Tóustígur – upphaf
Malarvegurinn frá Keflavíkurveginum (Reykjanesbrautinni) upp á Höskuldarvelli lá í gegnum hraunnámur upp í gegnum Afstapahraun úr Kúagerði. Gífurlegt magn hrauns hefur verið fjarlægt þarna austan brautarinnar. Þegar Reykjanesbrautin var tvöfölduð voru gatnamótin færð sunnar og sameinuð gatnamótum Vatnsleysustrandarvegar. Frá þeim er nú ekið til austurs inn á línuveg, eftir honum inn á efnistökusvæðið og síðan í gegnum það til austurs, inn á fyrrnefndan veg austast á svæðinu.
Minna fer fyrir annarri gamalli götu upp hraunið; Tóustígnum. “Austan við fyrrnefndan veg [úr Kúagerði] upp í hraunið komum við að Tóustíg, Tóarstíg eða Tóustíg en hann lá upp í Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er orðið að segja. Stígurinn var eyðilegaður að mestu þegar efnistakan í Reykjanesbrautina fór fram en upphaf hans sést þó ennþá og þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana.
Tóurnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegn um mitt hraunið [Afstapahraunið] til suðsuðausturs. Gróðursvæði þessi hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás…
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrísató og Seltó en tvö síðustu nöfnin spanna yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð stór.
Í Tónum er fallegur gróður s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir.”
Í Tóu eitt er m.a. að sjá grjótgarða sem notaðir voru til að veita hríshestunum aðhald, auk þess sem hún gæti hafa verið notuð sem aðhald fyrir fé. Í Tóu tvö er lítið mosagróið grjótbyrgi, hlaðið af Vatnsleysubræðrum árið 1940. Í Tóu þrjú er Tóarker, fjárskjól. Í Tóunum eru greni og má sjá hleðslur eftir refskyttu í Seltónni.
Neðsti hluti Tóustígsins er enn ósnertur á u.þ.b. 150 metra kafla, sem fyrr er lýst. Þar sem stígurinn kemur inn í hraunið er hann vel gróinn. Hvítskófnar klappir Þráinsskjaldarhraunsins standa upp úr annars grónu hrauninu umhverfis.
Ofar og norðar hefur Afstapahraunið, sem rann 1151, stöðvast. Jarðsíminn liggur þarna við mynnið. Lítil varða er á hraunhæð skammt norðan við “innganginn” og önnur hærri skammt norðvestan hennar. Auðvelt er að fylgja stígnum upp að veginum, sem lagður var yfir hann. Norðan vegarins birtist stígurinn síðan á ný og liggur þá austnorðaustur að hárri hraunbrún.
Ofan hennar hefur öllu verið raskað, allt þangað til komið er suðvesturmörkum Tóu eitt. Þar sést stígurinn enn þar sem hann liggur niður í Tóuna, yfir fyrrnefndan grjótgarð.
Þegar unnið var við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hafði gröfustjóri tekið það upp hjá sjálfum sér að moka hrauninu á stóru svæði upp á grjótflutningsbílana. Náðist þó að stöðva stjórnlausa athafnasemina rétt áður en hann komst í garðinn. Kom þá í ljós að gröfumaðurinn var kominn langt út fyrir þau mörk sem heimil höfðu verið til efnistöku. Líklega er ekki um neitt einsdæmi að ræða í þessum efnum.
Upp úr Tóu eitt má síðan fylgja Tóustígnum upp í gegnum Tóurnar til austurs, sem fyrr sagði.
Sjá meira um Tóurnar HÉR og HÉR