Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

“Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á “hafnfirskan” stein í vörðunni er klappað nafnið “Stefánsvarða”.” (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

“Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga. Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: “Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson”.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: “Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána”.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – “Hot Stuff”
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

 

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður “gjörtlari”, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík. Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan “Magnúsarsæti” eftir Magnúsi “gjörtlara”. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þess eru höggnir stafir, ME. 1888 til minningar um nefndan Magnús, og þar fyrir neðan S.J.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti – letur.

Stafirnir S.J. gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að M. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Magnúsarsæti er í austanverðri Hrafnagjá skammt vestan Stóru-Vatnsleysu.

Litli sjómaðurinn

Þorvaldur Guðmundsson eignaðist Minni-Vatnsleysu árið 1953 – og varð þar með eigandi að stærsta svínabúi landsins.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn á Minni-Vatnsleysu.

Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur á lágum grasi vöxnumhól skammt norðan við Ráðsmannsbústaðinn, ofan við sjávarkambinn. Á fótstallinum er skilti. Á því stendur: “Litli sjómaðurinn eftir Ragnar Kjartansson. Til minningar um þá er sóttu sjóinn frá Minni-Vatnsleysu – 1962”.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Þyrluvarða

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Vestast í Breiðagerðislakka, fast norðan Reykjanesbrautar, er varða – “Þyrluvarða”.
Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins vestan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.