„Þá höfðum við skiptivöll“ — Rœtt við þrjá gamla sjómenn

Grindavík

Í Bæjarbótinni, bæjarblaði Grindvíkinga, árið 1984 er m.a. „Rætt við þrjá gamla sjómenn“ undir fyrirsögninni „Þá höfðum við skiptivöll„:

Grindavík

Grindavík – hluti gamla bæjarins við Járngerðarstaði.

„Sjómannadagurinn er framundan, þá eru sjómenn í landi og skemmta sér við leiki og annað er tengist starfi þeirra. Þegar litið er niður að höfn og horft yfir öll þessi fullkomnu skip með yfirhlaðnar brýr og tækjum og „allt nauðsynlegt“, þá vaknar spurningin: Hvernig fóru menn að hérna áður fyrr? Blaðið leitaði til þriggja eldri sjómanna hér í bæ og bað þá að segja svolítið frá fyrri tíð.

Hjalti Þórhannesson:
Hjalti ÞórhannessonHvernig var niðursetningu bátsins háttað og hvernig var hann útbúinn ?
„Þessi bátar voru venjulega tjargaðir að utan og innan. Það voru notaðir hlunnar sem settir voru undir bátinn og alveg niður í sjávarmál, til þess að þetta gengi betur þá var lýsið borið á hlunnana.
Síðan voru þeir teknir saman og geymdir þar til komið var úr róðri. Þá var hlunnunum komið fyrir aftur og báturinn dreginn á hliðinni upp í naust.
Búnaður voru auðvitað árarnar, seglin, „framsegl, aftursegl og fokka“ og það sem þeim fylgdi og ekki má ég nú gleyma austurstroginu. Veiðarfæri voru þá helst net og undir vorið, kring um páska, voru reynd grásleppunet.“
Hvernig var því háttað þegar menn komu um borð í skipið?
„Formaðurinn var í austursrúminu þá röðuðu menn sér í miðrúm og framrúm. Það var ekki flakkað á milli rúma á skipi, ó nei menn voru í sínu rúmi til vertíðaloka.
Ég var alla tíð ráðinn upp á kaup, á þessum árum var það um 30 krónur fyrir vertíðina. Fyrsta vertíðin mín hér var þegar ég var 15 ára.“

Þorleifur Þorleifsson:
Þorleifur ÞorleifssonVilt þú lýsa fyrir lesendum hvernig menn útbjuggust þegar þeir fóru í róður?
„Fyrst var farið í föðurlandið síðan í skinnklæðin, venjulega hafði maður gúmmískó á fótum.
Skinnklæðin voru buxur, stakkur og því fylgdi sjóhattur.“
Vildu menn ekki blotna í þessum klœðum og þegar þau þornuðu vildu þau ekki verða hörð? Höfðuð þið mat með ykkur?
„Skinnklæðin voru vatnsheld allavega minnist ég þess ekki að hafa blotnað vegna þeirra. Aftur á móti gátu þau orðið dálítið óþjál. Lýsi var notað til að mýkja þau.
Mat höfðum við aldrei með okkur á þessum árum.“
Hvað var helst geymt í sjóbúðinni? „Í sjóbúðinni voru geymdar árarnar og annað það sem lauslegt fylgdi skipinu.
Einnig voru geymd þarna veiðarfæri ýmiskonar svo sem lína, handfæri og hampnetin.“

Árni Guðmundsson:

Árni Guðmundsson

Árni Guðmundsson.

Hvernig var aðstaða báta við Hópið þegar þú manst fyrst eftir því?
„Nú aðstaðan var sú að þeir lentu í vör niður undan pakkhúsunum, þetta voru tvær varir sem lent var í og voru kallaðar Norðurvör og Suðurvör. Öllu betra held ég að hafi verið að lenda í Norðurvörinni. Annars er ég ekki svo kunnugur þarna, ég held ég hafi lent einu sinni í Suðurvörinni, vegna brims urðum við að hleypa undan suður í Hafnir og komumst síðan í Suðurvör.“
Svo var náttúrlega heilmikil útgerð úr Þórkötlustaðahverfinu? Hvar var lent?
„Já það gengu héðan 9 skip það voru 10 ræðinga, 8 og sexmannaför. Það var Buðlungu vör og út í Þórkötlustaðanesi sem var frekar vond lending og mæddi mikið á skiphaldsmönnum sem kallaðir voru. Það voru alltaf tveir sem héldu skipunum meðan seilað var. Það var líka reynt að lenda með fiskinn en oft ekki hægt vegna brims, við kölluðum það lág þegar brimsog var við landið og þá var seilað útá lóni sem sker myndar þarna.

Grindavík

Grindavík – seilað í Norðurvör.

Svo voru seilarnar bundnar saman settur belgur á og 60 faðma langt færi og jafnvel lengra bundið við belginn. Síðan var það gefið út eftir því sem róið var í land. Seilarnar voru teknar að landi þar sem best var að bera þær upp á skiptivöll. Á tíræðing var skipt í 14 hluta og var það sett í 7 köst þrír hlutar fóru til bátsins þeir voru fyrir veiðarfærum, beitu og sá þriðji til skipsins. Þá voru 11 hlutar eftir til formanns og skipverja.“
Að lokum Árni, hvenær byrjaðir þú til sjós?
„Ég byrjaði til sjós 14 ára gamall á áttræðing sem Guðmundur á Skála átti. Var það fyrsta vertíðin sem hann gerði það skip út.“ – Lúðvík P. Jóelsson.

Heimild:
-Bæjarbót, 3. tbl. 01.06.1984, Þá höfðum við skiptivöll, rætt við þrjá gamla sjómenn, bls. 8.
Þórkötlustaðanes