Hafravatnsrétt

Nokkrar sagnir eru um fornmannaleiði í Mosfellsbæ. Hraði á Hraðastöðum á að vera heygður í Hraðaleiði, lágum hól á mörkum Mosfells og Hraðastaða. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Í örnefnaskrá greinir frá hól eða dys norðan við bæinn að Úlfarsá sem kölluð var Rikkudys. Þormóðsleiði er í landi Þormóðsdals. Æsuleiði er aflöng þúfa vestan í túnbrekkunni neðan við Æsustaðabæ.

Þormóðsdalur

Fjárhús við Þormóðsdal.

Þar á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá.
Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá og Úlfarsfelli. Blettina má ekki slá eða eiga við á annan hátt.
Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar. FERLIR gekk um svæðið í fylgd ábúandans, Þorsteins Hraundals.
Óljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar  undan því til suðvesturs. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.

Þórmóðsdalur

Tóft við Þormóðsdal.

Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.
Í Sturlubók segir m.a. um þetta: “Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.”
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan. Sjá meira HÉR.
Í örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal segir m.a.: “Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita.

Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.”

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.
Á skilti við Hafravatnsrétt stendur: “Hafravatn er um einn ferkílómetri að stærð, 76 m yfir sjávar máli og 28 m á dýpt. Seljadalsá fellur í vatnið að sunnanverðu en Úlfarsá vestur úr því og til sjávar í Blikastaðakró (sjá HÉR). Silungsveiði er í Hafravatni, bæði á urriða og bleikju, og einnig er hér nokkur laxagengd.
Um aldanótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað í rétina var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.” Þá kemur texti með mynd af Kristni Guðmundssyni (1893-1976) bónda á Mosfelli sem var þarna réttarstjóri um árabil. Notaði hann gjallarhorn til að gefa fyrirskipanir.

Þormóðsdalur

Tóft við Þormóðsdal.

Auk þessa er sagt frá nykrinum í Hafravatni sbr. Þjóðsögur Jóns Árnasonar: “Nykur er bæði í ám og stöðuvötnum og jafnvel á sjó. Hann er líkastur hesti að öllu skapnaðarlagi, oftast grár að lit, en þó stundum brúnn, og snúa hófarnir aftur, hófskeggið öfugt við það sem er á öðrum hestum; þó er hann alls ekki bundinn við þetta einkenni; hitt er honum eiginlegt, að hann breyti sér snögglega á ýmsa vegu að eigin vild. Sagt er að nykur sé í Reykjavíkurtjörn annað árið, en í Hafravatni í Mosfellssveit hitt árið. Svo er því varið, að undirgangur er á milli, og fer nykurinn eftir honum úr Hafravatni í Reykjavíkurtjörn og úr tjörninni aftur í vatnið; enda þykjast Reykvíkingar hafa tekið eftir ógurlegum skruðningum, brstum og óhljóðum í Reykjavíkurtjörn, þegar hún liggur, en þó eru á því áraskipti, því brestirnir koma af því að nykurinn gerir hark um sig undir ísnum og sprengir hann upp, þegar hann er í tjörninni. En þegar nykurinn er í vatninu, er aftur allt með felldu í tjörninni.”

Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi. Um er að ræða tvö svipaða melhóla vestan vegarins. Sá neðri er nær veginum, en hringurinn er á þeim efri.
Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – hringur á melholti.

Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
“Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.”

Þormóðsdalur

Tóft ofan Þormóðsdals.

Gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, mun eitt sinn hafa skimað eftir leiðinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði.
Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gömul tóft uppi á hól norðan við núverandi íbúðarhús, líklega hluti gamla bæjarins. Freistandi væri að ætla tóft þessa Þormóðsleiðið þótt ekki væri fyrir annað en staðsetninguna og stærðina. Áttir gætu og hafa misritast í örnefnalýsingunni. Rústin er nálægt því að vera ferköntuð (ca 400x800x20 cm), gróin. Grjóthlaðið hefur að öllum líkindum verið umleikis þótt ekki sjáist grjót núna. Þetta gæti hafa verið hluti af húsi, en það gæti líka hafa verið fyrrnefnd dys. Staðsetning hennar kemur þó ekki heim og saman við fyrrgreinda lýsingu, þ.e. sunnan við bæinn, því ekki er að sjá búsetuleifar norðan við rústina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – loftmynd.