Þorbjarnastaðarauðamelur – Jón Jónsson
„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [svæðið tilheyrði ekki Hafnarfirði fyrr en 1967] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá. Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.
Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls [Núpshlíðarháls]. Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
Í gígnum í Selhrauni fannst ennfremur um fimm cm stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.
Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ékki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið.
Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t. d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið. Á a.m.k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.
Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni. Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia sp. og Tabellaria feneslrata.
Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e. t. v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“
Raunar sleppir Jón hér tveimur mikilvægum, enn ósnertum sambærilegum gersemum; Litla-Rauðamel norðan hins raskaða Rauðamels og Litla-Þorbjarnarstaðarauðamel skammt sunnan þess aðalumnefnda.
Hafa ber í huga að ef verulega vel væri á málum haldið – og enn verulegri áhugi væri fyrir hendi – myndi umhverfisnefnd Hafnarfjarðar fyrir löngu síðan hafa látið hreinsa Þorbjarnarstaðarauðmelinn af rusli svo nýta mætti svæðið fyrir áhugasama ferðamenn um jarðfræði Íslands. Þarna má nú t.d. sjá fornar gígmyndanir, bergganga, gígtappa, hraun og gjóskumyndanir í sjó, skeljaleifar sem og landmótunina fyrir tugþúsundunum ára.
Heimildarrit – References Jónsson, Jón. Hnyðlingar íslenzku bergi. Náttúrufræðingurinn 88. árg. bls. 9-22.
Tröger IV. E. 1959. Tabellcn zur optischen Bestimmung der gesteinbildenden Mineralen, Stuttgart.
Heimild:
Náttúrufræðingurinn. 35. árg. 1965-1966, 1. tbl. bls. 1-4.