Uppsátur

Geta má þess, að þegar Landnáma talar um að menn hafi komið skipi sínu í ákveðinn stað, þá þýddi það að þar var höfn eða uppsátur.
Í Íslenskum sjávarháttum III er minnt á orð eins og: lending, höfn, vör og stöð. Lendingin var oft það erfiðasta í hverjum róðri. Menn vildu róa þaðan sem stutt var á góð fiskimið. En ekki fór alltaf saman að hafnir væru þar góðar og öruggar. Þá var oft valinn skásti kosturinn, notast við smávík eða vog eða rennu, sem brimið náði ekki til. Margar myndir fylgja kaflanum. Þar sést að menn hafa forðum reynt að lagfæra sumar lendingar með því t.d. að hlaða skjólgarða. Hafa það sums staðar verið ærin mannvirki miðað við að allt varð að vinna með handaflinu einu saman.
Uppsatur-221Í ritinu er einnig fjallað um uppsátursgjöld, skyldur og kvaðir. Meðal annars segir frá því að tekin hafi verið upp húsagaskipun frá 1746. Þar segir að »til þess að koma í veg fyrir ýmiss konar óreglu, rifrildi, bölv og aðra ósiðsemi, sem tíðkast hjá sjómönnum, væri formönnum skylt að líta eftir þeim og kæra þá fyrir presti ef út af brygði en sýslumanni ef þeir létu ekki skipast við áminningar prests. Einnig var þeim bannað að rista rúnir. Ef sjómaður gerði sig sekan um slíkan ósóma »setji prestur ofan í við hann og sýni honum með tilstyrk guðs orðs fram á andstyggð þessarar syndar.«”
“Heimræði var t.d. frá öllum bæjum í Grindavík, en lendingar misjafnar. í Jarðabókinni góðu frá 1703 er lendingin við Ísólfsskála sögð „bág og brimsöm” en „voveifleg” við Hraun. Annars staðar hefur hún verið betri. Mest útræði var frá Járngerðarstöðum, enda var það dýrasta jörðin í leigu. Uppsátur var hvergi á landinu metið sérstaklega til eigna nema í Grindavík. Við mat á leigu jarðanna 1753 var uppsátrið metið á 15 hundruð við Járngerðarstaði, en fjögur og þrjú hundruð við Þórkötlustaði og Hóp. En lendingarnar gátu farið illa sem aðrar eignir. Þannig er sagt að um 1760 hafi sjórinn verið farinn að brjóta svo upp vörina við Járngerðarstaði að bóndinn þar tók sig til ásamt sjómönnum sínum og ruddi fyrir nýrri lendingu. Varð þar uppsátur fyrir fimm skip. Ábúandinn fékk þó ekki landskuld sína lækkaða um einn einasta fisk, segir í gömlum bréfum, og þótti súrt í broti.
Uppsatur-223Auk útgerðar heimabænda, gerðu jarðeigendur út skip frá jörðum sínum. Árið 1702 átti Skálholtsstóll þrjú til fjögur skip við Jámgerðarstaði og áttæringa við Ísólfsskála, Þórkötlustaði og Hóp. Þá hafði einnig róið frá Hrauni áttæringur stólsins, en hann brautárið 1700. Með öllum þessum skipum átti biskupsstóllinn verbúðir og vergögn. Á Stað átti kirkjan sjálf fjögur skip, sem landseti varð að gera út. Frá Húsatóttum gekk „eitt kóngs skip áttært” og fylgdi því einnig verbúð og vergögn. Fyrir utan þessa útgerð voru svo inntökuskip, skip í eigu annarra en heimamanna eða jarðeigenda, sem greiddu leigu fyrir aðstöðu sína, sem nefnd var undirgift. Áhafnir þeirra fengu stundum gistingu og mat á bæjunum, eða þær leigðu búðir í landi jarðanna.
Í Jarðabókinni er getið inntökuskipa við Járngerðarstaði og Stað. Fram kemur að útgerð hefur verið meiri í Grindavík fyrir 1700, en gæftaleysi setti þá að um nokkur ár.
Skálholtsútgerð var aukin mjög í tíð Brynjólfs Sveinssonar sem var biskup 1639-1675. Hann lét byggja nýja búð á Járngerðarstöðum fyrir þriðja og fjórða skip stólsins þar, og hann setti skip og byggði búðir á Ísólfsskála, Hrauni og Hópi, þar sem stóllinn hafði ekki gert út skip áður. Skólahald og búrekstur á biskupsstólnum í Skálholti átti mikið undir útgerðinni. Auk Grindavíkur voru helstu verstöðvar hans á Akranesi og í Þorlákshöfn. Um 1690 átti stóllinn um 350 skipsáróðurskvaðir, eða mannslán á Suðurlandi og í Borgarfirði. Þegar aflabrestur varð kom það niður á Skálholti svo sem Uppsatur-224Lúðvík Kristjánsson hefur lýst í tímaritinu Sögu frá 1971. Eftir 1686 varð meiri og minni aflabrestur um allt land, allt til 1704. Í mars árið 1698 varð að fella niður skólahald í Skálholti, vegna fiskiskorts, og 1690 og 1701 varð að sækja fisk á Snæfellsnes og í Tálknafjörð vegna aflabrests sunnanlands.
Fjöldi skipa í Grindavík var mjög breytilegur eftir högum íbúa og fiskigengd. Á vertíðinni 1703 voru 26 skip, og hefur það verið fátt vegna undangenginnar ördeyðu. Þá höfðu ein þrjú skip farist á einum marsdegi árið 1700 og með þeim 26 menn. Seinna á öldinni fjölgaði bátum aftur. Þeir eru sagðir 75 árið 1776, og eru þá trúlega allar fleytur taldar með. Árið 1780 segir Skúli Magnússon að Grindvíkingar eigi átta áttæringa, þrettán sexæringa og sex feræringa, en Skálholtsstóll einn teinæring og ellefu áttæringa. Samtals gerir það 39 báta á vertíðinni. Næstum hundrað árum seinna, um 1870, voru níu tí- og tólfæringar og þrír bátar gerðir út í sveitinni, en um þrjátíu skip, flest áttæringar, veturinn 1896.”

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

“Um aldamótin seinustu [1900] var svo komið, að bylting hafði orðið í öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna, útgerðinni. Gömlu árabátarnir voru að hverfa úr sögunni hér syðra, en kútterar voru komnir í staðinn. Þilskipaútgerðin reyndist mörgum sinnum arðvænlegri, heldur en bátaútgerðin. Meiri fiskur barst á land en áður. Skipin voru stærri og öruggari og menn sóttust eftir að komast á þau, enda þótt aðbúnaður væri þar svo, að hann þætti nú ekki boðlegur neinum mennskum manni.
Í kjölfar þessa sigldu margar aðrar breytingar er breyttu lífi og lifnaðarháttum hér í Reykjavík. Áður en þilskipin komu höfðu bátar af Innnesjum stundað róðra „suður með sjó” á vetrarvertíðinni.
Útgerðarmenn áttu uppsátur á Vatnsleysuströnd, í Vogum, Njarðvíkum, Keflavík, Garði og Leiru og þar lágu bátarnir við. En þetta hvarf úr sögunni þegar þilskipin komu. Þau lögðu afla sinn á land í Reykjavík. Þau veittu fleiri mönnum atvinnu, og í landi skapaðist aukin atvinna við fiskverkun. Afleiðingin varð sú að fólk tók að flytjast búferlum til Reykjavíkur í æ stærri stíl. Meðan „karlarnir” voru á sjónum, höfðu konur og krakkar atvinnu við fiskþurrkun.
Það þótti því hinn mesti búhnykkur fyrir fjölskyldumenn, sem höfðu komist á skútu, að taka sér bólfestu í Reykjavík. Og þar með hófst fyrir alvöru það að streymi fólks til Reykjavíkur, sem aldrei hefir orðið lát á síðan.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 37. árg. 1974, 1. tbl., bls. 3.
-Íslenskir sjávarhættir III, 498 bls, 1983.
-Ægir, 78. árg. 1985, 6. tbl., bls. 301-302.
-Lesbók Morgunblaðsins 26. okt. 1952, bls. 517.

Staðarvör

Staðarvör.