Vatnsleysuströndin – Erlendur Magnússon
Erlendur Magnússon, fyrrum bóndi Kálfatjörn, var fróður maður langt út fyrir sína sveit. Magnús Ágústsson frá Halakoti sagði Erlend hafa verið menntaðan mann þótt hann hafi ekki verið menntamaður.
Magnús Jónsson, fv. minjavörður í Hafnarfirði (frá Litlabæ), lýsti einhverju sinni næsta umhverfi Kálfatjarnar og þá Erlendi um leið: „Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“
Sigrún Jónsdóttir, leiðsögumaður og mikil áhugakona um svæðið, lýsti nærtækustu staðháttum að Kálfatjörn á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju árið 2006: „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881.
Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti 1998, sem fyrr sagði.“
Eftirfarandi skrif um Vatnsleysuströndina eru úr óbirtu handriti Erlendar Magnússonar. Þau lýsa vel áhuga hans og viðhorfi til Strandarinnar:
„Vatnsleysuströnd liggur frá Keilisnesi að innan og að Vogastapa að sunnan, en Vatnsleysustrandarhreppur nær frá Hvassahrauni og að Vogastapa og er 16 km langur. (Á) Vogavík er allgóð höfn. Ingólfur Arnarson landnámsmaður gaf Steinunni frænku sinni þetta land alt sem nú er Vatnsleysustrandarhreppur, en hún gaf honum fyrir heklu bláa og kvað kaup skildi heita og sagði að síður myndi rift verða. Hún bjó að Hvassahrauni. Á seinni hluta 19. aldar mun hreppurinn hafa verið fólksflestur eða um 700 manns. Var þá sjávarútvegur í blóma sem jafnan hefur verið aðalatvinnuvegur hreppsbúa og sóttu þangað menn til róðra úr nærliggjandi héruðum allt norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Nú eru rúm 310 manns í hreppnum og sjávarútvegur minni en landbúnaður meiri en var. Gengur nú bíll með mjólk til Reykjavíkur, einnig egg og jarðarávöxt. Alifuglarækt er töluverð og garðrækt mikil. Landið er erfitt til notkunar, utantúns skiftast á móar og grýtt moldarflög með berum klöppum á milli. Sauðfjárbeit er allgóð í heiðinni er nær til fjalls og kölluð er Strandarheiði. Er það gamalt hraun sem er gróið upp en víða blásið aftur. Hvergi er skógargróður nema lítið eitt í Vogaheiði sem liggur upp af Vogunum, en lynggróður og mosagróður er mikill. Gjár eru margar og slæmar (djúpar) í heiðinni og er hún því ill yfirferðar þeim sem ókunnugir eru. Helstu gjárnar eru Hrafnagjá, Klifgjá og Grindarvíkurgjá. Efst í landi Strandarinnar (Kálfatjarnarlandi) er Keilir – hann er leiðarvísir á miðum við sunnanverðan Faxaflóa. Útgerðin er mest á opnum vélbátum (trillum), einnig altaf eitthvað á mótorbátum. Úti fyrir landi eru víða mikil sker og lendingar slæmar.
Byggðin er öll með sjónum og mest syðst. Skiftist hún í hverfi. Flest yngri húsin eru úr steinsteypu, en hin eldri úr timbri. Kálfatjarnarhúsið er elsta húsið – er það nú um 100 ára. Kirkjustaðurinn er á Kálfatjörn og var prestssetur til 1920 að það var lagt til Garða á Álftanesi. Síðasti prestur var séra Árni Þorsteinsson, klerkur góður. Næstur á undan honum var sálmaskáldið séra Stefán Thorarensen. Hann stofnaði barnaskóla á Ströndinni 1860 og var það með fyrstu barnaskólum á landinu. Margt góðra manna hefur verið á Ströndinni og margir nýtir menn komið þaðan, einkum sjómenn (og skipstjórar) eins og t.d. Einar Stefánsson, skipsstjóri á Dettifossi, og Jón Bjarnason, vélstjóri á Gullfoss, enda hafa Strandaringar verið orðlagðir sjómenn og fiskimenn. Í Reykjavík eru margir handiðnaðarmenn fæddir og uppaldir á Ströndinni. (2 eru nú við nám í Háskóla Íslands). Félagskapur er talsverður á Ströndinni. Þar eru meðal annars: Kristniboðsfélag kvenna, Kvennfélag, Barnastúka, Ungmennafélag, Góðtemplarastúka, lestrarfélag ágætt, Búnaðarfélag, Útgerðarfélag og fleiri.
Engar ár eða lækir eru á Ströndinni, en vatn er þar nóg núorðið, því djúpir brunnar hafa verið grafnir en áður verið vont með vatn sem nafn sveitarinnar bendir til. Útsýni af Ströndinni er fagurt og sjóndeildarhringurinn víður. Fjallgarðar Reykjaness og Snæfellsness blasa við bryddir geislaskrúði morgunsólarinnar og kvöldsólarinnar – og óvíða mun fegurra sólarlag en á ströndinni.“
Erlendur Magnússon lýsti í skrifum sínum bæði búskapar- og atvinnuháttum á Ströndinni, gömlum þjóðleiðum og öðru því sem þá hefur þótt nokkuð hversdagslegt, en verður nú að teljast stórmerkilegt.