Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols
Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 rekja Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols „Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins„:
„Margir þekkja til Tyrkjaránsins á Íslandi í júlí 1627 þegar hartnær 400 manns var rænt í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og fólkið flutt á þrælamarkað í Algeirsborg á norðurströnd Afríku. Hér verður fjallað um annan þátt Tyrkjaránsins 1627 þegar sjóræningjar semvoru frá borginni Sale á strönd Marokko rændu verðmætum og fólki í Grindavík. Þessir sjóræningjar, sem Íslendingar nefna oftast Tyrki, sigldu um 3.500 kílómetra vegalengd yfir úfið Atlandshafið og komu fólki í Grindavík algjörlega í opna skjöldu.
Járngerðarstaðir
Á fyrri hluta 17. aldar var Grindavík, eins og bæði fyrr og síðar verslunar- og útgerðarstaður. Í margar aldir skiptist Grindavík í þrjú hverfi eða bæjarþyrpingar. Það eru Staðarhverfi vestast, þar var kirkjustaður, síðan Járngerðarstaðahverfi þar sem þorpið og síðar Grindavíkurbær byggðist upp og austast er Þórkötlustaðahverfi.
Öll þessi hverfi voru kennd við aðalbýlin á þessum stöðum og í raun eru það landfræðilegar aðstæður, hraunflákar, sem skipta byggðinni í þrennt. Sjósókn og sjávarnytjar voru alla tíð aðalatvinnuvegurinn. Járngerðarstaðir voru höfuðbýli og besta jörð sveitarinnar. Þar hófst byggð þegar á landnámsöld. Þar var þingstaður sveitarinnar. Járngerðarstaðir komust í eigu Skálholtsstóls löngu fyrir siðaskipti og voru Járngerðarsstaðir mjög mikilvægur útgerðarstaður Skálholtsstóls. Á fyrri hluta 16. aldar þegar enskir kaupmenn höfðu mikil umsvif í útgerð og verslun á Íslandi höfðu þeir aðalbækistöð sína í landi Járngerðarstaða.
Járngerðarstaðir á dögum Tyrkjaránsins
Árið 1627 bjuggu á Járngerðarstöðum hjónin Jón Guðlaugsson, sagður smiður og Guðrún Jónsdóttir frá Stað. Foreldrar Guðrúnar voru Séra Jón Jónsson og Guðrún Hjálmsdóttir. Sr. Jón hafði verið prófastur á Stað á árunum 1582-1602.
Ekki eru heimildir um foreldra Jóns Guðlaugssonar. Guðrún átti fjóra bræður, Filippus, Hjálm, Halldór og Jón. Guðrún og Jón Guðlaugsson áttu þrjá syni sem voru ungir menn og einn þeirra enn á barnsaldri. Líkur eru á að móðir Guðrúnar hafi verið á lífi árið 1627 þar sem Jón sonur Guðrúnar, biður í bréfi sem hann skrifaði úr Barbaríinu (eins og múslimski hluti Norður-Afríku var kallaður) að heilsa ömmu sinni, sé hún enn á lífi, en Jón minnist ekki á afa sinn og því má telja að hann hafi verið látinn árið 1627. Heimildir telja að Jón Guðlaugsson hafi verið nokkuð við aldur en Guðrún hefur verið um fertugt í Tyrkjaráninu. Halldór Jónsson, bróðir Guðrúnar var fæddur um 1590 og því 37 ára þegar þessir atburðir gerðust. Hann var kvæntur Guðbjörgu Oddsdóttur Oddssonar prests á Stað frá 1602-1618, þannig að Oddur tók við Stað af sr. Jóni Jónssyni, föður Guðrúnar.
Þetta dæmi sýnir náin tengls fjölskyldunnar innbyrðis og stöðu hennar í samfélaginu. Halldór og Guðbjörg áttu tvö ung börn, Jón sem var fæddur 1623 og Guðbjörgu sem var fædd 1625. Um aðra bræður Guðrúnar, Filippus, Hjálmar og Jón eru fáar heimildir. Af þessari upptalningu má sjá að Járngerðarstaðafólkið var vel sett og áhrifamikið í samfélaginu sem allar líkur voru að héldi áfram til næstu kynslóða. Jón, sonur Guðrúnar sem var nýútskrifaður úr Skáholtsskóla var líklegur til að taka við Járngerðarstöðum, gerast prestur eða taka við öðru góðu embætti. Járngerðarstöðum tilheyrðu 10-12 hjáleigur þannig að alls bjuggu margir tugir manna á Járngerðarstöðum og hjáleigunum. (Þess má geta að í manntalinu 1703 bjuggu um 70 manns á Járngerðarstöðum og hjáleigunum).
Miðvikudagurinn, 20. júní 1627
Sjóræningjar frá Norðurströnd Afríku gerðu oftast árásir á mörgum skipum samtímis líkt og úlfahjörð. Þeir voru þekktir fyrir að ráðast á fólk og fénað með öskrum og látum. En svo var ekki um sjóræningjaskipið sem kom til Grindavíkur frá hafnarborginni Salé í Marokkó. Foringi þeirra var gætnari en svo. Sjóræningjarir voru einskipa og hafa því hugsanlega verðið varkárari fyrir vikið. Þegar komið var fram á sumar voru skipaferðir tíðar umhverfis landið.
Bæði verslunarskip og fiskiduggur voru algeng sjón og því var fólk í Grindavík ekki sérstaklega á verði þegar sjóræningjaskipið kom að landi. Sjóræningjarnir beittu brögðum. Danskt kaupskip lá við akkeri fyrir utan ströndina.
Sjóræningjarnir sendu menn um borð í danska skipið til að kanna aðstæður. Þeir þóttust vera danskir hvalfangarar sem villst höfðu af leið. Þegar hér var komið sögu sendi danski kaupmaðurinn bát með átta mönnum innanborðs til að kanna hverjir væru á þessu nýkomna skipi. Þegar þeir klifruðu um borð í sjóræningjaskipið voru þeir yfirbugaðir. Allar líkur eru á að þeirra hafi beðið barsmíðar og ill meðferð. Það voru fastir liðir hjá sjóræningjum þessa tíma. Eftir að hafa gengið í skrokk á þessum átta mönnum er ljóst að sjóræningjarnir hafa fengið allar þær upplýsingar um staðhætti sem þeir vildu fá. Í Tyrkjaránssögu Björns Jónssonar á Skarðsá, sem er ein aðalheimildin um þennan atburð er þess getið að sjóræningjarnir hafi þegar þeir lögðu frá Grindavík gefið tveim íslenskum mönnum af þessum átta frelsi. Ekki er ólíklegt að það hafi verið sem um það samið að þeir fengju frelsi í stað upplýsinga um aðstæður í landi. Hvað sem öllu líður þá urðu sjóræningjarnir mun öruggari með sig eftir að hafa kyrrsett þessa átta menn. Þrjátíu sjóræningjar, vopnaðir byssum, sveðjum og sverðum reru yfir í danska verslunarskipið og yfirbuguðu áhöfnina auðveldlega þar sem aðeins skipstjóri skipsins og tveir úr áhöfninni voru enn um borð.
Jan Janszoon van Haarlem
Sjóræningjarnir réðust nú skjótt til atlögu í landi. Foringi þeirra var hollenskur trúskiptingur (kristinn maður sem snúið hafði til múhameðstrúar), að nafni Jan Janszoon van Harlem, betur þekktur sem Murat Reis (Kafteinn Murat) Hann hóf sinn feril tuttugu árum áður sem sjóvíkingur og siglgdi þá undir hollensku flaggi. Þá rændi hann spænsk skip. Árið 1618 var hann hertekinn á Lanzarote einni af Kanaríeyjum og færður til Algeirsborgar. Þar snérist hann til Múhameðstrúar og varð skipstjóri á sjóræningjaskipi, fyrst frá Algeirsborg og síðan borginni Salé.
Í Salé var hann aðmíráll flotans. Morat Reis var reynslumikill foringi. Hann hafði eytt mörgum árum í sjóræningjaferðum bæði á Miðjarðarhafi og á Atlantshafsströnd Spánar og Portúgals og við strendur Suður-Englands. Hann vissi nákvæmlega hvernig standa átti að árás á strandbæi líkt og Grindavík. Á skipi hans var á milli 60 og 70 manna áhöfn. Líklegt er því að yfir 50 þeirra hafi gert áhlaup á byggðina í Grindavík. Óvopnað fólk í Grindavík var því auðveld bráð.
Tyrkir ráðast til atlögu
Sjóræningjar voru þekktir fyrir takmarkalausa grimmd en markmið árásar sem þessarar í Grindavík var ekki að drepa fólk og eyðileggja verðmæti heldur að ræna fólki og verðmætum og koma í verð. Þegar sjóræningjarnir gerðu atlögu að íbúum Grindavíkur hafa þeir farið um með ópum og látum en fyrst og fremst til að ógna fólki en þeir hafa forðast að særa fólk líkamlega nema það veitti mótstöðu.
Sært fólk eða illa haldið var ekki álitleg söluvara á þrælamörkuðum Norður-Afríku. Þegar sjóræningjarnir komu inn í byggðina réðust þeir á dönsku verslunarhúsin. Danski kaupmaðurinn hafði flúið en hafði falið eins mikið af verðmætum eins og hann gat áður þannig að sjóræningjarnir gripu í tómt. Næst urðu Járngerðarstaðir fyrir sjóræningjunum.
Fyrsta manneskjan sem féll í hendur þeirra var húsfreyjan Guðrún Jónsdóttir.
Bróðir hennar, Filippus reyndi að koma henni til aðstoðar en ræningjarnir slógu hann og skildu hann eftir hálfdauðan.
Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar sem var á hestbaki reyndi einnig að koma Guðrúnu til bjargar. Hann drógu ræningjarnir af hestinum. Hjálmar var óvopnaður fyrir utan písk sem hann hafði í hendi.
Með písknum sló hann til ræningjanna en það dugði skammt. Ræningjarnir slógu hann og meiddu á margan hátt og skildu hann eftir liggjandi í sárum sínum. Þeir settu nú Guðrúnu á hest Hjálmars og færðu hana til skips. Í lok dagsins höfðu þeir ekki aðeins hertekið Guðrúnu og Jón bróður hennar heldur einnig Halldór bróður hennar og þrjá syni, þá Jón, Helga og Héðinn. Samkvæmt Tyrkjaráns-sögu voru Halldór og „aðrir“ auðveldir viðfangs fyrir sjóræningjana þar sem ekki hvarflaði að þeim að þeim yrði rænt þannig að þeir reyndu ekki að flýja. Íslendingar höfðu áður fengið að kenna á sjóræningjum en þeir voru af annari sort, þeir rændu ekki fólki, aðeins verðmætum og fénaði. Maður Guðrúnar, Jón Guðlaugsson var einnig tekinn höndum en Tyrkirnir höfðu lítinn áhuga á honum þar sem hann var nokkuð við aldur og því skildu þeir hann eftir í sárum eftir barsmíðar.
Hollensk heimild um Grindavíkurránið
Heimildir um ránið segja ekki hvort bræður Guðrúnar, Halldór og Filippus náðu sér af sárum sem þeir hlutu af Tyrkjum. Í bréfi sem Oddur Einarsson Skálholtsbiskup skrifaði haustið 1627 kemur fram að Tyrkir rændu dönsku kaupskipi í Grindavík og 12 Íslendingum, þar á meðal „konu og stúlku“ og að einn íslenskur maður hafi fengið mörg sár og verið rúmliggjandi upp frá því. Hér er greinilega átt við Guðrúnu og bróður hennar. Hvort annar bróðir hennar hafði verið drepinn kemur ekki fram í bréfi Odds biskups. Svo vill til að til er bók sem fjallar um ýmsa atburði á fyrri hluta 17. aldar í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Ameríku. Höfundurinn var Nicolaes van Wassenaer, læknir í Amsterdam, Hollandi. Bókin, Historisch verhael… ( hefur afar langan titil) var tuttugu og eitt bindi, gefin út á árunum 1622-1630. Í umfjöllun um árið 1627 rekur Nicolaes van Wassenaer ránið í Grindavík og segir að sjóræningjarnir frá Salé hafi hertekið 12 manneskjur, og: „þar á meðal konu ásamt þrem sonum sínum og tveim bræðrum og tveir aðrir bræður hennar voru drepnir.“ Hér er augljóslega verið að vísa til Guðrúnar, bræðra hennar og sona. Það er því nokkuð víst að bæði Filippus og Hjálmar dóu af sárum sínum.
Murat Reis heldur frá Grindavík
Þegar Murat Reis hélt með ránsfeng sinn frá Grindavík sigldi hann næstu daga með ströndinni í átt til Bessastaða. Nú hafði hann mannað danska kaupskipið og því voru skipin nú orðin tvö sem hann réði fyrir. Það var ekki tilviljun að Murat Reis hélt til Bessastaða þar sem þar var einna helst von til að finna verðmæti í hirslum dönsku yfirvaldanna þar. Járngerðastaðafólkið var hlekkjað í lest stærra skipsins. En ekki vildi betur en svo til að þegar hann sigldi skipum sínum inn á Seyluna, sem eru grynningar rétt utan við Bessastaði strandaði stærra skipið. Hirðstjórinn á Íslandi, Holgeir Rosinkrans bjóst til varnar en hikaði þó að láta til skarar skríða gegn ræningjaskipunum. Murat Reis tók það til bragðs að hann flutti farm, þar á meðal Járngerðastaðafólkið úr stærra skipinu yfir í það minna og náði stærra skipinu þannig á flot. Síðan sigldu ræningjaskipin í brott og héldu nú undir Snæfellsnes. Allmargar enskar fiskiskútur voru að veiðum út af Vestfjörðum en þeirra var vel gætt af enskum herskipum. Þegar Murat Reis og hans menn fréttu að herskip væru á þessum slóðum ákvað hann að snúa við og tók nú stefnuna á heimahöfn sína. Í lok júlí eftir rúmlega mánaðar siglingu komu bæði skipin til Salé.
Salé á strönd Marokkó
Fólkið sem rænt var í Grindavík var flutt til borgarinnar Salé sem er á Atlantshafsströnd Marokkó í tæplega 300 kílómetra fjarlægð frá Gíbraltar, nokkru norðar en borgin Casablanka. Í dag er oftast talað um borgirnar Salé-Rabat, sem er höfuðborg Marokkó sem eina heild. Borgirnar eiga sér ólíkan uppruna þrátt fyrir að aðeins áin Regret skilji þær að.
Salé (sem stundum er nefnd Gamla Salé) er á norðurbakka árinnar var stofnuð á 11. öld. Hafnaraðstaða er góð og þar var rekin verslun og landbúnaður. Á fyrsta fjórðungi 17. aldar varð Salé sjálfstætt ríki og víðkunn bækistöð sjóræningja. Jan Janszzon, foringi sjóræningjanna í Grindavík átti þátt í stofnun þess.
Ástæðan fyrir uppgangi sjóræningja í Salé er sú að þegar múslímar voru reknir frá Spáni í lok 15. aldar fengu margir þeirra að verða eftir á Spáni gegn því að taka kristna trú og siði. En þar sem þeir aðlöguðust ekki vel og Spánverjar sem voru kaþólskir treystu þeim ekki til þess að verða góðir og gegnir Spánverjar. Því voru þessir múslímar reknir frá Spáni í byrjun 17. aldar og fluttir til Norður-Afríku. Þessir múslímar voru nefndir Márar en þeir voru reyndar ekki alls staðar velkomnir í Norður-Afríku. Því settust sumir þeirra að í Salé (Gömlu-Salé) þar sem þeir tóku upp sjórán og gerðust herskáir sjóræningjar.
Borgin skiptist í Gömlu-Salé og Nýju-Salé. Á þessum tíma var Nýja-Salé mikilvæg miðstöð sjóræningja með mikil tengls við sjóræningjaborgir á Norðurströnd Afríku, sérstaklega Algeirsborg. Nýja-Salé var heimahöfn 30 til 40 sjóræningjaskipa og íbúafjöldi borgarinnar líklega um 15.000, þar af stór hluti þrælar. Murat Reis var foringi þessa sjóræningjaflota sem gerði þaðan út.
Þessi velheppnaða ránsferð Murat Reis til Íslands var tilefni til mikils fagnaðar, hleypt var af fallbyssum, lúðrar hljómuðu og sekkjapípur flautuðu. Þessi ránsferð hafði verið óvenju löng og hættuleg, en þrátt fyrir það vel heppnuð. Ránsfengurinn var danskt kaupskip, allur ránsfengur sem ræningjarnir höfðu komist yfir í landi og ekki síst 50 til 100 manns, Íslendingar, Danir og Englendingar. Þó er erfitt að finna út einhverja nákvæma tölu. Fangaða fólkið var sett á land og rekið upp á „kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur, hennar yngsta syni og lítilli stúlku er Guðrún Rafnsdóttir hét“ segir í Tyrkjaránssögu. Síðan segir í sömu heimild: „Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eftir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi.“
Afdrif systkinanna Guðrúnar og Halldórs
Guðrún Jónsdóttir var ekki seld á þrælamarkaðinum eins og aðrir. Hún var leidd ásamt Guðrúnu Rafnsdóttur í hús til Tyrkja nokkurs. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að einhver ræningjanna, eða fjárhagslegur bakhjarl leiðangursins hafi sjálfur viljað gera samning um útlausn hennar. En það var ekki síður gróðavegur fyrir sjóræningja og samverkamenn þeirra að heimta lausnargjald fyrir fangana. Halldór Jónsson var seldur Tyrkja nokkrum en síðar eignaðst Beram Reis Halldór. Beram Reis var einn þeirra sem tók þátt í Grindavíkurráninu og var gerður að kapteini á danska kaupfarinu sem rænt var. Halldór átti illa vist í Salé. Hann var skorinn í andlit og á höndum og bar örkuml þessi alla ævi. Oftast er þess getið í frásögnum um Tyrkjaránið að Guðrún og Halldór bróðir hennar hafi verið leyst út af hollenskum manni og þau komið til Íslands innan árs eftir að þeim var rænt. En hvernig má það vera að þau eru leyst úr ánauð svo skömmu eftir að þau koma til Salé? Þessi stutti tími útilokar að Íslendingar hafi samið um lausnargjald fyrir þau. Bréf bárust seint og illa á milli landa. Bréf voru oft jafnvel nokkur ár á leiðinni frá Norður-Afríku til Íslands ef þau á annað borð komust til skila.
Hér verður því að gera ráð fyrir því að Guðrún sjálf hafi samið um lausnina á einn eða annan hátt fyrir þau systkinin. Það er ekki tilviljun að það var hollenskur kaupmaður sem keypti þau laus eða haft milligöngu um að kaupa þau laus. Hollendingar voru verslunarþjóð og siglingaveldi á þessum tíma og þeir áttu viðskipti víða. Í bók Nicolasar van Wassenaer sem áður er minnst á var danska kaupfarið sem rænt var á legunni í Grindavík í raun hollenskt kaupfar sem hét, Oliifboom, eða Ólífutréð upp á íslensku. Mjög mörg kaupför sem komu til Íslands á þessum tíma voru hollensk. Þess má geta að séra Ólafur Egilsson, prestur í Vestmannaeyjum sem rænt var í Tyrkjaráninu kom með hollensku kaupfari til Íslands sumarið 1628. Það er því hugsanlegt að þessi hollenski kaupmaður sem greiddi lausnargjaldið fyrir Guðrúnu og Halldór hafi þekkt til þeirra. Járngerðarstaðir voru mikilvæg verstöð og verslunarstaður. Guðrún hefur án efa borið það með sér að hún var ekki dæmigerð alþýðukona, heldur húsfreyja sem átti talsvert undir sér og kom frá efnuðu heimili. Því má alveg gera ráð fyrir að hún hafi samið um lausnargjaldið þeirra systkina sjálf.
Hollenski kaupmaðurinn hefur í gegnum sín sambönd greitt götu þeirra og líklega hagnast sjálfur vel á viðskiptunum. Þetta eru ekki tómar getgátur heldur má færa sterk rök fyrir þessu í bréfi sem Jón sonur Guðrúnar skrifaði til Íslands frá Algeirsborg til foreldra sinna árið 1630. Þar segir: „Þakkir séu lifandi guði, að móðir okkar sæl frelsaðist héðan, og ég segi fyrir mig, að þó ég ætti hér í staðinn vera, veit ég vel að ykkar peningur hefir þar til gengið – má vera.“ Með öðrum orðum segir Jón hér að það séu ekki til meiri peningar á Járngerðarstöðum til að leysa hann út og þá bræður. Jón Guðlaugsson maður Guðrúnar lést um svipað leyti og hún snéri aftur til Íslands. Guðrún giftist síðan Gísla Bjarnasyni prófasti í Grindavík en hann var ekkjumaður. Halldór snéri aftur til konu sinnar og barna. Hann var jafnan nefndur Halldór hertekni eftir herleiðinguna. Á meðal afkomenda hans er margt merkisfólk og fólk af hinni þekktu Járngerðarstaðaætt á Suðurnesjum getur rakið ætt sína til hans. Halldór skrifði rit um Tyrkjaránið sem nú er glatað.
Afdrif Járngerðarstaðabræðra
Jón Jónsson stúdent er þekktastur þeirra bræðra frá Járngerðarstöðum, sona Guðrúnar og Jóns Guðlaugssonar. Vitað er að hann skrifaði nokkur bréf til Íslands og eitt þeirra hefur varðveist í afskriftum.
Það er bréf sem hann skrifaði til foreldra sinna frá Algeirsborg og dagsett er 24. janúar 1630. Helgi bróðir hans skrifar einnig undir það bréf. [Bréfið er varðveitt í Landsbókarsafninu]. Ævi Jóns var í engu frábrugðin annarra þræla í Barbaríinu eins og Íslendingar kölluðu íslamska hluta Norður-Afríku einu nafni. Hann var fljótlega eftir komuna til Salé seldur áfram til Algeirsborgar ásamt Helga bróður sínum. Þegar árið 1630 hafði hann verið seldur fimm sinnum. Ein ástæða fyrir því að hann var ekki keyptur úr ánauð var sú að hann var of dýr eins og hann minnist sjálfur á í bréfi sínu sem varðveist hefur. Um afdrif hans er ekki vitað annað en hann var enn á lífi ári 1635 en gera má ráð fyrir að hann hafi dáið sem þræll í Algeirsborg en þangað var hann kominn ekki löngu eftir að hann var settur á land í Salé.
Héðinn Jónsson
Héðinn varð frjáls maður aðeins sex árum eftir að hann kom til Salé og fékkst við smíðar. Það bendir til þess að hann hafi turnast, kastað kristni og gerst Múhameðstrúar. Það var í raun eina leiðin til að verða frjáls. Um afdrif hans er ekki vitað frekar. Helgi átti litríkan feril í Barbaríinu. Hann var hraustur og hugrakkur og var um tíma á galeiðu undir stjórn sjóliðsforingjans Jairi Mustafa. Þó er ólíklegt að hann hafi verið galeiðuþræll þar sem vitað er að hann kom eitt sinn í land í borginni Salé en hlekkjaðir galeiðuþrælar gátu aldrei yfirgefið skipin. Gera má ráð fyrir að Helgi hafi verið innan við 7 ára gamall þegar hann kom til Salé. Það má ráða af því að hann fylgir fyrst móður sinni eftir komuna til Salé en hefur síðan alist upp sem múslími eins og venja var með unga drengi sem rænt var. Það skýrir einnig hvers vegna hann varð frjáls maður og varð smiður. Það hefði hann ekki getað gert sem kristinn maður.
Helgi Jónsson
Þegar loks farið var að kaupa Íslendingum í Barbaríinu frelsi var Helgi einn þeirra. Hann var keyptur úr ánauð í maí 1635, síðastur þeirra 37 Íslendinga sem keyptir voru. Lausnargjaldið fyrir hann var 200 ríkisdalir. Helgi kom til Íslands sumarið 1637 ásamt öðrum Íslendingum sem leystir höfðu verið. Helgi kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur og tóku þau við búi á Járngerðarstöðum eftir lát Guðrúnar Jónsdóttur. Helgi lést 1664 eða 1665. Við Járngerðarstöðum tók um tíma Guðbjörg ekkja Helga en Jón Helgason sonur þeirra tók við Járngerðarstöðum 1668.
Þess má geta að í Sögu Grindavíkur, fyrra bindi frá árinu 1994 eftir Jón Þ. Þór er því haldið fram að Guðrún Jónsdóttir frá Stað hafi átt þrjá bræður og þau hafi verið hertekin og öll komið aftur til Íslands. (sjá bls. 114) Þetta er ekki rétt.
Eins og fram hefur komið hér átti Guðrún fjóra bræður, Jón og Halldór sem voru herteknir, og Halldór síðan leystur út með Guðrúnu en Filippus og Hjálmur (Hjálmar) sem dóu líklega af sárum sínum í ráninu í Grindavík.)“
Um höfundana
Karl Smári Hreinsson er ásamt Adam Nichols annar þýðandi Reisubókar sr. Ólafs Egilssonar á ensku. Hann var í mörg ár kennari í nútíma íslensku við Maryland háskóla. Hann er höfundur margra greina um söguleg efni og aðalhandritshöfundur tveggja heimildamynda. Hann á og rekur málaskólann Sögu Akademíu í Keflavík.
Adam Nichols hefur skrifað margar greinar um Tyrkjaránið og skyld efni og er nú að vinna að bók um einn þekktasta sjóræningja 17. aldar, Jan Janszzon. Adam hefur einnig skrifað nokkrar skáldsögur og er liðtækur vatnslitamálari. Hann er prófessor við Maryland háskóla og kenndi á Íslandi af og til í 10 ár. Hann heldur úti bloggsíðu um sjórán og siglingar 17. aldar: corsairandcaptivesblog.com.
Þessi grein birtist upphaflega í Heima er bezt, 10 tbl. 68.árg. 2018.
Helstu heimildir framangreinds:
-Tyrkjaráns-saga eftir Björn Jónsson á Skarðsá. Samin 1643. Reykjavík. 1866.
-Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Sögufélagið gaf út. Reykjavík 1906-1909.
-Jón Þ. Þór. Saga Grindavíkur. Frá Landnámi til 1800. Grindavíkurbær 1994.
Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols, bls. 8-17.