Uppsalir – Kumblhóll – Álfhóll
Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Sigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu.
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.
Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var Sandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti suður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll.
Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
Halldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu árið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.