Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti.
Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur. Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.
Kristján Sæmundsson, 2010.