Úlfarsfell – Freyja Jónsdóttir

Úlfarsfell

Í Dagur/Tíminn árið 1996 fjallar Freyja Jónsdóttir um bæinn „Úlfarsfell“ og nágrenni:

Úlfarsfell

Úlfarsfell er hæst 296 metrar yfir sjávarmáli.

„Þegar rætt er um fjallasýn frá höfuðborginni, er það oftast Akrafjall, Skarðsheiði og Esjan sem koma upp í hugann. En ein er sú náttúruperla rétt við bæjardyrnar hjá okkur Reykvíkingum, sem mætti gefa meiri gaum. Hér er átt við Úlfarsfellið, sem blasir við í austurátt. Þegar ekinn er Vesturlandsvegur í átt að Mosfellsbæ, liggur leiðin meðfram Úlfarsfelli og heitir Hamrahlíð þar sem farið er hjá. Þar var eitt sinn kotbýli, sem nefnt var eftir hlíðinni. Sjást enn leifar af bæjarrústum.
Norðan í Úlfarsfellinu eru Lágafellshamrar, þar fyrir neðan í hlíðinni voru beitarhús frá Lágafelli, sem nú er löngu aflögð en mótar enn fyrir rústum þeirra.
Á Úlfarsfelli nær gróður upp á hæsta koll, sem er 295 metra yfir sjávarmál.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – útsýnispallur.

Af fellinu er afar fagurt útsýni og blasir við Faxaflói, Snæfellsnes, Reykjanesskaginn, Reykjavík, Mosfellsbær og Mosfellsdalur allt austur á Þingvöll. Fyrir norðan fellið er
þéttbýliskjarni Mosfellsbæjar. En fyrir sunnan er býlið Úlfarsfell, landnámsjörð úr landnámi Ingólfs Arnarsonar, sem stendur sunnanmegin í hlíðinni við rætur fjallsins. Ekki er vitað með vissu af hverju fjallið dregur nafn, en telja má víst að bæði bærinn, fellið og áin dragi nafn af því sama.

Úlfarsá

Úlfarsá – herforingjaráðskort.

Upptök Úlfarsár eru uppi í Seljadal, sem gengur inn í Mosfellsheiði, hún rennur niður með Þormóðsdal og Miðdal og síðan í Hafravatn. Úr Hafravatni rennur áin síðan á leið sinni til sjávar við túnfótinn á Úlfarsfelli, framhjá þar sem eyðibýlið Kálfakot var áður, ekki langt frá þeim slóðum sem býlið Úlfarsá er nú. Hún rennur síðan framhjá Lambhaga, eyðibýli sem nú sést ekkert eftir af, en var á svipuðum slóðum og gróðrarstöðin Fífilbrekka stendur nú.
Sjávarmegin við Vesturlandsveg er áin kölluð Korpa. Fleiri býli voru við Úlfarsfellið, sem nú eru löngu farin í eyði. Reykjakot var hjáleiga norðaustan við Úlfarsfellið.

Úlfarsfell

Úlfarsfell og nágrenni – herforingjaráðskort.

Um árið 1700 bjó þar Jón Rafnsson. Þrennt var í heimili og varð bóndinn að greiða afgjald af kotinu til kirkjueignar Suður-Reykja. Afbrýðismaður af þessari hjáleigu var maður að nafni Teitur Magnússon, sem bjó í sínum eigin bæ. Bæinn byggði Teitur með leyfi landsdrottna sinna og hafði grasnytjar á hjáleigunni. Samkvæmt kirkjubókum bjó í Reykjakoti árið 1835 Ólafur Vigfússon, 36 ára, talinn eigandi jarðarinnar. Einnig Guðrún Magnúsdóttir, 24 ára, kona hans og börn þeirra: Vigfús, 4 ára, og Valgerður, ársgömul. Þá er á heimilinu Guðrún Sveinbjörnsdóttir léttakerling. Um 1870 er farið að halda undan búskap í kotinu. Þá býr þar sonur Ólafs, Vigfús, og þiggur af sveit. Kona hans var Sigríður Narfadóttir frá Klausturhólum. Þau hjónin áttu fjögur börn: Þorbjörgu 14 ára, Ólöfu 11 ára, Narfa 8 ára og Magnús á fyrsta ári.

Úlfarsá

Úlfarsá og nágrenni – kort.

Árið 1890 eru aðrir ábúendur í Reykjakoti. Á þeim stað sem Reykjakot var eru nú húsin Akrar og Reykjahvoll. Stekkjarkot var önnur hjáleiga milli Úlfarsfells og Reykjakots. Þar bjó Þorkell Magnússon árið 1703.
Á bænum Úlfarsfelli hefur sama ættin búið frá aldamótum. En þá keyptu jörðina ung og dugmikil hjón, Skúli Guðmundsson, fæddur 18. mars 1870 og kona hans Guðbjörg Guðmundsdóttir, fædd 2. nóvember 1873.
Skúli var lengi vegavinnuverkstjóri og vann við lagningu Vesturlandsvegar. Hann þótti dagfarsprúður maður og harðduglegur.
ÚlfarsáÁrið 1910 eru talin til heimilis á Úlfarsfelli hjónin Skúli og Guðbjörg ásamt börnum sínum, Haraldi sem síðar varð tollvörður í Reykjavík, Láru sem giftist séra Hálfdáni á Mosfelli, Kjartani, Guðmundi sem lést ungur úr spönsku veikinni og Grími, sem búið hefur á jörðinni frá 1960. Þá voru einnig á heimilinu Margrét Þorsteinsdóttir frá Reynivallastöðum í Kjós, Guðbjörg Þorkelsdóttir frá Garðastöðum í Gullbringusýslu, Ásdís Egilsdóttir frá Haukadal í Árnessýslu, og Gísli Magnússon. Allt var þetta fólk á besta aldri, nema Ásdís sem var gamalmenni.
Þegar ekið er frá Vesturlandsvegi sunnan Úlfarsfellsins er Leirtjörn á vinstri hönd, lítil pollur sem þornar upp í þurrkatíð. Nálægt tjörninni byggði Carlsen, sem gekk undir viðurnefninu minkabani, sér hús og skýli ásamt girðingu fyrir minkahundana. Flestir sem komnir eru um eða yfir miðjan aldur kannast við Carlsen, en hann vann þarft verk við útrýmingu minks á árunum 1950 til 1970.

Úlfarsá

Úlfarsfell 1996.

Upp frá Fellsmúla, næsta býli við bæinn Úlfarsfell, er Gildruás, klettahryggur í fellinu og er nafn hans dregið af gildru sem var hlaðin þar til að veiða tófur í. Mýrdalur heitir mýrardrag upp með ásnum, þar voru til margra ára beitarhús frá Úlfarsfelli. Niður á bökkum Úlfarsárinnar var fjárborg, hlaðin úr torfi. Fjárborgir voru nokkuð algengar á fyrstu tugum aldarinnar og voru gerðar til skjóls fyrir sauðfé. Í vondum veðrum sóttu hross í fjárborgir þar sem þær voru. Fjárborgir voru flestar hlaðnar í hring og þaklausar, ekki ósvipað og rétt.

Úlfarsfell

Fjárhús í Mýrdal á Úlfarsfelli.

Í hlíðinni fyrir ofan bæinn á Úlfarsfelli, þar sem nú er Skyggnir, jarðstöð Pósts og síma, voru til margra ára myndarleg fjárhús Úlfarsfellsbænda.
Stórihnjúkur heitir hæsti hnjúkur Úlfarsfells og er hægt að aka á jeppa upp á hann. Þegar Grímur Norðdahl, sem nú á jörðina Úlfarsfell, byrjaði þar búskap 1961, lét hann lengja vegarslóða, sem náði upp í miðjar hlíðar Úlfarsfells alla leið upp á Stórahnjúk.
Nokkrar góðar gönguleiðir eru upp fjallið og færar frísku fólki. Hægt væri að gera Úlfarsfell að mjög skemmtilegu útivistarsvæði með fremur litlum tilkostnaði. Veginn upp á fellið þarf að laga og koma upp útsýnisskífu á efsta hnjúk þess.“

Heimild:
-Dagur/Tíminn, 195. tbl. 12.10.1996, Úlfarsfell, Freyja Jónsdóttir, bls. 11.

Úlfarsá

Úlfarsá 1980 – tóftir gamla bæjarins nær.