Kaldársel – Sigríður Jónsdóttir; álfasaga
Eftirfarandi er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII„, Reykjavík 1957, safnað hefur Guðni Jónsson“
„Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Er það nokkur nær Hafnarfirði en Helgafell, en þó mun vera þangað fullur stundargangur, jafnvel þótt hart sé farið. Nú er að sumarlagi unnt að komast í bíl mest af leiðinni. Fyrir nokkrum áratugum var búið í Kaldárseli, ei eigi að staðaldri, heldur 2-3 ár í senn, því fremur hefir það verið lítil og léleg jörð. Túnið var lítið og hefir verið fátt nautgripa, en fjárbeit hefir sennilega verið þar góð.
Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:
Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Bjuggu þar foreldrar mínir, Jón Guðmundsson og Vilborg Jónsdóttir. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga. Áttu þau hjón eina kú og nokkrar kindur. Stóð kýrin geld frá því um nýár og þar til vika var af góu, þá bar kýrin.
Þegar hún er um það bil fullgrædd, þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: „Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við“. Þá segi ég: „Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann“.
Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Lét húsfreyja jafnan mjólk í askinn á hverju kvöldi, og var hann ætíð horfinn næsta dag. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: „Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína“.
Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið. Húsfreyja virtist leggja lítið upp úr þessum draum og vildi láta sem minnst á þessu bera. Ég sagði ýmsum drauminn, en húsfreyja var þá vön að þagga niður í mér og sagði: „Vertu ekki að þessu, Sigga. Þetta er eintóm vitleysa“.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Slær nú mamma upp á glensi við Sigríði og segir: „Nú held ég, að glaðni yfir þér, þegar þú fer að taka upp úr rúminu þínu. Það verður líklega eitthvað fémætt, sem þú finnur“. En húsfreyja vildi eigi láta á það minnast með einu orði.
Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: „Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera“. Mamma svarar þá: „Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor“. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.
Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.“
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta og músagangs.