“Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til. Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið. Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er ennfremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga.
Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helzt jafnt gamalt Hafnarfjarðarhraun eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs. Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hrauni rann síðan.
Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá”. Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því. Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans.
Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynzt heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið. Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur.
Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og rmmdi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls. Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af. Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komizt ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komizt til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.
Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð meðfram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun. Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þenna hraunjaðár. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni. Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði.”
Heimild:
-Þjóðviljinn, 24. desember 1954, Hraunin í kringum Hafnarfjörð, Guðmundur Kjartansson, bls. 10-12.