Viðarkol

Í “Sagnir og þjóðhættir” eftir Odd Oddsson er kafli um Viðarkol. Þar segir m.a.: “Þar sem ekki var kostur á rekavið, sem mjög víða hlaut að vera sökum staðhátta, var eigi annars að neyta til hita í húsum og til matselda en skógarviðar, sem til allrar hamingju var nægð af, því að víst hefur það satt verið, að landið var víða skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Annars hefðu skógarnir ekki þolað hina takmarkalausu rányrkju í tíu aldir. er mesta undur, að nokkur einasta aðgengileg hrísla skyldi vera uppi standandi eftir þann tíma á landinu.
Skógur í hraunum ofan Hafnarfjarðar

Það segir sig sjálft, að býsna mikið af skógarviði hefur þurft til máleldanna, þar sem ekki var öðru að brenna, sauðatað – skán – ekki til. Sauðfé gekk úti, og mykja nautpenings var borin á völl, eins og Íslendingasögur sýna, til þess að fá betra gras – töðu af taði. En til þess að fá töðuna enn betri, einkum af hálendinu, fann Njáll upp á því að aka skarni á hóla, til þess að þar yrði “taða betri”…
Hvergi er þess getið að menn hér í fornöld hafi notað mó til eldsneytis, svo að annaðhvort hefur uppgötvun Torf-Einars eigi verið hér almenn kunn eða menn eigi þekkt mó eða hirt um að afla hans fyrr en seinna á öldum. Að vísu nefna sögurnar “fauskagröft“, en naumast getur það átt við mótöku, þótt gerð hafi verið í sama augnamiði, þar sem það var orðið, eftir skógareyðing, nærtækara að grafa upp kalvið og hálffúnar ræturnar en að sækja í skóginn sjálfan, og verið í rauninni einskonar “aukatöð“, eins og nú mundi kallað.
Viðarkolagerð 1870 - W-pediaÞað, sem knúði þó allra mest til skógarhöggsins og olli víst langmest eyðingu skóganna, var hin geysimikla eldsneytisþörf til járnvinnslunnar – “rauðablástranna“. Geta má nærri, hversu óhemju mikið af skógarviði, niðurhöggnum og brenndum til kola, hefur þurft t.d. til að bræða við, drepa og reka svo sem 50 kg af járni úr mýrarrauða, þangað til að það var orðið hentugt til smíða, því að afbragssmiður með sæmilegum tólum á 19. öld þurfti eina tunnu af góðum viðarkolum til þess að smíða við einn einasta venjulegan sláttuljá (samsoðinn). Að vísu hafa rauðablástrarnir ekki varað mjög lengi, því að efni til þeirra hafa gengið til þurrðar, og nægilegt járn hefur farið að flytjast til landsins, en eldsneytisþörfin til heimilisnotkunar og kolagerðin til járnsmíðanna hélt áfram allar aldir fram yfir miðja síðustu öld [19. öld]. Silfursmiðir notuðu viðarkol jafnvel lengur, ef smíða þurfti stóra hluti…
Möguleg viðarkolagröf á Skálholti í StrandarheiðiNú á tímum er svo margt að breytast bæði til hins betra – og verra – og margt að falla og fallið úr sögunni, þar á meðal viðarkolin. Á síðustu árum viðarkolagerðarinnar var ég að vísu ungur, en nægilega gamall þó til þess að muna vel eftir henni. Má vera, að yngri mönnum og eftirkomandi kynslóðum þyki það eigi með öllu ófróðlegt að fá lýsingu af kolagerðinni og notkun kolanna um 1874 á Suðurlandi, er sennilega hefur verið með líkum hætti um allt land frá fornöld, nema þá allt stórfelldara, og kolin þá brennd í skóginum, en eigi heima.
Á haustin eftir fyrstu réttir hófust skógarferðir. Menn sammældu sig til þeirra eftir ástæðum og höfðu svo marga klyfjahesta, er þurfa þótti, ef skógarhöggið var ótakmarkað, sem þá var orðið óvíða. Flestir urðu að kaupa skóginn. Var víst verð greitt fyrir að mega höggva hestburðinn. Fór það eftir gæðum viðarins, en algengast voru það 5 fiskar og þaðan af minna. Nokkrar jarðir áttu sjálfar skóg á landareign sinni, og einstöku jörðum fylgdu skógarítök á fjarlægum stöðum, annað hvort heilar torfur eða þá ákveðið hestburðatal. Þetta voru upphaflega gjafir frá guðhræddum mönnum til kirkna og bænahúsa, er þá voru á jörðum þessum.
Þeir sem áttu hTóft í Kolhólumina stærri skóga eða stór ítök, gátu höggvið eftir vild og selt öðrum, sem ekkert tilkall áttu til skógar, og það voru langflestir, sem ekki áttu það. Sumstaðar áttu heilar sveitir skóg saman, ef hann lá í afréttarlandi þeirra. Fóru þá ítök hverrar jarðar eftir hundraðatali hennar, miðað við hestburði…
Þegar komið var í skóginn, tóku menn að viða – höggva – af kappi, en hvað fljótt það gekk, fór eftir ýmsum kringumstæðum, svo sem því, hvað mikið skyldi viða, hversu skógurinn var þéttur, menn duglegir, veður hentugt o.fl. Engir voru umsjónarmenn eða neinar reglur um, hversu höggva skyldi, en ætlazt var til, að hver hrísla væri höggvin á snið, og öxin væri blaðþunn og biti vel, til þess að rótarstúfurinn – stofninn – merðist eigi eða rifnaði, en væri sléttur og hallur, svo að vatn gæti ekki gengið í hann og valdið fúa. Að  vísu þótti ekki gott að róðurfella stórar spildur, en ekki var samt horft í það, ef svo stóð á, að það þótti að einhverju leyti hagkvæmt. Þegar búið var að viða nægilega mikið, voru hríslurnar bornar saman og þær smærri bundnar í bagga – baggaviður, – en þær stærri í langa ströngla, er drógust á hestinum, vissu stofnarnir upp en limið niður, dragnaviður. – Þurfti mikla vandvirkni og aðgæzlu við að búa svo um, að þessar klyfjar meiddu ekki hestinn að aftan eða væru honum til hindrunar í göngu…
Kolgrafarholt í StrandarheiðiEftir að komið var úr skógi, var það haft að hjáverkum, er annað nauðsynlegt var eigi til að starfa, að kvista viðinn þannig, að allir angar og lim var höggvið af hríslunum, að þeim undanskildum, er ætlaðar voru til að skýla heyjum með. Lim var haft til eldiviðar, einkum til að svíða við svið og hita við kaffiketilinn í smiðjum, er það þurfti að gera fljótt og annað var yfir hlóðum í eldhúsinu. Einnig var limið haft í sópa til að sópa með innanhúsa og í heygörðum og til aðstoðar við barnauppeldið. Síðan var viðurinn greindur sundur. Það stærsta var haft til áreftis á fénaðarhús. Börkurinn var flisjaður af lurkunum með hníf. Hét það að birkja, og var börkurinn soðinn til litar á skinn. Sumir lurkar voru svo gildir að neðan, að nota mátti þá í hagldir og skammorf o.fl., en það beinasta og kvistalausa var geymt uppi í eldhúsi til næsta sumars og látið reykjast þar og harðna, síðan bútað og klofið og notað í hrífutinda um sláttinn. Því var viðurinn birktur, að hann þótti þá betur verjast fúa en ella.
Allt hið smærra af viðnum, en þó svo stórt, að nema mundi fingursgildleika, var ætlað til kola. Var það látið í tómt og þriflegt úthýsi, t.d. hesthús við bæinn. Var hentugt, að það væri með dyrum á hliðarvegg.

Brennisel-121

Á mitt gólfið var látinn kláfur með reiðingsdýnu ofan á. Á hann settist maður og hafði fyrir framan sig trékubb – fjalhöggið – jafnháan sætinu. Maðurinn sneri móti dyrum og hafði viðinn til vinstri handar, tók svo með hægri hendi lurk eftir lurk og hjó þá með biturri öxi í svo sem 7 cm langa búta, sem hrukku undan högginu út í hinn auða enda hússins og lentu þar í hrúgu. Þetta hét að kurla og bútarnir kurl. Nú voru lurkarnir oft kræklóttir og misfimlega til höggvið, og því var það, að kurlin hrukku víðsvegar um allt annað en þeim var ætlað. Gætti þess auðvitað mest, ef kurlað var úti, en ávallt nægilega mikið til þess að sanna forna málsháttinn “sjaldan koma öll kurl til grafar”. Mönnum þótti skemmtilegt verk að kurla, þ.e.a.s. ef kurlin létu nefni á þeim í friði. Einhverntíma á stekktíðinni á vorin, í logni og þurviðri, voru kurlin brennd til kola. Á háum stað og þurrum var gerð skálmynduð gryfja, kolagröfin. Fór stærð hennar eftir, hvað mikið skyldi brenna. Átti gröfin að vera hér um bil barmfull af kurlum. Byrjað var á þessu verki snemma dags, er veður þótti einhlítt, því að hvorki mátti vera regn né vindur, á meðan á brennslunni stóð, ef vel átti að fara. Á botn gryfjunnar var látinn logandi eldur og kurlunum komið fyrir þar ofan á þannig, að eldurinn gæti læst sig um alla gröfina og leikið jafnt um öll kurlin.
Þegar loginn Kolviðarhóllvar kominn upp úr kurlunum, var gröfin byrgð með torfi og mold, svo að hvergi gæti logað upp úr. Allur vandinn var í því fólginn að byrgja gröfina á réttum tíma. Verst fór, ef það var gert of seint eða illa, því að þá brunnu kolin til ösku meira og minna. Hitt var ekki heldur gott, að þau yrðu illa brennd, ef loginn var kæfður of fljótt, því að þá urðu kolin lakari til að sjóða járn við, og ekki reykjarlaus. Eftir að búið var að byrgja gröfina, varð að sjá um, að aldrei logaði upp úr, varð því maður ávallt að vera við gröfina, þar til hætt var að rjúka og glóðin kulnuð, varaði það oft allt að sólarhring. Þegar víst var, að kalt var orðið í gröfinni, var hún opnuð, kolin tekin upp, látin í smiðju, geymd þar í bing og tekin til notkunar eftir þörfum. Það var ærinn vandi að brenna vel kol, og flestir opnuðu gröfina með talsvert kvíðablandinni eftirvæntingu um, hversu tekizt hafði. Vel brennd viðarkol áttu að vera jöfn í allri gröfinni, svört að innan, gljáandi í broti og helzt með silfurlit að utan. Eftir að steinkol tóku að flytjast til landsins, voru viðarkol næstum einungis notuð til dengslu sláttuljáanna á sumrin, en til þess voru steinkolin óhæf sökum of sterks og ójafns hita og reyks…”.
Umfjöllunin getur síðan um ljáinn, þróun hans og notkun.

Heimild:
-Oddur Oddsson, Sagnir og þjóðhættir, Ísafoldarprentsmiðja, 1941, bls. 107-119.Hrísskógur í Almenningi ofan Hrauna