Upphaf síldveiða við Faxaflóa
Í Sunnudagblaði Tímans árið 1964 segir Björn Þorsteinsson frá „Upphafi síldveiða við Faxaflóa„:
„Flekkuvík er yzt bæja við Vatnsleysuvíkina. Úr Dalsfirði í Noregi, heimabyggð Ingólfs landnámsmanns, skerst Flekkufjörður, kenndur við bæinn Flekku. Þaðan á Flekka landnámskona að hafa komið. Ingólfur fékk henni bólstað í Flekkudal í Kjós. Þar festi hún ekki yndi og fluttist í víkina, sem við hana er kennd. Þar var gnægð veiðiskapar undan ströndinni og góð lending, en vandrötuð. Flekka mælti svo fyrir andlát sitt, að sig skyldi heygja í túninu gegnt innsiglingunni og aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan kumlið sæist. Þessu hafa menn trúað og sennilega orðið að trú sinni.
Í túninu í Flekkuvík er dálítil þúst, klapparhóll, sem nefnist Flekkuleiði. Á honum liggur hraunhella, letruð rúnum: „Hér hvílir Flekka“. Rúnirnar munu ristar á 17. eða 18. öld til virðingar við verndarvættina Flekku. Enginn man lengur nein deili á húsfreyjunni, sem kastaði fram stökunni:
Anza náði auðarbrík:
„Er minn bóndi, Skellir, róinn.
Fæst oft björg í Flekkuvík fyrir þá, sem stunda sjóinn.“
Í Flekkuvík er tvíbýli og gerðu bændur þar út sinn sexæringinn hvor seint á 19. öld, segir Ágúst Guðmundsson frá Halakoti í endurminningu sínum. Pétur Helgason, ungur formaður á báti frá Flekkuvík, bjargaði fimm mönnum af kili í óveðri undan Keilisnesi. Skipið var frá Vatnsleysu, og fórst þar formaðurinn, Auðun Jónsson, við þriðja mann. „En eftir þann róður fór Pétur aldrei á sjó, og var það skaði mikill með svo vaskan mann“, segir Ágúst. Þetta var 1887, þann 29. marz.
Síld hefur löngum gengið á Faxaflóa, en lítil tök höfðu Íslendingar á því að veiða hana og nýta. Stundum rak hana á f jörur í stórviðrum. Um sumarmál 1863 er sagt, að rekið hafi feikn af síld í Vogum. Á síldarhrönnin við ströndina að hafa náð mönnum í mitt læri.
Árið 1880 fór Ívar Helgason, bróðir Péturs, til Noregs, ásamt tveimur öðrum mönnum, til þess að læra síldveiðar. Hann kom upp með 30 síldarnet og hóf veiðar. Síldina notaði hann einkum í beitu og varð manna aflasælastur. Af Ívari lærðu menn hina nýju veiðitækni. Síldveiðar við Faxaflóa eiga upphaf sitt að rekja til Flekkuvíkur.“
Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 13. september 1964, bls. 858-859.