Bessastaðir – Skansinn
Komið við í Bessastaðarstofu og húsakynnin skoðuð hátt og lágt, bæði minjarnar í kjallara svo og sögufrægir munir hið efra. Staðarhaldari fræddi viðstadda um fornleifauppgröftinn á Bessastöðum, er kallaði á sínum tíma á allskyns vangaveltur um álitamál, sýndi afraksturinn undir stofunni og sagði frá húsdraugnum.
Í Álftanessögu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson er m.a. fjallað um Skansinn. Þar segir: „Skansinn var hjáleiga frá Bessastöðum og þar var búið til ársins 1927. Bæjarhúsin stóðu við Seiluna, vík sem gengur inn í Álftanes norðanvert. Þar var einnig virki fyrr á tímum.
Þekkt er kvæðið um Óla Skans, Ólaf Eyjólfsson, sem bjó í Skansinum seint á nítjándu öld. Erlendur Björnsson lýsir honum í endurminningum sínum, Sjósókn. Óli var vinnumaður hjá Erlendi á Breiðabólstöðum og móður hans og „liðlegur“ sjómaður. Óli Skans var meðalmaður, grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt en allhátt. Hann var með ljósleitt hár, slétt og sítt, skipti í miðju og var alrakaður. Hakan var óvenju breið og hann var lotinn í herðum.
Hann var óvenjulegur þrifnaðarmaður, kátur og fjörugur en enginn söngmaður. Um hann er þó sungið enn í dag, en yfirleitt farið rangt með vísuna. Rétt mun hún vera svona:
Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.
Síðasti ábúandinn í Skansinum var Gísli Jónsson listmálari. Skansinn var þá í eigu Einars Benediktssonar skálds. Gísli var blásnauður en mjög listfengur og eftir hann liggur fjöldi merkra málverka. Árið 1890 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni ASÍ. Á meðan Gísli bjí í Skansinum valdi hann oft myndefni af Álftanesi. Ljósmóðir sem sat yfir fæðingu átta barna Gísla og síðari konu hans, Bjargar Böðvarsdóttur, hefur sagt frá þvía ð þau Gísli og Björg hafi haft fjöruþang til upphitunar og búið við bjargneyð og einangrun. En málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin, sem hér fylgir af Skansinum, sem Gísli gaf Björgu konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.“
Sveinn fræddi viðstadda um stífluna við Bessastaðatjörn og hina hugvitsamlegu einstreymisloku, sem þar var sett til að jafna og halda vatnsyfirborði tjarnarinnar sem jöfnustu. Þá voru skoðaðar stríðsminjar á norðanverðu Nesinu, gamla steinhleðsluhúsið á Breiðabólstað o. fl.
Annars er ganga með strönd Álftanessins bæði ákjósanleg og áhugaverð. Fuglalífið er mikið og fjölbreytt, auk þess sem fjöruborðið býður upp á hinar ýmsustu kræsingar.
Veður var ágætt – Gangan tók 1 kls og 11 mín.
Heimild:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson, Álftanessaga, kápa – Þjóðsaga 1996
-Sveinn Erlendsson