Vogsósasel – Hlíðarborg – Hlíðarsel – Hlíðargata – Hlíð
Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.
Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.
Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.
Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“
Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.
Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.