Stóru-Vogar

Haukur Ólafsson, sendifulltrúi FERLIRs í Lundúnum, semdi eftirfarandi ábendingu: “Ég rakst á þetta í fasteignaauglýsingu um Vogalandið sem virðist, óskipt, vera til sölu!! Þar segir m.a.: Fasteignamiðstöðin Hlíðasmára 17 er með til sölu áhugavert land í Vogum. Um er að ræða óskipt land svonefndra Vogajarða (Vogatorfa) í sveitarfélaginu Vogar (áður Vatnsleysustrandarhreppi) þ.e.a.s. Austurkots, Minni-Voga, Tumakots, Hábæjar, Nýja-bæjar, Stóru-Voga og Suðurkots.

Vegghleðslur

Áætluð stærð 2773 ha. Stóru Vogar er að fornu höfuðbýli og landnámsjörð er áður nefndist Kvíguvogar eftir sækúm er þar gengu á land og náðist ein þeirra í fjós á bænum. Segir sagan að af henni sé komið eitt besta kúakyn á landinu, allar úlfgráar að lit. Landið liggur að hluta til að þéttbýli, miðsvæðis og í þjóðbraut allra sem fara um Reykjanesbraut. Stór hluti mögulegt byggingarland. Nú þegar tilbúið skipulag að nokkrum atvinnuhúsalóðum. Áhugaverð vatnsréttindi. Áhugaverð fjárfesting m.a. vegna legu sinnar í þjóðbraut, en Reykjanesbraut liggur í gegn um landið og það liggur að norðurjaðri Reykjanesbæjar. Hver einasti ferðamaður sem heimsækir Ísland flugleiðina á leið um þetta land. Sá fjöldi nálgast nú 400 þúsund á ári og eru Íslenskir ferðamenn ekki með taldir. Frá Vogajörðunum var stundað útræði um aldir og voru þar oft hundruðir manna í verbúðum á 100-200 bátum af ýmsum stærðum. Undir Vogastapa voru fengsælustu fiskimið við Ísland, amk. á vorvertíð. Var þar oft landburður af fiski og auðgaðist margur á þeim rekstri. Tveir af kunnustu útgerðarmönnum við Faxaflóa, þeir Haraldur Böðvarsson og Geir Zoega hófu sína útgerð í Vogunum og farnaðist báðum vel. Jón M. Waage lét reisa þarna fyrsta steinhús á Íslandi árið 1871. Að verkinu stóð Sverrir Runólfsson, steinhöggvari, sá sami og reisti kirkjuna að Þingeyrum og sjálfa Skólavörðuna. Lítið stendur eftir af þessu merka húsi, nema etv. grunnurinn. Eign fyrir fjársterka aðila.”
Hér kemur fram að í Vogum séu leifar af “elsta steinhúsi á Íslandi, reist 1871”. Það er reyndar ekki alveg rétt, sbr. eftirfarandi, en ætla má að þarna kunni að leynast minjar elsta steinhúss á Íslandi, reist af einkaaðila.
Um miðja 18. öld fóru dönsk stjórnvöld að beita sér fyrir eflingu iðnaðar hér á landi. Konungur styrkti hlutafélagið Innréttingar sem Skúli Magnússon, sem var skipaður landfógeti 1749, stofnaði með öðrum 1751. Aðalaðsetur Innréttinganna var valinn staður í Reykjavík og lagði grunn að þéttbýlismyndun þar.
Skúli Magnússon var einnig aðalhvatamaður þess að byggður yrði embættisbústaður fyrir hann í Viðey hlaðinn úr íslensku grjóti. Í anda upplýsingar voru dönsk stjórnvöld því fylgjandi að byggja hús úr varanlegu efni ef það mætti verða til þess að Íslendingar lærðu að byggja varanlegri hús en torfhús. Dönsk stjórnvöld vönduðu mjög undirbúning framkvæmda sinna. Létu þau hæfustu húsameistara sína teikna þau steinhús sem reist voru hér og sendu iðnaðarmenn hingað til lands til að vinna við og hafa umsjón með bygginga-framkvæmdum og kenna Íslendingum hið nýja verklag.

Vegghleðslur

Þau steinhús sem dönsk stjórnvöld reistu á 18. öld voru Viðeyjarstofa 1753-55, Hóladómkirkja 1757-63, Bessastaðastofa 1761-67, Nesstofa 1761-63, fangahúsið í Reykjavík (Stjórnarráðshúsið) 1765-70, Viðeyjarkirkja 1766-74, Landakirkja á Heimaey 1774-78, Bessastaðakirkja 1777-1795 og dómkirkjan í Reykjavík 1787-96.
Þegar ráðist var í byggingu dóm- og hegningarhúss við Skólavörðustíg í Reykjavík árið 1871 var ákveðið að fela Klentz verkið. Sverrir Runólfsson hafði sóst eftir að byggja húsið eftir aðferð sinni en aftur var Bald falið að annast smíði hússins. Var húsið reist eftir aðferð Sverris úr ótilhöggnum hraunhellum. Þetta er sama árið og steinhúsið að Stóru-Vogum var reist. Sverrir mun því hafa tekið að sér þá framkvæmd í staðinn og gæti hún því verið elsta steinhús hér á landi í einkaeign, eins og fram hefur komið. Það eitt eykur verðgildi minjanna að Stóru-Vogum til muna.
Og þá var bara að fara á vettvang. Þegar málið var borið undir Viktor Guðmundsson, sendifulltrúa FERLIRs í Vogum, brá hann þegar upp heimildum um húsið, skráðar af afa hans, Guðmundi Björgvini Jónssyni (Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi). Hjá honum kemur fram Sverrir Runólfsson hafi reist steinhús fyrir Jón. M. Waage í Stóru-Vogum árið 1871. Húsið hafi verið hlaðið úr grjóti með íverurisi. Árið 1912 er síðan byggt nýtt timburhús á staðnum og er steinhúsið notaður sem grunnur þess.
Við skoðun á leifum bæjarins að Stóru-Vogum mátti glögglega sjá handbragð Sverris á hleðslunum. Greinilega mátti sjá hleðslur útveggja steinhússins sem og stéttar og nálægar stallhleðslur. Þegar timburhúsið, sem nú er horfið, var byggt ofan á steinhúsið og það þá notað sem kjallari þessi, hefur verið steypt bæði innan og utan á hleðslurnar og tröppur steyptar upp í timburhúsið við suðvesturhornið, auk þess sem milliveggur hefur verið steyptur í kjallarann. Ef grannt er skoðað má sjá  á einum stað steinhlaðinn boga á austurvegg kjallarans (steinhússins), sem var eitt af einkennum Sverris. Þrátt fyrir að þetta elsta steinhús í einkaeigu á Íslandi hafi síðar verið notað sem kjallari timburhúss má en glögglega sjá handbragð byggingarmeistarans, bæði á veggjum og aðliggjandi hleðslum.

Stóru-Vogar

Steinhúsið í Stóru-Vogum er líklega eina verk Sverris fyrsta steinsmiðs á Íslandi sem enn stendur. Hér koma smáupplýsigar fengna úr skýrslu sem Egill Hallgrímsson í Minni-Vogum og annar maður gerðu um bygginguna árið 1872, en þá var húsið ekki að fullu byggt:
“Kjallari – bogagluggi á hvorri hlið.
Stofuhús – Tilhögun húsa á gólfi. 2 afþiljuð hús, jafnlöng til begja enda hússins, með 2 gluggafögum til hvors gafls og sitt fag hvorumegin við suðurdyr á hliðinni og sinn glugginn hvorumegin við norðurdyr og gluggahol eru öll bogahlaðin. Gangr er eptir miðju 2 1/2 al. Bogagluggi yfir dyrum. Í vesturenda er veðr. afdeiling, stofuhús, svefnkames og búr. Þessi verelsi og dyr eru með 4 vængjahurðum plægðum og á að verða með 7 fyllingahurðum húsið niðri (sumar gjörðar).
Á lopti 2 afþiljuð hús jafnstór. Sitt gluggafag á hverjum gafli.
Þak hellulagt. Einn orn á lopti og 2 fyllingahúrðir.
ÍBogahleðsla þakið fóru 4000 skífur.
Hæð kjallara 2 og 1/2 al., stofuhús vegghæð undir lopt 3 al. – 15 þml. og gaflhæð 4 og 1/2 al.”
Skýrslunni fylgir einnig kostnaður við bygginguna.
Húsið hefur verið sagt fyrsta steinhúsið í bændaeigu á landinu, byggt af fyrsta íslenska steinsmiðnum. Þá hefur útlit hússins með alla þessa bogadregnu glugga verið glæsilegt.
Það mætti því að ósekju geta þessum minjum meira vægi en gert hefur verið, t.d. með merkingum, hreinsun með hleðslum o.fl. er gætu gert þær ásjálegri en nú er.
Íslensk byggingarlist er um margt sérstæð. Hún er samofin baráttu þjóðarinnar við náttúruöflin, aðlögun að erfiðum aðstæðum og skorti á byggingarefnum framan af öldum. Erlendra áhrifa fer að gæta hér að ráði um miðja 18. öld með byggingu timburhúsa og steinhúsa. Síðan þá hafa erlend áhrif verið mikil hér á byggingar-list en jafnvægis verið leitað með aðlögun hinna erlendu áhrifa að íslenskum aðstæðum.
Búið var í íbúðarhúsinu að Stóru-Vogum til 1940. Það var rifið 1964.

Heimildir m.a.:
-Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970 – Guðmundur L. Hafsteinsson, arkitekt FAÍ.
-Viktor Guðmundsson, Vogum.
-Guðmundur Björgvin Jónsson f. 1913: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandahreppi.
-Eyjólfur Guðmundsson.

Elsta steinhúsið