Þingvellir, friðun og fullveldi – Einar Á.E. Sæmundsen
Í Morgunblaðinu árið 2018 má finna skrif Einars Á.E. Sæmundsen um „Þingvelli, friðun og fullveldi„. Þingvellir skipa sérstakan sess í hjarta íslensku þjóðarinnar. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fjallar hér um mikilvægi staðarins í sjálfstæðisbaráttunni.
„Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Með stofnun Alþingis um árið 930 urðu Þingvellir að einum mikilvægasta samkomustað landsins. Eftir að formlegu þinghaldi lauk árið 1798 urðu Þingvellir að hljóðum stað utan alfaraleiða.
[Reyndar er þetta ekki alveg rétt. Saga Íslendinga endurspeglast hvergi betur en í minjum þeim sem skilgreina má sem leifar liðinna kynslóða um land allt, frá upphafi byggðar til vorra daga. Að skilgreina Þingvelli sem miðdepil alls athafna- og mannlífs í landinu í gegnum tíðina verður að teljast svolitla þröngsýni].
Kröfur um aukna sjálfstjórn til handa Íslendingum og heimsóknir erlendra ferðamanna færðu Þingvöllum nýtt hlutverk í samfélaginu að loknu þinghaldi. Erlendir ferðamenn, sem komu til Þingvalla, undruðust og dáðust að landslagi og söguminjum um leið og þeir fengu fyrirgreiðslu hjá presti og fólki hans á Þingvöllum. Lýsingar ferðamanna rötuðu á ferðabækur og komu Þingvöllum á kortið sem fyrsta ferðamannastað landsins.
Á sama tíma náðu straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu til Íslendinga. Við það fengu Þingvellir táknrænt hlutverk í þjóðlífinu þar sem saga Alþingis á þjóðveldisöld var sett fram í ræðum og ritum. Fjölnismenn settu fram kröfur um að endurvekja Alþingi á Þingvöllum. Úr varð þó með konungsúrskurði Kristjáns VIII, um stofnun þings á Íslandi, að endurnýjað Alþingi kom saman í húsi Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí 1845. Þrátt fyrir það urðu Þingvellir að mikilvægum fundarstað þar sem kjörnir fulltrúar mættu til hvatningarfunda allt til ársins 1907, til knýja á um meiri réttindi Íslendingum til handa. Þingvellir festust í sessi sem mikilvægur staður til að fagna merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar eins og afhendingu stjórnarskrárinnar 1874 á völlunum skammt norðan við Öxará. Á síðari hluta 19. aldar fjölgaði gestum á Þingvöllum og var því gistihúsið Valhöll reist skömmu fyrir aldamótin norðanvert á þingstaðnum forna.
Heimsókn Friðriks VIII konungs til Íslands í ágúst 1907 var stórviðburður sem hafði mikil áhrif vegna allra þeirra framkvæmda sem fylgdu heimsókninni víða um land en einnig vegna þess samningaferlis sem hófst í kjölfar konungsheimsóknarinnar og átti eftir að leiða til fullveldis Íslands 1918. Heimsókn konungs var ekki án gagnrýni. Árið 1907 birtist fyrsta skrif þar sem fjallað var um nauðsyn þess að friða Þingvelli og aðra staði. Í grein sinni „Um verndun fagurra staða og merkra náttúruminja“ í Skírni fjallaði Matthías Þórðarson fornminjavörður um nauðsyn þess að friða merka staði landsins og ritar:
„Fyrst og fremst má nefna Almannagjá alla og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará,– er ekki getur kallast sögustaður alt eða talist til fornmenja“.
Síðar í grein sinni nefnir hann að vegagerð hafi spillt Almannagjá og söguminjum þar. Hann fjallaði um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum. En vegurinn var kominn um Almannagjá og greiddi leið gesta til Þingvalla. Fleiri ferðamenn komu og vinsældir Þingvalla jukust jafnt og þétt. Fyrsti helgaráfangastaður ferðamanna utan Reykjavíkur var orðinn að veruleika en slæm umgengni varð viðvarandi.
Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson kennari grein í Eimreiðina sem ýtti hugmyndum um friðun Þingvalla úr vör. Honum blöskraði umgengnin og ritaði: „Náttúrufegurð og sögufrægð Þingvalla gæti ekki verið höfð í jafnlitlum metum hjá neinni menningarþjóð, eins og raun er á, nema Íslendingum einum.“
Guðmundur hafði kynnt sér hugmyndir um þjóðgarða erlendis og lýsti þeim: „Þjóðgarðarnir eru friðhelgir reitir. Engum er leyft að deyða þar nokkra skepnu, né skemma jurtagróðurinn. Náttúran fær algerlega að njóta sín, óspilt af hálfu mannsins og alidýra hans. Þjóðgarðar þessir eru flestir þjóðeignir og opinberir skemtistaðir almennings, – „til gagns ok gleði fyrir þjóðina“, eins og komist er að orði um þjóðgarðinn fræga í Bandaríkjunum.“

Þingvellir við Öxará ásamt „allra þjóða gestum“.
Niðurstaða Guðmundar var skýr en hann ritaði að „Þingvellir við Öxará væri sá staður, sem framar öllum öðrum stöðum hér á landi ætti skilið að vera gjörður að þjóðgarði Íslands.“
Í grein sinni lýsti hann ýmsum hugmyndum varðandi framtíðarnýtingu svæðisins, mögulega stærð og hvaða áhrif friðunin myndi hafa. Í lokin nefnir hann að til að varðveita Þingvelli sem best á 1.000 ára afmæli Alþingis árið 1930, sem þó voru enn 17 ár í, væri best að friðlýsa svæðið sem þjóðgarð.
Greinin vakti athygli og var gagnrýnd. En fræjum var sáð með þessari hugvekju Guðmundar og á næstu árum fóru fram umræður um framtíð Þingvalla og hugmyndir um þjóðgarð.
Sumarið 1918 voru samningaviðræður á lokastigi um fullveldi Íslands. Sunnudag einn í júlí gerði samninganefnd Dana og Íslendinga um fullveldissamninginn hlé á vinnu sinni og fór í dagsferð til Þingvalla. Þrátt fyrir kalsalegt veður gengu þeir um vellina og virtu fyrir sér söguminjar staðarins og nutu veitinga í Konungshúsinu skammt neðan við Öxarárfoss. Var glatt á hjalla og komið seint til baka til Reykjavíkur.
Líklega má telja að þessi einfalda heimsókn samninganefndarinnar til Þingvalla hafi verið eina beina tenging Þingvalla við samningagerðina um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku sem tók gildi 1. desember 1918. Þrátt fyrir það var saga og ímynd Þingvalla alltaf Íslendingum hvatning til að vinna að sjálfstæði Íslands áratugina á undan.
Rúmum aldarfjórðungi síðar, þann 17. júní 1944, urðu Þingvellir meginvettvangur stærsta atburðar í nútímasögu Íslands þegar sambandinu við Danmörku var slitið og stofnað sjálfstætt lýðveldi á Lögbergi að viðstöddu fjölmenni.“
Heimild:
-Morgunblaðið 01.12.2018, „Þingvellir, friðun og fullveldi, Einar Á.E. Sæmundsen, bls. 16.
















