Þorbjörn – Þjófagjá – Lágafell – Illahraun – Svartsengi
Gengið var vegslóðann upp á Þorbjörn (Þorbjarnarfell). Þegar upp var komið mátti sjá leifar af byggingum hernámsliðsins frá því í Seinni heimsstyrjöldunni; Camp Vail. Grunnar og sökklar húsa, götur og stígar eru í aðalgígnum.
Gengið var suður með eystra missgenginu og beygt til vesturs áður en komið var að hæðinni. Hliðinni var fylgt áfram til vesturs, yfir litla gjá og áfram yfir að Þjófagjá.
Einstigi er niður gjána. Ef beygt er til vinstri þegar komið er að henni lendir fólk í villum. Halda þarf áfram og beygja síðan svolítið til hægri og síðan að gjárveggnum. Þá sést leiðin niður. Fara þarf varlega fram af og á milli stórra steina, en þessi leið er tiltölulega greið. Farið er framjá Þjófahelli, skúta hægra megin í berginu. Til er saga af þjófunum er héldu til í gjánni og herjuðu á íbúana fyrir neðan. Eitt sinn hertóku þeir ungan mann og færðu með sér upp í gjána. Hann vingaðist við þjófana, en nótt eina laumaðist hann niður felið og tilkynnti yfirvaldinu að þjófarnir ætluðu til baða daginn eftir í gjá norðan við fellið, sem enn má sjá þótt nú sé orðin vatnslaus.
Síðan laumaðist hann aftur upp eftir. Daginn eftir fór maðurinn með þjófunum að baðstaðnum, en þegar þeir voru að baða sig, gerði hann hnúta á treyjuermar og buxnaskálmar þjófanna. Og þegar yfirvaldið birtist með sína menn urðu þeir þess vegna seinir til að flýja. Voru þeir handsamaðir og síðan hengdir í Gálgaklettum, sem eru þarna skammt austar í Hagafelli.
Loks er komið í gróið verpi, en þegar upp úr því er komið er gott útsýni yfir bæinn og umhverfið. Gott er að á á þessum stað að staldra við, horfa á fýlinn og dást að útsýninu yfir til Grindavíkur, áður en haldið er á ská til hægri áleiðis að dyngjunni Lágafelli og gengið niður Gyltustíg.
Þegar niður var komið var beygt til hægri og slóðinn genginn meðfram stórbrotnum hraunkanti Illahrauns (nú er kominn malbikaður stígur í gegnum hraunið), framhjá Bláa lóninu með viðkomu á Baðsvöllum og endað á Svartsengisflötunum þar sem dansleikir grindjána voru fyrrum (stöku sinnum a.m.k.).
Frá flötunum var gengið um vegavinnumannastíginn að vegavinnubúðunum á Gíghæð annars vegar og að seljunum á Baðsvöllum hins vegar.
Þessi ganga tók 2 klst og 30 mín. Sól og blíða.