Tómas Þorvaldsson – minning um góðan mann

Grindavík

Megi minning um góðan mann lifa.
JárngerðarstaðirTómas Þorvaldsson lést þann 2. desember s.l. (2008). Hann bjó lengst af að Gnúpi í Grindavík, fæddist að Eiði í Grindavík 26. desember árið 1919. Foreldrar hans voru Þorvaldur Klemensson, bóndi á Járngerðarstöðum í Grindavík (1891-1967) og Stefanía Margrét Tómasdóttir (1893-1969). Systkini Tómasar voru Margrét (1917), Halldóra (1921), Guðlaugur (1924-1996) og Valgerður (1927). Hálfsystir hans var Lovísa (1913-2000).
Tómas kvæntist Huldu Björnsdóttur frá Kjalvararstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði (1931-2008). Þau eignuðust Eirík (1953), Gunnar (1954), Stefán Þorvald (1956) og Gerði Sigríði (1960). Hálfsystir þeirra var Stefanía Kristín (1939-1948).
Tómas, eða Toddi eins og hann var jafnan nefndur meðal heimamanna, kynntist snemma sjómennskunni. Hann gekk jafnan ásamt öðrum sjómönnum eftir sjávargötunni árla morguns, staðnæmdist við leiði Járngerðar, tók ofan og fór með sjóferðarbæn áður en haldið var áfram stíginn niður að bátnum er beið sjósetningar ofan við Norðurvör. Hann réð sig fyrst sem hálfdrætting til sjós á „Járngerðarstaðaskipinu“ sem svo var nefnt í daglegu tali, en hét reyndar Björgvin GK 35, opinn bátur gerður út frá Járngerðarstöðum í Grindavík.

Tómas

Þetta var árið 1934. Áður hafði hann setið yfir ánum í Stekk[jar]hrauni þar sem hann þekkti hverja þúfu. Áður lauk hverri sjóferð á árabátnum með því að leggja á seilar. Næstu árin stundaði hann sjóinn á ýmsum vélskipum og bátum sem veiddu og lögðu upp afla allt í kringum landið. Með tilkomu vélbátanna var tekist á við að skapa varanlega hafnagerð í Grindavík. Tómas lagði þar sitt af mörkum við erfið skilyrði. Á stríðsárunum stjórnaði hann vinnuflokkum sem unnu við að byggja upp flugvelli og braggahverfi fyrir breska hermenn. Eftir stríðið gerðist hann bílstjóri hjá Hraðfrystihúsi Grindavíkur. Tómas var virkur í félagsmálum bæði til sjós og lands. Hann var í stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur í nokkur ár. Tómas var í fyrstu stjórn Íþróttafélags Grindavíkur og formaður félagsins 1948 til 1963. Tómas var fyrsti formaður Björgunarsveitarinnar Tómas og HuldaÞorbjarnar í Grindavík 1947 og gegndi því starfi til ársins 1987. Hann stofnaði ásamt þremur félögum sínum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Þorbjörn hf í Grindavík árið 1953 og var framkvæmdarstjóri þess fram til ársins 1985. Tómas var í stjórn Þorbjarnar til ársins 2000 eða í 47 ár. Hann var mjög virkur í öllu félagsstarfi í sjávarútvegi anna sinn starfsaldur. Hann var í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda árið 1959, fyrstu tvö árin sem varaformaður og síðan stjórnarformaður til ársins 1981. Hann sat í stjórnum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Fiskifélagsins, Fiskveiðisjóðs og Verðjöfnunarsjóðs. Hann var varaformaður Viðlagasjóðs þegar hann var stofnaður í Vestmannaeyjagosinu 1973. Þegar hafist var handa við byggingu heimilis aldraða í Grindavík, Víðihlíð, var hann í byggingarnefnd heimilisins. Þar dvaldi hann síðustu mánuðina áður en hann lést.
Tómas Þorvaldsson var börnum sínum góður faðir og mikill vinur vina sinna. Honum var eðlislægt að bregðast jákvætt við bónum fólks, ekki síst þess er minna mátti sín. Þannig kom hann mörgum Grindvíkingnum til aðstoðar þegar mest á reyndi. Sá er þetta ritar minnist Todda, allt frá því að hann ók honum lífakstur árið 1959, illa slösuðum eftir bílslys, í aftursæti drossíunnar um harðtenntan Grindavíkurveginn og krókóttan Keflavíkurveginn að anddyri Landspítalans, og allt til þeirra daga er sá hinn sami naut fylgda Todda um umdæmið þar sem hann miðlaði af ómetanlegri þekkingu sinni um menningu, minjar og sögu Grindavíkur.

Hjónin 1981

Nú, eftir fráfall hans, hafa þau verðmæti margfaldast að andlegu verðgildi, þökk sé honum. Sumt hefur verið skráð og annað geymt, en engu gleymt. Bækur hans um sögulegt lífshlaupið eru nú sem fyrr ómetanleg heimild um þróun Grindavíkur á tímamótum er hið forna samfélag var að nútímavæðast og byrja kapphlaupið mikla við umheiminn – í seinni tíð meira af kappi en forsjá. Þegar rætt  var við Tómas símleiðis fyrir u.þ.b. viku hafði hann á orði að menn hefðu betur tekið mið af þeirri einföldu fyrirhyggju Einars verslunarmanns í Garðhúsum að góður væri geymdur aur. Hafa ber í huga að Einar var eini kaupmaðurinn á Suðurnesjum er lifði af kreppuna miklu 1930 af þeirri einföldu ástæðu að hann gætti þess að eiga jafnan fyrir sínum skuldum.

Toddi

Sumt af því er Tómas miðlaði má sjá hér á vefsíðunni, s.s. fróðleik um Dýrfinnuhelli, Járngerði og Þórkötlu, Skips[s]tíg sem og um staðháttu fyrrum og örnefni í Grindavík.
Margir munu á næstunni skrifa mörg orð um ágæti Tómasar, nú að honum gengnum. Greinarhöfundi finnst þó, á þessari stundu, mest um vert að hafa getað sagt Tómasi sjálfum frá viðhorfi hans til alls þess merkilega er hann hafði lagt af mörkum um ævidagana – ekki síst mjög meðvitaðrar varðveislu menningarverðmæta er hann hafði þá þegar skilað áfram til komandi kynslóða.
FERLIR þakkar Todda samfylgdina á liðnum árum. Systrum og afkomendum Tómasar eru vottuð innileg samúð. Megi þau nýta sér það besta er hann gaf þeim þá er hann lifði.
Tómas