Þráinsskjöldur – örnefnið

Þráinsskjöldur

Á Vísindavef Háskóla Íslands er spurt: „Hvaðan koma örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun?“
Hallgrímur J. Ámundason, fyrrverandi verkefnisstjóri nafnfræðisviðs á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svarar:

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígar dyngjunnar láta ekki mikið yfir sér.

„Þráinsskjaldarhraun er mikið í fréttum þessa dagana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga, ásamt Fagradalsfjalli, Keili, Litla-Hrút, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og fleiri góðum örnefnum.
Heitið virðist sett saman úr þremur hlutum: Þráinn, skjöldur og hraun. Það síðastnefnda er auðskiljanlegt. Skjöldur er svo þekkt í örnefnum til að lýsa dyngjulaga fjöllum, samanber Lyngskjöld á sunnanverðum Reykjanesskaga og hina alkunnu Skjaldbreiði norðan við Þingvallavatn. Hins vegar er ekkert vitað um Þráin. Hver var Þráinn? Hvað var Þráinn? Var Þráinn yfirleitt til?

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gígurinn.

Örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun eiga sér ekki forna sögu eins og mörg önnur íslensk örnefni. Þau koma ekki fyrir í Landnámu eða Íslendingabók Ara fróða, á þau er ekki minnst í Íslendingasögunum og þjóðsögurnar eru sömuleiðis þöglar. Þau koma í raun fyrst fyrir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá miðri 18. öld. Þar segir: „Skolahraun er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinskjöldshraun.“ Góðri öld síðar segir Þorvaldur Thoroddsen í sinni ferðabók: „Sumir kalla hraunin vestur af Keili Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun.“ Af orðum Eggerts og Bjarna er svo að sjá heitið hafi einkum átt við hraunið nær sjó í norðri en Þorvaldur virðist nota það í víðari skilningi, svipað og nú er gert.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og nágrenni.

Örnefnaskrár fyrir þetta svæði á Reykjanesskaganum kannast sömuleiðis ekki við Þráinsskjöld. Sesselja G. Guðmundsdóttir sem er heimakona úr Vogunum og hefur kannað þetta svæði mikið, bæði á bók og fæti, segir að heimamenn hafi aldrei kallað þetta svæði annað en Heiðina og náði það nafn allt frá sjó í norðri og suður í Reykjanesfjallgarð. Sjá rit Sesselju: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út 2007.
Örnefnið hefur væntanlega fest í sessi með skrifum jarðfræðinga um svæðið á 20. öldinni en fyrir þann tíma hafa verið áhöld um hvort það var yfirleitt notað af heimamönnum eða hversu vítt það náði. Nafnið er því ófyrirsegjanlegt eins og skjálftarnir sem skekja það nú.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81334

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.