Tag Archive for: Vífilsstaðir

Garðahverfi

Í ritinu Harðjaxl réttlætis og laga 1924 skrifar „Gamall Garðhreppingur“ um „Átthagafræði Garðahrepps„. Um var að ræða verðlaunasamkeppni ritsins þar sem viðkomandi lýsir bæjum og ábúendum í Garðahreppi:

Hr. ritstjóri!

Lónakot

Lónakotsbærinn.

„Þegar eg las í blaði yðar Harðjaxl um hinn mikla framgang Harðjaxlsstefnunnar, sem ennþá er vitanlega mestur í höfuðborginni, datt mér í hug, að þegar þér farið að senda erindreka yðar út um sveitirnar, væri gott fyrir yður að vita nokkur deili á býlum þeim og bændum, þar sem erindrekar yðar fara um. Þess vegna sendi eg yður hér með stuttorða lýsingu á bæjarnöfnum og fleiru smávegis, í þeim hreppi, sem eg er tiltölulega kunnugastur í.
Syðsti bær hreppsins er Lónakot. þar bjó til skamms tíma Guðlaugur; var hann sveitarhöfðingi hinn mesti, og bætti jörð sína mjög, og fór vel með allar skepnur, sérstaklega sauðfé. En nú er hann fluttur til Hafnarfjarðar og mun það mest vera fyrir þá sök, að honum þótti of lítið útsvar lagt á sig í hreppnum. Nú býr í Lónakoti Þorsteinn frá Herdísarvík, sá sem ekki vildi dóttur þórarins. Er hann sagður búhöldur góður.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Næsti bær fyrir innan Lónakot eru Óttarstaðir; þar er tvíbýli. Á öðrumum partinum býr Guðmundur strandamaður. þar bjó áður Guðjón, sem búnaðist best í Krýsuvík. Á hinum partinum býr Sigurður; var hann talinn góður bóndi áður en bílarnir komu. Skammt fyrir ofan Óttarstaði er býlið Eiðskot.
Þar búa bræður tveir, Sveinn og Guðmundur. Eru þeir smiðir góðir og gamlir skútumenn, en hafa nú í seinni tíð hneigst til sauða, eins og stórbóndinn á Hvaleyri. Einnig hafa þeir verið helstu skónálasmiðir hreppsins um mörg ár.
Nú kemur engin bygð. fyr en í Straumi. Þar bjó um langan aldur Guðmundur dýravinur. En nú er hann kominn til Hafnarfjarðar eins og Guðlaugur, og lifir þar á sauðfé sínu og guðs blessun. Bjarni skólastjóri hefir nú útibú í Straumi, og á margt auðfé. Þar er engum úthýst.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Í inn-hraununum eru nú sex býli í eyði, sem búið hefir verið á til skamms tíma, en liggja nú flest undir Straum.
Helsta býlið af þessum sex voru Þorbjarnarstaðir. Þar bjó lengi Þorkell faðir Árna, Ingólfs og Geira. Og var honum að sögn bygt út fyrir þá sök, að hann þótti ekki gresja nóg skóginn.
Hann hafði mikla ást á geldingum, sérstaklega mislitum. Nú er hann kominn til fjarðarins eins og Laugi. Í Péturskoti, sem er eitt af eyðibýlunum, bjó eitt ár Ingólfur sonur Þorkels, en af því að hann gat ekki tekið með köldu blóði að hafa þar margt fé á litlu, fór hann þaðan, og er nú kominn í velsæluna í firðinum. Á eyðibýlinu Litla-Lambhaga bjó fyrir nokkru Brynjólfur, gamall vinur Þorkels. Mun hann hafa farið þaðan fyrir þá sök að honum þótti of lág landskuldin. Í Gerðinu hefir nú Þórarinn sumarbústað; er hann sami maðurinn sem snéri trollurunum aftur við Reykjanes í fyrra, þegar hann komst ekki í bæjarstjórnina í firðinum. Þá grétu Emil og Gísli. Í Stóra-Lambhaga, sem nú er ein af hjálendum Straums, bjó fyrir nokkru Guðjón, sem nú býr á Langeyri við Hafnarfjörð, faðir Magnúsar hugvitsmanns…

Ás

Ás – tilgáta ÓSÁ.

Þegar hinum svokölluðu Hraunabæjum sleppir, er næsti bær Þorgeirsstaðir. Þar nam land Þorgeir hinn sterki. Nú býr þar Brynjólfur frá Litla-Lambhaga. Er hann víst allgóður bóndi, en heldur þykir hann óheppinn með sauðfé nú í seinni tíð. Skammt frá Þorgeirsstöðum er býlið Stekkur. Þar býr Sigurður. Þykir hann gera það gott eftir atvikum. Næsti bær við Stekk er Ás. Þar býr Oddgeir sonur Þorkels; er það sami maðurinn sem ekki bauð sig fyrir hreppstjóra hérna um árið, en varð hreppstjóri samt, eg man ekki hvað lengi. Nú er höfuðbólið Setberg næsti bær. Þar býr nú Jóhannes Reykdal, og hefir mikið um sig. Þar bjuggu áður Halldór og Anna, sem margir kannast við.

Urriðakot

Urriðakot.

Næsti bær við Setberg er Urriðakot. Þar býr Guðmundur. Er hann tengdafaðir Björns bolsivikka í firðinum, og er sagt, að Guðmundur sé ekkert upp með sér af þeim tengdum.
Þá koma næst Vífilsstaðir. Þar er nú rekinn fyrirmyndar búskapur á kostnað ríkissjóðs, undir stjórn Þorleifs. Og mundi vart betur vera búið, þótt einstakur maður ætti. Og sýnir það, að ríkisrekstur á fullkominn tilverurétt, á hvaða sviði sem er, ef honum er viturlega stjórnað. En heldur þykir bændum útsvarið vera lágt á búinu.
Skammt fyrir neðan Vífilsstaði er Hagakot; það er nú í eyði, en beljur látnar slá túnið á sumrum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Þá koma Hofstaðir. Þar býr nú Gísli, sá sem ekki vill komast í hreppsnefndina. Þar bjó áður Jakob faðir Gísla, vel metinn maður. Fyrir neðan Hofstaði er Arnarnes. Þar býr nú prestsekkja með sonum sínum. Og hefir hún meira álit á hærri stöðum en sumir hreppstjórar. Þá er næst Hraunsholt. Þar hefir lengi búið Jakob; er hann með betri bændum hreppsins, og helsti brautryðjandi hreppsins í kaupfélagsmálum. Og sérstaklega er sagt að hann hafi gengið upp, síðan farið var að slá slöku við að mæla fitumagnið í mjólkinni.

Krókur

Krókur.

Þá tekur við Garðahverfið, og er þá best að byrja á Garðastað. Þar býr prófastur Árni Björnsson, tengdafaðir Gunnlaugs stórkaupmanns. Þá er næst Nýibær. Þar býr Magnús, allgóður bóndi, en heldur er sagt að búskap hans hafi hrakað síðan bæjarfulltrúinn tók heimasætuna. Skamt upp af Nýjabæ er Krókur. Þar bjó lengi Björn faðir Guðmundar. Er sagt að Guðmundur sjái um að blikkkassinn hjá gjaldkeranum springi ekki af offylli. Fyrir neðan Krók eru Pálshús. Þar býr nú Guðjón hreppstjóri, sem ekki fékk Arnarnesið.

Garðahverfi

Pálshús.

Fyrir neðan Pálshús eru Dysjar. Þar er tvíbýli. Á öðrum partinum býr Magnús Brynjólfsson. Og er sagt að bærinn hjá honum leki enn, þó að hann kysi Björn. Á hinum partinum býr Guðjón, mágur Steingríms og Óla H. Skamt frá Dysjum er Bakki. Þar býr nú Kristinn Kristjánsson. Þar bjó áður Isak, sem á meinlausu hundana. Þá er Miðengi. Þar býr Gunnar, sláttumaður góður. Þar næst er Móakot. Þar býr Einar, bróðir Steins rithöfundar. Sonur Einars er Sigurður sá, sem engin hjúkrunarkona vill ganga með, jafnvel þó hún sé launuð af bæjarstjórn. Fyrir ofan Móakot er Háteigur. Þar býr Stefán, faðir Páls.

Garðahverfi

Hlíð.

Þá kemur næst Hlíð. Þar hefir til skamms tíma verið tvíbýli. Nú hefir alla jörðina Gísli Guðjónsson. Þá er næsti bær Grjóti. Þar býr nú sprenglærður búfræðingur með mikilli rausn.
Á Hausastöðum býr nú Valgeir Eyjólfsson, talinn gott búmannsefni. Fyrir neðan Hausaataði er Katrínarkot. Þar hefir lengi búið Jónína, gömul vinkona Guðjóns. Þá er norðasti bær hreppsins, Selskarð. Þar bjó til skamms tíma Þórarinn, sem margir Hafnfirðingar kannast við. En nú hafa þeir félagar Jón og Gísli keypt jörðina, og er sagt að þeir ætli að setjast þar að þegar þeir eru búnir að tapa svo miklu á akkorðunum, að þeir haldist ekki lengur við í firðinum. Og telja kunnugir, að það geti vart dregist lengur en fram á næsta vor, sérstaklega, ef þeir hafa uppskipun úr 14 trollurum í vetur.
Þess skal getið réttum hlutaðeigendum til hróss, að þeir hafa sett mjög öfluga girðingu á milli Álftaness og Garðahverfis. En þó Álftnesingurinn sé ekki árennilegur, mun eg ef til vill, ef eg sé mér færi, skjótast í gegnum hliðið á girðingunni og rita þá lítilsháttar um bændur þar og búalið.“ – Gamall Garðhreppingur.

Heimild:
-Harðjaxl réttlæstis og laga, 16. tbl. 04.12.1924, Átthagafræði Garðahrepps – verðlaunasamkeppni, bls. 2-3.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Vífilsfell

Þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölluðu um Vífilsfell í Fréttablaðinu árið 2020 undir fyrirsögninni „Gáð til veðurs á Vífilsfelli„:

„Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli, sem ásamt Karla var þræll Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó [hann] lengi, varð skilríkur [áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í að minnsta kosti tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. [Þá hvíldi um 700 m þykk íshellan yfir svæðinu.] Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell. Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu, upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær, en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 tíma. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall, en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð, þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðshnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður, en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.“

Fjallað er um ferð á Vífilsfell í Morgunblaðinu 1979 í dálkinum „Spölkorn út í buskann„:
Vífilsfell„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni, er Vífilsfellið. Það er ekki stórfenglegt að sjá úr fjarskanum, en þegar nær er komið, breytir það um svip og ýtir undir þá löngun, að ganga þangað upp. Og í dag skulum við framkvæma það verk.
Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum, en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá kaffistofunni, sem er á mótum hins nýja og gamla vegar um Svínahraunið, ökum við afleggjarann sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suð-austan undir Vífilsfelli. Hér skulum við skilja bílinn eftir, og hefja gönguna.
Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður, ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur meíur. Hann er kærkominn, því brekkan er erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi. Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum. Er á reynir, er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið til vesturs yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Hér hefur Ferðafélagið komið fyrir kaðalspotta, þeim til styrktar, sem smá aðstoð þurfa, en flestir hlaupa upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar við höfum klifið stallinn, er „hæsta tindi náð“ og ekki annað eftir en „rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna“ með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélagið lét setja hér upp árið 1940. (Tilvitnanir eru úr Fjallgöngunni, kvæði eftir Tómas Guðmundsson.)

Vífilsfell

Vífilsfell.

Meðan við dveljum hér við útsýnisskoðun og fleira, rifjast upp sagan un nafn fjallsins. Í þjóðsögu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið Vífli þræli sínum bústað, sem síðan var nefndur Vífilsstaðir. Á miðju Álftanesi er Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Vífill og Sviði stunduðu mjög sjó, og segir sagan, að þeir hafi tveir einir róið til fiskjar á áttæringi.
Í þjóðsögunni segir síðan: „Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið, til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán a lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða.“ Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smá lykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri þegar við erum komin ofan fyrir efstu klettana, og göngum vestur brúnirnar.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Gott er að komast niður gilið, sem merkt er leið A á kortinu, eða ganga alla leið vestur fyrir dalbotninn og þar niður í dalinn (leið B). Jósefsdalur er mjög sumarfagur, fjöllum luktur, en rennisléttur í botninn. Suður úr honum er Ólafsskarð, kennt við Ólaf bryta í Skálholti, sem ég sagði frá, þegar við gengum á Lyklafellið. Fyrrum var alfaraleið um Ólafsskarð og sjást götuslóðirnar enn. Dalurinn dregur nafn af Jósef bónda, sem þar bjó fyrrum. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum, að bærinn sökk og Jósef með. En líklega hefur verið bætt fyrir brot Jósefs, því til skamms tíma voru hér aðalskíðalönd Ármenninga, skíðaskáli þeirra og fleiri byggingar og gekk vel.
Við göngum austur úr dalnum, fram hja Grettistaki, stórum stökum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“

Heimildir:
-Fréttablaðið, 231. tbl. 29.10.2020, Gáð til veðurs á Vífilsfelli, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
-Morgunblaðið, 196. tbl. 30.08.1979, Spölkorn út í buskann – Vífilsfell, bls. 11.

Vífilsfell

Vífilsfell.