sinn drægi þá rótt,
og Keilir stóð gnæpur, sem gengi að með vind,
og gat ekki sofið þá nótt.“
Loks var vísa Benedikts Gröndals:
„Hér situr einn með hatt og sjal
og hórbrotasakramenitum deilir,
það á nú bezt við hann Belíal,
sem brennivín drekkur upp á Keilir.“
Gangan á Keili og til baka er u.þ.b. 10 km. Auðveldast er að ganga gamla Oddafells-selsstíginn yfir hraunið milli Oddafells og fjallsins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.com