Þórshöfn – Gamli-Kirkjuvogur
Haldið var í Þórshöfn. Leitað var tveggja festarhringja. Ofan við Þórshöfn, þann gamla verslunarstað, eru auk þess áletranir á klöppum, m.a. skammstöfunin HP. Nýlega hafði fundist þarna nokkurt brak úr Jamestown, sem strandaði utan við Hestaklett 1881, en einnig hafa menn talið sig hafa fundið silfurberg, sem átti að hafa verið ballest skipsins.
Til að komast sem fyrirhafnarminnst á vettvang og nýta tímann sem best var á kosið var sótt um leyfi til að fara um varnarsvæðið og af því niður að gömlu höfninni, um svonefnt Dei-five-svæði. Höfnin er við austanverða Ósa þar niðurundan er fyrrum var athafnasvæði sjóhersins. Skammt norðar voru hinir eftirminnilegu radarskermar og það ekki af minni gerðinni.
Góðfúslegt leyfi fékkst til að fara um varnarsvæðið. Hlið var opnað og farartálmar voru dregnir til hliðar. Leiðin var greið. Tíminn nýttist vel til leitarinnar sem og að skoða næsta nágrenni.
Svæðið er í rauninni utan varnarsvæðisins. Gamall vegur liggur frá Hafnavegi upp að svæðinu, en þar er lokað hlið, einhverra hluta vegna. Ef einhver svolítil hugsunarglóra væri í huga einhvers, sem gerði sér grein fyrir útivistarmöguleikum svæðisins, myndi sá hinn sami biðja um að lás af hliðinu yrði fjarlægður og svæðið um leið gert aðgengilegt áhugasömu fólki.
Áletranir eru á klöppum austan við Þórshöfn. M.a. er þar áletrunin HP á sléttri jarðfastri klöpp undir klapparholti. Sumir vilja halda því fram að sammstöfunin eigi við Hallgrim Pétursson, prest í Hvalsnesi er einnig þjónaði Höfnum um tíma (eftir 1644). Skammstöfunin er á miðri jarðfastri klöpp utan í jökulsorfnu klapparholti. Umhverfis áletrunina eru síðan aðrar skammstafanir og jafnvel ártöl. Ofan við hlöppina eru áletrnir og útflúr. Til hliðar eru nýrri áletranir, m.a. frá 20. öld.
Gengið var út með víkinni beggja vegna og festarhringjanna leitað. En þrátt fyrir útfjöru fundust hringirnir ekki. Jón Borgarson í Höfnum kvaðst hafa siglt þangað yfir fyrir nokkrum árum og þá m.a. litið festarhringina augum. Næsta skref verður að fara með Jóni í Þórshöfnina og skoða hringina.
Vestan þræsingur stóð inn í Ósana og því auðvelt að ímynda sér við hvaða aðstæður þurfti að takast á við er koma þurfi vélavana skipunum inn fyrir skerjagarðinn og inn í örugga höfnina í Þórshöfn. Utan hennar var hvítfyssandi öldurótið, en innan var lygna og angurværð. Auðvelt var að sjá fyrir sér hversu góð Þórshöfn var skipum hér fyrr á öldum.
Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs. Sendu verslanir í Keflavík oft skip sín þangað með salt, timbur og aðra þungavöru en tóku í staðinn fisk af bændum á Miðnsesi og í Höfnum. Í byrjun 20. aldar fór skipakomum að fækka til Þórshafnar, enda tók Sandgerði þá við hlutverki verslunarstaðar á Miðnesi.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því seglbúnaður þess og reiði var horfinn að mestu leyti.
Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður.
Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir. Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins og gerir því skóna að þetta hafi hugsanlega verið silfur. Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Isle hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.“ Það sem er örugglega rétt í þessu, og ber saman við blaðagreinar frá þessum tíma, er að barlestin var málmgrýti frá Deer Isle-námunni. Ástæða þess að einhvern grunaði að um silfur hefði verið að ræða er líklega vegna þess að saman við hefur verið svokallaður ,,klinker“ sem myndast í málbræðsluofnum. Þar með telst kenningin um silfurbarlestina afsönnuð.
Til að nýta tímann, og hið frábæra veður, sem allra best var gengið yfir að Stafnesseli, yfir á gamla Kaupstaðarveginn ofan Illaklifs, en upp á það liggur gata frá rústunum vestan Djúpavogs. Sú gata heldur áfram niður að rústum Gamla-Kirkjuvogs. Ýmislegt forvitnilegt bar þar fyrir augu, ekki síst varða sú er stendur nyrst og norðan rústanna. Neðan undir rústunum er hringlaga gerði, sem nú fer jafnan undir sjó á háflæði. Í Gamla-Kirkjuvogi kennir ýmssa grasa.
Reyndar er Gamli-Kirkjuvogur merktur á kortum norðan við Djúpavog og þar hafa verið gerðar fornleifaskráningar, enda kannski ekki óeðlilegt því þar er rústir að finna. Þær rústir bera þó fremur keim af skammæru útræði en langtíma búsetu. Hins vegar eru miklar rústir sunnan Skotbakka, bæði hús og garðar. Bæjarhóll trjónir efst á rústarsvæðinu og ofan við hann mikil varða. Utan um hana hefur verið allnokkur hleðsla. Líklegra má telja að þarna hafi verið hinn gamli Kirkjuvogur er tilgreindur er í gömlum heimildum og janvel kirkjugarður. Ofan hans er Stafnessel. Í einni heimild er selið sagt mun ofar í heiðinni, en það verður að teljast varhugaverð ályktun.
Gengið var um Síðutanga og reyna átti að komast út í Einbúa og Vörðuhólma, en það tókst ekki. Ekki verður komist út í hólmann nema á bát. Líklegt má telja að úti í honum geti verið einhverjar rústir. Hólminn hefur fyrrum verið landfastur. Vestast á honum er stór varða, sem sá hluti hólmans tekur nafn af. Hestaklettur er þar utar. Hann er skammt fyrir innan skerjagarðinn svo ekki brýtur á honum, en utar er iðandi sjórinn.
Norðan og landmegin við Einbúa er Torfan; allvel gróin. Vestan hennar er Hvalvík. Ætlunin var að reyna að finna „steinhjarta“ það á klöpp er fannst forðum, en ljóst er að ekki verður gengið að því gefnu.
Þegar horft var yfir að Höfnum frá Torfunni sást vel í Veggina; skerjaklasa, vestan við Eyjuna svonefndu. Innar eru Ósarnir; lygnir og öruggir þeim er þangað rötuðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimildir m.a.:
1) Leó M. Jónsson f. 1942 í Reykjavík. Skrifað haustið 2000.
2) sr. Sigurður Brynjólfsson Sívertsen (1808-1887). Suðurnesjaannáll hans er m.a. prentaður í Rauðskinnu hinni nýrri (III). Höf. sr. Jón Thorarensen.
3) Faxi. Tímarit útgefið af Málfundafélaginu Faxa í Keflavík. 4) Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum. f. 1864, d. 1947. Hreppstjóri Hafnahrepps í um 40 ár.