Varðveisla menningarminja – Vala Garðarsdóttir
Vala Garðarsdóttir skrifaði um „Varðveislu menningarminja“ í tímaritið Saga árið 2017:
Hver á menningararfinn?
„Undanfarin misseri hefur mikil umræða skapast um þær forn- og menningarminjar sem rannsóknir hafa beinst að upp á síðkastið, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Þessi umræða hófst ekki að ástæðulausu því svo virðist sem ekki sé sama hvers eðlis rannsóknarefnið er né hvar. En til þess að útskýra gróflega eðli fornleifarannsókna er ágætt að benda á að fornleifauppgröftur er gerður þegar um er að ræða rannsókn eða björgun minja sem liggja í jörðu, iðulega vegna fyrirhugaðra framkvæmda.
Lög um menningarminjar eru skýr. Þær minjar sem við eigum eru okkar allra. Við sem þjóð, sem ein heild, deilum menningararfinum og okkur ber að virða hann óháð því hvaðan hann kemur og hvar hann er á landinu, hvort sem um er að ræða minjar frá nítjándu öld eða þeirri níundu, kuml eða naust, gröf eða bæjarstæði. Um minjar gildir jafnræði.
Við nútímafólk getum ekki metið hvort minjar á okkar tíma séu merkilegri en aðrar eða hvort fólk nú á dögum beri meira skynbragð á fornminjar en fólk á nítjándu öld, hvað þá heldur hvað fólki fannst um menningararfinn þá. Við vitum það einfaldlega ekki.
Það er þó þannig, hérlendis sem erlendis, að við mannfólkið göngum gjarnan í sömu spor og forverar okkar og nýtum þann grunn sem skapast hefur mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð. Við njótum góðs af þeim grunni og skilum honum áfram til næstu kynslóða til að læra af og nýta. Hvernig þessum grunni er komið til skila til framtíðar og í hvaða formi skiptir öllu máli þegar við ræðum um virðingu við menningararfinn. Um þetta form getum við síðan deilt til eilífðarnóns því þær tilfinningar sem við, sem nú lifum, berum í brjósti til liðins tíma eru eins mismunandi og við erum mörg.

Á síðustu árum og áratugum hafa þó nokkrir minjastaðir horfið undir miðlunarlón, til dæmis Pálstóftir, tóftir sels frá 10. öld sem nú eru á botni Hálslóns.
Að þessu sögðu skal það áréttað að í gildi eru lög um menningararfinn sem fræðimönnum, stjórnmálamönnum og sér fræðingum ber að fara eftir þegar kemur að því að varðveita menningu og minjar liðins tíma.
Það þarf ekki að tíunda það hér að oft hefur mannvirkjum og mannvistarlögum liðinna kynslóða verið rutt til, þau skemmd og brotin án nokkurs hiks eða umræðu um hvort eðlilegt þyki að svo sé gert. Við erum sem betur fer orðin mun meðvitaðri um mikilvægi þess að varðveita þær menningarminjar sem við eigum í sameiningu og hafa gert okkur að þjóð. Við lærum í auknum mæli af sögunni, reynum að læra af syndum feðranna og vitum að hversu lítilfjörlegt sem það kann að virðast þá skiptir öllu máli að fara vel með það sem við fengum í arf.

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú er garðinn hvergi að sjá á yfirborði.
Það er ekki að undra að mörgum þyki óeðlilegt að með fornleifarannsóknum skuli það sem liggur í jörðinni vera tekið upp og fjarlægt. Mörgum finnst líklega að verið sé að eyðileggja og vanvirða þær minjar sem rannsaka skal og má í því samhengi nefna grein eftir Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörð, sem birtist í Morgunblaðinu árið 2013. En við getum líklega deilt um þetta til eilífðarnóns.
Með rannsóknum erum við að auka þekkingu okkar á fortíðinni, skrásetja og forverja minjar, skrifa um það sem ekki var vitað áður og bæta við fyrri þekkingu. Við erum að afla upplýsinga og auka skilning okkar á því sem áður var gert, hvernig Íslendingar háðu lífsbaráttuna og drógu björg í bú, fræðast um innlend og erlend samskipti forfeðra okkar og -mæðra, verkmenningu í landi og á sjó, hefðir og hjátrú, trúarhætti, félagslíf, búskaparhætti og svo mætti lengi telja. Við viljum skilja það sem áður fyrr var gert, hver við erum og hvaðan við komum. Það er virðingarvert og eðlilegt og að sama skapi virðingarvottur við þá sem byggt hafa upp okkar margbrotna og ríka samfélag.
Rannsóknir eru mikilvægar
Ef við fjarlægjum minjar er það gert á þeim forsendum að vandað sé til verka og farið eftir lögum sem um slíkt gilda. Við gerum það ekki síst af virðingu við fortíðina og minjarnar sjálfar. Þekkingin situr eftir og við auðgumst á því og bætum við söguna sem var okkur áður hulin, jafnvel glötuð og óþekkt, til að mynda sögu hins hversdagslega, sögu einstaklinga, kotbænda og sauðsvarts almúga sem aldrei var skrifað um.

Hofsstaðir – fyrirmyndar frágangur eftir uppgröft. „Fornleifarannsóknir eru til þess gerðar að rannsaka minjar með vísindalegum aðferðum og varðveita vitneskju um fortíðina fyrir komandi kynslóðir“ – Ragnheiður Traustadóttir.
Við eigum að sameina krafta okkar og sérfræðiþekkingu til þess að miðla því sem áður var — og gera það vel, af virðingu við okkur sjálf og forfeður okkar. Þannig varðveitum við menningararfinn í bland við það sem er og verður á söfnum landsins eða í jörðu; með varðveislu gripa, uppbyggingu og endurgerð á eldri húsum, póstleiðum, vörðum, túngörðum, naustum, sjóbúðum, hjöllum, öskuhaugum, bæjarhólum, slóðum og vegum, brúm, bryggjum, kvíum, stekkjum, álagablettum og öllu sem við eigum. Þannig sýnum við í verki að þótt við byggjum á sama stað mann fram af manni mun sagan um það sem var aldrei hverfa.“
Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2017, Varðveisla menningarminja – Vala Garðarsdóttir, bls. 19-20 og 25.













