Selvogur

Minja- og örnefnaskilti var afhjúpað við Strandarkirkju í blíðskaparveðri í dag að viðstöddum sóknarbörnum og fróðleiksfúsum ferðamönnum.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Um var að ræða skilti þar er gefur að líta bæjarnöfn, örnefni og minjar í Selvogi. Kortið var gert með dyggri aðstoð heimamanna, þeirra Þórðar Sveinssonar, Þórarins Snorrasonar og Kristófers Bjarnasonar heitins og endurspeglar sögu þessa fjölmenna og merka útvegsbændasamfélags í gegnum aldirnar. Öll vinna var endurgjaldslaus, en Sveitarfélagið Ölfus greiddi fyrir prentun uppdráttarins og Biskupsstofa kostaði gerð skiltisins.

Selvogur - skilti-III

Strandarkirkja og skiltið góða – Askur, eins árs, virðist ánægður með árangurinn.

Á myndinni hér á ofan, sem tekin var við vígsluna, má sjá (frá vinstri) Ómar Smára Ármannsson, teiknara og utanumhaldsmann, Ask Emil Jónsson, sérlegan aðstoðarmann, Þórð Sveinsson frá Bjargi í Selvogi, Þórarinn Snorrason bónda á Vogsósum í Selvogi, Jóhann Davíðsson FERLIRsfélaga og sérlegan aðstoðarmann og Jón Ragnarsson, settan prest í Strandarkirkju, fulltrúa sóknarnefndar Selvogs og Biskupsstofu. Á myndina vantar Ólaf Örn Ólafsson, bæjarstjóra Sveitarfélagsins Ölfuss, sem veitti verkefninu ómetanlegt brautargengi. Þegar myndin var tekin var hann upptekinn í viðræðum við bæjarbúa og aðkomandi gesti.
Skiltastandurinn var hannaður og smíðaður hjá Martak h/f í Grindavík og skiltaplatan prentuð á plasthjúpaða álplötu hjá Stapaprent h/f í Reykjanesbæ. Það var síðan afhjúpað kl. 14:00 á laugardeginum, sem fyrr sagði. Í kjölfarið var boðið upp á leiðsögn um Selvoginn undir handleiðslu Þórarins Snorrasonar og Jóhanns Davíðssonar. Tilgangurinn með gerð uppdráttarins var að festa á blað tilvist og staðsetningar örnefna á þessum merkilega, en gleymda, útvegsbæ á meðan enn voru til menn er mundu hvorutveggja – komandi kynslóðum til ánægju og fróðleiks.
Frábært veður.

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).