Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason

Herdísarvík

Í Jólablað Alþýðublaðsins 1946 segir Guðmundur Gissurason frá upplifun hans „Við sjóróðra í Herdísarvík„. Frásögnin lýsir vel aðbúnaði í sjóbúðum og verklagi sjómanna á fyrstu áratugum 20. aldar:

Gljúfurárholt

Gljúfurárholt í Ölfusi eftir jarðskjálfta 1896.

„Vetrarvertíðina 1919 var ég ráðinn til sjóróðra í Herdísarvík. Þar sem ég hafði aldrei farið til sjávar fyrr, beið ég þess með mikilli eftirvæntingu að komast i verið, enda svo litið á almennt, að þá fyrst væri hægt að telja unglingana menn með mönnum, er þeir voru orðnir hlutgengir í skiprúm. Frá sjónarmiði unglingsins var útræði í fyrsta skipti ekki einvörðungu tengt við atvinnuna eða von um tekjur, heldur var hún að vissu leyti svölun á ævintýraþrá og eins konar prófraun.

Í byrjun góu lagði ég af stað í verið. Var ég þá hjá foreldrum mínum í Gljúfurárholti í Ölfusi. Nikulás, sonur Jóns í Vorsabæ í sömu sveit, var ráðinn á sama skip og ég, og urðum við samferða. Við vorum báðir fótgangandi og reiddum færur okkar á sínum hestinum hvor. Það var norðankæla og gott færi. Okkur sóttist ferðin greiðlega. Við vorum léttir í spori og höfðum röska og trausta hesta undir klyfjunum.
Við fórum sem leið liggur út Ölfus og fórum fyrsta daginn út á Hlíðarbæi, gistum á Breiðabólsstöðum hjá Ingimundi Ögmundssyni og Sigurlínu systur hans, en þau voru systkini Jóns, föður Nikulásar. Fengum við þar hinar beztu viðtökur. Var svo förinni haldið áfram daginn eftir, sem leið liggur út Selvogsheiði. Var veður hið ákjósanlegasta og hjarn yfir allt. Þegar við vorum staddir utan til á há Selvogsheiði, sáum við tvö seglbúin skip skammt undan landi. Virtust þau mjög tíguleg, og hugðum við þetta skútur vera, en seinna komumst við að raun um, að þetta voru opin áraskip á leið til Herdísarvíkur. Höfðu þau farið leiði frá Eyrarbakka þennan dag. Við létum nú lítið yfir þessari ágizkun okkar með skúturnar, en það vildi ég segja, að tígulegir og fallegir voru teinæringarnir gömlu með fullum seglum (framsegli, aftursegli, safnrokku og klýfir) og alveg ótrúlegt, hversu góðir þeir voru í sjó að leggja, þegar þeim var vel stjórnað.

Vogsósar

Vogsósar 1932.

Að Vogsósum komum við síðla dags og fengum þar fylgd yfir Hlíðarvatn. Það var ísi lagt, en vandratað yfir það. Fylgdi okkur piltur, sonur Vilhjálms bónda á Vogsósum, er Jakob kvaðst heita, rösklegur og myndarlegur piltur.
Frá Hlíðarvatni að Herdísarvík er yfir hraun að fara, en í gegnum það er ruddur vegur, sem er góður yfirferðar með baggahesta. Þegar við komum til Herdísarvíkur, var þar fyrir hópur manna, sem farið hafði leiði um daginn, og voru þeir að koma föggum sinum fyrir og búa um sig. Ég tók að mér að fara með hestana upp í Ölfus aftur. Ég var beðinn fyrir nokkra fleiri hesta frá Ölfusingum, er fluttu sig þennan dag. Í för með mér slóst maður af Eyrarbakka, sem hjálpað hafði til við flutningana út eftir þá um daginn. Hét hann Guðmundur Steinsson. Ætlaði hann austur að Nesi í Selvogi um kvöldið, til Páls Grímssonar, en hann kvaðst vera háseti hjá Páli, en Páll var þá og hafði verið um langan tíma heppnis- og myndarformaður í Þorlákshöfn.

Herd´siarvík

Herdísarvík 1898.

Er við lögðum af stað úr Herdísarvík, var komið dagsetur, tunglskinslaust, en heiður himinn og stjörnubjart. Ferðin gekk greiðlega, en er við vorum komnir út á Hlíðarvatn, brestur ísinn undan hestunum. Við höfðum farið af réttri leið og lent niður undir Vogsósaós, þar sem ísinn var ótryggur. Vatnið náði þarna hestunum nærri í kvið og var því að vísu engin hætta á ferðum. En hestunum kom ég ekki áfram, hvernig sem ég reyndi, og varð ég því neyddur til að fara af baki, og varð ég að brjóta ísinn, sem þarna var mjög veikur, og vaða á undan hestunum til lands.
Fór ég nú heim að Vogsósum og baðst gistingar, en Vilhjálmur kvaðst því miður ekki geta hýst hestana né gefið þeim hey, þar sem allar skepnur væru í húsi og hey farin að ganga til þurrðar, þar eð veturinn hefði verið mjög harður og gjafasamur. Það varð því úr, að ég héldi áfram upp í Ölfus, eftir að ég hafði þegið góðgerðir á Vogsósum, og fylgdi Vilhjálmur mér langt á leið. Er mér það mjög í minni, hversu Vilhjálmur var vinsamlegur við mig, barmaði sér sáran yfir því, að hafa ekki getað hýst mig, og gaf mér ýmsar leiðbeiningar varðandi leiðina yfir Selvogsheiði. Er hann kvaddi mig, bað hann vel fyrir mér og lét svo um mælt, að frá sér hefði aldrei farið neinn í meiri tvísýnu, og bað mig mjög eindregið um það, að koma við hjá sér, er ég færi út um daginn eftir. Ég þakkaði svo fylgdina og fórum við sinn í hvora áttina. Mér fannst, satt að segja, engin hætta á ferðum, og mig furðaði á því, hvers vegna Vilhjálmur var svona óttasleginn yfir þessu ferðalagi mínu, en ég fékk á honum mjög góðan þokka vegna þess, hversu annt mér fannst honum vera um mig. En ég leyndi hann því, að ég var rennvotur upp fyrir hné. Svona geta unglingar verið kærulausir. Vilhjálmur hefði verið fljótur að láta mig hafa þurra sokka og föt, ef hann hefði vitað þetta.

Kvennagönguhóll

Kvennagönguhóll.

Stinningskaldi var á norðan, en ekki mikið frost. Tunglskinslaust, en heiður himinn. Ég rak klárana og lét þá brokka. Ég varð að hlaupa til að geta haldið á mér hita, því að mér fannst nöpur kólgan á Selvogsheiði um lágnættið. Ég hafði vindstöðuna fyrir vegvísir og löngu eftir að ég skildi við Vilhjálm sá ég að Kvennagönguhól[a] bar við himin á vinstri hönd, og vissi ég þá, að ég var á réttri leið, en brautina okkar frá því um daginn fann ég ekki, og hvergi sá á dökkan díl. Ferðin gekk viðstöðu- og tafarlaust, og að Breiðabólsstöðum kom ég um nóttina og fékk þar góðar viðtökur. Hjá þeim systkinunum, Ingimundi og Sigurlínu á Breiðabólsstöðum, hafði ég áður dvalið, og eru þau með merkasta fólki, er ég hef kynnzt, sakir prúðmennsku sinnar og mannkosta.
Dagin eftir fór Ingimundur með hestana áleiðis upp Ölfus, en ég sný við til Herdísarvíkur. Ég kom að Vogsósum í úteftirleiðinni, eins og ég hafði lofað Vilhjálmi.
Herdísarvík er vestasti bær í Árnessýslu og er í Selvogshreppi. Frá Herdísarvík að sýslumörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu mun vera um hálfs annars tíma lestaferð og út til Krýsuvíkur þriggja tíma ferð.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Næsti bær við Herdísarvík að austan er Stakkavík, og mun þangað vera um klukkutíma ferð. Herdísarvík er því mjög afskekkt og stendur fyrir botni samnefndrar víkur. Umhverfið er óblítt en tilkomumikið. Risavaxið fjall skamt frá í norðri, Herdísarvíkurfjall, með svötum skriðum og háum eggjum. Milli fjalls og fjöru úfið hraun, sem runnið hefur fram af fjallinu um skarð, er kallast Mosaskarð. Það hafa verið hrikalegar náttúruhamfarir, er hraun þetta fossaði fram af fjallinu og í sjó fram. Atlantshafsaldan, óbrotin og rismikil, faldar meðfram ströndinni. Ég hef hvergi séð risavaxnari né tígulegri öldur en brotsjóina á hólminum út af Selvogi, séð úr Herdísarvík. Það má með sanni segja, að þar skálmi boðarnir í lest.

Herd´siarvík

Herdísarvík – skipshöfn árið 1918; Efri röð frá vinstri: Guðjón Úlfarsson, Sigurður Tómasson, Jón Úlfarsson, Kolbeinn Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Haraldur Jónsson. Neðri röð frá vinstri: Sigmundur Jónsson, Guðmundur Guðjónsson, Tómas Sigurðsson, Ívar Geirsson, Jón Árnason, Jónas Einarsson.

Herdísarvík var mjög fiskisæl verstöð og stutt á miðin. Þessa vertíð, 1919, voru fimm skip gerð út frá Herdísarvík. Skipshafnirnar lágu í sjóbúðum, sem voru skammt austur af bænum, og voru 12 og 13 menn á hverju skipi. Í þessari litlu og afskekktu verstöð voru því saman komnir yfir 60 sjómenn úr Árness- og Rángárvallasýslu. Formenn á skipunum voru: Símon Símonarson yngri frá Bjarnastöðum í Ölfusi, Halldór Magnússon frá Klöpp í Selvogi, Gísli Scheving Gíslason frá Stakkavík, Ívar Geirsson frá Eyrarbakka og Ársæll frá Álfhólum í Landeyjum. Ég réri hjá Símoni, og voru skipverjar þessir, auk formannsins: Guðmundur Jónsson frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, hafði áður verið heppnis formaður í Herdísarvík, Bjarni, sonur hans, Páll og Torfi, bræður, synir Jóns á Ægissíðu í Holtum, Björgvin Magnússon frá Klausturhólum í Grímsnesi, Elías Símonarson frá Núpum í Ölfusi, bróðir formannsins, Ari Þorsteinsson frá Eyvindartungu í Laugardal, Jón Þorsteinsson frá Miðdal í Laugardal, Árni Árnason frá Hjalla í Landmannahreppi, Nikulás Jónsson frá Vorsabæ í Ölfusi og ég, er þessar línur rita.
Sjóbúðin okkar var með beztu verbúðum. Veggirnir hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, sem lagt var í sement. Þakið járnvarið og klætt innan á sperrurnar með panel. Þrjú rúmstæði voru meðfram hvorum vegg, og voru tveir menn í hverju rúmi og lágu þeir andfætis.

Herdísarvík

Herdísarvík – skipshöfn 1918-1919;
Neðri röð: Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Guðjón Gíslason bóndi í Ásgarði í Grímsnesi.
Efri röð: Albert Jóhannesson frá Eyvík í Grímsnesi; Óþekktur, Óþekktur, Óþekktur, Björgvin Sigurjónsson frá Kringlu í Grímsnesi.

Í einu rúminu vorum við þrír unglingar, og var það kallað strákarúmið. — Gólfið milli rúmanna var um einn og hálfur metri á breidd. Var það steypt, en í flestum sjóbúðum þá vou moldargólf, eða réttara sagt sands- og malargólf, og var búðin þrifin með því að moka gólfið. Inn af sjóbúðinni okkar var geymsla, þar sem geymd voru matvæli, fatnaður, skinnklæði og veiðarfæri. Fyrir ofan sig í rúmunum höfðu menn matarskrínur sínar, og snéru menn sér til veggjar og hölluðu sér að skrínunni sinni, er þeir mötuðust. Matarforðinn yfir vertíðina, eða útgerðin, eins og það var kallað, var tveir fjórðungar af smjöri, og var því drepið í annan enda skrínunnar, tveir sauðir, annar í hangikjöti og hinn í kæfu, og var kæfunni drepið í hinn enda skrínunnar á haustin um leið og kæfan var soðin. Auk þess lifðu menn á harðfiski og rúgbrauðum. Að sjálfsögðu var útgerð manna nokkuð misjöfn, og misjafnt entist mönnum forðinn, en það algenga var, að menn lifðu á þeim fæðutegundum, sem ég nú hef nefnt, þ. e. lifðu á skrínukosti, eins og kallað er, smökkuðu aldrei heitan mat eða neina vökvun aðra en svart kaffi og „munaðaraukinn eini og bezti, ögn af sykri“ í sjóvettlingi, sem venjulegast var geymdur í órónum sjóvettlingum.

Herdísarvík - skipshöfn 1919;

Herdísarvík – skipshöfn 1919;
Skipshöfn úr Herdísarvík. Formaður Ívar Geirsson sölkutóft, Eyrarbakka.
Efri röð talið frá vinstri: Guðjón Úlfarsson Fljósdal, Fljótshlíð, Sigurður Tómasson Barkarstöðum, Fljótshlíð, Jón Úlfarsson Fljótsdal, Fljótshlíð, Kolbeinn Jóhannesson Eyvík, Grímsnesi, Ólafur Ólafsson Áshól, Holtum, Haraldur Jónsson Gamla-Hrauni, Eyrarbakka.
Neðri röð talið frá vinstri: Sigmundur Jónsson Syðra-Velli, Flóa, Guðmundur Guðjónsson Nýjabæ, Sandvíkurhreppi, Tómas Sigurðsson Árkvörn, Fljótshlíð, Ívar Geirsson Sölkutóft, Eyrarbakka, Jón Árnason Vatnsdal, Fljótshlíð, Jónas Einarsson Garðhúsum Eyrarbakka.

Í sjóbúðinni okkar var hlýtt og notalegt, þótt ekkert væri eldfærið til að hlýja upp með, og útveggir óeinangraðir, enda voru menn engu góðu vanir hvað híbýli snerti og upphitun í húsum þekktist naumast. En ekki er því að leyna, að mataræðið og fatnaðurinn, ullarfötin, hömluðu mjög á móti kuldanum. Jú, ég man eftir einu eldfæri, sem átti það til að vekja menn eldsnemma á morgnana, þegar ræði var, með sínum sterku drunum og hvissi. Það var prímusinn. Það var Páll á Ægissíðu, sem venjulega hitaði morgunkaffið, eftir bendingu frá formanninum, og lét prímusinn gefa til kynna, að nú skyldu menn vakna, rísa upp við dogg að skrínum sínum, taka sér bita eftir því sem lystin leyfði, og fara svo að tígja sig. Formaðurinn tók alltaf fyrstur skinnklæðin, sótti þau inn í geymslu og gaf með því til kynna, að nú skyldi róið. Hásetarnir fóru að dæmi hans, sóttu hver sín bösl, þegjandi og íbyggnir.

Sjóklæði

Sjóklæði.

Það var oft hráslagalegt að fara í skinnklæðin, og sjóveikir menn fengu velgju, því að af skinnklæðunum lagði venjulega sterkan grútarþef. Skinnklæði voru verkuð með því móti, að maka þau í grút eða lýsi. Bar það vott um hirðusemi og snyrtimennsku að hirða skinnklæði sín vel, þurrka þau vel eftir róður, þegar hægt var, og bera á þau lýsi eða fernisolíu. Þegar skinnklæði voru vel hirt, voru þau pottheld og mjúk og ekki stirt að vinna í þeim. Menn skinnklædu sig hljóðlega; það hvíldi yfir því alvara og lotning. Menn smeygðu fótunum til botns í brókina, löguðu framleistinn, bundu á sig sjóskóna; það var lítt nettur skófatnaður, teigðu brókina upp undir hendur, reirðu hana að sér eftir kúnstarinnar reglum. Sumir signdu sig, áður en þeir smeygðu skinnstaknum yfir höfuð sér, vöfðu ermar að úlnlið, dóru saman í hálsmál, bundu um sig mittisbandið, settu á sig sjóhatt og sjóvettlinga. Skinnklæddur maður var karlmannlegur og fyrirferðarmikill. Skinnklæddur maður var friðhelgur. — Formaður fór fyrir til skips. Hann gengur að afturstafni skipsins, sem snýr að sjó. Hásetarnir raða sér að skipshliðunum, stjórnborðshlið, bakborðshlið, hver að sínum keip. Skorður eru losaðar, skipsmenn taka ofan, signa sig og gera krossmark fyrir rúmi sínu.
Þá er hlunnað og skipið sett fram, numið staðar í flæðarmáli, ef lág var; formaðurinn velur lag og kallar snjallt og ákveðið: „Ýtið.“ Nú þarf allt að gerast í skjótri svipan, ýta á flot, komast upp í skipið, setjast undir árar og taka í og róa sprettróður út fyrir landboðana. Nú er skipinu snúið, því skutur gengur á undan þegar ýtt er. Hásetar leggjast á árar og fá skrið á skipið. Ef skipi var vel róið, sýndist ein ár á borð, þegar séð var framan á skipið, þótt fimm eða sex menn reru. Nú sameinast skipverjar allir í hljóðlátri bæn; það er yfirlætislaus en hátíðleg helgiathöfn. Menn lægja róðurinn, taka ofan, drjúpa höfði og lesa sjóferðarbæn og „faðir vor“ og signa sig að bæninni lokinni. Þetta var gert í hverjum róðri, og eins þótt tví- eða þríróið væri: sama daginn. Þessi þagnar- og tilbeiðslustund skipshafnarinnar var þrungin innleik og hátíðablæ og alvöru.

Skrína

Skrína.

Við róum í hálftíma, klukkutíma. Formaðurinn stýrir. Hann ratar að netatrossunni, því að hann þekkir miðin. Framámennirnir grípa belginn, og stjórafærið er dregið inn. Það er oft erfitt að tosa upp stjóranum. Allir toga í stjórafærið, sem liggur eftir endilöngu skipinu, og formaðurinn er endamaðurinn og tekur af slakann, Nótin eru dregin inn, allt á handafli, auðvitað. Tveir draga netin, sinn hvorn tein, steinatein, kúlnatein. Aðrir skipverjar bera í, greiða úr, blóðga, greiða netin og leggja þau greið niður í barkann, andæfa. Það var stundum erfitt að vera í andófi; þessi látlausi róður, þar sem menn voru alltaf að snúa hver á annan. Skipinu áttu andófsmenn að halda beint í vindinn og sjá um að hafa beina niðurstöðu á netunum. Þetta var nokkuð vandasamt, ef strekkingur var, og þá var alltaf verið að rexa í andófsmönnunum: „betur á stjórn og báðir áfram“. Þegar búið var að taka trossuna, voru netin róin út, og var skipinu þá róið aftur á. Oft var vindstaða hagstæð; var þó siglt og var það kærkomið. Þá urðu menn glaðir og gamansamir, sungu eða kváðu:

Sigla á fríðum súðahæng
segja lýðir yndi.
Blakk að riða og búa í sæng
baugahlínar undir væng.
eða: : ’
Sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ítar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Í Herdísarvík var landtaka ekki góð. Það varð oftast að seila út á vegna þess, að skipinu var ekki haldandi í vörinni fyrir brimi. Voru seilarólarnar svo bundnar saman og fest í þær færi og þær látnar fljóta að boðabaki, meðan hleypt var að og skipið sett.

Seilaról

Seilaról og -nál.

Skipin voru venjulega sett aðeins upp fyrir flæðarmál, en í naust, ef talið var að fárviðri væri í aðsigi. Nú voru seilarnar dregnar að landi á færinu, er fest hafði verið í þær. Þá var fiskurinn þræddur af seilarólinni á birgðarólarnar og borinn á bakinu upp á völl. Er því var lokið, labba menn til búðar. Hafði róðurinn þá staðið yfir frá kl. 6 að morgni til kl. 1—2 eða jafnvel 3—4 að deginum, og höfðu menn á þeim tíma sjaldnast notið nokkurrar hvíldar né smakkað vott eða þurrt. Menn tóku því venjulega hraustlega til matar síns. Gert var að fiskinum á aðgerðarvellinum og var hann saltaður í bingi. Meðan fiskur var hertur, þótti Herdísarvík góður herzlustaður vegna hraunsins, og sáust greinilega er fiskurinn var hertur á???

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðirnar.

Þegar vel fiskaðist var kominn dagur að kvöldi, þegar búið var að gera að; voru menn þá orðnir hvíldarþurfi, og tóku á sig náðir. Er menn höfðu gengið til hvílu, var lesinn húslestur, Passíusálmar eða Péturshugvekjur. Ari Þorsteinsson las lesturinn. Það urðu stundum fáir til að þakka fyrir lesturinn. Svefninn hafði seytt þá.

Þórarinn Árnason

Þórarinn Árnason 1912; 1856-1943.

Landlegur voru nokkuð tíðar. Þegar hafátt var, þá var ekki róandi fyrír brimi, og ekki mátti vera hvasst á norðan svo róandi væri. Menn voru oft á báðum áttum með, hvort róið skyldi, og var það kallað, að standa í vomum, Það var formaðurinn, sem gerði það upp við sig, hvort róið skyldi eða ekki, og aldrei heyrði ég neinn malda í móinn yfir ákvörðun formanns, né mögla yfir því, sem gera skyldi. — Í landlegum var oft glatt á hjalla í búðinni. Menn spiluðu, flugust á, tefldu, sungu. Ekkert útvarp, ekkert bókasafn, engin blöð, enginn sími, samgöngur mjög litlar eða engar. Menn urðu að búa að sínu. Það voru sagðir brandarar, og mikið hlegið, og svo sungið við raust, margraddað, sópran, prímóbassi, bassi, án hljóðfæris, án söngstjóra, og aldrei farið út af laginu. Búðarlífið var verulega skemmtilegt, og þar sem ég þekkti, til, ríkti svo heilbrigður og drengilegur andi í þessum félagsskap, að til fyrirmyndar er. Ég man ekki eftir að menn yrðu sundurorða, eða tækjust á í illu, en þarna sást ekki áfengi, nema á sumardaginn fyrsta, þá urðu allir að finna á sér, þá urðu menn góðglaðir og hlógu að fyndninni hver hjá öðrum, og þeim, sem mjöðurinn sveif mest á.

Ólöf Sveinsdóttir

Ólöf Sveinsdóttir 1910.

Þórarinn Árnason, sýslumaður frá Krýsuvík, var ábúandi Herdísarvíkur. Hann átti mjög margt sauðfé. Þórarinn hafði engin afskipti af sjómönnunum eða samskipti. Ég sá hann aldrei nema tilsýndar. Það var eins og hann forðaðist okkur. Konu hans, Ólöfu, sá óg einu sinni. Var hún fríð sýnum og fyrirmannleg.
Þessa vertíð gerðist ekkert markvert sérstaklega. Veðráttan var mjög köld, fiskirí sæmilegt, þegar gaf, og aflinn í vertíðarlok í góðu meðallagi. Einu sinni urðum við að hleypa austur í Selvog vegna útnyrðings.
Landtaka í Selvogi er slæm; þar hef ég orðið hræddastur um líf mitt. Ég held að margur hafi hlotið að biðja vel fyrir sér á sundinu í Selvogi.
Um lokin tvístrast menn og kveðjast með kossi. Menn halda heim til sín með lýsi, matfisk, skreið, sundmaga o.fl. Hluturinn er gerður upp, þegar aflinn hefur verið seldur.
Áraskipin eru horfin af sjónarsviðinu, og þeirra tími kemur aldrei aftur. Róðurinn er ekki lengur hið -lífsnauðsynlega starf, heldur er hann nú stundaður sem íþrótt. Hesturinn, sem rogaðist með byrgðar sínar, færur, skreið, lýsiskvartél o.fl. o.fl. um óbyggðir og vegleysur, er nú ekki lengur þarfasti þjónninn. Það hafa orðið framfarir, og framförunum fögnum við; en vissan bjarma leggur frá því sem var. Bráðum þeysum við í bílum austur Herdísarvíkurhraun, og austur Selvogsheiðar.“

Heimild:
-Jólablað Alþýðublaðsins 1946, 24.12.1946, Við sjóróðra í Herdísarvík – Guðmundur Gissurason, bls. 37-45.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.