Vogaheiði – Pétursborg – Kálffell – fjárhellar – Oddshellir

Kálffell

Gengið var inn á Skógfellaveg frá Reykjanesbraut og upp fyrir Brandsgjá, upp Vogaheiði um Huldugjá, að Péturborg og síðan áfram upp heiðina í Kálffell.

Kálffell

Fjárskjól við Oddshelli í Kálffelli.

Í Kálffelli eru hlaðin mannvirki, s.s. gerði, kví, rétt, fjárskjól og þar er mannvistarbústaður; Oddshellir.
Kálffellið er, séð úr fjarlægð, líkt og lítil þúst í heiðinni. Þegar komið er að því kemur í ljós að um fallegan eldgíg er að ræða og það nokkuð stóran.
Þegar gengið er beint upp heiðina tekur hver hæðin og lægðin við af annarri. En þegar farið er suður með vestanverðri heiðinni er gengið rétt utan við lyngsvæðið og þar er öllu sléttara aðgöngu að fellinu. Á þeirri leið ber ýmislegt skemmtilegt fyrir augu, s.s. gjár og mosasléttur, misgengi og litlir hraungígar á NA-lægum sprungureinum.

Syðri-Mosadalagjá liggur fast neðan Kálffells (87 m.y.s.), en það er á hreppamörkum og liggur norðaustan við svonefnda Aura. Kjörin fjárfesting fyrir einhverja bankastofnunina, sem ekki veit aura sinna tal.

Kálffell

Kálffell.

Fellið er stærsti gígurinn í nokkuð stórum gígaklasa á þessum slóðum. Megin hraunstraumurinn hefur runnið norðvestur úr og þekur hraunið um 3.5 ferkm. Fell er varla réttnefni því Kálffell er aðeins ávöl hæð, sem fellur inn í landið, sérstaklega séð neðan frá eins og fyrr sagði.

Pétursborg

Pétursborg.

Það eru snöggtum fleiri fell en fjöll á Reykjanesskaganum og séra Geir Backmann gerir eftirfarandi greinarmun á felli og fjalli í lýsingu sinni á Grindarvíkursókn árið 1840: “Þann mun gjöri ég á felli og fjalli, að fell kalla ég klettalausa, alls staðar að snarbratta, uppmjóa og toppvaxna, háa hæð, sem hvar vill má upp ganga; en fjall, hvar klettar eða klungur hamla uppgönguna, og hvers hæð er í hið minnsta 200 faðmar; þó sé hverjum leyfi að gjöra þar þann mismun, er sjálfur vill.”.

Kálffell

Rétt í Kálffelli.

Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur, sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þarf að stökkva niður á nokkrar hellur, sem hlaðnar hafa verið upp neðan “dyranna”.

Kálffell

Kálffell.

Oddshellir er nokkuð rúmgóður og á einum stað er hlaðið upp í einn afkimann. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru u að þegar mest var af sauðum Í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysutrönd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Kálffell

Fjárskjól í Kálffelli.