Surtla – Herdísarvík

Surtla

Á Tilraunastöðinni á Keldum hangir allmerkilegur kindahaus upp á vegg. Þessi dökkbrúni tvíhorna haus tengist að mörgu leyti Herdísarvík. Augun kveða skýrt á um viðhorf skepnunnar til þeirra atburða er hún upplifði á síðustu mínútum ævinnar. Þau segja meira en fjölmörg orð um hana Surtlu. En hérna koma þó fáein þeirra.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Vegna mæðiveikinnar 1951-52 var ákveðið að Suðurland yrði fjárlaust eitt ár til að koma í veg fyrir smit við fjárskiptin. Hver kind varð því að nást af fjalli. Á Reykjanesskaga var hins vegar svört ær, Surtla, kennd við Herdísarvík. Neitaði hún með öllu að láta góma sig. Lamb hennar náðist fljótlega en eftir fjölmargar ferðir til að ná Surtlu í hús var hún enn á fjalli. Var þá sett fé til höfuðs Surtlu. Hópur manna leitaði og elti Herdísarvíkur-Surtlu laugardaginn 31. ágúst 1952. Hlupu þeir fram og aftur um Herdísarvíkurhraun í ævintýralegum eltingaleik við Surtlu á sjöttu klukkustund, og leikurinn hefði getað staðið lengur. Jón Kristgeirsson hefur lýst síðustu augnablikum Herdísarvíkur-Surtlu í Lesbók Morgunblaðsins:

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

„Þetta var væn kind og falleg. Andlitið mikið og frítt og sérstaklega gáfulegt.
Þegar hér var komið sögu, myndaðist allt í einu nýtt og óvænt viðhorf í málinu. Þá bar að fjóra menn, vopnaða byssum, neðan frá undirlendinu, þrjá úr Reykjavík og einn úr Sandgerði. Svall þeim veiðibræði mjög í huga, er þeir sáu ána. Einn var svo óðfús að skjóta, að hann gáði þess ekki, að þegar hann miðaði á ána, þá hafði hann Hákon líka í sigti.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Hallgrímur benti honum á þetta og bað hann blessaðan að skjóta ekki bróður sinn. Lét þá skyttan byssuna falla. Hákon ávarpaði aðkomumenn og bað þess að ærin væri ekki skotin. En orð hans báru sama árangur og orð Snorra forðum, er hann sagði í Reykholti: „Eigi skal höggva.“ Skotin gullu við hvert af öðru. Lokst tókst Sigurgeiri Stefánssyni að fella hana í þriðja skoti. Var það, sem betur fór, eina skotið, sem hæfði.

Herdísarvík

Herdísarvík – loftmynd.

Alveg eins og Snorri, mest skáld Íslands um langan aldur, féll fyrir öxinni, þannig lá nú svarta sauðkindin, sem frægust hefur orðið allra íslenzkra sauðkinda, fallin fyrir kúlunni. Er það síðasti fulltrúi þess kynstofns á Suðvesturlandi, sem um aldaraðir var meginbjargvættur fólksins, og veitti því fæði, klæði, skæði, akur, fénað og öll gæði. Galt hún sín gjöld á sama hátt og ættingjar hennar og félagar gjörðu. Lét líf sitt til meintrar velfarnaðar mannkindinni.
Ég harma það, að skapadægur hennar urðu þessa stund og mér þykir miður, að ég skyldi verða þátttakandi í þessum örlögum hennar, enda þótt það hafi orðið án vilja míns.
Við Hákon lögðum nú af stað til hraunsins að leita fata okkar. Reyndist það torsótt, löng leið og seinfarin, þegar allur spenningur var horfinn. Myrkur datt nú óðum á. — Hraunið tók á sig allskonar undramyndir, sem við könnuðumst ekki við.“
Surtla var veginn á Brúnunum austan við Lyngskjöld.

Surtla

Surtla.

Eftir að fyrsta fréttin um Surtlu, „Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag“, birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 2. sept. varð hún tilefni til nokkurrar umfjöllunar. Þann 6. sept. skrifaði Kristín Sigfúsdóttir frá Syðri-Völlum um „Surtlu frá Herdísarvík“ og Sigurgeir Stefánsson endurtekur fyrri skrif Jóns Kristgeirssonar, kennara, í Morgunblaðinu 11. sept. og vitnar þá m.a. í frásagnir í útvarpi og skrif Jóns í Tímann um síðasta dag Surtlu. Þann 3. sept. hafði Ólafur Þorvaldsson skrifað í Morgunblaðið, bls. 6, þar sem eftirfarandi fyrirsögn var: „Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Eftirmæli Herdísarvíkur-Sturlu“.

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkurfjall.

Í skrifum sínum 3. sept. segir Ólafur Sturlu hafa verið venjulega á, sem enginn hafði tekið eftir fyrr en hún varð sá einstæðingur er eftirsóttur varð – með næga ofsóknarmenn, sem gjarnan hefðu mátt vera færri. Ólafur hafði furðar sig á öllum þeim sögum, sem gengið höfðu um Sturlu frá því hún varð eftirlegukind á Reykjanesskaganum sem og eldtingarleik þeim er fóthvötustu smalar þar um kring höfðu átt við þessa undrakind. Og það var ekki fyrr en fé var sett til höfuðs henni að hún hún var felld samdægurs. Surtla hafi orðið svo dýr að fáar kindur hafi dýrari orðið í landinu – jafnvel óþarflega dýr. Og eitthvað hafi ferðalögin í kringum Surtlu kostað. „Já, það var orðið dýrt að smala í Herdísarvík“. Og nú er „hinn þúsund ára gamli fjárstofn á Reykjanesskagagnum fallinn til síðustu kindar“.

Mosaskarð

Í Mosaskarði á Herdísarvíkurfjalli.

Í fréttinni í MBL 3. sept., bls. 8, segir frá falli svörtu ærinnar á Reykjanesskaga eftir að til höfuðs henni höfðu verið lagðar tvö þúsund krónur: „Einhver harðgerasta og fótfráasta saukind, sem almenningur þessa lands hefur heyrt getið um var felld s.l. laugardag. Um eins árs skeið hefur Surtla, eins og hún var nefnd, verið eina sauðkindin á öllum Reykjanesskaga og hafði hún gert yfirmönnum fjárskiptanna svo heitt í hamsi, að lagðar höfðu verið 2000 krónur til höfuðs henni, lifandi eða dauðri…
Eftir að fjárhæðin hafði verið lögð til höfuðs Surtlu, fjölgaði þeim, er að henni leituðu. Eftir hádegi s.l. laugardag fóru m.a. fjórir menn, bræðurnir Hákon, Hallgrímur og Jón Kristgeirssynir, sem allir eru þaulvanir fjármenn, ásamt Ólafi Ólafssyni brunaverði og hugðust þeir reyna að ná Surtlu á lífi“. Síðan er frásögn þeirra félaga rakin líkt og að framan greinir. Surtla hljóp að lokum um snarbrattar Brúnirnar og var að kasta mæðinni þegar „Í kíki okkar sáum við á Surtlu, hélt Kristinn áfram, inni á milli kletta. Við Sigurgeir fórum þá upp á klettana. Ég var að vestanverðu við Surtlu, Sigurgeir að austanverðu. Er við höfðum komið okkur fyrir skaut Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Hún tók á rás vestur eftir, sneri við austur á bóginn og lenti í fang Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti – Þannig endaði æfi þessarar harðgerðu svörtu saukindar. Hún var í þremur reifum“.

Herdísarvík

Mynd af Surtu greypt í Herdísarvíkurfjall.

Um „Surtlumálið“ sagði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík m.a. í viðtali við Ferlir (sjá Lýsingar; Stakkavík – með Eggerti Kristmundssyni), en hann var einn þeirra er ólst upp með henni á svæðinu: “Það var nýðingsverk að fella Surtlu. Það var ekkert að henni eins og sést hvernig hún komst ítrekað undan. Ég elti hana, ásamt fleirum, frá Seljabótarnefi og upp fyrir bæinn í Herdísarvík. Lambið, sem var með henni, sprakk á hlaupunum og við náðum því, en Surtla slapp. Surtla var tvílembingur og ég átti hitt lambið”.

Horfa þarf á framangreint með augum þess „mannlega“; veiðimanninum er bráðin eftirsóknarverð – og er þá jafnan ekki spurt um tilgang.

Heimildir m.a.:
-MBl. 3. sept. bls. 6 – Þúsund ára gamall fjárstofn fallinn til síðustu kindar – Ólafur Þorvaldsson.
-MBl. 3. sept. 1952, bls. 8 – Svarta ærin á Reykjanesskaga var unnin s.l. laugardag – frétt.
-Mbl. 6. sept. 1952 – Surtla frá Herdísarvík – Kristín Sigfúsdóttir.
-Mbl. 11. sept. 1952 – Herdísarvíkur-Surtla – Sigurgeir Stefánsson.
-Björn Hróarsson – „tilkynning“.

Surtla

Surtla á Keldum.