Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.